Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2008 Þverholt

Ár 2008, þriðjudaginn 5. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2008 um að veita takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2008, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kæra A, Meðalholti 5 og S, Meðalholti 13 í Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2008 um að veita takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt er tekur til jarðvinnu, sprenginga og aðstöðugerðar.  Var ákvörðun þessi staðfest á fundi borgarráðs hinn 10. janúar 2008.

Gera kærendur þá kröfu að hið kærða leyfi verði fellt úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Telst málið nú nægilega upplýst og verður það því tekið til endanlegrar úrlausnar. 

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 2. maí 2007 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi reits 1.244.1-3, eða svæðis er afmarkast af Háteigsvegi, Þverholti, Stórholti og Einholti.  Í tillögu þessari fólst m.a. niðurrif húsa og bygging mun þéttari byggðar, bæði undir íbúðir og verslun og þjónustu.  Staðfesti borgarráð framangreint á fundi hinn 10. maí 2007 og hinn 29. nóvember s.á. birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda.  Hefur deiliskipulagssamþykkt þessi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar.

Á fundi skipulagsráðs hinn 31. október 2007 var tekin til afgreiðslu fyrirspurn um áfangaskiptingu varðandi byggingu námsmannaíbúða á lóðinni nr. 13-15 (sic) við Þverholt.  Var svofelld bókun gerð í málinu: „Skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við framlagað áfangaskiptingu um byggingu námsmannaíbúða en gerir hefðbundna fyrirvara um endanlega gildistöku deiliskipulags Einholts/Þverholts með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda.“    

Hinn 27. desember 2007 gaf byggingarfulltrúi út takmarkað byggingarleyfi vegna Þverholts 15-19 og Einholts 6-8.  Í leyfinu segir m.a. eftirfarandi:  „Með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 13. og 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, skv. umsókn nr. BN037501 sem afgreidd verður á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þann 8. janúar 2008, er Byggingarfélagi námsmanna ses kt. 700707-0750 veitt takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð skv. erindi nr. BN037036 þar sem skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við framlagða áfangaskiptingu. … Þetta takmarkaða byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi við útgáfu á endanlegu byggingarleyfi.“   

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 8. janúar 2008 var lögð fram umsókn um takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt er tók til jarðvinnu, sprenginga og aðstöðugerðar og samþykkti byggingarfulltrúi erindið.  Á fundi borgarráðs hinn 10. janúar s.á. var afgreiðslan staðfest.  

Skutu kærendur framangreindri samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður er getið.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið kærða leyfi geti haft í för með sér verulega röskun á lögmætum hagsmunum þeirra.  Þá styðjist leyfið við deiliskipulag sem kært hafi verið til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu þess.  Engin ástandsskoðun hafi farið fram á húsum í nágrenni við framkvæmdirnar.  Þó kunni að vera að ljósmyndir hafi verið teknar af húsum án samráðs við eigendur og án vitundar þeirra.   

Af hálfu borgaryfirvalda er hafnað fullyrðingum kærenda þess efnis að ekki hafi farið fram fullnægjandi ástandsskoðun húsanna í nágrenni við fyrirhugaðar framkvæmdir.  Jafnramt er því vísað á bug að umræddar framkvæmdir geti haft í för með sér röskun á hagsmunum kærenda.

Bent sé á að einungis hafi verið gefið út takmarkað byggingarleyfi, þ.e. fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð.  Gera megi ráð fyrir að þessi undirbúningsvinna taki allt að sex mánuði þannig að líkur hnígi til þess að búið verði að úrskurða í málinu áður en óafturkræfar framkvæmdir fara af stað á lóðinni.

Þá sé því haldið fram af hálfu Reykjavíkurborgar að framkvæmdir á reitnum hafi verið til fyrirmyndar og hafi upplýsingum verið komið á framfæri við íbúa um fyrirhugaðar framkvæmdir. 

Sérstaklega sé tekið fram að tryggingafélag verktaka þess er annist sprengingar á svæðinu vinni allan framkvæmdatímann að ytri skoðun mannvirkja á áhrifasvæði sprenginganna.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfu um stöðvun framkvæmda mótmælt og bent á að einungis sé fyrir hendi takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt.

Ekki sé unnt að fallast á að fyrirhugaðar framkvæmdir geti haft í för með sér röskun á hagsmunum kærenda þannig að réttlætt gæti þá skerðingu á hagsmunum byggingareyfishafa sem stöðvun framkvæmda myndi hafa í för með sér.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi takmarkaðs byggingarleyfis fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt í Reykjavík.   

Í 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að óheimilt sé að grafa grunn, reisa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falli undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar.  Í kjölfar samþykktar sveitarstjórnar má, skv. 44. gr. laganna, gefa út byggingarleyfi, enda hafi sveitarstjórn þá staðfest samþykkt byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis og byggingarfulltrúi áritað aðaluppdrætti.  Þegar sérstaklega stendur á má, skv. 2. mgr. 44. gr. laganna, veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda og takmarkast leyfið þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn. 

Í máli því sem hér er til úrlausnar gaf byggingarfulltrúi út takmarkað byggingarleyfi fyrir jarðvinnu, sprengingum og aðstöðugerð án þess að borgaryfirvöld hefðu tekið afstöðu til umsóknar um leyfi til byggingar húss á lóðinni.  Telur úrskurðarnefndin að 2. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga verði ekki túlkuð á þann veg að hún feli í sér sjálfstæða heimild til útgáfu takmarkaðs leyfis til einstakra þátta byggingarframkvæmda þegar svo stendur á sem hér um ræðir.

Samkvæmt framansögðu var útgáfa hins takmarkaða byggingarleyfis, sem um er deilt í máli þessu, ekki reist á réttum lagagrundvelli og verður það því fellt úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2008 um að veita takmarkað byggingarleyfi á lóðunum nr. 15-19 við Þverholt og nr. 6-8 við Einholt í Reykjavík er felld úr gildi. 

 

    
__________________________  
 Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________        ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson