Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2013 Gámaþjónusta Austurlands

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:
 
Mál nr. 114/2013, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands um breytingu á starfsleyfi til Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra Á Brekkugötu 4, Á, Brekkugerði 11, R, Stekkjarbrekku 5 og S, Eyrarstíg 1, allir á Reyðarfirði, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 27. nóvember 2013 um viðbótarstarfsleyfi og framlengingu starfsleyfis fyrir Gámaþjónustu Austurlands – Sjónarás ehf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands 14. janúar 2014.

Málavextir: Gámaþjónusta Austurlands – Sjónarás ehf. sótti um breytingu á starfsleyfi sínu til Heilbrigðiseftirlits Austurlands með umsókn, dags. 17. apríl 2013. Samkvæmt umsókninni fólst breytingin í því að nýtt yrði „um 2000 m² lóð innan girðingar sunnan húss til umhleðslu timburs og lestunar gáma til útflutnings“. Vegna breytinganna voru starfsleyfisdrög auglýst í Dagskránni, 42. tbl., og lágu drögin frammi á skrifstofu Fjarðarbyggðar í Molanum til kynningar. Rann umsagnarfrestur út 15. nóvember 2013. Andmæli bárust, m.a. frá kærendum. Starfsleyfi var gefið út 27. nóvember s.á. og sama dag var tveimur kærenda sent bréf þar sem sú ákvörðun var rökstudd. Bent var á kæruleið í málinu og var ákvörðunin kærð með bréfi, dags. 23. desember 2013, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærendur halda því fram að umdeilt starfsleyfi feli í sér útvíkkun og framlengingu á gildandi starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. á geymslusvæði við Hafnargötu 6, sem sé í miðbæ Reyðarfjarðar. Undanfarin ár hafi náðst mikill og jákvæður árangur í uppbyggingu miðbæjarins á Reyðarfirði. Í innan við 500 metra fjarlægð frá því svæði sem umrædd starfsleyfisumsókn nái til hafi á undanförnum árum byggst upp stærsta matvöruverslun Fjarðarbyggðar, skrifstofur Fjarðarbyggðar, verslanir, gistihús og ýmis önnur þjónustustarfsemi. Þessi þróun hafi verið í samræmi við gildandi aðalskipulag, sem gildi frá árinu 2007 til 2027, þar sem svæðið sé skipulagt sem miðbæjarsvæði eða M1. Starfsemi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. uppfylli ekkert af þeim skilyrðum eða markmiðum sem séu sett fyrir miðbæjarsvæðið í aðalskipulagi, t.d. fylgi starfseminni miklir þungaflutningar. Deiliskipulag Reyðarfjarðar sé frá árinu 1999 og sé úrelt og ekki í samræmi við aðalskipulagið. Dragi kærendur gildi deiliskipulagsins í efa vegna þessa og telji að fara skuli eftir aðalskipulagi. Nægar lóðir séu innan bæjarfélagsins fyrir iðnaðarsvæði.

Kærendur hafi lögvarða hagsmuni af málinu sem íbúar svæðisins, útsvarsgreiðendur og virkir þátttakendur í mótun aðalskipulagsins. Einn kærenda búi auk þess í næsta nágrenni við skipulagt miðbæjarsvæði skv. aðalskipulagi, eða í um 150 m fjarlægð. Jafnframt hafi hann verið að gæta hagsmuna föður síns, sem hafi átt fasteign í nágrenni við Hafnargötu 6 en sú eign hafi nú verið seld.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Austurlands: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að einungis sé um að ræða breytingu á starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. en ekki framlengingu, eins og komi fram í kærunni. Fyrra leyfi hafi verið frá 29. janúar 2009 og gilt til 29. janúar 2021. Hið kærða leyfi sé útgefið 27. nóvember 2013 og gildi til 29. janúar 2021. Breytingin á starfsleyfinu felist í því að til viðbótar við starfsemi í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 6, Reyðarfirði, sé heimilað að nýta útisvæði til geymslu á tilteknum flokkum efna með ákveðnum skilyrðum sem fram komi í starfsleyfi. Umrætt útisvæði hafi áður verið nýtt undir steypustöð, allt fram í desember 2011. Svæðið sé nú afgirt með steinsteyptum plötum og járni þannig að það myndi aflokað port.

Fullyrðingum um þungaflutninga af völdum starfsemi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. um miðbæ Reyðarfjarðar er vísað á bug. Fyrirtækið hafi aðkomu að austan og með því móti sé umferð vegna fyrirtækisins á meginumferðaræð þéttbýlisins þar sem þungaflutningum sé einmitt ætluð leið. Deiliskipulag frá 1999 skilgreini svæðið sem iðnaðar- og hafnarsvæði, en aðalskipulag 2007-2029 hafi ekki verið staðfest af ráðherra fyrr en 24. ágúst 2009, eða sjö mánuðum eftir að starfsleyfi fyrirtækisins hafi fyrst verið gefið út.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir séu íbúar svæðisins, útsvarsgreiðendur og virkir þátttakendur í mótun aðalskipulags. Ekki verður fallist á að sem slíkir eigi kærendur þeirra einstaklingsbundnu hagsmuna að gæta að það veiti þeim kæruaðild í málinu fremur en öðrum bæjarbúum almennt. Þá liggur fyrir að fasteign þess kæranda sem býr næst þeirri starfsemi sem um ræðir er ekki í þeirri nálægð við hana að umdeild starfsleyfisbreyting hafi þau áhrif á umhverfi hans að það skapi honum einstaklega, lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur búa fjær svæðinu.

Samkvæmt framansögðu eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir