Árið 2018, föstudaginn 26. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 120/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. september 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna endurbyggingar anddyris og byggingar sólskála við hús nr. 138 við Langholtsveg í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. október 2017, er barst nefndinni 11. s.m., kæra lóðarhafar Langholtsvegar 138, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. september 2017 að synja umsókn þeirra um leyfi til að endurbyggja anddyri og byggja sólskála við hús þeirra á nefndri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að skipulagsyfirvöldum verið gert að endurskoða deiliskipulag og kvaðir fyrir umrætt hús, þannig að kærendum verði gert kleift að viðhalda eigininni og nýta líkt og almenn lög kveði á um.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. apríl 2018.
Málavextir: Með umsókn, dags. 28. júní 2017, sóttu kærendur um leyfi til að byggja anddyri úr tré, klætt með stálklæðningu, á norðurhlið hússins að Langholtsvegi 138 og til að byggja sólskála á suðurhlið hússins. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2017 en afgreiðslu málsins var frestað. Var erindið tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. ágúst s.á. og vísað til skipulagsfulltrúa til umsagnar. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. september s.á., var lagst gegn umsóttum breytingum með þeim rökum að fyrirhugaðar framkvæmdir rúmuðust ekki innan skilmála gildandi deiliskipulags þar sem anddyri væri utan skilgreinds byggingarreits og sólskáli næði út fyrir gafl í stað þess að vera inndreginn líkt og gerð væri krafa um í deiliskipulagi. Tók skipulagsfulltrúi fram að breidd sólskálans væri umfram leyfilega breidd samkvæmt kennisniði fyrir sænsk timburhús. Byggingarfulltrúi synjaði síðan umsókn kærenda á fundi sínum 12. september 2017 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og var kærendum tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi, dags. 13. s.m. Var sú ákvörðun byggingarfulltrúa staðfest í borgarráði 14. september 2017.
Málsrök kærenda: Kærendur telja framlagðar teikningar rúmast innan byggingarreits og falla vel að húsinu. Forsendur hinnar kærðu ákvörðunar séu að breytingar samræmist ekki deiliskipulagi en í umsögn skipulagsfulltrúa sé vísað í deiliskipulag sem samþykkt hafi verið í borgarráði árið 2010. Stækkun anddyris sé hafnað sem um nýbyggingu væri að ræða en ekki endurgerð og stækkun á húshluta sem fyrir sé. Sjá megi á öllum teikningum, fyrir utan þá sem hafi verið til grundvallar deiliskipulagi, að anddyri hafi verið á húsinu í nærri hálfa öld. Bundin byggingarlína ætti að miðast við húsið með anddyri og tröppum að inngangi. Kominn sé tími á töluvert viðhald og taki tímasetning umsóknar mið af því.
Ákvörðun skipulagsfulltrúa beri vott um vanþekkingu á hverfinu og á umræddu húsi. Ekki verði annað skilið af svörum skipulagssviðs en að á árinu 2010 hafi verið dregin lína milli húsa að norðanverðu, kölluð „bundin byggingarlína“, þar sem undanskilin séu anddyri, tröppur og skyggni á húsunum. Umrætt hverfi hafi byggst upp í lok seinna stríðs og því hafi verið orðin talsvert mótuð byggð í hverfinu árið 2010 með miklum gróðri og blómlegu síbreytilegu mannlífi. Í tímans rás hafi hús og nánasta umhverfi verið aðlöguð að þeim félagslegu þörfum sem fylgi kynslóðum á hverjum tíma. Víða hafi byggingar risið yfir þessa línu, svo sem bílskúrar, stigamannvirki og anddyri. Ekki verði séð að umrædd byggingarlína sé gild forsenda „fínlegrar byggðar“. Rökstuðningur um fínlega byggð sé ekki boðleg stjórnsýsla nema frekari skilgreining liggi fyrir. Jafnframt séu það einkennileg rök að „húskroppar“ séu fínlegri ef þeir hafi ekkert anddyri, sérstaklega þegar fyrir sé viðbygging sem þar hafi verið í næstum hálfa öld. Teikning af henni ætti að vera til í safni skipulagssviðs en hún sé af einhverjum ástæðum ekki skráð hjá embætti byggingarfulltrúa.
Ekki verði betur séð en að umsögn skipulagsfulltrúa miði við að húsið teljist til sænsku timburhúsanna, sem njóti einhvers konar hverfisverndar í deiliskipulagi. Engin rök liggi fyrir því að hús kærenda sé flokkað sem sænskt timburhús, þ.e. innflutt tilbúið hús, enda sé það ekki og hafi aldrei verið sænskt timburhús. Sjarmi hverfisins felist í því að þar séu alls kyns hús með ýmsu sniði og við þau standi ýmsar síðar reistar, enda mörg húsanna byggð af íbúunum sjálfum og hafi tekið breytingum eftir því sem tímarnir og umgjörð mannlífsins breyttist. Fínleiki hverfisins stjórnist ekki af „samræmi“ í norðurútveggjum húsanna. Verulega skökku skjóti við að í samþykktu deiliskipulagi sé heimilt að meira en tvöfalda flatarmál hússins, sé tekið mið af byggingarreit til suðurs og vesturs. Þá verði rök um að viðhalda „fínlegu yfirbragði“ haldlítil.
Synjun á umsókn um byggingarleyfi hafi þær afleiðingar að kærendum sé gert ókleift að halda húsinu við með löglegum hætti.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ljóst sé að fyrirhugaður sólskáli nái út fyrir gafl umrædds húss og brjóti það fyrirkomulag í bága við gildandi deiliskipulag. Samkvæmt skipulaginu verði viðbyggingar að vera inndregnar frá göflum húsa. Breidd sólskálans sé enn fremur umfram leyfilega breidd, sem sé 3,9 m. Fyrirhugað anddyri á norðurhlið sé jafnframt fyrir utan bundna byggingarlínu og því ekki innan heimildar gildandi deiliskipulags. Ekki sé neinu anddyri til að dreifa á upprunalegum uppdráttum að húsinu samþykktum í byggingarnefnd Reykjavíkur 27. febrúar 1947.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk hennar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar lögum samkvæmt við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana verða bornar. Samkvæmt framangreindu er það utan valdsviðs nefndarinnar að leggja fyrir skipulagsyfirvöld að endurskoða deiliskipulag og kvaðir fyrir umrætt hús og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda þar að lútandi.
Í gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 138 við Langholtsveg á svæði merktu ÍB27. Um svæðið segir m.a. að það sé fullbyggt og fastmótað og að yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt, en lágreist byggð einkenni það.
Deiliskipulag Vogahverfis tók gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. október 2010. Umrædd lóð er á svæði A samkvæmt skipulaginu en í skilmálum þess um svæðið kemur m.a. fram að lóðir séu almennt 550-650 m2, mikið sé um sænsk timburhús og áhersla sé lögð á að halda í fíngert yfirbragð byggðar. Ekki skuli breikka húskroppa en heimilt sé að lengja hús þar sem lóðaraðstæður leyfi eða reisa viðbyggingar sem verði inndregnar frá göflum húss. Bundin byggingarlína sé skáhallt á götu og hús í 3 m fjarlægð frá lóðarmörkum vestan við götu en í 6 m fjarlægð frá lóðarmörkum austan við götu. Samkvæmt uppdrætti gildandi deiliskipulags afmarkast byggingarreitur umræddrar lóðar m.a. af norðurhlið hússins sem á lóðinni stendur.
Í umsókn kærenda var óskað leyfis til byggingar sólskála og viðbyggingar við aðalinngang hússins og að fyrirhugað anddyri yrði byggt við norðurgafl þess og færi því út fyrir skilgreindan byggingarreit í deiliskipulagi. Fyrirhugaður sólskáli nær samkvæmt umsókninni út fyrir vesturgafl hússins og uppfyllir því ekki skilyrði deiliskipulags um að heimilaðar viðbyggingar skuli vera inndregnar frá göflum húsa. Var byggingarleyfisumsókn samkvæmt þessu ekki í samræmi við heimildir gildandi deiliskipulags.
Í byggingarlýsingu teikninga sem fylgdu umsókninni segir m.a. að rifinn verði áður gerður inngangsskáli sem aldrei hafi verið samþykki fyrir og hefur komið fram af hálfu borgaryfirvalda að anddyrið sé ekki á upprunalegum uppdráttum hússins frá árinu 1947. Liggur því ekki fyrir að veitt hafi verið byggingarleyfi fyrir núverandi anddyri hússins.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis m.a. að mannvirkið og notkun þess sé í samræmi við gildandi skipulag á svæðinu. Var byggingarfulltrúa því ekki heimilt að samþykkja byggingarleyfisumsókn kærenda að óbreyttu deiliskipulagi.
Með tilliti til þess sem að framan greinir verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. september 2017 um að synja umsókn um byggingarleyfi vegna endurbyggingar anddyris og byggingar sólskála við hús nr. 138 við Langholtsveg í Reykjavík.