Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

155/2024 Tjarnargata

Með

Árið 2024, mánudaginn 23. desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Mál nr. 155/2024, kæra vegna framkvæmda á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. nóvember 2024, kærir eigandi, Tjarnargötu 24, framkvæmdir á lóðamörkum Tjarnargötu 24 og Kirkjugerðis 11 í Sveitarfélaginu Vogum. Er þess krafist að eigandi lóðarinnar Kirkjugerðis 11 stöðvi framkvæmdir og að lóðamörk sem sett hafi verið árið 1969 fái að standa. Jafnframt er þess krafist að eigandinn gangi svo frá að ekki standi hætta af og að hann setji girðingu í stað þeirrar sem hann hafi tekið niður.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Vogum 20. nóvember 2024.

Málsatvik og rök: Ágreiningur um lóðamörk mun hafa staðið yfir um árabil milli eigenda lóðanna Tjarnargöt 24 og Kirkjugerði 11 í Sveitarfélaginu Vogum, en samkvæmt fasteignaskrá Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar voru húsin á nefndum lóðum byggð árið 1969 og 1978. Árið 2017 óskaði eigandi Kirkjugerðis 11 eftir því að lóðin yrði sett út og var mælingafyrirtæki falið það verk. Sama ár sótti eigandinn um leyfi til að stækka bílskúr á lóðinni að lóðamörkum. Var umsóknin grenndarkynnt og skilaði kærandi athugasemdum við þá kynningu þar sem byggingaráformunum var andmælt. Synjaði byggingarfulltrúi umsókninni þar sem ekki lægi fyrir samþykki allra eigenda aðliggjandi lóða. Á þessu ári mun eigandi Kirkjugerðis 11 hafa hafið framkvæmdir við gerð stoðveggjar á umræddum lóðamörkum.

Kærandi telur að lóðamörk sem gerð hafi verið árið 1969 eigi að standa en ekki þær mælingar sem gerðar hafi verið af fyrirtæki. Það sé einkennilegt að einn lóðareigandi geti farið fram á að færa lóðarmörk sinnar lóðar og hefji svo framkvæmdir án leyfis og samráðs við nágranna. Það sé einnig einkennilegt að ekkert leyfi hafi verið gefið út eða að ekkert eftirlit hafi verið með framkvæmdunum.

Sveitarfélagið Vogar tekur fram að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út fyrir hinum umdeildu framkvæmdum. Um sé að ræða gerð stoðveggjar á lóðarmörkum Kirkjugerðis 11. Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé tiltekið að allt viðhald lóða, girðinga, bílastæða og innkeyrslna, auk gerðar palla og annars frágangs á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþegið byggingarleyfi, sbr. c- og d-lið ákvæðisins. Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar komi jafnframt fram að allur frágangur á eða við jarðvegsyfirborð sé undanþeginn leyfi. Umræddur stoðveggur sé við jarðvegsyfirborð og því sé það afstaða sveitarfélagsins að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Búið sé að steypa vegginn.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld eða aðila máls að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að ákveðin eignamörk fái að standa enda er úrskurðarnefndin ekki til þess bær að skera úr um eignaréttarlegan ágreining. Þá verður heldur ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að úrskurðarnefndin geri eiganda Kirkjugerðis 11 að stöðva framkvæmdir og haga frágangi með tilteknum hætti.

Kæruheimild til nefndarinnar er m.a. að finna í lögum nr. 160/2010 um mannvirki vegna stjórnvaldsákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Hið kærða ágreiningsefni í máli þessu lýtur að framkvæmdum á lóðamörkum Kirkjugerðis 11 og Tjarnargötu 24 í Sveitarfélaginu Vogum. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið upplýst að ekkert byggingarleyfi hafi verið gefið út, enda sé það mat þess að ekki sé um leyfisskylda framkvæmd að ræða. Liggur því fyrir að ekki hefur verið tekin ákvörðun á grundvelli mannvirkjalaga vegna hinna umdeildu framkvæmda. Verður af þeim sökum að líta svo á að ekki sé til að dreifa kæranlegri stjórnvaldsákvörðun sem skotið verður til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður kærumáli þessu því vísað frá.

Rétt þykir að leiðbeina kæranda um að telji hann að framkvæmdir fari fram á lóð hans geti hann beint erindi til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins þess efnis og farið fram á beitingu þvingunarúrræða á grundvelli 55. og 56. gr. laga um mannvirki. Afgreiðsla slíks erindis sætir eftir atvikum kæru til úrskurðarnefndarinnar.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

107/2024 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi, sem gildir í fjóra mánuði frá þeim degi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. október 2024, kæra eigendur, Stekk, Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september s.á. að veita Skotfélagi Reykjavíkur bráðabirgða­heimild fyrir starfsemi á skotsvæði á Álfsnesi. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.­­­

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 4. október 2024 kæra A, f.h. Krummavíkur ehf., eiganda Spildu úr landi Móa, L125725, og B sömu ákvörðun Umhverfis­stofnunar. Verður að skilja málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Verður það mál, sem er nr. ­113/2024, sameinað máli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi. ­­

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 15. nóvember 2024.

Málavextir: Í á annan áratug hafa tvö félög rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi, þ.e. annars vegar Skotfélag Reykjavíkur sem er leyfishafi í fyrirliggjandi máli og hins vegar Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis. Með úrskurðum, uppkveðnum 24. september 2021, 30. desember 2022 og 11. maí 2023, í málum nr. 51/2021, 92/2021, 94/2022 og 19/2023, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykja­víkur frá 11. mars 2021, 4. maí s.á., 26. júlí 2022 og 25. janúar 2023 um að gefa út starfsleyfi þeim til handa til reksturs skotvalla á Álfsnesi þar sem starfsemin samræmdist ekki gildandi landnotkun aðalskipulags Reykjavíkur. Í tveimur fyrri málunum var um að ræða Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 og í seinni tveimur Aðal­skipulag Reykjavíkur 2040 en hið síðarnefnda tók gildi árið 2022. Með breytingu á aðal­skipulaginu, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024 var skotæfinga­svæðið á Álfs­nesi skil­greint sem íþróttasvæði, ÍÞ9. Sóttu bæði félögin þann sama dag um nýtt starfsleyfi til heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur.

Með bréfum til Umhverfisstofnunar, dags. 5. ágúst 2024, óskuðu félögin eftir bráðabirgða­heimildum fyrir starfsemina, skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mánuði síðar eða hinn 5. september s.á. veitti stofnunin þeim hvora sína heimildina til fjögurra mánaða og hafa þær ákvarðanir báðar verið kærðar til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála. Er hin kærða ákvörðun í máli þessu bráðabirgðaheimild til handa Skotfélagi Reykjavíkur.­

Málsrök kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er gerð athugasemd við skamman frest sem veittur hafi verið til að gera athugasemdir við áform um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Áformin hafi verið auglýst á vefsíðu Umhverfisstofnunar og ekki sé hægt að ætlast til að þeir vakti allar vefsíður til að fylgjast með þessum málum en þeir hafi vitað að umsóknir um starfsleyfi hefðu borist heilbrigðisnefnd og hefðu kærendur því fylgst með vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Starfsemi skotfélaganna hafi legið niðri meira og minna undanfarin ár. Skotíþróttamenn hafi þegar þjálfað sig og tekið skot­próf annars­staðar og sé því ekki brýn þörf á að hefja eða halda áfram starfsemi. Sumarið sé liðið og þýðingarlaust að vísa til þess að mesta starfsemin fari fram á sumrin. Frá upphafi starf­seminnar hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða minnka hávaða eða ónæði frá skotvöllunum eins og þó sé krafist í hinni umdeildu bráðabirgða­heimild.

Skilyrði um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða séu ómarktæk. Í lögum sé ekki að finna skil­greiningu á hljóðmælingar­að­ferð og ekki sé í gildi reglugerð sem segi til um hávaðamælingar fyrir skotvelli. Mælingar á skot­hvellum hér á landi upplýsi ekki um raunhávaða því hávaða­toppar mælist ekki en þess í stað notuð jafngildis­­hljóðstig. Skothvellir séu ekki venjulegur hávaði heldur fylgi þeim mikill, óreglu­­legur og hærri hávaði en frá t.d. umferð eða öðru því sem búast megi við í dreifbýli. Væri hæsti hljóðtoppur notaður mætti áætla að raunhávaði frá skotsvæðinu væri um 80–90 dB en ekki jafngildishljóð um 40 dB. Samkvæmt hinni umdeildu bráðabirgða­heimild skuli Heilbrigðis­eftirlit Reykja­víkur framkvæma vöktunar­mæl­ingar á hávaða. Við vinnslu síðasta starfsleyfis Skotfélags Reykjavíkur hafi Umhverfis­stofnun leið­beint eftirlitinu um að hún teldi rétt að notaðar væru sænskar leið­bein­ingar, þ.e. Allmänna råd om buller från skjut­banor, sem gefnar hefðu verið út af Natur­vårds­verket. Þar séu hávaðatoppar mældir ólíkt því sem tíðkast hefði hér á landi. Ef unnt eigi að vera að fylgja fyrrgreindu skilyrði hinnar umdeildu bráða­birgðaheimildar þurfi að vera ljóst hvaða mæliaðferðir og viðmið eigi að nota. Rekstraraðilar skotvallanna hafi haft nægan tíma til þess að undirbúa enduropnun þeirra með hliðsjón af hávaðamengun en engar breytingar verið gerðar, hvorki á skotstefnu né með annarri hljóð­einangrun sem teldist hávaða­minnkandi aðgerð. Ekki sé tímabært að gefa út leyfi fyrr en búið sé að gera fullnægjandi ráð­stafanir til að koma í veg fyrir truflun og ónæði. Þá hafi heilbrigðis­eftirlitið aðeins gert hávaða­mælingar vegna skotsvæðis Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis en engar nýjar mælingar séu til fyrir skot­svæði Skotfélags Reykjavíkur. Liggi því ekki fyrir hversu mikill hávaði stafi frá svæðinu og umhverfisáhrif ekki nægjanlega metin. Vegna deilna hefði verið rétt að hávaðinn væri mældur áður en starfsleyfi væri auglýst. Ekki sé þó hægt að treysta því að hljóðmælingar verði rétt framkvæmdar og þess því krafist að nýjar hljóðmælingar verði fram­kvæmdar af óvilhöllum og sérfróðum aðila sem þekki sænska reglugerð. Viðurkennt og sérhæft fyrir­tæki í hljóðmælingum og ráðgjöf hafi veitt kærendum ráðleggingar um hljóð­mælingar samkvæmt sænskri aðferð og mælingar þess hafi sýnt heilsu­spillandi hávaða frá skot­svæðinu (>85dB), sbr. skilgreiningu 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008. Ekki sé hægt að treysta því að hljóðmælingar heilbrigðiseftirlitsins séu rétt framkvæmdar og sé þess því krafist að hávaðamælingar heilbrigðiseftirlitsins verði ógiltar og nýjar mælingar gerðar af óvilhöllum og sérfróðum aðila eftir fyrirmælum Umhverfis­stofnunar áður en nýtt starfsleyfi verði veitt.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er vísað til þess að í meira en áratug hafi verið rætt um að finna skotsvæðunum nýjan stað og sé þetta fimmta bráðabirgðaleyfið þeim til handa. Á spildunni hafi hús staðið autt í 16 ár og að ekki unnt að vera þar vegna hljóðmengunar, allt að 100 dB. Hvergi í heiminum sé notuð sú mæliaðferð, þ.e. Metod för immissionsmätning av externt industribuller, sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur noti, enda sé það ekki hægt. Sú mæliaðferð mæli meðalhávaða og hávaðatoppar séu þurrkaðir út en þegar skothávaði sé mældur sé eingöngu verið að mæla hávaðatoppa, ekki annað. Niðurstaða mælinga verði því röng og villandi. Norðurlöndin noti aðra mæliaðferð sem sérstaklega sé hönnuð til að mæla hávaða (hávaðatoppa) frá skotsvæðum, t.d. sænsku mæliaðferðina Allmänna råd om buller från skjutbanor. Þá hafi aldrei verið gerð jarðvegsmæling fyrir þungmálma á svæðinu eða jarðvegur verið hreinsaður. Heilbrigðiseftirlitið hafi viðurkennt að högl lendi á ströndinni sem og að þau stálhögl sem notuð séu innihaldi allt að 12% blý. Svæðið sé eitt fallegasta útivistarsvæðið í Reykja­vík með mikilvæga sjófuglabyggð, en margar tegundir sem þar haldi til séu í útrýmingarhættu eða á válista. Fjaran sé þó áfram menguð og hafi ástand hennar hvorki verið metið né áhrif mengunarinnar á umhverfið rannsökuð.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er byggt á því að uppfyllt hafi verið skil­yrði um brýna þörf og að fullnægjandi umsókn liggi fyrir hjá útgefanda starfsleyfis, sbr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frá árinu 2021 hafi starfs­leyfi skot­­félaganna á Álfsnesi ítrekað verið felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þau hefðu ekki samræmst skipulagi. Starfsemi hafi því legið meira og minna niðri frá þeim tíma, með tilheyrandi áhrifum á rekstur og starfsemi félag­anna sem og á þjálfun skotíþrótta- og veiðimanna. Breyting á Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 hafi tekið gildi 30. júlí 2024 og skotfélögin þann sama dag sótt um starfsleyfi heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur. Nokkrum dögum síðar hafi þau svo sótt um bráða­birgðaheimildina. Við máls­meðferð sína hafi Umhverfisstofnun leitað eftir afstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hafi lýst því að það teldi fullnægjandi umsókn framkomna og að brýn þörf væri til að veita bráðabirgðaheimildina.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 séu því settar þröngar tímaskorður hve lengi hægt sé að gera athugasemdir við áform um veitingu bráðabirgðaheimildar. Vegna þess knappa tímaramma sé ljóst að ekki sé hægt að auglýsa lengi slík áform og hafi fjórir dagar verið fullnægjandi frestur í málinu.

Umhverfis­stofnun hafi borist ítarleg gögn vegna hljóðmælinga frá skotæfingasvæðunum. Þá hafi stofnunin beint fyrirspurn til heilbrigðiseftirlitsins um fyrirkomulag hljóð­mælinga. Meðal þeirra gagna sem hefðu borist hafi verið hljóðmælingar framkvæmdar af heilbrigðiseftirlitinu við Stekk, dags. 29. júní og 1. júlí 2022, sænskar niður­stöður sem mældu hávaða frá skot­æfingasvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis ásamt jafngildishljóð­mælingum fyrir Stekk sömu daga. Niðurstöður hljóðmælinganna hefðu sýnt að hávaðinn færi ekki yfir mörk heilsuspillandi hávaða skv. 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Þá væru til jafngildis­hljóðmælingar og hljóðmælingar „með sænskum niðurstöðum“ framkvæmdar af heilbrigðis­eftirlitinu við Móavík og Móberg, næstu bæi við Móa, sem styðji ekki fullyrðingu um að hljóðmengun frá skot­æfinga­svæðunum nái 100 dB.

Við gerð skilyrða skv. 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 hafi Umhverfisstofnun litið til eldri starfsleyfa og tekið upp öll viðeigandi skilyrði samkvæmt skipulagi. Í greinargerð með umsókn Skotfélags Reykjavíkur um starfsleyfi hafi komið fram að við uppbyggingu svæðis þess hafi ýmsar ráðstafanir verið gerðar. Jarðvegi hafi verið ýtt í u.þ.b. sjö metra háar manir við hagla­velli og við riffilvöll. Fengist til þess fjármagn þyrfti að hækka manirnar verulega þar sem jarðvegur hefði sigið talsvert frá opnun svæðisins. Eðlilegur undanfari útgáfu starfsleyfis sé að heilbrigðiseftirlitið leggi mat á þær mótvægisaðgerðir sem skotfélögin hafi framkvæmt og þær sem standi til. Verði aðgerðir til að draga úr hljóðmengun skoðaðar nánar við vinnslu starfs­leyfisins. Sé því ljóst að skilyrði nr. 5 í aðalskipulagsbreytingunni frá 2024 hafi verið uppfyllt og umsóknirnar fullnægjandi að því leyti. Skilyrðum bráðabirgðaheimildar sé sérstaklega ætlað að takmarka hljóð­mengun og tekið fram að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og rekstrar­aðila gert að tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða. Þá skuli heilbrigðis­eftirlitið framkvæma vöktunar­mælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartíma eða gert ítarlegar kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin valdi ónæði umfram það sem eðlilegt megi telja. Skilyrði leyfisins séu marktæk og feli í sér nauðsynlega takmörkun og vöktun á hávaða og veiti úrræði til að bregðast við mögulegri hávaðamengun. Eftirlit heilbrigðisnefndar lúti ekki kæru í málinu og sé það ekki hlutverk Umhverfis­stofnunar að véfengja fyrirliggjandi gögn fengin við framkvæmd heilbrigðiseftirlits. Það sé ekki heldur hlutverk stofnunarinnar við útgáfu bráðabirgðaheimildar að leggja mat á aðgerðir rekstraraðila til að lágmarka ónæði. Skilyrði í bráðabirgðaheimildinni banni notkun blýhagla og verulegar skorður séu settar við notkun riffilskota með blýi. Þá lúti ákvæði heimildarinnar að hreinsun á svæðinu og leggi þá skyldu á rekstraraðila að standa fyrir almennri hreinsun á svæðinu í samræmi við aðalskipulag.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé búin til heimild til að endurnýja starfsleyfin fyrir skotsvæðin en ekki til þess að gefa út ný starfsleyfi. Starfsleyfi þeirra hafi fallið úr gildi á árunum 2020 og 2021. Síðan hafi öll starfsleyfi vegna þeirra verið úrskurðuð ógild og þar með hafi skotsvæðin í allt að fjögur ár verið án gildandi starfsleyfa. Sé því ekki um endurnýjun starfsleyfis að ræða heldur nýtt og því ekki rök til þess að gefa megi út starfsleyfi vegna starfseminnar. Þá er vísað til þess skilyrðis í aðalskipulagsbreytingu frá árinu 2024 að í umsókn um starfsleyfi skuli skotfélögin koma með tillögur að úrbótum á hljóðmengun.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og tengdum reglugerðum sé um endurnýjun á starfsleyfi að ræða ef fyrirtæki eða starfsemi hafi verið með gilt starfsleyfi sem sé að renna út, starfsemi haldi áfram í óbreyttri mynd eða markmiðið sé að uppfæra leyfið sam­kvæmt nýjustu lögum, reglum og skilyrðum. Um nýtt starfsleyfi sé hins vegar að ræða ef starf­semin sé ný og hafi ekki haft starfsleyfi áður, mikilvæg breyting hafi orðið á starfseminni sem kalli á nýtt mat eða fyrra leyfi sé útrunnið og hafi ekki verið endurnýjað innan tiltekins tíma­frests eða fyrri starfsemi hafi legið niðri í langan tíma. Til að uppfylla tímamörk um það hvort um sé að ræða endurnýjun þyrfti að uppfylla það að starfsemin hefði verið í stöðugum rekstri. Ef leyfi renni út en starfsemin haldi áfram án hlés, sé endurnýjun leyfis yfirleitt möguleg þó að það þurfi að gerast án óeðlilegrar tafar. Sé starfsleyfi ekki endurnýjað fljótlega eftir að það renni út og starfsemi hafi verið í lágmarki eða alveg stöðvuð gæti leyfisveitandi metið það sem nýtt starfsleyfi. Hafi starfsemi legið niðri í einhvern tíma, oft mánuði eða ár, teljist umsókn almennt vera fyrir nýtt starfsleyfi, jafnvel þótt það sé sami rekstraraðili og á sama stað.

Mælir sem notaður hefði verið af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til hljóðmælinga að Stekk hafi ekki verið settur upp við íbúðarhús heldur á ljósastaur í um 150 m fjarlægð og hafi þ.a.l. ekki mælt hávaða við húsið. Þá hafi skotsvæðin verið lokuð flesta dagana sem mælirinn hafi verið uppi og kærendur ekki orðið varir við skothvelli þá daga, utan einn. Sé því ekki unnt að nota þessar mælingar sem rök fyrir útgáfu leyfis. Umhverfistofnun hljóti að eiga að leggja mat á gögn sem henni berist, sér í lagi þegar neitað sé að fara eftir leiðbeiningum stofnunarinnar um aðferðarfræði við mælingar. Á skotsvæðunum á Álfsnesi séu margir skotstaðir fyrir mismunandi skotaðferðir, t.d. leirdúfur, haglabyssur og riffla. Alls séu á svæðunum 24 skotbrautir, þar af fjórar hjá Skotfélagi Reykja­víkur, að ótöldum brautum fyrir riffilbana hjá sama félagi. Heilbrigðiseftirlitið hafi einungis mælt hávaða við Stekk frá tveimur brautum en ekki frá brautum Skotfélags Reykjavíkur. Þar sem manir í kringum þeirra skotbrautir séu ekki nægilega háar þjóni þær engum tilgangi, hvorki sem hljóðeinangrun né til að fanga skot og verja fjöruna. Þá sé til staðar hljóðendurkast frá klettabelti og þyrfti því að hækka hljóðmanir enn frekar til að hljóðeinangra. Í Svíþjóð myndu skotsvæði t.d. aldrei vera sett upp þar sem hávaðamengun gæti lent á klettum og hafi hljóð­vistarsérfræðingur staðfest það.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er bent á að aldrei hafi verið sjö metra háar manir á Álfsnesi, þær séu tveir metrar og hafi verið tveir metrar fyrir 17 árum. Að halda því fram að þær hafi sigið um fimm metra sé hlægilegt. Hæð þeirra breyti þó engu, ekkert stoppi skothvelli nema hús og Esjan sem hvellirnir bergmáli meðfram. Engu máli skipti hve mikið spýtukofi sé einangraður þegar haglabyssurnar standi út úr honum. Mælingar á hávaða hafi verið rangar og hafi fulltrúi hjá heilbrigðiseftirlitinu viðurkennt að mælingar þess mældu ekki hávaðatoppa og því geti hávaði „sem toppur“ verið meiri.  Framkvæmd nýrra mælinga hafi einnig verið röng þar sem skotsvæðin hafi verið lokuð þegar mælar hafi verið settir á staura og útreikningur einnig verið rangur. Ekki sé hægt að líkja saman mælingum verkfræðifyrirtækis sem sérhæfir sig í hljóðmælingum og mælingum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins sem sumir hverjir hafi ekki lokið námskeiði í hljóðmælingum. Hvað varði hreinsun á svæðinu sé ólíklegt að af henni verði vegna kostnaðar, ef kleift sé að hreinsa fjöruna á annað borð.

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvalds­ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls um­fram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.­ Kærendur í máli þessu eru fjórir og vísa tveir þeirra til grenndarhagsmuna vegna fasteignar sinnar Stekks og tveir til grenndar­hagsmuna vegna fasteignar með heitið Spilda úr landi Móa.

Verður þeim kærendum sem eru eigendur framangreindra fasteigna, samkvæmt opinberri skráningu, játuð kæruaðild að málinu enda ekki talið unnt að útiloka að grenndaráhrif vegna skotvallarins gagnvart fasteignum þeirra séu slík að varðað geti í verulegu hagsmuni þeirra. Kærandinn B er ekki meðal skráðra eigenda fasteignarinnar Spilda í landi Móa. Þá hefur hann ekki búsetu þar. Í kæru hans og fyrirsvarsmanns eiganda fasteignarinnar er jafnframt vísað til sjónarmiða um náttúruvernd en slík sjónarmið lúta að atriðum sem teljast til almannahagsmuna en þau teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Telst hann því ekki eiga kæruaðild að máli þessu.

 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­teknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um ógildingu á mælingum á hávaða eða kröfu um nýjar mælingar.

 Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðis­nefndir gefa út. Vinnsla umsókna um starfsleyfi byggist á lögum nr. 7/1998 og reglum settum með stoð í þeim. Með 7. gr. a. laga nr. 7/1998, sem bættist við lögin með 3. gr. laga nr. 28/2023 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir ásamt fleiri lögum, er Umhverfisstofnun fengin heimild í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er talin á því að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lögin, til að veita bráða­birgða­heimild fyrir starfsemi sem ella væri starfsleyfisskyld. Bráðabirgðaheimildina er unnt að veita til allt að eins árs og er heimilt að framlengja hana um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Kærendur hafa gert við það athugasemd að frestur þeirra til að koma að athugasemdum hafi verið of knappur og að birting á vefsvæði Umhverfisstofnunar væri ekki fullnægjandi auglýsing enda hafi þeir fylgst með vefsvæði útgefanda starfsleyfis en ekki Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal umsókn um bráðabirgðaheimild afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að fullnægjandi umsókn berst og skal frestur til að gera skriflegar athugasemdir við veitingu bráðabirgðaheimildar ekki vera lengri en ein vika frá auglýsingu Umhverfisstofnunar. Að öðru leyti gildi ákvæði 7. gr. laganna um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Samkvæmt þessu eiga þær málsmeðferðarkröfur sem gerðar eru til leyfisveitanda við útgáfu starfsleyfis samkvæmt þeirri lagagrein því einnig við um útgáfu bráðabirgðaheimilda, að breyttu breytanda, að því undanskildu að málsmeðferðartími Umhverfisstofnunar er skemmri og frestur almennings til að koma að athugasemdum af þeim sökum styttri, þ.e. ekki lengri en ein vika samanborið við fjórar vikur þegar um tillögu að starfsleyfi er að ræða, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt þeirri málsgrein skal útgefandi starfsleyfis vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Er þetta endurtekið í 8. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit að því viðbættu að þar er tekið fram að útgefandi starfsleyfis skuli auglýsa opinberlega á vefsíðu sinni hvers efnis þau eru og hvar megi nálgast þau. Reglugerðarákvæðið tiltekur þó ekki bráðabirgðaheimild þar sem reglugerðinni hefur ekki verið breytt frá gildistöku breytingalaga nr. 28/2023. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna skal útgefandi auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa og telst það opinber birting. Þá skal útgefandi starfsleyfis samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 8. gr., framlengd starfsleyfi, bráðabirgða­heimildir fyrir starfsemi og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.

Með auglýsingu á vefsíðu sinni, dags. 26. ágúst 2024, lýsti Umhverfisstofnun því yfir að hún áformaði útgáfu bráðabirgðaheimildar fyrir Skotfélag Reykjavíkur vegna skotvallar á Álfsnesi. Kom þar fram að skotfélagið óskaði eftir bráðabirgðaheimild til að hægt væri að halda áfram starfsemi á meðan starfsleyfi þess væri í vinnslu og að Umhverfisstofnun væri heimilt skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 að veita bráðabirgðaheimild að skilyrðum uppfylltum. Athugasemda­frestur væri til og með 30. ágúst 2024. Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur verið upplýst að engar athugasemdir hafi borist í tilefni af auglýsingunni. Í ljósi þeirra tímamarka sem Umhverfisstofnun eru sett í 5. mgr. ákvæðisins uppfyllti framangreindur frestur skilyrði þess.

Er af framangreindu ljóst að sá annmarki var á birtingu auglýsingar ­á áformum Umhverfisstofnunar um útgáfu heimildarinnar að í auglýsingu á vefsíðu Umhverfisstofnunar var hvorki að finna tillögu að bráðabirgða­heimild skotfélagsins eða upplýsingar um hvar mætti nálgast hana, sbr. 1. mgr. 7. gr., sbr. 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998. Þá skal tiltekið að almennt við útgáfu starfsleyfa eða bráðabirgðaheimilda er ekki gert ráð fyrir því að leitað sé sjónarmiða þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi verði heimiluð sem umsókn nær til.

Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Álíta verður að þessi regla gildi óskoruð við töku ákvörðunar um veitingu bráðabirgða­heimildar skv. ákvæði 7. gr. a. laganna.

Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024, var landnotkun þess svæðis sem hér um ræðir breytt. Fólst breytingin í því að þar hefur verið skilgreint íþróttasvæði, ÍÞ9. Samrýmist rekstur skotvallar á svæðinu samkvæmt þessu nú gildandi landnotkun í aðalskipulagi. Í breytingunni er nánar kveðið á um að heimilt verði að endurnýja starfsleyfi til félaga á svæðinu allt til ársloka 2028 og eru í 11. töluliðum talin upp skilyrði og mót­vægis­aðgerðir sem krafa er gerð er um að starfsleyfi þeirra hafi að geyma, „í það minnsta“.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi háð skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfsemi, sbr. 9. gr. Í hinni umdeildu bráðabirgðaheimild eru sett skilyrði fyrir starfseminni en Umhverfisstofnun hefur greint frá því að öll viðeigandi skilyrði aðalskipulags hafi verið tekin upp. Þeirra á meðal er opnunartími takmarkaður, skylt er að nota hljóðdeyfa í riffilskotfimi, haga skal skotstefnu þannig að hávaði valdi sem minnstu ónæði, eftir því sem reglur í keppnisskotfimi leyfa,  notkun blýhagla er óheimil, skylt er að nota blýlaus riffilskot eða skot með lágmarksinnihaldi blýs séu blýlaus skot ekki valkostur og óheimilt er að nota leirdúfur með tjörubindiefni. Þá skal rekstraraðili standa fyrir hreinsun á svæðinu í samræmi við aðalskipulag en þar kemur fram að hreinsun skuli fara fram á svæðinu og í fjöru, að minnsta kosti tvisvar á ári þar sem högl, tóm skothylki, forhlöð og leirdúfurestar er hreinsað.

Samkvæmt skipulaginu skal í starfsleyfi setja fram ríkar kröfur um vöktun hávaða frá starf­seminni og skal heilbrigðiseftirlit við undirbúning starfsleyfis framkvæma hávaðamælingar samkvæmt gildandi reglugerðum og opinberum leiðbeiningum. Tvisvar á ári framkvæmi heilbrigðiseftirlitið tímabundnar vöktunarmælingar með síritandi hávaðamælum. Í hinni um­deildu bráðabirgðaheimild er kveðið á um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglu­gerðar um hávaða nr. 724/2008 og skuli rekstraraðili tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins. Skal heilbrigðiseftirlitið framkvæma vöktunar­mælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartímann eða gert ítarlegri kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin veldur ónæði í umhverfinu umfram það sem eðlilegt sé. Eins og mál þetta er vaxið og þar sem bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi verður ekki fyllilega jafnað til starfsleyfis, svo sem hvað tímalengd varðar, verða greind skilyrði hinnar umdeildu bráðabirgðaheimildar álitin fullnægjandi.

Skilja verður umsögn Umhverfisstofnunar með þeim hætti að óregluleg starfsemi Skotfélags Reykjavíkur undan­farin ár vegna ógildinga á starfsleyfum þess leiði til þess að skilyrði 7. gr. a. laga 7/1998 um brýna þörf sé uppfyllt. Þá er þar einnig vísað til þess að í athugasemdum í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 28/2023 komi m.a. fram að ríkar ástæður verði að mæla með veitingu bráðabirgðaheimildar með hliðsjón af þeim hagsmunum sem undir eru hverju sinni. „Þetta geti komið til þegar ekki er mögulegt að gefa tímanlega út starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi þegar brýn þörf er á að halda starfsemi áfram, koma starfsemi af stað eða breyta henni.“ Í 7. gr. a. laganna er einnig gert að skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðarheimildar fyrir starfsemi að fullnægjandi umsókn um starfsleyfi liggi fyrir hjá útgefanda. Af hálfu Umhverfis­stofnunar hefur því verið lýst að afrit umsóknar um starfsleyfi hafi fylgt umsókn skotfélagsins um bráðabirgðarheimild fyrir starfsemi og að kallað hefði verið eftir afstöðu Heilbrigðis­eftirlits Reykjavíkur til þess hvort hún teldist fullnægjandi sem hefði staðfest það og greint frá því að á meðan málsmeðferð umsóknarinnar vari hafi félagið enga aðstöðu til æfinga. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar eru ekki gerðar athugasemdir við þetta efnislega mat stjórnvalda.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun Umhverfisstofnunar að skilyrði um brýna þörf umsækjanda væri uppfyllt vegna þeirrar ákvörðunar sem um er deilt í máli þessu. Í ljósi tímabundins eðlis ákvörðunarinnar verður að öllu framangreindu virtu ekki talið að slíkir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi á skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

108/2024 Bráðabirgðaheimild Álfsnesi

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 108/2024, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á skotsvæði félagsins á Álfsnesi, sem gildir í fjóra mánuði frá þeim degi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. október 2024, kæra eigendur, Stekk, 162 Reykjavík, þá ákvörðun Umhverfis­stofnunar frá 5. september s.á. að veita Skotveiðifélagi Reykjavíkur og nágrennis bráða­birgða­heimild fyrir starfsemi á skotsvæði félagsins á Álfsnesi. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfum og kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er bárust nefndinni 3., 4. og 5. október 2024 kæra eftirtaldir aðilar sömu ákvörðun Umhverfisstofnunar: A og B, eigendur Móabergs. C, D, E ásamt F, hluti eigenda Móa­víkur. G, annar eigenda Hvamms. C, f.h. Krummavíkur ehf., eiganda Spildu úr landi Móa, L125725, og H. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi, starfsemin stöðvuð og til vara að opnunartími svæðisins verði styttur um helming. Verða þau mál sem eru nr. 109, 110, 111 og 112/2024 sameinuð máli þessu þar sem um sömu ákvörðun er að ræða, enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfisstofnun 15. nóvember 2024.

Málavextir: Í á annan áratug hafa tvö félög rekið sinn hvorn skotvöllinn á Álfsnesi, þ.e. annars vegar Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis, Skotreyn, sem er leyfishafi í fyrirliggjandi máli og hins vegar Skotfélag Reykjavíkur. Með úrskurðum, uppkveðnum 24. september 2021, 30. desember 2022 og 11. maí 2023, í málum nr. 51/2021, 92/2021, 94/2022 og 19/2023, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úr gildi ákvarðanir Heilbrigðiseftirlits Reykja­víkur frá 11. mars 2021, 4. maí s.á., 26. júlí 2022 og 25. janúar 2023 um að gefa út starfsleyfi þeim til handa til reksturs skotvalla á Álfsnesi þar sem starfsemin samræmdist ekki gildandi landnotkun aðalskipulags Reykjavíkur. Í tveimur fyrri málunum var um að ræða Aðalskipulag Reykjavíkur 2010–2030 og í seinni tveimur Aðal­skipulag Reykjavíkur 2040, en hið síðar­nefnda tók gildi árið 2022. Með breytingu á aðal­skipulaginu, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024, var skotæfinga­svæðið á Álfs­nesi skil­greint sem íþrótta­svæði, ÍÞ9. Sóttu bæði félögin þann sama dag um nýtt starfsleyfi heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur.

Með bréfum til Umhverfisstofnunar, dags. 5. ágúst 2024, óskuðu félögin eftir bráðabirgðaheimildum fyrir starfsemina, skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Mánuði síðar eða hinn 5. september s.á. veitti stofnunin þeim hvora sína heimildina og hafa þær ákvarðanir báðar verið kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er hin kærða ákvörðun í máli þessu bráðabirgðaheimild til handa Skotveiðifélagi Reykjavíkur og nágrennis en með úrskurði úrskurðarnefndarinnar fyrr í dag í máli nr. 107/2024, var skorið úr um lögmæti bráðabirgðaheimildar Skotfélags Reykjavíkur.

Málsrök kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er gerð athugasemd við skamman frest sem veittur hafi verið til að gera athugasemdir við áform um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Áformin hafi verið auglýst á vefsíu Umhverfisstofnunar og ekki sé hægt að ætlast til að þeir vakti allar vefsíður til að fylgjast með þessum málum en þeir hafi vitað að umsóknir um starfsleyfi hefðu borist heilbrigðisnefnd og hefðu kærendur því fylgst með vefsíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Starfsemi skotfélaganna hafi legið niðri meira og minna undanfarin ár. Skotíþróttamenn hafi þegar þjálfað sig og tekið skot­próf annars­staðar og sé því ekki brýn þörf á að hefja eða halda áfram starfsemi. Sumarið sé liðið og þýðingarlaust að vísa til þess að mesta starfsemin fari fram á sumrin. Frá upphafi starf­seminnar hafi ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða minnka hávaða eða ónæði frá skotvöllunum eins og þó sé krafist í hinni umdeildu bráðabirgða­heimild.

Skilyrði um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða séu ómarktæk. Í lögum sé ekki að finna skil­greiningu á hljóðmælingar­að­ferð og ekki sé í gildi reglugerð sem segi til um hávaðamælingar fyrir skotvelli. Mælingar á skot­hvellum hér á landi upplýsi ekki um raunhávaða því hávaða­toppar mælist ekki en þess í stað séu notuð jafngildis­hljóðstig. Skothvellir séu ekki venjulegur hávaði heldur fylgi þeim mikill, óreglu­­legur og hærri hávaði en frá t.d. umferð eða öðru því sem búast megi við í dreifbýli. Væri hæsti hljóðtoppur notaður mætti áætla að raunhávaði frá skotsvæðinu væri um 80–90 dB en ekki jafngildishljóð um 40 dB. Samkvæmt hinni umdeildu bráðabirgða­heimild skuli Heilbrigðiseftirlit Reykja­víkur framkvæma vöktunar­mæl­ingar á hávaða. Við vinnslu síðasta starfsleyfis Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis hafi Umhverfis­stofnun leið­beint eftirlitinu um að hún teldi rétt að notaðar væru sænskar leið­bein­ingar, þ.e. Allmänna råd om buller från skjut­banor, sem gefnar hefðu verið út af Natur­vårds­verket. Þar séu hávaðatoppar mældir ólíkt því sem tíðkast hefði hér á landi. Ef unnt eigi að vera að fylgja fyrrgreindu skilyrði hinnar umdeildu bráða­birgða­heimildar þurfi að vera ljóst hvaða mæliaðferðir og viðmið eigi að nota. Rekstraraðilar skot­vallanna hafi haft nægan tíma til þess að undirbúa enduropnun þeirra með hliðsjón af hávaða­mengun en engar breytingar verið gerðar, hvorki á skotstefnu né með annarri hljóð­einangrun sem teldist hávaða­minnkandi aðgerð. Ekki sé tímabært að gefa út leyfi fyrr en búið sé að gera fullnægjandi ráð­stafanir til að koma í veg fyrir truflun og ónæði. Viðurkennt og sérhæft fyrir­tæki í hljóðmælingum og ráðgjöf hafi veitt kærendum ráðleggingar um hljóð­mælingar samkvæmt sænskri aðferð og hafi mælingar þess sýnt heilsu­spillandi hávaða frá skot­svæðinu (>85dB), sbr. skilgreiningu 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008. Ekki sé hægt að treysta því að hljóðmælingar heilbrigðiseftirlitsins séu rétt framkvæmdar og sé þess því krafist að hávaðamælingar heilbrigðiseftirlitsins verði ógiltar og nýjar mælingar gerðar af óvilhöllum og sérfróðum aðila eftir fyrirmælum Umhverfis­stofnunar áður en nýtt starfsleyfi verði veitt.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er vísað til þess að í meira en áratug hafi verið rætt um að finna skotsvæðunum nýjan stað og sé þetta fimmta bráðabirgðaleyfið þeim til handa. Á jörðinni hafi hús staðið autt í 16 ár og sé ekki unnt að vera þar vegna hljóðmengunar, allt að 100 dB. Hvergi í heiminum sé notuð sama mæliaðferð og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur noti, þ.e. Metod för immissions­mätning av externt industribuller, enda sé það ekki hægt. Sú mæliaðferð mæli meðalhávaða og séu hávaðatoppar þurrkaðir út en þegar skothávaði sé mældur sé eingöngu verið að mæla hávaðatoppa, ekki annað. Niðurstaða mælinga verði því röng og villandi. Norðurlöndin noti mæliaðferð sem sérstaklega sé hönnuð til að mæla hávaða (hávaðatoppa) frá skotsvæðum, t.d. sænsku mæliaðferðina Allmänna råd om buller från skjutbanor. Þá hafi aldrei verið gerð jarðvegsmæling fyrir þungmálma á svæðinu eða jarðvegur verið hreinsaður. Heilbrigðiseftirlitið hafi viðurkennt að högl lendi á ströndinni sem og að þau stálhögl sem séu notuð innihaldi allt að 12% blý. Svæðið sé eitt fallegasta útivistarsvæði Reykja­víkur með mikilvæga sjófuglabyggð, en margar tegundir sem þar haldi til séu í útrýmingarhættu eða á válista. Fjaran sé þó áfram menguð og hafi ástand hennar hvorki verið metið né áhrif mengunarinnar á umhverfið rannsökuð.

Til viðbótar við framangreint er af hálfu eigenda Móabergs einnig vísað til þess að við útgáfu hinnar umdeildu bráðabirgðaheimildar hafi ekki verið horft til sjónarmiða eigenda í ná­grenninu. Eigendur Móavíkur vísi til þess að hávaðinn valdi þeim ónæði enda séu Íslendingar vanir þeim almennu mannréttindum að þurfa ekki að dvelja í skotgný. Eigandi Hvamms bendir á að ekki verði séð að tekið hafi verið tillit til íbúa í nágrenni við ákvörðun um opnunartíma skotsvæðisins.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er byggt á því að uppfyllt hafi verið skil­yrði um brýna þörf og að fullnægjandi umsókn liggi fyrir hjá útgefanda starfsleyfis, sbr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Frá árinu 2021 hafi starfs­leyfi skot­­félaganna á Álfsnesi ítrekað verið felld úr gildi með úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þau hefðu ekki samræmst skipulagi. Starfsemi hafi því legið meira og minna niðri frá þeim tíma með tilheyrandi áhrifum á rekstur og starfsemi félag­anna sem og á þjálfun skotíþrótta- og veiðimanna. Breyting á Aðal­skipulagi Reykjavíkur 2040 hafi tekið gildi 30. júlí 2024 og skotfélögin þann sama dag sótt um starfsleyfi heilbrigðis­nefndar Reykjavíkur. Nokkrum dögum síðar hafi þau svo sótt um bráða­birgðaheimildina. Við máls­meðferð sína hafi Umhverfisstofnun leitað eftir afstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem hafi lýst því að það teldi fullnægjandi umsókn framkomna og að brýn þörf væri til að veita bráðabirgðaheimildina.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 séu því settar þröngar tímaskorður hve lengi hægt sé að gera athugasemdir við áform um veitingu bráðabirgðaheimildar. Vegna þess knappa tímaramma sé ljóst að ekki sé hægt að auglýsa lengi slík áform og hafi fjórir dagar verið fullnægjandi frestur í málinu.

Umhverfis­stofnun hafi borist ítarleg gögn vegna hljóðmælinga frá skotæfingasvæðunum. Þá hafi stofnunin beint fyrirspurn til heilbrigðiseftirlitsins um fyrirkomulag hljóðmælinga. Meðal þeirra gagna sem hefðu borist hafi verið hljóðmælingar framkvæmdar af heilbrigðiseftirlitinu við Stekk, dags. 29. júní 2022 og 1. júlí s.á.­, sænskar niðurstöður sem mældu hávaða frá s­kot­æfingasvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis ásamt jafngildishljóðmælingum fyrir Stekk sömu daga. Niðurstöður hljóðmælinganna hefðu sýnt að hávaðinn færi ekki yfir mörk heilsuspillandi hávaða skv. 7. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Þá væru til jafn­gildis­hljóð­mælingar og hljóðmælingar „með sænskum niðurstöðum“ framkvæmdar af heilbrigðis­eftirlitinu við Móavík og Móberg, næstu bæi við Móa, sem styðji ekki fullyrðingu um að hljóðmengun frá ­svæðunum nái 100 dB.

Við gerð skilyrða skv. 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 hafi Umhverfisstofnun litið til eldri starfsleyfa og tekið upp öll viðeigandi skilyrði samkvæmt aðalskipulagi. Í greinargerð með umsókn Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis um starfsleyfi hafi verið greint frá þremur tillögum félagsins til að draga úr hljóðmengun, þ.e. að takmarka opnunartíma, einangra skothús og snúa skot­­stefnu skotvalla. Eðlilegur undanfari útgáfu starfsleyfis sé að heilbrigðiseftirlitið leggi mat á þær mótvægisaðgerðir sem skotfélögin hafi framkvæmt og fyrirhugaðar aðgerðir. Verði aðgerðir til að draga úr hljóðmengun skoðaðar nánar við vinnslu starfs­leyfisins. Sé því ljóst að skilyrði nr. 5 í aðalskipulagsbreytingunni frá 2024 hafi verið uppfyllt og umsóknirnar fullnægjandi að því leyti. Skilyrðum bráðabirgðaheimildar sé sérstaklega ætlað að takmarka hljóð­mengun og tekið fram að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og rekstrar­aðila gert að tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða. Þá skuli heilbrigðis­eftirlitið framkvæma vöktunar­mælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartíma eða gert ítarlegar kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin valdi ónæði umfram það sem eðlilegt megi telja. Skilyrði leyfisins séu marktæk og feli í sér nauðsynlega takmörkun og vöktun á hávaða og veiti úrræði til að bregðast við mögulegri hávaðamengun. Eftirlit heilbrigðisnefndar lúti ekki kæru í málinu og sé það ekki hlutverk Umhverfis­stofnunar að véfengja fyrirliggjandi gögn fengin við framkvæmd heilbrigðiseftirlits. Það sé ekki heldur hlutverk stofnunarinnar við út­gáfu bráðabirgðaheimildar að leggja mat á aðgerðir rekstraraðila til að lágmarka ónæði. Þá séu ákvæði um hreinsun á svæðinu sem leggi skyldu á rekstraraðila að standa fyrir almennri hreinsun í samræmi við aðalskipulag. Þá sé skilyrði er lúti að takmörkuðum opnunartíma skotæfingasvæðisins  til þess gert að draga úr áhrifum af völdum hávaða sem sé sett með tilliti til liðar 1. í aðalskipulagsbreytingunni þar sem segi að opnunartími skotæfingasvæðanna skuli vera takmarkaður og ákveðinn í starfsleyfi og miðist að jafnaði við fimm daga í viku.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Af hálfu eigenda Stekks er bent á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 sé búin til heimild til að endurnýja starfsleyfin fyrir skotsvæðin en ekki til þess að gefa út ný starfsleyfi. Starfsleyfi þeirra hafi fallið úr gildi á árunum 2020 og 2021. Síðan hafi öll starfsleyfi vegna þeirra verið úrskurðuð ógild og þar með hafi skotsvæðin í allt að fjögur ár verið án gildandi starfsleyfa. Sé því ekki um endurnýjun starfsleyfis að ræða heldur nýtt og því ekki rök til þess að gefa megi út starfsleyfi vegna starfseminnar. Þá er vísað til þess skilyrðis í aðalskipulagsbreytingu frá árinu 2024 að í umsókn um starfsleyfi skuli skotfélögin koma með tillögur að úrbótum á hljóðmengun.

Samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og tengdum reglugerðum sé um endurnýjun á starfsleyfi ef fyrirtæki eða starfsemi hafi verið með gilt starfsleyfi sem sé að renna út, starfsemi haldi áfram í óbreyttri mynd eða markmiðið sé að uppfæra leyfið samkvæmt nýjustu lögum, reglum og skilyrðum. Um nýtt starfsleyfi sé hins vegar að ræða ef starfsemin sé ný og hafi ekki haft starfsleyfi áður, mikilvæg breyting hafi orðið á starfseminni sem kalli á nýtt mat eða fyrra leyfi sé útrunnið og hafi ekki verið endurnýjað innan tiltekins tímafrests eða fyrri starfsemi hafi legið niðri í langan tíma. Til að uppfylla tímamörk um það hvort um sé að ræða endurnýjun þyrfti að uppfylla það að starfsemin hefði verið í stöðugum rekstri. Ef leyfi renni út en starfsemin haldi áfram, án hlés, sé endurnýjun leyfis yfirleitt möguleg, þó að það þurfi að gerast án óeðlilegrar tafar. Sé starfsleyfi ekki endurnýjað fljótlega eftir að það renni út og starfsemi hafi verið í lágmarki eða alveg stöðvuð gæti leyfisveitandi metið það sem nýtt starfsleyfi. Hafi starfsemi legið niðri í einhvern tíma, oft mánuði eða ár, teljist umsókn almennt vera fyrir nýtt starfsleyfi, jafnvel þótt það sé sami rekstraraðili og á sama stað.

Mælir sem notaður hefði verið af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til hljóðmælinga að Stekk hafi ekki verið settur upp við íbúðarhús heldur á ljósastaur í um 150 m fjarlægð og hafi þ.a.l. ekki mælt hávaða við húsið. Þá hafi skotsvæðin verið lokuð flesta dagana sem mælirinn hafi verið uppi og kærendur ekki orðið varir við skothvelli þá daga, utan einn. Sé því ekki unnt að nota þessar mælingar sem rök fyrir útgáfu leyfis. Umhverfistofnun hljóti að eiga að leggja mat á gögn sem henni berist, sér í lagi þegar neitað sé að fara eftir leiðbeiningum stofnunarinnar um aðferðarfræði við mælingar. Á skotsvæðunum á Álfsnesi séu margir skotstaðir fyrir mis­munandi skotaðferðir, t.d. leirdúfur, haglabyssur og riffla. Alls séu á svæðunum 24 skotbrautir, þar af yfir 20 hjá Skotveiðifélagi Reykja­víkur og nágrennis. Heilbrigðiseftirlitið hafi einungis mælt hávaða við Stekk frá tveimur brautum þess félags. Skotbraut fjögur á svæði Skot­veiði­félagsins sem nefnd er í hljóðmælingarskýrslum heilbrigðis­eftirlitsins sé, eins og fleiri brautir, utan við manir til hægri eða til austurs. Allar hinar skotbrautirnar vísi í norður og þar með í átt að íbúðarhúsi kærenda sem og mörgum öðrum húsum í grenndinni. Engar manir séu í norðurátt og þar með sé svo til engin hljóðeinangrun þegar skotið sé af þeim velli sem hafi 17 skotbrautir. Miklu skipti í hvaða átt skotið sé og þurfi að mæla meira en bara tvo handa­hófskennda staði/skotbrautir. Skotæfingasvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis sé um 30 m.y.s. en hús að Stekk og fleiri hús séu meira en 40–50 m.y.s. Eigi hljóðmanir að gera gagn til hljóðeinangrunar þurfi þær að vera allavega 20 m háar. Þá sé til staðar hljóðendurkast frá klettabelti og þyrfti því að hækka hljóðmanirnar enn frekar. Í Svíþjóð myndu skotsvæði t.d. aldrei vera sett upp þar sem hávaðamengun gæti lent á klettum og hafi hljóð­vistarsérfræðingur staðfest það.

Fyrir hönd eiganda Spildu í landi Móa er bent á að engu skipti hve mikið spýtukofi sé einangraður þegar haglabyssur standi út úr honum. Mælingar á hávaða hafi verið rangar og fulltrúi hjá heilbrigðiseftirlitinu hafi viðurkennt að mælingar þess mældu ekki hávaðatoppa og því geti hávaði „sem toppur“ verið meiri.  Framkvæmd nýrra mælinga hafi einnig verið röng þar sem skot­svæðin hafi verið lokuð þegar mælar hafi verið settir á staura og útreikningur einnig verið rangur. Ekki sé hægt að líkja saman mælingum verkfræðifyrirtækis sem sérhæfir sig í hljóð­mælingum og mælingum starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins sem sumir hverjir hafi ekki lokið námskeiði í hljóðmælingum. Hvað varði hreinsun á svæðinu sé ólíklegt að af henni verði vegna kostnaðar ef kleift sé að hreinsa fjöruna á annað borð.

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu sem verður ekki rakið nánar hér, en úrskurðar­nefndin hefur haft það til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lög­varða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstak­legra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu veru­legir. Þá skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. sömu laga.­ Kærendur í máli þessu eru 12 talsins. Vísa þeir til grenndarhagsmuna vegna fasteigna. Tveir kærenda vegna fasteignar sinnar að Stekk, einn kærandi vegna fasteignar sinnar að Hvammi, þrír kærenda vegna fasteignar sinnar að Móabergi og tveir til grenndar­hagsmuna vegna fasteignar með heitið Spilda úr landi Móa. Hvað síðast greindu fasteignina varðar er samkvæmt fasteignaskrá einn eigandi að henni. Varðandi þá kærendur sem eru eigendur að Móabergi hefur aðeins einn þeirra undirritað kæru í máli þeirra. Verður þeim kærendum sem eru eigendur framangreindra fasteigna, samkvæmt opinberri skráningu, og hafa undirritað kærur sínar, játuð kæruaðild að málinu enda ekki talið unnt að útiloka að grenndaráhrif vegna skotvallarins gagnvart fasteignum þeirra séu slík að varðað geti í verulegu hagsmuni þeirra og formskilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um undirritun kæru uppfyllt. Kærandinn H er ekki meðal skráðra eigenda fasteignarinnar Spilda í landi Móa. Þá hefur hann ekki búsetu þar. Í kæru hans og fyrirsvarsmanns eiganda fasteignarinnar er jafnframt vísað til sjónarmiða um náttúruvernd en slík sjónarmið lúta að atriðum sem teljast til almanna­hagsmuna en þau teljast að jafnaði ekki til einstaklingsbundinna hagsmuna. Telst hann því ekki eiga kæruaðild að máli þessu. Þá verður ekki hjá öðru komist en að vísa frá kröfum B  og C sem ekki hafa undirritað kæru í málinu.

 Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvalds­ákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlinda­mála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endur­skoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma til­teknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til krafna kærenda um ógildingu mælinga á hávaða, kröfu um nýjar mælingar eða um að opnunartími verði skertur.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I, II og IV hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefndir gefa út. Vinnsla umsókna um starfsleyfi byggist á lögum nr. 7/1998 og reglum settum með stoð í þeim. Með 7. gr. a. laga nr. 7/1998, sem bættist við lögin með 3. gr. laga nr. 28/2023 um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir ásamt fleiri lögum, er Umhverfisstofnun fengin heimild í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er talin á því að hefja eða halda áfram starfsemi sem heyrir undir lögin, til að veita bráðabirgða­heimild fyrir starfsemi sem ella væri starfsleyfisskyld. Bráðabirgðaheimildina er unnt að veita til allt að eins árs og er heimilt að framlengja hana um allt að eitt ár að uppfylltum skilyrðum ákvæðisins.

Kærendur hafa gert við það athugasemd að frestur þeirra til að koma að athugasemdum hafi verið of knappur og að birting á vefsvæði Umhverfisstofnunar væri ekki fullnægjandi auglýsing enda hafi þeir fylgst með vefsvæði útgefanda starfsleyfis en ekki Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal umsókn um bráðabirgðaheimild afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að fullnægjandi umsókn berst og skal frestur til að gera skriflegar athugasemdir við veitingu bráðabirgðaheimildar ekki vera lengri en ein vika frá auglýsingu Umhverfisstofnunar. Að öðru leyti gildi ákvæði 7. gr. laganna um útgáfu bráðabirgðaheimildar. Samkvæmt þessu eiga þær málsmeðferðarkröfur sem gerðar eru til leyfisveitanda við útgáfu starfsleyfis samkvæmt þeirri lagagrein því einnig við um útgáfu bráðabirgðaheimilda, að breyttu breytanda, að því undanskildu að málsmeðferðartími Umhverfisstofnunar er skemmri og frestur almennings til að koma að athugasemdum af þeim sökum styttri, þ.e. ekki lengri en ein vika samanborið við fjórar vikur þegar um tillögu að starfsleyfi er að ræða, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt þeirri málsgrein skal útgefandi starfsleyfis vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Er þetta endurtekið í 8. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018 um um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit að því viðbættu að þar er tekið fram að útgefandi starfsleyfis skuli auglýsa opinberlega á vefsíðu sinni hvers efnis þau eru og hvar megi nálgast þau. Reglugerðarákvæðið tiltekur þó ekki bráðabirgðaheimild þar sem reglugerðinni hefur ekki verið breytt frá gildistöku breytingalaga nr. 28/2023. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laganna skal útgefandi auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa og telst það opinber birting. Þá skal útgefandi starfsleyfis samkvæmt 6. mgr. 7. gr. laga nr. 7/1998 hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 8. gr., framlengd starfsleyfi, bráðabirgða­heimildir fyrir starfsemi og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.

Með auglýsingu á vefsíðu sinni, dags. 26. ágúst 2024, lýsti Umhverfisstofnun því yfir að hún áformaði útgáfu bráðabirgðaheimildar fyrir Skotveiðifélag Reykjavíkur og nágrennis vegna skotvallar á Álfsnesi. Kom þar fram að félagið óskaði eftir bráðabirgðaheimild til að hægt væri að halda áfram starfsemi á meðan starfsleyfi þess væri í vinnslu og að Umhverfisstofnun væri heimilt skv. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 að veita bráðabirgðaheimild að skilyrðum uppfylltum. Athugasemdafrestur væri til og með 30. ágúst 2024. Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur verið upplýst að engar athugasemdir hafi borist í tilefni af auglýsingunni. Í ljósi þeirra tímamarka sem Umhverfisstofnun eru sett í 5. mgr. ákvæðisins uppfyllti framangreindur frestur skilyrði þess.

Er af framangreindu ljóst að sá annmarki var á birtingu auglýsingar ­á áformum Umhverfis­stofnunar um útgáfu heimildarinnar að í auglýsingu á vefsíðu Umhverfisstofnunar var hvorki að finna tillögu að bráðabirgða­heimild skotfélagsins eða upplýsingar um hvar mætti nálgast hana, sbr. 1. mgr. 7. gr., sbr. 5. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998. Þá skal tiltekið að almennt við útgáfu starfsleyfa eða bráðabirgðaheimilda er ekki gert ráð fyrir því að leitað sé sjónarmiða þeirra sem hugsanlega eiga hagsmuna að gæta af því að sú starfsemi verði heimiluð sem umsókn nær til.

Í 3. málsl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 er kveðið á um að allur atvinnurekstur sem sótt er um starfsleyfi fyrir skuli vera í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Álíta verður að þessi regla gildi óskoruð við töku ákvörðunar um veitingu bráðabirgða­heimildar skv. ákvæði 7. gr. a. laganna.

Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. júlí 2024, var landnotkun þess svæðis sem hér um ræðir breytt. Fólst breytingin í því að þar hefur verið skilgreint íþróttasvæði, ÍÞ9. Samrýmist rekstur skotvallar á svæðinu samkvæmt þessu nú gildandi landnotkun í aðalskipulagi. Í breytingunni er nánar kveðið á um að heimilt verði að endurnýja starfsleyfi til félaga á svæðinu allt til ársloka 2028 og eru í 11. töluliðum talin upp skilyrði og mót­vægis­aðgerðir sem krafa er gerð er um að starfsleyfi þeirra hafi að geyma, „í það minnsta“.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. a. laga nr. 7/1998 skal bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi háð skilyrðum sem Umhverfisstofnun setur í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til viðkomandi starfsemi, sbr. 9. gr. Í hinni umdeildu bráðabirgðaheimild eru sett skilyrði fyrir starfseminni en Umhverfisstofnun hefur greint frá því að öll viðeigandi skilyrði aðalskipulags hafi verið tekin upp. Þeirra á meðal er opnunartími takmarkaður, haga skal skotstefnu þannig að hávaði valdi sem minnstu ónæði, notkun blýhagla er óheimil og óheimilt er að nota leirdúfur með tjörubindiefni. Þá skal rekstraraðili standa fyrir hreinsun á svæðinu í samræmi við aðalskipulag en þar kemur fram að hreinsun skuli fara fram á svæðinu og í fjöru, að minnsta kosti tvisvar á ári þar sem högl, tóm skothylki, forhlöð og leirdúfurestar er hreinsað.

Samkvæmt skipulaginu skal í starfsleyfi setja fram ríkar kröfur um vöktun hávaða frá starf­seminni og skal heilbrigðiseftirlit við undirbúning starfsleyfis framkvæma hávaðamælingar samkvæmt gildandi reglugerðum og opinberum leiðbeiningum. Tvisvar á ári framkvæmi heilbrigðiseftirlitið tímabundnar vöktunarmælingar með síritandi hávaðamælum. Í hinni um­deildu bráðabirgðaheimild er kveðið á um að starfsemin skuli vera í samræmi við ákvæði reglu­gerðar um hávaða nr. 724/2008 og skuli rekstraraðili tryggja hljóðvarnir og koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða í samræmi við ákvæði aðalskipulagsins. Skal heilbrigðiseftirlitið fram­kvæma vöktunarmælingar á hávaða frá starfseminni og geti það takmarkað opnunartímann eða gert ítarlegri kröfur um hávaðavarnir ef starfsemin veldur ónæði í umhverfinu umfram það sem eðlilegt sé. Eins og mál þetta er vaxið og þar sem bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi verður ekki fyllilega jafnað til starfsleyfis, svo sem hvað tímalengd varðar, verða greind skilyrði hinnar umdeildu bráðabirgðaheimildar álitið fullnægjandi.

Skilja verður umsögn Umhverfisstofnunar með þeim hætti að óregluleg starfsemi Skotveiði­félags Reykjavíkur og nágrennis undanfarin ár vegna ógildinga á starfsleyfum þess leiði til þess að skilyrði 7. gr. a. laga 7/1998 um brýna þörf sé uppfyllt. Þá er þar einnig vísað til þess að í athugasemdum í frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 28/2023 komi m.a. fram að ríkar ástæður verði að mæla með veitingu bráðabirgðaheimildar með hliðsjón af þeim hagsmunum sem undir eru hverju sinni. „Þetta geti komið til þegar ekki er mögulegt að gefa tímanlega út starfsleyfi eða breytingu á starfsleyfi þegar brýn þörf er á að halda starfsemi áfram, koma starfsemi af stað eða breyta henni.“ Í 7. gr. a. laganna er einnig gert að skilyrði fyrir veitingu bráðabirgðarheimildar fyrir starfsemi að fullnægjandi umsókn um starfsleyfi liggi fyrir hjá útgefanda. Af hálfu Umhverfisstofnunar hefur því verið lýst að afrit umsóknar um starfsleyfi hafi fylgt umsókn skotveiðifélagsins um bráðabirgðarheimild fyrir starfsemi og að kallað hefði verið eftir afstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til þess hvort hún teldist fullnægjandi sem hefði staðfest það og greint frá því að á meðan málsmeðferð umsóknarinnar vari hafi félagið enga aðstöðu til æfinga. Af hálfu úrskurðarnefndarinnar eru ekki gerðar athugasemdir við þetta efnislega mat stjórnvalda.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun Umhverfisstofnunar að skilyrði um brýna þörf umsækjanda væri uppfyllt vegna þeirrar ákvörðunar sem um er deilt í máli þessu. Í ljósi tímabundins eðlis ákvörðunarinnar verður að öllu framangreindu virtu ekki talið að slíkir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun að ógildingu varði. Verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 5. september 2024 um að veita bráðabirgðaheimild fyrir starfsemi á skotsvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur og nágrennis á Álfsnesi.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

178/2024 Álfaskeið

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 178/2024 kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024.

 úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 14. desember 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Álfaskeiði 37, Hafnarfirði, íbúð 0201, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærendur gera jafnframt þá kröfu að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 17. desember 2024.

Málsatvik og rök: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli eigenda íbúða í fasteigninni að Álfaskeiði 37. Í byrjun árs 2024 höfðu eigendur íbúðar 0101 samband við byggingarfulltrúa vegna óleyfisframkvæmda í kjallara hússins. Að þeirra sögn höfðu kærendur, sem eru eigendur íbúðar 0201, sagað gat í burðarvegg og sett upp salernisaðstöðu í geymslum sem tilheyri íbúðinni og að í þessum rýmum væri búseta. Var þeim ráðlagt að halda húsfund eða hafa samband við húseigendafélagið til þess að reyna að ná sáttum við kærendur og knýja á um að sótt yrði um byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.

Húseigendafélagið sendi kærendum bréf dags. 7. maí 2024 þar sem farið var fram á að sameign hússins yrði komið í fyrra horf. Þeim kröfum var hafnað með bréfi frá lögmanni kærenda dags. 7. júní s.á. Í byrjun ágúst 2024 fóru eigendur íbúðar 0101 á fund byggingarfulltrúa. Í framhaldi fundarins sendi byggingarfulltrúi kærendum bréf dags. 21. s.m. þar sem skorað var á þau að láta af búsetu hið fyrsta og sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum. Var þeim veittur frestur til 11. september 2024. Sú beiðni var svo ítrekuð með bréfi dags. 17. októberber s.á. og bent á að verði ekki brugðist við erindinu fyrir 15. nóvember s.á. gæti komið til dagsekta.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 27. nóvember 2024 var tekin ákvörðun um að leggja dagsektir að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

 Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili er að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðunin sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024. Kærendur hafa nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kærendum. Eins og málsatvikum er háttað þykir rétt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar enda liggja ekki fyrir knýjandi ástæður sem gera það að verkum að varhugavert sé að bíða niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um ágreiningsefni máls þessa. 

Úrskurðarorð:

 Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 28. nóvember 2024, um beitingu dagsekta að fjárhæð 20.000 kr. á dag frá og með 12. desember 2024.

88/2024 Múlalind

Með

Árið 2024, föstudaginn 20. desember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 88/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 3.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Múlalind 6, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 12. júlí 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð Múlalindar 2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kvisturinn verði fjarlægður.

Málsatvik og rök: Á fundi byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 12. júlí 2024 var tekin fyrir og samþykkt umsókn eigenda Múlalindar 3 um leyfi til að gera kvist á bílskúr á lóð þeirra. Hinn 18. ágúst s.á. barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kæra þessa máls. Með bréfi byggingarfulltrúa til leyfishafa, dags. 11. september s.á., var tilgreint að við skoðun málsins hafi komið í ljós að ekki væri heimild í deiliskipulagi fyrir umræddum kvisti auk þess sem kvisturinn, sem búið væri að byggja, væri ekki í samræmi við samþykkta uppdrætti. Tilkynnti embættið leyfishafa að áformað væri að fella leyfið úr gildi með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á grundvelli 13. gr. sömu laga var leyfishafa veittur 14 daga frestur til til að tjá sig um málið. Embættinu bárust engar athugasemdir frá leyfishafa og hinn 29. október 2024 tilkynnti byggingarfulltrúi honum um að leyfið væri fellt úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 13. desember s.á. var bréfið lagt fyrir og það samþykkt.

Kærendur taka fram að þau hafi fyrst orðið vör við hina kærðu framkvæmd 11. ágúst 2024. Undanfarin ár hafi sífellt verið bætt við byggingarmagni á lóðinni áður en aflað hafi verið tilskilinna leyfa. Sú stækkun sem hér um ræði hafi aldrei verið kynnt kærendum þrátt fyrir að breytingin hafi áhrif á útsýni þeirra. Þrátt fyrir að framkvæmdin beri heitið „kvistur“ sé efnislega um að ræða hækkun á austanverðri langhlið bílskúrsins um eina hæð. Breytingin samræmist því ekki byggðamynstri þar sem öll önnur hús í götunni séu einnar hæðar, að undanskildu endahúsi á lóð nr. 2 sem falli ágætlega inn í umhverfið. Byggingarmagn á lóðinni sé komið langt umfram það sem eðlilegt geti talist.

Af hálfu eiganda Múlalindar 3 er bent á málsmeðferð byggingarleyfisins hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur. Um smávægilega breytingu á útliti hússins sé að ræða.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er meginreglan sú að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Eins og að framan greinir hefur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa frá 12. júlí 2024 verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Vegna þeirrar kröfu kærenda að hinn umdeildi kvistur á bílskúr lóðar Múlalindar 3 verði fjarlægður er bent á að hlutverk úrskurðarnefndarinnar skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði.  Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en telur það falla utan vald­heimilda sinna að leggja fyrir stjórnvöld að aðhafast með tilgreindum hætti í málum. Verður því ekki tekin afstaða til framangreindrar kröfu kærenda, en rétt þykir að leiðbeina þeim um að hægt er að fara fram á við byggingarfulltrúa að beitt verði þvingunarúrræðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 55. og 56. gr. laganna.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

156/2024 Oddeyrargata

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 156/2024, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 um að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. nóvember 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Café Jensen ehf. eigandi lóðar nr. 30 við Oddeyrargötu, þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Akureyrarbæ 22. nóvember 2024.

Málavextir: Með umsókn, dags. 12. september 2024, sótti kærandi um framkvæmdaleyfi til að gera bílastæði á lóð Oddeyrargötu 30 á Akureyri. Nánar tiltekið fólu áformin í sér að gerð yrðu bílastæði fyrir tvo bíla á suðurhorni lóðarinnar. Að auki var óskað eftir leyfi til að gera geymslu inn af bílastæðunum til vesturs og vísað til þess að í hverfinu væru fordæmi fyrir framkvæmdinni. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsráðs 9. október s.á. þar sem umsókninni var synjað með eftirfarandi rökstuðningi: „Mikil umferð gangandi er um Oddeyrargötu og telur skipulagsráð því ekki æskilegt að gerð verði aðkoma inn á lóð yfir gangstétt, sérstaklega þar sem eingöngu er mjó gangstétt öðru megin götunnar.“ Hinn 22. s.m. óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var þeirri beiðni svarað af skipulagsfulltrúa 5. nóvember s.á. Kom þar fram að mikil umferð gangandi, hjólandi og hlaupahjóla væri um Oddeyrargötu. Eingöngu væri mjó gangstétt öðru megin götunnar og með því að heimila bílum að þvera gangstéttina til að komast að bílastæðum innan lóðar skapist óþarfa hætta fyrir þá sem nýti gangstéttina, sérstaklega þar sem bílar, gróður og girðingar lóða hindri oftar en ekki útsýni. Þá var í rökstuðningnum vísað til þess að hvergi væri að finna bílastæði innan lóðar á sam­bærilegum lóðum við Oddeyrargötu, þ.e. á lóðum milli Hamarstígs og Lögbergsgötu.

Málsrök kæranda: Kærandi andmælir þeirri fullyrðingu Akureyrarbæjar að mikil umferð sé á gangstéttinni við Oddeyrargötu. Ráðið vísi einnig til þess að gangstéttin sé mjó en ekki verði betur séð en að breiddin sé í samræmi við núgildandi staðal. Samkvæmt leiðbeiningum frá Vegagerðinni megi breidd gangstéttar vera 1,8 m sem sé einmitt breidd gangstéttarinnar. Fyrir liggi fordæmi á lóðum við Oddeyrargötu þar sem finna megi bílastæði sem hafi aðkomu yfir gangstétt, t.d. Oddeyrargata 4, 12, 13–15 og 18–22. Það sé mikilvægt að dregið verði úr því að bifreiðaeigendur sem erindi hafi í miðbæ Akureyrar leggi bifreiðum sínum í íbúðarhverfum og að tillit verði tekið til íbúa bæjarins með hliðsjón af þörfum þeirra fyrir bílastæði.

Málsrök Akureyrarbæjar: Af hálfu bæjayfirvalda er vísað til þess að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin með hliðsjón af mikilli umferð um Oddeyrargötu og mjórri gangstétt. Ákvörðunin sé því málefnaleg út frá sjónarmiðum um umferðaröryggi. Horfa þurfi til þess að umrædd lóð sé í miklum halla og ef bílastæðið eigi að vera á svipuðu „plani“ og gatan þurfi að grafa inn í brekkuna sem myndi skerða útsýni bílstjóra að gangstétt og götu. Einnig hafi verið litið til samliggjandi lóða Oddeyrargötu 30, þ.e. húsa á lóðum 36, 34, 32, 28 og 26 sem standi öll á milli Lögbergsgötu og Hamarstígs. Frá gangstétt að húsum þeirra lóða sé nokkur bratti á lóð og engin bílastæði með útkeyrslu á Oddeyrargötu. Húsin á Oddeyrargötu fyrir neðan Hamar­stíg, sem séu þau hús sem kærandi vísi til, séu á svipuðu „plani“ og gatan. Útsýni frá bílastæði að gangstétt og götu sé mun víðara þar og af þeim sökum sé fyrirkomulag þeirra lóða ekki sambærilegt við lóð Oddeyrargötu 30. Hin kærða ákvörðun hafi jafnframt verið tekin m.t.t. götumyndar svæðisins, en á Oddeyrargötu milli Lögbergsgötu og Hamarstígs séu engin bíla­stæði á lóðum.

Vísað sé til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 102/2023, en í því máli hafi byggingarfulltrúi synjað umsókn um gerð bílastæðis á þeim grundvelli að stæði á íbúðar­húsalóð myndi skapa talsverða slysahættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sbr. gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennt göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt og ekki skapist slysahætta á svæðinu.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Af hálfu kæranda eru ítrekuð sjónarmið um að umferð sé ekki þung við Oddeyrargötu og að gangstétt sé í leyfilegri breidd. Bílastæðið yrði grafið inn í hlíðina en þar sem tré hafi verið fjarlægð þá verði útsýnið ekki verra en t.d. frá stæðinu við Oddeyrargötu 12.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs Akureyrarbæjar frá 9. október 2024 að synja umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir gerð bílastæðis á lóð Oddeyrargötu 30. Var ákvörðunin tekin með vísan til 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 37. gr. sam­þykktar nr. 1674/2021 um stjórn og fundarsköp Akureyrarbæjar, en í 2. gr. viðauka 1.1 við greinda samþykkt er skipulagsráði falið að afgreiða tiltekin verkefni skipulagslaga nr. 123/2010 án staðfestingar bæjarstjórnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra laga.

Samkvæmt 10. tl. 2. gr. laga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi skilgreint sem leyfi til framkvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Í 1. mgr. 13. gr. sömu laga segir að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, en skv. 2. málsl. ákvæðisins þarf þó ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki.

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett er á grundvelli laga nr. 160/2010 um mannvirki, er í kafla 4.3. fjallað um aðaluppdrætti og byggingarlýsingu. Segir í 1. mgr. gr. 4.31. að aðal­uppdrættir séu heildaruppdrættir að mannvirki ásamt afstöðumynd. Í 3. mgr. er svo mælt fyrir um að á afstöðumynd skuli sýna byggingarreit innan lóðar samkvæmt deiliskipulagi, bílastæði á lóð og aðkomu að mannvirkinu, en jafnframt skal skv. 8. mgr. tilgreina fjölda bílastæða, stæði fyrir önnur farartæki og gera sérstaklega grein fyrir samræmi við kröfur í deiliskipulagi og í byggingarreglugerð. Þá er og ljóst að um bílastæði gilda ákveðnar kröfur sem m.a. er fjallað um í gr. 6.2.2. í byggingarreglugerð, s.s. um að hönnun þeirra skuli vera með þeim hætti að ekki skapist hætta fyrir gangandi eða hjólandi vegfarendur.

Af framangreindu verður ráðið að gerð bílastæða sé byggingarleyfisskyld framkvæmd sam­kvæmt lögum nr. 160/2010 og því ljóst að ekki er þörf á framkvæmdaleyfi vegna þeirrar fram­kvæmdar, sbr. áðurnefndan 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Það er hlutverk byggingar­fulltrúa sveitarfélags að taka ákvörðun um það hvort samþykkja skuli eða hafna umsókn um byggingarleyfi en af samþykktum Akureyrarbæjar verður ekki séð að skipulagsráði hafi verið falið vald til að taka ákvarðanir á grundvelli laga nr. 160/2010. Verður ákvörðun þar að lútandi því einungis tekin af byggingarfulltrúa, eftir atvikum eftir að leitað hefur verið umsagnar skipulagsfulltrúa skv. 2. mgr. 10. gr. laganna, um hvort fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir á svæðinu.

Samkvæmt framansögðu var skipulagsráð ekki bært að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun og af þeim sökum skortir á að um sé að ræða lokaákvörðun í máli þessu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

145/2024 Furugerði

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 145/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2024 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu íbúðar að Furugerði 5 í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 25. október 2024, kærir einn eigenda íbúðar 0102 að Furugerði 5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2024 að beita ekki þvingunar­úrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu íbúðar 0101 að Furugerði 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 29. nóvember 2024.

Málavextir: Með erindi til byggingarfulltrúa í gegnum vefsíðu Reykjavíkurborgar 3. september 2024 benti eigandi íbúðar 0102 við Furugerði 5, F2270407, á að eigandi íbúðar 0101, F2034143, í sama húsi neitaði að setja hurð á sorpgeymslu sína. Það væri mikill sóðaskapur þar sem kærandi gengi fram hjá á leið inn og út úr íbúð sinni. Var farið fram á að Reykjavíkurborg myndi knýja á um frágang.

Með bréfi, dags. 17. september 2024, óskaði byggingarfulltrúi eftir skýringum frá þinglýstum eiganda íbúðar 0101 í nefndu húsi. Var vísað til þess að borist hefði ábending um að búið væri að fjarlægja hurð á sorpgeymslu íbúðarinnar en samkvæmt samþykktum aðaluppdrætti ætti að vera hurð á rýminu. Eigendur íbúðar 0101 svöruðu erindi byggingarfulltrúa með tölvupósti 20. s.m. þar sem fram kom að þau væru búin að vera eigendur íbúðarinnar sl. níu ár og aldrei á þeim tíma hefði verið hurð á sorpgeymslunni. Þá var því velt upp hvort embætti byggingar­fulltrúa hefði upplýsingar um hvort hurð hefði verið á sorpgeymslunni við úttekt hússins og hvort það væri þá ekki allra eigenda hússins að bæta úr ef svo hefði ekki verið. Þá kom fram ábending um pall og öskutunnuskápa við íbúð 0102 sem hindri eðlilegan aðgang að sameiginlegri lóð.

Kærandi var upplýstur með tölvupósti 26. september 2024 um að afnota- og eftirlitsdeild hefði farið í vettvangsferð að Furugerði 5 daginn áður og kynnt sér aðstæður. Málið hefði verið tekið fyrir á afgreiðslufundi deildarinnar með byggingarfulltrúa sama dag sem hefði metið að ekki væru slíkir almannahagsmunir til staðar að ástæða þætti til að byggingarfulltrúi hlutaðist til um málið með beitingu þvingunarúrræða.

Málsrök kæranda: Vísað er til þess að kærendur viti ekki til þess hvort einhvern tíma hafi verið hurð fyrir umræddri sorpgeymslu en eftir að hafa flutt inn í húsið árið 2023 hafi verið óskað eftir því að hurð yrði sett fyrir sorpgeymsluna en þeirri beiðni hafi ekki verið sinnt. Áskorun hafi verið send á eigendur íbúðarinnar með tilstuðlan Húseigendafélagsins en engin viðbrögð hafi borist. Í kjölfarið hafi verið send ábending á byggingarfulltrúa sem hafi að lokum talið að ekki væri þörf á að beita þvingunarúrræðum þar sem almannahagsmunum væri ekki raskað. Af einhverjum ástæðum hafi eigendur íbúðar 0101 í svörum sínum til byggingarfulltrúa séð ástæðu til að leggja fram ábendingu þess efnis að sorpgeymsla og pallur hefðu verið reist við íbúð 0102 án samþykkis og óskað eftir því að byggingarfulltrúi beitti þvingunarúrræðum til að fjarlægja það. Dómur hafi hins vegar fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur 11. febrúar 2019 þar sem ekki hafi verið fallist á kröfur eigenda íbúðar 0101 gagnvart eigendum annarra íbúða í húsinu um að fjarlægja skjólvegg og þar með talið greinda sorpgeymslu og pall sem nú hafi verið kvartað yfir til byggingarfulltrúa. Niðurstaða dómsins hljóti að vera þeim kunn og því sé ljóst að borin hafi verið ósannindi á borð fyrir byggingarfulltrúa í þeim tilgangi að ógna kærendum og ráðskast með opinbera fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Fasteign eigi að vera í samræmi við teikningar, líkt og fram komi í byggingarreglugerð og tölvupósti byggingarfulltrúa. Það að hurð hafi ekki verið til staðar þegar eigendur kaupi fasteign sé engin afsökun. Sorpgeymslan sé opin svo óþrifnaður sé af og rusl sem oft fjúki yfir á gangveginn og valdi slysahættu. Kærendur þurfi að ganga fram hjá á leið sinni til og frá íbúð sinni og sorpgeymslan sé lýti á húsinu sem dragi virði fasteignarinnar niður. Nauðsynlegt sé að setja hurð fyrir sorpgeymsluna þar sem í nágrenni hússins séu þjónustuíbúðir þar sem oft sé opið inn í matsal. Öruggt sé að þarna séu einhver meindýr sökum sóðaskapar og því snúi krafan um hurð á sorpgeymsluna að hreinlæti, hollustuvernd og öryggismálum ásamt því að almenningur gangi þarna um og því um almannahagsmuni að ræða.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að húsið á lóð Furugerðis 5 hafi verið byggt árið 1983 og þá skráð sem skrifstofuhúsnæði. Árið 2004 hafi byggingunni verið breytt í íbúðir og séu aðaluppdrættir frá þeim tíma. Þinglýstir eigendur að íbúð 0101 hafi verið eigendur að þeirri íbúð frá árinu 2015. Engar upplýsingar liggi fyrir sem bendi til þess að nokkurn tímann hafi verið hurð fyrir sorpgeymslunni frá byggingu hennar. Útidyr/hurð á sorpgeymslu, sem ytra byrði húss, falli undir sameign fjöleignarhúss sbr. 1. tl. 8. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús og því beinist ágreiningur málsins að öllum þremur eigendum Furugerðis 5, þar á meðal ákvörðun byggingarfulltrúa um að beita ekki þvingunarúrræðum.

Ákvæði um beitingu þvingunarúrræða sé að finna í 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og feli í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa til að taka ákvörðun um beitingu slíkra úrræða en slík ákvörðun sé háð mati hans. Í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 160/2010 hafi komið fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða sé metin í hverju tilviki fyrir sig með tilliti til meðalhófs. Ákvæðið gefi byggingarfulltrúa kost á að bregðast við ef gengið sé gegn þeim almannahagsmunum sem búi að baki lögum nr. 160/2010, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Það sé því ávallt mat á aðstæðum sem ráði því hvort þvingunarúrræðum sé beitt eða ekki.

Við mat byggingarfulltrúa á því hvort beita ætti þvingunarúrræðum hafi verið litið til þeirra skýringar sem eigandi íbúðar F2034143, merkt 0101, hafi fært fram auk þess sem starfsmenn byggingarfulltrúa hafi farið á vettvang til að meta aðstæður. Það hafi verið mat þeirra að öryggis- og almannahagsmunum hafi ekki verið raskað. Ákvörðunin hafi verið tekin með hliðsjón af meðalhófsreglu og því að vöntun á hurðinni hafi ekki verið talin raska öryggis- og almannahagsmunum. Það væri mat Reykjavíkurborgar að ekkert hafi komið fram í málinu sem valdið gæti ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa.

 Athugasemdir hagsmunaaðila: Bent er á að íbúar í íbúð 0102 hafi aldrei óskað eftir því að hurð yrði sett fyrir sorpgeymsluna eða rætt við nágranna um það. Stanslaust áreiti hafi verið af hálfu kærenda eftir kaup þeirra á íbúð sinni í húsinu auk þess að valda skemmdarverkum og hafa í frammi óhugnanlega hegðun. Fyrsta skipti sem það hafi komið upp að farið væri fram á hurð fyrir sorpgeymsluna hafi verið í bréfi frá húseigendafélaginu auk ásakana og lyga um allt mögulegt. Engin hurð hafi verið fyrir sorpgeymslunni árið 2015 þegar þau hafi flutt inn í íbúðina og miðað við útlit geymslunnar hafi aldrei verið hurð þar. Rusl fari ætíð beint ofan í ruslatunnur en hins vegar berist mikið rusl og lauf frá öðrum húsum í hverfinu sem sé tekið og hent. Engin meindýr séu á svæðinu og ruslatunnurnar nýlegar og hreinar og ekki sóðalegar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mann­virkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráða­manni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum er tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunarúrræðum. Þar kemur fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða er því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur það sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunar­úrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Líkt og fram hefur komið fór fulltrúi embættis byggingarfulltrúa á staðinn og kynnti sér aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Í ákvörðuninni kom fram það mat byggingarfulltrúa að ekki væru slíkir almannahagsmunir til staðar að ástæða þætti til að hann hlutaðist til um málið með beitingu þvingunarúrræða.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa að synja kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða. Verður ógildingar­kröfu kæranda því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. september 2024 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna vöntunar á hurð fyrir sorpgeymslu íbúðar að Furugerði 5 í Reykjavík.

117/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 117/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. september 2024 um að falla frá áformum um beitingu þvingunarráðstafana gagnvart lóðarhöfum Laugarásvegar 63 vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Laugarásvegar 61, ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 23. september 2024 um að falla frá áformum um álagningu dagsekta gagnvart lóðarhafa Laugarásvegar 63 vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. nóvember 2024.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en með bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa lóðar nr. 63 við Laugarásveg, dags. 2. febrúar 2024, var lóðarhöfum gert að leggja fram innan 14 daga byggingar­leyfis­umsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa lóðar nr. 61 við Laugarásveg, kæranda í þessu máli, vegna girðingar á mörkum lóðanna. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað lóðarhafa eða dagsektum beitt. Í tölvubréfi lóðarhafa til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var framangreint fært til bókar. Í tölvubréfi til lóðarhafa, dags. 1. mars s.á., kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að ná samkomulagi við kæranda um girðingu á mörkum lóðanna og senda það til byggingarfulltrúa, að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn líkt og lóðar­hafar hefðu sagst ætla að gera. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki byggingarfulltrúa og sendi hann því lóðarhöfum bréf, dags. 23. s.m., þar sem fram kom að veittur væri lokafrestur til að fjarlægja girðinguna. Yrði hann ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingar­fulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það drægist. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum.

Lóðarhafar Laugarásvegar 63 kærðu þá ákvörðun byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar. Í úrskurði nefndarinnar í umræddu kærumáli nr. 54/2024 frá 6. júní 2024 var kröfu lóðarhafa um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa um að fjarlæga hina umdeildu girðingu hafnað. Þeim hluta málsins er varðaði ákvörðun um álagningu dagsekta var vísað frá þar sem ekki var talið að legið hefði fyrir lokaákvörðun um þá álagningu.

Í bréfi, dags. 23. september 2024, til lóðarhafa Laugarásvegar 63 rakti byggingarfulltrúi þau lög og reglur sem gilda um girðingar og skjólveggi á lóðamörkum og málsatvik varðandi hina umdeildu girðingu er reist hefði verið á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63. Þá var fjallað um heimildir byggingarfulltrúa til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki. Að lokum kom fram að ekki fengist séð að hin umdeilda girðing ylli hættu né væri skaðleg heilsu nágranna og af því leiddi að öryggis- eða almannahagsmunum væri ekki raskað. Þar af leiðandi myndi embætti byggingarfulltrúa ekki beita sér fyrir því að girðingin yrði fjarlægð með beitingu þvingunarúrræða. Var samrit bréfsins sent kæranda­ og er niðurstaða þessi hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Bent er á að vafi leiki á því á hvaða lagagrunni hin kærða ákvörðun byggir, en ekki hafi verið vísað til neinna ákvæða stjórnsýslulaga varðandi afturköllun eða breytingu ákvörðunar um beitingu dagsekta. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að fjarlægja skyldi girðingarnar hafi verið staðfest með úrskurði nefndarinnar frá 6. júní 2024 í máli nr. 54/2024. Sú ákvörðun að aðhafast ekki í málinu, með vísan til orðalags í frumvarpi því er varð að lögum nr. 160/2010 um mannvirki, haldi ekki vatni enda hafi það orðalag verið í lögum frá gildistöku þeirra. Það standist ekki skoðun að vitna til þeirra nú þegar það henti byggingarfulltrúa sem hafi ekki kjark eða staðfestu til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Álagning dagsekta sé þvingunar­úrræði sem beitt sé til að fylgja eftir ákvörðunum byggingarfulltrúa og það sé haldlaust að taka ákvörðun um að gera eiganda Laufásvegar 63 að fjarlægja óleyfisframkvæmd ef ekki standi til að fylgja henni eftir með þvingunarúrræðum. Byggingarfulltrúi hafi ekki gert tilraun til að rökstyðja hvers vegna hann hafi fallið frá fyrri ákvörðun eða hvaða atvik hafi breyst sem réttlæti slíka ákvörðun. Byggingarfulltrúi sé stjórnvald og hafi kærandi mátt hafa réttmætar væntingar til þess að fyrri ákvörðun yrði ekki breytt eftir geðþótta án haldbærra raka eða í samræmi við lög og góða stjórnsýslu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Vísað er til þess að hin kærða ákvörðun snúi eingöngu að þinglýstum eiganda Laugarásvegar 63. Ekki verði séð að kærandi hafi beina, verulega, sérstaka og lögvarinna hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun að leggja ekki á dagsektir á eiganda Laugarás­vegar 63 þar sem sú þvingunarráðstöfun snúi eingöngu að þeim aðila.

Ekki sé um að ræða afturköllun stjórnvaldsákvörðunar þar sem staðfest hafi verið í úrskurði nefndar­innar nr. 54/2024 að ekki hafi verið tekin ákvörðun um álagningu dagsekta og því geti ekki verið um afturköllun að ræða. Fyrir liggi ákvörðun byggingarfulltrúa um að gera eigendum Laugarás­vegar 63 að fjarlæga umdeilda girðingu og standi sú ákvörðun áfram.

Ákvæði 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki feli í sér heimild fyrir byggingarfulltrúa að taka ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða en sú ákvörðun sé háð mati byggingarfulltrúa. Ákvæðið gefi byggingarfulltrúa kost á að bregðast við ef gengið sé gegn þeim almanna­hagsmunum sem búi að baki lögum nr. 160/2010 svo sem skipulags-, öryggis- eða heilbrigðis­hagsmunum. Það sé því ávallt mat á aðstæðum sem ráði því hvort þvingunarúrræðum sé beitt eða ekki í tilefni af framkvæmd sem teljist vera ólögmæt. Einstaklingum sé þannig ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklings­hagsmuna enda sé þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína.

Starfsmenn byggingarfulltrúa hafi mætt á staðinn til að skoða aðstæður í þó nokkur skipti og í þrígang tekið myndir á vettvangi. Síðasta vettvangskönnun hafi verið farin í kjölfar bréfs kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 30. september 2024, til að ganga úr skugga um hvort fullyrðingar hans um eld- og útleiðnihættu frá skjólgirðingunni ættu við rök að styðjast. Það hafi verið mat starfsmanna byggingarfulltrúa að svo væri ekki. Eftir heildstæða skoðun á því hvort umrædd skjólgirðing teldist raska öryggis- og almannahagsmunum hafi svo ekki verið talið. Það sjónarmið hafi komið fram í bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Laugarásvegar 63 frá 23. september 2024. Fulltrúar byggingarfulltrúa hafi kynnt sér vel aðstæður á vettvangi fyrir töku ákvörðunarinnar og hún hafi verið tekin með hliðsjón af meðalhófsreglu. Ákvörðun byggingar­fulltrúa um að beita ekki þvingunarráðstöfunum sé studd málefnalegum rökum og ekki verði séð að slíkir annmarkar séu á hinni umdeildu ákvörðun að varðað gæti ógildingu hennar.

 Athugasemdir eiganda Laugarásvegar 63: Bent er á að girðing á lóðarmörkum Laugarás­vegar 61 og 63, sem staðið hafi í um það bil 4 ár, hafi verið reist í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi eigenda hlutaðeigandi lóða. Aldrei hafi verið óskað stöðvunar framkvæmda á meðan unnið hafi verið að því að reisa girðinguna. Þegar girðingin hafi staðið í rúm 2 ár hafi verið reynt að afla skriflegs samþykkis en kærandi hafi þá dregið lappirnar og svo afturkallað munnlegt samþykki sitt með skilaboðum 20. júní 2023 án nokkurra skýringa.

Girðingin hafi nú staðið í nær 4 ár án áfalla og ógni hvorki öryggis- né almannahagsmunum. Málatilbúnaður kæranda um hið gagnstæða sé órökstuddur og úr öllu hófi. Málefnaleg rök standi ekki til að beita verulega íþyngjandi þvingunarúrræðum, líkt og dagsektir séu, í þessu máli. Sérstaklega í ljósi fyrrgreinds munnlegs samkomulags aðila, verulegs tómlætis kæranda og sinnuleysis gagnvart ítrekuðum tilraunum til sátta. Sinnuleysið og gögn málsins beri með sér að kærandi telji sig ranglega eiga lögvarinn rétt til að knýja byggingar­fulltrúa til að beita þvingunarúrræðum þrátt fyrir að honum séu tryggð önnur réttar­úrræði til varnar réttindum sínum.

Því sé hafnað að tilvitnuð ummæli, dags. 1. mars 2024, feli í sér einfalda bindandi yfirlýsingu um að fjarlægja girðinguna svo sem ætla megi af hinni kærðu ákvörðun. Ummælin hafi verið háð óframkomnu skilyrði um kostnaðarskiptingu á milli lóðarhafa. Ekkert liggi fyrir um kostnaðar­skiptingu enda hafi kærandi hunsað og/eða hafnað tilraunum til samtals og sátta. Þá hafi tilvitnuð ummæli grundvallast á ófullnægjandi leiðbeiningum byggingar­fulltrúa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum til að girðing á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 verði fjarlægð.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæru­aðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Kærandi í máli þessu er rétthafi lóðar nr. 61 við Laugarásveg en hin umdeilda girðing er á mörkum þeirrar lóðar og lóðar nr. 63 við Laugarásveg og hefur kærandi átt í nokkrum sam­skiptum við embætti byggingarfulltrúa þar sem hann hefur krafist aðgerða af hálfu embættisins til að knýja á um að girðingin yrði fjarlægð. Í ljósi þessa verður kæranda játuð kæruaðild í máli þessu.

Í bréfi byggingarfulltrúa til lóðarhafa Laugarásvegar 63, dags. 23. september 2024, kemur fram að byggingarfulltrúi ætli ekki að beita sér fyrir því að hin umdeilda girðing verði fjarlægð með beitingu þvingunarúrræða. Fyrir liggur í máli þessu að endanleg ákvörðun um álagningu dagsekta hafði ekki verið tekin af hálfu byggingarfulltrúa, sbr. úrskurð úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 54/2024, og var slík ákvörðun ekki tekin eftir uppkvaðningu þess úrskurðar. Felur ákvörðun byggingarfulltrúa því ekki í sér afturköllun stjórnvaldsákvörðunar um beitingu dag­sekta, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur er um að ræða ákvörðun um að beita ekki þvingunarúrræðum.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa hvers sveitarfélags að hafa eftirlit með því að mannvirki og notkun þeirra sé í samræmi við útgefin leyfi og beita eftir atvikum þvingunarúrræðum, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Er nánar kveðið á um það í 2. mgr. 55. gr. laganna að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Þá er fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur í 56. gr. laganna. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mann­virkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt sam­þykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráða­­­manni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sé það ekki gert er heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hefur að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. nefnds lagaákvæðis.

Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum er tekið fram að sú breyting hafi verið gerð frá fyrri lögum að byggingarfulltrúa sé heimilt en ekki skylt að beita þvingunar­úrræðum. Þar kemur fram að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða er því háð mati stjórnvalds hverju sinni og gefur sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almanna­hagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðis­hagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunar­­úrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum og fylgja þarf meginreglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun.

Hin kærða ákvörðun embættis byggingarfulltrúa var studd þeim rökum að öryggis- og almanna­­hagsmunum sé ekki raskað með hinni umdeildu girðingu, enda valdi hún ekki hættu eða sé skaðleg heilsu nágranna.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að ákvörðun byggingarfulltrúa um að falla frá beitingu þvingunarúrræða vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63 og að aðhafast ekki frekar í málinu sé studd haldbærum rökum og ekki verður séð að umdeildar framkvæmdir raski almannahagsmunum. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar af þeim sökum hafnað. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. september 2024 um að falla frá áformum um beitingu þvingunarráðstafana gagnvart lóðarhöfum Laugarásvegar 63 vegna girðingar á lóðamörkum Laugarásvegar 61 og 63.

149/2024 Drangahraun og Skútahraun

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 149/2024, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. október 2024, er barst nefndinni 1. nóvember s.á., kæra Nesnúpur ehf., VHE ehf., Bitter ehf., G.P. Kranar ehf. og húsfélagið Skútahrauni 4 þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun. Er þess krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið upp að nýju og setja það í lögmætan farveg áður en ný ákvörðun verði tekin. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á lóðinni Drangahrauni 3 yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 13. nóvember 2024.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 19. nóvember 2024.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnafjarðarbæjar 5. desember 2023 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun. Fól tillagan í sér að fallið yrði frá heimild um að bílastæði fyrir lóðir við Drangahraun væru á lóðum við Skútahraun. Kvöð um akstur og aðkomu að kjallara Drangahrauns 3 og 5 væri á lóðunum Skútahraun 2 og 2a. Var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar og málinu vísað til bæjarstjórnar sem staðfesti ákvörðunina á fundi sínum 20. s.m. Deiliskipulagstillagan var auglýst 28. desember 2023 með athugasemdafresti til 8. febrúar 2024.

Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarráðs 30. maí 2024 og lagðar fram framkomnar athugasemdir og minnisblað lögmanns. Á fundi ráðsins 22. ágúst s.á. var málið tekið fyrir að nýju og lögð fram samantekt athugasemda og uppfærður deiliskipulags-uppdráttur. Samþykkti ráðið svör við framkomnum athugasemdum og uppfærða tillögu deiliskipulags og vísaði málinu til bæjarstjórnar sem samþykkti framlagða tillögu að breytingu á deiliskipulagi Drangahrauns og Skútahrauns á fundi sínum 28. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2024.

 Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að skort hafi á að athugasemdir sem komið hafi verið með við meðferð málsins hafi verið teknar til fullnægjandi skoðunar við afgreiðslu málsins. Bæjaryfirvöld hafi ekki kynnt kærendum ný gögn í málinu og gefið þeim kost á að koma að sjónarmiðum sínum og þannig brotið gegn þátttökurétti almennings.

Á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar hafi a.m.k. borist þrjár athugasemdir frá kærendum. Hafi þar m.a. verið bent á að fyrirliggjandi kvöðum yrði ekki breytt án samkomulags við þá sem hefðu undirgengist umrædda kvöð og gætu bæjaryfirvöld ekki útfært fyrirliggjandi kvöð öðrum til hagsbóta. Sé þar vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 118/2009 þar sem staðfest hafi verið að kvöð í deiliskipulagi fæli í sér skerðingu á fyrirliggjandi eignaréttindum sem væru varin í 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár.

Einnig hafi verið á það bent að mögulega byggði auglýsingin á misskilningi af hálfu bæjaryfirvalda þar sem texti um kvöð hafi ratað inn á mynd með deiliskipulagi frá 7. ágúst 2008. Málsatvik væru þó þannig að hvorki væri fyrir að fara þinglýstum gögnum um umferðarrétt né væri fyrir hendi hefð fyrir umferð um Skútahraunslóðirnar af hálfu lóðarleiguhafa Drangahraunslóðanna. Væri um misskilning að ræða og hugmynd bæjaryfirvalda væri að koma á nýrri kvöð til handa lóðarleiguhöfum Drangahraunslóðanna nr. 3. og 5. Í tilefni af deiliskipulagsbreytingunni væri vakin athygli á tilteknum dómi Hæstaréttar þar sem því hafi verið slegið föstu að ekki væri unnt á grundvelli deiliskipulags að stofna til umferðarréttar nema að fengnu samþykki þeirra sem kvöðin ætti að snúa að eða á grundvelli þeirra úrræða um eignarnám sem lög mæli fyrir um, sbr. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Vísað sé til minnisblaðs, dags. 29. maí 2024, frá lögmanni bæjarins til skipulagsfulltrúa þar sem tekið sé undir athugasemdir kærenda. Með tölvupósti frá umhverfis- og skipulagssviði bæjarfélagsins, dags. 24. júní s. á., hafi verið sagt að boðað yrði til fundar til að leita leiða til að ná samkomulagi um umferðarrétt. Það hafi ekki verið gert þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir af hálfu kærenda. Hafi lögmaður kærenda svo rekið augun í að 3. september 2024 hafi birst upplýsingar í samráðsgátt um að búið væri að afgreiða málið. Meðal annars hafi þar verið birt skjal með heitinu „Svör við athugasemdum Drangahraun-Skútahraun 190724- taka tvö“. Þar hafi m.a. komið fram að megin inntak athugasemda frá kærendum væru vegna kvaða um akstur á lóðum Skútahrauns 2, 2a og 4 um aðkomu að neðri hæð Drangahrauns 3 og 5. Í þessu skjali hafi einnig verið vitnað í bréf sveitarfélagsins dags. 11. október 2006 og 7. mars 2007 sem snéru að skipulagsákvörðunum á svæðinu og samþykki viðeigandi aðila. Kærendum hafi ekki verið gert kunnugt um þessi bréf, en ekki sé annað að sjá en að sveitarfélagið afgreiði málið á grundvelli þeirra, þvert á álit lögmanns stjórnsýslusviðs bæjarins.

 Í deiliskipulagi frá 7. ágúst 2008, sem bærinn vísi til að sé hið upprunalega skipulag sem verið sé að breyta, sé engin grein gerð fyrir kvöðum til handa lóðarhöfum Drangahrauns 3 og 5. Á deiliskipulagsteikningunni sé eingöngu sagt að fyrir hendi séu kvaðir án nánari útskýringa. Af þinglýstum heimildum megi sjá að eingöngu kvaðir til handa lóðarhöfum að Skútahraunslóðunum, enda séu það einu lóðirnar sem þurfi að sinna viðhaldi vegna umferðar. Engar sambærilegar kvaðir séu um umferðarétt til handa Drangahraunslóðunum.

 Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Þess er farið á leit að úrskurðarnefndin taki til skoðunar kæruaðild og kærufrest og vísi málinu frá ef kærendur skorti aðildarhæfi eða séu utan kærufrests til nefndarinnar.

Að mati bæjaryfirvalda felist í hinni umdeildu skipulagsbreytingu í meginatriðum að felld sé niður heimild til að gera bílastæði á lóð Skútahrauns 2a til handa neðri hæð Drangahrauns 3 og 5. Einnig sé byggingarreitum breytt lítillega þannig að byggingarreitur neðri hæðar er færður frá lóðarmörkum við Skútahraun þannig að svigrúm myndast framan við neðri hæð hússins við Drangahraun. Engar breytingar séu frá fyrra skipulagi hvað varði aksturskvaðir. Þar sem þær séu nú þegar hluti af staðfestu deiliskipulagi sé litið svo á að þær séu í gildi, enda séu þær einungis yfirfærðar í breytt skipulag.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekaðar eru framkomnar athugasemdir. Kærendur gerðu ítarlegri grein fyrir máli sínu. Verða þau sjónarmið ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 —–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka málið upp að nýju og setja það í lögmætan farveg áður en ný ákvörðun verði tekin. Verður hins vegar af málsatvikum ráðið að farið sé fram á að lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verði tekið til endurskoðunar og verður kærumálið tekið til meðferðar á þeim grunni.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. október 2024. Kæra í máli þessu barst 1. nóvember s.á. og því innan kærufrests. Í 3. mgr. 4. gr. laganna er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Kærendur í máli þessu eru lóðarhafar að lóðunum Skútahrauni 2, 2a og 4, sem eru innan þess svæðis sem umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til og eru aðilar að húsfélaginu Skútahrauni 4. Verður því að telja að skipulagsbreytingin geti snert lögvarða hagsmuni þeirra sem fasteignaeigenda og verður því að játa þeim kæruaðild í máli þessu.

 Deiliskipulag Iðnaðarsvæðis við Drangahraun-Skútahraun var fyrst samþykkt 7. ágúst 2008 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. desember s.á. Í umfjöllun um lóðirnar nr. 3. og 5. við Drangahraun kemur fram að nyrst á lóðunum sé gert ráð fyrir kjöllurum sem aðeins hafi aðkomu frá Skútahrauni. Á skipulagsuppdrætti deiliskipulagsins er gerð grein fyrir hvar liggi fyrir kvöð um umferð um Skútahraunslóðirnar. Skipulagið frá árinu 2008 er enn í gildi með þeirri breytingu sem hér er til umfjöllunar. Efni og málsmeðferð þess, fyrir hina umdeildu breytingu, þ. á m. kvöð um umferð, sætir ekki endurskoðun í máli þessu enda kærufrestur löngu liðinn.

 Í greinargerð hinnar kærðu breytingar kemur fram að í henni felist að fallið er frá heimild um að bílastæði fyrir lóðirnar á Drangahrauni séu á lóðinni Skútahraun 2a. Einnig er byggingarreitum Skútahrauns 2a, Drangahrauns 1, 3 og 5 breytt. Að lokum kemur fram að „kvöð um akstur og aðkomu að kjallara lóðanna Drangahrauns 3 og 5 verður áfram um lóðunum Skútahraun 2 og 2a.“ Eru því engar nýjar eða breyttar kvaðir í hinni kærðu breytingu, heldur eingöngu sú skipulagskvöð um umferð sem hefur verið í deiliskipulagi svæðisins síðan árið 2008.

 Hin kærða breyting á deiliskipulaginu var grenndarkynnt sem óveruleg breyting, sbr. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, í samræmi við 2. mgr. 44. gr. Laganna, með lögboðnum fjögurra vikna athugasemdafresti. Komu kærendur að athugasemdum sínum við tillöguna innan þess frests. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 22. ágúst 2024 var málið tekið fyrir að lokinni kynningu og lögð fram samantekt athugasemda og uppfærður deiliskipulagsuppdráttur. Samþykkti ráðið svör við framkomnum athugasemdum og uppfærða deiliskipulagstillögu og vísaði málinu til bæjarstjórnar sem samþykkti afgreiðslu ráðsins á fundi sínum 28. s.m. Tók skipulagsbreytingin síðan gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að undangenginni yfirferð Skipulagsstofnunar lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir ágallar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda af þeim sökum hafnað

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 28. ágúst 2024 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðis við Drangahraun og Skútahraun.

123/2024 Miðnesheiði

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 10. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2024, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 2. október 2024 um að synja umsókn um rannsóknarleyfi til að kanna möguleika á nýtingu sólarorku á Miðnesheiði í Suðurnesjabæ.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir Íslensk Gagnavinnsla ehf. þá ákvörðun Orkustofnunar frá 2. október 2024 að synja umsókn félagsins um rannsóknarleyfi til að kanna möguleika á nýtingu sólarorku á Miðnesheiði í Suðurnesjabæ. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 4. desember 2024.

Málavextir: Hinn 7. september 2024 lagði kærandi fram umsókn til Orkustofnunar um leyfi til að rannsaka möguleika á raforkuvinnslu í sólarorkuveri á Miðnesheiði í Suðurnesjabæ. Var umsóknin lögð fram með vísan til 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðum. Sótti félagið um leyfi til fimm ára og kom fram í umsókninni að áætlað væri að niðurstaða fengist um hagkvæmni orkuversins innan þeirra tímamarka. Í svarbréfi Orkustofnunar, dags. 2. október 2024, var rakið að í 40. gr. raforkulaga væri vísað til þess að um rannsóknir og kannanir á orkulindum til undirbúnings raforkuframleiðslu gildi lög nr. 57/1998. Þau lög taki aftur á móti ekki til sólarorku og sé 40. gr. raforkulaga ekki fullnægjandi heimild til þess að útvíkka gildissvið auðlindalaganna. Með vísan til þessa var umsókn félagsins synjað.

Málsrök kæranda: Kærandi greinir frá því að sumarið 2022 hafi hann sett upp í rannsóknarskyni lítið sólarorkuver í samstarfi við bændur í Leirársveit í Hvalfjarðarsveit, en orkuverið hafi ekki verið leyfisskylt þar sem stærð þess hafi verið undir 10 kW. Eftir tvö ár hafi fengist skýr rannsóknargögn sem segðu til um hagkvæmni, nýtingartíma, afl og orku, styrk, endingu og ýmsar aðrar upplýsingar. Í framhaldi hafi verið gerður undirbúningur að rekstri 2,4 MW sólarorkuvers með 60 ára rekstrartíma á hentugu landsvæði á Miðnesheiði. Leitað hafi verið samninga við raforkusala um sölu orkunnar en auk þess hafi samningaviðræður átt sér stað við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar og Ríkiseignir um afnot af landinu. Á þeim grundvelli hafi verið ákveðið að sækja um rannsóknarleyfi, en fjárhagslegir hagsmunir kæranda af því að fá að setja upp sólarorkuver nemi hundruðum milljóna króna.

Hin kærða ákvörðun Orkustofnunar byggist á þröngri túlkun á raforkulögum nr. 65/2003 og lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þó svo sólarorka sé ekki leyfisskyld samkvæmt auðlindalögum, eigi þau réttindi sem slíkt leyfi veiti samt sem áður við um sólarorku þar sem tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996, um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku, geri ráð fyrir tveimur kostum við val á nýjum virkjunarframkvæmdum. Annars vegar útboðsleið og hins vegar leyfisveitingarleið. Í báðum tilvikum verði að byggja á hlutlægum og gagnsæjum viðmiðum sem eigi að tryggja jafnræði. Útgáfa rannsóknarleyfis feli í sér ákveðin réttindi, t.d. tryggi 2. mgr. 5. gr. laganna samningsstöðu um tengingu við dreifi- og flutningskerfið. Það sé vilji löggjafans að tryggja jafnræði, óháð því hvers konar orka eigi í hlut.

Upphaflega hafi Orkustofnun verið falið það verkefni að sinna öllum orkurannsóknum, óháð eðli orkunnar, eins og leiða megi af 1. gr. áðurgildandi orkulaga nr. 58/1967. Lögin hafi vísað almennt til orku en ekki sértækt til orku sem unnin sé úr auðlindum jarðar. Full ástæða sé því til að ætla að hugsunin hafi ekki verið sú að útiloka alla aðra orku en þá sem unnin sé úr jörðu. Af 40. gr. raforkulaga leiði að handhafi rannsóknarleyfis geti fengið fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi og tengingu við raforkukerfi landsins, en án slíks leyfis sé staða rannsóknarverkefnisins allt önnur og lakari.

Málsrök Orkustofnunar: Af hálfu stofnunarinnar er bent á að í 1. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé gildissvið laganna afmarkað með eftirfarandi hætti: „Lög þessi taka til auðlinda í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga. Lögin taka einnig til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu.“ Í sömu lagagrein sé hugtakið auðlind skilgreint sem hvers konar frumefni, efnasambönd og orku „sem vinna má úr jörðu“ auk þess sem fram komi í athugasemdum með frumvarpi því er orðið hafi að lögunum að auðlindir skiptist í þrjá meginflokka, þ.e. jarðefni, jarðhita og grunnvatn. Beri lögin þannig með sér að löggjafinn hafi ekki ætlað lögunum að ná til annarra rannsóknakosta.

Samkvæmt 26. gr. auðlindalaga sé landeiganda á svæði rannsóknarleyfis skylt að veita rannsóknarleyfishöfum óhindraðan aðgang að eignarlandi sem leyfið taki til. Um sé að ræða íþyngjandi skerðingu á eignaréttindum, sem vernduð séu af 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, og verði ekki skert nema með skýrri lagaheimild. Sé því ekki hægt að útvíkka gildissvið auðlindalaganna með 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003.

—–

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin hér nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Orkustofnunar frá 2. október 2024 að synja umsókn kæranda um rannsóknarleyfi til að kanna möguleika á nýtingu sólarorku á Miðnesheiði í Suðurnesjabæ. Umsóknin var lögð fram á grundvelli 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003, þar sem kveðið er á um að lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998 gildi um leyfi til þess að kanna og rannsaka orkulindir til undirbúnings raforkuvinnslu.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort rannsókn á raforkuvinnslu í sólarorkuveri heyri undir lög nr. 57/1998. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. taka lögin til auðlinda á jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga. Einnig taka lögin til rannsókna á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Í 2. mgr. er greint frá því að með hugtakinu auðlind í lögunum sé átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna má úr jörðu hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunni að finnast við. Þá segir í 3. mgr. að um rannsóknir og nýtingu samkvæmt lögunum gildi einnig náttúruverndarlög, skipulagslög og önnur lög sem varði rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða.

Af framangreindu er ljóst að gildissvið laga nr. 57/1998 er afmarkað við rannsóknir á auðlindum í jörðu og á vatnsafli til raforkuframleiðslu. Með hliðsjón af þeirri skýru afmörkun verður ekki talið að rannsókn á nýtingu sólarorku heyri undir lögin. Verður því að hafna kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar Orkustofnunar.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að ógilda ákvörðun Orkustofnunar frá 2. október 2024 um að synja umsókn kæranda um rannsóknarleyfi til að kanna möguleika á nýtingu sólarorku á Miðnesheiði í Suðurnesjabæ.