Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

137/2018 Sólvallagata

Árið 2019, þriðjudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 137/2018, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. nóvember 2018, sem staðfest var í borgarráði 29. s.m., er lýtur að afmörkun lóðanna Sólvallagötu 68 og Framnesvegar 31B.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. nóvember 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kærir eigandi, Sólvallagötu 68, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. nóvember 2018 er lýtur að afmörkun lóðanna Sólvallagötu 68 og Framnesvegar 31B. Skilja verður málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 22. janúar 2019.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Vesturvallareits, staðgreinireits nr. 1.134.5, sem samþykkt var í apríl árið 2012. Tekur skipulagið til svæðis sem afmarkast af Framnesvegi, Sólvallagötu, Holtsgötu og Vesturvallagötu, og eru lóðirnar Sólvallagata 68 og Framnesvegur 31B markaðar á skipulagsuppdrætti svæðisins. Tekið er fram í skipulagi að vegna skiptingar lóða sé gerður fyrirvari um nákvæma lóðarstærð sem muni ákvarðast á mæliblaði.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 13. nóvember 2018 var lögð fram tillaga landupplýsinga­­deildar Reykjavíkurborgar um afmörkun lóðarinnar Framnes­vegar 31B. Í tillögunni sagði svo: „Lóðin Sólvallagata 68 (staðgr. 1.134.510, L100394) er talin 1242,8 m². Lóðin reynist 1319 m². Teknir 428 m² af lóðinni Sólvallagötu 68 og bætt við lóðina Framnesveg 31B (staðgr. 1.134.517, L226399). Lóðin Sólvallagata 68 (staðgr. 1.134.510, L100394) verður 891 m². Ný lóð Framnesvegur 31B (staðgr. 1.134.517, L226399). Bætt 428 m² við lóðina frá Sólvallagötu 68 (staðgr. 1.134.510, L100394). Lóðin Framnesvegur 31B (staðgr. 1.1.3.4.517, L226399) verður 428 m².“

Byggingarfulltrúi samþykkti tillöguna 14. nóvember 2018 og var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 29. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að lóðin Sólvallagata 68 sé sameiginleg fyrir Sólvallagötu 68a og 68 og hafi eigendur  ekki heimilað eða beðið um að henni yrði skipt.

Árið 1983 hafi verið óskað eftir því að lóðinni Sólvallgötu 68 yrði skipt en því erindi hafi verið hafnað. Líkt og fram komi í eignaskiptayfirlýsingu fyrir Sólvallagötu 68 frá desember 1998 hafi lóðin verið tilgreind sem íbúðarhúsalóð, 1.242,8 m² að stærð, „öll í óskiptri eign“, og hafi eigendur hennar ætíð gengið út frá þessu. Þetta megi t.d. sjá í afsali á eignarhluta í einbýlishúsinu nr. 31 við Framnesveg frá janúar 1990 þar sem fram komi að eignin sé tilgreind sem hluti af Sólvallagötu 68. Einnig megi vísa til afsals á sama eignarhluta frá 5. maí 1992 þar sem skýrt komi fram að umrædd eign tilheyri Sólvallagötu 68. Öll skjölin sýni að húsið að Framnesvegi 31B sé á lóð sem tilheyri Sólvallagötu 68.

Nýtt deiliskipulag geti ekki haft áhrif á eignarhald á lóðinni, eins og Reykjavíkurborg haldi fram. Það sem breytist þegar nýtt deiliskipulag taki gildi sé einungis það að komin sé heimild til að skipta lóðinni. Slíka heimild sé hins vegar aðeins hægt að nýta í fullu samráði og með samþykki hinna réttmætu eigenda lóðarinnar. Þrátt fyrir að umrædd lóðarmarkabreyting hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag breyti það engu um þá staðreynd að engin samþykkt hafi legið fyrir frá réttmætum eigendum lóðarinnar. Breytingin sé því heldur ekki í samræmi við þinglýsta eigendaskráningu lóðarinnar andstætt því sem fram komi í greinargerð Reykjavíkurborgar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að kærandi hafi ekki getað sýnt fram á neinar eignarheimildir sem styðji málatilbúnað hans. Í samþykktu deiliskipulagi sé lóðin Sólvallagata 68 tilgreind sem 840,4 m² og Framnesvegur 31B tilgreind sem 402,4 m² að stærð. Í deiliskipulaginu komi fram að ónákvæmni gæti í landupplýsingargrunni um lóðarmörk og séu þau lagfærð með deiliskipulagi en rétt lóðarstærð muni koma fram á mæli- og/eða lóðablöðum.

Með skiptingu umræddrar lóðar í samþykktu deiliskipulag sé ekki tekin afstaða til þeirra eignarheimilda sem búi henni að baki heldur sé byggt á deiliskipulagi sem sé allsherjarréttarlegs eðlis. Deiliskipulag hafi hliðstæða stöðu og reglugerð sem hvorki geti myndað eða fellt niður einkaréttarleg lóðarréttindi. Einkaréttarleg lóðarréttindi byggist á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðarréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðarréttindin, hvort sem um eignarland eða leigulóð sé að ræða, séu stofnskjöl slíkra réttinda. Lóðarskipting samkvæmt þinglýstum heimildum bindi ekki hendur landupplýsingadeildar Reykjavíkurborgar til að útbúa lóðaruppdrátt í samræmi við lóðaskiptingu sem sé tilgreind og ákveðin í gildandi deiliskipulagi. Þá sé lóðaskiptingin jafnframt í samræmi við þinglýsta eigendaskráningu lóðanna Framnesvegs 31B og Sólvallagötu 68.

Lóðin að Framnesvegi 31B hafi verið svo til óbreytt að stærð frá árinu 1928 þegar hún hafi verið sameinuð úr fjórum lóðarhlutum. Vegna eigendasögu hennar og lóðarinnar Sólvalla­götu 68 hafi stærð lóðarinnar verið rangt tilgreind í Þjóðskrá. Lóðirnar tvær hafi ekki verið formlega sameinaðar. Lóðin Framnesvegur 31B hafi verið seld ásamt húsinu sem á henni standi í júní árið 1983 til þriðja aðila með vísan til samþykktrar lóðarafmörkunar frá mars 1927 og afsals frá ágúst 1928. Með því afsali hafi það hús á lóðinni verið skilið frá lóðinni að Sólvallagötu 68. Þinglýst gögn um lóðirnar staðfesti að lóðirnar tvær séu sjálfstæðar lóðir, tvö sjálfstæð þinglýsingarandlög, og sé kærð lóðaafmörkun einnig í samræmi við eignarheimildir um lóðirnar.

Niðurstaða: Lóðirnar Sólvallagata 68 og Framnesvegur 31B eru afmarkaðar á deiliskipulags­uppdrætti. Í sérskilmálum deiliskipulagsins kemur fram að „lagt er til að skipta lóðinni Sólvallgötu 68/Framnesvegi 31 í lóðirnar Sólvallagötu 68 og Framnesveg 31B.“ Einnig er þar tilgreint að lóðarmörk Framnesvegar 31A skuli lagfærð þannig að húsið standi alfarið innan lóðarmarka, en vegna skiptingar lóðarinnar sé gerður fyrirvari um nákvæma lóðarstærð sem muni ákvarðast á mæliblaði. Verður að skilja hina kærðu ákvörðun á þann veg að með henni hafi byggingarfulltrúi verið að fylgja eftir fyrrgreindum ákvæðum deiliskipulags um gerð mæliblaðs fyrir lóðir á reitnum. Átti hin kærða ákvörðun sér því stoð í gildandi deiliskipulagi.

Úrskurðarnefndin er ekki til þess bær að lögum að skera úr um eignaréttarlegan ágreining enda einskorðast valdheimildir hennar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ágreining um bein eða óbein eignaréttindi verður eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum, en rétt þykir að geta þess að deiliskipulags­ákvarðanir geta ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar og kröfu þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. nóvember 2018, sem staðfest var í borgarráði 29. s.m., er lýtur að afmörkun lóðanna Sólvallagötu 68 og Framnesvegar 31B.