Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2000 Áland

Ár 2000, fimmtudaginn 30. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., og aðalmennirnir Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2000; kæra Landspítala háskólasjúkrahúss, Eiríksgötu 5, Reykjavík, á ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. mars 2000, sem barst nefndinni sama dag, kærir Jóhannes Pálmason framkvæmdastjóri, f.h. Landspítala háskólasjúkrahúss, ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar.  Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Um kæruheimild vísast til 8. gr. laga nr. 73/1997, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997.

Þegar mál þetta kom fyrst til meðferðar í úrskurðarnefndinni lýsti formaður nefndarinnar, Ingimundur Einarsson, varalögreglustjóri í Reykjavík, sig vanhæfan til setu í nefndinni í máli þessu.  Tók varaformaður úrskurðarnefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., sæti hans við meðferð málsins í nefndinni.

Málavextir:  Þann 30. október 1998 barst Borgarskipulagi Reykjavíkur bréf 28 íbúa við Akraland og Áland, þar sem þess var óskað að Álandið yrði gert að botnlanga eða að gegnumakstur um götuna yrði takmarkaður við sjúkrabifreiðar.  Erindi þetta var tekið til athugunar af umferðardeild borgarverkfræðings og gatnamálastjóra, auk þess sem haldnir voru fundir með íbúum, en engin ákvörðun var þá tekin í málinu.  Var erindið ítrekað með bréfi Hrafnhildar Sigurðardóttur, Álandi 13, dags. 26. júní 1999, og á ný með bréfi Hermanns Jónassonar og Hrafnhildar Sigurðardóttur, dags. 7. september 1999.

Þann 11. október 1999 var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar þar sem samþykkt var með 3 atkvæðum að auglýsa breytingu á deiliskipulagi í þá veru að götunni yrði lokað fyrir gegnumumferð.  Fulltrúar minnihluta sátu hjá. Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulags- og umferðarnefndar á fundi sínum þann 12. október 1999.  Í kjölfar samþykktar borgarráðs var tillagan auglýst og var hún til kynningar frá 29. október til 26. nóvember. 1999, en athugasemdafrestur var til 10. desember sama ár.  Athugasemdir og mótmæli bárust frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur og fjölmörgum íbúum í nálægum götum í Fossvogshverfi.  Jafnfram bárust bréf og undirskriftalisti fjölda íbúa við Áland, Akraland og Brúnaland, þar sem lýst var stuðningi við tillöguna.

Málið var á ný tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar þann 24. janúar 2000 og var eftirfarandi bókun gerð í málinu:
„Auglýst breyting samþykkt með þremur atkvæðum. Breytingin verði endurskoðuð að ári liðnu með tilliti til fenginnar reynslu. Jafnframt samþykkt að fela umferðardeild borgarverkfræðings að vinna tillögu að bættu umferðarfyrirkomulagi við Sjúkrahús Reykjavíkur á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar.
Inga Jóna Þórðardóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson greiddu atkvæði á móti og óskuðu bókað: Umferðardeild borgarverkfræðings hefur sýnt fram á aðrar leiðir til að auka umferðaröryggi á Álandi en að loka götunni. Þær leiðir hefði verið rétt að reyna fyrst enda valda þær minni óþægindum, fyrir þá íbúa sem búa neðar í hverfinu, en lokun Álands. Ekki eru gerðar breytingar á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar samfara lokun götunnar og því fyrirsjáanlegt aukið álag þar. Mikill ágreiningur er meðal íbúa hverfisins varðandi þetta mál. Lokun Álands er breyting á deiliskipulagi og því hefði verið eðlilegra að vinna að lausn málsins í samráði við íbúa hverfisins. Betur hefði þurft að undirbúa málið, t.d. liggja ekki fyrir talningar umferðardeildar á umferð um Áland.
Fulltrúar R-listans óskuðu bókað: Þegar málið var fyrst kynnt í Skipulagsnefnd, 11. okt. 1999, voru sýndar 3 tillögur að umferðarskipulagi við Áland/Eyrarland. Skipulagsnefnd samþykkti, með 3 samhljóða atkvæðum, að senda tillögu um lokun Álands í kynningu. Ekki er eðlilegt að beina umferð að Sjúkrahúsi Reykjavíkur í gegnum íbúagötu eins og nú er og því er lagt til að loka Álandi en jafnframt að óska eftir tillögu frá umferðardeild borgarverkfræðings um bætt umferðarfyrirkomulag við Sjúkrahús Reykjavíkur á gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegur. Einnig liggja fyrir eindregnar óskir íbúa í næsta nágrenni að götunni verði lokað, m.a. vegna umferðaröryggis. Þá er ennfremur ákveðið að endurskoða fyrirkomulagið 1 ár.“

Borgarráð samþykkti breytinguna á fundi sínum þann 8. febrúar 2000 með fjórum atkvæðum gegn þremur.  Þar sem ágreiningur var um málið var það sent borgarstjórn til meðferðar, sem samþykkti tillöguna á fundi sínum þann 17. febrúar 2000.  Eftir samþykkt skipulagstillögunnar var hún send Skipulagsstofnun til meðferðar.  Féllst stofnunin á að auglýsing um gildistöku breytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda en jafnframt var tekið fram að stofnunin teldi að eðli ákvörðunarinnar hefði ekki kallað á breytingu á deiliskipulagi, þar sem ekki virtist sérstaklega hafa verið fjallað um umferð í því deiliskipulagi, sem gilti á svæðinu.  Jafnframt var á það bent að sú aðgerð, sem kallað væri eftir, lyti 81. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. 

Að fengnu samþykki Skipulagsstofnunar var auglýsing birt í B-deild Stjórnartíðinda, hinn 10. mars 2000, um gildistöku skipulagsbreytingarinnar.  Með bréfi Borgarskipulags Reykjavíkur, dags. 10. maí 2000, til lögreglustjórans í Reykjavík var óskað heimildar hans til að setja upp umferðarskilti vegna breytingarinnar.  Jafnframt var þess farið á leit að hann birti auglýsingu um umferðartakmörkunina í B-deild Stjórnartíðinda.  Féllst lögreglustjóri á erindið og var auglýsing hans um takmörkun umferðar um Áland birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. júní 2000 og hefur almenn umferð um Áland að og frá sjúkrahúsinu verið óheimil frá þeim tíma.

Kærandi vildi ekki una ákvörðun borgaryfirvalda um fraangreinda breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 14. mars. 2000, svo sem að framan greinir.  Jafnframt bárust um líkt leyti tvær kærur frá nokkrum fjölda íbúa í nágrenni Álands, þar sem sama ákvörðun er kærð til ógildingar.  Úrskurðarnefndin tók til athugunar hvort sameina bæri kærumál þessi, en féll frá sameinigu þeirra með tilliti til þess að hagsmunir sjúkrahússins annars vegar og íbúanna hins vegar fara ekki að öllu leyti saman og að byggt er að nokkru á ólíkum sjónarmiðum í málunum.  

Málsrök kæranda:  Kærandi telur forsendur til breytinga á deiliskipulagi fyrir Fossvog vegna umferðartakmarkana um Áland slíkar að gengið hafi á svig við hagsmuni sjúkrahússins og íbúa í nágrenni við það.  Þá sé hin kærða ákvörðun andstæð tilgangi og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.  Ljóst sé að ákvörðunin hafi víðtækar afleiðingar og sé til þess fallin að draga úr aðgengi að sjúkrahúsinu og um leið hefta þau viðmið öryggiskrafna sem bráðasjúkrahús þurfi að búa við. 

 Kærandi leggur áherslu á eftirtalin atriði, máli sínu til stuðnings:
1.  Sjúkrahúsið sé bráðasjúkrahús og aðal slysasjúkrahús landsins og sé því mjög mikilvægt að hafa tvær aðkomuleiðir að því enda kunni önnur þeirra að teppast af óviðráðanlegum orsökum.  Minnstu tafir við flutning sjúklinga geta stofnað lífi þeirra í hættu eða aukið á afleiðingar meiðsla.
2.  Hjá sjúkrahúsinu starfi um 1500 starfsmenn.  Eðli máls samkvæmt sé sjúkrahúsið starfrækt allan sólarhringinn og gangi starfsmenn að jafnaði þrískiptar vaktir.  Séu vaktaskipti ávallt á sömu tímum hjá öllum starfsmönnum sjúkrahússins.  Í ljósi þessa sé umferð starfsmanna að verulegu leyti á sömu tímum og umferðarþungi því augljóslega nokkur.  Fyrir liggi að meirihluti starfsmanna komi úr austri, en það séu einmitt þeir, sem geti notað aðkomuleiðina um Áland.
3.  Sjúkrahúsið hafi fyrirfram ákveðna heimsóknartíma.  Slíkir fastir heimsóknartímar séu mjög til hagræðis fyrir sjúkrahúsið þar sem stofnunin geti þá gert tilteknar ráðstafanir vegna aukins álags.  Það sé hins vegar ljóst að veruleg umferð sé um aðkomuleiðir sjúkrahússins á þessum tímum og því séu breytingar á deiliskipulagi einungis til þess fallnar að auka álag annars staðar. 
4.  Sjúkrahús Reykjavíkur, áður Borgarspítali, hafi verið starfrækt á þessum stað í rúmlega 30 ár.  Íbúum Álands hafi ávallt verið kunnugt um sjúkrahúsið og gatan hafi verið til staðar með tengingum sínum og umferð.  Á sínum tíma hafi verið gerðar athugasemdir vegna uppbyggingar íbúðarbyggðar þeirrar, sem standi næst sjúkrahúsinu.  Verði og ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þegar unnið hafi verið skipulag byggðar vestan Eyrarlands hafi það verið forsenda þess skipulags að aðkoma að Borgarspítala yrði bæði frá Eyrarlandi og Háaleitisbraut.
5.  Kærandi mótmælir röksemdum um meinta slysahættu á gatnamótum Álands og Eyrarlands samkvæmt núverandi deiliskipulagi og vísar í þeim efnum til greinargerðar umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 30. apríl 1999, en þar segi m.a. að óhöpp séu ekki tíð á gatnamótunum, með tilliti til annarra gatnamóta með svipað umferðarmagn.  Í greinargerð er hins vegar bent á nauðsyn tiltekinna úrbóta.  Í samantekt umferðardeildar borgarverkfræðings, dags. 6. janúar 2000, komi fram að gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðarvegar séu með óeðlilega háa óhappatíðni.  Ef ekki verði fallist á kröfur kæranda í málinu  megi búast við að álag muni aukast verulega á þeim gatnamótum með tilheyrandi töfum.  Þykir ljóst að lokunin auki tafir, lengir akstursvegalengdir, minnkar umferðaröryggi í heild og skerðir nauðsynlegar aðkomur að sjúkrahúsinu.
Loks bendir kærandi á að á reit þeim, sem afmarkist af Bústaðarvegi, Háaleitisbraut, Sléttuvegi og Kringlumýrarbraut, sé rekin ýmis starfsemi sem áformað sé að auka á næstu árum.  Slíkt muni að sjálfsögðu skapa umferð og auka enn álagið á gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðarvegar og á kafla Háaleitisbrautar fyrir framan sjúkrahúsið. 

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. október 2000, áréttar kærandi kröfur sínar og kveður verulega breytingu hafa orðið á umferð að og frá sjúkrahúsinu til hins verra eftir að hin umdeilda breyting kom til framkvæmda.

Málsrök borgaryfirvalda:  Af hálfu borgaryfirvalda er krafist staðfestingar hinnar kærðu ákvörðunar.  Er sú krafa studd eftirfarandi rökum.

Borgaryfirvöld telja að ekki sé hægt að fallast á það með kæranda að með ákvörðuninni hafi verið gengið á svig við hagsmuni sjúkrahússins, enda umferð sjúkrabíla um Álandið ekki takmörkuð með breytingunni.  Sjúkrabílar hafi því sömu aðkomumöguleika og áður, þ.e. tvær aðkomur auk aðkomu um Eyrarland og Fossvogsveg.  Breytingin eigi því ekki að leiða til tafa á umferð sjúkrabifreiða nema síður sé, þar sem þeim einum sé nú heimilt að aka um Áland.  Hvað varði umferð starfsmanna og gesta þá sé niðurstaða umferðardeildar borgarverkfræðings sú að gatnamót Bústaðavegar og Háaleitisbrautar geti óbreytt tekið við þeirri umferðaraukningu sem hljótist af lokun Álandsins og sé þessi niðurstaða umferðardeildar byggð á ítarlegri skoðun.  Að auki hafi verið samþykkt að fela umferðardeild að gera tillögu að bættu umferðarfyrirkomulagi við Sjúkrahús Reykjavíkur á gatnamótum Bústaðavegar og Háaleitisbrautar og sé unnið að gerð slíkrar tillögu.  Þá sé borgaryfirvöldum er ekki kunnugt um að nein vandamál hafi hlotist af lokuninni hingað til.

Af hálfu borgaryfirvalda er fallist á þá staðhæfingu kæranda að gert hafi verið ráð fyrir aðkomu að spítalanum í gegnum Álandið.  Í samantekt umsagnar umferðardeildar, dags. 6. og 20. janúar 2000, sé hins vegar á það bent að Álandið hafi full lítið rými til þess að þjóna því hlutverki.  M.a. af þeirri ástæðu hafi umrædd breyting verið samþykkt.

Einnig fallast borgaryfirvöld á þá staðhæfingu að slys á gatnamótum Álands og Eyrarlands hafi hvorki verið mörg né alvarleg hingað til.  Í umsögn umferðardeildar, dags. 30. apríl 1999, sé hins vegar á það bent að gatnamótin séu um margt varasöm.  Því til stuðnings sé rétt að vekja athygli á talningu sem gerð hafi verið af landfræðinemum í Háskóla Íslands fyrir lokun götunnar, þar sem gerð hafi verið sú athugasemd að gatnamót Álands og Eyrarlands séu hættuleg og að margir hafi næstum verið lentir í árekstri þar.

Af hálfu borgaryfirvalda er tekið undir þá staðhæfingu að gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegar séu með óeðlilega háa óhappatíðni.  Það vandamál sé þó ekki tengt aðkomu að sjúkrahúsinu heldur verði flest óhöppin vegna umferðar sem beygi til vinstri frá Bústaðavegi norður Háaleitisbraut.  Aukinni umferð um gatnamótin sé því ekki stefnt í meiri hættu við breytinguna en hún hefði verið í hefði hún áfram farið um gatnamót Bústaðavegar og Eyrarlands.  Hvað akstursvegalengd varði þá lengist hún óverulega. Breytingin eigi því ekki að skerða umferðaröryggi vegfarenda, sem þurfi að aka þessa leið.

Loks er því haldið fram af hálfu borgaryfirvalda að þrátt fyrir að starfsemi komi til með að aukast á svæðinu ættu umrædd gatnamót að anna þeirri umferð, enda séu þau hönnuð með það í huga.  Verði uppbygging aukin verulega frá því sem nú sé gert ráð fyrir kalli það hugsanlega á heildarendurskoðun á umferðarkerfi svæðisins.  Engar hugmyndir eða ákvarðanir liggja fyrir sem gefi tilefni til slíkrar endurskoðunar í dag.  Rétt sé í þessu sambandi að minna á að sú breyting sem um sé deilt í málinu verði endurskoðuð á næsta ári, m.a. með tilliti til fenginnar reynslu, sbr. bókun skipulags- og umferðarnefndar um málið.

Í ljósi framanritaðs telja borgaryfirvöld að ekki verði séð að sú fullyrðing kæranda, að breytingin hafi í för með sér verulegt óhagræði og geri stofnuninni erfitt fyrir að sinna þjónustuhlutverki sínu, eigi við rök að styðjast enda hafi breytingin engin áhrif á aðkomu sjúkrabifreiða að spítalanum og aðkoma starfsmanna, gesta og sjúklinga sé fullnægjandi.  Ekkert komi fram í kærunni sem leitt geti til þess að ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur verði talin ógildanleg.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin hefur ekki leitað umsagnar Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa, enda liggur fyrir í málinu bréf stofnunarinnar, dags. 17. febrúar 2000, þar sem fram koma viðhorf hennar til hinnar umdeildu skipulagsbreytingar.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið felst það eitt í hinni kærðu ákvörðun að umferð er takmörkuð um Áland á rúmlega 100 metra bili frá aðkomu að íbúðarhúsum við Áland í átt að sjúkrahúsi kæranda í Fossvogi.  Engar breytingar eru gerðar á götu eða öðrum umferðarmannvirkjum, en gert er ráð fyrir að sett verði upp þrjú umferðarmerki og eru merki þessi sýnd á skipulagsuppdrætti að breytingunni.  Greinargerð með skipulagstillögunni, sem árituð er á uppdráttinn, er svohljóðandi:  „Í eldra skipulagi er ekki gerð grein fyrir neinum takmörkunum á umferð.  Með þeirri breytingu sem hér er sýnd, er gert ráð fyrir að takmarka umferð með umferðarskiltum um þann hluta Álands sem afmarkaður er á uppdrættinum sem mörk deiliskipulags svæðis, með þeim hætti að aðeins er leyfð umferð sjúkraflutningabifreiða.  Ekki er gert ráð fyrir neinum öðrum breytingum á svæðinu.“  Af bókun skipulags- og umferðarnefndar um skipulagsbreytinguna frá 24. janúar 2000 verður auk þess helst ráðið, að ákveðið hafi verið að taka hana til endurskoðunar eftir eitt ár.

Úrskurðarnefndin telur að ekki hafi verið efni til að breyta deiliskipulagi umrædds svæðis vegna þeirrar breytingar á umferð sem að var stefnt.  Engin ákvæði voru í eldra skipulagi um fyrirkomulag umferðar á svæðinu og var því ekki þörf skipulagsbreytingar af þeim ástæðum.  Þá stóð ekki til að gera breytingar á gatnamannvirkjum eða aðrar þær breytingar, sem í raun hefðu haft í för með sér breytingar á skipulagi svæðisins.  Gátu borgaryfirvöld, með stoð í 2. mgr. 81. umferðarlaga nr. 50/1987, óskað þess við lögreglustjóra að hann auglýsti umrædda takmörkun umferðar og heimilaði uppsetningu viðeigandi umferðarmerkja án þess að til ákvörðunar um breytingu á skipulagi þyrfti að koma.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 bar borgaryfirvöldum fremur að neyta þessa úrræðis, enda verður að telja það til muna vægara en þá breytingu á deiliskipulagi, sem gerð var.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. og rannsóknarreglu 13. gr. stjórnsýslulaga er nefndin jafnframt þeirrar skoðunar að taka hefði átt til frekari athugunar hvort aðrir kostir væru fyrir hendi til þess að ná því markmiði að draga úr slysahættu og koma til móts við til sjónarmið íbúa við Áland, áður en ákvörðun var tekin um lokun götunnar fyrir umferð.  Bar m.a. að líta til þess að gert hefur verið ráð fyrir umferð um Áland að og frá sjúkrahúsinu í deiliskipulagi íbúðarbyggðar við Áland allt frá upphafi og að starfsemi sjúkrahússins er þess eðlis að óvarlegt er að torvelda umferð að því og frá umfram það sem brýna nauðsyn ber til.

Þá telur nefndin það orka tvímælis að binda ákvarðanir um stjórnun umferðar í skipulag.  Geta þær aðstæður skapast að breyta þurfi slíkum ákvörðunum með litlum fyrirvara vegna breyttra aðstæðna og er óheppilegt að þær sæti þeirri tímafreku og flóknu málsmeðferð sem við á um skipulagsákvarðanir.  Þótt nauðsynlegt hafi verið talið að kynna áform um hina umdeildu breytingu fyrir íbúum og hagsmunaaðilum var óþarft að fjalla um hana sem skipulagsmál, enda mátti kynna hana með stoð í almennum reglum stjórnsýsluréttarins um andmælarétt.

Loks telur úrskurðarnefndin að skipulags- og umferðarnefnd hafi brostið vald til þess að taka hina umdeildu ákvörðun um lokun Álands með þeim hætti sem gert var.  Ákvörðunin hafði yfirbragð lokaákvörðunar enda þótt hún væri háð samþykki lögreglustjóra samkvæmt 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga, en tilvitnað ákvæði verður ekki skilið svo að lögreglustjóra sé skylt að fara að tillögum eða óskum sveitarstjórnar um sérákvæði um umferð.  Þá var uppsetning umferðarmerkja þeirra, sem sýnd eru á uppdrætti hinnar umdeildu skipulagsbreytingar, einnig háð samþykki lögreglustjóra, sbr. 85. gr. umferðarlaga.  Leituðu borgaryfirvöld þessara heimilda lögreglustjóra með bréfi, dags. 10. maí 2000, röskum þremur mánuðum eftir að borgarstjórn staðfesti hina kærðu ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli og að ekki hafi verið gætt réttrar aðferðar við meðferð málsins.  Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.  Þar sem gildistaka umræddrar ákvörðunar var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda er lagt fyrir borgarstjórn að hlutast til um að auglýst verði þar að ákvörðunin hafi verið felld úr gildi.

Það er hins vegar hvorki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að fjalla um þá ákvörðun borgaryfirvalda að leita heimildar lögreglustjóra til þess að loka umferð um Áland með stoð í 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga, svo sem gert var, né um ákvörðun lögreglustjóra um að verða við þeirri málaleitan og standa þær ákvarðanir því óhaggaðar, þrátt fyrir niðurstöðu máls þessa.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur frá 24. janúar 2000 um breytingu á deiliskipulagi í Fossvogi vegna umferðartakmarkana um Áland, sem staðfest var í borgarráði hinn 8. febrúar 2000 og í borgarstjórn hinn 17. sama mánaðar, er felld úr gildi.  Þar sem gildistaka umræddrar ákvörðunar var auglýst í B-deild Stjórnartíðinda er lagt fyrir borgarstjórn að hlutast til um að ógilding ákvörðunarinnar verði auglýst með sambærilegum hætti.