Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2018 PCC Bakka umframgjald

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2018, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi PCC Bakka Silicon hf. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. september 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir PCC Bakki Silicon hf., Bakkavegi 2, Húsavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi kæranda fyrir rekstri kísilverksmiðju. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara er þess krafist að gjaldið verði lækkað.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 23. og 26. október 2018.

Málavextir: Kærandi sótti um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014 og fóru fram óformleg samskipti þeirra í milli í kjölfarið. Í bréfi, dags. 24. september 2015, var umsókninni veitt formleg viðtaka auk þess sem kærandi var upplýstur um að vinna stofnunarinnar við gerð starfsleyfa gæti reynst mun meiri en gert væri ráð fyrir í föstu leyfisgjaldi samkvæmt gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi til handa kæranda 8. nóvember 2017 og var það birt 13. s.m. á heimasíðu stofnunarinnar. Með tölvuskeyti 15. s.m. var kæranda tilkynnt um viðbótarkostnað vegna vinnslu starfsleyfisins og tímaskýrsla send með. Loks var kæranda sent bréf, dags. 23. s.m., þar sem gerð var grein fyrir viðbótarkostnaði við vinnu starfsleyfisins að fjárhæð kr. 7.616.400 og honum gefinn kostur á að gera athugasemdir við innheimtuna. Reikningur var gefinn út sama dag og sendur með bréfinu. Kærandi sendi bréf til Umhverfisstofnunar, dags. 29. nóvember 2017, þar sem innheimtu og fjárhæð viðbótargjaldsins var mótmælt. Umhverfisstofnun sendi kæranda bréf, dags. 21. ágúst 2018, þar sem fram kom að reikningur hefði verið gefinn út fyrir mistök samhliða því að bréf hefði verið sent með upplýsingum um umframkostnaðinn. Innheimta hefði þegar verið stöðvuð eftir ábendingu kæranda. Var forsendum fyrir nefndum umframkostnaði lýst nánar og jafnframt tekið fram að 56 tímar af þeim viðbótartímum sem gjald hefði verið innheimt fyrir hefðu verið unnir í tíð eldri gjaldskrár, þegar tímagjald hafi verið kr. 11.900 í stað kr. 13.200. Var upphæð viðbótargjaldsins lækkuð um kr. 72.800 og varð því heildarupphæð þess kr. 7.543.600. Kom fram að annar reikningur yrði gefinn út á næstu dögum og er sá reikningur frá 5. september 2018.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir innheimtu viðbótargjalds og fjárhæð þess. Innheimta Umhverfisstofnunar á fastagjaldi vegna starfsleyfisumsókna og viðbótargjaldi byggi á fyrrgreindri gjaldskrá nr. 535/2015, sem sett hafi verið með stoð í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þar sé mælt fyrir um að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða taki að sér. Þurfi því innheimta stofnunarinnar eðli málsins samkvæmt að eiga sér stoð í fyrirmælum gjaldskrárinnar. Byggt sé á því að ekki sé stoð fyrir innheimtu umrædds viðbótargjalds í gjaldskrá stofnunarinnar, eins og hér hátti til. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar segi að þegar ljóst sé að útgáfa leyfis hafi í för með sér umframvinnu skuli umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skuli gefinn út áður en starfsleyfi sé gefið út. Sams konar ákvæði hafi verið að finna í 4. gr. áðurgildandi gjaldskrár stofnunarinnar nr. 1281/2013.

Kæranda hafi hvorki verið gerð grein fyrir að útgáfa leyfis hefði í för með sér umframvinnu né fyrir umfangi þeirrar vinnu fyrr en eftir útgáfu starfsleyfis. Það sé bæði í andstöðu við skýrt orðalag gjaldskrárinnar þar sem gert sé ráð fyrir því að umsækjanda sé fyrir fram gert viðvart um umfang umframvinnu og eftir atvikum það sem fram hafi komið í bréfi Umhverfisstofnunar frá 24. september 2015, þ.e. að kæranda yrði sérstaklega tilkynnt ef til umframvinnu kæmi. Þar sem farið hafi verið gegn framangreindum fyrirmælum, sem sett hafi verið til að tryggja hagsmuni umsækjenda, geti innheimta umrædds viðbótargjalds ekki staðist.

Viðbótargjaldið nemi verulegri fjárhæð og sé umframvinna, eins og skilgreind sé, meira en 90% af heildarreikningi. Ekki hafi verið gerð grein fyrir umfangi þessarar vinnu fyrir fram eða umsækjanda gert viðvart um hana á annan hátt en með almennri tilkynningu sem send hafi verið við byrjun vinnu vegna umsóknarinnar. Þessi málsmeðferð standist ekki þær kröfur sem gerðar séu til stjórnvalds sem leyfisveitanda, enda beinlínis ráðgert að fyrir fram sé gerð grein fyrir umframvinnu í samræmi við sjónarmið um fyrirsjáanleika og réttaröryggi.

Markmiðið sé bersýnilega að umsækjandi hafi að minnsta kosti hugmynd um umfang vinnu og kostnað sem af henni hljótist áður en út í hana sé farið. Slíkt sé sérstaklega mikilvægt þegar viðbótargjaldtaka sé af þeirri stærðargráðu sem hér um ræði. Þá sé áréttað að meginreglan sé sú að borgarar verði ekki látnir bera kostnað af einstökum kostnaðarliðum við rekstur opinberra stofnana án lagaheimildar. Mælt sé fyrir um að Umhverfisstofnun þurfi að setja sér gjaldskrá sem innheimta byggist á. Stofnuninni sé því skylt að haga innheimtu til samræmis við fyrirmæli hennar, þar með skýr fyrirmæli c-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar um innheimtu viðbótargjalds, en því hafi ekki verið fylgt.

Hvað sem öðru líði sé byggt á því að skráður tímafjöldi vegna vinnu við útgáfu starfsleyfisins fari langt fram úr því sem eðlilegt geti talist, t.a.m. hafi verið varið um 297 klst. í vinnu við gerð tillögu.

Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum hjá Umhverfisstofnun um skráðan tímafjölda við gerð starfsleyfa í sambærilegum málum. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 21. ágúst 2018, komi fram að skráður tímafjöldi í nýlegum starfsleyfum fyrir starfsleyfi í 1. flokki sé á bilinu 107-271 tími. Í rökstuðningi Umhverfisstofnunar fyrir skráðum tímafjölda komi t.a.m. fram að breytingar hafi verið gerðar á lögum nr. 7/1998 um mitt árið 2017, sem geri það að verkum að vinnsla starfsleyfisins hafi orðið tímafrekari en ella. Í engu sé gerð grein fyrir því hvernig lagabreyting hafi haft áhrif á útgáfu starfsleyfisins. Vísist einnig til bréfs, dags. 23. nóvember 2017.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segi að ráðherra setji, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni sé falið að annast eða stofnunin taki að sér. Upphæð gjalds skuli taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið megi ekki vera hærra en sá kostnaður. Skuli birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Í staðfestri gjaldskrá stofnunarinnar sé kveðið á um tímagjald í 1. gr. og gjald fyrir vinnslu starfsleyfa í 4. gr. Í c-lið 2. mgr. 4. gr. segi að fyrir frekari vinnu við gerð starfsleyfistillagna, vinnslu og afgreiðslu innsendra athugasemda og fyrir kynningu, þ.m.t. borgarafund um kynningu á starfsleyfistillögu, skuli greiða tímagjald samkvæmt 1. gr., ferðakostnað samkvæmt 2. gr. og annan útlagðan kostnað. Sjá megi á yfirliti tímaskráningar að vinnan við starfsleyfistillöguna hafi verið sundurliðuð í samræmi við framangreindar kröfur, m.a. gerð tillögu, yfirferð gagna, auglýsingu og kynningu. Þó nokkur vinna geti fallið til við afgreiðslu og lokavinnslu starfsleyfa, einkum fyrir umfangsmeiri starfsemi, eins og þá sem hér um ræði. Sé talið ljóst að tímaskráningar hafi verið í samræmi við ákvæði gjaldskrárinnar og 53. gr. laga nr. 7/1998.

Umhverfisstofnun hafi alltaf litið svo á að tilgangur ákvæðis gjaldskrár um að gefa skuli út reikning áður en starfsleyfi sé gefið út sé að tryggja að umsækjandi standi skil á gjaldinu og ekki séu veittar heimildir til losunar mengunarefna án þess að greiða þann kostnað sem leiði af vinnslu slíks leyfis. Reynslan sýni hins vegar að hverfandi hætta sé á að reikningur vegna vinnslu starfsleyfis innheimtist ekki og því ekki talin þörf á að láta rekstraraðila bíða eftir lokaniðurstöðu varðandi gjaldtöku áður en leyfið sé gefið út. Kærandi hafi lagt áherslu á útgáfu starfsleyfisins og hafi stofnunin litið svo á að kærandi hefði meiri hagsmuni af því að fá leyfið gefið út en að kostnaður væri gerður upp, enda hefði vinnsla starfsleyfisins tekið langan tíma. Hafi ekki verið talið tækt að láta kæranda bíða nokkrar vikur eftir útgáfu reiknings, enda gert ráð fyrir að umsækjandi hafi andmælarétt vegna áformaðrar innheimtu.

Tekið sé undir að sú regla að gerð sé grein fyrir umframkostnaði og umsækjanda sé gefinn kostur á að gera athugasemdir við fyrirhugaða innheimtu sé sett til að tryggja hagsmuni rekstraraðila. Áréttað sé að kæranda hafi verið gefinn sanngjarn og rúmur tími til að gera athugasemdir við fyrirhugaða innheimtu. Innheimtu reikningsins hafi verið frestað á ný vegna framkominnar kæru.

Hafa beri í huga að Umhverfisstofnun hefði sent reikning vegna umræddrar vinnu jafnvel þótt kærandi hefði óskað eftir því á lokastigi málsins að fá ekki útgefið starfsleyfi eða ef útgáfu starfsleyfis hefði verið synjað. Það sé í samræmi við greiðslureglu umhverfisréttarins, sem sé forsenda ákvæða um gjöld fyrir vinnslu starfsleyfis fyrir starfsemi sem geti haft í för með sér mengun. Um sé að ræða þjónustugjald, sbr. áðurnefnt ákvæði 53. gr. laga nr. 7/1998, en grundvöllurinn að baki þjónustugjöldum sé að greiddur sé raunkostnaður fyrir veitta þjónustu. Geri stofnunin því athugasemd við það sem fram komi í kæru að borgarar verði ekki látnir bera kostnað af einstökum kostnaðarliðum án lagaheimildar. Skýr heimild sé fyrir gjaldtöku vegna viðbótarkostnaðar vegna vinnslu starfsleyfis í gjaldskrá, staðfestri af ráðherra, sem byggi á heimild í 53. gr. laga nr. 7/1998. Engar röksemdir hafi komið fram um að ákvæði c-liðar í 2. mgr. 4. gr. í gjaldskránni hafi ekki lagastoð.

Þrátt fyrir bréf stofnunarinnar, dags. 24. september 2015, hafi engin fyrirspurn borist frá kæranda um áfallinn kostnað á vinnslutíma starfsleyfisins. Hefði kæranda mátt vera ljóst að í margvíslegum samskiptum hans og verkfræðistofu af hans hálfu við Umhverfisstofnun væri falin talsverð vinna af hálfu stofnunarinnar. Í tölvupósti stofnunarinnar, dags. 30. júní 2015, hafi t.d. verið kallað eftir viðbótargögnum, settar fram spurningar og bent á að vöktunaráætlun væri í rýni. Jafnframt hafi verið óskað eftir minnisblaði um lykt.

Umsókn um starfsleyfi til handa kæranda hafi borist Umhverfisstofnun í september 2014. Upphafleg drög að starfsleyfistillögu hafi verið send honum 2. nóvember 2015. Viðbrögð kæranda við þeirri tillögu hafi borist 20. mars 2016 og ýmis samskipti hafi átt sér stað við hann í kjölfarið. Eins og kæranda hafi verið gerð grein fyrir geti það leitt til viðbótarkostnaðar sé gert hlé á vinnslu máls þar sem ákveðinn tími fari í upprifjun þegar öðrum málum hafi verið sinnt í millitíðinni. Viðbrögð stofnunarinnar við athugasemdunum hafi verið send 24. maí 2016.

Í tímaskýrslu vegna vinnslu starfsleyfis kæranda séu teknir saman tímar sérfræðinga í starfsleyfisgerð, sérfræðings í loftgæðum, sérfræðings í fráveitum, lögfræðings, teymisstjóra og sviðsstjóra. Starfsemi kísilversins sé umfangsmikil og feli í sér losun bæði í loft og vatn og samvinna við sérfræðinga í þeim efnum því nauðsynleg. Fá starfsleyfi hafi verið gefin út á Íslandi fyrir sambærilega starfsemi. Um mitt árið 2017 hafi verið gerðar breytingar á lögum nr. 7/1998. Laga hafi þurft kröfur í starfsleyfi kæranda að breyttum kröfum í lögunum sem hafi m.a. falið í sér breytta skilgreiningu á bestu aðgengilegu tækni, breyttar kröfur um starfsleyfisskilyrði, þ.m.t. um vægi BAT-niðurstaðna, og breytt ákvæði um eftirlit. Áhrif nefndra breytinga megi sjá í starfsleyfinu, m.a. í ákvæði 3.1, þar sem einnig komi fram að nýjar BAT-niðurstöður hafi verið birtar á vinnslutíma starfsleyfisins. Af þessu leiði einnig að ekki hafi gilt sömu kröfur við útgáfu umrædds starfsleyfis og hafi gilt þegar síðustu starfsleyfi fyrir kísilverksmiðju hafi verið gefin út.

Við gerð starfsleyfisins hafi farið fram ítarleg skoðun á ákvæðum um þungmálma og á líkönum sem fjalli um dreifingu og mælingar, m.a. vegna óska kæranda um hærri heimild til losunar á blýi en Umhverfisstofnun hafi lagt upp með. Upplýsingar frá kærendum um gjallmyndun hafi jafnframt breyst. Vandamálið hafi reynst stafa af mismunandi skilgreiningum. Mikilvægt hafi verið að fara ítarlega yfir álitamálið með tilliti til forsendna mats á umhverfisáhrifum. Jafnframt hafi verið farið yfir áætlanir um mælingar og umhverfisvöktun við gerð starfsleyfisins, sbr. tölvuskeyti frá 23. maí 2017, þar sem fram hafi komið að í kjölfar fjögurra vinnufunda hafi starfsleyfistillaga verið uppfærð. Líti stofnunin svo á að með nefndu skeyti hafi jafnframt verið gerð grein fyrir umframvinnu við starfsleyfisgerð.

Vegna ófyrirséðra neikvæðra áhrifa reksturs kísilvers við Helguvík á loftgæði í íbúabyggð hafi við vinnslu starfsleyfis kæranda verið lögð sérstök áhersla á samanburð á tækni kísilvera með starfsleyfi á Íslandi til að skoða hvort sambærileg hætta væri á lyktarmengun og orðið hefði vart við í Helguvík. Hafi því verið óskað eftir aðstoð sérfræðinga í eftirlitsteymi stofnunarinnar við starfsleyfisgerðina. Hafi framangreindir þættir haft áhrif á umfang vinnu við gerð tillögu. Athugasemdir sem fram hafi komið á kynningartíma hafi kallað á sérstaka athugun m.a. hjá Skipulagsstofnun og hafi úrvinnsla athugasemda verið nokkuð tímafrek, sbr. skráningu á verkþáttinn úrvinnsla athugasemda og undirbúningur afgreiðslu. Vegna umfangs og eðlis starfseminnar hafi verið lögð áhersla á að vinna ítarlegt starfsleyfi með það að markmiði að stjórn mengunarvarna og eftirlit yrði sem allra best.

Niðurstaða: Kærandi lagði fram umsókn um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar í september 2014. Stofnunin sendi bréf til kæranda, dags. 24. september 2015, með titlinum „Tilkynning um móttöku umsóknar um starfsleyfi og upplýsingar um kostnað vegna vinnslu starfsleyfis.“ Í bréfinu kemur fram að starfsemin sem sótt sé um leyfi fyrir falli undir 1. eftirlitsflokk, sbr. 5. tölul. í fylgiskjali 1 og tölul. 2.5 í I. viðauka í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Kostnaður vegna móttöku, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu sé skv. 4. gr. gjaldskrár nr. 535/2015 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar, kr. 636.000. Í niðurlagi bréfsins er vakin athygli á því að vinna stofnunarinnar við gerð starfsleyfa geti farið fram úr þeim forsendum sem notaðar séu til að reikna út kostnað í gjaldskránni. Því geti komið til þess að síðar verði innheimtur aukakostnaður samkvæmt verkbókhaldi stofnunarinnar. Ef til þess komi verði kærandi upplýstur um það og honum gefinn kostur á að koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun um innheimtu verði tekin. Reikningur verði sendur út síðar.

Samkvæmt framlögðum gögnum úr verkbókhaldi Umhverfisstofnunar vegna vinnu við starfsleyfið fór fram vinna við það frá því í febrúar 2015 og þar til leyfið var gefið út 8. nóvember 2017, með einhverjum hléum. Samkvæmt bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 23. nóvember 2017, er gert ráð fyrir 40 klst. vinnu við starfsleyfi samkvæmt föstu gjaldi, en ljóst er að vinna við starfsleyfi kæranda fór langt fram úr því. Samkvæmt framangreindu bréfi nam vinnan 617 klukkustundum og ákvað stofnunin að innheimta fyrir 577 klukkustunda vinnu, kr. 13.200 fyrir hverja klst., eða alls kr. 7.616.400. Síðar var ákveðið að lækka innheimtan kostnað vegna umfram vinnu um kr. 72.800, vegna eldri gjaldskrár og varð hann því kr. 7.543.600. Var þetta tilkynnt með bréfi Umhverfisstofnunar til kæranda, dags. 21. ágúst 2018 og var fyrri reikningurinn afturkallaður. Seinni reikningurinn er frá 5. september 2018.

Heimild til gjaldtöku Umhverfisstofnunar fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast eða stofnunin tekur að sér er í 53. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Samkvæmt ákvæðinu setur ráðherra, að fengnum tillögum stofnunarinnar, gjaldskrá fyrir þjónustuna. Skal upphæð gjalds taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldið má ekki vera hærra en sá kostnaður. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt framangreindu eiga reglur er gilda um þjónustugjöld við um nefnda gjaldtöku.

Auglýsing um gjaldskrá fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar nr. 535/2015 var birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2015. Samkvæmt 1. gr. hennar er gjald fyrir útselda vinnu sérfræðings kr. 11.900 á hverja klukkustund fyrir verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 4. gr. auglýsingarinnar er fastagjald fyrir móttöku umsóknar, grunnvinnu við gerð starfsleyfistillögu, auglýsingar og útgáfu kr. 636.000 fyrir 1. eftirlitsflokk. Samkvæmt b-lið 2. mgr. skal greiða tímagjald samkvæmt 1. gr., ferðakostnað samkvæmt 2. gr. og annan útlagðan kostnað fyrir frekari vinnu við gerð starfsleyfistillagna, vinnslu og afgreiðslu innsendra athugasemda og fyrir kynningu, þ.m.t. borgarafund um kynningu á starfsleyfistillögu. Með auglýsingu nr. 178/2016, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 25. febrúar 2016, var framangreindri gjaldskrá breytt, m.a. þannig að tímagjald fyrir vinnu sérfræðings varð kr. 13.200 og fast gjald fyrir starfsleyfi fyrir 1. eftirlitsflokk varð kr. 705.000. Eins og fram hefur komið var í seinni útgefnum reikningi hluti vinnu Umhverfisstofnunar reiknaður samkvæmt eldri gjaldskránni en eftir gildistöku auglýsingar nr. 178/2016 var innheimt samkvæmt henni.

Eins og að framan greinir hefur Umhverfisstofnun lagt fram gögn úr verkbókhaldi stofnunarinnar vegna vinnu við umrætt starfsleyfi og jafnframt gefið skýringar á því í hverju vinnan hafi falist og hvers vegna hún hafi orðið jafn mikil og raunin varð. Miðað við umfang starfseminnar sem um ræðir og þann tíma sem vinnsla leyfisins hefur tekið þykir ekki um óeðlilega marga tíma að ræða. Þegar hefur verið fjallað um ákvæði í gjaldskrá Umhverfisstofnunar um tímagjald fyrir sérfræðivinnu og starfsleyfisgerð. Ekki leikur vafi á að um lögmæta gjaldskrá er að ræða, sem var samin og birt í samræmi við 53. gr. laga nr. 7/1998. Var því með reikningi Umhverfisstofnunar verið að innheimta lögmætan kostnað fyrir unna vinnu í samræmi við heimild 53. gr.

Í niðurlagi b-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar segir að þegar ljóst sé að útgáfa leyfis hafi í för með sér umframvinnu skuli umsækjanda gerð grein fyrir umfangi þeirrar vinnu. Reikningur vegna frekari vinnu skuli gefinn út áður en starfsleyfi sé gefið út. Eins og fram hefur komið fór Umhverfisstofnun ekki eftir nefndum fyrirmælum við innheimtu umframgjaldanna. Kærandi var látinn vita fyrir fram að ef viðbótarvinna færi fram yrði innheimt fyrir hana samkvæmt gjaldskrá, en fékk ekki vitneskju um framgang vinnunnar við starfsleyfið á því tímabili sem hún fór fram. Gat kærandi því ekki gert sér grein fyrir þeim kostnaði sem skapaðist. Þegar kæranda var loks tilkynnt um umframkostnað með bréfi, dags. 23. nóvember 2017, eftir að starfsleyfi hafði verið gefið út, var útgefinn reikningur sendur með bréfinu, þrátt fyrir að í því kæmi fram að kæranda væri gefinn kostur á að tjá sig um innheimtuna og skyldi afstaða hans berast stofnuninni fyrir 30. s.m. Framangreint verklag var ekki í samræmi við fyrirmæli b-liðar 2. mgr. 4. gr. gjaldskrárinnar og var með þessu komið í veg fyrir að kærandi gæti neytt andmælaréttar síns áður en reikningur væri gefinn út og settur í innheimtu. Var um annmarka að ræða á ákvörðun stofnunarinnar hvað þetta varðaði.

Umhverfisstofnun hefur skýrt umrætt ferli sem svo að um mistök hafi verið að ræða og að umræddur reikningur hafi strax verið tekinn úr innheimtu, en nýr reikningur var ekki gefinn út fyrr en í september ári síðar, eftir að tilkynning um það hafði borist kæranda frá Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 21. ágúst 2018. Verður að telja að með afturköllun ákvörðunar sinnar og þeim tíma sem leið frá því að reikningurinn var tekinn úr innheimtu og ný ákvörðun var tekin hafi Umhverfisstofnun bætt út þeim annmarka sem var á innheimtunni og veitt kæranda nægan frest til að gera athugasemdir við þá upphæð sem ákveðin var vegna umframvinnunnar. Er því ekki um galla að ræða sem valdið getur ógildingu ákvörðunarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2018 um álagningu umframgjalds fyrir vinnu við starfsleyfi PCC Bakka Silicon hf.