Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

157/2021 Þverun Vatnsfjarðar

Árið 2021, fimmtudaginn 2. desember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

 Mál nr. 157/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vesturbyggðar frá 16. september 2021 um að hafna því að gera ráð fyrir þverun Vatnsfjarðar í tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins 2018-2035.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Samgöngufélagið, þá ákvörðun Vesturbyggðar frá 16. september 2021 að hafna því að gera ráð fyrir þverun Vatnsfjarðar í tillögu að aðalskipulagi sveitarfélagsins 2018-2035. Er þess krafist að lagt verði fyrir sveitarstjórn að taka ákvörðunina upp og byggja hana á frekari gögnum og upplýsingum og láta fylgja veigameiri rökstuðning en gert var. Til vara er þess krafist að lagt verði fyrir sveitarstjórn að fresta ákvörðun um legu vegar um Vatnsfjörð í aðalskipulagi þar til endanlega er ljóst hvaða veglína af þeim sem koma til greina inn fjörðinn telst heppilegust.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vesturbyggð 26. nóvember 2021.

Málavextir: Bæjarstjórn Vesturbyggðar auglýsti hinn 12. maí 2021 tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035. Athugasemdafrestur var til 24. júní 2021 og bárust athugasemdir frá kæranda með bréfi dagettu sama dag. Lutu athugasemdir hans  að því að það væri brýnt að gera ráð fyrir þverun Vatnsfjarðar í aðalskipulaginu.

Með bréfi Vesturbyggðar til kæranda, dags. 16. september 2021, svaraði sveitarfélagið athugasemdum kæranda. Í svarinu var ekki tekið undir athugasemdir kæranda, m.a. með þeim rökum að það væri mat sveitarfélagsins að þverun Vatnsfjarðar myndi rýra mjög gildi friðlýsingar svæðisins, enda myndi slík þverun skerða ásýnd svæðisins til muna.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti tillögu að Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035 á fundi sínum 15. september 2021 og var hún send til Skipulagsstofnunar til staðfestingar.

 Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að ákvörðun um legu nýs eða endurbætts vegar í Vatnsfirði hafi þýðingu fyrir þá umtalsvert vaxandi umferð sem allt bendi til að eigi eftir að fara um fjörðinn og hafi Vegagerðin mælt með því að fjörðurinn verði þveraður. Með þverun fáist 3,5 km stytting sem sé arðsamari kostur en endurbygging vegarins um fjörðinn. Kærandi vísi til netkönnunar sem hann hafi framkvæmt þar sem tillaga um þverun hafi fengið einkunnina 4,44 á skalanum 0-6. Þverun hafi ásættanleg eða jafnvel jákvæð áhrif á umhverfi svæðisins miðað við fyrirhugað vegstæði.

 Málsrök Vesturbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hin kærða ákvörðun hafi verið byggð á matsskýrslu Vegagerðarinnar um Vestfjarðaveg um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg frá Bíldudalsflugvelli, ásamt umsögnum Umhverfisstofnunar, Breiðafjarðarnefndar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Í því áliti, dags. 3. júlí 2020, segi að ef jákvæð áhrif styttri ferðatíma séu borin saman við neikvæð áhrif þess að þvera Vatnsfjörð telji Skipulagsstofnun ekki vera forsendur til að þvera fjörðinn. Niðurstaða sveitarfélagsins hafi verið að sú vegstytting sem mögulega hlytist af þverun fjarðarins væri það óveruleg að hún samrýmdist ekki verndarsjónarmiðum svæðisins. Einnig bæri að horfa til samlegðaráhrifa með öðrum vegaframkvæmdum á sunnanverðum Vestfjörðum.

Sveitarfélagið hafni kröfu kæranda um endurupptöku ákvörðunarinnar endi byggi upphafleg ákvörðun á upplýsingum og gögnum sem nú liggi fyrir og hafi rannsóknarskylda sveitarfélagsins í málinu því verið uppfyllt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun eða breytir efni ákvörðunar. Verður því að skilja kröfugerð kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykkt bæjarstjórnar Vesturbyggðar á tillögu að endurskoðuðu Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2018-2035 hvað varðar veglínu um Vatnsfjörð.

Í 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010  kemur fram að aðalskipulag er háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna, en þó einungis staðfestingu Skipulagsstofnunar ef um óverulega breytingu er að ræða, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Í 3. mgr. 32. skipulagslaga kemur fram að aðalskipulag taki gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Umþrætt skipulagstillaga hefur ekki hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og hefur því ekki tekið gildi, en skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun sem ekki bindur enda á mál ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Þá er ljóst að þær ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða ekki bornar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga. Þegar af þeirri ástæðu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Á það skal þó bent að eftir atvikum eru framkvæmdaleyfi sem samþykkt eru á grundvelli hins kærða aðalskipulags kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.