Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

169/2021 Framkvæmdaleyfisskylda mastur

Árið 2021, þriðjudaginn 28. desember, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 169/2021, beiðni sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að úrskurðað verði um hvort mastur á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða sé háð framkvæmdaleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, óskar sveitarstjórn Borgarbyggðar eftir því að úrskurðað verði um hvort mastur á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða sé háð framkvæmdaleyfi.

Málsatvik og rök: Um miðjan ágúst 2021 barst Borgarbyggð tilkynning um að fyrirhugað væri að reisa tímabundið mælimastur á Grjóthálsi á grundvelli umsóknar um framkvæmdaleyfi sem samþykkt hefði verið á fundi sveitarstjórnar 13. febrúar 2020, en ekki gefið út. Óheimilt væri að gefa út framkvæmdaleyfi á grundvelli þeirrar samþykktar þar sem meira en 12 mánuðir væru liðnir frá samþykki, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í framhaldinu var lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi að nýju vegna 98 m hás masturs sem standa ætti á grunnplötu. Mastrið yrði fest með 12 akkerum sem yrðu fest í jörðu allt að 55 m frá mastrinu. Á mastrinu verði tæki til þess að mæla vind.

Á fundi sveitarstjórnar 9. september 2021 var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi. Bókað var að þar sem framkvæmdin væri langt inni á eignarlandi umsækjanda og jafnframt tímabundin þætti ekki þörf á grenndarkynningu vegna leyfisins. Framkvæmdin hefði ekki áhrif á aðra en framkvæmdaraðila þótt til mastursins sæist frá aðliggjandi bæjum. Í kjölfarið bárust sveitarfélaginu athugasemdir varðandi afgreiðslu málsins og var framkvæmdinni mótmælt.

Eftir að hafa kannað réttmæti athugasemdanna taldi skipulagsfulltrúi leika vafa á því hvort um væri að ræða framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd. Lagði fulltrúinn til við sveitarstjórn að leitað yrði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um það hvort framkvæmdin væri framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 11. nóvember 2021 var samþykkt að þar sem vafi væri til staðar um framkvæmdaleyfisskyldu skyldi vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Í beiðni sveitarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar er óskað eftir því að úrskurðar­nefndin skeri úr um það hvort fyrirhugað mælimastur við Grjótháls sé framkvæmdaleyfisskylt skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Verði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú að um framkvæmdaleyfisskyldu sé að ræða er spurt hvort fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga, og hvort sveitarfélaginu beri þá skylda til að grenndarkynna framkvæmdaleyfið skv. 5. mgr. sömu lagagreinar, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Samkvæmt 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012, er um­sækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarfélagi heimilt að skjóta máli til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi. Í samræmi við þetta sker úrskurðarnefndin úr um framkvæmdaleyfisskyldu en gefur ekki álit á því hvort framkvæmd sé í samræmi við aðal­skipulag eða hvort hana hafi þurft að grenndarkynna, nema í kærumáli þar að lútandi.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku og annarra framkvæmda sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Þó þurfi ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar séu byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 772/2012 gildir hún um framkvæmdaleyfi vegna meiriháttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, en um framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi fer samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Í 3. mgr. 4. gr. reglugerðar­innar segir að við mat á því hvort framkvæmd teljist meiriháttar, þ.e. aðrar framkvæmdir en þær sem falli undir lög um mat á umhverfisáhrifum, skuli hafa til hliðsjónar stærð svæðis og umfang framkvæmdar, varanleika og áhrif á landslag og ásýnd umhverfisins og önnur umhverfisáhrif. Leyfisveitandi meti hvort framkvæmd sé framkvæmdaleyfisskyld skv. 1. mgr., falli hún ekki undir lög um mat á umhverfisáhrifum.

Hinni umþrættu framkvæmd er svo lýst í framlögðum gögnum að um sé að ræða 98 m hátt mastur sem á verði mælitæki fyrir vindmælingar. Mastrið muni standa á grunnplötu og verði það fest í jörðu allt að 55 m frá mastrinu með 12 akkerum. Mun tilgangur framkvæmdarinnar vera að mæla vind tímabundið og verður mastrið fjarlægt að mælingum loknum. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki hægt að telja framkvæmdina meiriháttar. Hún breytir ekki umhverfinu eða hefur varanleg áhrif á ásýnd þess, enda er hún afturkræf og mastrinu ætlað að standa tímabundið. Framkvæmdin er því ekki framkvæmdaleyfisskyld.

Fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu framkvæmdarinnar hefur ekki verið lögð fram. Þó er rétt er að benda á að vísað er til þess sérstaklega í 1. gr. reglugerðar nr. 772/2012 að um fram­kvæmdir sem séu háðar byggingarleyfi fari samkvæmt lögum um mannvirki. Í 2. gr. þeirra laga segir að þau gildi um öll mannvirki sem reist eru á landi, ofan jarðar eða neðan, innan landhelginnar og efnahagslögsögunnar, sbr. þó 2. mgr. 2. gr. Lögin gildi um alla þætti mannvirkja og eru talin upp dæmi þeirra. Jafnframt er tekið fram að lögin gildi einnig um t.d. möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur. Í gr. 1.1.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segir meðal annars að reglugerðin gildi um möstur, þ.m.t. fjarskiptamöstur. Er þannig beinlínis vísað til mastra í gildissviðsákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Framkvæmdin getur því eftir atvikum verið háð því að byggingarfulltrúi heimili hana.

Úrskurðarorð:

Mastur á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða er ekki háð framkvæmdaleyfi samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.