Mál nr. 21/2014, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra um álagningu heilbrigðiseftirlitsgjalds fyrir árið 2012 vegna vatnsveitu að Viðvík í sveitarfélaginu Skagafirði.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. mars 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir K, Viðvík, Sauðárkróki, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra að leggja á kæranda heilbrigðiseftirlitsgjald fyrir árið 2012 vegna vatnsveitu að Viðvík í sveitarfélaginu Skagafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefninni 11. apríl 2014.
Málsatvik og rök: Með greiðsluseðli gefnum út 31. desember 2012 var lagt á kæranda „heilbrigðiseftirlitsgjald 2012“, kr. 19.056, með gjalddaga 21. janúar 2013 og eindaga 4. febrúar s.á. Gjaldið kom til vegna eftirlits á vegum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra á vatnsveitu kæranda að Viðvík í Skagafirði þar sem fram fer mjólkurframleiðsla. Með tölvupósti 5. febrúar s.á. var gjaldinu mótmælt af hálfu kæranda. Var þess farið á leit að gjaldtakan yrði rökstudd og krafan felld niður. Svar barst frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra með tölvupósti 14. s.m. Í framhaldinu var eindaga frestað til 10. mars s.á. að ósk kæranda.
Með tölvupósti heilbrigðiseftirlitsins 17. júlí 2013 var kæranda bent á að hann gæti vísað ágreiningi um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvernd og reglugerða settra samkvæmt þeim til sérstakrar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, sbr. 31. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlitið hefði gefið umbeðnar skýringar á gjaldtökunni en ef enn væri ágreiningur um hana væri rétti farvegurinn að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 9. október s.á. var kæranda svo tilkynnt með tölvupósti frá að á næsta fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra yrði lagt til að starfsleyfi vatnsveitu kæranda yrði fellt úr gildi þar sem ekki hefðu enn verið greidd lögbundin eftirlitsgjöld fyrir árið 2013. Var kæranda gefinn kostur á að koma fram sínum sjónarmiðum á fundi heilbrigðisnefndarinnar og var jafnframt ítrekuð ábending um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Samdægurs var heilbrigðiseftirlitinu tjáð að kært hefði verið til úrskurðarnefndarinnar um sumarið en erindi kæranda þar um mun hafa verið verið sent til umhverfis- og auðlindaráðuneytis í stað úrskurðarnefndarinnar. Í tölvupósti 11. október 2013 áréttaði heilbrigðiseftirlitið að ágreiningnum skyldi skotið til nefndarinnar. Hinn 2. desember 2013 barst kæranda svarbréf frá umhverfis og auðlindaráðuneyti og er í niðurlagi þess bent á að heimilt sé að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfar frekari samskipta við heilbrigðiseftirlitið skaut kærandi málinu svo til úrskurðarnefndarinnar hinn 25. mars 2014, svo sem að framan greinir.
Kærandi krefst niðurfellingar eftirlitsgjaldsins á þeirri forsendu að gjaldið hafi hvorki stoð í lögum né gjaldskrá. Sýni sé eingöngu tekið annað hvert ár en gjaldið innheimt á hverju ári. Ekki sé lögmætt að innheimta gjald fyrir árið 2012 þegar ekkert sýni hafi verið tekið. Gjaldskráin sé breytileg þar sem hún byggi á áætlunum sem breytist á milli ára og megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaði við eftirlitið. Sé gjaldtakan ólögmæt þar sem ekki sé neinn kostnaður við sýnatökuna þau ár sem ekkert sýni er tekið.
Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra er bent á að kærufrestur sé liðinn samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 en heilbrigðiseftirlitið vilji gjarnan láta skera úr málinu. Bent sé á að samkvæmt lögum og reglugerðum hafi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga umsjón með neysluvatni sem feli í sér eftirlit með vatnsvernd, skoðun vatnsbóla, innra eftirlit og sýnatöku. Árið 2004 hafi Umhverfisstofnun farið að gera ríkari kröfur til vatnsveitna er þjónuðu mjólkurframleiðendum á þeim grundvelli að þar færi fram matvælaframleiðsla samkvæmt matvælalögum nr. 93/1995. Nú sé skylt að taka sýni annað hvert ár úr þeim vatnsbólum sem sýnt hefðu góðar niðurstöður tvö ár í röð. Gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra hafi verið samþykkt af heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra, eins og lög kveði á um, og birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Niðurstaða: Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, ásamt síðari breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.
Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Kæranda var ítrekað leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar eins og nánar er rakið í málsatvikum. Kæra barst nefndinni hins vegar ekki fyrr en 25. mars 2014 eða ríflega þremur mánuðum frá því að kæranda var síðast leiðbeint um kæruleið og var þá liðið á fjórtánda mánuð frá hinni umdeildu álagningu og mótmælum kæranda á henni. Þar sem kæra í máli þessu barst þegar meira en ár var liðið frá því að kæranda var kunnugt um hina kærðu ákvörðun er óheimilt að taka málið til efnismeðferðar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir