Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

165/2021 Framkvæmdaleyfi masturs

Árið 2021, þriðjudaginn 28. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 165/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. september 2021 um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir mastri á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 16. nóvember 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi jarðarinnar Dalsmynni í Norðurárdal, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. september 2021 að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir mastri á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 1. desember 2021.

Málsatvik og rök: Um miðjan ágúst 2021 barst Borgarbyggð tilkynning um að fyrirhugað væri að reisa tímabundið mælimastur á Grjóthálsi á grundvelli umsóknar um framkvæmdaleyfi sem samþykkt hefði verið á fundi sveitarstjórnar 13. febrúar 2020, en ekki gefið út. Óheimilt væri að gefa út framkvæmdaleyfi á grundvelli þeirrar samþykktar þar sem meira en 12 mánuðir væru liðnir frá samþykki, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í framhaldinu var lögð fram umsókn um framkvæmdaleyfi að nýju vegna 98 m hás masturs sem standa ætti á grunnplötu. Mastrið yrði fest með 12 akkerum sem yrðu fest í jörðu allt að 55 m frá mastrinu. Á mastrinu verði tæki til þess að mæla vind.

Á fundi sveitarstjórnar 9. september 2021 var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi. Bókað var að þar sem framkvæmdin væri langt inni á eignarlandi umsækjanda og jafnframt tímabundin þætti ekki þörf á grenndarkynningu vegna leyfisins. Framkvæmdin hefði ekki áhrif á aðra en framkvæmdaraðila þótt til mastursins sæist frá aðliggjandi bæjum. Í kjölfarið bárust sveitarfélaginu athugasemdir varðandi afgreiðslu málsins og var framkvæmdinni mótmælt.

Eftir að hafa kannað réttmæti athugasemdanna taldi skipulagsfulltrúi leika vafa á því hvort um væri að ræða framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd. Lagði fulltrúinn til við sveitarstjórn að leitað yrði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um það hvort framkvæmdin væri framkvæmdaleyfisskyld, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 11. nóvember 2021 var samþykkt að þar sem vafi væri til staðar um framkvæmdaleyfisskyldu skyldi vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar.

 Af hálfu kæranda er bent á að mastur af þeirri stærð sem sótt sé um framkvæmdaleyfi fyrir valdi sjónmengun og hafi neikvæð áhrif á umhverfi, fuglalíf, gróður og ásýnd svæðisins. Hin kærða framkvæmd sé ekki í samræmi við skipulagsáætlanir svæðisins og framkvæmdin hafi ekki farið í mat á umhverfisáhrifum.

 Af hálfu Borgarbyggðar er bent á að þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi falið skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi hafi það ekki verið gert í ljósi þess vafa sem til staðar sé. Í ljósi þessa telji sveitarfélagið vafa á að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá ógilta stjórnvaldsákvörðun sem ekki hafi komið til framkvæmda.

Niðurstaða: Ágreiningur máls þessa snýst um ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 9. september um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir mastri á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða. Gerir kærandi þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. nefndra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á.

Úrskurðarnefndin kvað upp fyrr í dag úrskurð í kærumáli nr. 169/2021 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að hin umþrætta framkvæmd væri ekki háð framkvæmdaleyfi. Í ljósi þeirrar niðurstöðu hefur enga þýðingu fyrir hagsmuni kæranda að hin kærða ákvörðun um að fela skipulagsfulltrúa að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir umþrættu mastri sæti lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar. Þar sem kærandi hefur ekki lögvarða hagsmuni af efnisúrlausn kærumálsins verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.