Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2012 Dalsbraut

Árið 2012, föstudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 16/2012, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrar frá 15. febrúar 2012 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lengingu Dalsbrautar, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. fjögurra íbúa og eigenda fasteigna að Kolgerði 3, Hörpulundi 19 og Grenilundi 11, Akureyri, þá ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrar frá 15. febrúar 2012 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastæti að Miðhúsabraut á Akureyri.  Af hálfu kærenda er gerð sú krafa að hið kærða framkvæmdaleyfi verði fellt úr gildi. 

Málavextir:  Hinn 6. desember 2011 samþykkti bæjarstjórn Akureyrar nýtt deiliskipulag fyrir svæði við Dalsbraut, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut og tók það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. janúar 2012.  Fól skipulagið í sér að Dalsbraut var framlengd um 800 m frá aðkomuvegi Lundarskóla og tengd Miðhúsabraut um hringtorg við Kjarnagötu og þannig gerð að tengibraut milli Þingvallastrætis og Miðhúsabrautar.  Skipulagsákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndarinnar og stóðu kærendur í máli þessu meðal annarra að því kærumáli.  Hinn 9. febrúar 2012 sótti framkvæmdadeild bæjarins um leyfi til framkvæmda vegna lagningar Dalsbrautar og samþykkti skipulagsnefnd þá umsókn 15. febrúar s.á. 

Hinn 14. mars 2012 tók úrskurðarnefndin fyrir kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi á meðan málinu væri ólokið hjá nefndinni.  Var þá kveðinn upp úrskurður þar sem fallist var á kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa um málsatvik og málsástæður til kærumáls síns vegna fyrrgreinds deiliskipulags Dalsbrautar, en í því máli sé höfð uppi krafa um ógildingu skipulagsins.  Hið kærða framkvæmdaleyfi styðjist að mati kærenda við deiliskipulag sem haldið sé ógildingarannmörkum og fari jafnframt gegn skýrum fyrirmælum Aðalskipulags Akureyrar 2005-2018 um skilyrði fyrir því að hefja megi umdeildar framkvæmdir.  Heimilaðar framkvæmdir muni hafa í för með sér skerðingu á mikilvægum grenndarhagsmunum og fjárhagslegum hagsmunum kærenda sem eigenda fasteigna. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu bæjaryfirvalda er á það bent að krafa kærenda í máli þessu sé samofin ógildingarkröfu þeirra í fyrra kærumáli vegna deiliskipulags umrædds svæðis, en í því máli hafi verið færðar fram málsástæður og rök fyrir því að hið kærða deiliskipulag sé hvorki haldið form- né efnisgöllum.  Styðjist hið kærða framkvæmdaleyfi því við gildandi skipulagsáætlanir. 

Niðurstaða:  Hið kærða framkvæmdaleyfi heimilar bæjaryfirvöldum á Akureyri að framlengja Dalsbraut um 830 m, frá núverandi aðkomuvegi að Lundarskóla til suðurs að hringtorgi sem fyrir er á mótum Miðhúsabrautar og Kjarnagötu.  Í málinu er um það deilt hvort framkvæmdaleyfið sé í samræmi við gildandi skipulag. 

Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í kærumáli um gildi deiliskipulags þess  sem hið kærða framkvæmdaleyfi styðst við og var skipulagið fellt út gildi að hluta.  Hefur hið kærða framkvæmdaleyfi því ekki lengur fullnægjandi stoð í gildandi skipulagi og verður það því fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsnefndar Akureyrar frá 15. febrúar 2012, um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Dalsbrautar, frá Þingvallastræti að Miðhúsabraut. 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson