Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

66/2007 Sómatún

Ár 2007, þriðjudaginn 23. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 66/2007, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 22. maí 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 2. áfanga Naustahverfis er fól í sér breytta húsagerð á lóðunum nr. 4, 6 og 8 við Sómatún á Akureyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. K og A, Sómatúni 4, og H og E, Sómatúni 8, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 22. maí 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 2. áfanga Naustahverfis er fól í sér breytta húsagerð á lóðunum nr. 4, 6 og 8 við Sómatún á Akureyri.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 2005 tók gildi deiliskipulag Naustahverfis, 2. áfangi, er tekur meðal annars til lóðanna að Sómatúni 4, 6 og 8.  Á uppdrætti þess skipulags var gert ráð fyrir einnar hæðar einbýlishúsum á greindum lóðum af gerðinni HI.  Einnar hæðar einbýlishús hafa verið reist að Sómatúni 4 og 8. 

Hinn 24. maí 2006 veitti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir byggingu einbýlishúss að Sómatúni 6 sem skyldi vera að hluta til á tveimur hæðum.  Er lóðarhafa að Sómatúni 4 varð kunnugt um útgáfu leyfisins kom hann hinn 31. júlí 2006 á framfæri athugasemdum við bæjaryfirvöld þess efnis að samkvæmt gildandi skipulagi ætti einungis að vera einnar hæðar hús á umræddri lóð. 

Málið var tekið fyrir á fundi umhverfisráðs Akureyrar 16. ágúst 2006 þar sem athugasemdum kærenda var hafnað með vísan til þess að nægjanlegt svigrúm væri til þess í skilmálum skipulagsins að heimila byggingu húss að Sómatúni 6 sem að hluta til væri á tveimur hæðum.  Kærendur voru ekki sáttir við þær málalyktir og skutu málinu til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá hinn 3. október 2006 með þeim rökum að ekki lægi fyrir lokaákvörðun um veitingu umdeilds byggingarleyfis þar sem sveitarstjórn hefði ekki staðfest leyfið.  Í kjölfar úrskurðarins staðfesti bæjarstjórn umdeilt byggingarleyfi sem skipulags- og byggingarfulltrúi hafði veitt hinn 24. maí 2006 og var sú byggingarleyfisveiting kærð til úrskurðarnefndarinnar. 

Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 27. október 2006 var fyrrgreint byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Sómatúni 6 fellt úr gildi þar sem talið var andstætt samþykktu deiliskipulagi svæðisins frá árinu 2005 að heimila byggingu tveggja hæða húss á lóðinni.  Ákvað bæjarstjórn hinn 14. mars 2007 að auglýsa breytingu á deiliskipulagi hverfisins þar sem heimilað var að reisa eins til tveggja hæða einbýlishús að Sómatúni 4, 6 og 8 af gerðinni HIII í stað einnar hæðar húsa af gerðinni HI.  Var deiliskipulagstillögunni andmælt, þar á meðal af hálfu kærenda. 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 16. maí 2007 var tillagan samþykkt með eftirfarandi bókun:  „Hönnuðir deiliskipulagsins hafa skýrt út með breytingartillögunni, grunnhugsun og hugmyndafræði deiliskipulagsins varðandi byggingu einbýlishúsa þar sem landhalli er fyrir hendi.  Skipulagsnefnd telur að með breytingu þessari sé verið að skýra og leiðrétta misræmi, annars vegar á uppdráttum og í sérskilmálum til þess að fyrirbyggja mismunandi túlkun deiliskipulagsskilmála við afgreiðslu mála í hverfinu til framtíðar.  Meirihluti skipulagsnefndar leggur til við bæjarstjórn að deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt og skipulags- og byggingarfulltrúa falið að annast gildistöku hennar.“   Staðfesti bæjarstjórn skipulagsbreytinguna á fundi hinn 22. maí 2007.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 14. júní 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. júlí 2007.  Hafa kærendur nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umdeild skipulagsbreyting taki einungis til þriggja lóða og þar af séu einnar hæða hús þegar risin á tveimur lóðanna.  Vikið sé frá gildandi skipulagi sem gengið hafi verið út frá þegar kærendur hafi fengið lóðir sínar og reist hús sín og að auki sé farið á svig við úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 27. október 2006. 

Í fyrsta kafla skipulagsreglugerðar komi fram að skipulagssvæði skuli ná til svæða sem myndi heildstæða einingu og í þéttbýli skuli deiliskipulag að jafnaði ekki taka yfir minna svæði en götureit.  Hin kærða tillaga nái hins vegar ekki til nema þriggja lóða, þar af tveggja lóða þar sem hús séu þegar risin, og sé því ljóst að henni sé einungis ætlað að taka til einnar lóðar, þ.e. Sómatúns 6.  Geti tillagan því ekki talist deiliskipulag að gættum ákvæðum skipulagsreglugerðar og fordæmum sem þegar liggi fyrir af hálfu úrskurðarnefndarinnar. 

Þá sé umrædd skipulagsbreyting ólögmæt með hliðsjón af reglum stjórnsýslulaga og stjórnsýsluréttar um samræmi og jafnræði borgaranna.  Bæjarstjórn hefði borið að endurskoða skilmála alls svæðisins.  Ólögmætt sé að ívilna einum lóðarhafa með miklu rýmri skilmálum en gildi á öðrum lóðum.  Nauðsynlegt sé að skoða áhrif slíkrar breytingar á allt svæðið enda hljóti slík breyting á einni lóð að leiða til breytinga á öðrum ef gæta skuli samræmis.  Í þessu efni sé vísað til sjónarmiða og lagaraka sem fram komi í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 21. desember 2000 sem og til úrskurðar nefndarinnar frá 18. maí 2007 í máli nr. 31/2007. 

Stæði hin kærða skipulagsbreyting óhögguð hefði það í för með sér verulegar breytingar á byggðamynstri svæðisins og skapaði fordæmi fyrir breytingum á gildandi deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa.  Byggð myndi jafnframt þróast í ósamræmi við stefnumörkun deiliskipulags, sem grundvalla beri á fjölmörgum lögmæltum sjónarmiðum, auk þess sem íbúar hlutaðeigandi hverfis og almenningur séu sviptir lögboðnum rétti sínum til þess að koma að sjónarmiðum sínum og hafa áhrif við gerð deiliskipulags.  Slík byggðaþróun verði að teljast í andstöðu við markmið skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Kærendur telji einnig að breyting á tiltölulega nýlegu deiliskipulagi, eins og hér um ræði, verði að byggja á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hagsmunir eins lóðarhafa um aukna nýtingu og rýmri skilmála gegn hagsmunum annarra húseiganda á svæðinu geti ekki talist málefnaleg sjónarmið í þessu sambandi.  Breytingin sé af þessum sökum ólögmæt.  Til stuðnings þessum sjónarmiðum skírskoti kærendur til tveggja álita umboðsmanns Alþingis SUA 727/1992 og SUA 2421/1998 og til úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 10. maí 2004 í máli nr. 12/2004 og 18. maí 2007 í máli nr. 31/2007. 

Með umdeildri ákvörðun sé brotið gegn jafnræði lóðarhafa á svæðinu og ekki gætt meðalhófs.  Fasteignir og eignarréttindi yfir fasteignum hafi um margt sérstöðu miðað við önnur eignarréttindi.  Réttarstaða fasteignareigenda sé yfirleitt mótuð til langframa, m.a. með skipulagsáætlunum, og þurfi stjórnvöld að rökstyðja það sérstaklega sé ætlun að breyta frá þeim eins og áður hafi verið vikið að.  Ef ákvörðunin verði ekki ógilt myndu eignarréttindi kærenda skerðast. 

Þá sé á því byggt að landhalli að Sómatúni 6 bjóði ekki upp á byggingu 2ja hæða húss. Landhalli á viðkomandi lóð sé 1,69 metrar og hafi við samþykkt gildandi deiliskipulags verið talið að sá landhalli byði ekki upp á slíka húsagerð.  Þegar H-lóðir séu skoðaðar á mæliblöðum sjáist að minnsti halli á lóð sem merkt sé 1-2h sé 2,62 metrar.  Landhalli upp á 1,69 metra sé því ekki nægjanlegur auk þess sem það sé í andstöðu við það sem deiliskipulagið gangi út frá sem og innbyrðis samræmi lóða á þessu svæði. 

Að lokum sé tekið fram að allir lóðareigendur og væntanlegir einbýlishúsaeigendur að gerðinni HI við Sómatún, fyrir utan lóðarhafa lóðar nr. 6, hafi mótmælt hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu en bæjarstjórn hafi hins vegar kosið að hunsa hagsmuni þeirra. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Af hálfu Akureyrarbæjar er gerð sú krafa að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði staðfest.

Athugasemdir kærenda geti ekki leitt til ógildingar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.  Gera verði ríkar kröfur til þeirra málsástæðna sem leiða ættu til þess að deiliskipulag yrði fellt úr gildi, s.s. að ekki hafi verið farið eftir réttarheimildum um skipulag og stjórnsýslu.  Akureyrarbær hafi uppfyllt allar formkröfur sem gerðar séu til deiliskipulagsgerðar skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og efnislega sé deiliskipulagsbreytingin málefnaleg og lögmæt. 

Ástæðan fyrir því að Akureyrarbær hafi ákveðið að fara í umrædda deiliskipulagsbreytingu hafi verið að misræmi hafi komið í ljós milli greinargerðar og uppdráttar deiliskipulags 2. áfanga Naustahverfis frá árinu 2005.  Í sérákvæðum deiliskipulagsskilmála hafi verið greint frá því að tiltekin 17 H-einbýlishús væru á 1-2 hæðum og að þau skyldu m.a. aðlagast landi þar sem landhalli væri, en þannig væri möguleiki á aukinni lofthæð og jafnvel viðbótarhæð.  Á deiliskipulagsuppdrætti hafi hins vegar verið merktar inn húshæðir þannig að 11 H-einbýlishús hafi verið merkt sem einnar hæðar hús og sex H-einbýlishús merkt einnar til tveggja hæða hús.  Á deiliskipulagsuppdrætti hafi húsin að Sómatúni 4, 6 og 8 verið merkt sem einnar hæðar, en ekki einnar til tveggja hæða, eins og landhalli hafi gefið tilefni til.  Þarna hafi því verið um hrein mistök að ræða við gerð deiliskipulagsins sem ekki hafi uppgötvast fyrr en deiliskipulagið hafi tekið gildi.  Með deiliskipulagsbreytingunni sé Akureyrarbær því að leiðrétta þau mistök sem átt hafi sér stað og eyða því misræmi sem verið hafi á milli skipulagsskilmála og skipulagsuppdráttar. 

Í deiliskipulagsbreytingunni felist engin grundvallarbreyting frá fyrra skipulagi eða kúvending frá markmiðum þess í þá veru að byggja megi einnar til tveggja hæða hús þar sem landhalli gefi tilefni til, enda séu skilmálar óbreyttir frá skipulaginu frá árinu 2005 ef frá sé talin sú breyting að tiltekin einbýlishús, sem deiliskipulagsbreytingin taki til, séu merkt HIII og megi vera einnar til tveggja hæða. 

Í tilefni af fullyrðingum kærenda um að allir íbúar í hverfinu hafi gert athugasemdir við málsmeðferð bæjarins á umdeildri skipulagsbreytingu sé rétt að benda á að kærendur hafi farið með undirskriftarlista í nokkur hús í grenndinni þar sem málsmeðferðinni hafi verið mótmælt.  Því fari fjarri að allir íbúar hverfisins hafi látið málið til sín taka. 

Því sé mótmælt að með deiliskipulagsbreytingunni sé einungis verið að komast hjá því að framfylgja niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar frá 27. október 2006.  Akureyrarbær ítreki að með breytingunni sé einungis verið að færa deiliskipulagið í það horf sem það átti að vera, en vegna misræmis eða mistaka við deiliskipulagsgerð hafi það verið túlkað á annan veg. 

Þá mótmæli Akureyrarbær þeirri túlkun kærenda að deiliskipulagsbreytingin sé ólögmæt þar sem hún taki ekki til svæðis sem myndi heildstæða einingu.  Aðeins sé um að ræða breytingu á gildandi deiliskipulagi.  Slíkar breytingar hafi verið tíðkaðar af sveitarfélögum um langa hríð án athugasemda enda ástæðulaust að láta deiliskipulagsbreytingu ná til stærra svæðis en þess sem breytingin taki til. 

Ekki sé á það fallist að hin kærða ákvörðun brjóti í bága við jafnræði borgaranna.  Ástæður skipulagsbreytingarinnar hafi þegar verið raktar en ekki sé verið að fara eftir kenjum eða kröfum eins aðila eins og ráða megi af málatilbúnaði kærenda.  Það sé ljóst af greinargerð og uppdrætti að eigandi lóðar að Sómatúni 6 hafi farið eftir þeim skilningi á deiliskipulagi svæðisins sem Akureyrarbær taldi að væri í gildi fyrir hina kærðu breytingu.  Þannig lagi hann hús sitt að landslaginu og nýti hallann í landinu eins og kveðið sé á um í skilmálum.  Hönnuðir og eigendur Sómatúns 4 og 6 hafi hins vegar valið að grafa byggingar á lóðum sínum niður og sprengja þær inn í landið í stað þess að hanna þær í samræmi við náttúrulegan landhalla.  Þannig muni 2,10 m á gólfkóta hússins nr. 4 og lóðarmarkapunkti í suðvesturhorni lóðarinnar.  Við þessa ákvörðun lóðarhafa nr. 4 og 8 skerðist útsýni þeirra til suðvesturs og norðausturs.  Hefðu kærendur lagað hús sín að landhalla lóðanna væri ekki misræmi í götumynd svo sem kærendur haldi nú fram. 

Ákvörðun Akureyrarbæjar um að bæta fyrir mistök sem leitt hafi til misræmis við deiliskipulagsgerð frá árinu 2005 sé byggð á málefnalegum sjónarmiðum.  Hefðu þau mistök ekki verið lagfærð væru bæjaryfirvöld að láta þann lóðarhafa sem hafi farið eftir skilmálunum gjalda þess og hampa þeim lóðareigendum sem sniðgengið hafi tilmæli skilmálanna að hús skuli aðlagast landinu. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er farið fram á að kröfum kærenda í máli þessu verði hafnað. 

Áður en byggingarleyfi fyrir tveggja hæða húsi á lóðinni að Sómatúni 6 hafi verið veitt  hinn 24. maí 2006 hafi skipulagsskilmálar verið kannaðir sérstaklega.  Leitað hafi verið til hönnuða skipulagsins og borið undir þá hvort það samrýmdist skipulagshugmyndum þeirra að byggja tveggja hæða hús á lóðinni.  Í svari þeirra hafi komið fram að það samræmdist skipulagshugmyndum þeirra að hús sem merkt væri 1h yrði tvær hæðir ef landhalli biði upp á það.  Bentu þeir og á að virða bæri nágrannarétt þannig að sýnt yrði fram á að hækkun skerti ekki sólarljós og útsýni nærliggjandi lóða.  Hafi verið gengið úr skugga um að svo væri ekki í umræddu tilfelli þrátt fyrir að bæði húsin nr. 4 og 8 séu grafin nokkuð niður.  Fyrirhugað hús að Sómatúni 6 verði lægra en heimilt sé að byggja hæst samkvæmt skipulaginu. 

Byggingarleyfishafi taki undir málsástæður í greinargerð Akureyrarbæjar að baki umdeildri breytingu á deiliskipulaginu en geri eftirfarandi athugasemdir við málatilbúnað kærenda. 

Erfitt sé að gera sér grein fyrir þeim hagsmunum sem kærendur hafi í þessu máli.  Sú breyting sem gerð hafi verið á deiliskipulagi sé unnin í samráði við skipulagshönnuði og til þess fallin að deiliskipulagið verði í samræmi við þær hugmyndir sem fram komi í greinargerð með upphaflega deiliskipulaginu. 

Húsið nr. 4 við Sómatún hafi verið sprengt tæpa tvo metra ofan í klöpp að vestan.  Teikningar að Sómatúni 6 beri það með sér að aðeins einn gluggi sé á efri hæð, sem snúi að Sómatúni 4.  Stofuálma Sómatúns 6 skyggi algerlega á útivistarsvæði hússins nr. 4 og hafa verði í huga að 15 metrar séu á milli húsanna.  Þá hafi sú hlið Sómatúns 8 sem snúi að lóð nr. 6 að geyma þvottahús og bílskúr en eitt lítið kýrauga sé á þeirri hlið Sómatúns 6. 

Í málinu vegist annars vegar á þeir hagsmunir byggingarleyfishafa að fá að byggja hús sem hann hafi látið hanna á lóðinni og keypt talsvert af sérhæfðu efni til húsbyggingarinnar og hins vegar langsóttir og órökstuddir hagsmunir kærenda um hugsanleg áhrif á verðmæti fasteigna þeirra. 

Byggingarleyfishafi hafi frá öndverðu reynt að fara að öllum reglum sem gildi um öflun byggingaleyfis fyrir hús sitt.  Ljóst sé eftir úrskurð nefndarinnar í fyrra máli að skilningur skipulagshönnuða og Akureyrarbæjar hafi ekki verið í samræmi við deiliskipulag svæðisins.  Tilgangurinn með breytingunni sé að taka af vafa sem upp hafi verið kominn og færa deiliskipulagið í það horf sem höfundar þess hafi gert ráð fyrir.  Breytingin sem slík sé ekki grundvallarbreyting á skipulagi hverfisins.  Ásýnd þess eða heildarmynd breytist ekkert.  Það sé ekki verið að auka byggingarmagn á lóð eða stækka húsið umfram það sem gert hafi verið ráð fyrir í upphaflegu skipulagi.  Málefnaleg rök hafi verið færð fyrir breytingunni en svo hafi ekki verið í þeim málum sem fjallað hafi verið um í þeim úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sem kærendur vísi til.  Í máli nr. 12/2004 hafi fyrirhuguð bygging farið út fyrir byggingareit og því þurft að víkja frá reglum um lágmarksfjarlægð húsa frá lóðarmörkum.  Í máli nr. 31/2007 hafi aðstæður, að því er virðist, verið þær að deiliskipulagi hafi verið breytt í þágu eins lóðarhafa, en öðrum í sambærilegri stöðu synjað. 

Leggja verði til grundvallar við úrlausn þessa máls að umdeild breyting sé óveruleg, hún hafi engin áhrif á ásýnd skipulagssvæðisins og hagsmunir kærenda af því að koma í veg fyrir byggingu fyrirhugaðs húss að Sómatúni 6 séu í besta falli óverulegir.  Loks verði ekki fram hjá því litið að breytingin miði að því að ná fram tilgangi sem að hafi verið stefnt með deiliskipulaginu, eins og fram komi í greinargerð með því, og leiðrétta þar með ósamræmi á milli uppdráttar og greinargerðar. 

Niðurstaða:  Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var húsagerð á lóðunum að Sómatúni 4, 6 og 8 breytt.  Í stað einnar hæðar einbýlishúsa af gerðinni HI var heimilað að reisa á greindum lóðum nýja húsagerð, einnar til tveggja hæða, af gerðinni HIII.  Er bætt við á skipulagsuppdrátt tveimur skilmálateikningum fyrir einnar og tveggja hæða einbýlishús af gerðinni HIII þar sem hámarkshæð húss miðað við gólfplötu aðkomuhæðar er 6,0 metrar en samkvæmt skilmálateikningum fyrir húsagerð einnar hæðar húss af gerðinni HI er hámarkshæð 4,8 metrar miðað við gólfplötu aðkomuhæðar.  Umræddar lóðir eru þær einu á skipulagssvæðinu þar sem gert er ráð fyrir hinni nýju húsagerð en fyrir liggur að einnar hæðar hús voru þegar risin á lóðunum nr. 4 og 8 við Sómatún er skipulagsbreytingin tók gildi.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 79/2006, er varðaði áður útgefið byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Sómatúni 6 og í bráðabirgðaúrskurði í kærumáli nr. 79/2007 vegna útgáfu nýs byggingarleyfis á sömu lóð uppkveðnum hinn 22. ágúst 2007, byggði úrskurðarnefndin á því að kærendur máls þessa ættu kæruaðild vegna byggingar umdeilds húss.  Hin kærða deiliskipulagsbreyting veitir svigrúm til útgáfu byggingarleyfis í samræmi við áform lóðarhafa að Sómatúni 6 heimilar og tekur auk þess til lóða kærenda að Sómatúni 4 og 8.  Varðar breytingin því augljósa hagmuni kærenda og verður máli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts þeirra. 
 
Athugun á mæliblöðum og gildandi skipulagsuppdrætti svæðisins, með tilliti til landhalla einstakra lóða, leiðir í ljós að hvergi á skipulagssvæðinu er að finna lóð með sambærilegan landhalla og lóðirnar að Sómatúni 4, 6 og 8 þar sem heimilað er að reisa meira en einnar hæðar hús.  Jafnframt bera tilvitnuð skipulagsgögn með sér að dæmi eru um lóðir með meiri landhalla en fyrrnefndar lóðir, t.d. að Þrumutúni 2 og 4, þar sem einungis er heimilt að reisa einnar hæðar hús eftir umdeilda skipulagsbreytingu.  Breyting tekur þó ekki til þessara lóða sem þó hefði mátt búast við þegar litið er til þeirra röksemda bæjaryfirvalda að í breytingunni felist einungis leiðrétting á mistökum er birtist í misræmi milli skilmála og uppdráttar.

Eins og fyrr er að vikið tók deiliskipulag fyrir 2. áfanga Naustahverfis, er tekur til umrædds skipulagssvæðis, gildi á árinu 2005 og hafa byggingarleyfi verið veitt fyrir nýbyggingum í samræmi við það frá þeim tíma og húsbyggingar hafnar.  Við deiliskipulagningu nýbyggingarsvæða, eins og hér um ræðir, er m.a. tekin ákvörðun um landnotkun, tilhögun byggðar, húsagerðir og innbyrðis afstöðu húsa.  Er deiliskipulag sem tekið hefur gildi bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Við úthlutun lóða á slíkum svæðum liggur þegar fyrir í deiliskipulagi hvaða heimildir eru fyrir hendi til nýtingar einstakra lóða og geta lóðarhafar ekki vænst þess að fyrra bragði að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á einstökum lóðum.  Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því.  Verður að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmisgildis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa, enda geta slíkar breytingar raskað hagsmunum annarra lóðarhafa og dregið úr þeirri festu er deiliskipulagi er ætlað að skapa. 

Reglur þær og sjónarmið sem kærendur tefla fram um umfang og afmörkun skipulagssvæða eiga við um skipulagningu óskipulagðra svæða.  Skipulagsbreytingar geta eðli máls samkvæmt lotið að takmörkuðum hluta deiliskipulagssvæðis og eftir atvikum aðeins að einni lóð.  Afmörkun hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar getur því ein og sér ekki haft áhrif á gildi hennar. 

Bæjaryfirvöld hafa fært fram þau rök fyrir hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að með henni sé verið að leiðrétta misræmi milli skipulagsskilmála og skipulagsuppdráttar þar sem í skilmálum sé heimilað að reisa tveggja hæða hús þegar landhalli leyfi en á uppdrætti hafi lóðir að Sómatúni 4, 6 og 8 verið með merkingu fyrir einnar hæðar hús þótt landhalli þeirra bjóði upp á stöllun húsa.  Með breytingunni sé verið að fyrirbyggja mismunandi túlkun deiliskipulagsskilmála við afgreiðslu mála í hverfinu til framtíðar. 

Með vísan til fyrrgreindrar athugunar á skipulagsgögnum, þeirra sjónarmiða sem tíunduð hafa verið um skipulagsbreytingar og þeirrar staðreyndar að umrædd breyting hefur í raun aðeins þýðingu varðandi lóðina að Sómatúni 6, þykja framkomin rök fyrir umdeildri skipulagsbreytingu ekki haldbær. 

Að öllu þessu virtu verður fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 22. maí 2007 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi 2. áfanga Naustahverfis er felld úr gildi. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson