Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 5. mars 2020, sjá hér.
Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Fyrir var tekið mál nr. 118/2018, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 8. ágúst 2018 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Sandgerði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir A, Uppsalavegi 8, Sandgerði, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 8. ágúst 2018 að fjarlægja bifreið af einkalóð kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 26. október 2018.
Málavextir: Hinn 8. ágúst 2018 límdi starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja miða á bifreið kæranda, þar sem fram kom að fjarlægja bæri bifreiðina hið fyrsta og var gefinn til þess frestur til einnar viku. Bifreiðin var síðan fjarlægð 30. s.m. og komið fyrir í geymsluporti Vöku í Reykjavík. Kærandi sætti sig ekki við þetta og bar fram kæru sem móttekin var 26. september s.á.
Málsrök kæranda: Kærandi kveður bifreiðina hafa verið á einkalóð sinni sem sé í langtímaleigu. Númerin hafi verið fjarlægð af bifreiðinni af og til, þegar ekki hafi verið þörf á henni, frá því hún hafi verið keypt árið 2011. Þetta hafi verið gert til að spara tryggingarkostnað af bifreiðinni. Ekkert hafi verið að bifreiðinni þegar hún hafi verið fjarlægð, hún hafi verið þvegin og bónuð reglulega þótt hún væri ekki á númerum. Ekkert ryð hafi verið á bifreiðinni fyrir utan einn lítinn blett og hún hafi verið ekin 96 þúsund km. Bifreiðin hafi síðast verið tekin af skrá 2016 og hafi ekki verið á skrá síðan. Ástæðan hafi verið sú að eiginmaður kæranda hafi átt erfitt með að aka henni en kærandi sé ekki með ökuréttindi. Ætlunin hafi verið að setja bifreiðina á númer á árinu 2019. Hún hafi verið gangsett á tveggja til þriggja mánaða fresti.
Eiginmaður kæranda hafi farið á sjúkrahús 17. ágúst 2018 og aftur 23. s.m. Hann hafi farið lítið út fyrir og eftir vistina. Kærandi sé mest innivið og hvorugt þeirra hafi haft hugmynd um að miði hefði verið límdur á bifreiðina. Þegar þriðji maður hefði komið í heimsókn 3. september s.á. hafi hann tekið eftir því að bifreiðin væri horfin og látið kæranda vita af því og hann haldið að henni hefði verið stolið. Haft hefði verið samband við lögreglu vegna þessa sem hefði gengið á milli húsa í nágrenninu til að spyrja hvort nágrannar hefðu séð eitthvað. Daginn eftir hefði lögreglumaður hringt og sagt frá því að heilbrigðiseftirlitið hefði látið fjarlægja bifreiðina. Eiginmaður kæranda hefði haft samband við heilbrigðiseftirlitið en hefði fengið þær einu leiðbeiningar að hann skyldi kæra atvikið til lögreglu. Það hafi verið reynt en lögreglan neitað að taka við kæru. Þá hafi kærandi farið til heilbrigðiseftirlitsins þar sem afhentar hefðu verið myndir og gögn vegna bifreiðarinnar og framkvæmdastjóra eftirlitsins afhentur spurningalisti sem hann hafi ætlað að svara. Þau svör hafi ekki borist. Einnig hafi bæjarstjóri sveitarfélagsins fengið beiðni um upplýsingar sem ekki hafi verið svarað.
Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer aðallega fram á að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað.
Á viðvörunarmiða, sem límdur hafi verið á rúðu bílstjóramegin á ökutækinu, komi fram að ákvörðunin sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt um eða mátt vera kunnugt um ákvörðunina. Af kæru verði ráðið að kærandi hafi verið heima þegar miðinn hafi verið límdur á bifreiðina og einnig vikurnar fram að því að bifreiðin hafi verið flutt á brott. Þar sem ekki hafi verið brugðist við viðvörun eða athugasemdir gerðar við ákvörðunina hafi hún verið framkvæmd. Samkvæmt gögnum máls hafi ákvörðunin verið tilkynnt með álímdum miða 8. ágúst 2018. Verði því ekki annað séð en að kærufrestur hafi verið liðinn fyrir allnokkru þegar ákvörðunin hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Af þeim sökum skuli vísa málinu frá nefndinni.
Bifreiðin hafi verið fjarlægð 22 dögum eftir að viðvörun hafi verið gefin með álímdum miða, eða 30. ágúst 2018. Á miðanum komi fram að athugasemdir skuli berast skriflega og þar veittar leiðbeiningar um kæruheimild. Þar sem engar skriflegar athugasemdir hafi borist innan frests og ekki hafi verið orðið við fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins hafi ökutækið verið fjarlægt á kostnað eiganda eins og boðað hafi verið.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja starfi í umboði heilbrigðisnefndar skv. lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Heimild heilbrigðisnefndar til að beita þvingunarúrræðum byggist á XVII. kafla laga nr. 7/1998. Í 1. mgr. 60. gr. laganna sé kveðið á um til hvaða úrræða sé heimilt að grípa, þ.m.t. að haldleggja lausamuni og farga þeim vegna brota á lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 941/2001 um hollustuhætti sé bannað að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu og gildi það jafnt um smærri sem stærri hluti. Í 21. gr. reglugerðarinnar sé síðan kveðið á um að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs sé heilbrigðisnefnd einnig veitt heimild til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum og gildi sú heimild einnig um einkalóðir manna. Um þvingunarúrræði vísist til 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
Þegar viðvörunarmiði hafi verið límdur á umrætt ökutæki hafi allt litið út fyrir að það stæði utan bílastæðis og teldist á almannafæri skv. 20. gr. reglugerðar nr. 941/2002, auk þess sem ákvæði reglugerðar nr. 737/2003 hafi átt við. Eins og áður sagði veitir 5. mgr. 17. gr. þeirrar reglugerðar heimild til að fjarlægja númerslausar bifreiðir af einkalóðum, en aðgerðir heilbrigðiseftirlits gagnvart ökutækjum sem ekki séu lengur í umferð byggist m.a. á markmiði 1. gr. laga nr. 7/1998 og lögum nr. 55/2003. Mengunarhætta stafi af gömlum ökutækjum sem ekki séu lengur í notkun og að mati eftirlitsins hafi ökutækið, eins og það hafi verið staðsett utan skilgreinds bílastæðis, verið til lýta fyrir umhverfið. Skyldur heilbrigðiseftirlitsins til að bregðast við séu og í samræmi við kröfur sveitarfélagsins sem gerðar séu til leigulóðarhafa, sbr. m.a. 7. gr. lóðarleigusamnings kæranda, sem sé á meðal gagna málsins. Fjöldi ökutækja, sem tekin séu úr notkun og lagt, geti auk þess skapað ýmis vandamál sem stemma þurfi stigu við skv. gildandi lögum og reglugerðum sem vísað hafi verið til. Af gögnum máls sé og ljóst að ökutækið hafi ekki verið á skrá í rúm tvö ár þegar það hafi verið fjarlægt.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun. Gerir Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kröfu um frávísun í málinu á þeim grundvelli að lögbundinn mánaðar kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var lögð fram. Miðar heilbrigðiseftirlitið upphaf kærufrests við þann dag sem tilkynning um yfirvofandi haldlagningu var límd á rúðu umræddrar bifreiðar. Að áliti úrskurðarnefndarinnar verður miða límdum á bílrúðu ekki jafnað við t.a.m. póstlagða tilkynningu á lögheimili. Mátti kærandi því ekki vita af umræddri ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá þeim tíma, sbr. fyrrnefnt lagaákvæði. Bifreiðin var fjarlægð 30. ágúst 2018 og af gögnum málsins verður ráðið að kæranda var það ljóst í síðasta lagi 3. september s.á. Kæra var lögð fram 26. s.m. og telst því nægilega snemma fram komin.
Heilbrigðisnefndir starfa samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt 47. gr. ber heilbrigðisnefnd að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga og ákvæðum í sérstökum lögum eða reglum sem nefndinni er eða kann að vera falið að annast um framkvæmd á. Gilda og stjórnsýslulög nr. 37/1993 um störf nefndarinnar. Samkvæmt 49. gr. laga nr. 7/1998 ráða heilbrigðisnefndir á hverju svæði heilbrigðisfulltrúa til að annast eftirlit sveitarfélaganna með þeim viðfangsefnum sem undir lögin falla. Heilbrigðisfulltrúar starfa í umboði heilbrigðisnefndar samkvæmt sama ákvæði.
Ákvæði um valdsvið og þvingunarúrræði eru í XVII. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. 60. gr. geta heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt eftirfarandi aðgerðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og reglugerðum settum með stoð í þeim: 1. veitt áminningu, 2. veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta eða 3. stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða notkun, þar með lagt hald á vörur og fyrirskipað förgun þeirra. Samkvæmt 2. mgr. skal aðeins beita síðastnefnda úrræðinu í alvarlegri tilvikum, við ítrekuð brot eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Samkvæmt framangreindu er ljóst að heilbrigðisnefndir og heilbrigðiseftirlit hafa lagaheimildir fyrir þvingunaraðgerðum, sem m.a. fela í sér haldlagningu á lausamunum og förgun þeirra vegna brota á lögum nr. 7/1998 eða reglugerðum settum með stoð í þeim.
Reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti er sett með heimild í 4. gr. laga nr. 7/1998 og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er sett með heimild í 4. og 5. gr. sömu laga, sem og í 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Heimildir til að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök er að finna í ákvæðum 21. gr. reglugerðar um hollustuhætti og 17. gr. reglugerðar um meðhöndlun úrgangs. Í nefndri 21. gr. er að finna heimild heilbrigðisnefndar til að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum. Í áðurnefndri 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 segir m.a. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun.
Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið kæranda staðsett á einkalóð og gat því ekki talist vera á almannafæri í skilningi 21. gr. reglugerðar nr. 941/2002. Áðurnefnd 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 fjallar um almennan þrifnað utanhúss, m.a. á einkalóðum, og segir í 1. mgr. að umráðamönnum lóða sé skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Samkvæmt 5. mgr. 17. gr. er heilbrigðisnefnd heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og af samhengi ákvæðisins má ráða að framangreint gildi um númerslausar bifreiðar á einkalóðum. Kemur fram í greinargerð heilbrigðiseftirlitsins að miði var límdur á bifreiðina 8. ágúst 2018 og eiganda gefinn viku frestur til að fjarlægja hana. Kom fram á nefndum miða að yrði bifreiðin ekki fjarlægð að útrunnum fresti yrði hún tekin í vörslu í einn mánuð og síðan fargað á kostnað eiganda. Kom einnig fram að hægt væri að hafa samband við fulltrúa heilbrigðiseftirlits í ákveðið símanúmer og einnig að hægt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Bifreiðin var fjarlægð 30. ágúst, eða 22 dögum eftir að miðinn var límdur á hana.
Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki tekið eftir miðanum á bifreiðinni og ekki vitað að búið var að fjarlægja hana fyrr en kunningi lét hann vita af því. Bifreiðin stóð fyrir utan hús kæranda, inni á lóð hans, og verður að telja að heilbrigðiseftirlitið hafi verið í góðri trú um að full vitneskja væri um miðann og viðvörunina áður en bifreiðin var fjarlægð, sem gerðist ekki fyrr en 22 dögum síðar, eins og áður er komið fram. Verður því að telja að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi verið innan sinna valdheimilda þegar það lét fjarlægja bifreið kæranda. Þá var andmælaréttar kæranda gætt með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 5. mgr. 17. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og fékk hann ráðrúm til að fjarlægja bifreiðina sjálfur áður en gripið yrði til frekari ráðstafana með tilheyrandi kostnaði.
Kærandi kveður bifreiðina hafa verið á númerum öðru hvoru síðastliðin ár og styðja gögn málsins það. Hins vegar voru liðin tvö ár og fjórir mánuðir frá því að númerin voru síðast leyst út og hafði bifreiðin staðið fyrir utan hús kæranda allan þann tíma. Þótt hún væri þvegin og bónuð öðru hvoru og sett í gang kemur það ekki í veg fyrir hugsanlega mengun frá ökutækinu, svo sem olíuleka. Verður því ekki annað séð en að hin kærða ákvörðun hafi stefnt að markmiðum 1. gr. laga nr. 7/1998 og 1. gr. reglugerðar nr. 737/2003 og þannig byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum. Var og málsmeðferð í samræmi við lög.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 30. ágúst 2018 um að fjarlægja bifreið af einkalóð í Sandgerði.