Árið 2019, föstudaginn 11. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 147/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendablett 730-739.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2018, er barst nefndinni 21. s.m., kæra tíu íbúar við Vatnsenda, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, fyrir Vatnsendablett 730-739. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar.
Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. janúar 2019, sem bárust úrskurðarnefndinni sama dag, kæra annars vegar eigandi, Elliðahvammi við Vatnsenda, Kópavogi og hins vegar A og B, erfingjar að 1/15 hluta dánarbús sem hefur á hendi beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda, einnig fyrrgreinda ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, að úrskurðarnefndin kveði upp bráðabirgðaúrskurð um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og að allar framkvæmdir, hvort sem þær eru hafnar eða yfirvofandi, verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan úrskurðarnefndin hafi málið til umfjöllunar. Þar sem hin síðari kærumál, sem eru nr. 1 og 2/2019, varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verða þau sameinuð máli þessu.
Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 24. janúar 2019.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. janúar 2019.
Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, frá maí 2001. Hinn 4. desember 2017 samþykkti skipulagsráð Kópavogsbæjar að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu deiliskipulagi fyrir lóðirnar nr. 730-739 við Vatnsendablett. Í tillögunni fólst fjölgun íbúða og tilfærsla á byggingarreitum. Gert yrði ráð fyrir sjö parhúsum, fjórbýlishúsi og fjölbýlishúsi með fimm íbúðum. Alls væri um að ræða fjölgun íbúða um 13 á skipulagssvæðinu. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 12. desember 2017 og var tillagan kynnt á tímabilinu frá 20. janúar 2018 til 12. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Skipulags- og byggingardeild bæjarins brást við athugasemdum kærenda með umsögn, dags. 20. ágúst 2018, og bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum 25. september 2018.
Með erindi, dags. 26. september 2018, sendi Kópavogsbær Skipulagsstofnun deiliskipulagsbreytinguna til lögboðinnar umfjöllunar. Með bréfi, dags. 10. október s.á., tilkynnti stofnunin að hún gæti ekki tekið afstöðu til efnis deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem ekki lægi fyrir umsögn heilbrigðiseftirlitsins um færslu byggingarreita nær hænsnabúinu í Elliðahvammi, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar, tl. 7.3, um athugasemdir hagsmunaaðila vegna deiliskipulagstillögunnar, væri fjallað um mögulega lykt frá hænsnabúinu. Segi þar að setningu um það yrði bætt við greinargerð en það hefði ekki verið gert og jafnframt segði í umsögninni að möguleiki væri á að skoða staðsetningu vatnsbrunns til vara norðan girðingar við Elliðahvamm, en ekki væri ljóst af gögnum hvort það hefði verið gert. Skipulagsstjóri tók fyrir athugasemdir stofnunarinnar með erindi, dags. 6. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 15. s.m., tilkynnti Skipulagsstofnun að þar sem umsögn Heilbrigðiseftirlitsins lægi nú fyrir og brugðist hefði verið við ábendingum stofnunarinnar, gerði hún ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda og tók hún gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 28. nóvember 2018.
Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi í veigamiklum atriðum vikið frá þeim málsmeðferðarreglum sem skipulagslög nr. 123/2010, skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og stjórnsýslulög nr. 37/1993 mæli fyrir um. Greinargerð með skipulagstillögunni hafi verið ábótavant, en af lestri upphaflegrar greinargerðar með tillögunni sé ljóst að mikið skorti á að hún uppfylli kröfur gr. 5.8.5.2. skipulagsreglugerðar, sem fjalli nánar um hvert inntak greinargerðar með skipulagstillögu skuli vera. Kærendum hafi ekki verið send umsögn sveitarfélagsins um athugasemdir sínar fyrr en með bréfum, dags. 27. nóvember 2018, sem bárust 30. s.m. Hefði þá skipulagsbreytingin þegar verið auglýst og kærufrestur vegna málsins tekinn að líða. Þetta verklag sveitarfélagsins hafi ekki samrýmst 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, sem mæli samkvæmt orðanna hljóðan fyrir um að umsagnir hefðu átt að sendast kærendum samhliða því að sveitarstjórn sendi Skipulagsstofnun samþykkt deiliskipulag, sbr. 2. málslið ákvæðisins. Kærendum hafi samkvæmt framansögðu ekki gefist færi á að kynna sér afstöðu Kópavogsbæjar til framkominna athugasemda fyrr en hinn mánaðarlangi kærufrestur vegna ákvörðunar um deiliskipulag hafi byrjað að líða. Aðrir ágallar hafi orðið á meðferð málsins. Samkvæmt gr. 5.7.12. skipulagsreglugerðar beri sveitarstjórn að tilgreina kæruheimildir í auglýsingu um niðurstöðu sína hvað varði breytingu á deiliskipulagi. Af þeim gögnum sem kærendur hafi undir höndum verði ekki séð að slíkar almennar kæruleiðbeiningar hafi verið veittar. Þá hafi samþykkt deiliskipulag ekki verið sent Skipulagsstofnun innan lögbundins frests samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.
Hin umþrætta deiliskipulagsbreyting feli í sér gjörbreytingu á uppbyggingu Vatnsendabletts bæði hvað varði byggingarmagn, svipmót og eðli byggðar. Íbúafjöldi reitsins muni rúmlega tvöfaldast og reitanýtingarhlutfall fari úr 0,23 í 0,42. Samkvæmt því sem fram komi í umsögn Kópavogsbæjar sé reitanýting á aðliggjandi svæðum sex íbúðir á hektara en með breytingunni verði nýting Vatnsendabletts 15 íbúðir á hektara. Þéttleiki byggðar yrði því í algeru ósamræmi við nærliggjandi byggð. Svipmót byggðarinnar yrði sömuleiðis á skjön við þá byggð sem fyrir sé enda sé ráðgert að í stað einbýlishúsa komi annars vegar sjö parhús og hins vegar tvö fjölbýlishús meðan aðliggjandi reitir einkennist af lágreistum einbýlishúsum. Breytingin muni því kollvarpa heildaryfirbragði byggðar í kvosinni næst Elliðavatni. Af framansögðu sé ljóst að um sé að ræða róttæka breytingu á deiliskipulagi reitsins sem þurfi að eiga skýra stoð í aðalskipulagi. Af umsögn Kópavogsbæjar verði ráðið að sveitarfélagið rökstyðji samræmi deiliskipulagsbreytingarinnar við aðalskipulag með þrenns konar rökum. Í fyrsta lagi sé vísað til þess að gildandi aðalskipulag innihaldi áherslur um þéttingu byggðar. Í öðru lagi sé vísað til athugasemda í greinargerð með aðalskipulaginu um fram komnar hugmyndir að breyttri nýtingu reitsins. Loks sé vísað til stefnu bæjaryfirvalda um fjölgun íbúða. Að mati kærenda feli ekkert framangreindra sjónarmiða í sér víðhlítandi lagagrunn fyrir hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu.
Til viðbótar framangreindum sjónarmiðum um ósamræmi við aðalskipulag sé deiliskipulagsbreytingin haldin veigamiklum efniságalla enda brjóti hún gegn fyrirmælum gildandi stjórnvaldsreglna varðandi hollustuhætti. Aðliggjandi Vatnsendabletti sé alifuglabúið að Elliðahvammi. Meðal þess sem deiliskipulagsbreytingin hafi í för með sé að byggingarreitir fyrirhugaðrar íbúðabyggðar séu færðir nær alifuglabúinu en áður hafi verið, í bága við fyrirmæli stjórnvaldsreglna um hollustuvernd og mengunarvarnir. Samkvæmt 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, sbr. reglugerð 578/2017, skuli hæfileg fjarlægð vera á milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og mengandi atvinnustarfsemi og annarrar starfsemi sem valdið geti óþægindum hins vegar. Sé tekið fram að þar sem kveðið sé á um fjarlægðarmörk í öðrum reglugerðum eða í skipulagi skuli taka tillit til þeirra marka. Bæri því sveitarstjórn bæði að taka rökstudda afstöðu til hæfilegrar fjarlægðar nýrrar byggðar frá þeirri starfsemi sem fyrir sé á svæðinu og eins að gæta að ófrávíkjanlegum lágmarkskröfum í þessum efnum. Að því er varði alifuglabú sé slíkar lágmarkskröfur að finna í reglugerð um eldishús alifugla, loðdýra og svína nr. 520/2015. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé að finna efnisleg fyrirmæli um fjarlægðir eldishúsa frá öðrum mannvirkjum sem sveitarstjórn skuli ákvarða í skipulagsáætlunum. Fram komi í ákvæðinu að sveitarstjórn skuli ákvarða fjarlægðir með hliðsjón af hugsanlegum umhverfisáhrifum en fjarlægðir megi þó aldrei vera minni en segi í ákvæðinu. Að því er varði eldishús fyrir alifuglabú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur skuli umrædd fjarlægð aldrei vera minni en 50 metrar. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar eigi framangreindar fjarlægðarreglur við þegar um sé að ræða nýbyggingu eldishúsa, meiriháttar breytingar eða stækkun þeirra og breytta notkun í eldishús sem geti valdið auknum óþægindum. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar sé hins vegar tekið fram að fjarlægðarmörkin sem fram komi í 1. mgr. gildi einnig þegar um sé að ræða nýbyggingu mannvirkja sem teljist mannabústaðir eða vinnustaðir, meiriháttar breytingar eða stækkanir á þeim og þegar um sé að ræða breytta notkun. Með öðrum orðum beri sveitarstjórn við útfærslu skipulagsákvarðana að gæta fyrrnefndra fjarlægðarmarka þegar um sé að ræða nýja byggð í grennd við eldishús. Þetta hafi hins vegar ekki verið gert.
Ýmis ummæli í umsögn Kópavogsbæjar gefi til kynna að undirbúningi deiliskipulagsbreytingarinnar hafi verið áfátt hvað varði rannsókn máls, efnislegt mat og rökstuðning niðurstöðu. Hinn rauði þráður í athugasemdum íbúa hafi verið sá að benda á að hið verulega aukna byggingarmagn myndi eyðileggja hið sérstaka yfirbragð svæðisins sem einkennist af strjálli og lágreistri byggð. Í umsögninni sé að mestu leyti sneitt hjá þessum umkvörtunarefnum og að mestu einblítt á afmörkuð atriði eins og útsýni og skuggavarp. Sjónarmiðum íbúa um skerðingu á lífsgæðum og verðmætisrýrnun eigna sé eingöngu svarað með vísan í bótaákvæði skipulagslaga. Slík rök séu ekki boðleg enda beri sveitarfélagi að vinna skipulagstillögur í samræmi við markmið skipulagslöggjafar.
Kópavogsbær virðist hafa, með nýsamþykktri deiliskipulagsbreytingu sem gangi mun lengra í aukningu byggingarmagns en fyrri tillögur sem hafnað hafi verið, gengið þvert gegn eigin fyrri framkvæmd varðandi skipulag á Vatnsendabletti. Engar haldbærar skýringar hafi verið gefnar á breyttu mati bæjarins. Afgreiðsla sveitarfélagsins sé á skjön við það innbyrðis samræmi við framkvæmd skipulags sem íbúar eigi rétt á og brjóti gegn réttmætum væntingum þeirra.
Þá halda þeir kærendur, sem annars vegar gera tilkall til jarðarinnar Elliðahvamms í Vatnsenda og hins vegar erfingjar að dánarbúi Sigurðar Hjaltested, því fram að hið umdeilda deiliskipulag verði aldrei knúið í gegn af bæjaryfirvöldum nema að höfðu samráði og með samþykki þeirra.
Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til þess að í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 sé umrætt skipulagssvæði skilgreint sem íbúðarsvæði Kórar, Hvörf, Þing, ÍB-5. Samkvæmt aðalskipulagi sé svæðinu lýst sem byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Þá komi fram að helsta uppbyggingarsvæðið í Vatnsenda á skipulagstímabilinu verði í Vatnsendahlíð, þar sem gert sé ráð fyrir 900 íbúðum. Hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag.
Því sé hafnað að óverulegir annmarkar á greinargerð skipulagsuppdráttarins hafi komið í veg fyrir að hagsmunaaðilar hefðu getað gert sér grein fyrir því í hverju breytingartillagan hafi falist. Óumdeilt sé að deiliskipulagsbreytingunni hafi ítarlega verið lýst í greinargerð á kynntum skipulagsuppdrætti. Umrædd viðbót við greinargerðina hafi lotið að skilgreiningu og markmiðum gildandi aðalskipulags, þ.e. að tillagan væri í samræmi við skilgreiningu svæðisins og meginmarkmið aðalskipulags. Þá sé rétt að benda á að skýringarmynd aðalskipulagsins, uppdráttur gildandi deiliskipulags og hinnar kynntu skipulagstillögu haldist óbreytt. Hér sé því ekki um að ræða breytingu á grundvallaratriðum og því ekki ástæða til þess að auglýsa skipulagstillöguna að nýju, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt beri að nefna að Skipulagsstofnun hafi ekki gert frekari athugasemdir við deiliskipulagið eftir að búið hafi verið að bregðast við athugasemdum stofnunarinnar.
Því sé hafnað að ekki hafi verið haft samráð við hagsmunaaðila. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið auglýst og öllum þeim sem töldu sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að tjá sig um hana. Einnig sé bent á að meginforsendur umræddrar deiliskipulagsbreytingar liggi fyrir í gildandi aðalskipulagi. Þá hafi þeim aðilum sem gerðu athugasemdir á kynningartíma verið svarað. Það sé á valdi skipulagsyfirvalda að meta hvort framlagðar athugasemdir séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim. Samráð við hagsmunaaðila á vinnslutíma feli ekki í sér þátttöku í ákvarðanatöku í skipulagsmálum.
Hvað varði þá athugasemd kærenda að samþykkt deiliskipulag hafi verið sent til Skipulagsstofnunar að liðnum lögbundnum sex mánaða fresti, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga, þá verði að telja greinda seinkun óverulega. Athugasemdarfrestur hafi runnið út 12. mars 2018 og hafi því frestur til að senda samþykkt deiliskipulag til Skipulagsstofnunar verið til og með 12. september s.á. Skipulagsráð hafi samþykkt deiliskipulagsbreytinguna innan lögbundins frests, þ.e. 20. ágúst 2018, og hafi hún verið send Skipulagsstofnun innan sólarhrings frá því að bæjarstjórn samþykkti tillöguna, 25. september 2018. Ýmsar óviðráðanlegar ástæður hafi legið að baki því að málið hafi ekki verið tekið aftur fyrir hjá skipulagsráði fyrr en í lok sumars, s.s. sveitarstjórnarkosningar, sumarleyfi og myndun nýs skipulagsráðs.
Þeirri málsástæðu kærenda sé hafnað að skort hafi á kæruleiðbeiningar. Öllum aðilum sem hafi gert athugasemdir hafi verið send tilkynning um lok máls, dags. 27. nóvember 2018, þar sem gerð hafi verið grein fyrir kæruleiðum. Hvað varði nálægð fyrirhugaðrar byggðar við eldishús á næstu lóð þá hafi heilbrigðiseftirlitið ekki gert athugasemdir við það í umsögn sinni um deiliskipulagsbreytinguna. Í greindri umsögn komi fram að reglugerð nr. 520/2015 um eldishús, alifugla, loðdýra og svína leggi hömlur á byggingu nýrra eldishúsa nærri íbúðarbyggð. Reglugerðin banni hins vegar ekki byggingu nýrra íbúðarhúsa nærri eldishúsum. Verði að telja það verulega íþyngjandi ef fjarlægðartakmarkanir eigi að eiga við nýbyggingar á næstu lóð. Með því takmarkist nýtingarmöguleikar lóðarinnar þegar eldishúsi sé komið fyrir alveg við lóðarmörk aðliggjandi lóðar. Sé reglugerðarákvæðinu ætlað að hafa áhrif á staðsetningu og fjarlægð nýbyggingu næstu lóðar yrði að gera þá kröfu að eldishús séu staðsett 50 m eða 100 m frá aðliggjandi lóðarmörkum, eftir því sem eigi við hverju sinni m.v. fjölda fugla.
—–
Frekari rök og sjónarmið liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar fyrir Vatnsendablett 730-739, sem felur m.a. í sér fjölgun íbúða og tilfærslu byggingarreita á lóðunum.
Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 teljast lóðirnar Vatnsendablettur 730-739 til íbúðarbyggðar, merkt ÍB-5 Vatnsendi (Kórar, Hvörf, Þing). Í lýsingu aðalskipulags segir um svæðið að þar sé blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Helsta uppbyggingarsvæðið á Vatnsenda á skipulagstímabilinu verði í Vatnsendahlíð, þar sem gert sé ráð fyrir 900 íbúðum. Nánari umfjöllun um Vatnsenda er að finna í rammahluta aðalskipulags um Vatnsenda. Þar segir um Vatnsendablett 730-739 að í samþykku deiliskipulagi fyrir Vatnsenda, milli vatns og vegar, komi fram að á svæðinu eigi aðeins eftir að byggja 10 einbýlishús á Vatnsendabletti 730-739 og að fram hafi komið hugmyndir um að breyta einbýlishúsunum að hluta í parhús. Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir sjö parhúsum, fjórbýlishúsi og fjölbýlishúsi með fimm íbúðum. Alls er það fjölgun um 13 íbúðir sem tekur til 1,5 ha svæðis, en skipulagssvæðið í heild er um 37 ha. Verður ekki séð að tilvísun aðalskipulagsins í gildandi deiliskipulag fyrir lóðirnar Vatnsendablett 730-739 geri það að verkum að hin kærða deiliskipulagsbreyting fari í bága við bindandi hluta aðalskipulags, en eitt af markmiðum þess sé þétting byggðar og einskorðist það ekki við skilgreind þróunarsvæði í aðalskipulagi. Fer hin umdeilda deiliskipulagsbreyting því ekki gegn stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010, og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana því fullnægt.
Hið kærða deiliskipulag var auglýst til kynningar lögum samkvæmt og áttu kærendur þess kost að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Í 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að senda skuli Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð, ásamt athugasemdum og umsögnum um þær, innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Var sá frestur liðinn þegar Skipulagsstofnun var send umrædd deiliskipulagsbreyting ásamt nefndum fylgigögnum. Í nefndu ákvæði er einnig tekið fram að sveitarstjórn skuli jafnframt senda þeim aðilum er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær. Fyrir liggur að kærendum bárust ekki svör við athugasemdum sínum fyrr en með bréfum, dags. 27. nóvember 2018, en Kópavogsbær sendi Skipulagsstofnun deiliskipulagsbreytinguna til yfirferðar með erindi, dags. 26. september s.á. Hefði verið rétt, með hliðsjón af orðalagi nefndrar 42. gr. að kærendum hefði verið send svör við athugasemdum þeirra við deiliskipulagstillöguna á sama eða svipuðum tíma og svörin voru send Skipulagsstofnun til afgreiðslu. Eru þessir annmarkar á málshraða þó ekki þess eðlis að þeir geti raskað gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda höfðu þeir ekki áhrif á efni hennar og urðu kærendur ekki fyrir réttarspjöllum af þessum sökum.
Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína skal sveitarstjórn ákvarða fjarlægðir slíkra húsa frá mannabústöðum með hliðsjón af hugsanlegum umhverfisáhrifum en fjarlægðir samkvæmt b-lið I. liðar 1. mgr. ákvæðisins skulu vera 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga. Eggja- og kjúklingabúið að Elliðahvammi er með starfsleyfi sem gildir til 25. september 2021. Leyfið tekur til framleiðslu á 180 tonnum af eggjum og 70 tonna af sláturfugli á ári í eggja- og kjúklingahúsum með allt að 13.000 stæðum fyrir alifugla. Því er ljóst að umrætt bú er talsvert undir stærðarviðmiðum tilvitnaðs b-liðar reglugerðarinnar. Í málinu liggur fyrir að fjarlægð frá hænsnabúinu að fyrirhuguðum byggingarreit íbúðarhúss þar sem hún er minnst, er 27,3 m. Að mati bæjaryfirvalda var talið að 27,3 m væri hæfileg fjarlægð milli byggingarreita og alifuglabúsins með hliðsjón af 24. gr. reglugerðar nr. 951/2002 um hollustuhætti, þar sem fram kemur að hæfileg fjarlægð skuli vera á milli mannabústaða og matvælafyrirtækja. Ekki eru efni til að hrófla við því mati.
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana í sínu umdæmi. Hvergi í lögum er það áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana er taka til lands í einkaeigu enda verður beinum eða óbeinum eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Í kærumáli þessu takmarkast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu skipulagsbreytingu, en það er ekki á færi nefndarinnar að taka afstöðu til álitaefna um ætluð bein eða óbein eignarréttindi kærenda á skipulagssvæðinu.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og þess víðtæka skipulagsvalds sem sveitarstjórnum er veitt í skipulagslögum verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda, svæðis milli vatns og vegar, að því er varðar Vatnsendablett 730-739.