Mál nr. 131/2016, kæra á afgreiðslum sveitarstjórnar Flóahrepps frá 10. ágúst og 14. september 2016 á erindi kæranda um beiðni um aðgang að gögnum.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2016, er barst nefndinni 11. s.m., framsendir innanríkisráðuneytið kæru H, Langholti 1, Flóahreppi, þar sem kærð er sveitarstjórn Flóahrepps „fyrir afgreiðslu erinda á fundum 10. ágúst 2016 og 4. september 2016.“ Er þess krafist að sveitarstjórn verði gert að taka erindi kæranda til umfjöllunar og leiðrétti í bókun rangfærslur í málinu ásamt því að fela byggingarfulltrúa að afhenda kæranda umbeðin gögn.
Gögn málsins bárust frá Flóahreppi 24. október 2016 og í janúar 2017.
Málavextir: Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa Flóahrepps, dags. 6. september 2015, var gerð krafa um afhendingu nánar tiltekinna gagna. Umrædd beiðni var ítrekuð með bréfi til sveitarstjóra, dags. 23. mars 2016. Framsendi sveitarstjóri erindið til byggingarfulltrúa sama dag með tölvupósti. Með bréfi til sveitarstjórnar, dags. 5. maí 2016, er móttekið var 6. s.m., áréttaði kæranda enn beiðni sína um afhendingu umbeðinna gagna. Mun umrædd gagnabeiðni tengjast kærumáli nr. 17/2014 sem var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lauk með uppkvaðningu úrskurðar 3. maí 2016, sem og kærumáli nr. 68/2016 sem enn er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi nefndra mála er jafnframt kærandi máls þess sem hér um ræðir.
Á fundi sveitarstjórnar 10. ágúst 2016 var tekið fyrir erindi kæranda, dags. 3. s.m. Óskaði sveitarstjóri eftir því að fært væri til bókar að innihaldi erindis, dags. 6. maí, hefði samdægurs verið komið til nýs byggingarfulltrúa til afgreiðslu. Hefðu umbeðin gögn ekki fundist en þau hafi síðar komið í ljós í skjalasafni embættisins og verið send Hafi byggingarfulltrúi ítrekað reynt að ná sambandi við bréfritara, sem er kærandi í máli þessu, til að fá nánari skýringar varðandi umbeðin gögn, en án árangurs. Hann hafi einnig reynt að afhenda þau á heimili kæranda 8. ágúst 2016 en verið vísað frá.
Málið var aftur tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 14. september s.á. og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Lagt fram erindi frá [H] í þremur liðum. Liður 1: Fram kemur að [H] telur sig ekki hafa fengið frá Flóahreppi afhent umbeðin gögn, sem hann óskaði eftir 6. maí 2016. Þar sem virðist vera um misskilning að ræða varðandi afhendingu umbeðinna gagna óskar sveitarstjórn eftir því að [H] sendi að nýju inn skriflega beiðni þar sem fram komi hvaða gagna sé óskað. Beiðni skal send beint á embætti Skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita bs. Liðir 2 og 3 eru lagðir fram til kynningar. Sveitarstjórn samþykkir afgreiðsluna með 5 atkvæðum.“ Var kæranda tilkynnt um afgreiðslu sveitarstjórnar með bréfi, dags. 21. september 2016.
Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að sveitarfélagið hafi í engu sinnt erindi hans fyrr en sveitarstjóra hafi borist kæra í málinu. Hafi verið færðar til bókar rangfærslur um málið sem og í fréttaflutningi.
Málsrök Flóahrepps: Sveitarfélagið gerir kröfu um að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hlutverk úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála. Sé það ekki á valdsviði nefndarinnar að taka til skoðunar afgreiðslu erinda á sveitarstjórnarfundum.
Ekki liggi fyrir stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hafi hin kærða afgreiðsla aðeins falið í sér beiðni um nánari útskýringu á erindi kæranda um aðgang á gögnum, en beiðni hans hafi hvorki verið hafnað né hún samþykkt. Engin endanleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Þá verði stjórnvaldsákvörðun ekki skotið til æðra stjórnvalds nema hún feli í sér lokaákvörðun um mál, skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Niðurstaða: Líkt og að framan er rakið telur kærandi að sveitarfélagið hafi ekki enn afhent honum öll þau gögn sem hann hafi ítrekað óskað eftir. Var erindi hans þess efnis tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 14. september 2016 og þess óskað að kærandi myndi að nýju óska með skriflegum hætti eftir nánar tilgreindum gögnum, þar sem misskilnings virtist gæta í málinu. Telja verður að nefnd afgreiðsla sveitarstjórnar hafi verið þáttur í því að rannsaka málið svo sveitarstjórn væri unnt að bregðast við beiðni kæranda um afhendingu gagna, en leiki vafi á því eftir hvaða gögnum er óskað verður eðli máls samkvæmt að leita samráðs við kæranda í því skyni að upplýsa það. Í ljósi þess bjuggu efnislegar ástæður að baki þeirri afgreiðslu sveitarstjórnar að afgreiða ekki erindi kæranda að svo stöddu.
Að framangreindu virtu felur hin kærða afgreiðsla ekki í sér lokaákvörðun máls, en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þarf svo að vera svo máli verði skotið til æðra stjórnvalds. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir