Árið 2022, fimmtudaginn 7. júlí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 19/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 um að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins á lóð Tryggvagötu 32, Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. mars 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hluta hússins að Tryggvagötu 32, Selfossi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins á lóð Tryggvagötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 31. mars 2022.
Málavextir: Annar kærenda sótti um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Suðurlands 8. janúar 2020 vegna reksturs sólbaðsstofu. Heilbrigðiseftirlitið kallaði eftir upplýsingum frá byggingarfulltrúa um hvort starfsemin uppfyllti skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, þ.e. hvort húsnæðið hefði hlotið staðfestingu frá leyfisveitanda byggingarleyfis á því að starfsemin væri í samræmi við samþykkta notkun þess. Málið var í kjölfarið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. janúar 2020 og var þar frestað á meðan kallað var eftir samþykki meðeigenda. Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. janúar 2021 þar sem byggingarfulltrúi lagðist gegn útgáfu starfsleyfis með vísan til þess að starfsemin samræmdist ekki skipulagi, samþykki meðeigenda lægi ekki fyrir og önnur fyrirliggjandi gögn væru ófullnægjandi.
Fyrri hluta ársins 2021 bárust sveitarfélaginu athugasemdir við aðstæður að Tryggvagötu 32 og fór byggingarfulltrúi í kjölfarið í eftirlitsferð á staðinn 16. apríl s.á. Annar kærenda fékk sendar athugasemdir byggingarfulltrúa, dags. 27. maí s.á., þar sem greint var frá þeim athugasemdum sem gerðar voru við fasteignina og notkun hennar. Þar var m.a. tekið fram að vaknað hefði grunur um að nýting hluta mannvirkis á lóðinni, þ.e. efri hæð fasteignarinnar, væri ekki í samræmi við skráða notkun, þar sem grunur hefði vaknað um að þar væri rekin sólbaðsstofa. Var tekið fram að slík nýting mannvirkisins væri óheimil og var kærendum gert að láta af þeirri notkun. Í bréfinu var jafnframt að finna athugasemdir um byggingarleyfis-skyldar framkvæmdir sem fram hefðu farið á lóðinni án þess að leyfi hefðu verið fengið fyrir þeim. Fulltrúi kærenda sendi sveitarfélaginu svar þar sem fram kom að sólbaðsstofa í húsnæðinu væri hugsuð og yrði notuð sem minni háttar atvinnustarfsemi í eigu annars kærenda. Notaður væri sérinngangur fyrir efri hæð til að komast inn á sólbaðsstofuna, en þar væru fjórir bekkir með mismunandi stillingum. Hugmyndin væri sú að tveir gestir gætu sótt stofuna í einu. Sólbaðsstofan væri skilin frá íbúðarhúsnæðinu og staðsett ofan á bílskúr, þar sem áður hefði verið geymsla. Þar væri öryggiskassi sem stjórni rafmagni, slökkvitæki og góð loftræsing. Þá fylgi sér baðherbergi fyrir viðskiptavini með klósetti, vaski og sturtu.
Hinn 13. desember 2021 barst umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi frá kærendum, þar sem óskað var eftir leyfi fyrir breytingum innanhúss á annarri hæð hússins að Tryggvagötu 32 vegna innréttingar á sólbaðsstofu í rými ofan á bílskúr, en það er nú skráð sem geymsla. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. s.m. og málinu var vísað til meðferðar hjá skipulags- og byggingarnefnd þar sem ekki er til staðar deiliskipulag fyrir svæðið. Málið var í framhaldinu tekið fyrir hjá skipulags- og byggingarnefnd 29. s.m. þar sem samþykkt var að grenndarkynna umsóknina fyrir hagsmunaaðilum. Grenndarkynning fór fram á tímabilinu 29. desember 2021 til 26. janúar 2022 og bárust tvær athugasemdir á kynningartíma. Í þeim kom m.a. fram að ekki væri um atvinnuhúsnæði að ræða, að bílastæði við húsið anni ekki rekstrinum, að sólbaðsstofan væri nú þegar starfrækt í húsinu og af henni hefði hlotist mikið ónæði. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. janúar 2022 þar sem farið var yfir framkomnar athugasemdir og með vísan til þeirra var umsókn um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins hafnað. Kærendum var tilkynnt um þá afgreiðslu sama dag. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. febrúar s.á. og var umsókninni hafnað. Kærendum var sendur tölvupóstur sama dag þar sem þeir voru upplýstir um að mögulega væri unnt að samþykkja breytingar á hluta hússins sem slíkar „þó ekki sé samþykkt að vera með rekstur í húsnæðinu.“
Lögmaður kærenda óskaði frekari rökstuðnings og upplýsinga um afgreiðslu málsins með tölvupósti, dags. 24. febrúar 2022. Hinn 25. s.m. svaraði lögmaður sveitarfélagsins fyrirspurnum lögmanns kærenda, en þar kom m.a. fram að fyrir mistök hefði láðst að geta um kærufrest og kæruleiðir. Þá var vísað til þess að þar sem í hinni kærðu ákvörðun kæmi fram á hvaða forsendum umsókninni hefði verið hafnað væri litið svo á að kærendur ættu ekki rétt á frekari rökstuðningi.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að sveitarfélagið hafi ekki uppfyllt skilyrði V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um birtingu ákvörðunar og rökstuðning. Í tilkynningu til kærenda um ákvörðun byggingarfulltrúa hafi hvergi komið fram heimild kærenda til þess að fá ákvörðunina nánar rökstudda, hvert bæri að kæra ákvörðunina eða hver kærufrestur væri, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þegar innt hafi verið eftir frekari upplýsingum um ákvörðun byggingarfulltrúa um fyrrgreint hafi lögfræðingur sveitarfélagsins tekið fram að fyrir mistök hafi láðst að geta um kærufrest og kæruleiðir. Af þeim sökum myndi sveitarfélagið ekki bera fyrir sig að kærufrestur hefði tekið að líða fyrir þann dag, þ.e. 25. febrúar 2022. Sé því kærufrestur ekki liðinn og renni ekki út fyrr en 25. mars s.á.
Ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsækjanda um byggingarleyfi sé stjórnvaldsákvörðun og beri honum því að fara eftir meginreglum stjórnsýsluréttar og ákvæðum stjórnsýslulaga við ákvarðanatöku og málsmeðferð. Brotið hafi verið gegn leiðbeiningarskyldu, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, þegar kærendum hafi verið kynnt ákvörðun byggingarfulltrúa, en tilkynningin hafi ekki innihaldið leiðbeiningar um að heimilt væri að kæra ákvörðun byggingarfulltrúa, hvert skyldi kæra ákvörðunina eða upplýsingar um kærufrest vegna ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 20. gr. sömu laga. Rannsóknarreglan, sbr. 10. gr. laganna, hafi verið brotin í ljósi þess að málið virðist ekki hafa verið skoðað umfram það að lesa yfir þær athugasemdir sem hafi borist við grenndarkynningu. Einkum sé ljóst að rannsóknarreglan hafi verið brotin þegar litið sé til þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafi farið fram að morgni sama dags og frestur til athugasemda hafi runnið út. Bent sé á að málshraði megi ekki vera á kostnað vandaðra stjórnsýsluhátta. Þá hafi kærendur ekki fengið frekari tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri eftir að athugasemdir hafi borist nefndinni. Feli það ekki einungis í sér brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar heldur einnig brot á andmælarétti kærenda, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt svari skipulags- og byggingarfulltrúa hafi megingrundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar verið sá að ekki hafi legið fyrir samþykki eiganda hins hluta hússins að Tryggvagötu 32. Hefðu kærendur því þurft að komast að samkomulagi við eiganda þess hluta til að fá umsókn sína samþykkta, sbr. c-lið 2. mgr. gr. 2.4.1. byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki verði séð að einstaklingsbundið mat hafi farið fram, enda hafi umsókninni verið hafnað án þess að kærendur hafi fengið leiðbeiningar um að afla samþykkis eða tækifæri til að andmæla því að slíkt samþykki þyrfti.
Því sé andmælt að ekki hafi verið þörf á frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun í ljósi þess að kærendum hafi verið tjáð að hún hafi verið grundvölluð á innsendum athugasemdum. Slíkt teljist ekki vera fullnægjandi rökstuðningur heldur hefði átt að tilgreina hvað í umræddum athugasemdum hafi valdið því að litið hafi verið svo sterklega til þeirra.
Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu bæjaryfirvalda er vísað til þess að öll málsmeðferðin hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga og vandaða stjórnsýsluhætti. Birting ákvörðunar og rökstuðningur fyrir henni hafi verið fullnægjandi þrátt fyrir annmarka á tilgreiningu á rétti til nánari rökstuðnings og kæruleiðum. Úr þeim annmörkum hafi verið bætt í samskiptum við lögmann kærenda.
Því sé hafnað að rannsóknarregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin. Málefni er varði rekstur sólbaðsstofu kærenda hafi verið vandlega rannsökuð af hálfu sveitarfélagsins í gegnum tíðina, bæði í tengslum við umsókn kærenda og fyrri erindi er snúi að sama rekstri. Þá hafi rannsóknarreglan verið virt að fullu við yfirferð athugasemda, enda hafi athugasemdir borist snemma á grenndarkynningartímanum, þ.e. í byrjun janúar 2022. Ekkert hafi því verið að vanbúnaði að taka málið fyrir á fundi hinn 26. s.m. Hefðu frekari athugasemdir borist í lok kynningartímans hefði málinu verið frestað til frekari úrvinnslu og rannsóknar en nægur tími hafi gefist frá 7. janúar til 26. s.m. til að leggja mat á framkomnar athugasemdir.
Afgreiðsla athugasemda við grenndarkynningu hafi verið í samræmi við hefðbundið og venjuhelgað verklag þar um. Þannig hafi skipulags- og byggingarnefnd tekið afstöðu til athugasemda í umsögn sinni og skipulags- og byggingarfulltrúi synjað beiðni kærenda í framhaldinu. Ekki sé hefðbundið að umsækjendum gefist færi á að svara athugasemdum úr grenndarkynningu eða koma að frekari sjónarmiðum að þeim framkomnum. Lög og verklag geri ekki ráð fyrir að umsækjendur komi sjónarmiðum sínum frekar á framfæri á þeim tímapunkti. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar liggi þó jafnframt fyrir að frekari andmæli kærenda hefðu með öllu verið þýðingarlaus, enda hefði krafa sveitarfélagsins um samþykki meðeigenda byggt á afdráttarlausu ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, þar sem kveðið sé á um að breytingar á hagnýtingu séreignar sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur en áður hafi verið, og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Af athugasemdum megi ráða að slíkt samþykki liggi ekki fyrir og að sú breyting að hefja rekstur í húsinu myndi hafa í för með sér ónæði, röskun og óþægindi, m.a. að teknu tilliti til bílastæða, eins og fram hafi komið í báðum innsendum athugasemdum.
Þegar kærendur hafi óskað eftir frekari rökstuðningi hafi lögmaður kærenda þegar fengið afhentar þær athugasemdir og afgreiðslur málsins sem fyrir hafi legið hjá sveitarfélaginu. Árborg geti fallist á að mögulega hafi verið tilefni til að upplýsa frekar um þau lagaákvæði sem synjun hafi byggst á, s.s. um ákvæði 27. gr. laga nr. 26/1994. Hins vegar hafi ákvörðunin ekki verið byggð á mati heldur á því að lögbundin skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og mátt hafi ráða af efni framkominna athugasemda og afgreiðslu málsins. Þessi yfirsjón hafi þó ekki þau áhrif að fallast beri á kröfur kærenda um að ákvörðunin skuli felld úr gildi, enda séu annmarkarnir ekki verulegir.
Veigamikil rök mæli með því að ákvörðunin verði ekki ógilt, enda sé ljóst að kærendur hafi um nokkurra ára skeið freistað þess að hefja rekstur í húsnæðinu án samþykkis nágranna sinna, sem þó sé lögbundið skilyrði fyrir breytingu á afnotum hluta hússins. Fyrir liggi að nágrannar hafi ekki hugsað sér að samþykkja slíka breytingu og myndi ógilding stjórnvaldsákvörðunarinnar því ekki verða til þess að málið færi í neinn annan farveg en þann sem málið hafi verið í. Ekki komi til breytinga á afnotum fasteignarinnar nema að samþykki annarra eigenda hússins liggi fyrir og ekkert bendi til þess að það samþykki liggi nú fyrir. Væri það því eingöngu til þess að tefja endanlega niðurstöðu málsins að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.
Viðbótarathugasemdir kærenda: Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús beri að afla samþykkis allra eigenda hússins ef breyting á hagnýtingu séreignar hafi í för með sér verulega meiri ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum. Kærendur fallist ekki á að breytt notkun húsnæðisins í samræmi við áætlanir þeirra feli í sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur. Þvert á móti geti kærendur ekki séð hvaða lögmætu hagsmunir eiganda hins hluta húsnæðisins sé raskað, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 26/1994.
Eignarhlutarnir tveir hafi báðir sérinngang og muni umgangur í og úr fyrirhugaðri sólbaðsstofu einungis fara í gegnum inngang kærenda. Sólbaðsstofan yrði þó aðskilin frá íbúð kærenda þar sem stofan yrði ofan á bílskúr hússins sem fylgi eignarhluta þeirra. Þá vísi kærendur því á bug sem komi fram í innsendum athugasemdum við grenndarkynningu að brunahætta stafi af rekstri sólbaðsstofunnar sem og að rekstur hennar myndi valda ónæði við húsið vegna skorts á bílastæðum. Teikningar þær sem fylgt hafi umsókn kærenda sýni þær breytingar sem til hafi staðið að ráðast í en þar sé gert ráð fyrir brunahólfandi veggjum. Þannig yrði verulega dregið úr brunahættu auk þess sem kærendur myndu gera allar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar yrðu til þess að fullnægja kröfum um brunavarnir vegna hinnar breyttu notkunar húsnæðisins. Varðandi bílastæðamál þá bendi kærendur á að bílastæði það sem fylgi fasteign þeirra, fyrir framan bílskúr þeirra, rúmi vel tvo bíla. Þá sé einnig nóg um önnur bílastæði í nærumhverfinu sem séu opin almenningi. Viðskiptavinir sólbaðsstofunnar myndu því hvorki þurfa að hamla aðgengi annarra íbúa húsnæðisins né valda öðrum ónæði er þau nýti þjónustu kærenda. Geti því annar eigandi húsnæðisins ekki sett sig á móti þeirri breytingu sem um ræði.
Þrátt fyrir að 27. gr. fjöleignarhúsalaga feli í sér lögbundin skilyrði um að afla verði samþykki annarra eigenda í ákveðnum tilvikum verði það að teljast matskennt hvað feli í sér verulega meiri óhagræði, röskun eða óþægindi fyrir aðra. stjórnvöldum sé ekki heimilt að afnema það mat með því að vísa til verklagsreglna og þess að athugasemdir hafi borist við grenndarkynningu. Ekki sé endilega samasemmerki milli þess að nágrannar setji sig upp á móti áformum um breytingar og að þær breytingar feli í sér verulega meira óhagræði.
Kærendur telji í ljósi framangreinds að Árborg hefði átt að upplýsa kærendur um að nauðsynlegt væri að afla samþykkis meðeiganda áður en umsókn þeirra hefði verið hafnað. Slíkt hefði veitt kærendum tækifæri til þess að greiða úr þeim annmarka eða að mótmæla því að slíkt samþykki þyrfti. Hefðu kærendur þannig getað komið sjónarmiðum sínum að og varpað frekara ljósi á málið. Að mati kærenda hafi með þessu verið brotið gegn 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sem og andmælarétti og rannsóknarreglu, sbr. 13. og 10. gr. sömu laga.
Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu Árborgar að ekkert hafi verið að vanbúnaði að taka málið fyrir á fundi að morgni 26. janúar 2022 þar sem athugasemdir þær sem borist hafi í málinu hafi verið sendar til nefndarinnar í byrjun mánaðarins. Í ljósi þess að frestur til að skila inn athugasemdum hafi verið til 26. janúar geti kærendur ekki séð að það hafi verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að mat á athugasemdum hafi farið fram áður en fresturinn hafi runnið út.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins Tryggvagötu 32, Selfossi.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra á. Hin kærða ákvörðun var tekin 2. febrúar 2022 og var kærendum tilkynnt um hana samdægurs. Máttu þeir því vita af hinni kærðu ákvörðun þá þegar þann dag. Kæra í máli þessu er dagsett og barst úrskurðarnefndinni 3. mars s.á. og er því utan hins lögbundna eins mánaðar frests fyrrnefndrar 2. mgr. 4. gr.
Fjallað er um réttaráhrif þess að kæra berist að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl. 1. mgr. greinarinnar. Í 2. mgr. 20. gr. sömu laga kemur fram að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um heimild aðila til að fá ákvörðun rökstudda og kæruheimild, þegar hún er fyrir hendi, kærufresti svo og hvert skuli beina kæru. Í máli þessu var kærendum ekki leiðbeint um framangreind atriði. Í ljósi þess, sem og að kæra í málinu barst innan hins almenna þriggja mánaða frests stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 27. gr. þeirra, verður talið afsakanlegt að kæra hafi borist utan hins lögbundna kærufrests.
Lóðin Tryggvagata 32 er á ódeiliskipulögðu svæði. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag, landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er umrædd lóð á íbúðarsvæði. Fjallað er um stefnu um landnotkun í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar segir að stefna um landnotkun skuli sýnd með einum landnotkunarflokki. Sé gert ráð fyrir landnotkun á sama reit sem falli undir fleiri en einn landnotkunarflokk skuli sá flokkur tiltekinn fyrir reitinn sem sé ríkjandi en umfang annarrar landnotkunar tilgreint í skilmálum. Íbúðarbyggð er skilgreind í a-lið nefndrar greinar sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minni háttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar sé kveðið á um í stefnu skipulagsins. Í Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030 er ekki að finna heimild til að vera með minni háttar atvinnustarfsemi á svæðinu. Samræmist hið umsótta leyfi um breytta notkun því ekki landnotkun svæðisins og hefði því með réttu ekki átt að grenndarkynna leyfisumsóknina, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.
Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er samþykkt byggingaráforma háð því skilyrði að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Líkt og rakið er að framan er ekki heimilt að vera með atvinnustarfsemi í þeirri íbúðarbyggð sem hér um ræðir samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2010-2030. Þá er í 10. gr. laga um mannvirki kveðið á um að samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skuli fylgja umsókn um byggingarleyfi. Fjallað er um breytingar á hagnýtingu séreignar í 27. gr. síðastnefndu laga en þar er að finna mismunandi reglur um breytingu á hagnýtingu séreignar eftir því hvort um verulega breytingu er að ræða eða ekki. Í 1. mgr. nefndrar greinar er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem áður hafi verið eða ráð hafi verið gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins. Í 3. mgr. greinarinnar segir að sé um að ræða breytingu sem ekki sé veruleg sé nægilegt að samþykki einfalds meirihluta miðað við fjölda og eignarhluta liggi fyrir. Fasteignin Tryggvagata 32 skiptist í tvo eignarhluta, 0101 og 0201. Hvorki liggur fyrir í máli þessu samþykki allra eigenda né meirihluta eigenda miðað við eignarhluta og var byggingarfulltrúa Árborgar því rétt að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins að Tryggvagötu 32. Þá verður ekki talið að byggingarfulltrúa hafi borið að gefa kærendum kost á að tjá sig áður en hin kærða ákvörðun var tekin, enda lá ekki fyrir fyrrgreint skilyrði um samþykki meðeigenda. Var því augljóslega óþarft að leyfa kærendum að tjá sig frekar um efni málsins, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga.
Að framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Árborgar frá 2. febrúar 2022 um að hafna umsókn kærenda um breytingar innanhúss og breytta notkun hluta hússins að Tryggvagötu 32, Selfossi.