Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

170/2016 Hillusamstæða

Árið 2017, fimmtudaginn 26. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 170/2016, beiðni um að úrskurðað verði um það hvort uppsetning á manngengum hillusamstæðum sé byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. desember 2016, er barst nefndinni sama dag, fór A, f.h. Ferils ehf., fram á að tekin verði afstaða til þess hvort uppsetning á manngengu hillukerfi sé byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Mál þetta sætir meðferð skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsatvik og rök: Í bréfi sínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. desember 2016, tekur bréfritari fram að umbjóðandi hans hafi tekið á leigu atvinnuhúsnæði og hyggist setja þar upp manngengt hillukerfi til þess að nýta betur lofthæð húsnæðisins. Um sé að ræða CE-merkt hillukerfi, sem sett verði upp og tekið niður aftur að leigutíma liðnum. Engar breytingar þurfi að gera á húsnæðinu til þess að koma hillukerfinu fyrir og muni það ekki tengjast burðarkerfi hússins að öðru leyti en því að það komi til með að standa á gólfi þess, rétt eins og hver annar búnaður sem settur sé inn í húsnæðið. Bréfritari telji að hillukerfið sé lausafé en ekki mannvirki og þar með sé uppsetning þess ekki byggingarleyfisskyld framkvæmd.

Með tölvupósti til bréfritara, dags. 22. desember 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um staðsetningu framangreinds húsnæðis og í hverju ágreiningur um byggingarleyfisskylduna fælist, ásamt gögnum um umrædda hillusamstæðu. Kom og fram að umbeðnar upplýsingar þyrftu að liggja fyrir svo hægt væri að setja fyrirspurnina í hefðbundið ferli.

Í svari bréfritara til úrskurðarnefndarinnar var tekið fram að enginn ágreiningur væri um þetta, en um það ríkti hins vegar óvissa/vafi og fyrir lægju misvísandi upplýsingar og túlkanir frá byggingarfulltrúum og Mannvirkjastofnun. Fylgdu í viðhengi myndir og upplýsingar um „dæmigert hillukerfi“. Loks var tekið fram að bréfritari teldi fyrirspurnina svo almennt orðaða að ekki skipti máli hvar umrætt húsnæði væri staðsett.

Niðurstaða: Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er kveðið á um að leiki vafi á því hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi eða falli undir 2. eða 3. mgr. nefnds ákvæðis skuli leita niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr., en samkvæmt þeirri grein sæta stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í þessu máli er um að ræða almenna fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um staðsetningu fyrirhugaðra framkvæmda og samkvæmt upplýsingum bréfritara er ekki uppi ágreiningur vegna málsins. Hlutverk úrskurðarnefndarinnar, samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsefna vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Falla lögspurningar, sem ekki tengjast tilteknum fyrirliggjandi ágreiningi, utan verksviðs úrskurðarnefndarinnar. Er málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson