Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

143/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 143/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. nóvember 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Kveldúlfsgötu 2a, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóð nr. 59 við Borgarbraut með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 9. nóvember og 5. og 6. desember 2016.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti hinn 14. apríl 2016 breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar nr. 55-59 við Borgarbraut. Hinn 16. september s.á. veitti byggingarfulltrúi Borgarbyggðar byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á lóð nr. 57-59 við Borgarbraut, á grundvelli nefndrar deiliskipulagsbreytingar. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, uppkveðnum 23. september 2016, var fyrrgreind skipulagsákvörðun felld úr gildi þar sem hún var ekki talin vera í samræmi við gildandi aðalskipulag Borgarbyggðar. Í kjölfar ógildingar skipulagsbreytingarinnar samþykkti byggingarfulltrúi á fundi sínum 3. október 2016 að veita byggingarleyfi fyrir 59 herbergja hótelbyggingu, á lóðinni Borgarbraut 59 með opinni bílageymslu og tæknirými í kjallara Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 30. nóvember 2016, var hið fyrra byggingarleyfi, sem tók til sameinaðrar lóðar Borgarbrautar 57-59, afturkallað.

Málsrök kærenda: Kærendur, sem eiga fasteign í næsta nágrenni við fyrirhugaða hótelbyggingu, skírskota til þess að í hinu kærða byggingarleyfi sé byggt á röngum  stærðartölum lóðar við útreikning nýtingarhlutfalls. Lóðin sé sögð vera 3.050 m2 en í fasteignaskrá sé hún talin vera 2.640 m2. Í deiliskipulagi umrædds svæðis frá 2007 sé gert ráð fyrir verslun og þjónustu á neðri hæðum og íbúðum á efri, en ekki hóteli. Þá sé byggingarreitur í deiliskipulagi annar en nú sé. Með byggingu hótels á lóðinni muni umferð aukast verulega með tilheyrandi óþægindum og hávaða. Loks muni staðsetning og stærð byggingarinnar skyggja verulega á útsýni og geti hún valdið sterkum vindsveipum í nágrenninu. Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kærendur eigi hvorki verulega né einstaklega hagsmuni tengda úrlausn málsins, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulagsáætlun svæðisins sem hafi tekið gildi árið 2007 og aðalskipulag Borgarbyggðar, sem hafi verið staðfest af sveitarstjórn Borgarbyggðar árið 2010. Fyrirhuguð bygging á lóðinni Borgarbraut 59 sé innan þeirra viðmiða sem sett hafi verið í gildandi deiliskipulagi um hæð, stærð og nýtingarhlutfall lóðarinnar. Þá sé umrædd bygging öll innan byggingarreits og nýting hennar sé í samræmi við landnotkun svæðisins í gildandi aðalskipulagi. Útgáfa byggingarleyfisins hafi því engin áhrif gagnvart fasteign kærenda umfram það sem búast hafi mátt við samkvæmt skipulagsáætlunum svæðisins. Þar að auki sé kærufrestur vegna þeirra löngu liðinn. Stærð fyrirhugaðrar byggingar, mögulegir vindsveipir, áhrif á útsýni frá fasteign kærenda, stærð byggingarreits og bygging hótels hafi verið samþykkt í umræddum skipulagsáætlunum og kærendur hefðu því átt að kæra gildistöku þeirra á sínum tíma. Þá liggi fasteign kærenda ekki á aðliggjandi lóð við Borgarbraut 59 heldur sé hún hinum megin við Kveldúlfsgötu og standi auk þess norðar en Borgarbraut 59. Auk þess sé fasteign kærenda á mörkum þess sem sé skilgreint miðsvæði og íbúðarsvæði í aðalskipulagi.

Þótt gert sé ráð fyrir byggingu verslunar-, þjónustu- og íbúðarhúsnæðis á lóðinni hafi sveitarfélagið svigrúm til að heimila þar byggingu hótels. Lóðin Borgarbraut 59 sé á svæði sem í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sé skilgreint sem miðsvæði og sé gert ráð fyrir að á svæðinu verði blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu, sem sé í samræmi við skilgreiningu landnotkunar í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélags varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur og samgöngu- og þjónustukerfi. Er þar lagður grundvöllur að gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Deiliskipulag tekur til afmarkaðs svæðis eða reits innan marka sveitarfélags þar sem teknar eru ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa, sbr. 1. mgr. 37. gr. sömu laga. Þá þurfa skipulagsáætlanir að vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna.

Í gildi er Aðalskipulag Borgarbyggðar 2010-2022 og deiliskipulag fyrir Borgarbraut 55-59 sem tók gildi árið 2007. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði 12. gr. skipulagslaga verður að gera þá kröfu að skilmálar gildandi deiliskipulags séu í samræmi við aðalskipulag. Í aðalskipulagi Borgarbyggðar er umrædd lóð nr. 59 við Borgarbraut á skilgreindu miðsvæði (M). Á því svæði er heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu. Í almennum hluta greinargerðar gildandi deiliskipulags kemur fram að á skipulagssvæðinu sé gert ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúða, verslunar og þjónustu ásamt stofnunum. Er framangreind skilgreining landnotkunar í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013.  Í deiliskipulaginu eru einnig sérskilmálar fyrir umrædda lóð og samkvæmt þeim er hámark nýtingarhlutfalls 1,15. Lóðin er 3.050 m2 að stærð samkvæmt skipulagsuppdrætti. Þá er tekið fram að á lóðinni Borgarbraut 59 sé heimiluð landnotkun í samræmi við gildandi aðalskipulag. Gert sé ráð fyrir íbúðum í væntanlegu húsi á lóðinni, en atvinnustarfsemi sem samræmist íbúðarhúsnæði sé heimil á fyrstu hæð (jarðhæð).

Hin kærða ákvörðun veitir leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu á lóðinni Borgarbraut 59 og er fyrirhuguð bygging í samræmi við framangreinda landnotkun aðalskipulags og er hið kærða byggingarleyfi í samræmi við nefnda sérskilmála um stærð og nýtingarhlutfall í deiliskipulagi. Hins vegar hefur sveitarfélagið með greindum sérskilmálum um landnotkun umræddar lóðar sett takmarkanir á notkun hennar og verður ekki fallist á að hótelbygging á lóðinni rúmist innan skilmála deiliskipulagsins um landnotkun lóðarinnar.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og er það m.a. eitt af þeim skilyrðum sem þarf að vera uppfyllt við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Hið kærða byggingarleyfi er samkvæmt framangreindu ekki í samræmi við landnotkun gildandi deiliskipulags og verður því ekki hjá því komist að fella leyfið úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 3. október 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja 59 herbergja hótelbyggingu, opinn bílakjallara og tæknirými í kjallara, á lóð nr. 59 við Borgarbraut.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson