Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2016, er barst nefndinni 20. s.m., kærir Bílrúðuþjónustan ehf., Iðavöllum 5b, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 23. júní 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Flugvelli, Reykjanesbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 28. júlí 2016.
Málsatvik og rök: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 8. desember 2015 var ákveðið að ljúka vinnu við deiliskipulagstillögu frá árinu 2008 fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ. Á fundi ráðsins 12. apríl 2016 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi og samþykkt að hún skyldi auglýst á grundvelli 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 20. júní s.á. var samþykkt að senda „deiliskipulagið til endanlegrar afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun“ og var sú ákvörðun staðfest á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 23. s.m.
Kærandi krefst þess að samþykkt deiliskipulag verði ógilt, lóðamörk Iðavalla 5b og Flugvalla 6 verði færð til baka og óheimilar framkvæmdir á lóðamörkum afturkallaðar. Einnig að sveitarfélaginu verði gert að hefja vinnu við deiliskipulagið að nýju þar sem tekið verði tillit til athugasemda eigenda. Með umræddri deiliskipulagstillögu sé lóðin Flugvellir 6 stækkuð á kostnað Iðavalla 5b án þess að lóðarhafar hafi haft nokkuð um það að segja. Að auki sé tekin sneið af lóð Iðavalla 5b undir tengiveg. Sé hann mun breiðari en sú kvöð sem hvíli á lóðinni um gangandi og akandi umferð samkvæmt samkomulagi þáverandi eigenda Iðavalla 5b og Flugvalla 6 frá árinu 2008. Hafi sveitarfélagið með framgöngu sinni í málinu brotið málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Af hálfu Reykjanesbæjar er krafist frávísunar. Umrætt deiliskipulag sé ennþá í vinnslu og hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu í bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Síðasta bókun í málinu hafi verið gerð á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar 23. júní 206 þar sem bókun umhverfis- og skipulagsráðs frá 20. s.m., um að senda drögin að deiliskipulaginu til Skipulagsstofnunar, hafi verið samþykkt. Enn eigi eftir að taka afstöðu til athugasemda stofnunarinnar og samþykkja skipulagið endanlega. Af þessum sökum sé ekki um neina kæranlega lokaákvörðun að ræða í málinu.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en fyrr tekur það ekki gildi. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Auglýsing hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulags fyrir Flugvelli í Reykjanesbæ í kjölfar þeirrar málsmeðferðar sem kærandi vísar til í kæru sinni. Slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Jafnframt liggur ekki fyrir að deiliskipulagstillagan hafi hlotið lokaafgreiðslu hjá sveitarstjórn Reykjanesbæjar eftir að tillagan var send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. fyrirmæli 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar um. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði þess að vísa því til úrskurðarnefndarinnar er ekki uppfyllt verður því vísað frá.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir