Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

174/2016 Grensásvegur 16a og Síðumúli 37-39

Árið 2017, föstudaginn 20. janúar, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 174/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Steinnes sf., Síðumúla 34, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. nóvember 2016 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir lóðina Grensásveg 16A/Síðumúla 37-39. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 5. og 19. janúar 2017.

Málsatvik og rök:
Hinn 16. desember 2015 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar samþykkt að auglýsa framlagða tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina Grensásveg 16A/Síðumúla 37-39. Í tillögunni fólst að byggja við núverandi húsnæði á lóðinni og breyta nýtingu þess. Yrði það nýtt fyrir íbúðir, hótel, skrifstofu- og þjónustustarfsemi. Var afgreiðslan staðfest af borgarráði 8. janúar 2016. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 10. febrúar s.á. með athugasemdarfresti til 23. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma þ. á m. frá kæranda. Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 2. nóvember 2016. Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 28. október s.á.. Á fundi borgarráðs 10. nóvember 2016 var sú afgreiðsla lögð fram og hún samþykkt.

Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 25. s.m.,  voru gerðar athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og hefur slík auglýsing ekki verið birt.

Kærandi skírskotar til þess að með nýju deiliskipulagi sé gert ráð fyrir verulegri aukningu á byggingarmagni og fækkun bílastæða. Séu hagsmunir hans verulega skertir, en  fasteign hans muni rýrna í verði. Útsýnisskerðing verði veruleg og hafi matsgerð löggilds fasteignasala sýnt fram á að gera megi ráð fyrir um 5-12% verðrýrnun.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er bent á að hækkun húsa og þétting byggðar sé í takt við aðalskipulag Reykjavíkurborgar. Á umræddu skipulagssvæði sé einkum gert ráð fyrir skrifstofum, rýmisfrekri smásöluverslun, stofnunum, ráðgjafar- og þjónustufyrirtækjum, fjármálastarfsemi, hótelum og veitingastöðum. Fallast megi á að hin kærða ákvörðun geti haft þau áhrif að útsýni skerðist eitthvað. Hins vegar sé almennt litið svo á að aðilar í þéttri borgarbyggð geti ávallt búist við því að umhverfi þeirra taki breytingum og eigi borgarbúar ekki lögvarinn rétt á því að uppbygging á lóðum haldist óbreytt um aldur og ævi. Loks sé vakin athygli á að Skipulagsstofnun hafi gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku og eigi borgarráð eftir að taka ákvörðun um hvort að deiliskipulagstillagan verði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagstillögu fyrir lóðina Grensásveg 16A/Síðumúla 37-39, sem samþykkt var af borgarráði 10. nóvember 2016. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og kemur fram í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að kærufrestur teljist frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér frá Reykjavíkurborg er verið að fara yfir athugasemdir Skipulagsstofnunar og að því loknu muni borgarráð taka lokaákvörðun um hvort að umþrætt deiliskipulag verði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að hin kærða ákvörðun hefur enn ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en slíkt er skilyrði gildistöku hennar og markar upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. þau lagaákvæði sem áður eru rakin. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki telst lokaákvörðun í skilningi ákvæðisins, ekki borin undir kærustjórnvald. Þar sem lögboðinni málsmeðferð hefur enn ekki verið lokið í skilningi nefndrar lagagreinar verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt er að benda á að samkvæmt upplýsingum Reykjavíkurborgar hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort að hið kærða deiliskipulag verði auglýst til gildistöku, en verði svo gert sætir það kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir