Fyrir var tekið mál nr. 101/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Voga frá 24. maí 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði við Vogabraut.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Ó, S, H og Reykjaprent ehf., Síðumúla 14, Reykjavík, ákvörðun sveitarstjórnar Voga frá 24. maí 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði við Vogabraut, Vogum. Jafnframt fara þau fram á að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Með bréfi, dags. 12. september 2016, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra fyrrgreindir kærendur auk Mótel-Best ehf., Stapavegi 7, Vogum, ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga frá 19. ágúst 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju á lóðinni Heiðarholti 5 og stöðuleyfi fyrir 10-12 tuttugu feta gámum á lóðinni Heiðarholti 3. Jafnframt kæra þau samþykktir bæjarráðs hinn 18. ágúst s.á. og bæjarstjórnar 31. s.m. vegna umsókna um framangreind leyfi. Er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður það mál, sem er nr. 120/2016, sameinað máli þessu.
Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda.
Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Vogum 26. júlí og 20. september 2016.
Málavextir: Hinn 22. september 2015 sendi leyfishafi erindi til Sveitarfélagsins Voga og óskaði eftir umsögn um fyrirhugaða framkvæmd og starfsemi hans í sveitarfélaginu. Í kjölfar þess hófst vinna við að undirbúa deiliskipulagsbreytingu fyrir iðnaðarsvæðið við Vogabraut, sem auglýst var til kynningar 21. desember s.á. til 1. febrúar 2016. Sú lóð sem upphaflega átti að úthluta umsækjanda er í sameign kærenda, sveitarfélagsins og fleiri aðila. Sveitarfélagið hóf viðræður við landeigendur um kaup á lóðinni en aðilar náðu ekki saman um verð. Var því ákveðið að úthluta umsækjanda annarri lóð á svæðinu sem var í eigu sveitarfélagsins. Hinn 15. mars 2016 var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar sveitarfélagsins ný tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins við Vogabraut þar sem gert var ráð fyrir fyrirhugaðri starfsemi á annarri lóð. Samþykkt var að tillagan yrði kynnt í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í kjölfarið auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Að lokinni kynningu tók nefndin breytingartillöguna fyrir 23. maí 2016 og var lögð fram umsögn um þær athugasemdir sem borist höfðu á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna 24. maí 2016 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á. Hinn 19. ágúst 2016 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um byggingu verksmiðju leyfishafa og stöðuleyfi fyrir gáma vegna starfsemi verktaka. Sama dag gaf byggingarfulltrúi út leyfi til jarðvegsframkvæmda á umræddri lóð.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu meðal eigenda að flestum lóðum á hinu skipulagða iðnaðarsvæði. Einnig séu þeir meðal eigenda Heiðarlands Vogajarða, sem liggi að iðnaðarsvæðinu. Við gerð deiliskipulagsins hafi ekki verið gætt ákvæða 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem mæli fyrir um að við gerð skipulagsáætlana skuli gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði á milli þeirra kosta sem komi til greina. Vegna sjónrænna áhrifa og hættu af heimilaðri starfsemi hefði verið eðlilegra að ætla verksmiðjunni stað í Flekkuvík fremur en í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.
Umhverfismat deiliskipulagsins uppfylli ekki lagakröfur um gerð slíks mats. Við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, sbr. 1. mgr. gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Aðeins hafi verið stuttlega vikið að sjónrænum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda í greinargerð skipulagsins. Þá sé í 2. mgr. gr. 5.4.1. reglugerðarinnar m.a. mælt fyrir um það að áætluð skuli áhrif af umfangsmiklum mannvirkjum. Það hafi ekki verið gert. Í sömu málsgrein sé einnig tekið fram að mat skuli lagt á það hvort hætta geti verið á stórslysi. Þetta hafi ekki verið gert, þrátt fyrir að fyrir liggi að starfsemi verksmiðjunnar falli undir reglugerð nr. 160/2007 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. Látið hafi verið við það sitja við lokaafgreiðslu skipulagsins að bæta því við skilmála vegna starfsemi innan lóðar við Heiðarholt 5 að áætlun verði gerð um fyrirhugaða starfsemi. Hins vegar sé í skipulaginu ekkert fjallað um ráðstafanir vegna hættu á stórslysi á iðnaðarsvæðinu. Við deiliskipulagsgerð séu settir skilmálar um að hljóðstig verði í samræmi við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Hins vegar hafi komið í ljós að sveitarfélagið hafi gert samkomulag við framkvæmdaraðila í miðju skipulagsferlinu þar sem fyrirtækinu hafi verið veitt undanþága frá hljóðvistarreglum hvað varði íbúðarsvæði ÍB 3-2.
Deiliskipulagsbreytingin breyti eðli deiliskipulags svæðisins og eyðileggi innra samræmi þess með nærri 30 m hárri mjög frekri byggingu. Samkvæmt ákvæðum gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð beri sveitarfélagi við gerð deiliskipulags að hafa samráð við hagsmunaaðila, þ. á m. landeigendur, sem og eiganda lands sem liggi að landa- og lóðamörkum þess svæðis sem skipulagið taki til. Við gerð deiliskipulagstillögu og fyrir auglýsingu hennar hafi ekkert samráð verið haft við kærendur sem eigendur að hinu skipulagða svæði en þeir séu einnig eigendur aðliggjandi lands.
Kærendur vekji einnig athygli á þeim formgalla að bæjarstjórn Voga hafi talið samþykkt sína um deiliskipulagsbreytingu frá 24. febrúar 2016 vera lögformlegt skipulag og hafi lagt fram tillöguna, sem samþykkt hafi verið 24. maí s.á., sem breytingu á því skipulagi. Ósamræmi sé milli deiliskipulags og aðalskipulags og gríðarleg sjónmengun verði af hinni fyrirhugðu verksmiðju, þar sem henni sé ætlað að rísa upp úr flatlendu hrauni, og skeri hún sig algerlega úr í landslagi. Ranghermt sé í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins, sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2016, að hámarkshæð iðnaðarhúsnæðis á lóð við Heiðarholt 5 sé aukin úr 13 m í 27 m, auk 2,5 m vegna létts búnaðar. Rétt sé að hæðin sé aukin úr 8 m í fyrrnefnda hæð.
Breytingar hafi verið gerðar á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu hennar. Í hinni auglýstu tillögu hafi ekki verið vikið að því að fyrirhuguð starfsemi hefði í för með sér stórslysahættu. Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé þessarar hættu getið. Í umhverfismatskafla skipulagstillögunnar sé tekið fram að skipulagsbreytingin feli ekki í sér umhverfismatsskylda framkvæmd. Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé bætt um betur og tekið fram að Skipulagsstofnun hafi með tölvupósti staðfest að fyrirhuguð starfsemi falli ekki undir ákvæði laga nr. 106/2006 um mat á umhverfisáhrifum áætlana, en að gera þurfi grein fyrir breytingum á deiliskipulagi skv. 12. gr. skipulagslaga.
Hvað varði byggingarleyfið telji kærendur að sú deiliskipulagsbreyting sem það eigi stoð í sé ógildanleg. Þannig hafi sveitarfélaginu borið skylda til að ganga úr skugga um það hvort fyrirhuguð framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum, en ekki liggi fyrir nein ákvörðun Skipulagsstofnunar um það álitaefni. Þá hafi umsókn um byggingarleyfi hvorki verið í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki hafi verið farið eftir ákvæðum hins vefengda deiliskipulags. Loks telji kærendur að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur til að gefa út byggingarleyfi í þessu máli. Hann sé í hlutastarfi hjá fyrirtækinu sem gert hafi uppdrættina sem fylgdu umsókninni og hafi því hagsmuna að gæta af málinu.
Málsrök sveitarfélagsins Voga: Vísað er til þess að deiliskipulag iðnaðarsvæðisins við Vogabraut sé að stofni til frá árinu 2001, eins og fram komi í hinni kærðu breytingu. Í kafla 1.0 segi m.a. um landnotkun svæðisins að það sé ætlað fyrir stærri og grófari iðnaðarstarfsemi en á iðnaðarsvæðinu við Iðndal sem sé í uppbyggingu. Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 sé um iðnaðarsvæði vísað til skilgreiningar gr. 4.7.1. í skipulagsreglugerð, en þar komi fram að á iðnaðarsvæðum sé gert ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem sé talin geta haft mengun í för með sér. Fyrirhuguð starfsemi samræmist því landnotkun deili- og aðalskipulags. Afmörkun byggingarreita, lóða og skilmálar deiliskipulagsins taki mið af greindri landnotkun og séu skilmálarnir sveigjanlegir, enda erfitt að sjá nákvæmlega fyrir þarfir slíkrar starfsemi, sem iðulega geti kallað á sérlausnir hvað ýmsa þætti varði. Í samræmi við þetta hafi skipulaginu verið breytt þrisvar, þ.e. 2007, 2009 og 2010, auk hinnar kærðu breytingar.
Í aðalskipulagi komi fram að iðnaðarsvæðið norðan Vogabrautar hafi verið deiliskipulagt fyrir iðnaðarsvæði og að ekki sé gert ráð fyrir þróun iðnaðarsvæða í þéttbýlinu í Vogum nema á áðurnefndu afmörkuðu svæði norðan Vogabrautar. Þar komi og fram að á iðnaðarsvæðinu í Flekkuvík geti rúmast stóriðja eða starfsemi stórfyrirtækja, sem þarfnist stórskipahafnar. Sú starfsemi sem hér um ræði teljist ekki vera stóriðja og þarfnist ekki stórskipahafnar og falli því ekki að skilgreiningu aðalskipulagsins fyrir slíka starfsemi. Þá sé uppbygging iðnaðarsvæðisins norðan Vogabrautar þegar hafin með uppbyggingu eins húss og gatnagerð að hluta. Svæðið sé þegar deiliskipulagt auk þess sem það liggi nálægt þéttbýlinu og þar með allri þjónustu, veitum og samgöngum. Landsvæðið við Flekkuvík hafi ekki verið deiliskipulagt og þar séu engir innviðir, s.s. veitur. Þá sé það land í eigu ríkissjóðs og ekkert liggi fyrir um hvernig ríkissjóður vilji nýta það. Samningar milli sveitarfélagsins og ríkisins þar að lútandi og um skipulag svæðisins hafi ekki tekist þrátt fyrir tilraunir til þess.
Með vísan til framangreinds hafi umsókn leyfishafa fallið að gildandi skipulagi. Í raun hafi eingöngu verið um að ræða breytingar á byggingarskilmálum, einkum hvað varði hæð húss, og því hafi ekki verið nauðsynlegt að gera ítarlegar grein fyrir áhrifum breytingarinnar eða stefnumiðum en gert hafi verið eða bera með ítarlegum hætti saman þá kosti sem uppi hafi verið.
Því sé mótmælt að mat á umhverfisáhrifum breytingarinnar sé ekki fullnægjandi. Áréttað sé að um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar á þegar skipulögðu iðnaðarsvæði í samræmi við aðalskipulag og stefnu þess. Á svæðinu sé þegar gert ráð fyrir að mögulegt sé að byggja upp verulega iðnaðarstarfsemi af grófari gerðinni, eins og fram komi í deiliskipulagi. Því hafi ekki verið sérstök þörf á að meta áhrif iðnaðarstarfseminnar sem slíkrar. Í raun séu umhverfisáhrif vegna breytingarinnar eingöngu sjónræn, þ.e. vegna breytingar á leyfilegri hámarkshæð mannvirkja. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir breytinguna hafi verið gert ráð fyrir nokkuð háum byggingum, 8-13 m. Eðli málsins samkvæmt sé ljóst að uppbygging á svæðinu muni því alltaf hafa sjónræn áhrif. Í skilmálum deiliskipulagsins komi þó fram að sérstaklega skuli horft til þess að milda sjónræn áhrif mannvirkja á svæðinu með útfærslum í hönnun og litavali, þannig að þau verði sem minnst áberandi.
Óumdeilt sé að umrædd starfsemi, sem fyrirhuguð sé á lóðinni Heiðarholti 5, falli undir ákvæði reglugerðar nr. 160/2007 um varnir gegn hættu á stórslysum, en starfsemin falli engu að síður að landnotkun skipulagssvæðisins. Ef ekki hefði komið til hæð mannvirkjanna hefði ekki verið þörf á skipulagsbreytingu. Mat á hættu og nauðsynlegum aðgerðum vegna þessa fari því fram af hálfu sveitarfélagsins við útgáfu byggingarleyfis fyrir framkvæmdinni. Eins og fram hafi komið í umsögn um athugasemdir kærenda hafi legið fyrir umsögn Vinnueftirlitsins frá 31. mars 2016, þar sem fram komi að verksmiðjan sé í lægra þröskuldsmagni samkvæmt reglugerðinni og að Vinnueftirlitið geri ekki athugasemd við staðsetninguna enda hafi verið tekið tillit til stórslysahættu. Til áréttingar hafi verið bætt við skilmála skipulagsins að áður en byggingarleyfi verði veitt þurfi að liggja fyrir fullnægjandi áætlun um stórslysavarnir á lóðinni vegna verksmiðjunnar. Um hljóðvist séu skipulagsskilmálar algjörlega skýrir. Þar komi fram að hljóðstig starfsemi innan lóðar við Heiðarholt 5 verði undir þeim mörkum sem getið sé um í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Þó hafi verið gert samkomulag við leyfishafa um að ekki þurfi að uppfylla kröfur um hljóðstig hvað varði fyrirhugað íbúðarsvæði vestan deiliskipulagssvæðisins. Þegar og ef svæðið verði skipulagt sem íbúðarsvæði muni sveitarfélagið gera viðeigandi ráðstafanir.
Hið kærða byggingarleyfi styðjist við gilt deiliskipulag og því hafi sveitarfélaginu borið að afgreiða lögmæta byggingarleyfisumsókn í samræmi við það. Þá falli umrædd framkvæmd ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Því hafi verið heimilt að gefa út leyfið þótt ákvörðun Skipulagsstofnunar lægi ekki fyrir, enda muni Skipulagsstofnun ekki fjalla um framkvæmdina að þessu leyti. Því sé mótmælt að ekki hafi verið farið að ákvæðum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Umsókn leyfishafa hafi í fyrstu fylgt aðaluppdrættir á ensku. Óskað hafi verið eftir lagfæringu sem legið hafi fyrir við afgreiðslu málsins. Séruppdráttum hafi ekki verið skilað enda byggingarleyfið takmarkað við jarðvegsframkvæmdir. Rétt sé hjá kærendum að byggingarfulltrúi sé starfsmaður Tækniþjónustu SÁ, sem í byrjun júní 2016 hafi fengið það verkefni að staðfæra aðaluppdrætti vegna verksins og setja texta þeirra fram á íslensku og annast hönnunarstjórn. Fyrirtækið annaðist því ekki frumhönnun. Fyrstu gögn málsins hafi borist tækniþjónustunni 16. júní s.á. og muni byggingarfulltrúi ekki hafa komið að þeirri vinnu á nokkurn hátt.
Athugasemdir byggingarleyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess aðallega krafist að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Þrátt fyrir þetta skilyrði sé í engu rökstutt í kærunni hvaða hagsmuni kærendur telji sig hafa af hinni kærðu ákvörðun. Þeir láti við það sitja að nefna að þeir eigi lóðir á hinu skipulagða iðnaðarsvæði sem og aðrar fasteignir í sveitarfélaginu. Að mati leyfishafa geti slíkir almennir hagsmunir ekki réttlætt framkomna kæru.
Bent sé á að skipulagsvaldið sé hverju sinni í höndum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi kærendur hvorki getað gert ráð fyrir að deiliskipulag umrædds iðnaðarsvæðis yrði óbreytt um ókomin ár né eigi þeir nokkra kröfu til þess. Þá liggi einfaldlega ekkert fyrir um að fyrirhuguð bygging raski lögvörðum hagsmunum kærenda, hvorki í grenndarréttarlegum né skipulagslegum skilningi. Verði því að vísa kærunni frá nefndinni. Þá liggi ekki annað fyrir en að farið hafi verið í einu og öllu að lögum við meðferð og samþykkt hins kærða skipulags. Fyrir hafi legið skýrsla fyrirtækisins IABAS, dags. 24. mars 2016, um hljóðvist og lögð hafi verið fram áætlun um stórslysavarnir til sveitarfélagsins í samræmi við reglugerð nr. 160/2007.
Byggingarleyfið styðjist við gilt deiliskipulag. Kærendur hafi vissulega haft uppi efasemdir um lögmæti deiliskipulagsins og m.a. kært það til úrskurðarnefndarinnar. Það breyti hins vegar engu um þá staðreynd að umrædd leyfi voru gefin út af þar til bærum aðila á grundvelli gildandi deiliskipulags. Þá falli umrædd framkvæmd ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Hún sé því ekki matsskyld samkvæmt ákvæðum greindra laga. Hér sé um að ræða atriði sem ráðist af lögum en ekki mati sveitarfélagsins. Þá hafi verið farið eftir ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Því sé hafnað að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 fari um hæfi starfsmanna eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé ekki öðruvísi ákveðið í sveitarstjórnarlögum. Í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga séu taldar upp í sex stafliðum þær ástæður sem valdið geti vanhæfi við meðferð máls. Af atvikum öllum sé ljóst að 1.-4. tl. geti ekki átt við í því tilviki sem hér um ræði. Hvað varði 5. tl. þá áskilji hann að starfsmaður eða venslamenn hans, eða lögaðili í einkaeigu, sem hann sé í fyrirsvari fyrir, þurfi að eiga sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Telji leyfishafi að byggingarfulltrúinn geti ekki talist hafa átt slíkra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins í skilningi 5. tl. ákvæðisins. Í 6. tl. sé svo að finna matskennda vanhæfisreglu, en leyfishafi telji að þetta ákvæði geti ekki átt við. Til þess að vanhæfi komi til greina á grundvelli þess þurfi að vera um meira að ræða en hugsanlega og óverulega hagsmuni. Um hafi verið að ræða útgáfu byggingarleyfis sem þegar hafi verið samþykkt af umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins og sú afgreiðsla hlotið staðfestingu bæjarráðs.
Athugasemdir stöðuleyfishafa: Af hálfu stöðuleyfishafa kemur fram að umsókn hans hafi fylgt þeim kröfum sem gefnar séu upp í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í bréfi kærenda færi hann rök fyrir því sem þeir telji vera brot á öðrum greinum byggingarreglugerðar, en ekkert sé þar minnst á brot á gr. 2.6.1. sem gildi fyrir leyfið. Stöðuleyfi sé sjálfstætt leyfi óháð öðrum leyfum. Engar kröfur séu gerðar í gr. 2.6.1. um að leyfishafi hafi t.d. gilt byggingarleyfi til að fá leyfi til að geyma gáma.
———-
Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðjónar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Sveitarfélagsins Voga um breytingu deiliskipulags fyrir iðnaðarsvæði við Vogabraut í Vogum vegna lóðarinnar Heiðarholts 5 og veitingu byggingarleyfis fyrir mannvirkjum á þeirri lóð, auk veitingu stöðuleyfis fyrir gámum vegna starfsemi verktaka lóðinni Heiðarholti 3.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Kærendur umdeildrar deiliskipulagsbreytingar eru meðal sameigenda Heiðarlands Vogajarða, sem liggur við deiliskipulagssvæðið, og eiga þeir lóðir á umræddu iðnaðarsvæði. Getur deiliskipulagsbreytingin og hin kærðu byggingar- og stöðuleyfi því haft áhrif á hagsmuni þeirra sem land- og lóðareigenda. Teljast þessir kærendur því hafa lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum. Öðru máli gegnir um kærandann Mótel-Best ehf., sem stendur að kæru vegna ákvarðana um veitingu byggingar- og stöðuleyfis í máli þessu. Sá kærandi er ekki meðal sameigenda Heiðarlands Vogajarða og telur ekki til lóðarréttinda á umræddu svæði. Hann er hins vegar eigandi fasteignar í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, sem er í um 500 m fjarlægð frá iðnaðarlóðinni. Verður hann ekki talinn hafa einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu umfram aðra íbúa sveitarfélagsins og er hans þætti í kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting er í samræmi við ákvæði gildandi aðalskipulags um landnotkun svæðisins undir iðnaðarstarfsemi. Breytingin var auglýst hinn 31. mars 2016 á heimasíðu sveitarfélagsins, í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu. Gerðu kærendur athugasemdir við tillöguna á auglýsingatíma hennar og var þeim athugasemdum svarað. Við gerð auglýsingar voru gerð þau mistök að litið var svo á að um væri að ræða breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt var í sveitarstjórn 24. febrúar 2016, en sú deiliskipulagsbreyting tók aldrei gildi. Þetta var leiðrétt á deiliskipulagsuppdrætti eftir auglýsingu tillögunnar til kynningar. Þá kom fram í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2016 að hámarkshæð á lóð Heiðarholts 5 færi úr 13 m í 27 m, auk 2,5 m vegna létts búnaðar, en hið rétta er að aukningin er úr 8 m í 27 m, auk 2,5 m vegna létts búnaðar, og kom það skýrt fram á deiliskipulagsuppdrætti og í greinargerð.
Með deiliskipulagsbreytingunni var samþykkt ný húsagerð fyrir lóðina Heiðarholt 5. Er hún í samræmi við aðra húsagerð á deiliskipulagssvæðinu að því undanskildu að heimiluð er 27 m hæð fyrir skilju og tanka, auk 2,5 m vegna létts búnaðar. Ekki er um að ræða breytingu á landnotkun en breytingin er gerð í kjölfar erindis leyfishafa, sem áætlar að reisa súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju á nefndri lóð. Í deiliskipulaginu kemur fram að settir séu þeir skilmálar um fyrirhugaða starfsemi að hljóðstig verði undir þeim mörkum sem getið er um í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og að áætlun verði gerð um stórslysavarnir, þar sem starfsemin fellur undir reglugerð um stórslysavarnir vegna hættulegra efna nr. 150/2007. Skilmálann um áætlun um stórslysavarnir var ekki að finna í auglýstri tillögu en var bætt inn eftir auglýsinguna. Áður en deiliskipulagstillagan var samþykkt lá fyrir umsögn Vinnueftirlitsins um fyrirhugaða starfsstöð og gerði það ekki athugasemdir við staðsetningu hennar svo framarlega sem tekið yrði tillit til stórslysahættu.
Skipulagsstofnun sendi sveitarfélaginu bréf 17. mars 2016 og tilkynnti að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagstillögunnar þar sem nánari upplýsingar vantaði um áformaða starfsemi. Taldi stofnunin sig ekki geta séð út frá fyrirliggjandi upplýsingum hvort deiliskipulagsbreytingin fæli í sér framkvæmd sem félli undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þetta erindi var sent vegna fyrri samþykktar sveitarstjórnar, sem hlaut aldrei gildi en varðaði sömu fyrirhuguðu verksmiðju. Í tölvupósti vegna seinni tillögunnar sem Skipulagsstofnun sendi sveitarfélaginu kom fram sú afstaða stofnunarinnar að umrædd starfsemi félli ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júní 2016, tilkynnti hún að ekki væri gerð athugasemd við að auglýsing yrði birt um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar.
Hvað varðar samkomulag milli sveitarfélags og leyfishafa um undanþágu frá aðgerðum vegna hljóðstigs við íbúðarsvæði merkt ÍB 3-2 í aðalskipulagi þá liggur fyrir að umrætt svæði er óbyggt og hefur ekki verið deiliskipulagt. Samkomulagið er ekki hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en þegar og ef svæðið verður deiliskipulagt fyrir íbúðarbyggð gilda þær reglur sem er að finna í reglugerð um hávaða og verður því að gera ráðstafanir þar að lútandi ef til þess kemur.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir form- eða efnisgallar sem að framan er getið séu slíkir að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Verður kröfu kærenda þar um hafnað.
Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er það byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags sem veitir byggingarleyfi. Þá kemur fram í 1. mgr. 7. gr. sömu laga að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Skulu slíkar samþykktir sveitarstjórnar háðar staðfestingu ráðherra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 6. mgr. lagagreinarinnar. Ekki liggur fyrir að slíkar samþykktir hafi verið settar fyrir Sveitarfélagið Voga eftir gildistöku laga um mannvirki. Hafa því hinar kærðu ákvarðanir bæjarstjórnar og bæjarráðs ekki þýðingu í þessu máli og á það sama við um hið kærða stöðuleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. ágúst 2016 voru byggingaráform samþykkt og á sama degi tilkynnti byggingarfulltrúi umsækjanda að umsókn hans um stöðuleyfi hefði verið samþykkt.
Hið kærða byggingarleyfi á stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og samræmist því 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki. Byggingarfulltrúinn starfar í hlutastarfi hjá því fyrirtæki sem sá um að staðfæra aðaluppdrætti vegna verksins, setja texta þeirra fram á íslensku og annast hönnunarstjórn. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum máls að hann hafi komið að þeirri vinnu. Verður hann því ekki talinn vanhæfur við útgáfu hins kærða byggingarleyfis á grundvelli 4. mgr. 8. gr. laga um mannvirki eða að hagsmunir hans af meðferð málsins séu þess eðlis að valdið geti vanhæfi hans skv. 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Hið kærða stöðuleyfi sem byggingarfulltrúi veitti er í samræmi við ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og verður ekki annað ráðið en að það leyfi sé lögum samkvæmt.
Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki forsendur til að fallast á kröfur kærenda um ógildingu hins kærða byggingar- og stöðuleyfis.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Voga hinn 24. maí 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið við Vogabraut.
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga um að samþykkja byggingarleyfi og stöðuleyfi hinn 19. ágúst 2016.
Kröfu kæranda Mótel-Best ehf. í málinu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson