Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

14/2020 Bjarnarflag

Árið 2020, mánudaginn 9. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 14/2020, kæra á ákvörðun sveitastjórnar Skútustaðahrepps frá 22. janúar 2020 um að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi fyrir fjölnýtingu við skiljustöð 2 í Bjarnaflagi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir hluti landeigenda Reykjahlíðar þá ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 22. janúar 2020 að samþykkja stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi fyrir fjölnýtingu við skiljustöð 2 í Bjarnaflagi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir sem byggi á hinu kærða leyfi verði stöðvaðar þangað til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skútustaðahreppi 28. febrúar 2020.

Málavextir: Með umsókn dags. 8. janúar 2020, sótti Landsvirkjun um að fá að koma fyrir nýsköpunargámi fyrir fjölnýtingu við skiljustöð 2 í Bjarnaflagi. Í umsókninni kemur fram að um sé að ræða rými sem verði notað af rannsóknar- og þróunaraðilum til að kanna möguleika á framleiðslu á kísilríkum húð- og snyrtivörum fyrir innlenda og erlenda markaði úr affallsvatni. Aðstaðan verði til þess að prófa íblöndun á skiljuvatni og náttúrulegum vökvum, s.s. sjóvatni og grunnvatni, auk þess sem vökvar verði geymdir þar í lokuðum ílátum. Samkvæmt umsókninni felst framkvæmdin í jarðvegsskiptum til að koma fyrir forsteyptum undirstöðum fyrir gám, koma fyrir 3 m x 3 m x 9 m gám og festa hann við undirstöður, tengja 240 V rafmagn, ferskvatn og skiljuvatn úr skiljustöð og tengja affall frá gámnum. Meðfylgjandi umsókninni er afstöðumynd af fyrirhuguðum gám og teikning af gámnum.

Umsóknin var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar 14. janúar 2020 og lagði nefndin til við sveitarstjórn að byggingarfulltrúa yrði falið að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða. Sveitarstjórn tók málið fyrir 22. s.m. og samþykkti að gefa út stöðuleyfi til 12 mánaða. Byggingarfulltrúa gaf stöðuleyfið út 24. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að framkvæmdir verði að telja yfirvofandi í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, í samræmi við atvik máls og afgreiðslu sveitarstjórnar.

Málsrök Skútustaðahrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að stöðvun framkvæmda feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að kærur til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttar­áhrifum kærðrar ákvörðunar. Í ljósi lítils umfangs og annars eðlis ráðstafana sem gerðar verða vegna hins kærða stöðuleyfis sé því mótmælt að ástæða sé til að fella réttaráhrif leyfisins niður á meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Athugasemdir Landsvirkjunar: Engar málsástæður hafa komið fram af hálfu Landsvirkjunar um þann hluta málsins er snýr að stöðvun framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar að kröfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttar­áhrifum kærðar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að megin­reglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undan­tekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórn­valdi.

Í máli þessu er deilt um stöðuleyfi fyrir nýsköpunargámi. Aðilar málsins, sem eru fleiri en einn, eiga andstæðra hagsmuna að gæta og bendir ekkert til þess að erfitt sé að ráða bót á þeirri röskun, eftir atvikum á jarðvegi, sem fælist í því koma fyrir gámi á forsteyptum undirstöðum. Sér í lagi í ljósi þess að gámurinn á að standa þétt upp við skiljustöð 2 samkvæmt afstöðumynd.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda á meðan á meðferð málsins stendur fyrir úrskurðarnefndinni.

Rétt er þó að benda á að leyfishafi ber alla áhættu af því að hefja framkvæmdir á grundvelli hins kærða leyfis á meðan ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða um lögmæti þess.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að framkvæmdir sem byggja á hinu kærða leyfi verði stöðvaðar þangað til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir.