Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

58/2022 Hnútuvirkjun

Árið 2022, fimmtudaginn 7. júlí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfunda­búnað. Þátt tóku Unnþór Jónsson, settur varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2022, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 12. maí 2022 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun Hverfisfljóts í Skaftárhreppi.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júní 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra Landvernd, Eldvötn, Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndar­samtök Suðurlands, Ungir Umhverfissinnar, Þverárfélagið ehf., A og B þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftár­hrepps frá 12. maí 2022 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir virkjun Hverfisfljóts í Skaftárhreppi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins vegna framlagðrar stöðvunarkröfu bárust úrskurðarnefndinni frá Skaftárhreppi 5. júlí 2022.

Málsatvik og rök: Með umsókn til skipulags- og byggingarfulltrúa Skaftárhrepps hinn 5. apríl 2022 sótti eigandi jarðarinnar Dalshöfða um fram­kvæmdaleyfi fyrir allt að 9,3 MW virkjun í Hverfisfljóti. Í umsókninni kemur fram að framkvæmdin sé í samræmi við Aðalskipulag Skaftár­hrepps 2010-2022 og að deiliskipulag hafi verið samþykkt vegna virkjunarinnar í janúar 2022. Í kafla um hönnunarforsendur er vísað til þess að nákvæm hönnunargögn, sbr. 2. tölulið 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2021 um framkvæmdaleyfi, verði lögð fram í samræmi við framkvæmdáætlun, en í þeirri áætlun er að finna tímasetningu verkþátta eftir ársfjórðungum áranna 2022-2024. Á fundi skipulagsnefndar sveitarfélagsins 25. apríl 2022 var greind umsókn tekin fyrir og samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi sveitarstjórnar 27. s.m. með þremur atkvæðum gegn tveimur. Með vísan til samþykkis sveitar­stjórnar gaf skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi hinn 12. maí s.á. Í leyfinu kemur fram að gert sé ráð fyrir að upphaf framkvæmda verði um mitt ár 2022 og að áætluð verklok verði fyrir lok árs 2024. Áður en framkvæmdir muni hefjast þurfi að liggja fyrir samkomulag milli framkvæmda­aðila og sveitarfélagsins um hvernig staðið verði að eftirliti með framkvæmdum.

 Af hálfu kærenda er vísað til þess að framkvæmdir samkvæmt hinu kærðu framkvæmdaleyfi séu yfirvofandi þar sem í leyfinu sé tekið fram að framkvæmdir hefjist sumarið 2022. Sé því krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, sbr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála.

 Skaftárhreppur tekur fram varðandi það samkomulag sem vísað er til í hinu kærða fram­kvæmda­leyfi að það hafi ekki verið sett á blað í ljósi framkominnar kæru. Leiða þurfi kærumálið til lykta en það geti breytt upphafi framkvæmda.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar í þeim tilvikum þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttar­áhrifum ákvörðunar.

Svo sem kærendur benda á kemur fram í hinu kærða framkvæmdaleyfi að gert sé ráð fyrir að upphaf framkvæmda verði um mitt ár 2022. Hins vegar er það skilyrði að finna í leyfinu að áður en framkvæmdir hefjist þurfi að liggja fyrir samkomulag milli framkvæmdaaðila og sveitarfélagsins um hvernig staðið verði að eftirliti með framkvæmdunum. Skaftárhreppur hefur upplýst úrskurðarnefndina um að ekki verði gengið frá umræddu samkomulagi fyrr en kærumáli þessu hefur verið lokið. Í ljósi þess verður að gera ráð fyrir að framkvæmdir hefjist ekki fyrr endanlegur úrskurður hefur verið kveðinn upp. Myndi því stöðvun framkvæmda á þessum tímapunkti ekki þjóna þeim tilgangi sem býr að baki réttarúrræðinu og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir vegna virkjunar Hverfisfljóts í Skaftárhreppi verði stöðvaðar á meðan kærumálið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.