Árið 2019, föstudaginn 11. október tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 102/2019 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Freyjubrunns 25-27, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfársdals vegna lóðarinnar nr. 23 við Freyjubrunn. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.
Málsatvik: Auglýsing um gildistöku breytingar á deiliskipulagi Úlfársdals vegna lóðarinnar nr. 23 við Freyjubrunn var birt í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2019. Var tekið fram að í breytingunni fælist m.a. fjölgun á íbúðum í húsinu á nefndri lóð úr 5 í 8, undantekningar vegna byggingarhluta sem megi skaga út fyrir byggingarreit og að hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga verði 9,5 m frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar ef þök séu flöt.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda.
Gildistaka deiliskipulags eða deiliskipulagsbreytingar felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, svo sem samþykkt byggingar- eða framkvæmdaleyfis í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Er því almennt ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun.