Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

26/1998 Keilugrandi

Ár 1998, föstudaginn 4. september kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/1998, kærur eigenda Fjörugranda 2, 14, 16, og 18  vegna ákvörðunar byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998 um að veita Grýtu-Hraðhreinsun ehf. leyfi til að breyta austureiningu húseignarinnar að Keilugranda 1 til reksturs þvottahúss með brennslu svartolíu og reisa þar 12 metra háan reykháf.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála dags. 5. júlí 1998 sem móttekið var 6. sama mánaðar kæra M, Fjörugranda 14, Á, Fjörugranda 16 og E, Fjörugranda 18 byggingarleyfi til breytinga á starfsemi og húsnæði að Keilugranda 1 í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun er samþykkt byggingarnefndar Reykjavíkur hinn 14. maí 1998 á umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. um leyfi til að breyta austureiningu Keilugranda 1 til reksturs þvottahúss með brennslu svartolíu og til að setja upp 12 metra háan reykháf við húsið.  Ákvörðun þessi var staðfest af borgarstjórn hinn 4. júní 1998.  Með kæru dags. 6. júlí 1998, sem móttekin er hinn 7. sama mánaðar, kærir Tryggvi Gunnarsson hrl. f. h. eigenda Fjörugranda 2, Reykjavík,  sömu ákvörðun.  Ákvað úskurðarnefndin að sameina kærur þessar og fjalla um kæruefnið í einu máli enda eru kröfur kærenda hinar sömu og reistar á sömu eða sambærilegum ástæðum.  Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar.  Af hálfu eigenda Fjörugranda 2 er gerð sú varakrafa að hinni kærðu ákvörðun verði breytt þannig að ekki verði heimilaðar breytingar á húsnæðinu eða viðbætur við það (reykháfur) til brennslu á svartolíu.  Um kæruheimild vísast til 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 sbr. 8. grein sömu laga.

Málavextir:  Hinn 1. október 1997 lagði Grýta-Hraðhreinsun ehf. fyrirspurn fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur um það hvort leyft yrði að byggja 80 fermetra viðbyggingu úr timbri fyrir ketilhús og verkstæði við austurhlið hússins nr.  1 við Keilugranda.  Fyrirspurn þessari var af hálfu byggingarnefndar vísað til umsagnar Borgarskipulags Reykjavíkur.  Lá umsögn Borgarskipulags fyrir hinn 29. október 1997 og kemur fram í henni að fyrirhuguð starfsemi sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Er því lagt til að leyfi fyrir viðbyggingunni verði veitt tímabundið og bundið við starfsemi þá sem sótt er um en viðbyggingin sé til komin af öryggisástæðum.  Einnig er tekið fram að samþykki eigenda Boðagranda 2 þurfi að liggja fyrir og að kynna þurfi breytinguna fyrir eigendum nálægra húsa við Boðagranda og Fjörugranda.  Byggingarfulltrúi óskaði umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um málið með bréfi dags. 24. nóvember 1977.  Í umsögn þess er gerð grein fyrir ákvæðum laga og reglugerða sem gæta þurfi og er leitast við að leggja mat á hættu á loftmengun frá hinni fyrirhuguðu starfsemi.  Taldi Heilbrigðiseftirlitið ekki ástæðu til að leggjast gegn staðsetningu þvottahúss á þessum stað enda yrði tryggt eftir föngum að loftmengun ylli nágrönnum ekki heilsutjóni eða óþægindum.  Á fundi byggingarnefndar hinn 11. desember 1997 var lögð fram umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. um byggingarleyfi. Fylgdu umsókninni uppdrættir, sem m. a. sýna fyrirhugað ketilhús og 8,5 metra háan reykháf.  Var málinu frestað með vísun til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en í umsögninni hafði verið lagt til að umsækjanda yrði gert að leggja fram útreikninga og skýringar er sýndu að fyrirhuguð skorsteinshæð nægði til að tryggja að loftmengun við nærliggjandi íbúðarhús væri innan ásættanlegra marka áður en málið yrði endanlega afgreitt af byggingarnefnd.  Með bréfi verkfræðings umsækjanda til byggingarfulltrúa dags. 20. janúar voru kynntir útreikningar á skorsteinshæð og kemur fram að 12 metra skorsteinshæð sé fullnægjandi til þess að tryggja að loftmengun við nærliggjandi hús verði ásættanleg. Á fundi byggingarnefndar hinn 29. janúar 1998 var erindi Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. vísað til skipulags- og umferðarnefndar til kynningar.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar var ákveðið að kynna erindi Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. fyrir nágrönnum með vísun til 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og var húseigendum að Boðagranda 2, 6, og 8 og Fjörugranda 14, 16 og 18 gefinn kostur á að tjá sig um málið og koma að athugasemdum fyrir 13. mars 1998.  Einnig mun eiganda Fjörugranda 8 hafa verið sent erindi sama efnis.  Áður en frestur til athugasemda rann út bárust  Borgarskipulagi athugasemdir frá meirihluta þeirra sem málið hafði verið kynnt fyrir en jafnframt mótmæli fjölda annarra íbúa og eigenda fasteigna við Fjörugranda, Boðagranda og Keilugranda.  Lagði Borgarskipulag til að tekið yrði tillit til íbúa og bygging ketilhúss ekki leyfð.  Í framhaldi af þessari niðurstöðu lagði Grýta-Hraðhreinsun ehf. fram nýja uppdrætti þar sem fallið var frá byggingu ketilhússins en ketillinn færður inn í hús það sem fyrir er á lóðinni og aðeins reykháfi við hann ætlað að standa utan við austurvegg hússins.  Í umsögn Borgarskipulags vegna þessarar breytingar dags. 20. mars 1998 er lagt til að starfsemin verði leyfð tímabundið, leyft verði að reisa skorstein sem fullnægi kröfum Heilbrigðiseftirlits og að bílastæðum verði fækkað.  Á fundi skipulags- og umferðarnefndar hinn 23. mars 1998 var samþykkt að kynna nýjar teikningar fyrir hagsmunaðilum. Var þeim nágrönnum, sem áður höfðu verið kynnt fyrri áform og sent höfðu inn athugasemdir af því tilefni,  sent erindi til kynningar á hinum nýju teikningum og gefinn kostur á að tjá sig um þær fyrir 2. apríl 1998. Íbúar Fjörugranda 14, 16 og 18 áréttuðu fyrri mótmæli og gerðu athugasemdir við hinn stutta frest, sem veittur var til andsvara. Rituðu þeir jafnframt, ásamt íbúum að Keilugranda 8, bréf til borgarstjóra þar sem sjónarmið þeirra voru rakin.

Umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. var samþykkt í byggingarnefnd hinn 14. maí 1998 og staðfest í borgarstjórn 4. júní 1998.  Frekari mótmæli voru send Borgarskipulagi vegna þessara ákvarðana, m. a. mótmæli eigenda Fjörugranda 2, kærenda í máli þessu, sem mótmæltu því að þeim hefðu ekki verið kynntar fyrirhugaðar breytingar.  Með kærum sem að ofan greinir vísuðu kærendur málinu síðan til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Málsástæður og lagarök málsaðila:  Af hálfu kærenda er í fyrsta lagi á því byggt að byggingarleyfi það, sem um er deilt í málinu, sé ekki í samræmi við staðfest aðalskipulag.  Samkvæmt staðfestu aðalskipulagi fyrir Reykjavík 1996-2016 sé svæði það sem lóðin nr. 1 við Keilugranda er á áætlað til blandaðrar notkunar, íbúðar- og stofnanasvæði. Fyrir liggi staðfesting Borgarskipulags á því að starfsemi sú, sem byggingarleyfishafi ætli að hafa í húsinu sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 sé óheimilt að veita leyfi til framkvæmda nema þær séu í samræmi við staðfest aðalskipulag og sé enga heimild að finna í lögum til að veita byggingarleyfi í andstöðu við aðalskipulag. 

Í öðru lagi benda kærendur á að hið umdeilda byggingarleyfi sé ekki í samræmi við samþykkt hverfaskipulag.  Hverfaskipulag sé skipulagsáætlun sem fjalli um flesta þætti skipulags svo sem húsnæði, umferð og umhverfi.  Með því séu sett ákveðin markmið.  Í hverfaskipulagi fyrir svæði það sem hér um ræði komi fram sú stefna að tilgreindum atvinnulóðum á svæðinu skuli breytt í íbúðar- og útivistarsvæði þar sem atvinnustarfsemi í hverfinu sé á undanhaldi.  Eigi þetta m. a. við um lóðina að Keilugranda 1.  Í samræmi við þetta hafi notkun lóðarinnar verið breytt í því aðalskipulagi, sem staðfest var 1997, í íbúða- og stofnanasvæði en skilgreining lóðarinnar sem stofnanasvæði hafi komið til vegna hugmynda um að reka í húsnæði á lóðinni rannsókna- og kennslustarfsemi.  Telja kærendur að með samþykkt hverfaskipulagsins hafi Reykjavíkurborg sem stjórnvald tekið bindandi ákvörðun um það efni sem þar birtist og verði þeirri ákvörðun ekki breytt nema með sambærilegri ákvörðun.  Fyrirhugaðar framkvæmdir feli í sér verulegt frávik frá þeirri byggð sem fyrir sé á svæðinu og skerði hagsmuni kærenda í ríkara mæli en þeir máttu ætla með tilliti til aðalskipulags og áðurgreinds hverfaskipulags.

Í þriðja lagi telja kærendur að ekki hafi verið heimilt að veita hið kærða byggingarleyfi á grundvelli undantekningarheimildar 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Ákvæðið feli ekki í sér skilyrðislausa heimild til afgreiðslu umsókna um byggingarframkvæmdir að undangenginni grenndarkynningu enda sé slík lögskýring ótæk.  Ákvæðið beri að túlka þröngt og sé á grundvelli þess ekki heimilt að samþykkja byggingarleyfi sem fari í bága við skipulagsáætlanir sbr. staðfest aðalskipulag og samþykkt hverfaskipulag.

Í fjórða lagi halda kærendur því fram að lagaskilyrðum um grenndarkynningu hafi ekki verið fullnægt. Hafi grenndarkynningin ekki tekið til allra þeirra sem hagsmuna áttu að gæta en auk þess hafi kynningu á nýju og breyttu fyrirkomulagi verið áfátt meðal annars hvað varðar frest til athugasemda.  Skilyrði 7. mgr. 43. gr. laga nr 73/1997 hafi því ekki verið fullnægt.

Þá er af hálfu kærenda á því byggt að lóðin að Keilugranda 1 sé leigð undir fiskverkun og felist í þeim skilmálum kvöð um umráða- og notkunarrétt á lóðinni.  Hafi þessari kvöð um nýtingu lóðarinnar ekki verið aflétt.  Ennfremur telja kærendur málið ekki nægjanlega upplýst svo og að samþykkt byggingarnefndar uppfylli ekki kröfur um skýrleika stjórnvaldsákvörðunar og rökstuðning.  Eru þessar málsástæður reifaðar ítarlega í kæru eigenda Fjörugranda 2.

Af hálfu byggingarleyfishafans, Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. er því haldið fram að aðal athugasemdir nágranna sem fram hafi komið við grenndarkynningu hafi verið að byggja ætti ketilhús við austurenda Keilugranda 1 og að bílastæði og útkeyrsla ættu að vera við suðurgafl hússins.  Komið hafi verið til móts við þessar athugasemdir og hafi ketilhúsið verið fært inn í þá byggingu, sem fyrir er á lóðinni, auk þess sem samþykkt hafi verið að leyfa leiksvæði á lóðinni að standa áfram og að útkeyrslu út á Keilugranda yrði lokað.  Hafi þetta verið að frumkvæði byggingarleyfishafa.  Þá hafi verið ákveðið að hækka reykháf frá upphaflegum áformum til að fullvissa væri fyrir því að enginn í nágrenninu yrði þess nokkurn tímann var ef eitthvað kæmi út úr þessum reykháf.  Breytingarnar hafi verið kynntar fyrir nágrönnum og hlotið samþykki skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkurborgar í framhaldi af því.  Byggingarleyfi hafi verið gefið út og hafi miklum fjármunum verið varið til framkvæmda og tækjakaupa.  Er í greinargerð byggingarleyfishafans gerð nánari grein fyrir fjárhagslegum hagsmunum hans af því að fá að halda áfram framkvæmdum á grundvelli hins umdeilda byggingarleyfis.  Í greinargerðinni er einnig gerð grein fyrir samanburði þeirra kosta að nota rafmagn annars vegar og svartolíu hins vegar til kyndingar.  Kveður byggingarleyfishafi svartolíukostnað einungis nema um 30% af kostnaði við rafmagnskyndingu.  Er bent á að ýmis fyrirtæki í borginni noti svartolíu og eru tilfærð dæmi þar um.  Loks er á það bent að lóðarleigusamningur fyrir Keilugranda 1 renni út árið 2016.  Vilji byggingarleyfishafinn halda frið við nágranna þann tíma og muni kappkosta að svartolíuketill á staðnum fái alltaf fyrsta flokks viðhald og að hús og lóð fái viðhald sem verði til sóma. Fiskikör við húsið muni heyra sögunni til og sé rekstur þvottahúss til muna þrifalegri og umhverfisvænni en rekstur fiskiðju.

Umsagnir: Í umsögn byggingarnefndar Reykjavíkur um kæruefnið er gerð ítarleg grein fyrir sjónarmiðum nefndarinnar.  Er þar gerð grein fyrir því hvernig staðið var að grenndarkynningu byggingaráformanna og kemur þar fram að síðari kynning málsins, þ. e. kynning á breyttum teikningum, hafi ekki verið grenndarkynning í skilningi skipulags- og byggingarlaga heldur hafi þessi kynning verið gerð á grundvelli stjórnsýslulaga enda hafi verið um sömu umsókn að ræða og áður hafði verið kynnt með lögformlegum hætti.  Þá er í umsögninni gerð grein fyrir því hvernig byggingarnefnd telur að skilja beri skilmála aðalskipulags og landnotkunarkort.  Er á það bent að aðalskipulag sé skipulagsáætlun þar sem fram komi stefna sveitarstjórnar um landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi, umhverfismál og þróun byggðar í sveitarfélaginu á minnst 12 ára tímabili.  Landnotkunarkort sýni notkun lands til mismunandi þarfa en við gerð þess sé miðað við landnotkun á samfelldum svæðum eða reitum en ekki notkun húsnæðis á einstökum lóðum.  Við ákvörðun á landnotkun sé lagt til grundvallar að svæði fái skilgreiningu þess landnotkunarflokks sem 70% af heildargólffleti bygginga á svæðinu falli undir en nái enginn landnotkunarflokkur því hlutfalli sé svæðið merkt litum tveggja hæstu landnotkunarflokka svæðisins. Lóðir verslunarmiðstöðva, opinberrar þjónustu og opin svæði til sérstakra nota séu þó sýnd með sérstökum lit innan landnotkunarsvæðis, nái slík svæði 1500 fermetra stærð.  Samkvæmt forsendum gildandi aðalskipulags séu einstakar lóðir hins vegar ekki merktar litum iðnaðar heldur hafi iðnaðarlóðir fengið lit samkvæmt öðrum skilgreiningum ýmist sem athafnasvæði, stofnanasvæði eða fylgi meginnotkun svæðisins samkvæmt 70% reglunni.  Lóðin að Keilugranda 1 sé samkvæmt nýju aðalskipulagi merkt blandaðri notkun þ. e. íbúða- og stofnanasvæði en í húsinu hafi verið rekinn iðnaður í sjávarútvegi.  Starfsemi sú sem fyrirhugað sé að komi í hluta húsnæðisins sé þjónustufyrirtæki, sem samkvæmt umsögn skipulags- og umferðarnefndar rúmast innan þess ramma sem aðalskipulagið kveður á um.  Loks er tekið fram að það hafi verið mat byggingarnefndar að vel athuguðu máli og að fengnum umsögnum þeirra aðila er um málið hafi fjallað að fyrirhuguð þjónustustarfsemi efnalaugar væri mildandi notkun frá þeirri starfsemi, sem lóðin var leigð til, enda væri sýnt fram á að starfsemin væri innan þeirra marka sem sett eru með lögum og reglugerðum.
 
Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar kemur fram það álit að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist ekki gildandi aðalskipulagi og sé því andstætt ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.  Þá hafi seinni grenndarkynningunni verið áfátt auk þess sem rökstuðningur fyrir ákvörðun byggingarnefndar í málinu sé ófullnægjandi sbr. 2. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997.  Telur stofnunin að fallast beri á kröfur kærenda um að hið umdeilda byggingarleyfi verði fellt úr gildi, svo og að framkvæmdir verði stöðvaðar. 

Leitað var umsagnar Hollustuverndar ríkisins um loftmengun frá fyrirhuguðum svartolíukatli.  Er það niðurstaða Hollustuverndar að ekki sé líklegt að nýr svartolíukyntur gufuketill með 12 metra háum reykháfi, sem rekinn sé með góðum hætti, valdi því að loftmengun fari yfir viðmiðunarmörk í nágrenni Keilugranda 1.  Tekið er fram að setja þurfi kröfur um uppkeyrslu, rekstur, mengunarvarnir við eldsneytis- og efnanotkun og lágmarks eftirlit í starfsleyfi.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 24. ágúst síðastliðinn að fulltrúum kærenda og byggingarleyfishafa viðstöddum.  Að ósk nefndarinnarlét byggingaleyfishafi gera stafrænar myndir af húsinu að Keilgranda 1 og hefur reykháfur, sömu gerðar og fyrihugaður er, verið settur inn á myndirnar þar sem honum er ætlaður staður. 

Niðurstaða:  Kærendur í máli þessu gerðu kröfu til þess að framkvæmdir byggingarleyfishafa yrðu stöðvaðar.  Eftir að honum hafði verði gert kunnugt um framkomnar kærur féllst hann á að hefjast ekki handa um framkvæmdir utandyra, þ. e. við uppsetningu reykháfs og frágang olíugeymis fyrir svartolíu.  Var af hálfu kærenda fallist á að ekki þyrfti að taka til meðferðar kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda meðan ekki væri hafist handa við framkvæmdir utanhúss.  Hafa þær framkvæmdir ekki hafist og  hefur úrskurðarnefndin því ekki tekið kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til úrlausnar.

Það er skoðun úrskurðarnefndar að sýnt hafi verið fram á það með fullnægjandi hætti að ekki muni stafa slík loft- eða sjónmengun af hinum fyrirhugaða svartolíukatli og reykháfi að  óviðunandi  hefði verið fyrir íbúa í næsta nágrenni.  Hins vegar þurfti að vera fullnægt almennum skilyrðum laga til útgáfu byggingarleyfis til þess að unnt væri að samþykkja umsókn Grýtu-Hraðhreinsunar ehf. um leyfi til fyrirhugðara breytinga á fasteigninni að Keilugranda 1 og breytinga á notkun hússins.  Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er óheimilt að breyta húsi, notkun þess eða svipmóti nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Er raunar ekki um það deilt að slíks leyfis var þörf fyrir þeim framkvæmdum, sem byggingarleyfishafi hafði uppi áform um enda sótti hann um leyfi til þeirra. Í 2. mgr. 43. gr. greindra laga er kveðið á um það að framkvæmdir samkvæmt 1. málsgrein skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Fyrir liggur að samkvæmt samþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur 1996-2016 er lóðin að Keilugranda 1 skilgreind sem íbúða- og stofnanasvæði. Fær sú skilgreining frekari stoð í þeirri áætlun sem fram er sett í hverfaskipulagi borgarhluta 2, sem samþykkt var í borgarráði 5. mars 1991.  Fyrirhuguð starfsemi byggingarleyfishafa er að mati úrskurðarnefndar ekki þess eðlis að gera hafi mátt ráð fyrir henni á íbúðasvæði sbr. grein 4.3.2. í þágildandi skipulasgsreglugerð nr. 318/1985 með síðari breytingum.  Er það því niðurstaða úrskurðarnefndar að hið umdeilda byggingarleyfi samræmist ekki gildandi aðalskipulagi og er sú niðurstaða í samræmi við umsögn Borgarskipulags dags. 29. október 1997 um fyrirspurn byggingarleyfishafa.  Var útgáfa hins umdeilda byggingarleyfis því andstæð ákvæði 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Við meðferð málsins í byggingarnefnd var farið að ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 og fyrirhugaðar framkvæmdir kynntar nágrönnum þeim, sem taldir voru eiga hagsmuna að gæta.  Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði getur byggingarnefnd veitt byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir samþykkt deiliskipulag að undangenginni grenndarkynningu.  Samkvæmt heimild í sama ákvæði er einnig hægt að leyfa óverulega breytingu á deiliskipulagi að viðhafðri hliðstæðri málsmeðferð.  Úrskurðarnefndin telur að skýra verði heimildir þessar þröngt og að ekki sé heimilt á grundvelli þeirra að veita leyfi til framkvæmda sem ekki eru í samræmi við staðfest aðalskipulag sem í gildi er þegar byggingarleyfi er veitt.

Samkvæmt 23. gr. l. nr. 73/1997 skal deiliskipulag gert á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Verður að skilja þetta ákvæði svo að deiliskipulag skuli vera í samræmi við það aðalskipulag, sem í gildi er þegar deiliskipulag er samþykkt.  Af þessu leiðir að óheimilt væri að breyta deiliskipulagi á þann veg að breytingin væri í ósamræmi við aðalskipulag jafnvel þótt breytingin gæti í sjálfu sér talist óveruleg.  Slík breyting yrði því ekki gerð með grenndarkynningu með stoð í 7. mgr. 43. gr. l. 73/1997.  Það er og skoðun úrskurðarnefndar að heimild 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 til að leyfa framkvæmdir í þegar byggðum hverfum þar sem ekki liggur fyrir samþykkt deiliskipulag feli ekki í sér rýmri heimildir en þær sem hægt væri að mæla fyrir um með almennum skilmálum við gerð deiliskipulags.  Verður því ekki á grundvelli þessarar heimildar veitt leyfi til framkvæmda sem fara í bága við staðfest aðalskipulag.

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið skorti lagaskilyrði fyrir útgáfu hins umdeilda byggingarleyfis og ber þegar af þeirri ástæðu að verða við kröfum kærenda um að fella það úr gildi.  Af sömu ástæðu þykir ekki hafa þýðingu að taka afstöðu til þess hvort grenndarkynning sú, sem fram fór vegna umsóknar byggingarleyfishafa, hafi fullnægt lagaskilyrðum eða hvort undirbúningi, formi og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið áfátt.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 14. maí 1998, staðfest af borgarstjórn þann 4. júní s.á. um að heimila Grýtu-Hraðhreinsun ehf. að breyta austureiningu Keilugranda 1, Reykjavík, í þvottahús er felld úr gildi.