Ár 2008, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 165/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. febrúar 2007 um að veita leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf í Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. desember 2007, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. J og R, Ennishvarfi 13, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 21. febrúar 2007 að veita leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf. Var ákvörðun byggingarfulltrúa lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 7. mars 2007 og staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar.
Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Verður ekki fjallað sérstaklega um þá kröfu kærenda heldur kveðinn upp endanlegur úrskurður í málinu.
Málavextir: Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag Vatnsendahverfis, Norðursvæði, er öðlaðist gildi hinn 12. september 2002. Af málsgögnum verður ráðið að kærendur hafi fengið fjórar grenndarkynningar til umfjöllunar vegna tillagna að breyttu skipulagi vegna lóðarinnar nr. 6 við Ennishvarf, síðast í október 2006. Í þeirri útfærslu, sem þá var kynnt, fólst að hesthús var staðsett út fyrir byggingarreit og svölum breytt. Gerðu kærendur athugasemdir vegna þessa. Var tillagan samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 23. janúar 2007. Deiliskipulagsbreyting varðandi umrædda lóð mun þó ekki enn hafa öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Hinn 21. febrúar 2007 veitti byggingarfulltrúinn leyfi til byggingar hesthúss og breytinga á áður samþykktu húsi á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf. Var ákvörðun byggingarfulltrúa lögð fram á fundi byggingarnefndar hinn 7. mars 2007 og staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar.
Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir eigi aðliggjandi lóð við Ennishvarf 6. Þeir hafi tekið eftir því hinn 1. desember 2007 að framkvæmdir á lóðinni nr. 6 við Ennishvarf væru ekki samræmi við skipulag það er þeim hefði verið kynnt. Hafi þeir talið að í gildi væri skipulag er gerði ráð fyrir að farið yrði 2,5 m út fyrir byggingarreit til norðurs. Eftir að byggingarleyfi hafi verið veitt hafi verið hafist handa við að fjarlægja mikið magn af uppfyllingarefni og sökkla sem áður hefði verið veitt leyfi fyrir á lóðinni. Byggingarframkvæmdir hafi hafist sumarið 2007 og í nóvember það ár hafi útveggir hússins risið. Hinn 1. desember 2007 hafi kærendur ákveðið að mæla útveggi bílskúrsins að Ennishvarfi 6, enda hafi þeir talið að útsýni þeirra yfir Elliðavatn ætti ekki að skerðast svo mikið miðað við það skipulag sem þeir hafi talið í gildi. Í ljós hafi komið að bílskúr fari út fyrir byggingarreit til norðurs um 4,5 m miðað við gildandi deiliskipulag.
Ljóst sé að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins en hinar ólögmætu framkvæmdir skerði m.a. útsýni þeirra. Þá sé kæra þeirra lögð fram innan þeirra tímafresta sem skipulags- og byggingarlög mæli fyrir um. Kærendum hafi ekki verið um það kunnugt fyrr en hinn 1. desember 2007 að hinar umdeildu framkvæmdir væru í andstöðu við gildandi skipulag.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta varðandi hið kærða byggingarleyfi.
Þá sé því einnig haldið fram að frestur til að skila inn kæru til nefndarinnar hafi verið útrunninn er kæran hafi borist. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri. Kæra í máli þessu hafi borist níu mánuðum eftir að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Samkvæmt byggingarsögu mannvirkisins séu framkvæmdir fyrir löngu hafnar. Kærendum hafi því mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi hafi verið veitt en þeir hafi látið undir höfuð leggjast að krefjast stöðvunar framkvæmda eða ógildingar leyfisins fyrr en að loknum kærufresti.
Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé kveðið á um að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá. Í ljósi þess sem að framan sé rakið beri að vísa kröfu um stöðvun framkvæmda sem og um ógildingu byggingarleyfis frá úrskurðarnefndinni.
Andsvör kærenda vegna málsraka Kópavogsbæjar: Kærendum var gefinn kostur á að tjá sig um frávísunarkröfu Kópavogsbæjar. Mótmæla þeir fullyrðingu bæjaryfirvalda þess efnis að þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Farið sé með byggingarlínu bílskúrs 4,5 m út fyrir byggingarreit miðað við gildandi deiliskipulag. Umræddur bílskúr minnki bil sem sé á milli Ennishvarfs 6 og 8, einmitt þar sem helsta útsýni sé frá borðstofu og eldhúsi kærenda, eða útsýni yfir Elliðavatn, sem augljóslega sé mjög verðmætt.
Þá sé ítrekað að breytingar á deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2002 hafi aldrei verið kláraðar og enn síður hafi nokkurn tíma verið veitt leyfi fyrir því að fara með bílskúrinn 4,5 m út fyrir byggingarreit, hvorki hjá Kópavogsbæ né annars staðar.
Í byrjun desember 2007 hafi uppsláttur fyrir útveggjum bílskúrsins hafist, og þá fyrst hafi kærendum fundist útsýni þeirra skerðast mun meira en þeir hafi reiknað með. Hafi þeir því farið út og mælt og hafi þá hið rétta komið í ljós eða að farið væri 4,5 m út fyrir byggingarreit hússins.
Byggingarleyfishafa gafst kostur á að tjá sig um kröfu kærenda en hann hefur ekki gert það.
Málsaðilar hafa fært fram ítarleg rök fyrir kröfum sínum en með hliðsjón af niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar þykir ekki ástæða til að rekja þau frekar.
Niðurstaða: Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að kærendur eigi ekki aðild að kærumáli þessu þar sem hið kærða byggingarleyfi skerði í engu hagsmuni þeirra. Á þetta verður ekki fallist. Kærendur eru búsettir að Ennishvarfi 13 og er hús þeirra gegnt lóðinni að Ennishvarfi 6. Verður því að játa kærendum aðild að kærumáli þessu enda höfðu þeim verið grenndarkynntar tillögur skipulagsyfirvalda að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Ennishvarfi 6.
Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er til nefndarinnar.
Eins og áður greinir eru kærendur máls þessa búsettir alveg í næsta nágrenni við lóðina að Ennishvarfi 6. Af gögnum þeim er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina má glöggt ráða að í apríl og maí 2007 hafi sökkull og botnplata hússins að Ennishvarfi 6 verið steypt. Á tímabilinu júní til september sama ár hafi veggir neðri hæðar og plata fyrstu hæðar verið steypt og veggir annarrar hæðar hafi verið steyptir upp í október og nóvember 2007. Verður að telja, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum hafi, a.m.k. frá því uppsteypu neðri hæðar hússins að Ennishvarfi 6 var lokið í september 2007, mátt vera kunnugt um staðsetningu þess og afstöðu til þess kærenda og að þeim hafi þá borið að kynna sér byggingarleyfið og staðreyna hvort það væri í samræmi við deiliskipulag og skjóta málinu til úrskurðarnefndarinnar innan mánaðar frá þeim tíma. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 18. desember 2007 er húsið var að mestu risið og var kærufrestur þá liðinn.
Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ber því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni enda liggja ekki fyrir nein þau atvik er leitt gætu til þess að beitt væri undantekningarheimildum 1. eða 2. tl. tilvitnaðrar 28. greinar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
_______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson