Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

126/2007 Aspargrund

Ár 2007, mánudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 31. maí 2007 um að heimila byggingu bílskúrs og stækkun hússins að Aspargrund 9 í Kópavogi. 

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. september 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl., f.h. S,  Aspargrund 1, S og  G, Aspargrund 3, Á og G , Aspargrund 5 og F og O, Aspargrund 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 31. maí 2007 að heimila byggingu bílskúrs og stækkun íbúðarhússins á lóðinni nr. 9 við Aspargrund í Kópavogi.  Var framangreind ákvörðun staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 12. júní 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Er krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi byggingarnefndar hinn 3. maí 2006 var tekið fyrir erindi um að byggja bílskúr og stækkun hússins að Aspargrund 9 í Kópavogi.  Byggingarnefnd vísaði erindinu til skipulagsnefndar sem samþykkti að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi.  Við grenndarkynninguna bárust athugasemdir.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 5. september 2006 var tillagan samþykkt með breytingu er varðaði staðsetningu bílskúrs.  Á fundi bæjarráðs Kópavogs hinn 7. september 2006 var ákvörðun skipulagsnefndar samþykkt og er það mál til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Hinn 31. maí 2007 heimilaði byggingarfulltrúi byggingu bílskúrs og stækkun hússins að Aspargrund 9 og staðfesti bæjarstjórn leyfið hinn 12. júní 2007.  Hafa kærendur einnig kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar líkt og að framan greinir.    

Hinn 15. júní 2007 ritaði byggingarfulltrúi byggingarleyfishafa bréf þar sem sagði eftirfarandi:  „Byggingarleyfi fyrir viðbyggingu og bílskúr að Aspargerði 9 (sic), sem samþykkt var af byggingarfulltrúanum í Kópavogi  31. maí 2007 og staðfest var af bæjarstjórn Kópavogs þann 12. júní 2007 er ekki í samræmi við 26. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, þar sem breytt deiliskipulag lóðarinnar hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Með tilvísunar til 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er hér með fyrirskipuð stöðvun allar frekari framkvæmda við mannvirki á lóðinni Aspargrund 9-11, þar til umrædd breyting á skipulagi hefur verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.“

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun bæjarráðs um breytt deiliskipulag er taki til lóðarinnar að Aspargrund 9 og krafist ógildingar hennar.  Verði deiliskipulagsbreytingin felld úr gildi leiði það til þess að jafnframt beri að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi. 

Byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hinn 15. júní 2007.  Kærendur hafi talið að byggingarleyfið hefði verið afturkallað og að sækja hefði þurft um byggingarleyfi að nýju eftir að auglýsing um breytt deiliskipulag birtist í B-deild Stjórnartíðinda.  Ekki liggi fyrir samþykkt bæjarstjórnar um byggingarleyfi á grundvelli hins breytta skipulags eftir að það hafi tekið  gildi. 

Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið afturkölluð.  Stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar ákvörðun sé ógildanleg, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga.  Í því tilfelli sem hér um ræði hafi byggingarleyfið verið gefið út á grundvelli deiliskipulags sem ekki hafi hlotið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.  Byggingarleyfið hafi því verið afturkallað með erindi byggingarfulltrúa, dags. 15. júní 2007.  Ekki hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi eftir að það hafi verið afturkallað.

Byggingarleyfishafa voru kynntar framkomnar kærur og af hálfu lögmanns hans liggur fyrir yfirlýsing, dags. 8. október 2007, þess efnis að byggingarleyfishafi muni halda að sér höndum með framkvæmdir fram til 24. október 2007.  Þrátt fyrir það hefur verið haldið áfram við framkvæmdir og hefur krafa um stöðvun framkvæmda verið ítrekuð.  

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér með óformlegum hætti aðstæður á vettvangi hinn 8. október 2007. 

Niðurstaða:  Hið kærða byggingarleyfi á stoð í skipulagsbreytingu þeirri sem samþykkt var í bæjarstjórn Kópavogs hinn 7. september 2006 og kærð hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  Af hálfu Kópavogsbæjar er því haldið fram að umdeilt byggingaleyfi hafi verið afturkallað hinn 15. júní 2007 en í bréfi byggingarfulltrúa bæjarins til byggingarleyfishafa, dagsett sama dag, kemur fram að framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfinu séu stöðvaðar með vísan til 1. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar til fyrrgreind skipulagsbreyting hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda.  Sú auglýsing mun hafa birst hinn 19. september 2007 og var framkvæmdum haldið áfram í kjölfar þess.

Í ljósi þess að uppi eru álitaefni er varða gildi hins kærða byggingarleyfis sem kryfja þarf til mergjar þykir eftir atvikum rétt að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda þar til málið er til lykta leitt fyrir úrskurðarnefndinni. 
 

Úrskurðarorð:

Framkvæmdir, sem hafnar eru á lóðinni nr. 9 við Aspargrund í Kópavogi, skulu stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________                          ____________________________
  Ásgeir Magnússon                                                   Þorsteinn Þorsteinsson