Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

104/2017 Grafarholtsvöllur

Árið 2018, fimmtudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2017, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 um að aðhafast ekki frekar vegna kvartana um hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. september 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Ólafsgeisla 26, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 að aðhafast ekki frekar vegna kvartana hans um hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. október 2017 og 25. september 2018.

Málavextir: Hinn 15. júlí 2017 kvartaði kærandi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur yfir hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur, sem byrjað hefði kl. 06:30 á flötum neðan við Ólafsgeisla. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 30. ágúst 2017, kemur fram að gerð hafi verið mæling á hljóðstigi sem hafi sýnt að hávaði vegna grassláttar færi ekki yfir viðmiðunarmörk eftir kl. 07:00 á morgnana. Verklag golfklúbbsins hafi í samræmi við þær niðurstöður verið að grassláttur á þeim hluta vallarins sem liggi nálægt heimili kæranda hæfist eftir kl. 07:00. Heilbrigðiseftirlitið hefði ekki geta staðfest kvartanir kæranda um hávaða vegna sláttar á golfvellinum og myndi því ekki aðhafast nema frekari gögn kæmu fram sem bentu til að aðstæður hefðu breyst.

Málsrök kæranda:
Kærandi bendir á að hann hafi um árabil kvartað yfir hávaða vegna grassláttar á golfvelli Golfklúbbs Reykjavíkur. Hann vefengi þá mælingu sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vitni til í ákvörðun sinni þar sem starfsmenn golfklúbbsins hafi verið upplýstir um að mæling skyldi fara fram á tilsettum tíma. Erfitt sé fyrir hann að skilja hvernig hægt sé að sinna kvörtunum og athuga réttmæti þeirra þegar atburðurinn hafi átt sér stað. Ekki sé hægt að hafa samband símleiðis við eftirlitið á þeim tíma þegar slátturinn eigi sér stað snemma morguns. Heilbrigðiseftirlitið sinni ekki leiðbeiningarskyldu sinni, sem stofnuninni sé skylt að gera samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Meðalhófs hafi ekki verið gætt þar sem einungis sé hlustað á útskýringar forsvarsmanna Golfklúbbs Reykjavíkur um aðstæður og atvik. Á meðan heilbrigðiseftirlitið hvorki beiti né hóti að beita viðurlögum við þessum brotum þá muni þau halda áfram.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er bent á að ekki hafi verið hægt að staðfesta það ónæði sem kærandi upplifi vegna hávaða vegna sláttar. Kvartanir hafi borist eftir atburðinn og því hafi reynst erfitt að sannreyna þær. Kvörtunum hafi verið sinnt með þeim hætti að gerð hafi verið hljóðmæling. Haft hafi verið samband við forráðamenn Golfklúbbs Reykjavíkur og starfsmenn golfvallarins og þeim gerð grein fyrir kvörtunum og farið yfir hvenær sláttur hafi byrjað. Einnig hafi þeim verið gerð grein fyrir ákvæðum reglugerðar nr. 814/2008 um hávaða og hvaða reglur og mörk giltu um hávaða frá starfseminni. Auk þess hafi verið fundað með forráðamönnum golfklúbbsins vegna málsins. Niðurstöður hljóðmælinga hefðu verið þær að ef sláttur hæfist eftir kl. 07:00 á morgnana á þeim svæðum golfvallarins sem næst séu heimili kæranda færi hávaði ekki yfir mörk reglugerðar. Forráðamenn golfklúbbsins staðhæfi að ekki sé byrjað að slá við það svæði á morgnana heldur sé farið að fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins þannig að sláttur hefjist þar eftir kl. 07:00. Heilbrigðiseftirlitið hafi í skoðun hvort mögulegt sé að fá hljóðmæli sem settur yrði upp við hús kæranda til að vakta yfir lengri tíma hvenær sláttur hefjist og hvort hávaði sé innan marka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 að aðhafast ekki frekar vegna kvartana um hávaða vegna grassláttar á Grafarholtsvelli Golfklúbbs Reykjavíkur.

Eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni gerði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hljóðmælingu við hús kæranda 6. júlí 2018 í samráði við Golfklúbb Reykjavíkur. Niðurstaða mælinganna var að hljóðstig hefði mælst yfir næturmörkum reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Heilbrigðiseftirlitið sendi golfklúbbnum bréf, dags. 13. og 18. sama mánaðar, þar sem gerðar voru þær kröfur að golfklúbburinn myndi virða ákvæði reglugerðarinnar og sláttur hæfist ekki á brautum 4-9 fyrir kl. 07:00 á virkum dögum og kl. 10:00 um helgar. Þá kemur fram í tölvupósti starfsmanns heilbrigðiseftirlitsins til úrskurðarnefndarinnar frá 21. september 2018 að golfklúbburinn hafi boðist til að nota rafmagnssláttuvélar og heilbrigðiseftirlitið boðist til að hljóðmæla vélarnar til að sannreyna hvort þær væru nægilega hljóðlátar til að vera undir næturmörkum. Einnig sé fyrirhugað að setja upp búnað til hljóðmælinga í lengri tíma nálægt húsi kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Að virtum framgangi málsins eftir að kæra í málinu barst verður ekki séð að kærandi hafi lengur lögvarða hagsmuni af því að tekin verði afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 30. ágúst 2017 að aðhafast ekki frekar. Er enda ljóst að heilbrigðiseftirlitið hefur sannanlega aðhafst frekar í málinu, auk þess sem það er enn í vinnslu af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og Golfklúbbs Reykjavíkur. Að teknu tilliti til framangreinds verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.