Fyrir var tekið mál nr. 13/2017, kæra á aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík í tilefni af framkvæmdum í fjölbýlishúsi og á lóð Laugarnesvegar 83 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. janúar 2017, er barst nefndinni 30. s.m., kærir A, Laugarnesvegi 83, Reykjavík, aðgerðarleysi byggingarfulltrúans í Reykjavík „varðandi eldhættu og óleyfisframkvæmdir“ við nefnda fasteign.
Málavextir: Húsið að Laugarnesvegi 83 er þriggja íbúða hús, kjallari, hæð og rishæð. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að deilur hafi staðið milli eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins og kæranda, sem á íbúð í rishæð þess, m.a. vegna 31 m2 skúrs á lóð hússins og framkvæmda við tengingu raflagna hússins í skúrinn.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum samþykktu þáverandi eigendur fasteignarinnar að Laugarnesvegi 83 eignaskiptayfirlýsingu vegna nefndrar fasteignar sem þinglýst var 4. september 1996. Í yfirlýsingunni kemur fram að íbúð, merkt 01-0101, fylgi geymsluskúr sem standi á lóðinni sem ekki hafi verið samþykktur af byggingaryfirvöldum. Er tekið fram að áætlað sé að skúrinn verði í framtíðinni fjarlægður og honum fylgi engin lóðarréttindi. Eigandi skúrsins hafi þó áfram heimild til að endurbæta geymsluskúrinn eða byggja nýjan á lóðinni að fengnu leyfi byggingaryfirvalda. Í skráningartöflu, dags. 11. desember 1995, er fylgdi eignaskiptayfirlýsingunni, er skúrsins ekki getið. Samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands hefur verið skráð 13,5 m2 geymsla á lóðinni Laugarnesvegi 83 og hafði sú matseining númerið 2016845. Kærandi eignaðist íbúð sína að Laugarnesvegi 83 með kaupsamningi, dags. 21. apríl 2001.
Hinn 6. júní 2006 var samþykkt umsókn eiganda íbúðar á fyrstu hæð hússins um byggingarleyfi fyrir áður gerðri 31 m2 bílgeymslu á fyrrgreindri lóð. Þá var hinn 12. janúar 2007 þinglýst á fasteignina yfirlýsingu um samþykki eigenda hennar að bílskúr sem hafi staðið á lóð Laugarnesvegar 83 í yfir 10 ár komi í staðinn fyrir þann sem þar hafi verið á sama stað. Yfirlýsingin er undirrituð af tveimur eigendum tveggja eignarhluta í húsinu en á skortir undirritun kæranda sem eiganda þriðja eignarhlutans. Bílgeymslan var skráð í fasteignaskrá sem 31,0 m2 bílskúr hinn 21. október 2015 sem sama matseining í stað fyrrgreinds 13,5 m2 skúrs. Skráning matseiningarinnar var síðan afmáð 22. september 2016. Ekki liggur fyrir hvenær núverandi skúr var reistur í stað þess sem mun hafa áður staðið á umræddri lóð. Málsrök kæranda: Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að greindur 31 m2 skúr á lóðinni Laugarnesvegi 83 hafi verið byggður í óleyfi og án samþykkis sameigenda og sama eigi við um tengingu skúrsins við raflagnir fjölbýlishússins um sameiginlega lóð. Skúrinn og fjölbýlishúsið á lóðinni sé úr timbri og af skúrnum stafi eldhætta. Ekki sé gert ráð fyrir honum í deiliskipulagi og byggingarleyfi fyrir skúrnum hafi fengist á grundvelli rangra gagna og upplýsinga um samþykki sameigenda lóðarinnar og um áralanga tilvist hans á lóðinni. Allt frá árinu 2006 hafi kærandi kvartað yfir óleyfisframkvæmdunum við byggingarfulltrúa og gert þá kröfu að þær yrðu fjarlægðar og jarðrask afmáð. Síðast hafi sú krafa verið ítrekuð með tölvupósti 17. janúar 2017 sem í engu hafi verið svarað. Leitað hafi verið til Neytendastofu vegna raflagnanna í febrúar 2006 og til Mannvirkjastofnunar 2011 og 2012, sem hafi gert skýrslu um úrbætur af því tilefni. Enn hafi málið verið kært til stofnunarinnar á árinu 2016 og þá ný úttekt gerð og niðurstaða legið fyrir 4. janúar 2017, þar sem vísað hafi verið á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Vegna athafnaleysis byggingarfulltrúa í tilefni af nefndum óleyfisframkvæmdum hafi verið leitað til umboðsmanns borgarbúa árið 2014, sem hafi í niðurstöðu sinni ári síðar fundið að meðferð málsins.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Óljóst sé af kæru hvort verið sé að kæra tiltekna ákvörðun byggingarfulltrúa, en helst verði ráðið að kært sé samþykki hans frá árinu 2006 fyrir áður gerðum bílskúr að Laugarnesvegi 83. Ekki verði af kæru ráðið að um aðra lokaákvörðun sé að tefla í málinu. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Kærufrestur hafi því verið löngu liðinn þegar kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni. Beri að vísa málinu frá skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að kæru verið ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.
Aðila að umdeildum framkvæmdum var tilkynnt um kærumálið, en með tölvupósti 16. mars 2017 tilkynnti hann úrskurðarnefndinni að hann hefði selt íbúð sína að Laugarnesvegi 83, sem umdeildur skúr tilheyri, og telji sig því ekki lengur vera aðila að málinu vegna hagsmuna því tengdu og beri af þeim sökum að taka málið af dagskrá.
Niðurstaða: Fyrir liggur að á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 6. júní 2006 var að undangenginni kynningu samþykkt umsókn um leyfi fyrir áður gerðum 31 m2, 85 m3, bílskúr á fjölbýlishúsalóðinni Laugarnesvegi 83. Samkvæmt bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 16. júní s.á., andmælti kærandi leyfisveitingunni og krafðist þess m.a. að byggingarfulltrúi afturkallaði ákvörðun sína. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að skjóta málum til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun. Kærufrestur vegna nefnds byggingarleyfis er því löngu liðinn. Af þeim sökum verður ekki tekin afstaða til lögmætis nefndrar ákvörðunar í máli þessu.
Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum hefur kærandi um árabil krafist aðgerða byggingaryfirvalda vegna umdeildra framkvæmda á lóð Laugarnesvegar 83 án þess að séð verði að þær kröfur hafi fengið lögformlega afgreiðslu. Forsaga málsins og málatilbúnaður kæranda ber með sér að tilefni kærumáls þessa sé sá dráttur sem orðið hafi á afgreiðslu greindra erinda kæranda, en krafa um beitingu þvingunarúrræða var síðast ítrekuð í tölvupósti kæranda til byggingarfulltrúa 17. janúar 2017. Í lokamálsgrein 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um að unnt sé að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð. Verður að líta svo á að slík kæra felist í málskoti kæranda til úrskurðarnefndarinnar, en lokaákvörðun um afturköllun byggingarleyfis eða um beitingu þvingunarúrræða samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki væri eftir atvikum kæranleg til nefndarinnar.
Í ljósi þess að kærandi hefur um árabil farið fram á aðgerðir borgaryfirvalda í tilefni af ætluðum ólögmætum framkvæmdum á umræddri lóð verður talið að óhæfilegur dráttur sé orðinn á afgreiðslu erinda kæranda vegna framkvæmdanna án þess að fyrir liggi viðhlítandi skýring á því. Er því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka til lögformlegrar afgreiðslu kröfu kæranda um afturköllun umdeilds byggingarleyfis og beitingu þvingunarúrræða vegna fyrrgreindra framkvæmda.
Lagt er fyrir byggingarfulltrúann í Reykjavík að taka til afgreiðslu erindi kæranda vegna framkvæmda á lóð Laugarnesvegar 83 í Reykjavík sem beint hefur verið til embættisins.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson