Fyrir var tekið mál nr. 1/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember 2014 um að veita Blue Car Rental ehf. byggingarleyfi fyrir breytingum á innra skipulagi og til að bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. janúar 2015, sem barst nefndinni 8. s.m., kærir Björg Ásta Þórðardóttir, lögfræðingur, f.h. Summus ehf., eiganda matshluta 0110 við Hólmbergsbraut 1, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar að veita leyfi fyrir breytingum á innra skipulagi og bæta við innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, ásamt þeim teikningum sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 10. desember s.á. Að auki er þess krafist að framkvæmdir við uppsetningu á innkeyrsludyrum verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar hinn 13. nóvember 2014 var samþykkt umsókn Blue Car Rental ehf. um leyfi til að breyta innra skipulagi og setja innkeyrsludyr á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101, en húsið er fjöleignarhús sem skiptist í tíu séreignarhluta. Sama dag var haldinn fyrsti aðalfundur húsfélagsins Hólmbergsbrautar 1, þar sem leyfishafi gerði grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum, sem og því að koma ætti fyrir á lóðinni olíuskilju sem væri í hans eigu. Hinn 24. s.m. var greindri olíuskilju komið fyrir. Hinn 10. desember s.á. voru teikningar vegna hinna kærðu framkvæmda samþykktar af byggingarfulltrúa.
Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hinar umþrættu framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar á grundvelli 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og þurfi samþykki sameigenda að liggja fyrir, sbr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Hafi leyfishöfum borið að leita samþykkis annarra eigenda áður en umsókn um byggingarleyfi var lögð inn til afgreiðslu. Sé fulljóst að samþykki sameigenda liggi ekki fyrir og hafi byggingarfulltrúa því verið óheimilt að samþykkja umsóknina. Séu greindar breytingar til tjóns fyrir kæranda og aðra meðeigendur að fasteigninni. Sé því rík ástæða til þess að stöðva yfirvofandi framkvæmdir.
Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að embætti byggingarfulltrúa telji ekki rétt að stöðva framkvæmdir þar sem kærandi hafi ekki sett fram formleg málsrök fyrir kröfu um stöðvun, s.s. málsgögn um samþykki húsfélags, um formlega afstöðu meðeigenda hússins eða annað sem styðji kröfu þeirra. Byggi útgáfa umrædds byggingarleyfis á afgreiðslu byggingarfulltrúa og samþykki bæjarstjórnar. Myndi stöðvun framkvæmda og bann við notkun á umræddri olíuskilju ógilda starfsleyfi og þannig stöðva starfsemi leyfishafa og valda fjárhagslegu tjóni.
Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að ákvæði um stöðvun framkvæmda sé undantekningarregla sem ekki skuli beita nema í sérstökum tilvikum. Liggi fyrir að sameigendur hafi ekki gert athugasemdir við framkvæmdirnar og sé nauðsynlegt að halda þeim áfram til þess að hægt sé að hefja starfsemi. Einnig liggi fyrir að framkvæmdirnar valdi öðrum sameigendum ekki tjóni.
Niðurstaða: Samkvæmt 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls.
Í máli þessu er krafist ógildingar á ákvörðun byggingarfulltrúa, sem heimilar breytingar á innra skipulagi og uppsetningu á innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101. Samkvæmt teikningum er að auki veitt leyfi til þess að koma fyrir olíuskilju á lóð fjöleignarhússins.
Af þeim gögnum sem þegar liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Leikur meðal annars vafi á því hvort ákvæðum fjöleignarhúsalaga, sem og ákvæðum mannvirkjalaga, hafi verið fullnægt við samþykki á hinni kærðu ákvörðun, en gögn þar um, sem úrskurðarnefndinni hafa borist frá sveitarfélaginu, eru ófullnægjandi. Framkvæmdir eru þegar hafnar og geta haft röskun í för með sér, m.a. fyrir kærendur. Eins og atvikum er háttað þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, en byggingarleyfishafi getur óskað þess að málið sæti flýtimeðferð, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.
Framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 13. nóvember 2014, um að heimila breytingar á innra skipulagi og uppsetningu á innkeyrsludyrum á vesturhlið Hólmbergsbrautar 1, matshluta 0101, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson