Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2014 Fiskeldi Ísafjarðardjúp

Árið 2015, þriðjudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómsstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014 um að aukið eldi regnbogasilungs í 4.000 tonna ársframleiðslu við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. mars 2014, er barst nefndinni 30. s.m., kærir Veiðifélag Langadalsárdeildar, Móholti 6, Ísafirði, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014 að aukið eldi Dýrfisks hf. í 4.000 tonna ársframleiðslu regnbogasilungs við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Með bréfi, dags. 5. apríl 2014, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Veiðifélag Laugardalsár sömu ákvörðun og með bréfi, dags. 11. apríl 2014, er barst nefndinni samdægurs, kæra útgerðirnar A.Ó.A. útgerð hf., Mýrarholt ehf. og Valþjófur ehf. einnig sömu ákvörðun. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða seinni kærumálin, sem eru nr. 27/2014 og 29/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Skilja verður kröfugerð kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að mat á umhverfisáhrifum fari fram. Auk þess fer Veiðifélag Laugardalsár fram á til vara að starfsleyfi vegna eldisins verði ekki veitt fyrr en að loknu tilteknu matsferli varðandi sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Þá fara útgerðirnar A.Ó.A. útgerð hf., Mýrarholt ehf. og Valþjófur ehf. fram á að úrskurðarnefndin taki afstöðu til þess hvort að fyrirhugað sjóeldi muni skerða lögvarin réttindi rækjusjómanna í Ísafjarðardjúpi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. maí 2014.

Málavextir: Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 20. desember 2013, tilkynnti Dýrfiskur hf. um þau áform sín að auka framleiðslu á regnbogasilungi við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi í 4.000 tonn á ári. Kom fram í tilkynningunni að fyrirtækið hefði þegar leyfi til framleiðslu á 2.000 tonnum af regnbogasilungi á ári í Dýrafirði og hyggðist auka framleiðslu þar í 4.000 tonn á ári. Lykilforsenda þess að tryggja umhverfisvænan og sjálfbæran rekstur væri að hvíla eldissvæðin og væri liður í því að hvíla Dýrafjörð á þriggja ára fresti. Væri því tilkynnt um fyrirhugaða stækkun á sjókvíaeldi á regnbogasilungi á greindum stað í Ísafjarðardjúpi. Þar hefði fyrirtækið fyrir starfs- og rekstrarleyfi fyrir 200 tonna eldisframleiðslu en fyrirhugað væri að koma fyrir 10 eldiskvíum á 360 ha svæði og slátra allt að 7.000 tonnum af regnbogasilungi á þriggja ára fresti. Hámarksframleiðsla á ársgrundvelli yrði 4.000 tonn.

Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar með bréfum, dags. 27. desember 2013. Umsagnir bárust frá nefndum stjórnvöldum í janúar og febrúar 2014. Frekari upplýsingar bárust frá framkvæmdaraðila með bréfi, dags. 12. febrúar s.á., og í tölvupósti 5. mars s.á. Var það álit Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar og Minjastofnunar Íslands að ekki væri þörf á því að framkvæmdin sætti mati á umhverfisáhrifum. Samgöngustofa tók ekki afstöðu til þess hvort framkvæmdin skyldi háð slíku mati, en Umhverfisstofnun taldi ekki líklegt að umrædd framleiðsluaukning myndi hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Hinn 6. mars 2014 tók Skipulagsstofnun þá ákvörðun, með vísan til gagna málsins, að fyrirhugað aukið eldi regnbogasilungs væri ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að Skipulagsstofnun hafi ákveðið að tilgreint fyrirhugað eldi á allt að 6.800 tonna af regnbogasilungi og 200 tonna af þorski í Ísafjarðardjúpi skuli háð mat á umhverfisáhrifum. Verði ekki séð að það eldi sem í þessu máli ræði hafi einhver minni umhverfisáhrif og ætti það því einnig að vera háð mati á umhverfisáhrifum. Regnbogasilungur, sem sleppi úr sjóeldiskvíum og gangi upp í ferskvatnsár, þar sem fyrir séu stofnar laxfiska, geti valdið slíkum stofnum verulegum skaða. Í náttúrulegu umhverfi næri regnbogasilungur sig m.a. á seiðum annarra fiska og jafnvel hrognum þeirra. Eigi seiði laxfiska oft erfitt uppdráttar vegna náttúrulegra aðstæðna í Ísafjarðardjúpi og geti flökkufiskar því valdið óafturkræfum skaða. Eyðileggi það einnig orðspor laxveiðiáa ef þar veiðist eldisfiskur.

Staðsetning fyrirhugaðra eldiskvía fram af Sandeyri við Snæfellsströnd og ríkjandi straumar í Ísafjarðardjúpi séu slíkir að göngufiskur þurfi að fara um þetta kvíeldissvæði sem mengað sé af úrgangi, e.t.v. af smitsjúkdómum, s.s. blóðsótt, laxalús og af hugsanlegri notkun lyfja og eiturefna. Séu laxaseiði í meiri hættu en fullvaxta fiskar. Þá sé um sjónmengun að ræða sem muni koma niður á ferðaþjónustu á svæðinu. Bent sé að að veðurfarslegar aðstæður séu slíkar í Ísafjarðardjúpi að þar geti orðið ofsaveður, einkum þó að vetri til. Í slíku veðri geti ísing hlaðist svo á eldiskvíar, að þeim verði ekki bjargað og hætt við að eldisfiskur sem í þeim sé sleppi út eða drepist. Svo sé komið fyrir laxveiðiám á Vestfjörðum að aðeins árnar sem renni í Ísafjarðardjúp eigi raunverulegan möguleika á að vera með ómengaðan náttúrulegan stofn. Því sé þörf á að leyfa náttúrunni að njóta vafans og heimila ekki sjókvíeldi laxfiska í Ísafjarðardjúpi eða Jökulfjörðum.

Aukinn lífmassi í Ísfjarðardjúpi muni auka líkur á að sjúkdómar valdi tjóni á svæðinu. Fyrirhugað fiskeldi muni hafa neikvæð áhrif á botngerð og lífríki á botni sem geti hamlað eða eyðilagt með öllu vöxt og viðgang rækju í Ísafjarðadjúpi. Mörgum spurningum sé ósvarað um áhrif sjókvíaeldis á rækjustofn þar. Nauðsynlegt sé að þeim sé svarað áður en umfangsmikið sjókvíaeldi hefjist. Slíkar rannsóknir hafi ekki farið fram og því sé varhugavert að hefja framkvæmd án þess að auka og efla þekkingargrunn með rannsóknum. Togsvæði rækjuveiðimanna muni skerðast með tilkomu kvíanna, en slíkt sé skerðing á atvinnuréttindum rækjusjómanna við Ísafjarðadjúp, sem falli undir eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun bendir á að þeir einir eigi kærurétt sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Undantekning sé þó gerð í sambandi við umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga, sbr. 2. máls. 3. mgr. sömu greinar. Óljóst sé af gögnum málsins hvort einn kærenda uppfylli skilyrði kæruaðildar m.t.t. fjölda félagsmanna.

Fyrirhugað sjóeldiskvíeldi á 6.800 tonnum af regnbogasilungi og 200 tonnum af þorski í Ísafjarðardjúpi, sem stofnunin hafi talið háð mati á umhverfisáhrifum, sé ekki sambærilegt kærumáli kæranda. Hið fyrrnefnda hafi snúist um blandað eldi þorsks, lax og regnbogasilungs þar sem neikvæðustu umhverfisáhrifin miðuðu við lax en síðarnefnda málið snúist eingöngu um eldi regnbogasilungs. Þá séu staðsetningar allt aðrar. Vegna ólíkrar framleiðslu og staðsetningar séu málin ekki samanburðarhæf. Hafi málsmeðferð stofnunarinnar því ekki falið í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar nýjar tegundir berist inn í vistkerfi þar sem þær hafi ekki verið áður, t.d. í ferskvatnsár, geti slíkt haft í för með sér neikvæð áhrif. Hins vegar þurfi að horfa til þess hve líklegt sé að mögulegur sleppifiskur úr kvíum fyrirhugaðs eldis endi í þeim ám sem vísað sé til. Eldissvæðið sé í ríflega 15 km fjarlægð frá Laugardalsá og rúmlega 30 km frá Langadalsá. Sé því uppfyllt það ákvæði reglugerðar nr. 105/2000 sem kveði á um að við leyfisveitingar skuli miða við að sjókvíastöðvar séu ekki nær en 5 km þeim laxveiðiám sem séu með yfir 100 laxa meðalveiði á tíu ára tímabili og miða skuli við 15 km fjarlægð ef um sé að ræða ár með yfir 500 laxa meðalveiði. Í þremur stærstu laxveiðiám í Ísafjarðadjúpi hafi meðalveiði á laxi á tíu ára tímabili 2001-2010 verið 360 laxar í Laugardalsá, 181 í Langadalsá og 114 í Hvannadalsá. Minni veiði sé í öðrum ám á svæðinu. Næsta á við eldissvæðið sé Dalsá í Unaðsdal í tæplega 11 km fjarlægð, en þar sé einungis lítilsháttar bleikjuveiði.

Í einni kæru komi fram að ríkjandi straumur í Ísafjarðardjúpi sé innstraumur að vestanverðu en útstraumur að austanverðu. Mótmælt sé staðhæfingu í sömu kæru þess efnis að þar sem algengt sé að lax veiðist í silungsnet inn með Snæfjallaströnd megi ætla að göngufiskur í ár innst í Ísafjarðardjúpi komi inn með Snæfjallaströnd á móti ríkjandi strandstraumi. Skipulagsstofnun vísi til norskrar rannsóknar sem sýni að regnbogasilungur haldi sig að stórum hluta í nágrenni sleppistaðar og þá í yfirborðinu. Þrátt fyrir að ekki hafi farið fram sérstakar rannsóknir á göngu laxfiska um Ísafjarðardjúp liggi beinast við að mögulegur strokufiskur úr fyrirhuguðum kvíum í austanverðu djúpinu haldi sig annað hvort að mestu í nágrenni við eldisstæðið, og því auðvelt að endurheimta hann í net, eða fylgi útstraum og syndi á haf út. Erfðablanda regnbogasilungs við villta stofna sé jafnframt hverfandi eins og m.a. komi fram í umsögn Fiskistofu. Skipulagsstofnun ítreki það sem fram komi í ákvörðun sinni að meginstraumur liggi út fjörðinn frá eldissvæðinu, sem skipti miklu máli varðandi líkur á því að mögulegir sjúkdómar sem upp kæmu í eldinu bærust í ár innar í Ísafjarðardjúpi. Með vísan til þess sem áður greini, sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að göngufiskur syndi á móti straumi og fari þannig um fyrirhugað eldissvæði á leið sinni inn fjörðinn. Þá hyggist framkvæmdaraðili grípa til aðgerða til að draga úr hættu á að sjúkdómar valdi áföllum eða berist út í umhverfið.

Í tilkynningu framkvæmdaraðila til stofnunarinnar sé vísað til greiningar á öldufari í Ísafjarðardjúpi, m.t.t. fiskeldis frá 2013. Þar komi fram að eldissvæðið við Sandeyri sé varið fyrir 2 m öldu í öllum vindáttum. Þá komi fram í tilkynningunni að það sé afar sjaldgæft að hafís berist inn í Ísafjarðardjúp. Vitað sé um tvö tilfelli og sé gerð grein fyrir þeim í tilkynningunni. Stofnunin viti að aldrei sé hægt að koma í veg fyrir að fiskur sleppi úr kvíum, t.d. í kjölfar ofsaveðurs. Hins vegar beri að taka mið af því sem að framan segi um fjarlægð fyrirhugaðs eldissvæðis frá ósum nærliggjandi áa, hegðun og fari sleppifiska og að ekki sé talið að regnbogasilungur geti tímgast í íslenskum ám. Ákvörðun um að framkvæmd sé matsskyld sé íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila. Af því leiði að stofnunin geti ekki tekið slíka ákvörðun nema fyrir liggi traustar upplýsingar um möguleika á því að regnbogasilungur geti valdið laxfiskastofnum í ferskvatnsám verulegum og óafturkræfum skaða.

Gögn málsins gefi ekki til kynna að aukinn lífmassi muni auka líkur á að sjúkdómar valdi tjóni á svæðinu. Í því sambandi sé bent á umsögn Fiskistofu í málinu. Þar komi fram að þar sem ætlunin sé að hámarksframleiðsla lífmassa verði 4.000 tonn á ári á einni staðsetningu muni áhætta á smitsjúkdómum og sníkjudýratengdum vandmálum verða nokkur en að Fiskistofa taki þó fram að með réttu og fyrirbyggjandi verklagi megi draga verulega úr slíkri áhættu. Þá hafi Matvælastofnun í umsögn sinni ekki talið þörf á mati á umhverfisáhrifum um þá þætti sem snúi að sjúkdómum. Skipulagsstofnun bendi jafnframt á að fjarlægð eldissvæðisins frá næstu veiðiám uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 105/2000 og að meginstraumur liggi út fjörðinn frá eldissvæðinu.

Vegna athugasemda um neikvæð áhrif fyrirhugaðs fiskeldi á botngerð og lífríki á botni, sem hamlað geti vexti og viðgangi rækju í Ísafjarðardjúpi, sé bent á umsögn Fiskistofu. Þar komi eftirfarandi fram: „Einungis er um eina staðsetningu að ræða sem er töluvert utarlega, norðanmegin í djúpinu, og ekki er staðsett á rækjuveiðislóð samkvæmt [tilkynningu], …“ Fullyrðingum um annað sé hafnað af Skipulagsstofnun sem og þeim fullyrðingum að fyrirhugað fiskeldi muni skerða togsvæði rækjuveiða og skerða þar með atvinnuréttindi rækjusjómanna við Ísafjarðardjúp. 

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að miklar framfarir hafi orðið í búnaði og vinnuaðferðum í sjókvíaeldi, sem hafi gert það að verkum að verulega hafi dregið úr því að eldisfiskur sleppi. Sé unnið eftir norskum staðli (NS 9415) sem skilgreini lágmarkskröfur á búnað miðað við þær aðstæður sem séu á sjókvíaeldisstað. Staðallinn tilgreini einnig verklag, viðhald og eftirlit. Opinber gögn frá Noregi sýni að á síðustu 6 árum (2008-2013) sé fjöldi strokulaxa að meðaltali 0,21 stk. fyrir hvert framleitt tonn af eldislaxi, sem sé um fimmfalt minna en meðaltal sex ára þar á undan (2002-2007). Unnið sé að því að bæta þennan árangur enn frekar og stefnt sé fullum fetum að „núllsleppingu“  laxfiska í sjókvíaeldi. Framkvæmdaraðili muni fylgja þessari þróun eftir og haga sínum fjárfestingum í búnaði og þróun eldisaðferða í samræmi við hana. Rannsóknir á atferli regnbogasilungs sem hafi verið sleppt úr sjókvíeldi sýni allar að silungurinn haldi sig í grennd við sjókvíaeldið. Þetta hegðunarmynstur geri það að verkum að endurheimtur með netveiði sé hátt, sem dragi enn frekar úr neikvæðum áhrifum eldissilungs.

Áhrif silungseldis á náttúrulega stofna séu ekki mælanleg. Vísað sé til umsagnar Veiðimálastofnunar frá árinu 2009 varðandi áhyggjur kærenda um mögulega erfðablöndun milli regnbogasilungs og villtra fiskistofna. Þar komi fram að regnbogasilungur sé ekki náttúrulegur á Íslandi. Hann hafi verið í eldi hér sem og víða um lönd í áratugi en sé uppruninn frá vesturströnd N-Ameríku og hrygni að vori. Regnbogasilungur hafi ekki náð að fjölga sér á Íslandi. Regnbogasilungur valdi því ekki erfðablönduhættu, né hafi varanleg áhrif á íslenskar ár og vötn.

Hvað varði mengun og laxalús sé vert að benda á að eldissvæðið sem sótt sé um sé 0,9% af flatamáli Ísafjarðardjúps og sjókvíarnar sjálfar séu á svæði sem sé aðeins 0,019% af flatarmálinu. Áhrifasvæði m.t.t. mengunar sé á botninum, beint undir kvíunum og dreifist mjög lítið. Vegna þess hve áhrifasvæðið sé lítið og lífræn mengun staðbundin megi draga þá ályktun að starfsemin hafi hverfandi áhrif á fiskgengd í Ísafjarðardjúpi. Þrátt fyrir nálægð villts fisks og eldisfisks séu engar beinar sannanir fyrir því að villtur fiskur beri smitsjúkdóma eldisfisks á milli. Engar óyggjandi sannanir séu fyrir því að fiskeldi hafi neikvæð áhrif á villta fiskistofna. Hitastig í Ísafjarðardjúpi og á væntanlegu eldissvæði fari á vetramánuðum undir 2°C sem dragi verulega úr sjúkdómsáhættu. Laxalús finnist í náttúrulegu umhverfi á Íslandi en enn sem komið sé hafi hún ekki valdið vandamálum í fiskeldi. Framkvæmdaraðili sé í fararbroddi með því að byggja upp eldi byggt á kynslóðaskiptum. Svæðin verði hvíld milli kynslóða í langan tíma sem nægi til að slíta í sundur lífsferil laxalúsarinnar. Framkvæmdaraðili stundi umhverfisvænt eldi sem sé vottað af þriðja aðila. Í því felist að þéttleiki í eldiskvíunum sé lítill, sem dragi verulega úr sjúkdómshættu. Auk þess séu ekki notuð lyf í eldinu. Í tilkynningu sinni til Skipulagsstofnunar hafi framkvæmdaraðili fjallað um veðurfarslegar aðstæður á svæðinu og greini þar frá niðurstöðum öldufarsrannsókna. Sá búnaður sem sé framleiddur í dag til sjóeldis standist slíkar aðstæður en framkvæmdaraðili byggi einnig á fimm ára reynslu sinni í sjókvíaeldi á Íslandi.

Ekki sé hægt að bera saman það sjókvíaeldi sem farið hafi í mat á umhverfisáhrifum við fyrirhugað sjókvíaeldi framkvæmdaraðila hér. Í fyrra tilvikinu hafi verið bæði um að ræða eldi lax og regnbogasilungs og hafi athugasemdir í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála verið tengdar laxeldinu. Auk þess hafi hið fyrra verið mun meira að umfangi hvað varði eldismagn og eldissvæði. Eldi framkvæmdaraðila sé aðeins á einu svæði og þar að auki aðeins með einn árgang í einu. Umhverfisáhrif þess séu því mun minni.

Ekki sé um að ræða neikvæð áhrif sjókvíeldisins á vöxt og viðgang rækju í Ísafjarðardjúpi.  Kaldsjávarrækja haldi sig við sjávarbotninn að degi til og sé alæta og nærist á burstaormum, skeldýrum, skrápdýrum og lífrænum niðurbrotsefnum. Á nóttunni færi rækjan sig nær yfirborðinu og nærist á ljósátu, krabbaflóm og þara. Það sé þekkt að mikið sé af rækju þar sem botnset sé ríkt af lífrænum efnum og rannsóknir hafi sýnt að rækja nærist á fóðurleifum og úrgangi frá fiskeldi sem teljist ákjósanleg næring fyrir rækju. Það megi því draga þá ályktun að það séu jákvæð samlegðaráhrif fiskeldis og rækju þannig að fiskeldi stuðli að auknum vexti og viðgangi rækjunnar og rækjan hjálpi til við niðurbrot næringarefna sem falli frá eldinu. Erlend gögn styðji þessa tilgátu. Hvað varði skert atvinnuréttindi rækjusjómanna vegna fyrirhugaðs sjókvíeldi framkvæmdaraðila þá skuli á það bent að eldissvæðið sé afar lítið í samanburði við stærð Ísafjarðardjúps, eins og lýst hafi verið. Þar að auki sé svæðið ekki á rækjutogslóðum og engin rækjuveiði hafi verið þar frá árinu 1999. 

———-

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda sem falla undir 2. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.   Í samræmi við þetta einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Tekur úrskurðarnefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrætt fyrirhugað fiskeldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Af sömu sökum tekur úrskurðarnefndin ekki afstöðu til fram kominna varakrafna.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Þó geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangur samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Varðandi aðild Veiðifélags Langadalsárdeildar hefur Skipulagsstofnun bent á að vafi leiki á um hvort uppfyllt séu skilyrði kæruaðildar að teknu tilliti til fjölda félagsmanna. Um veiðifélög gilda ákvæði VI. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði og er mönnum skylt að hafa með sér félagsskap um skipulag veiði í hverju fiskihverfi í því skyni að markmiðum laganna skv. 1. gr. verði náð, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, en þau markmið eru m.a. að kveða á um skynsamlega, hagkvæma og sjálfbæra nýtingu fiskstofna í ferskvatni og verndun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. eru félagsmenn veiðifélags allir þeir sem skráðir eru veiðiréttarhafar á félagssvæðinu. Langadalsá rennur í Ísafjarðardjúp og verður samkvæmt framangreindu við það að miða að félagið og félagsmenn eigi beina lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og kemur þá fjöldi félagsmanna ekki til skoðunar varðandi kæruaðild.
 
Framkvæmdaraðili tilkynnti Skipulagsstofnun um áform sín um 4.000 tonna sjókvíaeldi við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en því er haldið fram af hálfu kærenda að ekki megi láta hjá líða að gera slíkt mat. Er einkum deilt um áhrif fyrirhugaðs fiskeldis á lífríki sjávar og veiðiáa á svæðinu, og þá einkum á laxveiði og rækjuveiði.

Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna og eiga þau m.a. að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 2. viðauka við lögin eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum.  Er þar á meðal talið þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1 g., og á það við hér. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar sem tilgreind er í 2. viðauka ber Skipulagsstofnun að fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Hvorki heildstæð nýtingaráætlun né skipting fiskeldissvæða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er til fyrir Ísafjarðardjúp eða innri hluta þess þar sem fyrirhuguðum eldiskvíum er ætlaður staður. Hins vegar vegar bera gögn málsins með sér að LENKA viðtaksmat geri ráð fyrir að burðarþol Ísafjarðardjúps með innfjörðum sé allt að 43.000 tonn, en áætluð nýting muni verða 11.600 tonn séu allar fyrirhugaðar framkvæmdir taldar með. Ljóst er að auknum lífmassa fylgja auknar líkur á sjúkdómum en í umsögn Fiskistofu er þó áréttað að með réttu og fyrirbyggjandi verklagi megi draga verulega úr slíkri hættu. Þá skal á það bent að fjarlægðin á milli fyrirhugaðs eldissvæðis og næstu laxveiðiár uppfyllir skilyrði gr. 4.2 í reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og löndun laxastofna. Þá er einnig ljóst að ekki er hægt að útiloka að regnbogasilungur sleppi frá eldissvæðinu. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að umhverfisáhrif þess yrðu ekki mikil, enda á regnbogasilungur ekki náttúruleg heimkynni hér á landi og er talið að vegna lágs árhitastigs hér á landi og tímasetningar hrygningar geti hann ekki tímgast í náttúrunni nema í undantekningartilfellum. Loks skal tekið fram að fyrirhugað eldissvæði yrði staðsett á einu svæði utarlega í Ísafjarðardjúpi og samkvæmt gögnum málsins ekki á rækjuveiðislóð. Verður ekki annað séð af öllu framangreindu en að við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar hafi verið farið eftir viðmiðum í 3. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum og að niðurstaða hennar, þess efnis að fyrirhugað aukið fiskeldi sé ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð slíku mati, hafi verið réttmæt, en við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu m.a. fyrir stofnuninni umsagnir sérfróðra aðila, eins og nánar er í lýst í málavöxtum.

Kærendur byggja og á því að ekki hafi verið gætt jafnræðis við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar þegar litið sé til fordæmis stofnunarinnar frá 27. desember 2013 varðandi annað sjókvíaeldi  í Ísafjarðardjúpi sem talið hafi verið háð mati á umhverfisáhrifum. Þar var um að ræða blandað eldi þorsks, lax og/eða regnbogasilungs, alls 7.000 tonn á ári, og telur úrskurðarnefndin að þegar af þeirri ástæðu sé ljóst að atvik séu ekki með þeim hætti að þau teljist sambærileg. Fól ákvörðunin því ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 6. mars 2014 um að aukið eldi regnbogasilungs í 4.000 tonna ársframleiðslu við Snæfjallaströnd (Sandeyri) í Ísafjarðardjúpi skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Geir Oddsson