Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2021 Traðarreitur eystri

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 112/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 5. júlí 2021 kærir íbúi að Digranesvegi 38, Kópavogi, ásamt fleiri íbúum í nágrenninu, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2021. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Krafa um að réttaráhrifum deiliskipulagsins verði frestað á meðan á málsmeðferð  fyrir nefndinni standi barst 7. júlí s.á og krafa um stöðvun framkvæmda barst 20. s.m. Verður nú tekin afstaða til síðarnefndra krafa kærenda

Málsatvik: Hinn 9. júní 2021 tók gildi breyting á deiliskipulagi fyrir Traðarreit eystri sem nánar tiltekið afmarkast af Álftröð í austur, Digranesvegi í suður, lóðarmörkum Kópavogsskóla í vestur og Hávegi í norður. Í auglýsingu í B-deildar Stjórnartíðinda kemur fram að „[s]tærð skipulagssvæðisins er um 9.000 m2 og á því standa nú 8 íbúðarhús með samtals 12 íbúðum sem byggð voru á árunum 1952 til 1955. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að byggðar verði allt að 180 íbúðir í tveggja til fjögurra hæða fjölbýlishúsum með kjallara og inndreginni þakhæð. Gert er ráð fyrir allt að 200 m2 atvinnuhúsnæði á jarðhæð með aðkomu frá Álftröð.“

Kærendur telja sveitarfélagið ekki hafa farið eftir gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem m.a. sé fjallað um samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila í gegnum skipulagsferlið. Kópavogsbær hafi hunsað athugasemdir íbúa sem tengist t.d. fjölda íbúða, hæð húsa og öryggi skólabarna. Þá fari samþykkt bæjarins á deiliskipulagi Traðarreits eystri gegn þeim markmiðum sem sett hafi verið fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 um að halda í yfirbragð gamalla og rótgróinna hverfa með tilliti til aðliggjandi byggðar, götumyndar, hönnunar húsa og hlutfalla.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til 1. mgr. 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála þar sem fram komi að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en kæranda sé þó heimilt að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Kærð sé deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingar­leyfis. Engin slík leyfi hafi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar og stöðvun framkvæmda á grundvelli hennar er hafnað.

110/2021 Patreksfjörður og Tálknafjörður

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2021, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní 2021 um að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. þannig að heimilað sé að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní s.á. að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. þannig að heimilað sé að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 9. júlí 2021.

Málavextir: Arnarlax ehf. hefur leyfi til reksturs sjókvíaeldis á 10.700 tonna ársframleiðslu á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Í starfsleyfi félagsins sem gefið var út 28. ágúst 2019 var kveðið á um að ekki væri heimilt að losa þau efni sem talin séu upp í listum I og II í viðauka reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, en á lista II er kopar m.a. talinn upp. Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar 14. nóvember 2018 gerði stofnunin athugasemd við að notaðar væru eldisnætur sem innihéldu koparoxíð. Hinn 3. maí 2019 samþykkti stofnunin úrbótaáætlun félagsins með skilyrðum vegna umrædds fráviks. Hinn 30. október 2020 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða breytingu á starfsleyfi félagsins til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í greinargerð með tilkynningunni kom fram að félagið hygðist sækja um breytingu á starfsleyfi svo heimilt yrði að nota eldisnætur með ásætuvörn sem innihéldi koparoxíð. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 14. janúar 2021. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og skyldi hún því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 16/2021.

Umhverfisstofnun gaf út breytt starfsleyfi 2. júní 2021 þar sem heimilað er að nota eldisnætur sem litaðar eru með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að stjórnvöld hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að því að heimila notkun ásætuvarna sem innihaldi koparoxíð í starfsemi leyfishafa. Með því að veita slíka heimild hafi verið farið í bága við fyrirmæli laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiði að málsmeðferð stjórnvalda hafi ekki verið í samræmi við þær meginreglur sem lögfestar hafi verið í II. kafla laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Á meðan ekki hafi verið skorið úr um þau álitaefni sem uppi séu í kærumáli þessu, auk kærumáls nr. 16/2021, sé við þessar aðstæður eðlilegt og nauðsynlegt með tilliti til varúðarreglu laga nr. 60/2013, að stöðvaðar verði tímabundið þær framkvæmdir sem heimilaðar séu með hinu kærða leyfi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á að málsmeðferð úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 16/2021 hafi ekki frestað málsmeðferð stofnunarinnar vegna leyfisveitingar. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin í kjölfar sjálfstæðs mats sérfræðinga stofnunarinnar á mögulegum umhverfisáhrifum. Ekki sé um nýjung að ræða heldur sé komin reynsla á umrædda starfsemi. Mælingar vegna sambærilegrar starfsemi allt frá árinu 2014 í Arnarfirði sýni fram á að ekki sé líklegt að um verulega mengun verði að ræða. Áréttað sé að stofnunin hafi heimild til þess að endurskoða leyfið ef mælingar á kopar sýni að efnið fari yfir viðmiðunarmörk, sem og að óska eftir endurskoðaðri vöktunaráætlun sé þess talin þörf.

Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé tekið fram að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt sé kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Samkvæmt 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fresti kæra til æðra stjórnvalds ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði beri með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda. Umhverfisstofnun telji að slíkar ástæður eða rök hafi ekki komið fram. Starfsemi samkvæmt breyttu leyfi sé þegar hafin og gæti frestun réttaráhrifa haft í för með sér umtalsvert tjón fyrir rekstraraðila. Rekstraraðili sé búinn að setja fisk í 12 af 14 kvíum á eldisstaðsetningunni Eyri Patreksfirði, þar sem nótapokarnir séu allir litaðir með koparoxíði. Einnig verði hætta á slysasleppingum ef skipta þurfi nótapokum út fyrir ólitaða poka.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. lagagreinarinnar, og getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem ekki felur í sér stöðvun framkvæmda, sbr. 3. mgr. Um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í athugasemdum með nefndri lagagrein í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum er tekið fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi nefna þau tilvik þar sem kæruheimild verði í raun þýðingarlaus verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað. Af sama toga eru athugasemdir með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011, en þar segir um 5. gr. að í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið kunni kæruheimild að verða þýðingarlaus ef úrskurðarnefndin hafi ekki heimild til að fresta réttaráhrifum hennar.

Kærendur tefla fram þeim rökum sem áður greinir að grundvelli og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sé áfátt og að með hliðsjón af varúðarreglu sé nauðsynlegt að framkvæmdir verðir stöðvaðar.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er leyfishafi þegar farinn að nýta hið breytta starfsleyfi og nota nótapoka með hinum umdeildu ásætuvörnum. Lög­bundinn málsmeðferðartími úrskurðarnefndarinnar er þrír til sex mánuðir frá því að gögn máls berast frá viðkomandi stjórnvaldi, sbr. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Er úrskurðar í kærumáli þessu, svo og í kærumáli nr. 16/2021, að vænta innan þess tíma. Þegar litið er til gagna málsins verður ekki talið að á meðan á meðferð málanna stendur komi fram slík umhverfisáhrif vegna notkunar ásætu­varnanna að kæruheimild verði þýðingarlaus, en Umhverfisstofnun hefur bent á að hún hafi ákveðnar heimildir fari styrkur kopars yfir viðmiðunarmörk. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa. Eru því ekki forsendur til að beita undantekningarheimild 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 og stöðva notkun nótapoka með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð á meðan meðferð máls þessa stendur yfir.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli ákvörðunar Umhverfis­stofnunar frá 2. júní 2021 um að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. þannig að heimilað sé að nota eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

109/2021 Innbær á Höfn

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 109/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. maí 2021 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar í Innbæ Hornafjarðar.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Hrísbrautar 1, 780 Höfn, þá ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar frá 12. maí s.á. að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir þéttingu byggðar í Innbæ Hornafjarðar sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2021. Greinargerð barst nefndinni 9. júlí s.á. og kemur þar fram að einnig standi að kærunni þau A, bB, C og D sem séu öll eigendur að húsum sem standi við eða í nálægð við fyrirhugaðar byggingarlóðir. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Einnig er þess krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins verði frestað.

Málsatvik: Hinn 3. júní 2021 tók gildi breyting á deiliskipulagi Innbæjar Hornafjarðar vegna þéttingar byggðar. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda felur breytingin í sér að „[í] deiliskipulaginu er mörkuð stefna um þéttingu byggðar í Innbæ á Höfn þar sem bætt er við 8 nýjum íbúðarlóðum og gert ráð fyrir byggingu einbýlis- og raðhúsa auk gatnagerðar, bílastæða, gangstétta og göngustíga. Deiliskipulagið tekur einnig til 16 þegar byggðra lóða og gerð er grein fyrir heimiluðu byggingarmagni.“

Kærendur telja sveitarfélagið ekki hafa uppfyllt ófrávíkjanlegt skilyrði 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 varðandi vinnu við gerð deiliskipulagstillögunnar. Samkvæmt gr. 5.2.2. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 beri sveitarstjórnum að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu og hafa kynningar og samráð við skipulagsgerðina. Eingöngu hafi verið auglýst lýsing á breytingu á aðalskipulagi varðandi breytingu á opnu svæði í íbúasvæði, en engin slík lýsing verið gerð vegna deiliskipulagsins. Þá hafi texti í skipulags- og matslýsingu með breytingu á aðalskipulagi verið mjög opinn og t.a.m. hafi ekkert komið þar fram um áætlaðan fjölda nýrra lóða. Þetta sé ámælisvert í ljósi þess að alkunna sé að jarðvegsaðstæður á svæðinu séu óstöðugar og að allar líkur séu á að byggingar- og jarðvegsframkvæmdir muni valda tjóni á nærliggjandi fasteignum þar sem byggingarlandið sé mýrlendi. Þá hafi Efla verkfræðistofa mælst til þess í minnisblaði frá 18. mars 2020 að gerðar væru jarðkannanir á fyrirhuguðum byggingarstöðum til að taka af vafa um jarðvegsaðstæður.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. sömu laga. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar er hafnað.

88 og 117/2021 Geldingadalur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 88/2021, kæra vegna leiðigarðs eða leiðigarða við Geldingadali sem byrjað var að reisa 14. júní 2021.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið og stjórnarformaður samtakanna persónulega, gerð leiðigarðs eða leiðigarða við Geldingadali, sem byrjað var að reisa 14. júní 2021. Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu athafnir verði þegar í stað stöðvaðar, að ógiltar verði þær ákvarðanir sem kunni að liggja þeim að baki og ákvörðun verði tekin um endurheimt fyrra ástands eftir því sem aðstæður séu til. Þá er krafist viðeigandi úrræða vegna athafna og athafnaleysis almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæjar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu kærendur gerð varnargarða við Geldingadali, sem reistir voru 25. júní 2021. Gera kærendur þá kröfu að ógiltar verði þær ákvarðanir sem kunni að liggja að baki athöfnunum og að ákvörðun verði tekin um endurheimt fyrra ástands eftir því sem aðstæður séu til. Þá er krafist viðeigandi úrræða vegna athafna og athafnaleysis almanna­varna­deildar ríkislögreglustjóra og Grindavíkurbæjar. Verður það kærumál, sem er nr. 117/2021, sameinað máli þessu þar sem um sambærileg kæruefni og sömu aðila er að ræða í báðum málum, en hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grindavíkurbæ 5. júlí 2021.

Málavextir: Eldgos hófst í Geldingadölum á Reykjanesi 19. mars 2021 og þann sama dag var lýst yfir neyðarstigi almannavarna. Hinn 20. s.m. var ákveðið að lækka almannavarnastig úr neyðarstigi í hættustig. Hraun tók að renna úr Geldingadölum í Nátthaga 12. júní s.á. Í kjölfarið ákvað almannavarnadeild ríkislögreglustjóra að gera leiðigarð til að beina hraunrennsli frá Geldingadölum í Nátthaga til að verja Nátthagakrika fyrir hraunflæði og þar með að vernda innviði vestan við Nátthagakrika. Vinna við garðinn hófst 14. s.m. Gerður var neyðarruðningur til verndar vinnu- og efnistökusvæðum. Í lok þess dags hafði neyðarruðningi verið komið fyrir sem var um 1 m hærri en endir hraunrennslisins. Vinna hófst að nýju 15. s.m. og var unnið var við garðinn til 24. s.m. Degi síðar hófst gerð varnargarða ofan við Nátthaga til þess að tefja fram­gang hraunflæðis og verja Suðurstrandaveg ásamt öðrum mikilvægum innviðum.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er hvað kæruheimild varðar vísað til fullgildingar Íslands á Árósasamningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sbr. þingsályktun nr. 46/139 frá 16. september 2011, og lög nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og lög nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Vísað sé til skuldbindingar í 3. mgr. 9. gr. samningsins þar sem segi: „Til viðbótar og með fyrirvara um þær endurskoðunarleiðir sem vísað sé til í 1. og 2. mgr. hér að framan skal sérhver samningsaðili tryggja að uppfylli almenningur þau viðmiðunarskilyrði, ef einhver eru, sem mælst er fyrir um í landslögum skuli hann hafa aðgang að stjórnsýslu- og dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir og aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga og stjórnvalda, sem ganga gegn ákvæðum eigin landslaga um umhverfið, verði tekin fyrir.“ Þá sé vísað til almennra reglna íslensks stjórnsýsluréttar um kæruheimild til æðra stjórnvalds.

Kærendur telji dómstólameðferð ekki tiltækt úrræði í þessu máli. Ísland hafi valið að fara svokallaða stjórnsýsluleið við fullgildingu Árósasamningsins. Stjórnsýsluákvörðun samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 virðist ekki hafa verið tekin í málinu og njóti því ekki við kæruréttar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála skv. 52. gr. laganna. Ákvarðanir skv. lögum nr. 106/2000 hafi heldur ekki verið teknar sem séð verði að séu kæranlegar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Það sama eigi við um athafnir og athafnaleysi.

Um framkvæmdir sé að ræða sem leyfi þurfi til skv. 13. gr. skipulagslaga, en þær hafi ekki verið stöðvaðar af skipulagsfulltrúa Grindavíkurbæjar, svo sem skylt sé að gera skv. 53. gr. laganna þegar framkvæmdir séu hafnar án gilds framkvæmdaleyfis. Engar heimildir sé að finna í lögum nr. 82/2008 um almannavarnir til þeirra athafna eða athafnaleysis sem mál þetta fjalli um. Ekki liggi fyrir að Skipulagsstofnun, eða eftir atvikum Grindavíkurbær, hafi tekið ákvörðun skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, skv. 1., sbr. 2. viðauka laganna um að framkvæmd skuli eða skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þá liggi ekki fyrir að umhverfis- og auðlinda­ráðuneytið hafi tekið ákvörðun þá sem vísað sé til í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um þær athafnir er mál þetta fjalli um, eða hluta þeirra. Í ljósi málsmeðferðar dómsmálaráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, sem rakin hafi verið í máli úrskurðarnefndarinnar nr. 76/2021, sé kæra þessi send nefndinni.

Málsrök Grindavíkurbæjar: Af hálfu Grindavíkurbæjar er byggt á því að hvorugur kærandi njóti aðildarhæfis í málinu. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé meginreglan sú að aðeins þeir sem eigi lögvarða hagsmuni njóti kæruaðildar að málum fyrir nefndinni. Í sömu málsgrein sé að finna sérstaka undanþágu frá þeirri meginreglu. Þannig þurfi umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem hafi a.m.k. 30 félaga, ekki að sýna fram á lögvarða hagsmuni í þeim tilvikum að um nánar tilgreindar ákvarðanir eða ætluð brot gegn þátttökurétti sé að ræða, svo sem nánar sé afmarkað í stafliðum a.-d. í 3. mgr. 4. gr. laganna. Auk þess sé gerð krafa um að það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að. Jafnframt sé það gert að sérstöku skilyrði fyrir aðildarhæfi samkvæmt tilvitnuðu ákvæði að slík hagsmunasamtök gefi út ársskýrslur um starfsemi sína og hafi endurskoðað bókhald. Séu framangreind skilyrði ekki uppfyllt njóti viðkomandi hagsmunasamtök ekki aðildarhæfis fyrir úrskurðarnefndinni á grundvelli fyrrnefnds ákvæðis.

Kæra í máli þessu virðist byggð á því að sú framkvæmd, sem felist í gerð leiðigarða, sem beini hraunrennsli frá Geldingadölum í Nátthaga og þaðan til sjávar, eigi sér ekki stoð í lögum. Sækja hefði átt um framkvæmdaleyfi og þá hefði Grindavíkurbær átt að stöðva framkvæmdina fyrst ekki hafi verið sótt um leyfi. Í kærunni sé hvergi vikið að því hvaða hagsmunum kæran lúti eða hvaða hagsmuni kærendur hyggist verja með kæru sinni. Kæran virðist aðallega byggð á því að ekki hafi verið farið réttilega eftir skipulagslögum í aðdraganda gerðar leiðigarðanna. Þó ætla megi af nafni félagasamtakanna að náttúruverndarsjónarmið í einhverri mynd hafi verið höfð að leiðarljósi verði ekki hjá því litið að í engu sé fjallað um áhrif á umhverfið eða aðra hagsmuni er kæran lúti að. Því liggi ekki fyrir í málinu að uppfyllt sé það skilyrði aðildarhæfis að það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lúti að.

Samtökin Náttúrugrið sé nýstofnað félag en stofnfundur þess hafi verið haldinn 14. maí 2021. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess sé að standa vörð um líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands. Byggt sé á því að skilyrði 4. mgr. 4. gr. laganna um fjölda félagsmanna, endurskoðað bókhald og ársskýrslur séu ekki uppfyllt. Kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að áskilnaði laganna um fjölda félagsmanna sé uppfyllt. Þess í stað hafi stjórnarformaður félagsins fullyrt í fyrra máli að stofnfélagar væru 34 án þess að sú fullyrðing sé studd gögnum. Hvorki sé hægt að sjá af opinberum skrám né samþykktum samtakanna raunverulegan fjölda félagsmanna eða stofnfélaga við stofnun félagsins. Í áskilnaði laganna um endurskoðað bókhald felist að bókhald skuli vera yfirfarið af löggiltum endur­skoðanda. Engin gögn um bókhald félagsins eða ársskýrslur hafi verið lögð fram til þess að sýnt sé fram á að áskilnaður laganna sé uppfylltur. Þá sé engin tilraun gerð til þess í kæru að færa andlag kærunnar undir einhvern staflið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, sem undan­þágu­aðild hagsmuna­samtaka hvíli á. Sérstaklega megi taka fram, með vísan til niðurstöðu úrskurðar­nefndarinnar í kærumáli nr. 76/2021, að ekki verði séð að hinar kærðu framkvæmdir séu matsskyldar, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því geti d-liður 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 ekki átt við.

Með vísan til framangreinds líti Grindavíkurbær svo á að undanþáguskilyrði 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir aðild án lögvarinna hagsmuna séu ekki uppfyllt og kærandinn Náttúrugrið njóti  þ.a.l. ekki kæruaðildar til nefndarinnar. Beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Krafa um frávísun sé jafnframt byggð á því að kæran uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Í kæru sé um rökstuðning vísað til kæru í máli nr. 76/2021 og byggt sé á því að um brot á skipulagslögum sé að ræða. Engin rök sé að finna fyrir því í kæru að umrædd framkvæmd, þ.e. gerð leiðigarða til þess að hefta framgang glóandi hrauns nærri byggð og innviðum, fari gegn þeim hagsmunum sem umrædd samtök hafi sett sér markmið um að vernda, þ.e. líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni í náttúru Íslands. Þá sé hvergi í kærunni getið um málsástæður kæranda til stuðnings stöðvunarkröfunni. Þetta sé ófullnægjandi að mati Grindavíkurbæjar, m.t.t. lagaákvæðisins.

Hinn kærandinn sé formaður stjórnar Náttúrugriða. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geri skýra kröfu um að þeir einir sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta eigi aðild að kæru til nefndarinnar. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að skýra hagsmuni stjórnarformannsins af stöðvun framkvæmda við gerð leiðigarðs í Geldingadölum sem ætlað sé að varna hraunflæði og verja mikilvæga innviði á Reykjanesi, m.a. Grindavíkurbæ. Beri í það minnsta að vísa málinu frá hvað hann varði.

Jafnframt sé á því byggt að málið heyri ekki undir nefndina, sbr. niðurstöðu nefndarinnar í úrskurði í kærumáli nr. 76/2021. Ekki sé til staðar nein kæranleg ákvörðun samkvæmt skipulagslögum og kæruheimild verði ekki byggð á þeim lögum, hvorki vegna athafna Grindavíkurbæjar né athafnaleysis. Þá sé ekki að finna kæruheimild vegna málsins í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd eða lögum nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. einnig rökstuðning nefndarinnar í fyrrnefndum úrskurði. Beri því að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Málsrök ríkislögreglustjóra: Af hálfu ríkislögreglustjóra er bent á að í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 82/2008 um almannavarnir segi að lögin taki til samhæfðra almannavarnaviðbragða til þess að takast á við afleiðingar neyðarástands sem kunni að ógna lífi eða heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að almannavarnalögum segi að þeim sé ætlað að taka til samhæfðra viðbragða samfélagsins til þess að takast á við afleiðingar almannahættu, sem ógni lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum án tillits til þess af hvaða rótum almannahættan sé runnin. Í 2. mgr. 1. gr. sömu laga segi að markmið laganna sé að undirbúa, skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miði að því að koma í veg fyrir og takmarka, eftir því sem unnt sé, að almenningur verði fyrir líkams- eða heilsutjóni, eða umhverfi eða eignir verði fyrir tjóni, af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, farsótta eða hernaðaraðgerða eða af öðrum ástæðum og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kann að verða eða hefur orðið.

Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að almannavarnalögum komi fram að líkt og í þágildandi lögum sé markmiðið að undirbúa, skipuleggja og grípa til ráðstafana sem miði að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt sé, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, hernaðaraðgerða eða af annarri hættu og veita líkn í nauð og aðstoð vegna tjóns sem hugsanlega kunni að verða eða hafi orðið. Í 3. mgr. 6. gr. áðurgildandi laga nr. 94/1962 um almannavarnir, sbr. 3. gr. laga nr. 44/2003, hafi sagt að ríkislögreglustjóri skuli jafnframt stuðla að, fylgjast með og samræma ráðstafanir sem miði að því að draga úr líkum á líkams- og eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af annarri vá, svo sem með gerð varnarvirkja eða með öðrum verndarráðstöfunum. Núgildandi almannavarnarlög nr. 82/2008 hafi tekið við af lögum nr. 94/1962, en í eldri lögum hafi verið að finna ákvæði þess efnis að almannavörnum væri heimilt að leggja varnargarða.

Skýrlega komi fram í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að núgildandi almannavarnalögum, að markmið og gildissvið laganna sé rýmkað frá þágildandi lögum með áherslu á annars vegar fyrirbyggjandi ráðstafanir og hins vegar með gerð viðbragðsáætlana. Það sé því ljóst að það hafi verið markmið og tilgangur löggjafans að rýmka heimildir almannavarna, frá því sem verið hafi kveðið á um í eldri lögum, m.a. með áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir sem geti falist í því að grípa til framkvæmda eða stuðla að því með öðrum hætti að tjón á eignum, munum og lífi sé bjargað eftir fremsta megni, eða því sé ekki stefnt í voða. Það einskorðist ekki við að byggja varnargarða eða leiðigarða vegna eldgosa, heldur geti slíkar aðgerðir verið margskonar og margháttaðar. Ekki hafi staðið vilji til þess að tilgreina nákvæmlega í lögum til hvaða aðgerða almannavörnum sé heimilt að grípa með upptalningu, þar sem slíkt væri til þess fallið að binda hendur almannavarna. Þá hafi ekki verið hægt að sjá fyrir allar aðgerðir sem grípa þurfi til eða vinna að vegna náttúruhamfara eða almannahættu og því ekki fýsilegt að hafa nákvæma upptalningu.

Þessi túlkun sé í samræmi við núgildandi 7. gr. almannavarnalaga þar sem fjallað sé um verkefni ríkislögreglustjóra á sviði almannavarna. Þar segi í 1. mgr. ákvæðisins að ríkislögreglustjóri hafi umsjón með að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að almannavarnalögum segi um ákvæðið, að verkefni ríkislögreglustjóra séu hvorki tíunduð til hlítar né nefndar samstarfsstofnanir embættisins. Það sé hættumat, almannavarnastig og viðbragðsáætlanir sem ákvarði með hvaða ráðuneytum og stofnunum embættið starfi hverju sinni. Þá komi og fram að hættumat sé grundvöllur viðbragðsáætlana sem miði að því að koma í veg fyrir og takmarka eftir því sem unnt sé að almenningur verði fyrir líkams- eða eignatjóni.

Sé þetta í samræmi við það sem áður hafi verið rakið um breytingar á almannavarnalögum og þær heimildir sem felist í ákvæðum laga um almannavarnir. Þar með talið að gera varnargarða líkt og kveðið hafi verið á um í eldri lögum. Þær heimildir hafi ekki átt að takmarka með setningu almannavarnalaga nr. 82/2008.

Það hafi verið skilningur samstarfshóps um vernd mikilvægra innviða að hinar kærðu framkvæmdir hafi verið almannavarnaaðgerðir sem séu undir stjórn almannavarnadeildar ríkis­lögreglustjóra, byggðar á heimildum almannavarnalaga. Aðgerðir almannavarna miði alltaf að því að vinna í samræmi við þau markmið sem sett séu fram í 1. gr. almannavarnalaga. Þær aðgerðir sem standi fyrir dyrum í Geldingadölum og Nátthagakrika miði að því að vernda afar mikilvæga innviði í almannaþágu. Um sé að ræða orkuvirkjanir, vegi, samskiptamannvirki og tvö þéttbýl sveitarfélög sem orðið gætu hrauni að bráð ef ekkert sé að gert, þ.e. Grindavíkurbær og sveitarfélagið Vogar á Vatnsleysuströnd. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hafi í þessum framkvæmdum verið í samstarfi við yfirvöld sem leita beri til vegna slíkra framkvæmda og verði ekki annað ráðið en að þeir hafi verið samþykkir umræddum ráðstöfunum til að reyna að koma í veg fyrir eða tefja að flæðandi hraun tortími mikilvægum innviðum og heimilum fólks á þeim grundvelli að um almannavarnaástand sé að ræða.

Bent sé á að í 25. gr. almannavarnalaga sé heimild til leigunáms fasteigna í þágu almannavarna. Slíkri heimild hafi ekki þurft að beita þar sem eigandi landsins sé í samstarfi við yfirvöld. Í 2. mgr. 25. gr. segi að heimild skv. 1. mgr. feli enn fremur í sér að gera megi hverjar þær breytingar á viðkomandi fasteignum eða lausafjármunum sem þörf sé á til að þær komi að tilætluðum notum í þágu almannavarna. Fasteign skv. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sé afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgi og þeim mannvirkjum sem varanlega séu við landið skeytt. Í ljósi þess sem að framan sé rakið sé heimild í lögum um almannavarnir til að gera breytingu á fasteignum til að þær komi að tilætluðum notum í þágu almannavarna.

Embætti ríkislögreglustjóra og yfirvöld hafi í ákvarðanatöku sinni haft hliðsjón af meginreglum stjórnsýsluréttar, s.s. um meðalhóf og rannsóknarreglu. Í því felist að grípa ekki til úrræða sem hafi verulega íþyngjandi áhrif, ef önnur og viðurhlutaminni úrræði séu í boði. Með þeim aðgerðum sem nú standi yfir, sé verið að reyna að verja afar mikilvæga innviði og heimili fólks. Sé það gert með því að fara í eins lítið rask á náttúru og frekast sé unnt. Sé það með því að grípa snemma inn í ferlið. Þá sé við alla ákvarðanatöku byggt á nýjustu gögnum og upplýsingum vísindamanna um hraunflæði byggt á hermun, um hve lengi eldgosið gæti staðið yfir sem og magni hrauns. Þá hafi einnig verið lagt mat á þá hagsmuni sem séu undir.

Í kæru sé vísað til meginreglna laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en af því tilefni sé tekið fram að unnið hafi verið í samræmi við þær meginreglur sem þar komi fram í II. kafla laganna. Þar megi nefna almenna aðgæsluskyldu 6. gr. um að sýna ítrustu varúð þannig að náttúru verði ekki spillt við framkvæmdir og önnur umsvif sem megi með sanngirni ætlast til að gera skuli. Þá hafi verið lagður vísindalegur grundvöllur að allri ákvarðanatöku, líkt og fram komi í 8. gr. laganna og rakið hafi verið að framan. Þá hafi verið leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum sbr. 9. gr. laganna.

Bent sé á að í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafi á umhverfið og breyti ásýnd þess, svo og breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Þó þurfi ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar séu byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Í 6. gr. laga nr.  106/2000 séu skilgreindar þær framkvæmdir sem kunni að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, þ.e. framkvæmdir sem tilgreindar séu í flokki B og flokki C í 1. viðauka laganna. Í 7. gr. sömu laga sé fjallað um aðrar framkvæmdir sem hugsanlega séu matsskyldar.

Það sé mat almannavarna að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða í skilningi skipulags­laga eða laga nr. 106/2000, enda séu varnargarðar vegna yfirstandandi eldgoss þegar unnið sé á almannavarnastigi, ekki nefndir í viðauka 1 með lögum um mat á umhverfisáhrifum. Heimild til umræddra framkvæmda sé þvert á móti að finna í almannavarnalögum. Verði samt sem áður talið að gerð varnargarða vegna yfirstandandi eldgoss falli undir gildissvið skipulagslaga og laga um mat á umhverfisáhrifum þá gildi ólögfest meginregla um neyðarrétt til að bregðast við til varnar mikilvægum innviðum á hættustundu. Þar skipti skjótar ákvarðanatökur verulega miklu máli og það verði að vera svigrúm til að bregðast við á neyðarstundu.

Þá skuli og bent á að í 2. mgr. 28. gr. almannavarnalaga segi að rannsóknarnefnd almannavarna skuli að loknu hættuástandi rannsaka þær viðbragðsáætlanir sem stuðst hafi verið við og viðbrögð viðbragðsaðila. Í IX. kafla almannavarnalaga sé svo að finna frekari ákvæði um hlutverk og rannsóknarheimildir nefndarinnar. Að mati embættis ríkislögreglustjóra sé um að ræða framkvæmdir sem byggi á ákvæðum almannavarnalaga og þá komi til kasta rannsóknarnefndar almannavarna að rannsaka þær framkvæmdir sem ráðist hafi verið í.

Ljóst sé af því sem að framan hafi verið rakið að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra sé beinlínis skylt að ráðast í þær fyrirbyggjandi aðgerðir að gera varnar- og leiðigarða til að vernda þá hagsmuni sem taldir séu upp í almannavarnalögum. Skipulagslög og lög um mat á umhverfisáhrifum nái ekki til þeirra aðgerða sem standi yfir.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Um kæruheimild vísa kærendur í kæru sinni til samnings efnahagsnefndar Evrópu um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, Árósasamningsins, sem fullgiltur var í kjölfar þingsályktunar nr. 46/139 frá 16. september 2011, svo og til laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og laga nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósa­samningsins. Gera kærendur þó ekki athugasemd við að kæru­efnið teljist eiga undir lög nr. 130/2011 þar sem brotið hafi verið gegn lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Ísland hefur tekið á sig ákveðnar skuldbindingar með aðild sinni að Árósasamningnum. Samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu nefnds samnings, og til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum, hlutu meðferð Alþingis frumvörp sem síðar urðu að fyrrnefndum lögum nr. 130/2011 og lögum nr. 131/2011. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Löggjafinn hefur því tekið afstöðu til þess hvernig uppfylla skuli tilteknar samningsskyldur Íslands skv. Árósasamningnum, þ. á m. hvaða ágreiningur verði borinn undir úrskurðarnefndina. Samkvæmt fyrrnefndri 1. gr. laga nr. 130/2011 þarf að vera til staðar sérstök lögbundin kæruheimild hverju sinni og verður ekki byggt á Árósasamningum eingöngu til að unnt sé að bera mál undir nefndina.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga. nr. 130/2011 geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir eða ætlað brot á þátttökurétti almennings til úrskurðar­nefndarinnar. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga teljast eiga lögvarinna hagsmuna að gæta þegar um tilteknar ákvarðanir og ætlað brot á þátttökurétti er að ræða. Í d-lið nefnds ákvæðis er athöfn eða athafnaleysi stjórnvalda sem lýtur að þátttökurétti almennings samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nefnt sérstaklega.

Fjallað er um matsskyldu í III. kafla laga nr. 106/2000. Ekki verður séð að hinar kærðu framkvæmdir eigi undir lögin skv. 5. gr. laganna, sbr. og 1. viðauka við þau, auk þess sem ekki liggur fyrir ákvörðun skv. 6. gr. þeirra um að þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Er rétt í þessu sambandi að benda á að skv. 8. mgr. nefndrar 6. gr. er öllum, þ. á m. kærendum, heimilt að bera fram fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort tiltekin framkvæmd falli í flokk B eða C í 1. viðauka við lögin og skal stofnunin þá leita upplýsinga um framkvæmdina hjá framkvæmdaraðila og leyfisveitanda og taka ákvörðun um hvort hún eigi undir lagagreinina.

Sveitarstjórn veitir framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 52. gr. laganna kemur fram að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæruheimild samkvæmt lögunum er því bundin við að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin en í máli þessu liggur fyrir að engin stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdaleyfi. Er því ekki til staðar kæranleg ákvörðun samkvæmt skipulagslögum. Þó skal tekið fram að skv. 1. mgr. 53. gr. laganna skal skipulagsfulltrúi stöðva framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd, sem hafin er án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið fengið, tafarlaust og leita staðfestingar sveitarstjórnar. Í 3. mgr. 53. gr. kemur svo fram að ef 1. og 2. mgr. eigi við geti skipulagsfulltrúi krafist þess að hin ólöglega framkvæmd sé fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Framangreindar ákvarðanir, eða synjun skipulagsfulltrúa um að beita slíkum þvingunarúrræðum, eru eftir atvikum kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar skv. 52. gr. skipulagslaga, svo fremi sem uppfyllt eru skilyrði kæruaðildar fyrir nefndinni, s.s. um að viðkomandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun sem kærð er, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá þykir rétt að benda á að heimild 8. mgr. 13. gr. skipulagslaga til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar, leiki vafi á því hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum um framkvæmdaleyfi, er bundin við umsækjanda um framkvæmdaleyfi og hlutaðeigandi sveitarstjórnaryfirvöld.

Ekki er að finna almenna kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála  í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd, heldur eingöngu vegna ákvarðana Umhverfisstofnunar skv. 63. gr., sbr. 91. gr., en engin slík ákvörðun hefur verið tekin í máli þessu. Rétt þykir þó að benda á að skv. 2. mgr. 13. gr. laganna fer Umhverfisstofnun m.a. með eftirlit með framkvæmd laganna, en í því eftirlitshlutverki stofnunarinnar felst m.a. eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum, sbr. a-lið 2. mgr. 75. gr. laganna. Hefur stofnunin eftir atvikum heimild til beitingar þvingunarúrræða skv. XV. kafla nefndra laga. Kærendur hafa því þann möguleika að vekja athygli stofnunarinnar á hinum kærðu framkvæmdum.

Kærendur hafa einnig vísað til athafnaleysisbrots þar sem „framkvæmdaraðili hafi ekki sent og Grindavíkurbær ekki fjallað um framkvæmdaleyfisumsókn og að skipulagsfulltrúi Grinda­víkur­bæjar hafi ekki aðhafst til að stöðva óleyfisframkvæmd.“ Enga kæruheimild er hins vegar að finna í skipulagslögum vegna slíks athafnaleysis. Hér þykir þó rétt að benda á að skv. 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eftirlit með því að sveitarfélög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum, en kærendum hefur áður verið leiðbeint um þessar almennu yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir. Hins vegar þykir ekki rétt að framsenda kæru þessa til ráðuneytisins þar sem kæruheimild skv. 111. gr. sveitarstjórnarlaga lýtur aðeins að stjórnvaldsákvörðunum, en ekki verður séð að slík ákvörðun hafi verið tekin í máli þessu. Í þessu samhengi er þó sérstaklega bent á að ráðuneytið getur að eigin frumkvæði gefið út álit um lögmæti athafna eða athafnaleysis sveitarfélags, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 112. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu er ekki til staðar nein sú ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem sætt getur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar. Kærumáli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

29/2021 Skólavörðustígur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunar­húsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 30, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 31. mars 2021 var stöðvunar­kröfu kæranda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. mars 2021.

Málavextir: Á svæði því sem lóðirnar Skólavörðustígur 30 og 36 tilheyra er í gildi deili­skipu­lag Lokastígsreita, staðgreinireita 1.181.2., 1.181.3. og 1.181.4. Lóðin Skólavörðu­stígur 36 er stað­sett á reit 1.181.4., Lokastígsreit 4. Um þann reit segir nánar í greinargerð deili­skipulagsins að þar sé yfirbragð byggðarinnar fremur lágt og þétt. Flest húsanna séu tví- eða þrílyft með risi. Við Lokastíg og Baldursgötu sé röð stakstæðra húsa en við Skólavörðustíg séu þau ýmist stakstæð eða sambyggð. Sameiginlegir sérskilmálar gilda fyrir reiti tvö, þrjú og fjögur. Þar er m.a. tiltekið að heimilt sé að byggja litlar geymslur á baklóð, allt að 6 m2, þar sem aðstæður leyfi, og litlar viðbyggingar allt að 12 m2 í samræmi við byggingarstíl húsa. Ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum sé minni en 3,0 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hinn 4. júlí 2018 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Skólavörðustígs 36. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að auka byggingar­magn á 1. hæð að suðvestur lóðarmörkum, nýta þakhæð 1. hæðar að hluta sem þaksvalir og stækka og hækka stigahúsið. Heimilað byggingarmagn á lóðinni eftir breytingu er 281,5 m2. Lóðin er 216 m2 að flatarmáli og er nýtingarhlutfall hennar þar með 1,3.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. október 2020 var samþykkt leyfi fyrir áður framkvæmdu niðurrifi húss að Skólavörðustíg 36. Þá var jafnframt samþykkt byggingarleyfis­umsókn um byggingu þriggja hæða staðsteypts húss á lóðinni með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð. Fyrirhugað hús yrði samtals 314,8 m2 og nýtingarhlutfall þess 1,45. Kærandi í máli þessu kærði framangreint leyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með kæru, dags. 18. nóvember 2020. Máli því lauk með úrskurði í máli nr. 121/2020 frá 22. desember s.á. Var ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunar­húsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóðinni nr. 36 við Skólavörðustíg felld úr gildi þar sem nýtingarhlutfall lóðarinnar var yfir því hámarki sem deiliskipulag svæðisins heimilaði. Lóðarhafi Skólavörðu­stígs 36 sótti í kjölfarið um byggingarleyfi sem var veitt 2. mars 2021. Er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að nýtingarhlutfall sé enn of hátt. Komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa að svo sé og ekki virðist hafa verið bætt úr því til fulls við útgáfu leyfisins. Í bókun byggingarfulltrúa 2. mars 2021 sé stærð nýbyggingar sögð vera samtals 294,0 m2 en hún megi mest vera 281,5 m2 samkvæmt skipulagi.

Það hafi verið andstætt skipulagi að heimila, án samþykkis kæranda, þá hluta byggingarinnar sem hefðu verið viðbyggingar við eldra hús á lóðinni ef það hefði staðið áfram eins og mælt hafi verið fyrir um í skipulaginu. Húsið að Skólavörðustíg 36 standi á lóðarmörkum gagnvart lóð kæranda og sé skýrt og afdráttarlaust að í skilmálum deiliskipulagsins frá 2009 og breytingu sem á því hafi verið gerð 2018 að slíkar byggingar verði ekki leyfðar nema með samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Hafi það jafnframt verið áréttað í svari við athugasemdum sem kærandi hafi gert við skipulagsbreytinguna 2018, að ekki væri hægt að byggja svo nálægt lóðar­mörkum, þ.e. nær en 3 m, nema fyrir lægi skriflegt samþykki lóðarhafa næstu lóðar.

Augljóst sé að þetta eigi við um þann hluta nýbyggingarinnar sem sé á einni hæð til suðvesturs á baklóð, enda væri þar um viðbyggingu við eldra hús að ræða, ef það hefði staðið áfram eins og skipulagið hafi gert ráð fyrir og nái sú bygging að lóðarmörkum. Einnig verði að telja að hið sama eigi við um nýja og hækkaða þakhæð, þ.e. 3. hæð, framhússins, sem einnig hefði skoðast sem viðbygging við eldra hús ef það hefði staðið. Þessi hækkun sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda þar sem hún skerði mjög útsýni frá efstu hæð húss hans. Þessa hluta byggingarinnar hafi byggingarfulltrúi ekki mátt leyfa án þess að fyrir lægi skriflegt samþykki kæranda og hafi leyfið að þessu leyti farið í bága við skilmála skipulagsins. Engin heimild hafi verið til að víkja frá þeim, enda ríkir hagsmunir kæranda í húfi. Byggingarleyfi sem fari í bága við deiliskipulag sé ólögmætt og beri að ógilda það.

Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 12. febrúar 2021 segi að skriflegt samþykki nágranna þurfi ekki að liggja fyrir við veitingu leyfisins. Sé umsögnin á því byggð að áskilnaður um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða eigi aðeins við um þær heimildir sem taldar séu upp í kafla 1A, Byggingarmöguleikar, allar lóðir, en þar sé um að ræða heimildir fyrir minni háttar við­byggingum og litlum geymslum á baklóð. Hins vegar eigi áskilnaðurinn um samþykki lóðar­hafa aðliggjandi lóða ekki við um heimildir sem falli undir kafla 1B, Byggingarmöguleikar, einstakar lóðir. Framangreint komi þó hvergi fram berum orðum í skilmálunum. Þvert á móti komi fram að ákvæði skilmálanna í kafla 1A gildi fyrir allar lóðir. Þar sé m.a. að finna það ákvæði sem áskilji samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þegar um viðbyggingar sé að ræða, ef fjarlægð frá lóðarmörkum sé minni en 3 m. Hvergi sé tekið fram að þetta eigi bara við um þær smáu viðbyggingar sem heimilaðar séu samkvæmt kafla 1A.

Gera verði ríkar kröfur til þess að skilmálar í deiliskipulagi gróinna hverfa, sem feli í sér takmarkanir á eignarrétti eigenda þeirra fasteigna sem fyrir séu á svæðinu, séu skýrir og ótvíræðir til þess að þeim verði beitt án samþykkis eigenda nærliggjandi eigna. Því fari fjarri að svo hafi verið í þessu tilviki. Raunar sé það svo að skipulagsfulltrúi hafi áður túlkað þetta ákvæði svo að það ætti við um þær viðbyggingar við Skólavörðustíg 36 sem heimilar séu samkvæmt skipulaginu eftir þá breytingu sem á því hafi verið gerð árið 2018. Komi sú túlkun berlega fram í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem nágrannar hafi gert við skipulagstillöguna en þar segi m.a: „Núverandi deiliskipulag leyfir hækkun á risi en annars er ekki um hækkun á sjálfu húsinu. Það er rétt sem að bréfritari leggur áherslu á – í texta deiliskipulagsins kemur fram að „ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkun er minni en 3 m þarf samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða“ þessi grein er enn í fullu gildi. Ekki er hægt að byggja svo nálægð lóðarmörkum nema að fyrir liggi skriflegt samþykki nærliggjandi lóðarhafa.“ Síðar segi: „Tekið er undir með bréfritara ábendingar hans og athugasemdir á mörkum landnotkunar skv. aðalskipulagi og er því enn mikilvægara það ákvæði í deili­skipulaginu er varðar 3ja metra frá lóðarmörkum og að full sátt verði á milli lóðarhafa um slíkar framkvæmdir.“

Með breytingunni sem gerð hafi verið á skipulaginu 2018 hafi einungis verið breytt sérskilmálum fyrir lóðina nr. 36 við Skólavörðustíg, þ.e. skilmálum sem falli undir kafla 1B í upphaflega skipulaginu. Ef skipulagsyfirvöld hefðu á þessum tíma túlkað skipulagið á þann veg sem þau geri nú, þá hefði átt að svara athugasemdum nágranna varðandi ákvæðið um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða, á þann veg að það ætti ekki við þar sem um væri að ræða breytingu á sérskilmálum í kafla 1B, en ákvæðið ætti aðeins við um heimildir samkvæmt kafla 1A. Þetta hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi mikilvægi ákvæðisins þvert á móti verið áréttað og staðfest að greinin væri í fullu gildi og sérstaklega bent á að ekki væri hægt að byggja svo nálægt lóðarmörkum nema að fyrir lægi skriflegt samþykki lóðarhafa næstu lóðar.

Að fengnum þessum svörum hafi nágrannar ekki talið ástæðu til að fylgja málinu frekar eftir með því t.d. að kæra umrædda skipulagsbreytingu eða bera hana undir dómstóla. Verði fallist á þá túlkun sem nú sé teflt fram blasi við að borgaryfirvöld hafi með röngum og villandi svörum við athugasemdum nágranna svipt þá möguleikum á að gæta hagsmuna sinna í samræmi við lög. Sé einnig ljóst að ekki sé boðlegt að túlka skilmála skipulags eftir hentugleika hverju sinni.

Framsetning skipulagsbreytingarinnar frá 2018 gefi ekki tilefni til annarrar túlkunar en þeirrar, að ákvæðið um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða sé áskilið fyrir þeim viðbyggingum sem heimilaðar hafi verið með breytingunni. Reglan sé áréttuð í skilmálum í kafla 1A og sögð gilda um allar lóðir á skipulagssvæðinu án þess að þess sé getið að hún eigi ekki við um sérskilmála í kafla 1B. Sé þess kafla raunar hvergi getið í skipulagsbreytingunni. Einnig sé afar villandi að taka ákvæðin í kafla 1A upp í breytinguna, eins og gert sé, ef niðurstaðan sé að kaflinn eigi ekki að neinu leyti við um breytinguna. Allt sé þetta svo óljóst og villandi að fráleitt sé að nágrannar séu bundnir af þeirri túlkun á skilmálum skipulagsins sem nú sé teflt fram, þvert á það sem áður hafi komið fram í svörum við athugasemdum og ráða megi af umræddri breytingu.

Jafnvel þótt fallist yrði á að beita ætti þeirri túlkun á skilmálum sem borgaryfirvöld vilji nú leggja til grundvallar þá verði þeirri túlkun ekki beitt um þá hluta nýbyggingarinnar sem verið hefðu viðbyggingar við eldra hús að Skólavörðustíg 36. Ástæðan sé sú að með svörum við athugasemdum frá 2. júlí 2018 hafi borgaryfirvöld sérstaklega skuldbundið sig til að virða áskilnað í skipulagi um samþykki nágranna varðandi þær auknu byggingarheimildir sem heimilaðar hafi verið að Skólavörðustíg 36 með skipulagsbreytingunni 2018. Skuldbinding um að veita ekki leyfi án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar hafi með öðrum orðum legið fyrir um þessar tilteknu viðbyggingar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt samþykktu deiliskipulagi Lokastígsreits 4, staðgreinireit 1.181, með síðari breytingum sé heimilt að byggja á lóðinni mannvirki að hámarki 281,5 m2 með nýtingarhlutfalli 1,3. Samkvæmt deiliskipulagi skuli vera verslun/þjónusta á 1. hæð en íbúðir séu heimilaðar á 2.-3. hæð.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sem fylgt hafi umsókn um byggingarleyfi BN058674 sé heildarflatamál fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni 281,2 m2. Skiptist flatarmál mannvirkisins með þeim hætti að A-rými 1. hæðar sé 114,3 m2, 2. hæðar 78,7 m2 og 3. hæðar 78,4 m2. B-rými séu 9,8 m2 og öll á 2. hæð. Samtals sé því flatarmál A-rýma 271,4 m2 og B-rýma 9,8 m2. Flatarmál A- og B-rýma sé því samtals 281,2 m2. Flatarmál lóðarinnar sé 216 m2 og nýtingar­hlutfall sé því 1,3. Því sé ljóst að samþykkt mannvirki sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag hvað varði nýtingarhlutfall.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem aflað hafi verið fyrir afgreiðslu byggingarfulltrúa á hinni kærðu ákvörðun, komi fram „að heimild sé á öllum lóðum reitsins til að byggja minniháttar við­byggingar, litlar geymslur og svalir. Byggja má nýjar svalir utan byggingarreita. Þar sem ekki er um byggingarreit að ræða er átt við útmörk húsa. Þær eiga að falla vel að stíl húsa og mega ekki koma nær lóðarmörkum en sem nemur dýpt þeirra þar sem um randbyggð er að ræða. Svalir mega ekki vera dýpri en 1,5m. Ekki eru skilgreindir byggingarreitir fyrir þessar framkvæmdir og engin aukning á byggingarmagni kemur fram í töflu vegna þeirra. Minni háttar heimildir sbr. kafla 1.A eru heimilar þar sem aðstæður leyfa og ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum er minni en 3 m þarf samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða að liggja fyrir.“ Þetta sé í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar hafi verið um fjarlægð smáhýsa á lóð og viðbygginga, þ.e. 3 m frá lóðarmörkum ef samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar liggi ekki fyrir, sjá gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki verði séð af skilmálum deiliskipulagsins að krafa sé gerð almennt um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna byggingar­leyfis, ef mannvirki sé nær lóðarmörkum en 3 m. Augljóst megi vera að slíkt sé ekki ætlunin, enda geri deiliskipulagið ráð fyrir að byggt sé út að lóðarmörkum. Að auki hafi eldra mannvirki verið byggt út í lóðarmörk.

Einnig komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa að í kafla 1.B Byggingarmöguleikar í deili­skipulagi séu einstaka lóðir skilgreindar með auknum byggingarheimildum, hér á meðal að Skóla­vörðu­stíg 36. Byggingarreitir séu skilgreindir á uppdrætti og aukning á byggingarmagni komi fram í töflu. Skriflegt samþykki nágranna þurfi ekki að liggja fyrir þegar um sé að ræða byggingarheimildir sem skilgreindar séu í kafla 1.B, þ.e. auknar heimildir innan skilgreindra byggingarreita.

Tekið sé undir afstöðu skipulagsfulltrúa og ítrekað að heimilt sé samkvæmt deiliskipulagi að byggja út að lóðarmörkum innan byggingarreits. Verði kafli 1.B í deiliskipulagsskilmálum ekki túlkaður með þeim hætti sem gert sé í kæru. Að mati byggingarfulltrúa sé skýr heimild til staðar í deiliskipulagi til þess að samþykkja mannvirki sem sé innan byggingarreits samkvæmt deili­skipulagi, án þess að til komi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Samskipti þau sem kærandi vísi til frá árinu 2018 taki einungis til þess sem fram komi í kafla 1.A um fjarlægð geymslna og viðbygginga frá lóðarmörkum, en geti með engu móti tekið til mannvirkjagerðar sem sé innan byggingarreits samkvæmt deili­skipulagi. Áréttingin sé einungis um aðra hluti, s.s. stakar geymslur, sem kunni að verða byggðar á lóðinni.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að í deiliskipulagi fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4, sem samþykkt hafi verið 10. desember 2009 séu sameiginlegir skilmálar sem gildi fyrir alla reitina þrjá og svo sérskilmálar fyrir hvern reit fyrir sig. Lóð kæranda og lóð leyfishafa tilheyri Lokastígsreit 4 og séu staðsettir á staðgreinireit nr. 1.181.4. Samkvæmt sameiginlegum sérskilmálum fyrir allar lóðir á reitum 2, 3 og 4 sé heimilt samkvæmt deiliskipulaginu að byggja kvisti á risþök í samræmi við byggingarreglugerð og byggingarstíl húsa. Þá sé heimilt að byggja litlar viðbyggingar við húsin allt að 12 m2, svalir utan byggingarreita að hámarksdýpt 1,5 m og þar sem aðstæður leyfi að byggja litlar geymslur allt að 6 m2. Tekið sé fram að ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum sé innan við 3 m þurfi samþykki lóðarhafa að­liggjandi lóða.

Sérskilmálar fyrir reitina þrjá lúti m.a. að byggingarmöguleikum, verndun húsa og tillögu að friðun. Í sérskilmálum deiliskipulagsins á Lokastígsreit 4 hafi verið gert ráð fyrir auknu byggingarmagni, m.a. á lóðum nr. 30 og 36 við Skólavörðustíg. Á lóð nr. 36 sé heimilt að auka byggingarmagn á lóð með því að hækka ris, þ.a. nýtingarhlutfall lóðar aukist úr 0,69 í 0,92, og á lóð nr. 30 sé heimilt að rífa bílskúr og byggja 1. hæðar viðbyggingu í sömu gólfhæð og kjallari. Viðbygging skuli tengjast eldra húsi með gleri í vegg og þaki, þ.a. nýtingarhlutfall lóðar aukist úr 1,05 í 1,30. Árið 2018 hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi reits 1.181.4, Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg. Í breytingunni hafi falist sá sérskilmáli fyrir lóðina að auka mætti byggingarmagn á 1. hæð að lóðarmörkum í suðvestur, nýta þakhæð 1. hæðar að hluta sem þaksvalir og stækka og hækka stigahúsið. Eftir þessa breytingu hafi nýtingarhlutfall lóðarinnar verið 1,3.

Samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þurfi ekki vegna byggingarheimilda samkvæmt sér­skilmálum um einstakar lóðir sem séu í samræmi við deiliskipulag. Sú krafa sem komi fram í sameiginlegum skilmálum fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4 um öflun samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða eigi ekki við um sérskilmála deiliskipulags um heimild til aukins byggingar­magns á einstökum lóðum á Lokastígsreit 4, eða staðgreinireit 1.181.2.

Kærandi þurfi þannig ekki, sæki hann um leyfi til að rífa bílskúr og byggja 1. hæðar við­byggingu í sömu gólfhæð og kjallari eins og samþykkt sé í deiliskipulagi, að afla leyfis lóðar­hafa aðliggjandi lóðar eða lóðar nr. 36. Hið sama gildi um leyfishafa sem sótt hafi um og fengið samþykkt leyfi til að byggja hús á lóð sinni í samræmi við samþykkt deiliskipulag á lóðinni. Byggingareitur, byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðarinnar sé skilgreint á uppdrætti er hafi fylgt breytingu á deiliskipulagi. Samþykkt byggingarleyfi sé í einu og öllu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Hvað varði sameiginlega skilmála deiliskipulags frá árinu 2009 fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4, um heimild til að byggja kvisti á risþök í samræmi við byggingarreglugerð og byggingarstíl húsa, sé í skilmálum ekki gert að skilyrði að afla þurfi samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða. Skilyrðið um samþykki eigi einungis við ef fjarlægð viðbygginga allt að 12 m2 að flatarmáli og geymslna allt að 6 m2 að flatarmáli sé innan við 3 m frá lóðarmörkum.

Kærandi hafi áður krafist þess að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi vegna lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg verði felld úr gildi. Hafi því máli lokið með því að úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi byggingarleyfi þar sem það hafi ekki verið í samræmi við heimilað nýtingarhlutafall lóðarinnar. Leyfishafi uppfylli nú skilyrði um byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið gerðar athugasemdir sem fyrst og fremst hafi lotið að uppdráttum og byggingarreit. Þau atriði hafi verið lagfærð og ekki hafi verið gerðar frekari athugasemdir.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að það kunni að vera að sú túlkun að skýra verði skilmála skipulagsins á þann veg að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þurfi ekki að liggja fyrir þegar um framkvæmdir sé að ræða sem eigi stoð í sérskilmálum einstakra lóða, sé í samræmi við það sem höfundar skipulagsins ætluðust fyrir. Þetta komi hins vegar hvergi fram í skilmálum skipulagsins. Þvert á móti segi þar að skilmálar í kafla 1.A gildi um allar lóðir, en í þeim kafla sé að finna ákvæðið um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða ef fjarlægð frá lóðarmörkum sé innan við 3 m. Skilmálar í skipulagi verði að vera borgurunum skiljanlegir og leiki vafi á um túlkun þeirra gildi sá skilningur sem hafi minnsta röskun í för með sér fyrir íbúa og eigendur fasteigna á skipulagssvæðinu. Þá gildi einnig að til þess að takmarka rétt lóðarhafa á skipulagssvæði þurfi heimild í skipulagi að vera ótvíræð.

Í greinargerð borgaryfirvalda segi: „Samskipti sem kærandi vísar til frá árinu 2018 taka einungis til þess sem fram kemur í 1.A um fjarlægð geymslna og viðbygginga frá lóðar­mörkum, enda geta með engu móti tekið til skipulagslegra heimilaðra mannvirkjagerðar sem eru innan byggingarreits skv. deiliskipulagi. Áréttingin er einungis um aðra hluti, s.s. stakar geymslur, sem kunna að verða byggðar á lóðinni.“ Við þetta sé það að athuga að þau samskipti sem vísað sé til séu athugasemdir kæranda við tillögu að breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis og svör borgarinnar við þeim, en þegar til þess sé litið að umrædd deiliskipu­lagsbreyting hafi aðeins falið í sér breytingu á sérskilmálum einnar lóðar sé ekki hægt að skilja umrætt svar borgarinnar á annan veg en þann að ákvæði skilmálanna um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar gildi um byggingar sem reistar séu með stoð í sérskilmálum einstakra lóða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Á svæði því sem lóðirnar Skólavörðustígur 30 og 36 tilheyra er í gildi deili­skipulag Lokastígsreita, staðgreinireita 1.181.2, 1.181.3 og 1.181.4, sem samþykkt var í borgarráði 10. desember 2009. Lóðin Skólavörðu­stígur 36 er staðsett á reit 1.181.4, Lokastígsreit 4. Greinargerð og skilmálar með framangreindu deiliskipulagi skiptast í fjóra hluta. Fyrst eru raktir almennir skilmálar/kvaðir sem virðast eiga að taka til mun stærra svæðis en deiliskipulagið. Næst er fjallað um sameiginlega sérskilmála fyrir reiti 2, 3 og 4, sem er allt deiliskipulagssvæðið. Þá er fjallað um sérskilmála fyrir reit 4 og að lokum eru skilmálar fyrir hverja og eina lóð.

Í sameiginlegum sérskilmálum fyrir reiti 2, 3 og 4 kemur fram í kafla 1.A Byggingar­möguleikar, allar lóðir: „[h]eimilt er að byggja kvisti á risþök í samræmi við byggingar­reglugerð og byggingarstíl húsa og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1.0 m. Heimilt er að byggja litlar viðbyggingar við húsin, allt að 12 m2 í samræmi við byggingarstíl húsa. Byggja má nýjar svalir utan byggingarreita. Þar sem ekki er um byggingarreit að ræða er átt við útmörk húsa. Þær eiga að falla vel að stíl húsa og mega ekki koma nær lóðar­mörkum en sem nemur dýpt þeirra þar sem um randbyggð er að ræða. Svalir mega ekki vera dýpri en 1,5 m. Þar sem aðstæður leyfa er heimilt að byggja litlar geymslur á baklóð um allt að 6 m2. Hámarkshæð er 2,5 m. Ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum er minni en 3,0 m þar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Allar stærðir eru til viðmiðunar, nánari útfærslu skal sýna á byggingarnefndarteikningum.“

Um nýbyggingu er að ræða en hvorki viðbyggingu eða geymslu. Þrátt fyrir að hinar ýmsu stærðir séu taldar upp í framangreindum kafla 1.A endar kaflinn á að tiltaka sérstaklega að stærðirnar séu til viðmiðunar og nánari útfærslu skuli sýna á teikningum. Verður því ekki ályktað að þær stærðir sem fram koma í kafla 1.A séu án frávika. Sérstaklega er tekið fram að nánari útfærslu skuli sýna á byggingarnefndarteikningum. Er og sýnt á samþykktum aðalupp­drætti að byggt er nær lóðarmörkum en sem nemur 3 m. Í ljósi þess sem að framan er rakið verður þó ekki talið að fortakslaus skylda hafi verið til að afla samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna hins kærða byggingarleyfis.

Í sérskilmálum fyrir reit 4 segir í kafla 1.B Byggingarmöguleikar, einstakar lóðir: „Tillagan gerir ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóðum Skólavörðustígs 30, 36, 40, 44 og 44A, Lokastíg 21 og Njarðargötu 61. Heimilaðar hækkanir einstakra húsa skulu vera eins og teikningar og skilmálar sýna.“ Í þeim skilmálum kemur einnig fram að nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg sé 0,92. Deiliskipulagsbreyting vegna Skólavörðustígs 36 var samþykkt í borgarráði 19. júlí 2018. Sætti breytingin ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og verður ekki um málsmeðferð hennar fjallað, en kærandi getur eftir atvikum borið þá breytingu undir dómstóla. Í umræddri breytingu fólst að byggingarmagn var aukið úr 200,0 m2 í 281,5 m2. Nýtingarhlutfall var að sama skapi aukið úr 0,92 í 1,3. Þá var skilmálum lóðarinnar breytt þannig að heimilt er að auka byggingarmagn á 1. hæð að suðvestur lóðarmörkum, heimilt er að nýta þakhæð 1. hæðar sem þaksvalir með dýpt allt að 3 m og heimilt er að stækka og hækka stigahúsið.

Í hinum árituðu aðaluppdráttum kemur fram að A-rými á 1. hæð séu 114,3 m2, 78,7 m2 á 2. hæð og 78,4 m2 á 3. hæð. Segir svo að heildarflatarmál A-rýma sé 267 m2. Séu framangreindar stærðir lagðar saman sést hins vegar að heildarflatarmál A-rýma er 271,4 m2. Í áritaðri skráningartöflu kemur fram að heildarflatarmál A-rýma á 1. hæð sé 112,8 m2, 77,1 m2 á 2. hæð og 77,1 m2 á 3. hæð, sem eru samtals 267 m2. Flatarmál B-rýma er 9,8 m2. Heildarflatarmál A- og B-rýma er því 276,8 m2 eða 281,2 m2, eftir því hvora samtölu A-rýma er miðað við. Þrátt fyrir framangreint misræmi eru báðar tölurnar lægri en heimilað hámarksbyggingarmagn, sem er líkt og áður segir 281,5 m2 og verður ekki talið að misræmi þetta varði ógildingu byggingarleyfisins. Lóðarstærð Skólavörðustígs 36 er 216,0 m2 og er nýtingarhlutfall nýbyggingarinnar því 1,28 eða 1,3 eftir því hvor samtala heildarflatarmáls er notuð. Hvort tveggja er heimilt samkvæmt deiliskipulagi svæðisins.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið eru ekki þeir annmarkar á hinu kærða byggingarleyfi sem raskað geta gildi þess, enda rúmast efni leyfisins innan heimilda gildandi skipulagsáætlana, sbr. 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunar­húsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

95/2021 Hleinar

Með

Árið 2021, mánudaginn 19. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir.

Mál nr. 95/2021, kæra á afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs á fundi 21. júní 2021 um að grenndarkynna byggingaráform í landi Hleina 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Hleinum, Múlaþingi, þá afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs frá 21. júní 2021 að grenndarkynna byggingaráform þeirra. Er þess krafist að afgreiðslan verði felld úr gildi og byggingarleyfi verði veitt.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Múlaþingi 9. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Kærendur, eigendur jarðarinnar Hleinar 1, sóttu um byggingarleyfi fyrir 95 m2 skemmu hinn 12. maí 2021. Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings leitaði umsagna  Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Brunavarna á Austurlandi, Minjastofnunar Íslands, og HEF veitna 19 s.m. og bárust umsagnir  frá Brunavörnum 21. s.m. og Minjastofnun 22. júní s.á. Brunavarnir gerðu engar athugasemdir en Minjastofnun gerði athugasemdir við að framkvæmdir hefðu hafist áður en álit stofnunarinnar lægi fyrir. Á fundi heima­stjórnar Fljótsdalshéraðs 21. júní s.á. var samþykkt tillaga umhverfis- og framkvæmda­ráðs Múlaþings frá 16. s.m. um að grenndar­kynna áformin í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Erindið var grenndarkynnt 22. júní s.m. og var veittur frestur til að koma að athugasemdum til 23. júlí 2021.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að umrædd skemma sé innan byggingarreits sem samþykktur hafi verið árið 2017 þegar byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi hafi verið gefið út án þess að fram færi grenndarkynning eða deiliskipulag væri gert. Byggingaráform hafi því legið fyrir frá þeim tíma og tilvísanir umhverfis- og framkvæmdaráðs eigi ekki við. Þá séu Hleinar 1 lögbýli sem teljist vera landbúnaðarland samkvæmt Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028, en samkvæmt aðalskipulaginu sé heimilt að reisa mannvirki sem tengist landbúnaðarnotkun án þess að gert sé sérstakt deiliskipulag. Hönnun skemmunnar sé aukinheldur með þeim hætti að hún falli vel inn í landslagið og að íbúðarhúsinu sem þegar sé á jörðinni. Þá sé skemman ekki í sjónlínu við neinn þeirra nágranna sem grenndarkynnt var fyrir.

Af hálfu Múlaþings kemur fram að sveitarfélagið telji umrædd byggingaráform falla að skilmálum Aðalskipulags Fljótsdalshéraðs 2008-2028 og að þar sem ekki sé í gildi deiliskipulag fyrir svæðið hafi umsókn um byggingaráform verið vísað til umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings til ákvörðunar um grenndarkynningu í samræmi við 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að taka tiltekna ákvörðun. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar því við hina kærðu afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs, en það fellur utan valdheimilda nefndarinnar að veita kærendum byggingarleyfi.

Með hinni kærðu afgreiðslu heimastjórnar Fljótsdalshéraðs var staðfest afgreiðsla umhverfis- og framkvæmda­ráðs Múlaþings þess efnis að grenndarkynning á byggingarleyfisumsókn kærenda skyldi fara fram. Ákvörðun um grenndarkynningu er liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar, en endanleg afgreiðsla slíkrar umsóknar og útgáfa byggingarleyfis er í höndum byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Gögn málsins bera með sér að grenndarkynningu er ekki lokið og er því ljóst að ekki liggur fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál, en samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verða ákvarðanir sem ekki binda enda á mál ekki kærðar til æðra stjórnvalds. Þar sem ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun í kærumáli þessu verður því af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Veiti byggingarfulltrúi ekki leyfi fyrir umræddri framkvæmd er sú ákvörðun eftir atvikum kæranleg til úrskurðarnefndarinnar og sætir þá málsmeðferð við ákvörðunartökuna í heild sinni lögmætisathugun nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

71/2021 Brákarbraut

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 15. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 71/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 17. febrúar 2021 um að loka hluta mannvirkis á lóðinni Brákarbraut 25-27.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., leigutaki rýmis að Brákarbraut 25-27, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2021 að loka þeim hluta mannvirkis á lóðinni Brákarbraut 25-27 sem kærandi er með starfsemi í. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 7. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 5. febrúar 2021 var framkvæmd úttekt af eldvarnaeftirliti Slökkviliðs Borgarbyggðar og byggingarfulltrúa í húsum að Brákarbraut 25-27, sem eru í eigu Borgarbyggðar. Fór sú úttekt fram í kjölfar þess að forstöðukona félagsþjónustuúrræðis í húsnæðinu leitaði til slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar vegna vatnsleka í rafmagnstöflu húsnæðisins. Að úttekt lokinni útbjó eldvarnareftirlitsmaður skýrslu, dags. 9. febrúar 2021, sem send var embætti byggingarfulltrúa sama dag. Niðurstaða úttektarinnar var sú að brunavarnir í báðum mannvirkjum væru í miklum ólestri og mannvirkin sjálf í slæmu ásigkomulagi að öðru leyti.

Eftir að hafa móttekið skýrsluna sendi byggingarfulltrúa bréf til sveitarstjóra, dags. 10. febrúar 2021, þar sem fram kom að byggingarfulltrúinn teldi að bæði mannvirkjunum og notkun þeirra hefði verið breytt án þess að tilskilin leyfi hefðu verið veitt. Væru mannvirkin því ólögleg í skilningi 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og krafðist byggingarfulltrúinn þess að notkun þeirra yrði hætt innan tveggja sólarhringa frá dagsetningu bréfsins. Í kjölfarið var haldinn fundur með sveitarstjórn, byggingarfulltrúa, eldvarnareftirlitsmanni og leigutökum húsnæðisins 11. febrúar 2021. Á fundinum var staða málsins kynnt og leigutökum tilkynnt að starfsemi í húsinu yrði stöðvuð um óákveðinn tíma frá og 13. s.m. Með bréfi, dags. 17. s.m., tilkynnti byggingarfulltrúi sveitarstjóra að hann teldi sér skylt að aðstoða slökkviliðsstjóra við að knýja eiganda mannvirkisins til úrbóta, sbr. 29. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, og á þeim grundvelli ítrekaði hann kröfu sína til sveitarfélagsins þess efnis að húsunum yrði lokað. Sama dag sendi byggingarfulltrúi bréf til allra leigutaka í umræddum mannvirkjum þar sem þeim var tilkynnt um lokunina og að öll umferð um mannvirkin án samráðs við annaðhvort byggingarfulltrúa eða slökkviliðsstjóra væri óheimil. Í bréfinu voru leiðbeiningar um að sá þáttur ákvörðunar sem byggði á lögum nr. 160/2010 væri kæranlegur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri mánuður frá dagsetningu bréfsins.

Kærandi bendir á að af bréfi byggingarfulltrúa verði ekki annað ráðið en að hann sé að stöðva starfsemi og notkun en ekki tilkynna lokun. Lagagreinin sem byggingarfulltrúi reisi niðurstöðu sína og fyrirmæli á gangi ekki út á það að banna starfsemi og geti greinin ekki átt við í því tilfelli sem hér um ræði. Byggingarfulltrúi vísi til 55. gr. laga nr. 160/2010 um að starfsemi verði hætt en hann taki ekki ákvörðun um lokun. Eigi 55. gr. augljóslega ekki við heldur ákvæði 56. gr. sömu laga.

Af hálfu Borgarbyggðar kemur fram að hin kærða ákvörðun byggist á úttekt byggingarfulltrúa á umræddu mannvirki sem hann hafi ráðist í á grundvelli heimildar til eftirlits með byggðu umhverfi, sbr. gr. 3.10.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hafi umrædd ákvörðun verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og verið gætt að rannsóknarskyldu við meðferð málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá væri eðlilegt að taka það til skoðunar hvort kæran hafi borist innan lögboðins kærufrests skv. lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 17. febrúar 2021 og var þar að finna leiðbeiningar um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar og eins mánaðar kærufrest. Kæra í máli þessu barst 30. maí 2021, eða um tveimur og hálfum mánuði eftir að kærufresti lauk. Verður máli þessu því óhjákvæmilega vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

19/2021 Laugarnesvegur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2021, kæra vegna framkvæmda í fjöleignarhúsinu að Laugar­nesvegi 83.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi efri hæðar hússins að Laugarnesvegi 83, Reykjavík, ætlaðar óleyfisframkvæmdir í húsinu. Er þess krafist að mannvirkinu verði komið í fyrra horf og rask afmáð að fullu. Jafnframt er þess krafist að skúr á lóðinni verði fjarlægður og rask vegna hans verði afmáð að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2021.

Málavextir: Í byrjun mars 2020 mun kærandi hafa orðið var við framkvæmdir á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83. Hinn 6. s.m. sendi hann byggingarfulltrúanum í Reykjavík tölvupóst þar sem spurst var fyrir um hvort embættið vissi af umræddum framkvæmdum. Upplýsti kærandi um að eigandi neðri hæðar hússins væri búinn að bora í og brjóta hluta af burðarveggjum. Óskaði embættið 11. s.m. eftir skýringum frá eigendum íbúðar á neðri hæð hússins á framkvæmdunum. Svar barst embættinu 24. s.m. þar sem fram kom að umræddar framkvæmdir væru hluti af viðhaldi innanhúss og endurnýjun innréttinga. Húsasmíðameistari hafi verið fenginn til að meta burðarvirki hússins og hafi það verið hans mat að það að fjarlægja tiltekinn veggbút hefði ekki áhrif á burðarvirki hússins. Jafnframt kom fram að leyfi íbúa í kjallara og á efri hæð hafi verið fengið til að taka vatnið af húsinu meðan skipt hefði verið um rör. Við þá vinnu hafi ryð stíflað blöndunartæki í íbúð í risi og hafi pípulagningarmeistari verið fenginn til að losa ryð úr tækjum og rörum auk þess sem keypt hafi verið nýtt blöndunartæki fyrir eiganda efri hæðar hússins. Sama dag mun eftirlitsmaður skilmálaeftirlits byggingar­fulltrúa hafa tekið út framkvæmdina vegna kvörtunar kæranda. Í skoðunarskýrslu hans frá sama degi kemur fram að brotið hafi verið um 20 cm bútur af vegg til að stækka dyraop. Framkvæmdin sé minniháttar breyting á burðarvirki hússins. Ennfremur hafi neysluvatns­lögnum verið breytt þannig að nú séu kaldavatnslagnir íbúðanna aðskildar. Þá tók eftirlitsmaður skilmálaeftirlits framkvæmdina aftur út 30. mars 2020. Í skoðunarskýrslu vegna þeirrar úttektar kom m.a. fram að varmaskiptir hafi verið settur upp fyrir neysluvatnslögn.

Kærandi kom á framfæri frekari athugasemdum vegna framkvæmdanna við byggingarfulltrúa með tölvupóstum 6., 12., 13., 19. og 28. mars 2020. Í svari frá byggingarfulltrúa 31. s.m. var vísað til framangreindra samskipta eigenda neðri hæðar og embættisins auk þess eftirlits sem átti sér stað. Kom fram í svarinu að framkvæmd vegna umræddrar breytingar á burðarvirki væri tilkynningarskyld skv. a-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að óskað hafi verið eftir því að tilkynnt yrði um þá framkvæmd. Einnig kom fram að lagnaframkvæmdir væru byggingarleyfisskyldar og að óskað hafi verið eftir því að sótt yrði um leyfi fyrir þeim. Þá hafi aðrar framkvæmdir verið skoðaðar og teldust þær til eðlilegs viðhalds sem væru undanþegnar byggingarleyfi. Með umsókn, dags. 10. október 2020, sóttu eigendur íbúðar á neðri hæð hússins um byggingarleyfi fyrir stækkun tveggja hurðargata, breytingu á lagnaleiðum í eldhúsi og uppsetningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn í geymslu í kjallara. Með umsókninni fylgdi m.a. minnisblað byggingar­verkfræðings þar sem m.a. kom fram að breytingin hafi ekki áhrif á burð hússins, hvorki lárétt né lóðrétt, og samþykki meirihluta eigenda í húsinu væri fyrir breytingunum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2021 var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að 1. mars 2020 hafi framkvæmdaraðilar komið óvænt inn í húsið að Laugarnesvegi 83 og hafið stórframkvæmdir sem engin heimild hafi verið fyrir. Gerðar hafi verið breytingar á burðarveggjum og sameiginlegum lögnum án leyfis. Strax í byrjun mars hafi verið farið fram á það við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdir yrðu stöðvaðar strax og þeim sem að framkvæmdunum stæðu gert að afmá allt rask og bæta kæranda tjón. Það hafi byggingarfulltrúi ekki gert heldur lagt fyrir framkvæmdaraðila að sækja um leyfi fyrir óleyfisframkvæmdunum. Framkvæmdirnar hafi stíflað allt vatnsinntak í íbúð efri hæðar og búi kærandi enn við ónothæfan og ónýtan baðvask. Því sé harðlega andmælt að framkvæmdar­aðilar geti snúið inntaksrými hússins á hvolf bara fyrir sig. Eigendur kjallaraíbúðar hafi samþykkt framkvæmdirnar löngu seinna en slíkt dugi ekki fyrir framkvæmdunum þar sem samþykki allra, eða að lágmarki 2/3 hluta, þurfi fyrir þeim, sbr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Framkvæmdaraðilar hafi sett íbúð sína á sölu í lok janúar 2021 með óleyfisskúr á lóð. Með fasteignaauglýsingu hafi þeir reynt að selja inntaksrými allra sem þvottarými fyrir þvottavél og þurrkara og ranglega sagt að enginn hafi nýtt rýmið nema neðri hæð. Ítrekuð sé krafa kæranda um að hinn ólöglegi skúr verði fjarlægður af lóðinni og allt rask afmáð að fullu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er litið svo á að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingar­leyfi til að stækka tvö dyraop og breyta lagnaleiðum í íbúð á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83 og setja upp varmaskipti í kjallara. Ljóst sé að umrædd stækkun á dyraopum sé minniháttar breyting eins og fram hafi komið í skoðunarskýrslu 24. mars 2020. Í a-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað sérstaklega um minniháttar breytingar á burðarveggjum sem undanþegnar séu byggingarleyfi, en sú krafa sé gerð að slíkt sé tilkynnt til byggingarfulltrúa. Með umsókn um byggingarleyfi hafi fylgt umsögn burðarþolshönnuðar þar sem hann taldi breytinguna ekki hafa áhrif á burð hússins. Önnur göt sem boruð hafi verið hafi óveruleg áhrif á burðarþol veggja eða platna.

Óverulegar breytingar hafi verið gerðar á lögnum, þ.e. vatnslagnir hafi verið endurnýjaðar þannig að lögn, sem áður hafi verið fyrir íbúðir neðri og efri hæðar, sé nú bara fyrir íbúð efri hæðar. Ný lögn fyrir íbúð neðri hæðar hafi verið komið fyrir, lagnaleið snúið við og varma­skiptir settur upp fyrir neysluvatnslögn. Þessar lagnaframkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar og í kjölfar eftirlitsferðar hafi verið óskað eftir að sótt yrði um leyfi vegna breytinganna. Á þeim teikningum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn komi fram að sú breyting hafi verið gerð á lagnaleiðum íbúðar á neðri hæð að nú kvíslist þær frá lögnum íbúðar á efri hæð í inntaksrými í kjallara. Séu neysluvatnslagnir fyrir íbúð efri hæðar óbreyttar. Kalt vatn í íbúð á neðri hæð fari nú fyrst inn í eldhús og þaðan inn á baðherbergi en áður hafi það verið öfugt. Umrædd breyting hafi því ekki áhrif á íbúð efri hæðar þar sem vatnið kvíslist frá áður en lögn fari inn í íbúð á neðri hæð.

Framangreindar framkvæmdir falli ekki undir skilyrði a.-c. liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Dugi því samþykki einfalds meirihluta fyrir framkvæmdunum og hafi slíkt samþykki fylgt byggingarleyfisumsókn.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er upphaf máls þessa að rekja til ýmissa framkvæmda í íbúð á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83 í mars 2020. Í október s.á. sóttu leyfishafar um byggingarleyfi til að stækka tvö dyraop og breyta lagn­a­leiðum í íbúð á neðri hæð og setja upp varmaskipti í kjallara og var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2021. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður því litið svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu enda liggur ekki fyrir önnur stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. synjun um beitingu þvingunarúrræða. Verður þar af leiðandi ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að skúr á lóðinni verði fjarlægður.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er gerð krafa um að með byggingarleyfis­umsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga verður ekki ráðist í framkvæmdir sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu nema allir eigendur samþykki, ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Að lokum er mælt fyrir um það í 3. mgr. að til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi þó alltaf samþykki einfalds meiri hluta miðað við eignarhluta.

Hinar umdeildu framkvæmdir fólu í sér stækkun dyraopa, breytingu á lagnaleiðum og upp­setningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn. Fyrir liggur í máli þessu minnisblað byggingar­verkfræðings um að framkvæmdin hafi ekki áhrif á burð hússins. Að því virtu verður sú breyting er felur í sér stækkun dyraopa talin smávægileg í skilningi 3. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga og gildir hið sama um breytingu á lagnaleiðum í eldhúsi. Þá verður að telja uppsetningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn fela í sér endurnýjun í skilningi sama ákvæðis. Með umsókn leyfishafa fylgdi tilskilið samþykki eigenda meiri hluta miðað við eignarhluta og getur því skortur á samþykki kæranda fyrir framkvæmdunum ekki varðað ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður ekki séð að aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinu kærða byggingar­leyfi sem raskað geti gildi þess og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að „stækka tvö hurðargöt í íbúð 0101, breyta lagnaleiðum í eldhúsi og setja varmaskipti í kjallara húss nr. 83 við Laugarnesveg.“

58/2021 Leirvogstungumelur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2021, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til svæði hans á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Vaka hf., eigandi lands á Leirvogstungumelum, ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til svæði hans á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis 15. júní 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með bréfi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis til kæranda, dags. 18. júlí 2018, kom fram að í ljós hafi komið í eftirlitsferð á landsvæði í eigu kæranda að þar væri fjöldinn allur af númerslausum bifreiðum og að svæðið væri óþrifalegt. Ekki hafi verið sótt um starfsleyfi fyrir þessari starfsemi, engar mengunarvarnir hafi verið til staðar og svæðið sé skilgreint sem óbyggt svæði í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Var því farið fram á að lóðin yrði hreinsuð fyrir 18. ágúst 2018.

Kærandi sótti um starfsleyfi fyrir geymslusvæði fyrir bifreiðar og tæki á Leirvogstungumelum 2. desember 2019. Umhverfisstjóri Mosfellsbæjar gerði athugasemd við uppsöfnun bifreiða í niðurníðslu, gáma og aðra lausamuni á lóðinni og við slæma umgengni sem henni fylgir. Óskað var eftir úrbótum fyrir 17. febrúar 2020.

Á fundi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis 19. maí 2020 kom fram að ábendingar hafi borist um slæma umgengni kæranda og eftirlit hafi leitt í ljós að það ætti við rök að styðjast. Nefndin bókaði að heilbrigðiseftirlitinu væri falið að setja málið í forgang. Á fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar 20. s.m. var bókað að þrátt fyrir loforð kæranda um hreinsun á svæðinu hafi ekki verið brugðist við athugasemdum sveitarfélagsins og sé úrbóta krafist tafarlaust. Farið var fram á að heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis brygðist hart við og beitti tiltækum heimildum til að sjá til þess að brotum kæranda yrði hætt tafarlaust. Á fundi heilbrigðisnefndar 16. júní s.á. var umsókn kæranda um starfsleyfi hafnað og kæranda veittur lokafrestur til 1. september 2020 til að hreinsa öll svæði. Með bréfi kæranda, dags. 14. s.m., var óskað eftir fresti til að ljúka hreinsun svæðisins til 31. október s.á. Erindið var tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar 15. september s.á. Á fundinum kom fram að í eftirlitsferð 3. s.m. hafi komið í ljós að mikið væri búið að taka til en tiltekt væri enn ekki lokið. Var fallist á að framlengja lokafrest til 31. október 2020. Á fundi heilbrigðisnefndar 29. s.m. var framkvæmdastjóra falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda skv. XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir ef ekki væri búið að fjarlægja allan úrgang af svæðinu 1. nóvember 2020.

Hinn 16. nóvember 2020 óskaði kærandi enn eftir fresti til hreinsunar, nú til 10. desember s.á. og var fallist á þá beiðni hans. Farið var í eftirlitsferð 12. janúar 2021 og kom í ljós að tiltekt var ekki lokið á svæði 1 en svæði 2-4 væru orðin hér um bil hrein. Á fundi heilbrigðisnefndar 19. s.m. bókaði nefndin að framkvæmdastjóra væri falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda skv. XVII. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Kæranda var kynnt framan­greind bókun með bréfi, dags. 26. s.m., og um möguleika á að koma andmælum að. Kærandi andmælti fyrirhugaðri áminningu með bréfi, dags. 9. febrúar s.á., og óskaði eftir fresti til 31. maí s.á. til að klára hreinsun á svæðinu endanlega. Kæranda var veitt formleg áminning með bréfi, dags. 24. febrúar 2021, og tilkynnt um að frekari þvingunaraðgerðir væru fyrirhugaðar og til skoðunar væri að leggja á dagsektir. Á fundi heilbrigðisnefndar 7. apríl 2021 var ákveðið að leggja dagsektir á kæranda frá og með 1. maí 2021 þar til svæðið á Leirvogstungumelum hafi verið hreinsað af öllum úrgangi. Upphæð dagsekta var ákveðin 20.000 kr. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina næsta dag. Við skoðun á svæðinu 28. s.m. var niðurstaðan sú að hreinsun væri ekki lokið og ekki væri ástæða til að fresta álagningu dagsekta.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á það bent að ekki sé rétt að andmæli hafi ekki borist frá honum vegna áminningarinnar, dags. 24. febrúar 2021. Þeim hafi verið komið á framfæri símleiðis 25. s.m. við framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, þar sem málið hafi verið rætt í 11 mínútur og fyrirhuguðum dagsektum harðlega mótmælt. Kærandi hafi verið að losa efni statt og stöðugt af svæðinu frá síðustu vettvangsferð, dags. 12. janúar 2021.

Einnig hafi verið reynt að fá fund með formanni heilbrigðiseftirlitsins án árangurs, fyrst 26. febrúar 2021, en þá hafi formaður bent kæranda á að hafa samband við framkvæmdastjóra. Ítrekað hafi verið 3. mars s.á. að óskað væri eftir fundi með formanni en ekki framkvæmda­stjóra. Formaðurinn hafi svarað á þann veg að hann hefði það fyrir reglu að hitta ekki aðila eina sem óski eftir því vegna heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Senda ætti erindið á framkvæmda­stjóra og nefndin myndi svo taka erindið fyrir á fundi. Ekki hafi verið boðið upp á fund með formanni og öðrum með honum né fjarfund eins og tíðkist.

Ákvörðun heilbrigðisnefndar frá 7. apríl 2021 byggi á úttekt sem fram hafi farið 12. janúar s.á. Nefndin hafi því ekki kynnt sér aðstæður áður en ákvörðun hafi verið tekin en miklar breytingar hafi orðið á svæðinu frá þeim tíma. Ákvörðunin hafi því verið tekin að óathuguðu máli sem sé í andstöðu við góða og vandaða stjórnsýsluhætti.

Forsaga málsins sé sú að hreinsunarstarf á lóð kæranda hafi staðið yfir frá því um vorið 2020. Mörg hundruð tonn hafi verið flutt af svæðinu og kærandi verið í góðu samstarfi við framkvæmdastjóra heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis. Vegna þess hve umfangsmikið verkið hafi verið hafi það tekið þennan tíma þó vonir hafi staðið til að hægt yrði að ljúka því fyrr. Hafi kærandi því ekki setið auðum höndum heldur unnið í verkinu allan tímann. Sé ákvörðunin bæði íþyngjandi og tekin að óathuguðu máli. Hafi kærandi unnið verkið eins hratt og kostur hafi verið en það hafi reynst tímafrekara en áætlanir hafi gert ráð fyrir. Sé það í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti að ekki hafi verið veittir nægjanlegir tímafrestir til að klára verkið áður en þvingunaraðgerðum hafi verið beitt. Lágmark sé að rannsaka málið áður en slíkar ákvarðanir séu teknar en engin skoðun hafi farið fram eftir 12. janúar 2021 þar til nefndin hafi tekið ákvörðun um álagningu dagsekta 7. apríl s.á. Í kjölfar úttektarinnar hafi kærandi sent heilbrigðisnefndinni bréf, dags. 19. s.m., þar sem farið hafi verið yfir stöðuna og framhaldið og bent á að það myndi taka tíma fram á vor að klára málið endanlega.

Með bréfi heilbrigðisnefndarinnar, dags. 26. janúar 2021, hafi kæranda verið send bókun nefndarinnar frá 59. fundi hennar 19. s.m. Í bréfinu sé vísað til skoðunar á svæðinu 12. s.m. og bréfs kæranda frá 19. s.m. Hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem hreinsun á svæðinu hafi ekki verið lokið hyggist heilbrigðiseftirlitið hefja þvingunarferli skv. XVII. kafla laga um hollustu­hætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 með síðari breytingum. Sé til skoðunar að veita fyrirtækinu formlega áminningu samkvæmt 60. gr. laganna. Kærendum hafi verið gefinn kostur á að koma andmælum að innan tveggja vikna.

Kærandi hafi sent andmæli með bréfi, dags. 9. febrúar 2021, þar sem bent hafi verið á að stjórnvöld skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess gætt að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Þar hafi einnig verið bent á að frá því að farið hafi verið í vettvangsferð 12. janúar 2021, væri búið að tæma átta gáma og að því yrði haldið áfram. Þar var einnig lagt til að kærandi fengi frest út 31. maí s.á. til að klára að fjarlægja efni í gámum sem framkvæmdastjóri teldi til úrgangs sem kærandi sé ósammála. Einnig hafi verið lagt til að á þessu tímabili færi framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndarinnar í eftirlitsferð fyrir fundi nefndarinnar svo hægt væri að halda fulltrúum nefndarinnar upplýstum um stöðu málsins.

Þegar nefndin hafi haldið fund 7. apríl 2021 hafi ekki verið farin vettvangsferð síðan 12. janúar s.á. en svæðið hafi tekið miklum breytingum á þeim tíma og sé til fyrirmyndar í dag. Því hafi verið tekin mjög íþyngjandi ákvörðun með því að setja á dagsektir án þess að kynna sér stöðuna á lóð kæranda. Slíkt standist ekki stjórnsýslulög. Framkvæmdastjóri heilbrigðisnefndar Kjósar­svæðis hafi viðurkennt að svæðið hafi tekið miklum breytingum frá því í janúar þegar farið hafi verið í vettvangsferð 28. apríl 2021. Hafi kærandi óskað eftir því að dagsektir yrðu felldar niður fyrir 1. maí s.á. en framkvæmdastjórinn sagðist ekki hafa heimild til þess, það yrði að bíða næsta fundar nefndarinnar. Sá fundur yrði hins vegar ekki haldinn áður en kærufrestur rynni út.

Ákvörðun um beitingu dagsekta sé íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds. Við það mat þurfi sem endranær að fylgja meginreglum stjórnsýsluréttarins svo sem um meðal­hóf, rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið. Við mat á því hvort beita eigi þvingunaraðgerðum, svo sem dagsektum, geti komið til álita ýmis sjónarmið, svo sem hversu íþyngjandi aðgerða sé krafist af þeim sem úrræðin beinist að, hvort og með hvaða hætti þær tengist meintum lögbrotum, hversu mikilvæga almannahagsmuni sé verið að tryggja og hversu langur tími sé liðinn frá atburði þar til ætlunin sé að grípa til aðgerða af hálfu stjórnvalda. Með vísan til þess sem að framan rakið sé á því byggt að rannsókn málsins hafi verið haldin slíkum annmörkum að ógildingu varði.

Málsrök heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis: Af hálfu heilbrigðisnefndarinnar er bent á að kærandi hafi hafið starfsemi á svæðinu án þess að óska eftir starfsleyfi líkt og fyrirtækinu hafi borið að gera. Á það hafi verið bent með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Kærandi hafi starfrækt óleyfilegt geymslusvæði á Leirvogstungumelum án starfsleyfis í a.m.k. þrjú ár og fyrir liggi að félagið muni ekki fá heimild fyrir slíka starfsemi að óbreyttu skipulagi. Hlutverk heilbrigðis­nefndar sé að hafa eftirlit með þeirri starfsemi sem falli undir lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og veita starfsleyfi á grundvelli laganna. Fyrir liggi að kærandi hafi ekki sinnt kröfum um úrbætur og ekki staðið við þá fresti sem honum hafi verið settir til úrbóta. Með þessa stöðu í huga hafi verið eðlilegt næsta skref af hálfu heilbrigðisnefndar að grípa til þeirra þvingunarúrræða sem löggjöfin geri ráð fyrir að beitt sé í slíkum tilvikum. Áminning hafi verið veitt og þegar legið hafi fyrir að það hafi ekki leitt til tilætlaðs árangurs hafi verið gripið til þess ráðs að leggja á dagsektir frá 1. maí 2021 að upphæð 20.000 kr. þar til staðfesting á að hreinsun svæðisins hafi verið lokið liggi fyrir. Kæranda hafi verið í lófa lagið í nokkuð langan tíma að ljúka hreinsun og hafi hann sjálfur gert ráð fyrir að hreinsun yrði lokið 31. maí 2021, sem ekki hafi gengið eftir frekar en fyrri fyrirætlanir kæranda í þessum efnum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs er umráðamönnum lóða skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum. Í 2. mgr. nefndrar greinar kemur fram að heilbrigðisnefnd fari með eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutist til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í 3. mgr. er kveðið á um að nefndinni sé heimilt að fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og loks er tekið fram í 4. mgr. að heilbrigðisnefnd sé heimilt að láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun. Óumdeilt er í máli þessu að kærandi hefur ekki gilt starfsleyfi á þessum tiltekna stað, þ.e. á Leirvogstungumelum, samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 skal atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 kemur jafnframt fram að afrit af gildandi deiliskipulagi eða gildandi aðalskipulagi sé deiliskipulag ekki til staðar skuli fylgja starfsleyfisumsókn. Umrætt svæði er skilgreint sem óbyggt svæði í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 og ekki hefur verið gert deiliskipulag fyrir svæðið. Var því rétt að hafna umsókn kæranda um starfsleyfi að óbreyttu skipulagi.

Fjallað er um þvingunarúrræði í XVII. kafla laga nr. 7/1998. Samkvæmt 60. gr. laganna er heilbrigðisnefnd heimilt að veita áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt þeim lögum, reglugerðum eða samþykktum sveitar­félaga. Jafnframt skal veita hæfilegan frest til úrbóta ef þeirra er þörf. Kærandi fékk fyrst áskorun þess efnis að fjarlægja númerslausar bifreiðar af landsvæði sínu með bréfi, dags. 18. júlí 2018. Heilbrigðisnefnd bókaði á fundi sínum 29. október 2020 að framkvæmdastjóra væri falið að hefja þvingunarferli gagnvart kæranda. Í millitíðinni voru haldnir fjöldi funda með kæranda og eftirlitsferðir farnar á svæðið. Frestir til úrbóta voru margoft framlengdir, oftast að frumkvæði kæranda, jafnvel þótt tekið hafi verið fram að um lokafrest hafi verið að ræða. Á fundi heilbrigðisnefndar 19. janúar 2021 var framkvæmdastjóra aftur falið að hefja þvingunar­ferli samkvæmt XVII. kafla laga nr. 7/1998. Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis sendi kæranda bréf, dags. 26. janúar 2021, þess efnis að þar sem hreinsun væri ekki lokið þrátt fyrir margítrekaða fresti stæði til að veita kæranda formlega áminningu samkvæmt 60. gr. framangreindra laga. Kæranda var veitt formleg áminning með bréfi dags. 24. febrúar s.á. Í því bréfi var tekið fram að til stæði að beita frekari þvingunarúrræðum og væri til skoðunar að leggja á dagsektir skv. 61. gr. laga nr. 7/1998. Fullreynt væri að veita frekari fresti og var í því samhengi bent á að frá því að umsókn kæranda um starfsleyfi hafi verið hafnað 16. júní 2020 hafi verið veittir þrír frestir til að ljúka hreinsun svæðisins og enginn þeirra staðist.

Af framangreindri atburðarrás er ljóst að heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis fylgdi málsmeðferðar­reglum 60. og 61. gr. laga nr. 7/1998 við álagningu dagsekta. Fyrst var veitt áminning skv. 60. gr. ásamt fresti og dagsektum að lokum beitt skv. 1. mgr. 61. gr. þegar ljóst var að kærandi varð ekki við fyrirmælum.

Ekki verður fallist á með kæranda að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda fékk kæranda ítrekað frest til að sinna hreinsun umrædds svæðis. Þá var gætt að andmælarétti kæranda á öllum stigum málsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga þykir rétt að dagsektir frá og með móttöku kæru 7. maí 2021 til og með uppkvaðningar úrskurðar 8. júlí 2021 falli niður.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 7. apríl 2021 um að leggja dagsektir að upphæð 20.000 kr. á kæranda frá og með 1. maí s.á. þar til landsvæði kæranda á Leirvogstungumelum hefur verið hreinsað af öllum úrgangi.

68/2021 Arnarnesvegur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2021, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 um að breyting á útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Jóruseli 20, Reykjavík, og eigandi, Jóruseli 12, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. febrúar 2021 að breyting á útfærslu gatnamóta Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nýtt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna 3. kafla Arnarnesvegar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 23. júní 2021.

Málavextir: Með úrskurði um mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003 féllst Skipulagsstofnun á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjanesbrautar og Breiðholtsbrautar. Taldi stofnunin að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Var ákvörðunin kærð til umhverfisráðherra, sem staðfesti hana með úrskurði uppkveðnum 11. desember 2003. Lagning vegarins hefur farið fram í áföngum en framkvæmdir eru fyrirhugaðar við 1,3 km langan vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík.

Með bréfi, dags. 26. október 2020, óskaði Vegagerðin eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort ný útfærsla á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar væri háð mati á umhverfis­áhrifum. Fæli útfærslan í sér brú yfir Breiðholtsbraut og ljósastýrð gatnamót og kom fram í matsskyldufyrirspurn Vegagerðarinnar að um væri að ræða sameiginlega niðurstöðu Vega­gerðarinnar, Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar. Við meðferð málsins óskaði Skipulags­stofnun eftir umsögnum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Fiskistofu, Hafrannsókna­stofnunar, Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogs­svæðis, Landverndar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu, Umhverfisstofnunar og Vina Vatnsendahvarfs. Hinn 16. febrúar 2021 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð breyting væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í ákvörðun sinni vísaði stofnunin m.a. til þess að í framkvæmdinni fælist breyting á útfærslu gatnamóta frá fyrri áformum sem kæmi ekki til með að auka ónæði af umferð eða mengun í íbúðarbyggð eða á útivistarsvæðum. Fæli framkvæmdin jafnframt í sér minna inngrip í ásýnd svæðanna. Samtökin Vinir Vatnsendahvarfs kærðu ákvörðun Skipulagstofnunar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Með úrskurði uppkveðnum 25. maí 2021, í máli nr. 32/2021, var kæru samtakanna vísað frá þar sem þau voru ekki talin uppfylla skilyrði kæruaðildar skv. 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að þeir séu íbúar í grennd við framkvæmdina. Í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að Skipulagsstofnun geti ákveðið að endurskoða skuli matsskýrslu framkvæmdaraðila ef forsendur hafi breyst verulega frá því álitið lá fyrir. Þar sem 18 ár séu liðin frá því mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi legið fyrir hafi forsendur breyst verulega. Landnotkun á áhrifasvæði, löggjöf um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar, allt hafi þetta tekið breytingum. Sé þess því krafist að nýtt umhverfismat verði gert fyrir þriðja áfanga Arnarnesvegar. Líklegt sé að umferðarlíkanið sem stuðst hafi verið við í upphaflegu mati á umhverfisáhrifum sé úrelt. Svifryksmengun verði í návígi við skóla og leiksvæði barna. Endurmeta þurfi áhrif stóraukinnar umferðar með tilliti til mengunar, hljóðvistar og fleiri þátta í návígi við fjölmenn íbúahverfi, skóla og vinsælt útivistarsvæði. Skipulagsstofnun telji sig ekki hafa heimild til að fara fram á nýtt umhverfismat þar sem stofnunin telji að byrjað hafi verið á framkvæmdinni innan 10 ára. Það hafi þó aldrei verið byrjað á þriðja áfanga Arnarnesvegar heldur hafi jarðvegur verið færður úr hlíðinni um síðustu aldamót.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geti þeir einir, sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta, kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Í kæru sé ekki vikið nánar að því í hverju grenndarhagsmunir kærenda séu fólgnir, t.d. hve langt þeir búi frá fyrirhugaðri framkvæmd Vegagerðarinnar. Að öðru leyti sé kærufrestur liðinn, en hann hafi verið til 22. mars 2021, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þá falli það ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til kröfu kærenda. Að mati stofnunarinnar verði að leggja þann skilning í kæruna að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Kærendur hafi ekki heimild til að krefjast þess að mat á umhverfisáhrifum Arnarnesvegar frá árinu 2003 verði endurskoðað. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé það viðkomandi leyfisveitandi sem beri að óska ákvörðunar Skipulagsstofnunar um hvort endurskoða þurfi að hluta eða í heild matsskýrslu framkvæmdaraðila áður en leyfi til framkvæmda sé veitt. Stofnunin hafi ekki sjálfstæða heimild til að taka ákvörðun um endur­skoðun mats á umhverfisáhrifum, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 77/2017.

Skilyrði fyrir því að framkvæmd skuli undirgangast mat á umhverfisáhrifum sé að fram­kvæmdin hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Skilgreiningu á slíkum áhrifum sé að finna í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000, en þar séu umtalsverð umhverfisáhrif skilgreind þannig að um sé að ræða veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Skipulagsstofnunin fái ekki séð að hin tilkynnta framkvæmd hafi þau áhrif sem lýst sé í framangreindri skilgreiningu.

Athugasemdir Vegagerðarinnar: Af hálfu Vegagerðarinnar er aðallega gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kæran hafi borist að liðnum kærufresti skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Einn af kærendum hafi undirritað þá kæru sem vísað hafi verið frá í máli nr. 32/2021 og hafi sá kærandi því fulla vitneskju um hvenær hin kærða ákvörðun hafi verið tekin. Þá sé bent á að sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna varnaraðila liggi að baki kærufresti laga nr. 130/2011, en Vegagerðin hafi ríka hagsmuni af því að framkvæmdir geti haldið áfram sem fyrst. Ef fallist yrði á að afsakanlegt teldist að kæra þessi hefði borist utan frests, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, væri í reynd búið að lengja kærufresti í málum af þessu tagi nánast út í hið óendanlega. Þá sé bent á að kærendur fjalli ekki um aðildarhæfi eða leggi fram gögn til skýringar þar um. Telji úrskurðarnefndin að málið sé tækt til meðferðar sé bent á að hin kærða ákvörðun sé vel rökstudd og í samræmi við gildandi lög og framlögð gögn. Málsmeðferð hafi verið vönduð og engin ný gögn eða upplýsingar hafi verið lagðar fram af hálfu kærenda sem breytt geti efnislegri niðurstöðu málsins.

Niðurstaða: Um málsmeðferð og kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um kærufrest en einnig að þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kæranlegri stjórnvaldsákvörðun geti kært til úrskurðarnefndarinnar þá ákvörðun eða ætlað brot á þátttöku­rétti almennings. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýslu­réttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Er gert ráð fyrir því að meta verði heildstætt hverju sinni hversu verulegir hagsmunirnir eru og hversu náið þeir tengjast úrlausn máls þess sem um ræðir.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu fór fram á árinu 2003 mat á umhverfisáhrifum á lagningu Arnarnesvegar milli Reykjensbrautar og Breiðholtsbrautar. Hefur lagning vegarins farið fram í áföngum. Hin kærða ákvörðun lýtur að því hvort ný útfærsla á á gatnamótum Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar, sem er hluti af fyrirhuguðum framkvæmdum á 1,3 km vegkafla, skuli háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. 6. gr. samnefndra laga nr. 106/2000. Í mati á umhverfisáhrifum var fjallað um tvær útfærslur mislægra gatnamóta og féllst Skipulagsstofnun á þær báðar í úrskurði sínum árið 2003. Ný útfærsla gerir ráð fyrir brú yfir Breiðholtsbraut og tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut með gatnamótum í plani með umferðarljósum og einskorðast hin kærða matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar við þá breytingu, auk breytinga á útfærslu Arnarnesvegar næst Breiðholtsbraut.

Málsrök kærenda lúta fyrst og fremst að því að fram fari að nýju mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar vegna vegkafla á milli Rjúpnavegar í Kópavogi að Breiðholtsbraut í Reykjavík, en það álitaefni var ekki til umfjöllunar í hinni kærðu matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar. Vísa þeir einkum til þess að umferð aukist til muna og að af því hljótist mengun, auk þess að benda á neikvæð áhrif á hljóðvist. Fasteignir kærenda eru í meira en hálfs kílómetra fjarlægð frá gatnamótunum og verða þau á sama stað og áður var gert ráð fyrir. Í því mati á umhverfisáhrifum sem lauk með úrskurði Skipulagsstofnunar árið 2003 var fjallað um aukna umferð og hljóðvist vegna heildarframkvæmdarinnar. Af gögnum má ráða að ný útfærsla hinna umdeildu gatnamóta verði umfangsminni og standi lægra í landi, auk þess að kalla hvorki á aukna umferð né lakari hljóðvist.

Að teknu tilliti til alls þessa þykja hagsmunir kærenda hvorki svo verulegir né svo tengdir ákvörðun Skipulagsstofnunar, um að ný útfærsla gatnamóta sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli ekki háð mati á umhverfis­áhrifum, að skapi þeim kæruaðild. Þar sem ekki verður talið að kærendur hafi þá einstaklegu lögvörðu hagsmuni sem eru skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.