Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

92/2013 Krosshamrar

Árið 2014, mánudaginn 12. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 92/2013, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. ágúst 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðarinnar nr. 5 við Krosshamra í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. september 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra B, Krosshömrum 7 og J, Krosshömrum 7A, Reykjavík, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. ágúst 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðarinnar nr. 5 við Krosshamra. Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar og að réttaráhrifum hennar verði frestað til bráðabirgða.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. febrúar 2014, sem móttekið var sama dag, kæra fyrrnefndir kærendur, , jafnframt þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2013, sem staðfest var í borgarráði 3. s.m., að veita byggingarleyfi til að reisa 25,8 m² viðbyggingu úr timbri við húsið á lóðinni að Krosshömrum 5. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Gera kærendur jafnframt kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða á meðan málið er óútkljáð hjá úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er nr. 25/2014, sameinað máli þessu og verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg vegna hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar 23. janúar 2014 og vegna byggingarleyfis 15. apríl s.á.

Málavextir: Deiliskipulag Hamrahverfis, sem tekur til umrædds svæðis, var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur hinn 16. apríl 1985. Er lóðin Krosshamrar 5 á reit innan skipulagsins sem merktur er D. Samkvæmt skipulagsskilmálum er þar heimilt að reisa einbýlishús á einni hæð ásamt bílgeymslu og skal mesta leyfilega stærð aðalhæðar vera 200 m². Við sérstakar aðstæður er heimilt að sækja um leyfi hjá byggingarnefnd fyrir aukaíbúð. Kusu lóðarhafar Krosshamra 5 að gera svo og í september 1985 samþykkti skipulagsnefnd að í einbýlishúsinu á lóðinni mætti vera aukaíbúð. Í apríl 1986 var gerð eignaskiptayfirlýsing fyrir húsið þar sem fram kemur að þar séu tvær íbúðir. Önnur íbúðin var talin vera 110,9 m² að stærð og 64,5% eignarhluti fasteignarinnar með bílskúrsrétti, en hin íbúðin 61,1 m² og 35,5% eignarhluti fasteignarinnar. Var eignaskiptayfirlýsingunni þinglýst. Árið 2011 tók gildi breyting á deiliskipulagi umræddrar lóðar í þá veru að heimilað var að reisa 13,2 m² sólskála við suðurhlið hússins og við það varð aðalíbúð hússins 125 m².

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 31. maí 2013 var lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis. Tók breytingin til lóðarinnar Krosshamra 5 og fól í sér að byggingarreitur yrði stækkaður til norðurs um 25,8 m² og að húsið yrði stækkað að sama marki. Var samþykkt að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Krosshömrum 1, 3, 7 og 9 og bárust athugasemdir frá eigendum Krosshamra 7 og 7A við fyrirhugaða breytingu. Skipulagsfulltrúi vísaði málinu til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa hinn 1. ágúst 2013 var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Tók ráðið erindið fyrir hinn 14. ágúst s.á., ásamt umsögn skipulagsfulltrúa, sem lagði til að tillagan yrði samþykkt óbreytt. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð erindið með vísan til nefndrar umsagnar og birtist auglýsing um gildistöku skipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2013. Þá var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðslu málsins með bréfi, dags. 6. september s.á.

Hinn 17. september 2013 tók byggingarfulltrúi fyrir umsókn um leyfi til að reisa 25,8 m² viðbyggingu úr timbri við húsið að Krosshömrum 5. Frestaði byggingarfulltrúi afgreiðslu málsins með vísan til athugasemda á umsóknarblaði. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan umsóknina hinn 1. október 2013.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að þeir hafi við grenndarkynningu umdeildrar skipulagsbreytingar fært fram mótmæli fyrir breytingunni þar sem heimiluð viðbygging yrði óþægilega nálægt húsi kærenda og fæli í sér aukið skuggavarp. Hafi skipulagsfulltrúi svarað því svo að skuggavarp yrði kl. 12 á hádegi á tímabilinu nóvember til febrúar. Telji kærendur að á því tímabili sé af læknisfræðilegum ástæðum mest þörf á birtu en einnig sé bent á að yfirleitt séu garðar í mestri notkun seinni hluta dags. Fjarlægð milli húsanna verði 10 m en í svari skipulagsfulltrúa komi fram að algengasta fjarlægð milli húsa á svæðinu sé 9-10 m. Þetta sé rétt en eigi aðeins við um fjarlægð milli gafla og/eða bílskúra húsa í götunni, en hvergi sé svona stutt bil frá framhliðum eða bakhliðum húsa yfir í næstu byggingar, líkt og hér um ræði. Skipti þetta verulegu máli enda miklu óþægilegra að íbúðarhús sé stækkað í átt að stofugluggum nágranna en að húsgafli.

Ekki hafi verið gert ráð fyrir stækkun húsa í nágrenni við kærendur þegar þeir hafi fest kaup á húsi sínu. Geti stækkun hússins að Krosshömrum 5 rýrt verðgildi og sölumöguleika húss þeirra. Þá sé sérstök athygli vakin á því að þáverandi eigandi Krosshamra 5 hafi fengið samþykkta umsókn um breytingu deiliskipulagsins og byggingarleyfi fyrir hinni umdeildu viðbyggingu en ekki núverandi eigandi hússins. Jafnframt telji kærendur, með tilliti til framkvæmda við húsið sem hafnar séu, að einnig sé verið að stækka húsið fram í garðinn, umfram það sem umdeild skipulagsbreyting heimili.
 

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að hin kærða ákvörðun um breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis verði staðfest. Þá er krafist frávísunar á kæru vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa um byggingarleyfið, en ekki verði annað ráðið af kæru en að kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar sé liðinn skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu borgarinnar sé gerð krafa um að ógildingu ákvörðunarinnar verði hafnað og sé í því sambandi vísað til sjónarmiða borgarinnar varðandi fram komna kæru á breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis. Þá sé bent á að byggingarleyfið sé bundið við fasteign en ekki eiganda fasteignar.

Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Við breytinguna hækki nýtingarhlutfall lóðarinnar að Krosshömrum 5 úr 0,26 í 0,28. Algengast sé þó að nýtingarhlutfall á svæðinu sé á milli 0,2-0,3 en fari upp í allt að 0,53. Mæling skuggavarps, er fylgt hafi umsókn um greinda skipulagsbreytingu, sýni skugga kl. 12 á hádegi alla mánuði ársins. Frá maí til ágúst aukist ekki skuggavarp á hús kærenda, eða á þeim tíma sem mikilvægt sé að skerða ekki möguleika fólks til að njóta útivistar í görðum sínum. Það sé fyrst í nóvember og fram í febrúar að skuggar nái að húsi kærenda. Á þeim tíma sé sól lágt á lofti og skuggar langir og eðlilegt að skuggar falli á nærliggjandi hús í tiltölulega þéttri byggð. Krosshamrar 7 og 7A standi um einum metra hærra í landi en Krosshamrar 5, sem dragi aðeins úr skuggavarpi á fyrrgreindu lóðina. Almennt þurfi íbúar í þéttbýli að sætta sig við slíka skerðingu og sé hún ekki þess eðlis að leitt geti til ógildingar ákvörðunarinnar á grundvelli grenndarsjónarmiða.

Byggingarreitur sé 3 m frá lóðamörkum Krosshamra 5 og 7 en 10 m verði milli viðbyggingarinnar og húss kærenda. Nálægð milli húsanna sé ekki meiri en almennt geti talist miðað við önnur hús á svæðinu. Norðurgafl húss nr. 5 muni snúa að stofugluggum Krosshamra 7 og 7A. Telji Reykjavíkurborg að stækkun hússins sé óveruleg og hafi hverfandi grenndaráhrif. Byggingin muni ekki hafa í för með sér skert útsýni fyrir kærendur og umrædd hús verði ekki í óþægilegri nánd.

Málsrök eigenda Krosshamra 5: Eigendur Krosshamra 5 benda á að ekkert skuggavarp verði á lóð kærenda vegna hinnar umdeildu viðbyggingar nema að litlu leyti þegar sól sé lægst á lofti og aðeins fyrripart dags. Fjarlægð milli húsa sé ekki óvenjuleg og óljóst sé hvað kærendur eigi við með óþægilegri nálgun. Gaflinn á Krosshömrum 5 fari 3 m nær bakhlið lóðar nr. 7 við Krosshamra og þess utan sé hæðarmunur á lóðunum. Fyrrverandi eigandi hússins hafi verið búinn að ræða umrædda stækkun við kærendur sem hafi ekki verið sáttir við hana en hafi ekki ætlað að standa í vegi fyrir henni. Sé það mikið hagsmunamál fyrir eigendur Krosshamra 5 að fá að stækka húsið því kaupverð hafi tekið mið af því. Ekki sé verið að stækka húsið til vesturs eins og kærendur haldi fram heldur verði þar steyptur sólpallur.

Andmæli kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærendur taka fram að þeim hafi ekki verið send tilkynning um samþykkt byggingarfulltrúa. Hafi þeir sent fyrirspurn til Reykjavíkurborgar 13. febrúar 2014 og óskað upplýsinga um hvort búið væri að veita byggingarleyfið. Hafi þeir þá verið upplýstir um stöðu mála.

———-
 

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi hinn 16. apríl 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist frávísunar á kæru vegna ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2013, um veitingu byggingarleyfis fyrir viðbyggingu við húsið að Krosshömrum 5, sökum þess að lögbundinn eins mánaðar kærufrestur skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 hafi verið liðinn er kæran barst. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafi fyrst verið upplýstir um veitingu byggingarleyfisins með svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn þeirra hinn 13. febrúar 2014. Kæra vegna greindrar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni hinn 28. s.m., eða innan kærufrests samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði. Verður krafa kærenda vegna hins kærða byggingarleyfis því tekin til efnismeðferðar.

Lóðin Krosshamrar 5 liggur sunnan við lóð kærenda og hafa lóðirnar sameiginleg lóðamörk. Með hinni kærðu skipulagsbreytingu, sem gerð var með grenndarkynningu skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, er byggingarreitur lóðarinnar Krosshamra 5 stækkaður til norðurs um 3 metra í átt að húsi kærenda, en breidd byggingarreitsins verður 8,6 m, sem er breidd þess hluta hússins sem þar er fyrir. Stækkun byggingarreits lóðarinnar er því 25,8 m². Við breytinguna er heimiluð samsvarandi stækkun aukaíbúðar hússins og fer íbúðin í 86 m², en stærð aðalíbúðar er óbreytt, eða 125 m². Aðalhæð hússins verður því samtals 211 m², en samkvæmt deiliskipulagi Hamrahverfis var hámarksstærð aðalhæðar húsa á reitnum 200 m². Þá er á deiliskipulagssvæðinu a.m.k. eitt hús sem er yfir 200 m² að flatarmáli en það er parhús kærenda sem er 221,8 m² samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu verður fjarlægð frá byggingarreit Krosshamra 5 að húsi kærenda 10 m en lóð kærenda liggur um einum m hærra í landi en lóð Krosshamra 5. Ekki felst í skipulagsbreytingunni heimild til hækkunar húss á nefndri lóð. Af þessum sökum verður hverfandi breyting á skuggavarpi á lóð kærenda.

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn láta fara fram grenndarkynningu telji hún að gera þurfi breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Er sambærilegt ákvæði að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt er þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Þegar litið er til staðhátta á skipulagssvæðinu, sem áður voru raktir, þykir umdeild deiliskipulagsákvörðun hafa í för með sér minni háttar breytingu á gildandi deiliskipulagi. Þannig hefur hún hverfandi áhrif á útlit og form viðkomandi svæðis og ekki er um að ræða breytta notkun. Þá liggur fyrir að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting sem heimilar 11 m² stækkun á aðalhæð hússins umfram þá 200 m², sem leyfðir voru áður, felur í sér óverulega breytingu nýtingarhlutfalls, eða úr 0,26 í 0,28, en það er í góðu samræmi við það sem gerist á svæðinu. Eins verður vart talið að hin kærða ákvörðun feli í sér fordæmisgefandi breytingu þegar fyrir liggur að hús kærenda er stærra en 200 m². Var því heimilt, eins og hér stendur á, að fara með skipulagsbreytinguna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Með vísan til þess sem rakið hefur verið og með því að ekki liggur fyrir að um annmarka á málsmeðferð hafi verið að ræða verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Með hinu kærða byggingarleyfi er heimiluð 25,8 m² viðbygging úr timbri á hinum breytta byggingarreit. Samkvæmt  samþykktum teikningum verður gafl viðbyggingarinnar er snúa mun að kærendum án glugga og dyra. Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er byggingarleyfið í samræmi við gildandi deiliskipulag. Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar sé haldin ógildingarannmörkum verður kröfu um ógildingu byggingarleyfisins hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 14. ágúst 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hamrahverfis vegna lóðarinnar nr. 5 við Krosshamra.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 1. október 2013, sem staðfest var í borgarráði 3. s.m., um að veita byggingarleyfi til að reisa 25,8 m² viðbyggingu úr timbri við húsið á lóðinni að Krosshömrum 5.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________              ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson