Árið 2020, föstudaginn 20. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 129/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 um að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., Egilsgötu 4, Borgarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. desember 2019 að gefa út vottorð um lokaúttekt Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 18. febrúar 2020.
Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Kærandi hefur ítrekað lagt fram kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi leyfisveitingar Borgarbyggðar vegna breytinga á húsnæði að Egilsgötu 6, en kærandi er eigandi Egilsgötu 4. Með úrskurði 24. september 2015 í kærumáli nr. 57/2013 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa um að veita leyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu, en leyfið fól í sér heimild til að breyta íbúðarhúsi og geymslu á lóðinni í þrjár stúdíóíbúðir á fyrstu hæð og eina íbúð á annarri hæð. Ákvörðun um að veita nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsnæði að Egilsgötu 6 var síðan felld úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 9. nóvember 2019 í kærumáli nr. 89/2016. Eigandi Egilsgötu 6 sótti að nýju um leyfi til breytinga á húsnæðinu og á fundi sveitarstjórnar 14. mars 2018 var samþykkt að fela byggingarfulltrúa að gefa út hið umrædda leyfi. Hinn 26. s.m. gaf byggingarfulltrúi út lokaúttektarvottorð vegna framkvæmda að Egilsgötu 6, en í vottorðinu kom fram að verið væri að klæða og einangra útveggi hússins. Byggingarfulltrúi gaf svo út byggingarleyfi 2. apríl s.á. og kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar.
Hinn 12. desember 2019 gaf byggingarfulltrúi út að nýju lokaúttektarvottorð þar sem utanhúss framkvæmdum var þá lokið. Með úrskurði 23. janúar 2020, í kærumáli nr. 24/2019, felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 2. apríl 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að breyta húsnæði á lóð nr. 6 við Egilsgötu í þrjár stúdíóíbúðir á neðri hæð og eina íbúð á efri hæð.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að grenndarkynning byggingarleyfisumsóknar fyrir breytingum að Egilsgötu 6 hafi ekki uppfyllt skilyrði laga. Útgefið byggingarleyfi frá 2. apríl 2019 og hönnunargögn uppfylli ekki heldur skilyrði laga nr. 160/2010 um mannvirki eða byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Ekki hafi komið fram í greinargerð grenndarkynningar til hverra nota íbúðirnar ættu að vera, en fyrir liggi að byggingarfulltrúi og sveitarstjóri sveitarfélagsins hafi gefið sýslumanninum á Vesturlandi jákvæða umsögn um rekstur gistiþjónustu í flokki II í þremur íbúðum á fyrstu hæð hússins. Ágallar á hönnun íbúðanna hafi aldrei gefið forsendur til lokaúttektar eða jákvæðra umsagna um gistiþjónustu.
—–
Leyfishafa og Borgarbyggð voru veitt tækifæri til að koma að athugasemdum í málinu en þessir aðilar kusu að nýta sér það ekki. Þó var tekið fram af hálfu Borgarbyggðar að litið væri svo á að ákvörðun um útgáfu lokavottorðs væri fallin niður þar sem byggingarleyfi það sem hin kærða lokaúttekt hafi verið byggð á hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019.
—–
Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.
Í IV. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki er fjallað um ábyrgð eiganda mannvirkis og tilhögun byggingareftirlits. Samkvæmt 15. gr. laganna ber eigandi m.a. ábyrgð á því að við hönnun og byggingu mannvirkis sé farið að kröfum laganna og reglugerða settra á grundvelli þeirra, en byggingarstjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Mælt er fyrir um það í 3. mgr. 36. gr. laganna að við lokaúttekt skuli gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá segir í 6. mgr. ákvæðisins að komi í ljós við lokaúttekt að mannvirkið uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert. Að framangreindum ákvæðum virtum er ljóst að útgáfa lokaúttektarvottorðs hefur fyrst og fremst þýðingu þegar kemur að réttindum og skyldum eiganda og byggingastjóra. Verður kærandi, sem er eigandi húss á aðliggjandi lóð, því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta af útgáfu lokaúttektarvottorðs á grundvelli mannvirkjalaga þótt steyptar tröppur tengi húsin saman. Þá er heldur ekki að sjá að fyrir hendu séu að öðru leyti þeir einstaklegu og verulegu hagsmunir sem eru skilyrði kæruaðildar skv. áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Að auki telur úrskurðarnefndin rétt að benda á að þótt ekki liggi fyrir að hin kærða ákvörðun um útgáfu lokaúttektarvottorðs hafi verið formlega afturkölluð af byggingarfulltrúa þá lítur sveitarfélagið svo á að hún sé fallin úr gildi þar sem byggingarleyfi það sem henni lá til grundvallar var fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 24/2019. Mun eigandi Egilsgötu 6 og hafa verið upplýstur um þá afstöðu sveitarfélagsins.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.