Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2006 Hraungerði

Ár 2008, þriðjudaginn 19. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 81/2006, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 21. september 2006 um að afturkalla þá ákvörðun sína að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Hraungerði í Álftaveri og að leggja fyrir kæranda að hún verði fjarlægð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. október 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Karl Axelsson hrl., f.h. Þ, sem landeiganda og ábúanda að jörðinni Hraungerði í Álftaveri, þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 21. september 2006 að afturkalla áður veitt byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Hraungerði og leggja fyrir kæranda að hún verði nú þegar fjarlægð en að öðrum kosti verði það gert á kostnað og ábyrgð hans.   

Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og réttaráhrifum ákvörðunar um niðurrif verði frestað.  Af hálfu byggingaryfirvalda Skaftárhrepps hefur verið fallist á að framfylgja ekki ákvörðuninni um niðurrif umdeildrar vélageymslu á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. 

Málavextir:  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er jörðin Hraungerði í eigu kæranda og bróður hans og býr kærandi á jörðinni. 

Hinn 25. apríl 2005 voru á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps teknar fyrir umsóknir kæranda um leyfi til að rífa bílskúr, matshluta 23, og til að byggja vélageymslu á jörðinni Hraungerði í Álftaveri.  Samþykkti nefndin fyrir sitt leyti framlagðar teikningar að vélageymslunni en benti á að annað hús, matshluti 23, sem stæði á byggingarreitnum, yrði fyrst að víkja.  Var umsókn um niðurrif umrædds matshluta afgreidd með þeim hætti að fyrir þyrfti að liggja samþykki allra eigenda áður en byggingin yrði rifin.  Sveitarstjórn Skaftárhrepps staðfesti greindar afgreiðslur á fundi hinn 23. maí 2005 og voru niðurstöður tilkynntar kæranda með bréfum, dags. 16. júní 2005. 

Í kjölfarið hóf kærandi framkvæmdir á jörðinni og í bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 22. apríl 2006, var tilkynnt að búið væri að rífa áður nefndan bílskúr sem og tvær aðrar byggingar á jörðinni og þremur dögum síðar var óskað eftir því að úttekt yrði gerð á grunni vegna byggingar stálgrindarhúss og átti úttekt sér stað 22. maí 2006.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. maí 2006 var tekið fyrir fyrrgreint bréf kæranda frá 22. apríl s.á. og svofelld bókun gerð:  „Nefndin vill ítreka að samkvæmt 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er óheimilt að rífa hús nema að fengnu samþykki sveitarstjórnar.  Nefndin ítrekar fyrri afgreiðslu vegna niðurrifs bílskúrs, matshluti 23, og fer fram á að [kærandi] leggi fram samþykki fyrir þessum framkvæmdum frá meðeiganda fasteignanna“.  Jafnframt var tekin fyrir afgreiðsla nefndarinnar á erindi kæranda vegna byggingarleyfis frá 25. apríl 2005 og bókað:  „Nefndin vill standa við fyrri afgreiðslu og veita byggingarleyfi.  Byggingarfulltrúa er falið að ljúka málinu.“  Samþykkti sveitarstjórn ofangreindar afgreiðslur skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum hinn 8. júní 2006. 

Hinn 20. júní 2006 var fundur í sveitarstjórn Skaftárhrepps þar sem til umfjöllunar var afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á byggingarleyfi kæranda, dags. 22. maí 2006.  Eftirfarandi var bókað:  „Vegna athugasemda lögmanna sem borist hafa byggingarfulltrúa og sveitarstjórn þann 29. maí og 13. júní 2006 ákveður sveitarstjórn að afturkalla tímabundið byggingarleyfi sem búið var að veita [kæranda].“  Var kæranda tilkynnt ákvörðun sveitarstjórnar með bréfi, dags. 21. júní s.á., þar sem jafnframt sagði svohljóðandi:  „Sveitarstjórn hefur engar athugasemdir við fyrirhugaða byggingu en afturköllun byggingarleyfisins gildir þar til leyfi landeigenda fyrir framkvæmdunum er fengið.“ 

Í kjölfar þessa ritaði lögmaður kæranda bréf til sveitarstjóra hreppsins þar sem því var meðal annars haldið fram að ákvörðun sveitarstjórnar væri ólögmæt og ógild.  Þá var tiltekið að kærandi hefði ekki hug á því að stöðva framkvæmdir.  Með bréfi, dags. 12. júlí 2006, svaraði lögmaður hreppsins bréfinu og greindi frá því að við athugun á málinu hefði komið í ljós að ekki hefðu verið uppfyllt lagaskilyrði fyrir veitingu byggingarleyfisins þar sem skilyrði 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 hefði ekki verið fullnægt.  Jafnframt var eftirfarandi tekið fram:  „…þessari skýringu er hér með komið á framfæri, en hennar er óbeint getið í niðurlagi tilkynningar sveitarstjóra í bréfi til [kæranda]dags. 21.6.2006…„afturköllun byggingarleyfis gildir þar til leyfi landeiganda fyrir framkvæmdum er fengið.““  Að lokum var þess farið á leit að sveitarfélagið yrði upplýst um það hvort og þá hvenær vænta mætti formlegs samþykkis meðeiganda jarðarinnar sem liggja þyrfti fyrir svo unnt væri að afgreiða málið.  Frestur til að svara bréfinu var veittur til 1. ágúst s.á. 

Byggingarstjóri kæranda óskaði með bréfi, dags. 18. júli 2006, eftir úttekt á burðarfyllingu undir sökklum vegna byggingar vélageymslunnar og í svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 24. júlí 2006, var bent á að byggingarleyfið hefði verið afturkallað og því bæri að stöðva framkvæmdir við bygginguna.  Þá var jafnframt tekið fram að engar úttektir myndu fara fram fyrr en umbeðin gögn lægju fyrir og byggingarleyfi hefði verið veitt að nýju. 

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2006, var kæranda enn veittur 10 daga frestur til að afla nefnds samþykkis meðeiganda að jörðinni.  Einnig sagði svo:  „Ef ekki verður brugðist við þessari áskorun megið þér vænta þess að sveitarstjórn Skaftárhrepps muni þá þegar og án frekari viðvörunar afturkalla endanlega byggingarleyfið fyrir vélageymslunni.“  Var fyrirhuguðum framkvæmdum kæranda við vélageymsluna sérstaklega mótmælt og með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 31. ágúst 2006, var kæranda tilkynnt með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að framkvæmdir við bygginguna bæri að stöðva án tafar.  Hinn 1. september 2006 andmælti lögmaður kæranda athöfnum sveitarstjórnar og benti m.a. á að ákvæði ábúðarlaga ættu ekki við varðandi umdeildar byggingarframkvæmdir.  Kærandi hefði eingöngu nýtt sér séreignir sínar á jörðinni við atvinnustarfsemi sína og sameignir að því marki sem eignarhlutur hans stæði til.  Hinn 20. september 2006 var síðan óskað áfangaúttektar á stálgrind, bitum og þaki vélageymslunnar. 

Á fundi sveitarstjórnar Skaftárhrepps hinn 21. september 2006 var mál kæranda tekið til afgreiðslu.  Lögð voru fram fjölmörg bréf vegna málsins og eftirfarandi m.a. samþykkt:  „Að afturkalla byggingarleyfi fyrir byggingu vélageymslu samanber bókun sveitarstjórnar Skaftárhrepps þann 16. júní 2005.  Að lagt verði fyrir [kæranda] að fjarlægja nú þegar vélageymslu sem reist hefur verið að Hraungerði í sumar, eigi síðar en 20. október 2006.  Að öðrum kosti verði það gert á kostnað og ábyrgð [kæranda] samanber heimild í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.“ 

Hefur kærandi skotið ofangreindri samþykkt sveitarstjórnar um afturköllun byggingarleyfis og niðurrif vélageymslunnar til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi heldur því fram að hann hafi hafist handa við undirbúning framkvæmda í framhaldi af því að byggingarleyfi hafi verið útgefið í júní 2005.  Veturinn 2005-2006 hafi kærandi staðið fyrir framkvæmdum innandyra, svo sem að sníða til og sjóða saman stálgrind hússins og á vormánuðum 2006 hafi framkvæmdir byrjað utandyra.  Eftir að honum hafi borist bréf um afturköllun byggingarleyfis til bráðabirgða hafi hann afráðið að halda áfram framkvæmdum til að forðast tjón. 

Kærandi telji að ekki hafi verið gætt málsmeðferðar- og efnisreglna stjórnsýslulaga við ákvarðanatökuna, sem sé án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar, og því í andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar.  Þá sé efnislegum og lagalegum rökstuðningi ákvörðunarinnar áfátt.  Verulega hafi skort á að sýnt hafi verið fram á nauðsyn umdeildra athafna og vandséð að málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðuninni. 

Byggingarleyfi hafi verið útgefið 16. júní 2005, en kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um að sveitarstjórn gerði athugasemdir við leyfið þann 22. júní 2006, og hafi kærandi því verið í góðri trú um heimildir sínar til framkvæmda við vélageymsluna í mjög langan tíma.  Kærandi beri ekki ábyrgð á því þótt útgefið byggingarleyfi kunni e.t.v. að hafa verið veitt á grundvelli ófullnægjandi gagna sem honum hafi verið ókunnugt um og í slíkum tilvikum verði sveitarfélagið sem stjórnvald að bera hallann af afgreiðslu málsins. 

Við mat á því hvenær afturköllun samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga sé heimil verði að líta til réttmætra væntinga málsaðila, góðrar trúar hans og réttaröryggis.  Þá mæli það almennt gegn ógildingu ákvörðunar ef eingöngu sé um að kenna mistökum stjórnvalds eða langt sé um liðið síðan ívilnandi ákvörðun hafi verið tekin.  Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum verði afturköllun byggingarleyfis kæranda vart talin eiga lagastoð. 

Þá telji kærandi að krafa um niðurrif vélageymslunnar sé afar þungvæg og veigamikil aðgerð sem feli í sér mikið og óafturkræft tjón á verðmætum.  Opinberir aðilar geti ekki ráðist í slíkar athafnir nema á grundvelli skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar.  Ekki sé réttlætanlegt að grípa til niðurrifs bygginga nema brýna nauðsyn beri til þar sem niðurrif sé í eðli sínu neyðarúrræði.  Kærandi telji að sveitarfélaginu hafi borið lagaskylda til að taka til sérstakrar skoðunar athugasemdir hans við vinnubrögð sveitarfélagsins og taka málefnalega og rökstudda afstöðu til þeirra sjónarmiða áður en ákvörðun hafi verið tekin. 

Ekki verði séð að umrædd bygging falli undir 56. gr. laga nr. 73/1997 skv. orðanna hljóðan en byggingarleyfi hafi verið gefið út og byggingin reist í góðri trú kæranda um gildi þess leyfis sem brjóti ekki í bága við skipulag. 

Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn ákvæðum 13., 14. og 15. gr. stjórnsýslulaga.  Gögn að baki ákvörðunartöku hafi m.a. verið umsögn og tölvupóstur lögmanns þar sem fram hafi komið nýjar og veigamiklar upplýsingar sem hafi haft verulega og afgerandi þýðingu við ákvörðunartökuna.  Kæranda hafi borist þessi gögn eftir óformlegum leiðum eftir að ákvörðun hafi verið tekin.  Telji kærandi að þarna hafi sveitarfélagið brotið á lögmætum andmælarétti hans í tvennum skilningi, en forsenda þess að aðili geti gætt hagsmuna sinna og tjáð sig um mál, svo fullt gagn sé að, sé að hann hafi aðgang að gögnum málsins.  Í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að stjórnsýslulögum hafi verið sérstaklega tekið fram að þegar aðila sé ókunnugt um að ný gögn eða upplýsingar hafi bæst við í máli hans, og telja verði að upplýsingar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins, sé almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær.  Kæranda hafi verið ókunnugt um að til skoðunar væri að taka sérstaka ákvörðun í máli hans 21. september 2006. 

Málsmeðferð sveitarfélagsins í máli þessu feli í sér brot á rannsóknarreglu 10. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga en vegna þess hve íþyngjandi ákvörðunin sé hefði sveitarfélaginu borið sérstök skylda til að gæta vandaðra stjórnsýsluhátta í hvívetna og rannsaka á viðhlítandi hátt þau sjónarmið sem kærandi hefi lagt fram í málinu.  Jafnframt hefði borið að fjalla rækilega um minna íþyngjandi ákvarðanir sem hægt væri að grípa til áður en ákveðið hafi verið að krefjast niðurrifs.  Þá hafi rökstuðningi verið áfátt.

Málsrök Skaftárhrepps:  Af gögnum málsins verður ráðið að sveitarfélagið byggi gjörðir sínar á því að ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 um að ábúandi sem óski eftir að gera endurbætur á mannvirkjum ábúðarjarðar eða byggja ný mannvirki skuli leita skriflegs leyfis jarðareiganda.  Áréttað hafi verið við veitingu upphaflegs byggingarleyfis að samþykki allra jarðareiganda þyrfti til mannvirkjagerðarinnar og þar sem fyrir hafi legið að lagaskilyrðum hafi ekki verið fullnægt að þessu leyti þá hafi sveitarstjórn tekið þá ákvörðun að afturkalla leyfið.  Þessa hafi verið óbeint getið í tilkynningu til kæranda, dags. 21. júní 2006, þar sem fram hafi komið að „…afturköllun byggingarleyfis gildir þar til leyfi landeiganda fyrir framkvæmdum er fengið.“  Þá sé því sérstaklega mótmælt að brotið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Jafnframt sé vísað til 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem kveðið sé á um hvenær heimilt sé að gefa út byggingarleyfi og bent á að byggingarfulltrúi hafi aldrei áritað aðaluppdrætti að skemmu kæranda sem sé meðal annars skilyrði þess að byggingarleyfi sé gefið út. 

Framkvæmdum hafi verið haldið áfram við vélageymsluna eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um afturköllun byggingarleyfis og þrátt fyrir að því hafi verið synjað að gera úttekt á undirstöðuveggjum vélageymslunnar þar sem byggingarleyfi hafi þá verið afturkallað.  Telji sveitarfélagið að framkvæmdir kæranda brjóti gegn ákvæðum 48. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 en einnig hafi verið brotið gegn ákvæðum 39. gr. tilv. reglugerðar þar sem ekki hafi verið tilkynnt um múrarameistara fyrir verkið. 

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem óþarft þykir að rekja frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að felld verði úr gildi sú ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps að afturkalla byggingarleyfi sem veitt hafði verið til byggingar vélageymslu að Hraungerði í Álftaveri og að leggja fyrir kæranda að fjarlægja bygginguna. 

Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila skv. 1. tl. ákvæðisins eða ákvörðun er ógildanleg skv. 2. tl. 25. gr. laganna.  Lýtur úrlausnarefni málsins að því hvort fullnægt hafi verið skilyrðum til afturköllunar umrædds byggingarleyfis á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, svo og hvort gætt hafi verið réttrar aðferðar við gerð og undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar um afturköllun leyfisins og um að leggja fyrir kæranda að fjarlægja bygginguna.

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti, eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Í 4. mgr. 43. gr. fyrrgreindra laga segir að sá sem óski eftir leyfi skv. 1. mgr. skuli senda um það skriflega umsókn til hlutaðeigandi byggingarnefndar ásamt nauðsynlegum hönnunargögnum og skilríkjum, þar með töldu samþykki meðeigenda sé um sameign að ræða.  Er það því skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis að slíkt samþykki meðeigenda liggi fyrir ef um sameign er að ræða.  Samkvæmt 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004 þarf og samþykki jarðareiganda fyrir endurbótum og nýjum mannvirkjum á jörð í ábúð. 

Ekki liggur annað fyrir en að land umræddrar jarðar sé í óskiptri sameign.  Samþykki meðeiganda kæranda að jörðinni lá ekki fyrir áður en leyfi fyrir byggingu vélageymslu var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 25. apríl 2005 en leyfið var allt að einu veitt og var sú ákvörðun áréttuð á fundi nefndarinnar hinn 22. maí 2006.  Hins vegar var tekið fram í bókun nefndarinnar að skúr sá sem fyrir væri á byggingarreitnum yrði fyrst að víkja og í sérstakri bókun um umsókn kæranda um leyfi til niðurrifs eldri skúrs var tekið fram að samþykki allra eigenda skyldi liggja fyrir áður en byggingin yrði rifin.  Verður að skilja bókun skipulags- og byggingarnefndar svo að ekki hafi verið fallist á umsókn kæranda um leyfi til niðurrifs eldri skúrs.  Þrátt fyrir þetta fjarlægði kærandi umræddan skúr og hóf framkvæmdir við byggingu vélageymslunnar. 

Sveitarstjórn sendi kæranda máls þessa bréf hinn 12. júlí 2006 og aftur hinn 17. ágúst 2006 þar sem honum var veitt færi á að veita upplýsingar um hvort samþykki meðeiganda fyrir framkvæmdunum fengist.  Kom kærandi á framfæri sjónarmiðum sínum við Skaftárhrepp varðandi umdeilt byggingarleyfi og ráðagerðir um afturköllun þess áður en hin kærða ákvörðun um afturköllun var tekin.

Þegar litið er til þess að kæranda var allt frá upphafi kunnugt um þá afstöðu skipulags- og byggingarnefndar að niðurrif eldra húss væri háð samþykki meðeigenda og að hann réðist í þá framkvæmd án tilskilins leyfis, svo og þess að honum var ítrekað gefinn kostur á að afla samþykkis og veittir frestir í því skyni, verður ekki fallist á að væntingar kæranda, góð trú hans eða það hversu seint endanleg ákvörðun var tekin, eigi að leiða til þess að meta beri hina umdeildu afturköllun ólögmæta. 

Með vísan til alls þess er að framan greinir verður að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að afturkalla fyrri ákvörðun sína um veitingu byggingarleyfis fyrir vélargeymslu í landi Hraungerðis og þykir málsmeðferð við töku þeirrar ákvörðunar ekki hafa verið haldin þeim annmörkum að ógildingu varði.  Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar umdeildu afturköllunar því hafnað. 

Sveitarstjórn hefur jafnframt með hinni kærðu ákvörðun lagt fyrir kæranda að umrædd vélageymsla verði fjarlægð með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Sýnt þykir að ákvörðun sveitarstjórnar um að gera kæranda skylt að fjarlægja umrædda vélageymslu hafi verið tekin í tilefni af ákvörðun um afturköllun leyfis fyrir byggingu hennar sem tekin var og tilkynnt kæranda á sama tíma.  Þrátt fyrir bréfaskriftir milli yfirvalda Skaftárhrepps og kæranda varðandi umdeilda byggingu verður ekki séð að kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um þá ætlan sveitarstjórnar að krefjast þess að umrædd bygging yrði fjarlægð með vísan til 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Ljóst er að fyrrgreind ákvörðun er töluvert íþyngjandi fyrir kæranda, og getur m.a. haft talsverða fjárhagslega þýðingu fyrir hann.  Er það mat úrskurðarnefndarinnar að sveitarstjórn Skaftárhrepps hafi ekki verið heimilt að taka slíka ákvörðun án þess að gætt væri ákvæðis 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um andmælarétt kæranda.  Verður ákvörðun sveitarstjórnar um að kæranda verði gert að fjarlægja nefnda vélageymslu því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu um ógildingu samþykktar sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 21. september 2006 um afturköllun byggingarleyfis fyrir vélageymslu í landi jarðarinnar Hraungerðis í Skaftárhreppi.  Sú samþykkt sveitarstjórnar Skaftárhrepps, að leggja fyrir kæranda að fjarlægja vélageymsluna, er felld úr gildi. 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________       ____________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson