Árið 2019, föstudaginn 27. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 21/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 um að fresta afgreiðslu umsóknar um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. mars 2019, er barst nefndinni 20. s.m., kæra eigendur Fitja í Skorradalshreppi, þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 að fresta afgreiðslu umsóknar um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32. Er þess krafist að staðfest verði að framlögð gögn séu fullnægjandi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skorradalshreppi 9. maí 2019.
Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps 3. júlí 2018 var tekin fyrir umsókn kærenda um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32. Var málinu frestað þar sem að mati nefndarinnar lægi ekki fyrir fullnægjandi gögn, sbr. c-lið 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Fært var til bókar að kærendur þyrftu að leggja fram hnitsettan uppdrátt sem staðfestur hafi verið af skipulagsyfirvöldum. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., tilkynnti byggingarfulltrúi kærendum um afgreiðslu nefndarinnar.
Í kjölfarið hafði annar kærenda samband við Þjóðskrá og óskaði eftir leiðbeiningum um hvaða gögnum þyrfti að skila til sveitarfélags til að uppfylla skilyrði fyrrnefnds lagaákvæðis. Fékk kærandi meðal annars þær leiðbeiningar að skila þyrfti inn umsóknareyðublaði F-550 um skráningu nýrra landeigna í fasteignaskrá ásamt hnitsettum mæliblöðum með nýrri afmörkun landeigna. Í tölvupósti skipulagsfulltrúa frá 21. ágúst 2018 til kæranda kom fram „[s]taðfestur uppdráttur af skipulagsyfirvöldum er deiliskipulag umræddra lóða Fitjahlíðar 28 og 32.“ Uppdráttur sem fylgt hafi með umsókn uppfylli ekki kröfu um gerð deiliskipulagstillögu.
Hinn 20. febrúar 2019 sendi kærandi erindi til skipulags- og byggingarnefndar og óskaði eftir því að umsókn kærenda yrði tekin til afgreiðslu en með erindinu fylgdi umsóknareyðublað ásamt hnitsettum uppdráttum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. mars s.á. var erindi kærenda frestað að nýju þar sem hnitsettur uppdráttur sem staðfestur hafði verið af skipulagsyfirvöldum hafi ekki enn verið lagður fram. Var sú afgreiðsla nefndarinnar samþykkt á fundi hreppsnefndar sama dag.
Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að eftir að skipulags- og byggingarnefnd hafi frestað erindi þeirra hinn 3. júlí 2018 hafi þau leitað til Þjóðskrár. Þar hafi þau fengið greinargóð svör við fyrirspurn sinni um hvers konar staðfestingu skipulagsyfirvalda væri átt við í 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Hafi þeim verið tjáð að nóg væri að sveitarfélagið stimplaði mæliblað eða samþykkti með undirritun. Því hafi kærendur sent beiðni til skipulags- og byggingarnefndar Skorradalshrepps um afgreiðslu á umsókn sinni um að skipta Fitjahlíð 30 upp í tvær lóðir og sameina við Fitjahlíð 28 og 32. Kærendur hafi skilað inn umsókn ásamt hnitsettum uppdráttum en nefndin hafi ítrekað talið gögnin ófullnægjandi. Telja þau að byggingarfulltrúi eigi að taka umsókn þeirra fyrir og afhendi síðan Þjóðskrá „nauðsynleg gögn, sem yfirfer skráningu og færir upplýsingar í fasteignaskrá, að gefnu samþykki sýslumanns“, líkt og segi í leiðbeiningum um skráningu landeigna á vef Þjóðskrár.
Málsrök Skorradalshrepps: Af hálfu hreppsins er farið fram á frávísun málsins. Bent sé á að hin kærða ákvörðun sé ekki ákvörðun sem tekin sé samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, en ekkert sé fjallað um stofnun lóða, skráningu lóða eða breytingar á slíkri skráningu í lögunum. Umrædd ákvörðun sé þess efnis að hreppurinn hafi hafnað því að gera breytingar á umbeðinni skráningu lóða innan sveitarfélagsins á þeim grundvelli að framlögð gögn uppfylli ekki þær kröfur sem sveitarfélögum beri að gera til hnitsettra uppdrátta. Ákvörðunin sé tekin á grundvelli laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og eigi sem slík ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Þá sé hin kærða ákvörðun heldur ekki lokaákvörðun í málinu. Umsókn kærenda hafi verið frestað en ekki hafnað. Leiðbeiningar hafi verið veittar um hvað kærendur þurfi að gera til að fá umsóknina samþykkta og þar með hafi hreppurinn uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart kærendum skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga verði ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en mál hafi verið til lykta leitt.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur hafna frávísunarkröfu hreppsins. Skýrt komi fram í gögnum málsins að kæran byggist á skilningi byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa um að málið snúist um skipulagsmál. Með kröfu hreppsins um deiliskipulagsgerð sé umsókn kærenda tekin úr samhengi við lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og sett alfarið undir skipulagslög nr. 123/2010. Lokaákvörðun í málinu felist í því að gera kröfu um deiliskipulagsgerð. Sú krafa sé óréttmæt, íþyngjandi og líklega ólögmæt. Umsóknin og hnitsett mæliblöð uppfylli kröfur c-liðar 14. gr. laga nr. 6/2001 og 1. mgr. 48. gr. laga nr. 123/2010. Ef gerð sé krafa um deiliskipulag þá beri hreppnum að standa straum af kostnaði sem af því hlýst, sbr. 5. mgr. 18. gr. skipulagslaga, og bera ábyrgð á gerð og afgreiðslu þess, sbr. 1. mgr. 38. og 5. mgr. 37. gr. sömu laga.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hreppsnefndar Skorradalshrepps að fresta afgreiðslu umsóknar kærenda um að skipta Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við Fitjahlíð 28 og 32.
Samkvæmt 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en í lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna er ekki að finna kæruheimild til nefndarinnar. Umsókn kærenda var lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 en þar er kveðið á um það ferli þegar sótt er um stofnun fasteignar í fasteignaskrá. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal umsókn lögð fram hjá viðkomandi sveitarfélagi ásamt m.a. afmörkun fasteignar á hnitsettum uppdrætti sem staðfestur hefur verið af skipulagsyfirvöldum þegar um skiptingu eða samruna lands er að ræða, sbr. c-lið ákvæðisins. Hins vegar er fjallað um ákvarðanir um lóðir og lóðamörk í skipulagslögum, en slíkar ákvarðanir geta annað hvort verið teknar með deiliskipulagsgerð, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, eða með samþykki sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 48. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að umsókn kærenda hafi verið lögð fram á grundvelli 14. gr. laga nr. 6/2001 verður að líta svo á að efnislega hafi hún falið í sér beiðni um skiptingu lóða og breytingu á lóðamörkum. Með hliðsjón af fyrrnefndum lagaákvæðum bar hreppsnefndinni því að afgreiða erindi kærenda á grundvelli skipulagslaga.
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kærenda frestað og er því ljóst að sú ákvörðun fól ekki í sér lokaákvörðun sem kærð verður til úrskurðarnefndarinnar. Verður kröfu kærenda um að staðfest verði að fullnægjandi gögn hafi verið lögð fram með umsókn þeirra um breytingu lóða því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Af gögnum málsins verður ráðið að hreppsnefndin hafi litið svo á að ekki yrði orðið við beiðni kærenda um skiptingu lóðar og sameiningu við aðrar lóðir nema með gerð deiliskipulags en kærendur hafi ítrekað verið ósammála þeirri afstöðu hreppsnefndarinnar og farið fram á að umsókn þeirra yrði afgreidd. Að svo búnu var full ástæða fyrir sveitarfélagið að afgreiða umsókn kærenda efnislega til þess að kæranleg lokaákvörðun lægi fyrir. Verður að svo komnu að líta svo á að kærður sé óhæfilegur dráttur á afgreiðslu máls, en skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er heimilt að kæra slíkan drátt til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Með hliðsjón af því að rúmlega hálft ár er frá því að kæra barst úrskurðarnefndinni verður lagt fyrir hreppsnefnd Skorradalshrepps að taka umsókn kærenda til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar hreppsnefndar Skorradalshrepps frá 13. mars 2019 um að fresta afgreiðslu umsóknar kærenda er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Lagt er fyrir skipulagsyfirvöld í Skorradalshreppi að taka umsókn kærenda frá 20. febrúar 2019, um að skipta lóðinni Fitjahlíð 30 í tvennt og sameina hvorn helming fyrir sig við lóðirnar Fitjahlíð 28 og 32, til efnislegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.