Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

17/2022 Bakkabraut

Árið 2022, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2022, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 14. febrúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. febrúar 2022, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi fasteignarinnar að Bakkabraut 6A, Vík í Mýrdal, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 14. febrúar 2022 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mýrdalshreppi 4. apríl 2022.

Málavextir: Bakkabraut 6A er hús á tveimur hæðum sem skráð er í fasteignaskrá sem tvær íbúðir. Í júní 2017 leitaði kærandi til byggingarfulltrúa vegna fyrirhugaðra breytinga á húsinu og óskaði eftir upplýsingum um hvort sækja þyrfti um byggingarleyfi vegna þeirra. Í september s.á. sendi kærandi „umsókn um samþykki fyrir breytingu á fyrirkomulagi“ á neðri hæð hússins með tölvupósti til byggingarfulltrúa. Þáverandi byggingarfulltrúi sendi kæranda tölvupóst 18. desember s.á. þar sem fram kom að hann gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á neðri hæð hússins. Kærandi upplýsti með tölvupósti til byggingarfulltrúa 27. ágúst 2018 að til stæði að hefja framkvæmdir á neðri hæð hússins. Fram kom að hann hafi fengið munnlegt sam­­þykki fyrir því að hefja framkvæmdir, en hann teldi sig ekki hafa fengið formlegt sam­þykki. Óskaði hann eftir því að erindið yrði tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd. Í kjölfarið svaraði byggingarfulltrúi með eftirfarandi hætti: „Ein ástæða þess að málið hefur ekki verið sérstaklega tekið fyrir í skipulags- og byggingarnefnd er að ég er ekki alveg viss um að þessar framkvæmdir séu þess eðlis að skipulagsnefnd þurfi sérstaklega að fjalla um þær.“ Samkvæmt upplýsingum frá kæranda stóðu framkvæmdir á neðri hæð hússins yfir frá september 2018 til apríl 2019. Í framkvæmdunum fólst m.a. að gólf neðri hæðar var lækkað þar sem lofthæðin var um tveir metrar, ásamt því að ný gólfplata var steypt.

Í september 2019 óskaði núverandi byggingarfulltrúi eftir burðarþols- og lagnateikningum fyrir íbúðina á neðri hæð hússins. Kærandi sendi byggingarfulltrúa tölvupóst 31. janúar 2020 þar sem fram kom að hann sækti „formlega um að fá samþykki til að láta hanna og teikna breytingar“ á efri hæð hússins og var fyrirhuguðum breytingum nánar lýst. Byggingarfulltrúi upplýsti kæranda 28. febrúar 2020 um að breytingarnar væru byggingarleyfisskyldar og að hann þyrfti því að sækja um leyfi. Þar sem ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu þyrfti að leggja fram umsókn um byggingarleyfi fyrir skipulagsnefnd. Kærandi sendi umsókn um byggingarleyfi ásamt greinargerð um fyrirhugaðar breytingar á efri hæð hússins með tölvupósti til byggingarfulltrúa 12. mars 2020. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingar­nefndar 16. s.m. og var byggingarfulltrúa falið að framkvæma grenndarkynningu þegar aðaluppdráttur hefði borist. Bókun nefndarinnar var staðfest í sveitarstjórn 19. s.m. Grenndar­kynning hófst 20. maí 2020 og var frestur til að gera athugasemdir til 18. júní s.á. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 13. ágúst 2020 var ekki fallist á athugasemdir sem bárust á grenndarkynningartíma. Sveitarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 20. s.m. og samþykkti „fyrir sitt leyti útgáfu byggingarleyfis“. Byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um þessa afgreiðslu með tölvupósti 22. ágúst 2020 og tók fram að byggingarleyfi yrði gefið út samkvæmt skilyrðum „núverandi byggingarreglugerðar“. Næsta skref væri að senda inn raf­ræna umsókn um byggingarleyfi og vísaði byggingarfulltrúi til leiðbeininga um ferlið.

Hinn 7. september 2020 sendi kærandi inn rafræna umsókn um byggingarleyfi. Í henni var fyrirhuguðum breytingum á efri hæð lýst nánar. Byggingarfulltrúi sendi kæranda athugasemdir vegna umsóknarinnar 20. s.m. þar sem m.a. sagði: „Breytingar gerðar á neðri hæð voru gerðar af eiganda án leyfis og verður að meðhöndla og tilkynna þær sem hluta af nýrri framkvæmd.“ Kærandi sendi byggingarfulltrúa uppfærða aðaluppdrætti 12. desember 2020 og svaraði hann erindinu 11. febrúar 2021 þar sem m.a. kom fram: „Lofthæð í íbúð á jarðhæð merkt 0101 er minni en 2,50 m að innanmáli, sjá 6.7.2. gr. byggingarreglugerð nr. 112/2012.“ Hinn 26. s.m. sendi kærandi inn uppfærðar teikningar og greinargerð með svörum við athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi gerði frekari athugasemdir með bréfi, dags. 26. mars 2021, sem lutu m.a. að því að undanþága samkvæmt 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð ætti ekki við og því væri gerð krafa um 2,5 m lofthæð í samræmi við gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Kærandi skilaði inn greinargerð frá byggingartæknifræðingi, dags. 15. apríl s.á., þar sem færð voru rök fyrir því að bundið væri sérstökum erfiðleikum að hækka lofthæð neðri hæðar og farið fram á að lofthæðin fengi að vera 2,30 m. Byggingarfulltrúi sendi kæranda athugasemdir með tölvupósti 7. júní s.á. þar sem ítrekað var að framangreind undanþága ætti ekki við í tilviki kæranda og því væri gerð krafa um 2,5 m lofthæð. Sú afgreiðsla var kærð til úrskurðar­nefndarinnar, en með úrskurði í kærumáli nr. 99/2021, uppkveðnum 22. desember 2021, var málinu vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki var talið að um lokaafgreiðslu á málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga væri að ræða.

Lögmaður kæranda krafðist lokaafgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi með tölvupósti til sveitarfélagsins 7. janúar 2022 og var erindið ítrekað 26. s.m. og 8. febrúar s.á. Byggingar­fulltrúi synjaði umsókn kæranda um byggingarleyfi með bréfi, dags. 14. febrúar 2022.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að þau rök sem synjun byggingarfulltrúa byggi á eigi við um síðari stig byggingarleyfisumsóknar, þ.e. eftir að aðaluppdráttur hafi verið samþykktur. Enginn ágreiningur sé um þau atriði og þau muni verða uppfyllt. Með því að ítreka að byggingarfulltrúi hafi áður yfirfarið aðaluppdrætti en að ekki hafi verið farið eftir athuga­semdum hans staðfesti að hann muni ekki samþykkja aðaluppdrátt vegna ágreinings um lofthæð á neðri hæð. Kæruefnið sé sú ákvörðun byggingarfulltrúa að samþykkja ekki núverandi lofthæð íbúðar á neðri hæð og annað ekki. Það sé kjarni málsins og það eina sem úrskurðar­nefndin þurfi að fjalla um.

Byggingin sé yfir 100 ára gömul og sé þar með friðuð. Minjastofnun hafi skilað inn sérstakri greinargerð um málið með áliti þar sem lagst hafi verið eindregið gegn kröfu byggingarfulltrúa um lögbundna lofthæð á neðri hæð og vísað til fordæma um samþykki byggingarfulltrúa fyrir því að heimila lægri lofthæð í friðuðum byggingum víða um land. Kærandi hafi ítrekað fært rök fyrir því að það sé sannarlega bundið sérstökum erfiðleikum að uppfylla kröfu byggingar­reglugerðar um lofthæð. Svo virðist sem byggingarfulltrúi sé ekki meðvitaður um leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar við gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 varðandi breytingar á mannvirkjum byggðum í gildistíð eldri byggingarreglugerðar.

Um frávik frá 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð komi fram í leiðbeiningum HSM að loft­hæð þegar byggðra mannvirkja hafi í eldri byggingarreglugerðum verið að lágmarki 2,40 m en sé 2,50 m í gildandi byggingarreglugerð. Í slíkum tilvikum sé ekki ætlast til þess að lofthæðinni sé breytt enda sé það oft ógerningur. Tillögur byggingarfulltrúa um hvernig megi breyta loft­hæðinni séu ekki mögulegar og skapi um leið önnur vandamál. Stórmál sé að hækka hæðarskil um 20 cm og myndi það jafngilda því að rífa þyrfti efri hæð hússins og byggja aftur upp frá grunni. Einnig þyrfti að eyðileggja stóran hluta af nýlegri framkvæmd, þ.e. rífa þyrfti alveg frágang á útveggjum og lofti íbúðar á neðri hæð.

Þáverandi byggingarfulltrúi hafi sent tölvupóst 24. júní 2021 til núverandi byggingarfulltrúa og sveitarstjóra þar sem fram kom að hann hefði á sínum tíma ekki gert kröfu um að breytingar stæðust kröfur núgildandi reglugerðar þar sem hann hefði metið það sem svo að ekki væri um breytta notkun húsnæðis að ræða eftir endurbætur. Staðfesti þáverandi byggingarfulltrúi að hann hafi vitað af fyrirætlunum kæranda um endurbætur á íbúð á neðri hæð og ekki gert athuga­semdir við m.a. að lofthæðin yrði aukin úr 2 m í 2,30 m.

Byggingarfulltrúi búi til hindrun í framgangi umsóknarferlis að tilefnislausu. Ekki sé tímabært að skrá ábyrgðaryfirlýsingar og tryggingar. Fylgigögnum sem skila eigi inn vegna útgáfu byggingarleyfis, sbr. 3. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð, beri ekki að skila fyrr en aðaluppdráttur hafi verið samþykktur. Gerðar séu athugasemdir við vinnubrögð byggingar­fulltrúa í þessu máli. Ekki samræmist góðri stjórnsýslu að vanrækja afgreiðslu brýnna verkefna. Að koma með athugasemd varðandi lofthæðina á seinni stigum umsóknar og að það sé það eina sem standi í vegi fyrir því að framkvæmdin fari á næsta stig sé ekki samkvæmt góðri stjórn­sýslu þar sem byggingarfulltrúi hefði vitað af umræddri lofthæð frá upphafi umsóknar. Hálft ár hafi liðið þar til athugasemdin barst.

Sveitarfélagið hafi innheimt gjald fyrir útgáfu byggingarleyfis án þess að gefa það út, þrátt fyrir að skýrt standi í gjaldskrá sveitarfélagsins að „greiða skal byggingarleyfisgjald fyrir hverja byggingu sem hefur fengið útgefið byggingarleyfi“. Gjaldið hafi verið greitt í apríl 2021. Innheimt hafi verið gjald í mótsögn við formlegrar og útgefnar reglur sveitarfélagsins.

Málsrök Mýrdalshrepps: Sveitarfélagið bendir á að kærandi hafi ekki getað vísað til neinna skriflegra gagna um samþykki fyrri byggingarfulltrúa fyrir umræddum framkvæmdum. Honum hafi verið leiðbeint um að hann þyrfti að senda skriflega lýsingu á fyrirhuguðum fram­kvæmdum áður en leyfi yrði gefið út á grundvelli umsóknar um byggingarleyfi. Í október 2019 hefði kærandi lagt fram ófullnægjandi teikningar. Í ágúst 2020 hefði skipulagshlutinn verið afgreiddur og byggingarfulltrúi óskað eftir því að skjöl um byggingarleyfisumsóknina yrðu lögð fram. Fyrstu hönnunargögn sem hefðu verði lögð fram í desember 2020 hefðu ekki sýnt hæðarmælingar. Vísað hefði verið til kjallaraíbúðarinnar sem núverandi íbúðar og hefði verið gerð athugasemd við það. Frekari hönnunargögn hefðu verið lögð fram í desember 2020 og þeim síðan breytt í janúar 2021. Þau hefðu sýnt „hæð á milli hæða“ sem ekki hefði áður verið sýnd. Byggingarfulltrúi hefði í kjölfarið sett fram athugasemdir sínar um það.

Vinnan við að dýpka kjallarann hafi átt sér stað árið 2020 og því standist ekki tilvísun til eldri byggingarreglugerðar. Fyrir liggi að húsinu hafi verið breytt mjög mikið og tilgangur breytinganna sé augljóslega ekki sá að endurreisa eldri byggingu. Áður hafi verið tvær íbúðir á efri hæð með þvottahúsi, geymslu og vinnuaðstöðu í kjallara. Nú séu þrjár íbúðir á efri hæð og ein íbúð með þvottahúsi í kjallara. Kjallarinn hafi aldrei verið notaður sem íbúðarhúsnæði. Þar sem verkið í kjallaranum hafi verið unnið ólöglega séu engar úttektir eða skýrslur tiltækar og því ómögulegt að sannreyna gæði eða veruleika fullyrðinga eiganda varðandi þá vinnu sem unnin hafi verið.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að vinna við að dýpka neðri hæð hafi átt sér stað árin 2018 og 2019 með samþykki og vitund fyrri byggingarfulltrúa sem hafi staðfest það sérstaklega með tölvupósti til núverandi byggingarfulltrúa 24. júní 2021. Lofthæð íbúðar á neðri hæð hafi verið rúmlega 2 m fyrir breytingar en ekki 1,7 m enda sé um að ræða íbúðarrými og það notað sem slíkt. Í ágúst 2018 hefði kærandi sent fyrirspurn til þáverandi byggingarfulltrúa þar sem framkvæmdum hefði verið lýst í grófum dráttum. Byggingarfulltrúi hafi talið framkvæmdina þess eðlis að hún þyrfti ekki að fara fyrir byggingarnefnd og að hann myndi afgreiða málið sjálfur. Byggingarfulltrúi hafi ekki gert athugasemdir við áframhaldandi framkvæmdir á neðri hæð. Þá sé fullyrðing um að neðri hæðin hafi aldrei verið notuð sem íbúðarhúsnæði röng.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A. Umsókninni var synjað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 14. febrúar 2022, þar sem fram kemur að byggingarfulltrúi árétti fyrri afstöðu sína.

Hin kærða ákvörðun er studd þeim rökum að meira en ár væri liðið frá grenndarkynningu umsóknar kæranda án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út og fullnægjandi gögn samkvæmt byggingarreglugerð nr. 112/2012 vanti, þ.e. staðfestingu á tryggingu hönnuðar, sbr. gr. 4.1.1. í reglugerðinni, og gögn samkvæmt 3. mgr. gr. 2.4.1. í sömu reglugerð. Þá var fyrri afstaða byggingarfulltrúa ítrekuð um að lofthæð neðri hæðar umrædds húss uppfyllti ekki kröfur byggingarreglugerðar og heimild reglugerðarinnar um frávik á lofthæð ætti ekki við.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt er um byggingarleyfi sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir en framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Hafi byggingar- eða framkvæmdaleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt, sbr. 4. mgr. 44. gr. laganna og hefði skipulagsnefnd því átt að láta fara fram grenndarkynningu að nýju áður en umsókn kæranda um byggingarleyfi var afgreidd.

Í gr. 4.1.1. í byggingarreglugerð er fjallað um ábyrgð og hlutverk hönnuða. Sam­kvæmt 4. mgr. ákvæðisins skal hönnuður hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu, sbr. ákvæði laga um mannvirki og reglugerðar um starfsábyrgðartryggingar hönnuða og byggingarstjóra. Áður en hönnuður leggur fram uppdrætti fyrir leyfisveitanda skal hann framvísa staðfestingu þess er tryggingu veitir að hann hafi fullnægjandi tryggingu, sbr. 5. mgr. nefnds ákvæðis. Almennt verður að ætlast til þess af umsækjendum að þeir leggi til þau gögn sem til grundvallar umsókn þeirra liggja. Að sama skapi ber stjórnvaldi að leiðbeina um það hver þau gögn geti verið eða eftir atvikum hvernig hægt sé að nálgast þau, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hvílir sú skylda á stjórnvöldum samkvæmt 10. gr. sömu laga að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

Af gögnum málsins er ljóst að byggingarfulltrúi óskaði ekki eftir staðfestingu á tryggingu hönnuðar skv. gr. 4.1.1. í byggingarreglugerð eða benti á að hana vantaði fyrr en umsókninni var hafnað þrátt fyrir að samskipti á milli kæranda og byggingarfulltrúa hafi verið talsverð frá framlagningu byggingarleyfisumsóknar til hinnar kærðu ákvörðunartöku. Verður að telja að byggingarfulltrúa hafi borið að leiðbeina kæranda um að skila inn staðfestingu á tryggingu hönnuðar áður en hann synjaði umsókn um byggingarleyfi á þeim grundvelli. Var málsmeðferð að þessu leyti ekki í samræmi við leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu samkvæmt stjórnsýslu­lögum.

Fjallað er um umsókn um byggingarleyfi í gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal á fyrra stigi umsóknar, þ.e. vegna byggingaráforma, skila inn gögnum sem tilgreind eru í 2. mgr. ákvæðisins en á seinna stigi, þ.e. fyrir útgáfu byggingarleyfis, skal skila inn gögnum sem tilgreind eru í 3. mgr. ákvæðisins. Synjun á umsókn um byggingarleyfi vegna breytinga á Bakkabraut 6A var m.a. studd þeim rökum að gögn samkvæmt síðastnefndu ákvæði vantaði. Þar sem fram kemur berum orðum í 1. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð að skila skuli inn gögnum sem tilgreind eru í 3. mgr. ákvæðisins á seinna stigi umsóknar verður að telja rökstuðningi umdeildrar ákvörðunar að þessu leyti áfátt.

Fram kemur í gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð að lofthæð í íbúðarherbergjum og eldhúsi skuli vera a.m.k. 2,50 m að innanmáli, mælt frá fullfrágengnu gólfi að fullfrágengnu lofti. Þó sé heimilt að víkja frá þessu ef meðalhæð herbergis er minnst 2,20 m og lofthæð minnst 2,50 m í að minnsta kosti 2/3 hluta þess. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er lofthæð neðri hæðar umrædds húss 2,30 m. Lofthæðin nær því ekki því lágmarki sem mælt er fyrir um í gr. 6.7.2. í reglugerðinni.

Í einstökum ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar er tekin afstaða til þess hvort þar greindar kröfur verði að uppfylla við breytingar á eldri mannvirkjum. Má þar nefna að í 3. mgr. gr. 6.1.5. segir svo: „Ef sérstökum erfiðleikum er bundið að uppfylla ákvæði þessa hluta reglugerðarinnar án þess að breyta að verulegu leyti megin gerð mannvirkis, burðarvirki, útliti, innra skipulagi eða öðrum sérkennum sem vert er að varðveita, getur leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum þessa hluta reglugerðarinnar. Í slíkum tilvikum skal hönnuður skila sérstakri greinargerð um það hvaða ákvæðum óskað er eftir að víkja frá, um ástæður þess að ekki er unnt að uppfylla þau og hvort unnt er með öðrum hætti að tryggja aðgengi þannig að markmið þessa hluta reglugerðarinnar séu uppfyllt. Taka skal sérstakt tillit til mannvirkja sem falla undir ákvæði laga um menningarminjar.“ Af ákvæðum núgildandi byggingarreglugerðar verður sú ályktun dregin að beita skuli þeim ákvæðum hennar er varða öryggi og heilbrigði við breytingar á eldri mannvirkjum og við breytta notkun þeirra, en auk þess geti leyfisveitandi heimilað að vikið sé frá einstökum ákvæðum 6. hluta reglugerðarinnar sem hefur m.a. að geyma reglur um lofthæð íbúðarrýma, að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Kærandi sendi bréf til byggingarfulltrúa, dags. 26. febrúar 2021, þar sem sögu hússins að Bakkabraut 6A er lýst og færð fram rök fyrir því að ekki hefði verið hægt að hafa lofthæðina 2,50 m þegar framkvæmdir fóru fram á neðri hæð hússins 2018-2019. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 26. mars s.á., kemur fram að hækkun lofthæðar íbúðar á neðri hæð megi gera á margan hátt, í sumum tilvikum án meiriháttar breytinga á burðarvirki. Sem dæmi er nefnt að hafa núverandi gólfbita sýnilega. Engin ástæða sé til að vísa í „sérstaka erfiðleika“ samkvæmt 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð og því sé gerð krafa um 2,50 m lofthæð í samræmi við gr. 6.7.2. í reglugerðinni. Kærandi sendi greinargerð byggingartækni­fræðings frá 15. apríl 2021 til byggingarfulltrúa þar sem færð eru rök fyrir því að bundið sé sérstökum erfiðleikum að hækka lofthæð neðri hæðar umfram 2,30 m og farið fram á að lofthæðin verði óbreytt. Kemur þar m.a. fram að tillaga um að hafa núverandi gólfbita sýnilega sé ekki möguleg og skapi önnur vandamál, t.d. yrðu bitar óvarðir fyrir bruna og myndu ekki uppfylla kröfur um brunavarnir. Stórmál væri að hækka hæðarskil um 20 cm og jafngilti því að rífa þyrfti efri hæð hússins og byggja upp aftur ásamt miklu raski á neðri hæð. Byggingarfulltrúi ítrekaði í bréfi sínu, dags. 7. júní 2021, að undanþága samkvæmt áðurnefndu ákvæði byggingarreglugerðar ætti ekki við í tilviki kæranda.

Fyrrnefnt hús var reist árið 1919 og nýtur því friðunar vegna aldurs skv. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands, sbr. 2. mgr. 29. gr. sömu laga. Samkvæmt 7. mgr. gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð skal gæta að ákvæðum laga um menningarminjar vegna umsóknar um breytingu á þegar byggðu mannvirki sem fellur undir þau lög. Fyrir liggur bréf Minjastofnunar, dags. 2. september 2021, þar sem fram kom að stofnunin hefði áður heimilað breytingar á húsinu að Bakkabraut 6A samkvæmt uppdráttum arkitekts frá apríl 2020. Minjastofnun væri kunnugt um ýmis fordæmi fyrir því að byggingar­fulltrúar, m.a. á Akureyri og Ísafirði, hefðu samþykkt frávik frá gildandi reglugerð á þeim grundvelli að um væri að ræða friðuð hús, enda sé leyfisveitanda slíkt heimilt, séu færð fyrir því gild rök í umsóknargögnum. Mörg timburhús frá seinni hluta 19. aldar og fyrstu áratugum 20. aldar uppfylltu ekki skilyrði um lágmarkslofthæð íbúðar samkvæmt núgildandi kröfum um nýbyggingar. Það hefði hingað til ekki hindrað byggingarfulltrúa í því að samþykkja breytingar og endurbætur á sögulegum húsum. Krafa um að auka lofthæð á neðri hæð Bakkabrautar 6A myndi hafa í för með sér mikið rask á grunngerð og hlutföllum hins friðaða húss sem Minja­stofnun gæti að öllu óbreyttu ekki fallist á.

Í hinni kærðu ákvörðun eru ekki færð haldbær rök fyrir þeirri afstöðu að heimildir 3. mgr. gr. 6.1.5. í byggingarreglugerð til undanþágu frá kröfum um lofthæð íbúðarhúsnæðis ættu ekki við í máli þessu, einkum með hliðsjón af fyrrnefndri greinargerð byggingartæknifræðings frá 15. apríl 2021 og áliti Minja­stofnunar í bréfi, dags. 2. september s.á. Þá liggur fyrir í málinu að breytingar á neðri hæð umrædds húss á sínum tíma voru gerðar í samráði og með samþykki þáverandi byggingar­fulltrúa sveitarfélagsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið voru slíkir annmarkar á málsmeðferð og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að fella ber hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Mýrdalshrepps frá 14. febrúar 2022 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Bakkabraut 6A.