Fyrir var tekið mál nr. 19/2012, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar frá 10. febrúar 2012 um útgáfu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7 og 9 í Stykkishólmi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. mars 2012, er barst nefndinni hinn 7. s.m., kærir L, Borgarhlíð 1, Stykkishólmi, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar frá 10. febrúar 2012 um útgáfu vottorða vegna lokaúttektar Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7, og 9 í Stykkishólmi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Greinargerð barst frá Stykkishólmsbæ 10. apríl 2012 og gögn í málinu bárust á árinu 2015.
Málavextir: Á árinu 2005 var samþykkt byggingarleyfi vegna byggingar raðhúsanna nr. 1, 3, 5, 7 og 9 við Borgarhlíð. Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands voru umrædd hús reist á árinu 2006. Kærandi festi kaup á fasteigninni að Borgarhlíð 1 hinn 11. desember 2007 og fékk hana afhenta í janúar 2008. Á árinu 2010 óskaði kærandi eftir því við verkfræðistofu að gerð yrði úttekt á húsinu þar sem orðið hefði vart við leka innanhúss frá þaki og veggjum. Með bréfi, dags. 2. ágúst 2011, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá Stykkishólmsbæ um lokaúttekt vegna fasteignarinnar. Kærandi var upplýstur með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar, dags. 10. s.m., um að ekki hefði verið gerð lokaúttekt á eignarhluta hans. Í kjölfar þess fór kærandi fram á að slík úttekt yrði framkvæmd.
Lokaúttekt fór fram á eignarhlutum Borgarhlíðar 3, 5, 7 og 9 hinn 18. janúar 2012 og á eignarhluta kæranda 25. s.m., að honum og fulltrúa hans viðstöddum. Við lokaúttektina gerði kærandi athugasemdir við frágang hússins og jafnframt kom byggingarstjóri hússins sjónarmiðum sínum á framfæri. Hinn 10. febrúar 2012 voru gefin út fimm lokaúttektarvottorð, eitt fyrir hvern eignarhluta.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hann hafi árangurslaust kvartað við byggingarstjóra hússins vegna leka í eignarhluta sínum. Það standist ekki kröfur laga og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 að gefa út fimm vottorð með mismunandi athugasemdum vegna úttektar mannvirkisins. Um sé að ræða eitt mannvirki í skilningi mannvirkjalaga nr. 160/2010. Raðhúsið sé auk þess fjöleignarhús í skilningi laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og þar með sé allt ytra byrði þess í sameign. Byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir því í heild sinni, það verið reist í einu lagi og lokið hafi verið við byggingu þess á sama tíma. Það að hver eignarhluti sé sérstök fasteign, sbr. 15. gr. laga um mat og skráningu fasteigna nr. 6/2001, geti ekki breytt því að um eitt mannvirki sé að ræða. Húsnæði sé ófullgert þar til lokaúttekt hafi farið fram. Skuli hún gerð á húsinu öllu, sbr. orðalag gr. 53 í tilvitnaðri byggingarreglugerð. Athugasemdir sem varði sameign verði að koma fram á vottorði fyrir allt húsið. Þá hafi byggingarstjóri verið vanhæfur til að taka út húsið sem fulltrúi slökkviliðsins og sé í því sambandi vísað til 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Byggingarfulltrúi verði að taka með skriflegum hætti afstöðu til athugasemda sem fram komi áður en lokaúttektarvottorð sé gefið út. Hafi allar athugasemdir kæranda lotið að sameign hússins. Þannig hafi verið bent á að vart hefði orðið við leka í húsinu, frágangur á þaki væri og ekki fullnægjandi og ástæða til að byggingarstjóri kannaði það nánar. Einnig væri þéttilisti á samsetningu veggeininga að austanverðu ekki í samræmi við teikningar og leiðbeiningar frá framleiðenda þeirra. Þá væri frágangur á timburþaki, sem sé með minna en 14° halla, ekki í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar um vatnsþétt undirlag undir báraðri málmklæðningu. Loks hefði verið bent á að múr hefði losnað af sökkli þannig að múrnet væri þar sýnilegt að hluta og að á suðvesturhorni hússins væri eining með stórri sprungu.
Um alvarlegar athugasemdir sé að ræða sem farið geti í bága við ákvæði byggingarreglugerðar. Geti raki sem myndist vegna leka valdið heilsutjóni. Í gr. 54 í byggingarreglugerð segi m.a. að komi fram við lokaúttekt atriði sem þarfnist úrbóta skuli byggingarfulltrúi setja byggingarstjóra og byggjanda tímafrest til að ljúka endurbótum. Þá sé unnt sé að gefa út vottorð um lokaúttekt með athugasemdum skv. 4. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga.
Umsögn byggingarverkfræðings, er liggi fyrir í málinu, lúti ekki að úttekt á frágangi þaks og þakvirkis eða frágangi steyptra eininga. Í henni komi aðeins fram að frágangur sá sem sýndur sé á aðsendri deiliteikningu sé algeng lausn á timburþaki hérlendis og að með þeim gæðum á undirlagspappa sem tilgreindur sé teljist kröfur byggingarreglugerðar uppfylltar. Fráleitt sé að unnt sé með þessum hætti að samþykkja þakfrágang sem ekki sé í samræmi við ákvæði í byggingarreglugerð. Umrætt þak sé með 8° halla og þurfi að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar með tilliti til þess, sbr. gr. 136 í reglugerðinni.
Byggingarfulltrúa hafi borið að kanna hvort frágangur stæðist kröfur byggingarreglugerðar, ellegar að leggja fyrir byggingarstjóra að bæta úr. Ekki komi fram hvort frágangur þaks hafi verið skoðaður og liggi því ekki fyrir hvort hann sé í samræmi við samþykktar teikningar. Jafnframt sé ljóst að hornafrágangur steyptra eininga sé ekki í samræmi við það sem fram komi í téðri umsögn. Þá verði að telja furðulegt að byggingarfulltrúi leggi til grundvallar, án nokkurra sannana, bókun byggingarstjóra um að framleiðandi hefði fullyrt að nota mætti slíka einingu á suðvesturhorni.
Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu Stykkishólmsbæjar er bent á að kærumálinu beri að vísa frá úrskurðarnefndinni með vísan til forsendna í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 16. mars 2010, í máli nr. 79/2009.
Í umræddri raðhúsalengju séu fimm eignarhlutar. Hver um sig sé sérstakur matshluti með sér númeri og gerður hafi verið lóðarleigusamningur fyrir hvern þeirra. Nefndir eignarhlutar hafi verið afhentir á mismunandi byggingarstigum, þeir séu misstórir og mismunandi hvað varði innra skipulag. Því hafi byggingarfulltrúi talið eðlilegt að gefa út vottorð fyrir hvern eignarhluta fyrir sig en hafa í öllum vottorðunum samhljóða ákvæði um þau atriði sem lúti að þeim sameiginlega. Sjálfsagt sé að gefa út eitt vottorð fyrir öll húsin sé þess óskað. Sú staðreynd að byggingarstjóri hafi jafnframt verið slökkviliðsstjóri skipti varla máli þar sem úttektin sé framkvæmd af byggingarfulltrúa.
Lokaúttektin hafi farið fram í samræmi við lög og reglur. Legið hafi fyrir yfirlýsing frá byggingarstjóra um að byggingarframkvæmdin hefði verið unnin í samræmi við samþykkta uppdrætti og lög og reglugerðir, sbr. 35. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Þá sé þess getið í vottorðum að merki um leka frá þaki hefðu komið upp innanhúss og að byggingarstjóri hafi brugðist við því með því að endurnýja að hluta til neglingu þess. Ekki hafi borið á leka síðan. Þannig hafi ekki annað verið séð við lokaúttekt en að búið væri að laga umræddan leka. Engu að síður hafi hans verið getið í vottorði.
Við fokheldisúttektir hafi ekki verið gerðar athugasemdir við frágang á samskeytum veggeininga. Byggingarstjóri hafi lýst því yfir og lagt fram gögn um að frágangur hefði verið í samræmi við leiðbeiningarblöð frá framleiðslufyrirtæki eininganna. Sex ár séu liðin frá því að húsið hafi verið gert fokhelt og ekki sé óeðlilegt að komið sé að viðhaldi á ytra byrði þess, s.s. endurnýjun á þéttingum við samskeyti. Byggingarfulltrúa sé ekki kunnugt um hvers vegna múr hafi losnað af sökkli. Geti það gerst vegna höggálags og eigi því ekki við sem athugasemdir í lokaúttekt.
Tilgangur lokaúttektar sé að vera liður í eftirliti byggingarfulltrúa. Kaupendur eigna í byggingu geti ekki gert þær kröfur að skilaástand eignanna sé staðreynt af byggingarfulltrúa og að hann knýi á um úrbætur, sbr. t.d. forsendur í fyrrgreindum úrskurði.
Álit Mannvirkjastofnunar: Úrskurðarnefndin óskaði þess með bréfi, dags. 14. maí 2014, að Mannvirkjastofnun, sem sérfróður aðili, léti í ljós álit sitt á því hvort nefnd ákvörðun um útgáfu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7 og 9 í Stykkishólmi væri í samræmi við lög og reglur. Barst álit Mannvirkjastofnunar hinn 23. febrúar 2015.
Í áliti Mannvirkjastofnunar kemur m.a. fram að það samræmist ákvæðum 36. gr. laga um mannvirki að gefa út lokaúttektarvottorð fyrir hluta mannvirkis. Eigi sú túlkun stoð í ákvæðum gr. 3.9.3. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fram komi að í vottorði um lokaúttekt eigi m.a. að tiltaka til hvaða hluta mannvirkis úttekt hafi náð. Jafnframt sé bent á að lokaúttekt sé framkvæmd af byggingarfulltrúa og á hans ábyrgð, en slökkviliðsstjóri gegni einungis umsagnarhlutverki. Byggingarstjóri verks sé faglegur fulltrúi eiganda og gegni því mikilvægu hlutverki við byggingarframkvæmdir. Eðlilegt sé því að slökkviliðsstjóri víki sæti við framkvæmd lokaúttektar, sé hann jafnframt byggingarstjóri mannvirkis.
Það er jafnframt álit Mannvirkjastofnunar að komi fram athugasemdir við lokaúttekt, um að ákvæði byggingarreglugerðar séu ekki uppfyllt, sé eðlilegt að byggingarfulltrúi taki afstöðu til réttmætis þeirra áður en lokaúttektarvottorð sé gefið út. Lágmarksþakhalli fyrir bárujárn á pappaklætt undirlag eigi að vera 14°, sbr. gr. 136.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998. Taki stofnunin undir að vandaður undirlagspappi geti uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar um aðalregnvörn og geti talist þar til gert efni miðað við minni þakhalla en 14°. Stofnunin hafi ekki gögn til að vefengja að efnisval sem tilgreint sé á uppdráttum uppfylli skilyrði reglugerðarinnar.
——-
Aðilar hafa fært fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft til hliðsjónar í máli þessu.
Niðurstaða: Hinn 16. mars 2010 kvað úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurð í máli nr. 79/2009, þar sem kæru vegna lokaúttektar var vísað frá úrskurðarnefndinni. Í kjölfar úrskurðarins tók umboðsmaður Alþingis málið til skoðunar og með áliti sínu hinn 13. september 2011 var þeim tilmælum beint til úrskurðarnefndarinnar að taka málið til nýrrar meðferðar, bærist beiðni þar um, meðal annars á þeirri forsendu að hann féllist ekki á þá niðurstöðu nefndarinnar að útgáfa lokaúttektarvottorðs væri ekki stjórnvaldsákvörðun. Verður með vísan til framangreinds ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um að vísa beri kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Í máli þessu er gerð krafa um að ákvörðun byggingarfulltrúa frá 10. febrúar 2012, um útgáfu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 1, 3, 5, 7 og 9 í Stykkishólmi, verði felld úr gildi. Um er að ræða raðhús með fimm eignarhlutum og er kærandi þinglýstur eigandi Borgarhlíðar 1.
Um ábyrgð eiganda mannvirkis og tilhögun byggingareftirlits er fjallað í IV. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 15. gr. laganna ber eigandi m.a. ábyrgð á því að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið að kröfum laganna, og reglugerða settra á grundvelli þeirra, en byggingarstjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Kemur og fram í 2. mgr. 27. gr. sömu laga að byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans og skal hann gæta réttmætra hagsmuna eiganda, m.a. gagnvart byggingaryfirvöldum. Skal hann gera eftirlitsaðila viðvart um lok úttektarskyldra verkþátta og vera viðstaddur úttektir, sbr. 6. mgr. 29. gr. laganna.
Útgáfa úttektarvottorða er liður í því eftirliti byggingarfulltrúa með byggingarframkvæmdum sem honum er falið að lögum, sbr. 2. mgr. 16. gr. mannvirkjalaga, og er þar m.a. um að ræða vottorð um öryggisúttekt og lokaúttekt, sbr. 3. mgr. nefnds lagaákvæðis. Um öryggisúttekt er nánar fjallað í 35. gr. laganna og um lokaúttekt í 36. gr. þeirra. Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum og er óheimilt að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur mannvirkjalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim og útgefandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt, sbr. 1. mgr. 35. gr. Við lokaúttekt skal svo gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði mannvirkjalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim og hvort byggt hefur verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn, sbr. 3. mgr. 36. gr. Segir jafnframt í 5. mgr. þeirrar lagagreinar að eftirlitsaðili geti fyrirskipað lokun mannvirkis komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur, lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert.
Samkvæmt fyrirmælum í 2. mgr. 35. gr. og 2. mgr. 36. gr. mannvirkjalaga skulu, auk eftirlitsaðila, bæði byggingarstjóri og fulltrúi slökkviliðs vera viðstaddir hvort sem er öryggis- eða lokaúttekt, en jafnframt er gert ráð fyrir að iðnmeistarar og hönnuðir mannvirkisins geti verið viðstaddir. Geta nefndar úttektir eftir atvikum farið fram samtímis, sbr. 1. mgr. nefndrar 36. gr., og verður að telja að sú hafi verið raunin í því tilviki sem hér um ræðir samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað við meðferð málsins. Í athugasemdum við nefndar lagagreinar, í frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum, kemur fram að ákvæði byggingarreglugerðar um stöðuúttekt og lokaúttekt hefðu ekki virkað sem skyldi. Stöðuúttekt ætti að gera áður en mannvirki væri tekið í notkun en hún væri afar sjaldan framkvæmd í raun. Þá væri misbrestur á að lokaúttektir færu fram. Kemur fram að lagt sé til að styrkja stöðu þeirrar úttektar sem kölluð hefði verið stöðuúttekt og yrði hún eftirleiðis kölluð öryggisúttekt. Segir jafnframt svo í athugasemdunum: „Mjög varasamt og jafnvel hættulegt getur verið að taka í notkun ófullgerð mannvirki ef ekki er hugað að öryggi þeirra og hollustuháttum. Eldvarnir, burðarþol og fallvarnir geta verið ófullgerðar og slysagildrur leynst víða.“
Fram hefur komið að byggingarstjóri umræddra húsa kom jafnframt fram sem fulltrúi slökkviliðsins við lokaúttektina. Starfsmaður er vanhæfur til meðferðar máls skv. 5. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef hann á sjálfur sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Ljóst er af því sem áður hefur verið rakið að samkvæmt mannvirkjalögum er byggingarstjóri í lykilhlutverki við mannvirkjagerð og ber hann ábyrgð samkvæmt því. Þannig kemur m.a. fram í 5. mgr. 29. gr. nefndra laga að komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja megi til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, beri byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda svo fremi sem ágallarnir hefðu ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit skv. 1. málsl. ákvæðisins. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að athugasemdir um brunavarnir hafi komið fram við nefnda lokaúttekt. Þá verður ekki fullyrt að niðurstaða um lokaúttekt hefði orðið önnur ef byggingarstjóri og fulltrúi slökkviliðs hefði ekki verið einn og sami maður. Framhjá því verður þó ekki litið að byggingarstjóri hafði hagsmuna að gæta í skilningi áðurnefnds 5. tl. 3. gr. stjórnsýslulaga og með hliðsjón af því öryggishlutverki sem viðvera fulltrúa slökkviliðs hlýtur að þjóna, eins og að framan hefur verið rakið, var þáttur hans í meðferð málsins svo veigamikill að um verulegan málsmeðferðarannmarka var að ræða sem leiða ber til ógildingar.
Eins og áður er rakið gerir kærandi ekki einungis kröfu um að vottorð vegna lokaúttektar eignarhluta hans verði fellt úr gildi heldur einnig vottorð vegna lokaúttektar á öðrum eignarhlutum raðhússins. Hvorki í ákvæðum mannvirkjalaga né þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 er kveðið sérstaklega á um hvort heimilt sé að gefa út vottorð fyrir hvern eignarhluta fyrir sig í þeim tilvikum þegar um fjöleignarhús er að ræða, eins og hér háttar. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem tekið hafði gildi þegar hin umdeildu vottorð um lokaúttekt voru gefin út, kemur hins vegar fram í gr. 3.9.3. að koma skuli fram í nefndu vottorði til hvaða mannvirkis, eða eftir atvikum hluta þess, lokaúttekt hafi náð. Að teknu tilliti til framangreinds tekur úrskurðarnefndin undir það álit Mannvirkjastofnunar, sem er sérfróður aðili á þessu sviði, að heimilt hafi verið að gefa út lokaúttektarvottorð fyrir hvern eignarhluta fyrir sig. Ekki er hægt að útiloka að ákvörðun byggingarfulltrúa um að gefa út lokaúttektarvottorð fyrir eignarhluta, sem ekki eru í eigu kæranda, snerti hans hagsmuni, enda um fjöleignarhús að ræða. Það verður þó ekki framhjá því litið að heimild stóð til þess að svo yrði gert og að sama skapi liggur fyrir að aðrir eigendur hússins hafa ekki kært þá ákvörðun. Ógilding á ákvörðun byggingarfulltrúa um útgáfu lokaúttektarvottorðs verður því einskorðuð við eignarhluta kæranda.
Með vísan til framangreinds verður fallist á kröfu kæranda með þeim hætti sem í úrskurðarorði greinir.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við álitsumleitan.
Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúans í Stykkishólmi frá 10. febrúar 2012 um útgáfu vottorðs um lokaúttekt Borgarhlíðar 1 í Stykkishólmi.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu vottorða um lokaúttekt Borgarhlíðar 3, 5, 7 og 9.
Nanna Magnadóttir
_______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson