Ár 2008, fimmtudaginn 31. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 118/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 og á ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni 13. sama mánaðar, kærir Guðmundur Ágústsson hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar nr. 27 við Fífuhvamm í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007 að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm. Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar Kópavogs hinn 11. september 2007. Áður, eða með bréfi, dags. 3. september 2007, er barst úrskurðarnefndinni hinn 7. sama mánaðar, höfðu kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar samþykki skipulagsnefndar frá 7. ágúst 2007 varðandi fyrrgreindan bílskúr en sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007. Ákvað úrskurðarnefndin að sameina fyrra kærumálið hinu síðara, sem er númer 118/2007.
Kærendur krefjast þess að hinar kærðu samþykktir verði felld úr gildi. Þá kröfðust þeir þess að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Féllst nefndin á þá kröfu með úrskurði uppkveðnum 24. september 2007.
Málsatvik: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 3. apríl 2007 var tekið fyrir erindi frá lóðarhafa að Fífuhvammi 25 þar sem óskað var eftir leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr austan við húsið að Fífuhvammi 25. Samþykkti nefndin að senda málið í kynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 til lóðarhafa að Fífuhvammi 23 og 27 og Víðihvammi 16, 18 og 20. Kynningartíma lauk 15. maí 2007 og bárust athugasemdir frá lóðarhafa að Fífuhvammi 27. Á fundi skipulagsnefndar hinn 19. júní 2007 var erindið lagt fram að nýju ásamt umsögn bæjarskipulags. Skipulagsnefnd ákvað á þeim fundi að fela skipulagsstjóra að ræða við aðila máls.
Á fundi skipulagsnefndar hinn 3. júlí 2007 var erindið tekið fyrir að nýju og eftirfarandi fært til bókar: „Skipulagsnefnd samþykkir erindið með áorðnum breytingum, sbr. samkomulag lóðarhafa Fífuhvammi 25 og 27 dags. 3. júlí 2007.“
Þann 23. júlí 2007 barst erindi kærenda til skipulagsnefndar þar sem gerðar voru athugasemdir við afgreiðslu nefndarinnar. Á fundi skipulagsnefndar hinn 7. ágúst 2007 var málið enn á dagskrá og eftirfarandi fært til bókar: „Lagt fram að nýju ásamt bréfi lóðarhafa Fífuhvammi 25, dags. 23. júlí 2007, ásamt endurskoðaðri umsögn bæjarskipulags dags. 24. júlí 2007. Skipulagsnefnd samþykkir framlagt erindi skv. uppdrætti dags. 24. júlí 2007 og endurskoðaða umsögn bæjarskipulags dags. 24. júlí 2007 og vísar því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“ Á fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007 var ákvörðun skipulagsnefndar staðfest.
Umsókn lóðarhafa að Fífuhvammi 25 um leyfi til byggingar umrædds bílskúrs var tekin fyrir í byggingarnefnd Kópavogs hinn 22. ágúst 2007 og afgreidd með svofelldri bókun: „Samþykkt, þar sem teikningar eru í samræmi við byggingar- og skipulagslög nr. 73/1997, með síðari breytingum. Nefndin leggur til að bæjarstjórn samþykki afgreiðslu byggingarnefndar.“ Var afgreiðsla byggingarnefndar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2007.
Skutu kærendur framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem áður greinir.
Eftir að kærumál þetta kom til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni hafa kærandi og byggingarleyfishafi leitað sátta í málinu og hafa bæjaryfirvöld í Kópavogi komið að þessum sáttaumleitunum. Hefur ítrekað verið fullyrt við starfsmenn úrskurðarnefndarinnar, bæði í símtölum og tölvubréfum, að sátt væri komin á milli aðila en sáttaumleitanir þessar munu þó allar hafa runnið út í sandinn. Hefur þetta haft í för með sér tafir á meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að þau hafi mótmælt áformum byggingarleyfishafa við bæjarskipulag Kópavogsbæjar í bréfi, dags. 12. maí 2007, og bent á að fyrirhugað mannvirki yrði mjög nálægt húsi þeirra en það standi um fjóra metra frá lóðarmörkum. Jafnframt hafi bæjarskipulagi verið á það bent að lóðin nr. 27 við Fífuhvamm stæði mun hærra en lóðin nr. 25 og ljóst að fyrirhuguð bygging myndi varpa miklum skugga á hana. Lóðin að Fífuhvammi 25 standi um 1,2 metrum lægra og ef væntanleg bílskúrsbygging sé 2,5 metrar á hæð sé hæðarmismunur 3,7 metrar og yrði garður kærenda ekki hæfur til útivistar eða ræktunar.
Í kjölfar bréfs kærenda hafi bæjarskipulag lagt fram drög að samkomulagi aðila. Þar hafi m.a. komið fram að kærendur myndu sætta sig við að um 20 metra há tré, sem þau hefðu gróðursett á lóðarmörkum, yrðu fjarlægð að hluta auk þess sem eigendur lóðarinnar greiddu í sameiningu kostnað við gerð stoðveggjar sem einungis væri til kominn vegna framkvæmda byggingarleyfishafa. Á móti hafi átt að koma að kærendur myndu ekki eiga það á hættu að þak væntanlegs bílskúrs yrði nýtt, t.d. sem sólpallur eða undir aðra starfsemi.
Þetta hafi kærendur ekki samþykkt. Aftur á móti hafi þau verið tilbúin að skoða samkomulag er fæli í sér að fallið yrði frá hugmyndum um skyggni framan við bílskúrinn auk þess sem byggingarleyfishafi myndi ábyrgjast allan kostnað af væntanlegu jarðraski, þ.á.m. kostnað við lagnir sem eru við lóðarmörkin svo og annan mögulegan kostnað sem framkvæmdin kynni að hafa í för með sér. Þá hafi kærendur viljað að skoðuð yrði skuggamyndun af hinum umdeilda bílskúr. Ekkert hafi verið gert með þessar athugasemdir kærenda. Þegar þeim hafi verið ljóst að bæjarskipulag ætlaði að keyra málið áfram og samþykkja bygginguna á fundi hinn 13. júlí 2007 hafi þeir tilkynnt í tölvubréfi til bæjarskipulags hinn 12. júli 2007 að ekkert samkomulag hafi verið gert og að kærendur væru mótfallnir fyrirhuguðum breytingum. Hafi kærendur ítrekaði þessa afstöðu með bréfi, dags. 23. júlí 2007.
Kærendur hafi ekkert á móti því að byggingarleyfishafi fái að byggja bílskúr á lóð sinni. Aftur á móti sé nokkuð vel í lagt að hann nánast tvöfaldi grunnflatarmál byggingarinnar og byggi að lóðarmörkum. Samkvæmt teikningum eigi bílskúrinn að vera upp að húsi byggingarleyfishafa og alveg að lóðarmörkum. Þá sé sú ákvörðun skipulagsnefndar vægast sagt einkennileg að heimila byggingarleyfishafa að rífa niður tré kærenda og að fara inn á lóð þeirra án þess að þau hafi nokkuð haft um það að segja. Þá veki það furðu að skipulagsnefnd hafi ekki við undirbúning ákvörðunar sinnar látið athuga hvaða afleiðingar framkvæmdin hefði á nýtingu á lóð kærenda. Það liggi fyrir að byggingin, sem talin sé vera bílskúr, hafi í för með sér skuggamyndun á baklóð kærenda sem geri það að verkum að hún verði illræktanleg. Þá sé ljóst að fyrirhugað skýli framan við bílskúrinn, sem stækki hann umtalsvert, verði til þess að skerða verulega nýtingu kærenda á sólpalli sem þau hafi byggt framan við hús sitt, gengt þeim stað þar sem skýlið eigi að rísa. Einkennilegast af öllu sé málsmeðferðin hjá nefndum Kópavogsbæjar. Eftir að kærendur hafi komið á framfæri mótmælum sínum hafi bæjarskipulag stillt upp drögum að samkomulagi, rætt við kærendur og fengið athugasemdir þeirra sem ekkert hafi verið hlustað á. Síðan sé tilkynnt að kærendur hafi samþykkt samkomulagsdrögin en ekki skrifað undir skjalið, þrátt fyrir skriflegar athugasemdir kærenda um að ekkert samkomulag hafi verið gert. Eigi að síður hafi málið verið afgreitt án athugasemda.
Með vísan til framangreinds telji kærendur verulega á sér brotið með samþykkt skipulagsnefndar og bæjarráðs og síðar byggingarnefndar og bæjarstjórnar Kópavogs. Ekkert tillit hafi verið tekið til hagsmuna kærenda og málið keyrt áfram á miklum hraða.
Því sé haldið fram að meðferð málsins hjá bæjaryfirvöldum sé andstæð meginreglum skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærendur telja að ákvarðanir bæjaryfirvalda í Kópavogi, þ.e. skipulagsnefndar, bygginganefndar og bæjarstjórnar, séu ekki í samræmi við ákvæði 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og því beri að fella þær úr gildi. Telji kærendur að fyrirhuguð bygging geti vart talist óveruleg breyting. Þvert á móti sé um verulegar breytingar að ræða enda sé með ákvörðuninni verið að heimila mjög verulega stækkun á byggingarreit. Grunnflötur byggingarinnar verði 150 m² í stað 84 m².
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er á því byggt að hafna beri kröfu kærenda og vísað til þess að málsmeðferð við samþykkt byggingarleyfis hafi verið lögmæt, réttmæt og í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Málsmeðferð við afgreiðsluna hafi verið byggð á 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ákvörðunin hafi verið ítarlega grenndarkynnt þeim sem talið hafi verið að ættu hagsmuna að gæta og hafi aðeins ein athugasemd borist. Að því loknu hafi verið leitað umsagna, aflað frekari gagna og fundað með aðilum máls vegna framkominnar athugasemdar.
Kærandi hafi gert athugasemdir við að fyrirhuguð bygging myndi þrengja mjög að mannvirkjum á lóð þeirra og hafa í för með sér aukið skuggavarp. Í kjölfar athugasemdarinnar hafi verið farið á vettvang og aðstæður kannaðar. Hafi þá komið í ljós að mjög há tré séu á lóðarmörkum.
Að grenndarkynningu lokinni hafi skipulagsnefnd yfirfarið málið að nýju með tilliti til athugasemda kærenda sem og hagsmunaaðila. Einkum hafi verð könnuð hvaða áhrif breytingin hefði með tilliti til grenndaráhrifa, nýtingar og skuggavarps sem og annarra þátta. Að mati skipulagsnefndar hafi jafnframt verið talið rétt að tekið yrði tillit til stærðar og staðsetningar bílskúra á öðrum lóðum á svæðinu. Að lokinni þeirri yfirferð hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að samþykkja breytinguna og vísa henni til bæjarstjórnar. Sú ákvörðun hafi einkum verið reist á því að breytingin væri í samræmi við byggð á svæðinu auk þess sem hún fæli í sér verulega aukna nýtingarmöguleika fyrir byggingarleyfishafa á húsi hans og lóð. Nefndin hafi jafnframt talið, með tilliti til hæðar trjáa á lóðarmörkum, að skuggavarp, ónæði eða önnur neikvæð grenndaráhrif af bílskúr á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm yrðu óveruleg fyrir kærendur, ef nokkur. Í ljósi þessa hafi erindið verið samþykkt.
Málsrök byggingarleyfishafa: Byggingarleyfishafi mótmælir, sem röngum og órökstuddum, staðhæfingum kærenda um að framkvæmdir muni hafa í för með sér mikla röskun á svæðinu. Þá mótmælir hann þeirri fullyrðingu kærenda að fyrirhuguð bygging sé veruleg breyting á þegar staðfestu skipulagi svæðisins.
Þegar grafið verði fyrir bílskúrnum, sem sé staðsettur 40 cm frá lóðamörkum, verði grafið í mesta lagi að lóðamörkum en ekki lengra eins og kærendur haldi fram. Þar af leiðandi muni byggingarleyfishafi ekki fella tré sem standi á lóð kærenda enda vandséð hvaða heimild hann hafi til þess. Þá telji byggingarleyfishafi að framkvæmdin muni ekki hafa í för með sér mikla röskun á svæðinu líkt og kærendur haldi fram. Ljóst megi vera að skipta þurfi um jarðveg undir bílskúrnum en það sé ekki meira jarðrask en ef byggingarleyfishafi myndi malbika eða helluleggja svæði það er um ræði, eins og ætla megi að hann geri verði ekki af byggingu bílskúrsins. Þegar hafist verði handa við bygginguna sjálfa munu kærendur ekki verða mikið varir við það sökum þess að bílskúrinn verði staðsettur andspænis gluggalausum gafli á húsi kærenda ásamt því að fyrir séu gríðarmiklar aspir á lóð kærenda sem byrgi verulega sýn á milli lóðanna.
Á þessu svæði séu bílskúrar nánast við hvert hús, nema hús byggingarleyfishafa. Þá muni magn bygginga á lóð hans ekki verða meira eftir byggingu greinds bílskúrs en á öðrum lóðum á svæðinu.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007 og byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007 um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi. Voru þessar ákvarðanir staðfestar fundi bæjarráðs hinn 16. ágúst 2007 og á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september 2007.
Samkvæmt 2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlag nr. 73/1997 fjalla byggingarnefndir um byggingarleyfisumsóknir sem berast og álykta um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar. Það var því ekki á færi skipulagsnefndar að taka umsókn lóðarhafa að Fífuhvammi 25 um byggingarleyfi til meðferðar svo sem hún þó gerði. Fór nefndin þannig út fyrir valdmörk sín er hún samþykkti umsóknina og vísaði málinu til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Ber þegar af þessari ástæðu að ógilda hina kærðu ákvörðun skipulagsnefndar og staðfestingu bæjarráðs á henni hinn 16. ágúst 2007. Gildir einu þótt það hefði verið í verkahring skipulagsnefndar að annast grenndarkynningu í tilefni af umræddri umsókn enda bar nefndinni þá að kynningu lokinni að vísa málinu til afgreiðslu byggingarnefndar, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, í stað þess að ljúka málinu með fullnaðarafgreiðslu svo sem raunin varð.
Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er byggingarnefnd skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast. Engan rökstuðning er hins vegar að finna í bókun byggingarnefndar frá 22. ágúst 2007 um samþykkt umræddrar umsóknar annan en þann að teikningar séu í samræmi við skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997 með síðari breytingum. Verður að telja þann rökstuðning með öllu óviðunandi þegar til þess er litið að svo virðist sem ætlan bæjaryfirvalda hafi verið að veita leyfið að undangenginni grenndarkynningu en hennar er að engu getið við afgreiðslu byggingarnefndar á málinu. Þá kemur hvergi fram að það hafi verið mat byggingarnefndar að unnt væri að fara með umsóknina eftir undantekningarákvæði 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga enda var málinu ekki vísað frá byggingarnefnd til skipulagsnefndar til grenndarkynningar svo sem verið hefði ef gætt hefði verið málsmeðferðarreglna skipulags- og byggingarlaga, sbr. 4. mgr. 43. gr. laganna. Var afgreiðsla byggingarnefndar þannig haldin slíkum annmörkum að ógildingu þykir varða.
Auk þess sem að framan er rakið verður ráðið af málsgögnum að bæjaryfirvöld hafi staðið í þeirri trú að samkomulag væri komið á milli kærenda og byggingarleyfishafa, m.a. um að fjarlægja tré af lóð kærenda, en fyrir liggur að ógerlegt var að ráðast í fyrirhugaða framkvæmd án þess að valda stórfelldri röskun á rótarkefi nokkurra trjáa. Slíkt samkomulag var hins vegar ekki fyrir hendi og lágu því rangar forsendur til grundvallar niðurstöðu bæjaryfirvalda í málinu að þessu leyti. Verður ekki séð að byggingaryfirvöldum hafi verið heimilt að veita leyfi sem óhjákvæmilega hefði í för með sér röskun á lögvörðum eignarréttindum nágranna án þess að áður væru gerðar viðhlítandi ráðstafanir af því tilefni.
Með hliðsjón að öllu því sem að framan er rakið verða ákvarðanir þær sem kærðar eru í máli þessu felldar úr gildi.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni og vegna sáttaumleitana málsaðila sem vonast var til að leitt gætu til lausnar á málinu.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar Kópavogs frá 7. ágúst 2007, staðfest á fundi bæjarráðs hinn 16. s.m. og ákvörðun byggingarnefndar Kópavogs frá 22. ágúst 2007, staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 11. september sama ár, um að veita leyfi til að byggja 62,5 m² bílskúr ásamt skyggni yfir innkeyrslu á lóðinni nr. 25 við Fífuhvamm í Kópavogi.
__________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson