Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

49/2005 Tunguskógur

Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2005, kæra á ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 27. október 2004 um að heimila að sumarbústaður verði fjarlægður af lóðinni nr. 62 í Tunguskógi í Tungudal, Ísafjarðarbæ og annar reistur í staðinn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. júní 2005, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. M og M, eigenda sumarhúss á lóð nr. 61 í Tunguskógi, þá ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 27. október 2004 að samþykkja að sumarbústaður verði fjarlægður af lóðinni nr. 62 í Tunguskógi og annar byggður á sömu lóð.  Bæjarstjórn samþykkti hina kærðu afgreiðslu á fundi sínum hinn 18. nóvember 2004.  Endanleg kröfugerð kærenda er sú að hið kærða leyfi fyrir byggingu sumarhúss verði fellt úr gildi.
 
Málavextir:  Á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar hinn 27. október 2004 var tekin fyrir umsókn um heimild til að fjarlægja sumarbústað á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi og reisa þar nýjan.  Lagði nefndin til við bæjarstjórn að erindin yrðu samþykkt og var svo gert á fundi bæjarstjórnar hinn 18. nóvember 2004.

Í kjölfar þess að hafist var handa við byggingu sumarhússins gerðu kærendur athugasemdir við nýbygginguna með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 25. maí 2005.  Kom m.a. fram að kærendur teldu að nýbyggingin væri mun stærri en sumarbústaður sá sem fyrir hefði verið.  Einnig var bent á að ekki hefði farið fram grenndarkynning áður en byggingarleyfið hefði verið gefið út.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. júní 2005, var athugasemdum kærenda svarað og m.a. bent á að umrædd bygging væri á lóð sem væri innan þess svæðis í Tungudal sem skipulagt væri sem sumarhúsabyggð og umsókn og afgreiðsla sveitarstjórnar því í samræmi við skipulag.  Jafnframt var tekið fram að þó svo að byggingin væri nokkuð stærri en sú sem áður hefði staðið á lóðinni þá hefði ekki verið um það frávik frá skipulagi að ræða að talin hefði verið þörf á að grenndarkynna umsóknina.  Bent var á að engin ákvæði í byggingar- eða skipulagsreglugerð takmarki stærð sumarhúsa.

Kærendur skutu fyrrgreindri ákvörðun umhverfisnefndar til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur vísa til þess að fyrir liggi að ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir sumarbústaðabyggðina í Tunguskógi en skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 en skylt sé, þegar sótt sé um byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir, að láta fara fram grenndarkynningu áður en málið hljóti afgreiðslu byggingarnefndar.  Þar sem slíkt hafi ekki verið gert hafi kærendum ekki gefist kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum varðandi fyrirhugaða byggingu.  Telji kærendur að þegar af þeirri ástæðu einni beri að fella byggingarleyfið úr gildi.

Byggingarleyfið sé mjög óskýrt og ekki sé í raun ljóst hvað í því felist þar sem nýbyggingin virðist ekki í nokkru samræmi við þau gögn sem lögð hafi verið fyrir umhverfisnefnd og hafi verið grundvöllur að fyrrgreindu byggingarleyfi.  Framlögð afstöðumynd hafi ekki verið rétt þegar byggingarleyfi hafi verið afgreitt og ekki sýnt rétta mynd af því húsi sem fyrirhugað hafi verið að reisa á lóðinni.

Gera verði þær kröfur til stjórnvaldsákvarðana að þær séu skýrar og ótvíræðar og að enginn vafi leiki á því hvað í þeim felist og vísa kærendur í því sambandi til meginreglna stjórnsýsluréttarins, svo sem rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þá sé tekið fram vegna ákvæða skipulags- og byggingarlaga um kærufrest að það hafi fyrst verið þann 25. maí 2005, þegar framkvæmdir við nýbyggingu hafi byrjað, að kærendum hafi orðið kunnugt um að byggingarframkvæmdir væru ekki í nokkru samræmi við þau gögn sem lögð hefðu verið fyrir umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar.

Málsrök Ísafjarðarbæjar:  Af hálfu bæjarins er vísað til uppdráttar frá árinu 1960 sem til sé af umræddu svæði og farið hafi verið eftir í aðalatriðum, en á árinu 1980 hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir sumarbústað á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi.  Hinn 5. apríl 1994 hafi flestallir sumarbústaðir á svæðinu eyðilagst í snjóflóði og hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir sumarbústöðum í Tungudal þá um sumarið. 

Skipulag ríkisins hafi talið útgáfu byggingarleyfanna vera brot gegn 2. mgr. 7. gr. laga nr. 28/1985 og gr. 3.1.8 í byggingarreglugerð og hafi óskað eftir úrskurði ráðherra varðandi það.  Með úrskurði uppkveðnum í september 1994 hafi umhverfisráðherra fallist á að heimilað væri að veita byggingarleyfi með því skilyrði að búseta yrði takmörkuð við tímabilið 16. apríl til 15. desember ár hvert.  Byggingarnefnd Ísafjarðarbæjar hafi svo hinn 19. september s.á. heimilað byggingu sumarbústaðar á lóð nr. 62 með kvöð um búsetu vegna ofanflóða.  Það hafi því verið mat bæjarstjórnar Ísafjarðar, Skipulags ríkisins og umhverfisráðuneytisins að um „deiliskipulag“ væri að ræða enda þótt að uppdrátturinn hefði ekki verið samþykktur formlega séð.

Þá kemur fram að á árinu 2002 hafi eigendur sumarbústaðar á lóð nr. 62 óskað eftir leyfi til að færa bústað sinn neðar á lóðina, um sem næmi breidd hússins, og hafi verið leitað álits annars kærenda vegna þessa sem hafi ekki gert athugasemd við það.

Í ljós hafi komið að bústaðurinn hafi verið í mkv. 1:1000 á afstöðumynd en aðrir bústaðir í mkv. 1:500 sem hafi gert það að verkum að hann hafi virst mun minni en útlit og grunnmynd sýni og hafi þetta verið lagfært.  Sumarbústaðurinn standi ekki nær mörkum lóðar nr. 61 en sá sem fyrir hafi verið og ekki hafi verið litið svo á að verið væri að draga úr útsýni þar sem bakhlið flestra bústaða í Tunguskógi snúi í austur.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er í máli þessu deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir sumarbústað á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi, Ísafjarðarbæ.

Á svæði því sem hér um ræðir er í gildi Aðalskipulag Ísafjarðar 1989-2009 og kemur fram í greinargerð þess að í Tunguskógi sé nokkuð um sumarbústaði og að umrætt svæði sé sumarbústaðalönd Ísfirðinga.  Hafa bæjaryfirvöld vísað til þess að litið hafi verið til uppdráttar sem gerður var árið 1960 af K. Jónssyni sem ígildi deiliskipulags fyrir svæðið.

Í 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að deiliskipulagsáætlanir og breytingar á þeim, sem gerðar hafi verið á grundvelli aðalskipulags og samþykktar af sveitarstjórn fyrir 1. janúar 1998, gildi án tillits til þess hvort þær hafi verið auglýstar, hlotið staðfestingu ráðherra eða samþykktar af skipulagsstjóra ríkisins samkvæmt eldri lögum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Á fyrrgreindum uppdrætti frá árinu 1960 hafa verið teiknaðar lóðir og í einhverjum tilvikum einnig staðsetning bústaða og mun lóðum nr. 62 og nr. 64 hafa verið bætt síðar á uppdráttinn en ekki er vitað hvenær.  Ekki liggur fyrir í málinu að nefndur uppdráttur hafi fengið staðfestingu sveitarstjórnar eða öðlast gildi með öðrum hætti í tíð eldri laga.  Verður því ekki séð að fullnægt sé skilyrði 11. tl. til bráðabirgða um samþykkt sveitarstjórnar og verður því ekki fallist á að í gildi sé deiliskipulag að svæðinu.

Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga skal gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags fyrir einstök svæði og reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar en í 3. mgr. tilvitnaðs ákvæðis er kveðið á um að þar sem deiliskipulag liggi ekki fyrir í þegar byggðum hverfum geti sveitarstjórn veitt heimild til framkvæmda að undangenginni grenndarkynningu, sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna.

Í máli því er hér um ræðir liggur fyrir að veitt var leyfi til byggingar sumarbústaðar á svæði þar sem ekki er í gildi lögformlegt deiliskipulag.  Bar því að gæta ákvæða 7. mgr. 43. gr. nefndra laga um að grenndarkynna umsókn áður en leyfið var veitt, eða eftir atvikum 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, sem heimilar veitingu byggingarleyfis að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar þar sem ekki er fyrir hendi deiliskipulag.  Svo var eigi gert og verður að telja að slíkir annmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði.  Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar frá 27. október 2004, er bæjarstjórn samþykkti hinn 18. nóvember 2004, um að samþykkja byggingu sumarbústaðar á lóðinni nr. 62 í Tunguskógi, Ísafjarðarbæ. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

___________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                   Þorsteinn Þorsteinsson