Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

115/2008 Langholtsvegur/Drekavogur

Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 115/2008, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. október 2008 um að samþykkja deiliskipulag Langholtsvegar/Drekavogs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. desember 2008, er barst nefndinni sama dag, kærir Einar Páll Tamimi hdl., f.h. húsfélagsins að Langholtsvegi 109-111, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. október 2008 að samþykkja deiliskipulag Langholtsvegar/Drekavogs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá borgaryfirvöldum 7. apríl 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs 18. júní 2008 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs og 26. s.m. samþykkti borgarráð þá afgreiðslu. Tillagan var auglýst frá 2. júlí til 13. ágúst 2008 og bárust nokkur athugasemdarbréf, þar á meðal frá kæranda. Tillaga að umræddu deiliskipulagi var lögð fram á fundi skipulagsráðs 8. október 2008 ásamt umsögn skipulagsstjóra um fram komnar athugasemdir, dags. 2. s.m., og lagfærðum uppdráttum. Tillagan var samþykkt með þeim breytingum sem fram komu í umsögn skipulagsstjóra. Samþykkt skipulagsráðs var staðfest í borgarráði 16. október 2008. Skipulagsstofnun tilkynnti með bréfi, dags. 7. nóvember s.á., að hún gerði ekki athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og birtist sú auglýsing 20. nóvember 2008.

Fram kemur í greinargerð hins kærða deiliskipulags að það taki til þegar byggðs reits sem afmarkist af Langholtsvegi til vesturs, Drekavogi til norðurs, opnu grænu svæði til austurs og íbúðarhúsum sem liggi við Sigluvog til suðurs. Innan reitsins eru lóðirnar Langholtsvegur 109-115 (oddatölur) og Drekavogur 4. Í húsinu nr. 109-111 við Langholtsveg er verslun, þjónusta, skrifstofur og félagastarfsemi, í húsinu nr. 113 er verslun, þjónusta og íbúðir, í húsi nr. 115 og í húsum nr. 4, 4a, og 4b við Drekavog eru íbúðir.

Samkvæmt greinargerð hins kærða deiliskipulags eru helstu breytingar sem gerðar eru frá fyrra ástandi þær að á lóðunum 109-111 og 113 við Langholtsveg er heimilað byggingarmagn aukið með því að leyfa inndregnar hæðir ofan á núverandi byggingar. Markaður er nýr byggingarreitur á baklóð við Langholtsveg 113, þar sem fyrir var ósamþykkt viðbygging, og er lóðin stækkuð í línu við aðliggjandi lóðir. Jafnframt kemur fram að heimilt er að byggja bílageymslur við norðurgafl núverandi byggingar við Langholtsveg 115 og við Drekavog 4, 4a, og 4b er heimilt að loka núverandi svölum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að slíkir annmarkar hafi verið á auglýstri tillögu að deiliskipulaginu að hún hafi ekki getað orðið grundvöllur gilds deiliskipulags. Lýsing á núverandi ástandi á uppdrætti og í texta tillögunnar sé í meginatriðum röng. Þannig sé aðkomu að Langholtsvegi 109 frá Drekavogi ekki rétt lýst, fjöldi bílastæða sé rangur, sem og staðsetning þeirra við Langholtsveg 109-111. Þá hafi ekki farið fram bæja- og húsakönnun, svo sem skylt hafi verið samkvæmt 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þegar deiliskipulag sé unnið í þegar byggðu hverfi.

Byggingarleyfi vegna breyttrar notkunar hússins að Drekavogi 4, úr skrifstofuhúsnæði í íbúðarhúsnæði, hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 11/2002 á þeim grundvelli að ekki hafi verið í gildi deiliskipulag fyrir reitinn og ekki hafi verið gætt ákvæða 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga um grenndarkynningu. Framangreind ákvæði feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu er fram komi í 2. mgr. 43. gr. sömu laga um að allar framkvæmdir sem veitt sé byggingaleyfi fyrir skuli vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Lúti undantekningin að því að sveitarstjórn geti veitt heimild til framkvæmda í þegar byggðum hverfum að undangenginni grenndarkynningu þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir. Grenndarkynningu sé í raun veitt staða deiliskipulagsbreytingar í því tilviki er hér um ræði enda eigi sama regla við um minni háttar breytingar á deiliskipulagi, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 56. gr. greindra laga sé óheimilt að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hafi verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti hafi verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Þegar 4. mgr. 56. gr. laganna vísi til framkvæmda í ósamræmi við skipulag standi öll rök til þess að orðalagið taki einnig til byggingarleyfisskyldra framkvæmda í þegar byggðum hverfum án deiliskipulags sem ekki hafi verið grenndarkynntar. Því sé ekki unnt að samþykkja deiliskipulag fyrir umræddan reit án þess að byggingin að Drekavogi 4 verði fjarlægð.

Ekki sé unnt að samþykkja deiliskipulag sem geri ráð fyrir að óskráðar óleyfisbyggingar norðan við húsið að Langholtsvegi 113 standi áfram. Slík málsmeðferð sé ekki í samræmi við 3. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem kveði á um að hafi mannvirki, sem falli undir IV. kafla laganna, verið reist án samþykkis sveitarstjórnar og hún látið hjá líða að fjarlægja það innan sex mánaða frá því að henni varð kunnugt um málið skuli Skipulagsstofnun láta fjarlægja mannvirkið á kostnað sveitarfélags. Þá kveði 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga á um að byggingarfulltrúa beri að stöðva byggingarframkvæmd sem hafin sé án þess að leyfi sé fengið fyrir henni og að síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð. Ekki verði annað ráðið en að um ófrávíkjanleg ákvæði sé að ræða.

Samkvæmt uppdrætti með umræddri deiliskipulagstillögu hafi átt að rúnna af lóð Langholtsvegar 109-111, en slík eignaskerðing geti ekki átt sér stað með samþykki deiliskipulags. Hafi umrædd rúnnun átt að bæta óásættanlega aðkomu að húsum við Drekavog 4, 4a og 4b þar sem bílar geti ekki mæst vegna þrengsla og stærri bílar geti ekki náð þeirri beygju sem nauðsynleg sé nema að fara inn á lóðina við Langholtsveg 109-111. Í hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir að bílastæði á lóðinni Langholtsveg 109-111, við lóðamörk þeirrar lóðar og Drekavogs, verði færð frá lóðarmörkum sem sé íþyngjandi fyrir lóðarhafann og án viðhlítandi lagagrundvallar. Í hinu kærða deiliskipulagi sé jafnframt gert ráð fyrir hæð ofan á húsið að Langholtsvegi 109-111, sem verði inndregin á öllum hliðum, þannig að ekki verði hægt að nýta núverandi stigaganga til uppgöngu á hina nýju hæð. Því sé í raun verið að synja um byggingu slíkrar hæðar án rökstuðnings og það sama gildi um þá kröfu að handrið á 3. hæð sé gagnsætt, sem íþyngi lóðarhöfum að ástæðulausu. Ákvæði í tillögunni um bann við uppsetningu neonskilta á húsið við Langholtsveg 109-111 sé ómálefnalegt og feli í sér ólögmæta skerðingu á ráðstöfunarrétti lóðarhafa.

Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi verði bílastæði á lóðinni nr. 4 við Drekavog minnst 32, þ.e. tvö bílastæði fyrir hverja íbúð stærri en 80 m² en eitt fyrir hverja íbúð minni en 80 m². Það sé sama reikniregla og finna megi í 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem fjalli um lágmarksfjölda bílastæða þegar deiliskipulag kveði ekki á um annað. Samkvæmt upplýsingum úr Landskrá fasteigna séu í umræddum húsum 17 íbúðir stærri en 80 m² en sex minni íbúðir, þannig að bílastæðin þyrftu að vera minnst 40. Í gr. 64.4 í fyrrgreindri reglugerð sé aukinheldur gerð sú krafa að við öll íbúðarhús með sex íbúðum eða fleiri skuli vera minnst eitt gestabílastæði sem henti þörfum fatlaðra nema deiliskipulagið kveði á um annað. Með þeim bílastæðafjölda sem ætlaður sé fyrir Drekavog 4 felist verulegt og órökstutt frávik frá almennum lágmarksreglum um bílastæðafjölda við fjölbýlishús, sem leiði til þess að bílum verði lagt á bílastæði á lóð Langholtsvegar 109-111.

Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé gerður nýr byggingarreitur á baklóð, þar sem nú standi áðurnefnd ósamþykkt viðbygging. Slík áform hafi ekki komið fram í auglýstri tillögu að deiliskipulaginu. Þau hafi því aldrei komið til umsagnar þeirra sem lögvarða hagsmuni hafi vegna málsins og bregði þar svo mjög út af lögmæltri málsmeðferð að hljóti að varða ógildi skipulagsins. Samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi sé gert ráð fyrir kvöð um aðkomu að Drekavogi 4 um lóðina að Langholtsvegi 113. Þetta atriði sé illskiljanlegt ef litið sé til deiliskipulagsuppdráttarins. Verði ekki betur séð en að kvöð þurfi að vera á lóðinni Drekavogi 4 um aðkomu að Langholtsvegi 113 og einnig að Langholtsvegi 115 miðað við staðsetningu bílastæða á tveim síðarnefndum lóðum. Ekki verði komist að bílastæðum austan megin eignanna nema aka um lóðina að Drekavogi 4, en hins vegar verði ekki séð að nokkurs staðar sé þörf fyrir að fara yfir lóðirnar við Langholtsveg til að komast að bílastæðum eða húsum við Drekavog. Sé hið samþykkta deiliskipulag að þessu leyti svo óskýrt um efni sitt og slíkt misræmi til staðar milli deiliskipulagsuppdráttar og skýringartexta að það geti ekki haldið gildi sínu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að þegar deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst hafi kærandi haft uppi sömu athugasemdir um að uppdrátturinn hafi verið í meginatriðum rangur. Tekið hafi verið tillit til athugasemda kæranda varðandi bílastæði og uppdráttur leiðréttur þannig að þeir hnökrar sem kunni að hafa verið á framsetningu skipulagstillögunnar hafi ekki getað leitt til réttarspjalla. Þá hafi ekki verið nauðsynlegt að gera bæja- og húsakönnun við gerð deiliskipulagsins þar sem einungis hafi verið deiliskipulagður hluti reits og tilteknar byggingar innan reitsins. Slík könnun eigi einkum við þegar um heildarendurskoðun skipulags í þegar byggðu hverfi sé að ræða með tilliti til verndarsjónarmiða, en slíku sé ekki til að dreifa í hinu umdeilda skipulagi.

Ákvæðið 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi falið það eitt í sér að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag nema áður hefði verið fjarlægð sú bygging eða framkvæmd sem reist hefði verði í bága við skipulagið. Byggingin að Drekavogi 4 hafi ekki verið í ósamræmi við skipulag og ekki séu forsendur til að leggja að jöfnu þær aðstæður að skort hafi á grenndarkynningu og að framkvæmd hafi farið í bága við skipulag. Verði að skýra ákvæði 4. mgr. 56. gr. þröngt, enda um verulega íþyngjandi ákvæði að ræða, og hafi það nú verið numið úr lögum. Ekki hafi staðið í vegi fyrir gerð skipulagsins að umrædd bygging hafi verið reist.

Þá hafi 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga aðeins átt við um óleyfisframkvæmdir sem hafi brotið í bága við skipulag. Í 1. mgr. 56. gr. hafi hins vegar verið kveðið á um að ef byggingarleyfisskyld framkvæmd væri hafin án tilskilins leyfis gæti byggingarfulltrúi stöðvað slíka framkvæmd. Hafi verið um heimildarákvæði að ræða sem veitti sveitarstjórn færi á því að meta hvort koma ætti í veg fyrir framkvæmdina eða gefa eiganda hennar kost á að afla til hennar tilskilins leyfis, enda færi framkvæmdin ekki í bága við skipulag. Verði að skýra ákvæði 3. mgr. svo að íhlutun Skipulagsstofnunar hafi því aðeins getað komið til álita að um væri að ræða framkvæmd sem sveitarstjórn væri skylt að láta fjarlæga, þ.e. að um væri að ræða framkvæmd sem færi í bága við skipulag. Byggingar norðan við húsið að Langholtsvegi 113 hafi verið í samræmi við aðalskipulag á þeim tíma er þær hafi verið reistar en ekkert deiliskipulag hafi þá verið í gildi fyrir umrætt svæði. Að auki hafi umræddar byggingar verið reistar fyrir gildistöku skipulags- og byggingarlaga og sé því vandséð að unnt hafi verið að beita íþyngjandi ákvæðum þeirra um þær. Þá sé það alkunna að við vinnslu deiliskipulags séu teknar inn byggingar sem reistar hafi verið í óleyfi á einhverjum tímum. Séu slíkar byggingar þá festar í sessi. Engin heimild sé til þess að krefjast niðurrifs á óleyfisbyggingum sem staðið hafi árum saman án athugasemda. Loks megi benda á að ekkert í lögum girði fyrir að byggingarleyfi sé veitt eða að bætt sé úr annmörkum eftir á við útgáfu slíkra leyfa, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 559/2009.

Fallið hafi verið frá afrúnnun á horni lóðar Langholtsvegar 109-111 í því skyni að greiða fyrir umferð og sé því ekki um neina eignaskerðingu að ræða. Sú athugasemd að ómögulegt sé að nýta byggingarrétt vegna inndreginnar hæðar ofan á Langholtsveg 109-111 lúti að byggingartæknilegum atriðum og hafi ekkert með deiliskipulagið að gera. Hvergi sé í greinargerð skipulagsins talað um neonskilti heldur vísað í gildandi samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur frá 1996. Loks sé fjöldi bílastæða í samræmi við þær kröfur sem giltu á þeim tíma sem hér um ræði.

Breytingar sem gerðar hafi verið eftir að skipulagstillagan hafi verið auglýst hafi miðað að því að koma til móts við athugasemdir kæranda auk þess sem þær breytingar hafi ekki áhrif á lögvarða hagsmuni hans. Hvað byggingarreit á baklóð Langholtsvegar 113 varði sé það misskilningur hjá kæranda að um sé að ræða breytingu frá upphaflegri tillögu. Í henni hafi umrædd bygging verið auðkennd sem „núverandi bygging“ og í texta greinargerðar tekið fram að gerð sé krafa um að teikningar að óskráðum óleyfisbyggingum á lóðinni verði lagðar inn til samþykktar. Tillagan hafi gert ráð fyrir umræddri byggingu og feli það ekki í sér neina efnisbreytingu þótt í skipulaginu sé sýndur byggingarreitur þar sem hún standi heldur sé það gert til áréttingar því að byggingin sé ósamþykkt þegar skipulagið sé gert. Sama eigi við um kvaðir um aðkomu. Þeirra sé getið í texta í tillögunni og því ekki um efnisbreytingu að ræða hvað þær varði. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga hafi verið heimilt að breyta skipulagstillögu við málsmeðferð, þó þannig að auglýsa þyrfti hana að nýju væri henni breytt í grundvallaratriðum. Ekki hafi verið um slíkt að ræða í hinu kærða tilviki og hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemdir við birtingu auglýsingar um gildistöku skipulagsins.

Kvaðir um umferð séu bæði um lóðina nr. 4 við Drekavog að lóðinni Langholtsveg 113 og um þá lóð að Drekavogi 4. Komi þetta skýrt fram í greinargerð á uppdrætti skipulagsins og sé það í samræmi við ákv. 4. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga um að deiliskipulag skuli setja fram í greinargerð og á uppdrætti.

————————–

Aðilar hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Hið kærða deiliskipulag tekur til þegar byggðs reits þar sem ekki var í gildi deiliskipulag. Um er að ræða íbúðarsvæði samkvæmt þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024.
Deiliskipulagstillagan var auglýst í samræmi við 25. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þær breytingar voru gerðar eftir kynningu tillögunnar að uppdráttur sem sýndi fyrri aðstæður á skipulagsreitnum var leiðréttur og á skipulagsuppdrátt var markaður byggingarreitur þar sem sýnd hafði verið óleyfisbygging á baklóð hússins að Langholtsvegi 113 í hinni kynntu tillögu. Jafnframt var hætt við að rúnna af eitt horn lóðarinnar nr. 109-111 við Langholtsveg, kvöð var sett um gróður á mörkum lóðarinnar og kveðið á um að ekki væri heimilt að útbúa íbúð í húsi á þeirri lóð. Þá var vísað í samþykkt um skilti í lögsögu Reykjavíkur í stað ákvæðis í tillögu um að ekki yrði leyft að setja upp neonskilti á hús. Loks var bætt við ákvæði um að óheimilt væri að fjölga íbúðum í húsinu að Langholtsvegi 113 og tilgreint að verið væri að festa í sessi íbúðarbyggð að Drekavogi 4. Framangreindar breytingar verða ekki taldar verulegar og breyta ekki tillögunni í grundvallaratriðum. Var því ekki þörf á að kynna tillöguna að nýju samkvæmt 2. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga.
Bæja- og húsakönnun skv. 5. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga er gerð við skipulagningu þegar byggðra hverfa svo skipulagsyfirvöld geti haft hana til hliðsjónar við gerð skipulags, svo sem við ákvarðanatöku um verndun byggðamynsturs, friðun húsa eða um það hvaða mannvirki sem fyrir séu á skipulagssvæðinu megi víkja. Rétt hefði verið að fram færi bæja- og húsakönnun til að taka afstöðu til varðveislu mannvirkja, en þegar litið er til þess hvaða tilgangi slíkri könnun er ætlað að þjóna og þess að ekki var gert ráð fyrir að byggingar á svæðinu myndu víkja verður sá annmarki ekki talinn raska gildi deiliskipulagsins.
Í deiliskipulaginu er kvöð sem fyrir var um aðkomu frá lóðinni Drekavogi 4 að Langholtsvegi 113 gerð gagnkvæm og tekið fram að fyrir væri aðkoma um lóð Drekavogs 4 að leiksvæði austan við skipulagsreitinn. Eru þær kvaðir merktar inn á skipulagsuppdrátt í samræmi við gr. 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem kveður á um framsetningu deiliskipulagsuppdráttar. Þá er í greinargerð skipulagsins fjallað um aðkomu að Langholtsvegi 115 sem fyrir sé. Kvöð sú sem til varð með setningu skipulagsins kemur fram á uppdrætti og er skýrð í greinargerð þess.

Í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að óheimilt sé að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefur verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega bygging, eða byggingarhluti, hefur verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins á það eingöngu við þegar gildandi deiliskipulagi er breytt en ekki þegar verið er að vinna nýtt deiliskipulag og því á framangreint ákvæði ekki við í máli þessu. Þá eiga ákvæði 56. gr. nefndra laga um skyldu til að fjarlægja byggingar fyrst og fremst við þegar þær hafa verið byggðar í andstöðu við gilt deiliskipulag, enda er í 5. mgr. 56. gr. gert ráð fyrir mati byggingaryfirvalda um það hvort óleyfisbygging skuli fjarlægð eða ekki. Því stóð fyrrnefnt lagaákvæði ekki í vegi fyrir að nýtt deiliskipulag væri samþykkt fyrir svæðið.

Í 7. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og í gr. 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, sem hér eiga við, er tekið fram að ákvæði um fjölda bílastæða skuli sett hverju sinni í deiliskipulag á grundvelli stefnu aðalskipulags. Jafnframt eru þar settar fram kröfur um lágmarksfjölda bílastæða miðað við stærð og notkun húsa, en fram kemur að unnt sé að víkja frá þeim kröfum í deiliskipulagi sé sýnt fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Í greinargerð skipulagsins kemur fram um bílastæði á lóð Drekavogs 4: „Bílastæði á lóð eru tvö fyrir hverja íbúð stærri en 80 m², en eitt fyrir hverja íbúð minni en 80 m², minnst 32 stæði.“ Samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands um birta stærð íbúða að Drekavogi 4 þyrftu stæðin á lóðinni hins vegar að vera 40 svo kröfum reglugerðarákvæðanna um fjölda bílastæða yrði fullnægt. Samkvæmt skipulagsuppdrættinum verður eingöngu komið fyrir 32 stæðum á lóðinni og skortir á að sýnt hafi verið fram á að bílastæðaþörf sé minni en kveðið er á um í tilvitnaðri skipulagsreglugerð eða að unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Þá er heldur ekki uppfyllt skilyrði ákvæðis reglugerðarinnar um að íbúðarhús með sex íbúðum eða fleiri skuli hafa eitt gestastæði fyrir fatlaða.

Í ljósi þess að lóðinni Drekavogi 4, og fjölda bílastæða á henni, var ekki breytt með hinu kærða deiliskipulagi, og með hliðsjón af því að ekki er aukinn byggingarréttur á lóðinni og fjöldi íbúða óbreyttur, þykir greindur ágalli á framsetningu upplýsinga og ákvörðunar um fjölda bílastæða á lóðinni ekki slíkur að ógilda beri hið kærða deiliskipulag.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka á hinni kærðu ákvörðun þykja þeir þó ekki það verulegir að fallist verði á kröfu um ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. október 2008 um að samþykkja deiliskipulag Langholtsvegar/Drekavogs.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________       _____________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson