Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/1998 Vallá

Ár 1998, þriðjudaginn 25. ágúst kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16 /1998, kæra M vegna málsmeðferðar Kjalarneshrepps á umsókn um leyfi til byggingar smáhýsis á eignarlandi hennar úr landi jarðarinnar Vallár á Kjalarnesi.

 
Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 20. maí 1998, er barst nefndinni hinn 25. maí 1998, kærir H, Grundartanga 56, Mosfellsbæ f. h. M til heimilis í Picton í Ástralíu, málsmeðferð Kjalarneshrepps á umsókn M um byggingarleyfi fyrir smáhýsi á eignarlandi hennar úr landi Vallár á Kjalarnesi. Krefst kærandi þess að lagt verði fyrir sveitarstjórn Kjalarneshrepps, eða annað stjórnvald er kemur í hennar stað, að afgreiða nú þegar beiðni kæranda um útgáfu umrædds byggingarleyfis. Kæruheimild er samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Málavextir:  Kærandi er eigandi eins hektara eignarlands úr landi jarðarinnar Vallár á Kjalarnesi.  Hinn 18. janúar 1996 sótti kærandi um leyfi til að byggja smáhýsi á landinu og var umsókn hennar tekin til umfjöllunar á fundi byggingarnefndar Kjalarneshrepps hinn 22. apríl 1996. Samkvæmt bókun byggingarnefndar á fundinum var málinu frestað en tekið fram að hreppsnefnd hafi samþykkt að byggt verði hús á landinu. Í framhaldi af umfjöllun um umsókn kæranda um byggingarleyfi var hafinn undirbúningur að breytingum á skipulagi jarðarinnar Vallár, sem að mati sveitarstjórnar voru nauðsynlegar til þess að unnt væri að afgreiða umsóknina. Verulegur dráttur sýnist hafa orðið á því að fyrirhugaðar tillögur að breyttu skipulagi væru unnar en hinn 17. desember 1997 óskaði sveitarstjórn Kjalarneshrepps heimildar skipulagsstjóra ríkisins til að auglýsa tillögu að breyttu skipulagi jarðarinnar Vallár vegna íbúðarhúss á landi kæranda.  Með bréfi dags. 18. desember 1997 heimilaði Skipulag ríkisins að tillagan yrði auglýst að uppfylltum skilyrðum, sem í bréfinu greinir.  Á fundi hreppsnefndar Kjalarneshrepps hinn 26. febrúar 1998 var samþykkt að auglýsa breytingu á skipulagi jarðarinnar Vallár þannig að M verði heimilað að byggja sumarhús á landi sínu með kvöðum um að heimilt verði að byggja landbúnaðarbyggingar í allt að 100 metra fjarlægð frá lóðarmörkum.  Kemur fram í bréfi hreppsnefndar til kæranda dags. 25. mars 1998 að verið sé að vinna að gerð uppdráttar vegna auglýsingar á breyttu skipulagi og verði auglýsingin send út á allra næstu dögum.  Auglýsing um tillögu að hinu breytta skipulagi var síðan birt hinn 6. júní 1998.

Haustið 1996 hófust könnunarviðræður um sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur og var kosin samstarfsnefnd til að vinna að gerð tillögu um sameiningu sveitarfélaganna.  Var sameining þeirra samþykkt í kosningum í júní 1997 og kom til framkvæmda að afloknum sveitarstjórnarkosningum er fram fóru hinn 23. maí síðastliðinn.  Hefur Borgarskipulag Reykjavíkur annast meðferð skipulagsmála á Kjalarnesi frá þeim tíma og meðal annars tekið við athugasemdum vegna skipulagstillögu þeirrar um land Vallár, sem auglýst var.  Frestur til að skila inn athugasemdum vegna tillögunnar rann út hinn 31. júlí síðastliðinn og var fjallað um framkomnar athugasemdir á fundi í skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur hinn 17. ágúst 1998.  Var ákveðið að gefa kæranda kost á að tjá sig um framkomnar athugasemdir og mun umboðsmanni kæranda hafa verið sent erindi þar að lútandi.

Ekki þótti unnt að leita umsagnar sveitarstjórnar Kjalarneshrepps í máli þessu enda hafði hún látið af störfum þegar kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni en leitað var upplýsinga hjá fyrrverandi sveitarstjóra um kæruefnið.

Niðurstaða: Í kæru sinni til úrskurðanefndar heldur kærandi því fram að byggingarnefnd Kjalarneshrepps hafi á fundi sínum hinn 22. apríl 1996 samþykkt að veita kæranda leyfi til byggingar þeirrar, sem um var sótt.  Þessi staðhæfing kæranda sýnist á misskilningi byggð enda kemur glöggt fram í bókun byggingarnefndar um málið á umræddum fundi að því hafi verið frestað. Kærandi byggir á kæruheimild 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga  og kærir í skjóli þeirrar heimildar þann drátt, sem orðinn var á afgreiðslu umsóknar hennar um byggingarleyfi.  Skömmu eftir að kæran barst úrskurðarnefndinni var birt auglýsing um breytingu á skipulagi jarðarinnar Vallár, sem miðar að því að leggja grundvöll að afgreiðslu umsóknar kæranda. Á fundi úrskurðarnefndar hinn 10. júlí 1998 var ákveðið að fresta uppkvaðningu úrskurðar í máli þessu þar til lokið væri þeim skipulagsbreytingum.  Gerð þessara breytinga er nú á lokastigi og hefur umboðsmaður kæranda framkomnar athugasemdir við skipulagstillögurnar nú til athugunar þar sem henni hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um þær.  Ekki þykir fært að bíða endanlegrar afgreiðslu breytts skipulags enda væri afgreiðslutími málsins í úrskurðarnefndinni þá orðinn lengri en 3 mánuðir, sem er andstætt ákvæði 4. mgr. 8. gr. skipulags- og bygginarlaga nr. 73/1997 um hámarkslengd afgreiðslutíma mála hjá nefndinni.

Sveitarstjórn og byggingarnefnd Kjalarneshrepps létu af störfum við sameiningu hreppsins við Reykjavíkurborg.  Þykir því ekki hafa þýðingu að finna að seinagangi þeirra stjórnvalda við afgreiðslu á erindi kæranda.  Af hálfu Borgarskipulags Reykjavíkur er nú á lokastigi meðferð skipulagsbreytingar sem miðar að því að unnt verði að afgreiða umsókn kæranda.  Verður að ætla að þegar hið breytta skipulag hefur tekið gildi verði unnt að afgreiða umsóknina með eðlilegum hætti.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir þykir kærandi, með vísun til framanritaðs, ekki eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá efnisúrlausn um kröfu sína í málinu og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda, M, um að lagt verði fyrir þar til bær stjórnvöld að afgreiða umsókn hennar um útgáfu leyfis til byggingar smáhýsis á eignarlandi hennar úr landi Vallár á Kjalarnesi er vísað frá úrskurðarnefnd.