Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/1998 Smyrlahraun

Ár 1998, fimmtudaginn 3. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 18/1998, kæra eigenda fasteignarinnar Smyrlahrauns 1, Hafnarfirði vegna ákvörðunar byggingarnefndar Hafnarfjarðar um að hafna umsókn kærenda um leyfi fyrir viðbyggingu við Smyrlahraun 1.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 29. maí 1998 er barst nefndinni  hinn 2. júní síðastliðinn kæra J og L, eigendur fasteignarinnar nr. 1 við Smyrlahraun í Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 22. apríl 1998 að synja umsókn kærenda um leyfi til að byggja við fasteignina Smyrlahraun 1.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hinn 28. apríl 1998 og tilkynnt kærendum með bréfi dags. 30. apríl síðastliðinn. Kæruheimild er samkvæmt  4. mgr. 39. gr. skipulags- og bygingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur krefjast þess að teikningar þær að fyrirhuguðum breytingum á fasteign þeirra, sem byggingarnefnd hafnaði á ofangreindum fundi verði úrskurðaðar gildar og hæfar til að vinna eftir breytingarnar á húsinu.

Málavextir: Snemma árs 1992 tóku eigendur fasteignarinnar  að Smyrlahrauni 1 að undirbúa umsókn um leyfi til stækkunar og endurbóta á eigninni.  Voru fyrstu teikningar að fyrirhuguðum breytingum gerðar í mars 1992.  Þessar fyrstu hugmyndir að breytingum á húsinu fengust ekki samþykktar og voru gerðar nýjar tillögur að breytingunum sumarið 1993 og voru þessar nýju hugmyndir að sögn kærenda bornar undir skipulagsstjóra Hafnarfjarðarbæjar svo og næstu nágranna.  Þessum tillögum mun einnig hafa verið hafnað en jafnframt mun kærendum hafa verið bent á að sækja um stækkun lóðar sinnar til að auðveldara yrði að heimila stækun húss þeirra. Var kærendum úthlutað 39,8 fermetra viðbót við lóð hússins og var þessi viðbót við lóðina tekin af opnu svæði, sem bæjaryfirvöld höfðu forræði á.  Samkvæmt áritun á uppdrátt skipulagsdeildar Hafnarfjarðarbæjar var þessi ráðstöfun samþykkt af bæjaryfirvöldum hinn 15. júlí 1993.  Í september sama ár gekk skipulagsdeild Hafnarfjarðarbæjar frá skilmálum fyrir uppbyggingu á lóð kærenda en drög að þeim skilmálum voru samþykkt í skipulagsnefnd bæjarins hinn 13. 9. 1993. Á uppdrætti skipulagsdeildar Hafnarfjarðarbæjar dags. 10. september 1993 (breytt 14. 9.) af lóð kærenda og byggingarreit með fyrihugaðri stækkun húss er gerð grein fyrir þessum skilmálum en jafnframt er sýnd á uppdrætti þessum tillaga að útliti húss kærenda eftir stækkun þess.  Þessa tillögu að útliti hússins segja kærendur hafa verið gerða án vitneskju sinnar eða samþykkis og hafi þessar tillögur ekki verið í samræmi við þær óskir, sem þau höfðu sett fram um breytingar á húsinu.  Síðla árs 1997 létu kærendur enn gera nýjar tillögur að breytingum á húseigninni.  Var fjallað um hina nýju tillögu á fundi skipulagsnefndar Hafnarfjarðarbæjar hinn 27. janúar 1998.  Í bókun um afgreiðslu nefndarinnar segir að nefndin fallist á að tillagan, sem sé í samræmi við samþykkta skilmála, verði send í grenndarkynningu samkvæmt lögum nr. 73/1997 og reglugerðargrein 7. 2. 3. Var arkitektum kærenda tilkynnt þessi ákvörðun nefndarinnar með bréfi dags. 27. janúar 1998. Hinn 3. apríl 1998 greiddu kærendur byggingarleyfisgjald vegna umsóknar til byggingarnefndar um umræddar breytingar og munu teikningar hafa verið lagðar fram með umsókninni.  Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 7. apríl 1998 er kærendum og arkitektum þeirra tilkynnt að gögnin séu ófullnægjandi og er umsækjanda bent á að snúa sér til byggingarfulltrúa. Hinn 21. apríl 1998 var málið aftur tekið fyrir í skipulagsnefnd og var kærendum og arkitektum þeirra tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar á málinu með bréfi dags. 22. apríl 1998.  Er bókun um afgreiðslu skipulagsnefndar á málinu svohljóðandi: “Meðal annars með tilliti til grenndarkynningar leggst skipulagsnefnd gegn erindinu eins og það liggur fyrir.  Umsækjanda er bent á að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum á lóðinni dags. 10.09.´93.”   Umsókn kærenda um umræddar breytingar var tekin til afgreiðslu á fundi byggingarnefndar Hafnarfjarðar daginn eftir að skipulagsnefnd hafði afgreitt málið eða hinn 22. apríl 1998 og var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: “M.t.t. afstöðu skipulagsnefndar 21. þm. getur byggingarnefnd ekki orðið við erindinu.”  Var þessi afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 28. apríl 1998 og arkitektum kærenda tilkynnt um þessa niðurstöðu með bréfi dagsettu 30. apríl 1998.  Er tekið fram í bréfinu að heimilt sé að kæra ákvörðunina til Umhverfisráðuneytisins og að kærufrestur sé 3. mánuðir.

Með bréfi til byggingarfulltrúa dags. 5. maí 1998 óskuðu arkitektar kærenda þess að ákvörðun byggingarnefndar yrði dregin til baka og erindi kærenda endurupptekið, enda hafi umsókn kærenda ekki átt að koma til umfjöllunar í byggingarnefnd fyrr en búið væri að gera þær úrbætur á innlögðum gögnum, sem bent hefði verið á að gera þyrfti.  Ekki verður ráðið af gögnum málsins að bréfi þessu hafi verið svarað og vísuðu kærendur málinu til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála með bréfi dags. 29. maí 1998 eins og að framan greinir.  Þegar kæra í máli þessu var lögð fram hjá úrskurðarnefndinni láðist kærendum að upplýsa um endurupptökubeiðni þá, sem arkitektar þeirra höfðu sent byggingarfulltrúa og áður er getið.  Bárust nefndinni fyrst upplýsingar um endurupptökubeinina um eða eftir miðjan júní síðastliðinn er kærandi sendi afrit af beiðninni til nefndarinnar með ódagsettri orðsendingu.  Var frekari meðferð málsins frestað meðan leitað var upplýsinga um það hvernig umrætt erindi hefði verið afgreitt enda hefði kærumálinu lokið sjálfkrafa hefði hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og erindi kærenda tekið upp að nýju í byggingarnefnd eins og óskað hafði verið.  Við eftirgrennslan kom hins vegar í ljós að erindi arkitekta kærenda um endurupptöku málsins virtist ekki hafa fengið formlega afgreiðslu.  Var málið því tekið til efnislegrar meðferðar í úrskurðarnefndinni í byrjun júlímánaðar sl. en kæranda jafnframt gerð grein fyrir því að afgreiðslu málsins kynni að seinka vegna þessara atvika.

Málsrök kærenda og byggingarnefndar:  Kærendur styðja kröfur sínar þeim rökum að breytingar sambærilegar þeim, sem umsókn þeirra felur í sér hafi verið heimilaðar í næsta nágrenni.  Benda þeir m. a. á breytingar á Hverfisgötu 25, sem sé næsta hús neðan húss þeirra og byggt á sama tíma.  Þar hafi verið leyfð porthækkun á þaki og meiri hækkun á mæni en kærendur fari fram á.  Einnig benda kærendur á húsið að Smyrlahrauni 5 þar sem leyfð hafi verið porthækkun og umtalsverð grunnflatarmálsstækkun. Húsið að Smyrlahrauni 1 þarfnist sárlega viðhalds og óviðunandi sé að ekki fáist leyfi til sambærilegra endurbóta á því og leyfðar hafi verið á eignum í grenndinni.  Þá hafi skipulagsnefnd staðfest að þær tillögur að breytingum á húsinu, sem hafnað var, séu í samræmi við skipulagsskilmála.  Ennfemur byggja kærendur á því að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til umsóknar þeirra þar sem óskað hafði verið lagfæringa á teikningum og þeim ekki lokið þegar málið var tekið til afgreiðslu.  Af hálfu byggingarnefndar hafa ekki verið færð fram nein frekari rök en fram koma í málsgögnum en ákvörðun byggingarnefndar er tekin á grundvelli afgeiðslu skipulagsnefndar í málinu.

Umsagnir:  Með vísun til e-liðar 4. gr. laga nr. 73/1997 var óskað umsagnar Skipulagsstofnunar um mál þetta. Í umsögn stofnunarinnar kemur fram að ekki sé í gildi staðfest eða samþykkt deiliskipulag á því svæði, sem um ræðir.  Þegar vitnað sé í samþykkt skipulag og skilmála á lóðinni dags. 10. september 1993 sé verið að vísa í teikningu og greinargerð merkta skipulagsdeild Hafnarfjarðar þar sem fram komi að drög skilmálanna hafi verið samþykkt í skipulagsnefnd 13. september 1993.  Telur Skipulagsstofnun að ef skipulagsyfirvöld sveitarfélaga telji þörf á setningu sérstakra skilmála vegna endurnýjunar í eldri hverfum skuli það gert með almennum hætti, það er með samþykkt deiliskipulags. Í umsögn stofnunarinnar kemur og fram að samkvæmt skipulags- og byggingarlögum sé heimilt að veita byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu þó ekki liggi fyrir deiliskipulag.  Hafi grenndarkynning farið fram í hinu kærða tilviki og hafi umsókn kærenda verið synjað með vísan til til hennar auk ábendinga um að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum.  Byggingarnefnd rökstyðji synjun sína aðeins með vísun til afstöðu skipulagsnefndar en kæranda séu ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvaða ágallar það séu á gögnum sem verði til þess að ekki sé unnt að fallast á erindi hans, né heldur um það með hvaða hætti hann geti bætt úr þeim.  Telur Skipulagsstofnun að byggingarnefnd Hafnarfjarðar hafi ekki uppfyllt skyldu til rökstuðnings afgreiðslu skv. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga né heldur leiðbeiningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum.

Í umsögn byggingarnefndar Hafnarfjarðar um málið er tekið fram að kvittað hafi verið fyrir móttöku erindis varðandi viðbyggingu við hús kærenda hinn 3. apríl 1998.  Erindið hafi verið tekið til umfjöllunar í skipulagsnefnd 21. apríl 1998 og hafi nefndin lagst gegn viðbyggingunni eins og hún lá fyrir.  Sama erindi hafi fengið synjun í byggingarnefnd hinn 22. apríl 1998.  Teikningar, sem síðar hafi borist hafi sýnt nánar það sem ekki hafi komið fram á fyrri uppdráttum en stærð og útlit hafi verið það sama og áður.  Nýtt erindi varðandi sama hús hafi ekki borist byggingarnefnd Hafnarfjarðar.

Niðurstaða:  Úrskurðarnefndin telur að meðferð skipulagsnefndar og byggingarnefndar Hafnarfjarðar á máli þessu hafi verið áfátt í ýmsum efnum.  Ósamræmi er í bókunum skipulagsnefndar um málið, sem  á fundi  hinn 27. janúar 1998 kveður tillögu arkitekta kærenda vera í samræmi við samþykkta skilmála en í bókun á fundi hinn 21. apríl 1998 bendir nefndin umsækjanda á að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum á lóðinni.  Fyrir liggur í málinu umsögn skipulagsstjóra Hafnarfjarðarbæjar um málið dags. 20. apríl 1998, sem fram var lögð á fundi skipulagsnefndar hinn 21. sama mánaðar.  Þar eru raktar athugasemdir, sem fram höfðu komið við grenndarkynningu og verður ekki annað ráðið af umsögninni en að afstaða skipulagsstjóra sé í öllum aðalatriðum jákvæð gagnvart framkomnum tillögum.  Segir m. a. í umsögninni að tillagan fylgi í einu og öllu tillögu bæjarskipulags sem samþykkt hafi verið hinn 14. mars 1994 nema kvistir liggi framar á þaki en þar hafi verið gert ráð fyrir.  Ekki sé hægt að taka undir að viðbygging við Smyrlahraun 1 sé óeðlileg að stærð og gerð í umhverfi sínu.  Segir í umsögninni að lagt sé til að samþykki skipulagsnefnd tillögu að viðbyggingu verði kvistir að fullu felldir að samþykktri tillögu.  Tillaga bæjarskipulags samþykkt 14. mars 1994, sem vitnað er til í umsögn skipulagsstjóra, er ekki meðal gagna málsins og liggur ekki fyrir hvort um sömu tillögu er að tefla og tillögu þá frá september 1993, sem skipulagsnefnd vitnar til bæði á fundi sínum hinn 27. janúar 1998 og 21. apríl 1998.  Það misræmi, sem fram kemur í umfjöllun skipulagsnefndar um málið telur úrskurðarnefndin til þess fallið að gera kærendum erfitt fyrir um að átta sig á afstöðu skipulagsnefndar í málinu. 

Þá er rökstuðningi skipulagsnefndar fyrir ákvörðun nefndarinnar í málinu stórlega áfátt.  Með orðunum meðal annars er vísað til einhverra ótiltekinna atriða, sem ómögulegt er fyrir kærendur að ráða í hver séu.  Vísað er til niðurstöðu grenndarkynningar án þess að þess sé getið hvaða athugasemdir hafi komið fram, sem nefndin telji eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að synja beri erindi kærenda.  Þá er umsækjanda bent á að aðlaga uppdrætti að samþykktu skipulagi og skilmálum á lóðinni án þess að tilgreint sé í hvaða efnum þess gerist þörf.  Var þó rík ástæða til þess að skipulagsnefnd upplýsti um það að hvaða leyti hún teldi erindi kæranda ekki samræmast tilvitnuðum skilmálum þegar það er hafi í huga að nefndin hafði áður, við afgreiðslu á fundi sínum hinn 27. janúar 1998, lýst því áliti sínu að að tillaga kærenda væri í samræmi við samþykkta skilmála.

Þegar málið kom til umfjöllunar á fundi byggingarnefndar hinn 22. apríl 1998 lá fyrir að byggingarfulltrúi hafði með bréfi dags. 7. apríl 1998 bent kærendum á að innlögð gögn með umsókn þeirra um byggingarleyfið væru ófullnægjandi og að arkitektum kærenda hafði ekki unnist ráðrúm til þess að bæta úr því sem áfátt var talið.  Bænadagar og páskar voru 9. til 13. apríl og var því rétt rúm vinnuvika liðin frá því ætla má að arkitektunum hafi borist umrætt bréf.  Þá voru í umsögn skipulagsnefndar ráðagerðir um það að umsækjendum gæfist kostur á að aðlaga uppdrætti að þeim kröfum, sem skipulagsnefnd taldi þurfa að uppfylla til þess að umbeðið leyfi yrði veitt.  Úrskurðarnefndin telur að við þessar aðstæður hafi umsókn kærenda ekki verið verið í því horfi að byggingarnefnd væri rétt að taka hana til endanlegrar afgreiðslu og hefði byggingarnefnd þess í stað átt að fresta því að taka lokaákvörðun í málinu.  Þá er það skoðun úrskurðarnefndarinnar að sá rökstuðningur byggingarnefndar að vísa til hinnar óljósu bókunar skipulagsnefndar fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga um rökstuðning, sbr. og 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Loks telur úskurðarnefndin ámælisvert að byggingarnefnd svaraði ekki erindi arkitekta kærenda frá 5. maí 1998 þar sem farið er fram á endurupptöku málsins í byggingarnefnd.

Úrskurðarnefndin telur ekki unnt að verða við kröfum kærenda um að úrskurða teikningar að fyrirhuguðum breytingum á fasteign þeirra gildar og hæfar til að vinna eftir breytingarnar á húsinu.  Skortir allar forsendur til þess að leggja fyrir byggingarnefnd að gefa út byggingarleyfi til handa kærendum eins og mál þetta liggur fyrir.

Hins vegar er það niðurstaða úrskurðarnefndar að vegna þeirra annmarka, sem að framan er lýst, beri að fella úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 22. apríl 1998 um að synja umsókn kærenda um byggingarleyfi. Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kærenda til meðferðar á ný.  Ber að leiðbeina kærendum og gefa þeim kost á að koma að þeim gögnum sem á þótti skorta til að umsókn þeirra gæti komið til efnislegrar afgreiðslu.  Nýja afgreiðslu byggingarnefndar ber að rökstyðja með fullnægjandi hætti.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Hafnarfjarðar frá 22. apríl 1998 sem staðfest var af bæjarstjórn Hafnarfjarðar  þann 28. sama mánaðar er felld úr gildi. Jafnframt er lagt fyrir byggingarnefnd Hafnarfjarðar að taka umsókn kærenda um leyfi til viðbyggingar að Smyrlahrauni 1, Hafnarfirði til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu hennar með þeim hætti sem greinir í niðurstöðu úrskurðarnefndar hér að framan.