Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

12/2000 Áland

Ár 2000, fimmtudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., og aðalmennirnir Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2000; kæra 12 íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2000, sem barst nefndinni sama dag, kærir Tómas Jónsson hrl., f.h. 12 nafngreindra íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði ógilt.

Þegar mál þetta kom fyrst til meðferðar í úrskurðarnefndinni lýsti formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sig vanhæfan til setu í nefndinni í máli þessu.  Tók varaformaður úrskurðarnefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., sæti hans við meðferð málsins í nefndinni.

Hinn 14. og 15. mars 2000 bárust úrskurðarnefndinni tvær aðrar kærur, annars vegar frá Landspítala háskólasjúkrahúsi í Fossvogi og hins vegar frá Jóhannesi Albert Sævarssyni hrl., f.h. íbúa við Markarveg, Kjarrveg og Klifveg í Reykjavík, þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar.  Úrskurðarnefndin tók til athugunar hvort sameina bæri kærumál þessi, en féll frá sameiningu þeirra með tilliti til þess að hagsmunir sjúkrahússins annars vegar og íbúanna hins vegar fara ekki að öllu leyti saman og að byggt er að nokkru á ólíkum sjónarmiðum í málunum.  

Með úrskurði, uppkveðnum í dag í kærumáli Landspítala háskólasjúkrahúss, nr. 11/2000, hefur úrskurðarnefndin þegar fellt úr gildi ákvörðun þá, sem ógildingar er krafist á í máli þessu.  Þykir við svo búið ekki hafa þýðingu að kveða upp sjálfstæðan efnisúrskurð í málinu, enda eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá skorið úr um gildi stjórnvaldsákvörðunar, sem þegar hefur verið felld úr gildi.  Með vísan til þess er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kæru Tómasar Jónssonar hrl., f.h. 12 íbúa og eigenda fasteigna við Búland, Brúnaland, Brautarland og Bjarmaland í Reykjavík, dags. 14. mars 2000, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland er vísað frá úrskurðarnefndinni.