Ár 2008, fimmtudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 126/2007, ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 31. maí 2007 um að heimila byggingu bílskúrs og stækkun hússins að Aspargrund 9.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 28. september 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir Stefán BJ Gunnlaugsson hrl., f.h. S, Aspargrund 1, S og G, Aspargrund 3, Á og G, Aspargrund 5 og F og O, Aspargrund 7, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 31. maí 2007 að heimila byggingu bílskúrs og stækkun íbúðarhússins á lóðinni nr. 9 við Aspargrund í Kópavogi. Bæjarráð Kópavogs staðfesti þá ákvörðun á fundi hinn 12. júní 2007.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi og var fallist á þá kröfu í úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum hinn 15. október 2007.
Málavextir: Á fundi byggingarnefndar Kópavogs hinn 3. maí 2006 var tekið fyrir erindi um að reisa bílskúr og byggja við húsið að Aspargrund 9. Var erindinu vísað til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum hinn 16. maí 2006 að grenndarkynna tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðisins. Tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 5. september s.á. og samþykkt með þeirri breytingu að bílskúr yrði færður þrjá metra frá lóðarmörkum Aspargrundar 7. Fundargerð skipulagsnefndar var samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 7. september 2006.
Með bréfi bæjarskipulags, dags. 20. september 2006, til lóðarhafa lóðarinnar að Aspargrund 9a kom m.a. eftirfarandi fram: „Í ljósi þess að fyrirhugaður bílskúr er staðsettur innan við almenn bílastæði í götunni (sbr. gildandi deiliskipulag) hefur erindið verið tekið að nýju til athugunar hjá bæjarskipulagi. Skoðað verður með hvaða hætti sé unnt að leysa málið, þannig að umræddur bílskúr og aðkoma að honum takmarki ekki nýtingu almennra bílastæða í götunni. Þess hefur verið farið á leit við byggingarfulltrúa að ákvörðun um byggingarleyfi verði frestað þar til áðurnefndri athugun er lokið.“
Var lögð fram ný tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar að Aspargrund 9-11 er gerði ráð fyrir að byggð yrði 124 fermetra viðbygging við hús það er á lóðinni stendur ásamt 22 fermetra svölum á suðurhlið og um 9 fermetra svalir á austurhlið hússins. Auk þess var gert ráð fyrir 50 fermetra bílskúr á lóðinni og að bílastæði á bæjarlandi yrðu færð til.
Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. maí 2007 var erindið samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjarráðs hinn 18. maí 2007 var framlagt erindi samþykkt með vísan til umsagnar bæjarskipulags. Var lóðarhöfum tilkynnt um lyktir málsins með bréfi, dags. 23. maí 2007, og hinn 31. maí 2007 heimilaði byggingarfulltrúi byggingu bílskúrs og stækkun hússins að Aspargrund 9 og staðfesti bæjarstjórn leyfið hinn 12. júní 2007. Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.
Framkvæmdir við lóðina að Aspargrund 9-11 voru stöðvaðar með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. júní 2007, með vísan til þess að breytt deiliskipulag lóðarinnar hefði ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda en framkvæmdir voru síðan hafnar að nýju eftir birtingu auglýsingar um breytt skipulag í B-deild Stjórnartíðinda hinn 19. september 2007.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að umrætt byggingarleyfi hafi verið gefið út áður en auglýsing um breytt deiliskipulag svæðisins hafi verið birt. Byggingarleyfið hafi því verið veitt á grundvelli deiliskipulags frá 1996 sem heimili ekki þær framkvæmdir sem í leyfinu felist. Breytingar á deiliskipulagi við Aspargrund hafi fyrst tekið gildi við birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2007.
Byggingarfulltrúi hafi stöðvað framkvæmdir með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi kærendur álitið að leyfið hefði verið afturkallað. Byggingarleyfið rakni ekki við þótt auglýsing um breytingu á deiliskipulagi hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda heldur þurfi að gefa út nýtt byggingarleyfi. Eldra leyfi sé ógilt og beri að fella það strax úr gildi. Ekki liggi fyrir samþykkt bæjarstjórnar um byggingarleyfi á grundvelli hins breytta skipulags eftir að það hafi tekið gildi. Sé vísað til 43.-45. gr. laga nr. 73/1997.
Málsrök Kópavogsbæjar: Kópavogsbær krefst þess að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið afturkölluð. Stjórnvald geti afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hafi verið aðila máls, þegar ákvörðun sé ógildanleg. Í tilfelli því sem hér um ræði hafi byggingarleyfið verið gefið út á grundvelli deiliskipulags sem ekki hafi hlotið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda. Hafi byggingarleyfið því verið afturkallað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. júní 2007. Ekki hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi eftir að það hafi verið afturkallað.
Andmæli byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt og bent á að réttilega hafi verið staðið að grenndarkynningum og nágrannar hafi ekki gert athugasemd við stækkun hússins sem liggi mun lægra á lóð en húsin nr. 3, 5, og 7 við Aspargrund.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Er kveðið svo á um í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að framkvæmdir samkvæmt 1. mgr. skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.
Í máli þessu liggur fyrir að byggingarfulltrúi veitti umdeilt byggingarleyfi hinn 31. maí 2007 og staðfesti bæjarstjórn leyfið hinn 12. júní 2007. Ætluð auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar þeirrar sem byggingarleyfið studdist við birtist í B-deild Stjórnartíðinda 19. september 2007 og verður að telja að fyrrgreindum skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi því ekki verið fullnægt við útgáfu leyfisins. Fyrr í dag kvað úrskurðarnefndin upp frávísunarúrskurð í deilumáli um skipulagsbreytingu varðandi lóðina að Aspargrund 9-11 þar sem skipulagsbreytingin var ekki talin hafa hlotið lögformlega birtingu í B-deild Stjórnartíðinda.
Verður umdeilt byggingarleyfi fellt úr gildi þar sem það er ekki í samræmi við gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavog frá 31. maí 2007 um að heimila byggingu bílskúrs og stækkun íbúðarhússins á lóðinni nr. 9 við Aspargrund í Kópavogi, er bæjarráð Kópavogs staðfesti hinn 12. júní 2007, er felld úr gildi.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson