Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/1998 Jörfagrund

Ár 1998,  þriðjudaginn 19. maí  kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/1998
 
Krafa frá húseigendum við Esjugrund um stöðvun jarðvegsframkvæmda á svæði við Jörfagrund í Kjalarneshreppi þar sem fyrirhuguð eru raðhús samkvæmt skipulagi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. apríl 1998, kæra  H, Esjugrund  32, Kjalarnesi, O, Esjugrund 34 og B, Esjugrund 55 jarðvegsframkvæmdir á svæði sem fyrirhugað er undir raðhús við Jörfagrund og leyfi fyrir þeim framkvæmdum.

Þess er krafist að framkvæmdir við jarðvegsskiptin verði stöðvaðar og leyfi fyrir þeim ógilt.

Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málsatvik:  Á undanförnum misserum hafa skipulagsmál verið til endurskoðunar í Kjalarneshreppi. Er ljóst af gögnum málsins að þessi endurskoðun hefur verið til umfjöllunar þegar á árinu 1996 en borgarafundur var haldinn um þessi málefni í hreppnum hinn 25. júní það ár.  Var m. a. áformað að breyta deiliskipulagi Grundarhverfis en jafnframt var talið nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á aðalskipulagi hreppsins. Á haustmánuðum 1997 var gerð skipulagstillagna  komin á lokastig.  Var kynning á hinum nýju skipulagstillögum, dags. 14. október 1997, send íbúum í hreppnum og borgarafundur haldinn um þessi málefni hinn 27. sama mánaðar.  Í framhaldi af þessari kynningu komu fram ýmsar athugasemdir einkum varðandi tillögu að deiliskipulagi fyrir Grundarhverfi.  Var safnað undirskriftum á skjal þar sem mótmælt var tilteknum atriðum í hinni nýju tillögu en síðar kom fram undirskriftalisti þar sem lýst var stuðningi við hið nýja skipulag.  Allmargir af þeim sem áður höfði staðið að mótmælunum drógu þau til baka.  Tillögur hreppsnefndar að skipulagsbreytingunum voru auglýstar 18. desember 1997 og hlutu lögboðna meðferð. Við meðferð málsins var fallið frá að svo stöddu að gera fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi enda höfðu mál skipast svo að þeirra var ekki  lengur talin þörf vegna fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi Grundarhverfis. Vinnu var hins vegar haldið áfram við gerð þess. Var í ýmsum efnum komið til móts við athugasemdir sem fram komu við kynningu tillagnanna og var nýtt deiliskipulag fyrir Grundarhverfi samþykkt á hreppsnefndarfundi hinn  26. febrúar 1998 og sent Skipulagsstofnun til afgreiðslu hinn 26. mars sl. Athugasemdir Skipulagsstofnunar voru sendar sveitarstjóra Kjalarneshrepps hinn 29. apríl  1998 og var auglýsing um hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. maí 1998.  Hinn 15. apríl 1998 hóf Hallgrímur Árnason byggingameistari framkvæmdir við jarðvegsskipti á svæði sem ætlað er undir væntanlegar íbúðarbyggingar.  Hafði byggingarmeistarinn fengið munnlega heimild sveitarstjóra Kjalarneshrepps, sem jafnframt er byggingarfulltrúi hreppsins, til þess að hefja þessar framkvæmdir. Lýtur krafa kærenda að því að þessar framkvæmdir verði stöðvaðar og leyfi til þeirra fellt úr gildi. Úrskurðarnefndin hefur leitað umsagna Kjalarneshrepps og Skipulagsstofnunar  um kæruefnið og hafa umsagnir þeirra borist nefndinni.

Málsrök kærenda og hreppsnefndar Kjalarneshrepps:  Kærendur styðja kröfu sína um stöðvun framkvæmda þeim rökum að þær séu ekki í samræmi við staðfest skipulag sem í gildi hafi verið þegar leyfi til þeirra var veitt.  Af hálfu hreppsnefndar Kjalarneshrepps er því haldið fram að framkvæmdir þær sem leyfðar voru séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og deiliskipulag sem samþykkt hafi verið af hreppsnefnd hinn 26. febrúar sl. enda hafi verið farið eftir 25. grein laga nr. 73/1997 við samþykkt á því.  Það sé túlkun sveitarstjóra að deiliskipulagið hafi verið samþykkt enda sé ekki gert ráð fyrir því að neinn annar aðili en hreppsnefnd samþykki það.  Hinar umdeildu framkvæmdir fari því ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var fallið frá fyrirhuguðum breytingum á aðalskipulagi fyrir Kjalarneshrepp og er því enn í gildi það aðalskipulag sem fyrir var.  Hið nýja deiliskipulag fyrir Grundarhverfi sem nú hefur verið auglýst hafði verið samþykkt af hreppsnefnd Kjalarneshrepps þegar hið umdeilda leyfi til jarðvegsskipta var veitt og telur úrskurðarnefndin að hreppsnefnd hafi eins og á stóð verið heimilt að leggja það til grundvallar við ákvörðun um takmarkað leyfi til framkvæmda.  Samkvæmt ákvæði 25. gr. byggingar- og skipulagslaga nr. 73/1997 þarf ekki að staðfesta samþykkt deiliskipulag og var sveitarstjórn rétt að líta á samþykkt þess sem fullnægjandi grundvöll til að veita leyfi til takmarkaðra framkvæmda.  Samkvæmt  2. mgr. 44. gr. l. nr. 73/1997 má veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast það þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Verður að telja að á grundvelli þessarar heimildar og heimildar sama ákvæðis til útgáfu leyfis til jarðvegskönnunar hafi byggingarfulltrúa verið rétt að veita umbeðið leyfi til jarðvegsskipta enda lágu fyrir nauðsynlegar mælingar og útsetningar lóða.   Þá er það álit nefndarinnar að jarðvegsskipti þau, sem kærandi krefst stöðvunar á hafi ekki í för með sér röskun á hagsmunum sem réttlæti stöðvun framkvæmda.  Telur úrskurðarnefndin ljóst, að teldist deiliskipulag það sem framkvæmdirnar miðast við ekki hafa tekið gildi, þá megi með hægu móti færa umrætt svæði til fyrra horfs auk þess sem jarðvegsskiptin kæmu að umtalsverðum notum miðað við það deiliskipulag sem fyrir var.  Að öllu þessu athuguðu telur nefndin ekki efni til að verða við kröfu kærenda um stöðvun hinna umdeildu framkvæmda eða ógildingu leyfis til þeirra.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfum kærenda um að leyfi til framkvæmda við jarðvegsskipti á Kjalarnesi sem í kæru greinir verði fellt úr gildi.  Þá er einnig hafnað kröfu kærenda um að umræddar framkvæmdir verði stöðvaðar.