Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

166/2024 Furuhlíð

Með

Árið 2025, miðvikudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Halldóra Vífilsdóttir arkitekt og Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður.

Fyrir var tekið mál nr. 166/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 1. desember 2024, kæra eigendur, Fjóluhlíð 13, Hafnarfirði, ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 um að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarkaupstað 13. desember 2024.

Málavextir: Kærendur í máli þessu eru lóðarhafar lóðar nr. 13 við Fjóluhlíð, Hafnarfirði. Bakhlið lóðarinnar er í suðvestur og liggja mörk hennar að hluta að mörkum bakhliðar Furu-hlíðar 14. Lóðirnar eru staðsettar í landhalla og standa húsin við Furuhlíð nokkuð hærra en hús við Fjóluhlíð. Gólfkóti íbúðarhússins að Furuhlíð 14 er samkvæmt samþykktum uppdrætti 33,80 en gólfkóti efri hæðar hússins að Fjóluhlíð 13 er 29,45. Eigendur Furuhlíðar 14 hafa reist sólpall á lóðinni ásamt skjól- og stoðveggjum.

Í september árið 2022 var embætti byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar gert viðvart um gerð skjólveggja og palls á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 24. apríl 2023, mótmæltu kærendur umræddri framkvæmd og var eigendum Furuhlíðar 14 gert að stöðva framkvæmdir á meðan málið var til skoðunar. Hinn 5. júlí 2023 sóttu lóðarhafar Furuhlíðar 14 um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóðinni og var á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 12. s.m., samþykkt að kynna umsóknina fyrir aðliggjandi lóðarhöfum, þ. á m. kærendum í máli þessu. Kom þar fram að um byggingarleyfisskylda framkvæmd væri að ræða og að fyrirhugað væri að byggja 180 cm háan stoðvegg og 180 cm skjólvegg, samanlagt 360 cm að hæð. Kærendum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem þeir gerðu með bréfi, dags. 13. ágúst 2023. Athugasemdir kærenda lutu að hæð skjólveggjarins sem snýr í átt að lóð þeirra og lögðu þeir það til að hann yrði lækkaður í 180 cm miðað við jarðveg lóðarinnar innan ákveðinna tímamarka. Með tölvupósti, dags. 20. október 2024, kröfðust kærendur þess að skjólveggurinn yrði fjarlægður þar sem hvorki samkomulag né byggingarleyfi hafi legið fyrir.

Með tölvupósti, dags. 29. október 2024, óskuðu kærendur eftir því að umsókn um byggingar-leyfi yrði breytt í tilkynningu vegna framkvæmdar samkvæmt gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Á samþykktum teikningum kemur fram að sótt sé um skjólvegg á lóðarmörkum þar sem hæsta hæð hans sé 1,8 m en 3,6 m sé frá hæsta punkti niður á stöllun lóðar. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var erindið tekið fyrir og samþykkt. Ákvörðunin var tilkynnt kærendum með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2024.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að umdeildur skjólveggur sé byggingarleyfisskyldur. Samkvæmt 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 skuli afla byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar falli undir undanþáguákvæði gr. 2.3.5. Skjólveggur sem sé 3,6 m að hæð falli ekki undir e-lið 1. mgr. 2.3.5. gr. í byggingarreglugerð. Það sé meginregla samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki að byggingarleyfi þurfi fyrir mannvirkjagerð og undantekningar á því skuli túlka þröngt. Þá sé mannvirkið ekki í samræmi við deiliskipulag. Íbúar við Fjóluhlíð nr. 13 hafi ekki veitt samþykki fyrir umræddum framkvæmdum.

Bygging 3,6 m hárrar skjólgirðingar sé umtalsverð breyting á mannvirkjum á lóð nr. 14 við Furuhlíð. Skuggavarp slíks mannvirkis hafi neikvæð áhrif á garð á lóð kærenda og sé ekki í samræmi við upphaflegt deiliskipulag. Mikill hæðarmunur sé á milli lóðanna, framkvæmdin skerði möguleika á nýtingu lóðarinnar ásamt því að hafa áhrif á birtu á lóð kærenda og útsýni frá henni. Grenndarkynningu byggingarfulltrúa hafi verið hafnað af hálfu kærenda þar sem hún hafi ekki tekið mið af áhrifum veggjarins á aðliggjandi eignir með nægjanlegum hætti. Skjólveggurinn hafi verið samþykktur þrátt fyrir skort á samþykki nágranna sem sé í andstöðu við kröfur í byggingarreglugerð og grenndarrétt. Byggingarfulltrúi hafi tekið ákvörðun um samþykki veggjarins án þess að taka nægjanlega tillit til framkominna athugasemda kærenda sem hafi lýst áhyggjum af skuggavarpi, sjónmengun og skorti á samráði. Að mati þeirra sé um óleyfilegt mannvirki að ræða sem ekki geti fengið löglegt byggingarleyfi og veki það athygli að ákveðið hafi verið að gefa út „tilkynningarskylt leyfi“ í staðinn.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er talið að ákvörðun byggingarfulltrúa um samþykki tilkynningarskylds leyfis hafi verið tekin á grundvelli laga og reglna. Ekki sé um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd heldur tilkynningarskylda. Ástæða fyrir samþykkt á tilkynningarskyldri framkvæmd hafi verið að umræddar lóðir séu í halla. Ef fylgja hefði átt hæðarblöðum þyrfti að hækka neðri lóðina upp eins og hæðarkótar kveði á um og hefði veggurinn þá ekki sýnst eins yfirgnæfandi. Skjólveggurinn sé um 3,4 m frá lóðarmörkum kærenda og sé á lóðinni um litla aukningu skuggavarps að ræða, en þegar sé skuggavarp af húsi á lóð nr. 14 við Furuhlíð.

 Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili byggir á því að ekki sé um byggingarleyfisskylda framkvæmd að ræða. Ljóst sé að umræddur skjólveggur sé ekki hærri en 1,8 m frá hæð lóðarinnar og fjarlægð hans frá lóðarmörkum sé meiri en 1,8 m eins og kveðið er á um í e-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Lóð kærenda sé mun lægri en hún hefði átt að vera samkvæmt samþykktum uppdráttum og því virðist veggurinn hærri. Í málinu liggi fyrir að Hafnarfjarðarbær hafi látið kanna mögulegt skuggavarp af umræddum skjólvegg. Samkvæmt gögnum málsins megi sjá að hann skerði ekki útsýni og valdi nánast engu nýju skuggavarpi á lóð kærenda. Lóðin standi fyrir neðan bratta brekku í norður hlíð, þar sem almennt njóti minni sólar.

Samþykki allra annarra nágranna en kærenda liggi fyrir. Þá sé byggt á því að samþykki kærenda sé ekki þörf vegna framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðilar hafi í öllu ferlinu farið eftir leiðbeiningum og fyrirmælum leyfisveitanda. Allt samstarf hafi gengið ágætlega nema við kærendur sem hafi með ómálefnalegum hætti reynt að stöðva framkvæmdir og bætt við skilyrðum sem standist ekki lög.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja umdeilda framkvæmd ekki tilkynningar-skylda. Skjólveggurinn sé byggingarleyfisskyldur þar sem hann sé yfir 1,8 m á hæð og valdi umtalsverðum grenndaráhrifum. Skjólveggurinn sé byggður út fyrir hallann á lóðinni og dekk sólpallsins hangi því í lausu lofti. Veggurinn styðji því bara við loftið. Þó veggurinn sé 3,4 m inn á lóð Furuhlíðar 14 hafi það engu að síður grenndaráhrif vegna hæðar og staðsetningar. Hann valdi skuggavarpi og sjónmengun sem rýri gæði og notagildi lóðarinnar Fjóluhlíðar 13. Hæð lóðar kærenda sé aðeins lægri en skipulag hafi sagt til um en á móti komi að lóð Furuhlíðar 14 sé hærri en upphaflegt skipulag hafi sagt til um, það auki enn frekar áhrif veggjarins. Kærendur hafi ekki samþykkt skjólvegginn enda liggi ekkert undirritað samþykki fyrir. Þegar í ljós hafi komið að sá hluti veggjarins sem sé á milli Furuhlíðar 12 og 14 væri ekki hluti af þeirri miðlunartillögu sem lögð hafi verið fram hafi kærendur dregið hana til baka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar að  samþykkja tilkynnta framkvæmd við gerð 1,8 m skjólveggjar ofan á stoðvegg á lóðinni Furu-hlíð 14 sem mun vera allt að 1,8 þar sem hann er hæstur.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar. Þannig eru í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 taldar upp þær framkvæmdir og breytingar sem undanþegnar eru byggingarheimild og -leyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag.

Lóðin Furuhlíð 14 tilheyrir svæði Mosahlíðar, ÍB5, samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 þar sem í gildi er deiliskipulag Mosahlíðar. Í skilmálum deiliskipulagsins kemur fram í kafla 1.2.5 um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar. Fjarlægð stalla frá lóðarmörkum skuli vera a.m.k. jöfn hæð þeirra nema þegar óhreyft landslag bjóði upp á betri lausnir. Á lóðinni Furuhlíð 14 hefur sú leið verið valin að stöllun lóðarinnar er gerð með allt að 1,8 m háum stoðvegg. Umræddur stoðveggur stendur allur innan lóðarinnar eða um 3,4 m frá lóðarmörkum. Samrýmist þessi frágangur lóðarinnar kröfum deiliskipulags svæðisins um stöllun á lóð og felur ekki í sér framkvæmd sem þarfnast byggingarleyfis eða byggingarheimildar, en samkvæmt d-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð er gerð palla og annar frágangur á eða við jarðvegsyfirborð undanþeginn byggingarleyfi. Þá kemur fram í e-lið greinarinnar að skjólveggir og girðingar, sem séu allt að 1,8 m á hæð og ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m, séu jafnframt undanþegnar byggingarleyfi. Hinn umdeildi skjólveggur í máli þessu er samkvæmt teikningu 1,8 m á hæð og staðsettur ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og er þar af leiðandi undanþeginn byggingarleyfi.

Í gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð er fjallað með tæmandi hætti um mannvirkjagerð sem er undanþegin byggingarheimild og -leyfi, en skuli tilkynnt leyfisveitanda. Ekki verður séð að sú framkvæmd sem hér um ræðir falli undir nefnt ákvæði og því voru ekki forsendur fyrir þeirri málsmeðferð sem málið fékk hjá byggingarfulltrúa. Þar af leiðandi verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 30. október 2024 að samþykkja tilkynnta framkvæmd á lóð nr. 14 við Furuhlíð, Hafnarfirði.

94/2024 Hverafold

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 7. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. ágúst 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóð nr. 50 við Hverafold í Reykjavík.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2024, kæra eigendur, Hverafold 50, þá ákvörðun byggingar-fulltrúans í Reykjavík frá 20. ágúst s.á. að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóð nr. 50 við Hverafold. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá krefjast kærendur þess að heimild verði veitt fyrir umræddum skjólvegg og deiliskipulagsbreytingu téðrar lóðar ef þörf sé á.

Málavextir: Lóð nr. 50 við Hverafold er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Foldahverfis, 1–6 áfangi. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins getur byggingarnefnd heimilað að reistir séu skjólveggir á lóðamörkum eða inni á lóð, allt að 1,5 m á hæð. Gatan Hverafold liggur eftir austurhlið lóðarinnar sem er í horni botngötu sem liggur að húsum nr. 50–88 við Hverafold. Skjólveggir eru í kringum húsið meðfram götu og að lóð nr. 52 við Hverafold.

Hinn 8. júlí 2024 sóttu kærendur um byggingarleyfi vegna endurbóta á skjólvegg á lóð þeirra. Grunnmynd þar sem sýnd var hæð og stærð skjólveggjarins fylgdi með umsókninni ásamt ljós-myndum af þeim skjólveggjum sem fyrir voru á lóðinni og af henni með nýjum skjólvegg. Fram kom að verkið væri langt komið. Tók byggingarfulltrúi erindið fyrir á afgreiðslufundi 16. s.m. og vísaði henni til umsagnar skipulagsfulltrúa. Lá umsögnin fyrir 15. ágúst 2024 og var í henni neikvætt tekið í erindið þar sem það samræmdist ekki deiliskipulagi og jafnframt bent á að ekki væri nægilega sýnt fram á „mælingar á veggnum“ á þeirri teikningu sem fylgdi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. s.m. var umsókn kærenda tekin fyrir að nýju og henni synjað með vísan til fyrrgreindrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að árið 1992 hafi verið reistir skjólveggir vestan og sunnan við umrætt íbúðarhús og séu þeir því um 32 ára gamlir. Vesturveggurinn standi enn á mörkum lóða nr. 50 og 52 við Hverafold. Sá veggur sé um 2,65 m á hæð, en það sé 1,80 m yfir gólfkóta íbúðarhússins að Hverafold 50. Til hliðsjónar sé einnig gamall skjólveggur, austurveggur, en sá veggur sé hæstur um 1,90 m og 1,75 m yfir gólfkóta hússins. Upphaflega hafi staðið til að fara í framkvæmdir innan gamla skjólveggjarins, suðurveggjar, sem hafi falist í því að endurgera pall, færa til potta og byggja tvö smáhýsi innan við skjólvegginn. Gætt hafi verið að því að grunnflötur smáhýsanna yrði undir 15 m2 og væri það því ekki byggingar-leyfisskyld framkvæmd skv. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Við niðurrif á pallinum hafi komið í ljós að skjólveggurinn væri feyskinn og fúinn og ekkert vit hafi verið í öðru en að fjarlægja hann og byggja upp nýjan. Ákvörðun hafi verið tekin um að hliðra til smáhýsunum þannig að nýi skjólveggurinn sé að hluta bakveggur þeirra. Hæðarkóti gamla suðurveggjarins sem tekinn hefði verið niður hafi verið 33,40 og því um 1,60 m yfir gólfkóta hússins. Miðað hafi verið við að hafa nýja vegginn ekki hærri en þann sem fyrir hafi verið en að teknu tilliti til 65 cm beðs götumegin við vegginn, sem sé ígildi stoðveggjar, sé hann um 2,45 m á hæð og 1,60 m yfir gólfkóta íbúðarhússins.

Hæðarmunur á gólfkóta íbúðarhúss og götu sé um 1,80 m og hæðarmunurinn sé hvergi meiri í Hverafold en við hús nr. 50. Mesta hæð nýja skjólveggjarins sem sótt hafi verið um byggingar-leyfi fyrir sé um 1,60 m yfir gólfkóta hússins, en lóðin halli nokkuð í átt að götunni. Tré hafi verið fjarlægð til að bæta sýn umferðar við götu sem nú sé betri þegar beygt sé inn í götuna eða ekið út úr henni. Skjólveggur við götuhornið hafi verið endurnýjaður og sé nú lægri en veggur-inn sem fyrir hafi verið auk þess sem stór steinn hafi verið fjarlægður. Þá séu eigendur næstu lóða að fullu sáttir við endurnýjun skjólveggjarins og þær framkvæmdir sem gerðar hafi verið og liggi fyrir samþykki þeirra því til staðfestingar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þar sem fram komi að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Um sé að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 tilheyri lóðin Hverafold 50 borgarhluta 8 – Grafarvogur og sé hluti af íbúðarsvæði ÍB49 – Foldir. Á svæðinu sé jafnframt í gildi deiliskipulagið „Skipulag norðan Grafarvogs“, samþykkt í borgarráði 5. maí 1983 ásamt síðari breytingum. Í skipulagsskilmálum komi fram í kafla 1.1.5. að byggingar-nefnd geti heimilað að reistir séu skjólveggir á lóðarmörkum eða inni á lóð, allt að 1,5 m á hæð. Sé þá miðað við hæð frá jarðvegsyfirborði, sbr. f-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi komið fram að heimilt væri að hafa skjólgirðingu sem sé 1,5 m á hæð, en hæð skjólveggja komi skýrt fram í deiliskipulagi. Samkvæmt 25. tl. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu skipulagsskilmálar bindandi ákvæði í deiliskipulagi um útfærslu skipulags. Ljóst sé að umrædd skjólgirðing samræmist ekki gildandi deiliskipulagi og því sé ekki heimilt að gefa út byggingarleyfi fyrir skjólgirðingunni í þeirri mynd sem hún sé í dag.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Bent er á að umræddar framkvæmdir séu í takt við það sem almennt gangi og gerist í hverfinu. Áréttað sé að skjólveggir hafi þegar verið til staðar á lóðinni og að hæð þeirra mannvirkja sem sótt hafi verið um leyfi fyrir sé ekki hærri en þeirra veggja sem fyrir hafi verið. Skipulagsskilmálum í hverfinu hafi ekki verið fylgt eftir enda séu mörg dæmi um framkvæmdir af þeim toga sem kærendur hafi sótt um leyfi fyrir. Með því að leyfa framkvæmdir sem hafi verið í andstöðu við skilmála gildandi deiliskipulags hafi Reykjavíkur-borg samþykkt breytingar á umræddu deiliskipulagi. Vísað sé til sjónarmiða um samræmi og jafnræði og að í hverfinu sé nokkuð um smáhýsi sem byggð hafi verið á lóðarmörkum og sum séu yfir 2,5 m á hæð. Einnig séu margir skjólveggir í hverfinu sem séu yfir 1,5 m á hæð. Sé synjun byggingarfulltrúa ólögmæt þar sem gerðar séu athugasemdir við umræddar fram-kvæmdir en aðrar sambærilegar framkvæmdir í hverfinu séu látnar óátaldar.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda-mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að heimild verði veitt fyrir þeim skjólvegg sem sótt var um leyfi fyrir og til kröfu um að heimiluð verði deiliskipulagsbreyting fyrir lóð þeirra.

Lóðin Hverafold 50 er innan deiliskipulags Foldahverfis, 1–6 áfangi. Í skipulagsskilmálum greinar­gerðar deiliskipulagsins er að finna sérákvæði sem gilda um hús og lóðir innan skipulags­svæðisins. Í kafla 1.1.5 kemur fram varðandi frágang lóða að byggingarnefnd geti heimilað að reistir séu skjólveggir á lóðamörkum eða inni á lóð, allt að 1,5 m á hæð, og skuli þeir þá sýndir á byggingarnefndarteikningum.

Samkvæmt a-lið 2. mgr. gr. 2.4.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þurfa með umsókn um byggingarleyfi að fylgja aðaluppdrættir ásamt byggingarlýsingu. Enn fremur skal fylgja mæli- og hæðarblað viðkomandi lóðar er sýnir götunafn og númer, afstöðu húss og lóðar, hæðarlegu miðað við götu, eftir því sem við á, hnitaskrá og landnúmer. Þá getur leyfisveitandi ákveðið hvort og að hvaða leyti leggja þurfi fram aðaluppdrætti vegna breytinga á þegar byggðum mannvirkjum, en ekki verður af gögnum málsins ráðið að öll þau gögn sem upptalin eru í áðurnefndu ákvæði hafi fylgt umsókn kærenda um byggingarleyfi. Með byggingarleyfis-umsókninni fylgdu ljósmyndir sem sýna skjólvegg á lóðinni fyrir og eftir breytingar ásamt grunnmynd af lóðinni þar sem skjólveggur er sýndur. Hins vegar sýna gögnin ekki með skýrum hætti hæð umrædds skjólveggjar. Kærendur hafa sjálfir upplýst í kæru sinni til úrskurðar-nefndarinnar að hæð hans sé allt að 2,45 m.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki verða byggingaráform aðeins samþykkt ef fyrirhuguð mannvirkjagerð er í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis. Að sama skapi verður byggingarleyfi ekki gefið út nema mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Ef mannvirki er háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skal hann skv. 2. mgr. 10. gr. laganna leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Svo sem að framan er rakið leitaði byggingarfulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa og var niðurstaða hans sú að taka neikvætt í erindið þar sem framkvæmdin samræmdist ekki deiliskipulagi, en þar væri heimilt að reisa skjólvegg allt að 1,5 m á hæð. Af framangreindu er ljóst að umdeildur skjólveggur er hærri en 1,5 m og samræmist því ekki skilmálum gildandi deiliskipulags fyrir lóðina.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er mælt fyrir um minniháttar mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarleyfum. Samkvæmt e-lið ákvæðisins á það m.a. við um skjólveggi og girðingar sem eru allt að 1,8 m á hæð og eru ekki nær lóðarmörkum en 1,8 m og girðingar eða skjólveggi sem eru nær lóðarmörkum en 1,8 m og ekki hærri en sem nemi fjarlægðinni að lóðarmörkum. Er beiting ákvæðisins háð því skilyrði að framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag, en að framangreindu virtu verður ekki talið að ákvæðið eigi við í máli þessu.

Kærendur benda á sjónarmið um samræmi og jafnræði og vísa til þess að í hverfinu séu mörg dæmi um framkvæmdir af þeim toga sem þeir hafi sótt um leyfi fyrir. Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sambærileg mál beri að afgreiða á sambærilegan hátt. Í gögnum þessa máls hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að sambærilegar umsóknir um byggingarleyfi og kærendur sóttu um hafi verið samþykktar. Verður ekki séð að borgaryfirvöld hafi með synjun umsóknar kærenda brotið gegn 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu um ógildingu hinnar kærða ákvörðunar byggingarfulltrúa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. ágúst 2024 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir skjólvegg á lóð nr. 50 við Hverafold.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

54/2024 Laugarásvegur

Með

Árið 2024, fimmtudaginn 6. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dag­sektir að fjárhæð kr. 25.000.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. maí 2024, er barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Laugarásvegar 63, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 að krefjast þess að þeir fjarlægi skjólvegg við mörk lóðarinnar og lóðar nr. 61 við sömu götu innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 24. maí 2024, var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar frestað að kröfu kærenda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. maí 2024.

Málavextir: Samkvæmt gögnum máls þessa er nokkur ágreiningur milli lóðarhafa lóða nr. 61 og 63 við Laugarásveg vegna framkvæmda á síðarnefndu lóðinni. Reistur hefur verið skjólveggur á mörkum lóðanna og hafa borgaryfirvöld til meðferðar mál er varða m.a. heitan pott á lóð nr. 63 við Laugarásveg. Auk þess kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð í máli nr. 31/2024 hinn 30. maí 2024 sem varðaði stoðvegg á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg.

Í bréfi byggingarfulltrúa til kærenda, dags. 2. febrúar 2024, kom fram að þeim væri gert að leggja fram byggingarleyfisumsókn og skriflegt samþykki lóðarhafa lóðar nr. 61 við Laugarásveg vegna girðingar á mörkum lóðanna innan 14 daga. Var bent á að yrði tilmælunum ekki sinnt yrði tekin ákvörðun um framhald málsins sem gæti falið í sér að ráðist yrði í úrbætur á kostnað kærenda eða dagsektum beitt. Í tölvubréfi kærenda til byggingarfulltrúa, dags. 28. febrúar 2024, kom fram að gerð yrði „lokatilraun á allra næstu dögum til að ná samkomulagi á milli lóðarhafa, ef það náist ekki verði girðingin færð eða fjarlægð með deildum kostnaði þegar frost fari úr jörðu.“ Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa degi síðar var framangreint fært til bókar. Í tölvubréfi til kærenda, dags. 1. mars s.á., kom fram að veittur væri frestur til 31. s.m. til að reyna að ná samkomulagi við eiganda Laugarásvegar 61 um girðingu á mörkum lóðanna og senda það til byggingarfulltrúa. Að öðrum kosti þyrfti að fjarlægja vegginn, líkt og kærendur hefðu sagst ætla að gera. Með tölvubréfi, dags. 4. apríl 2024, var sá frestur framlengdur til 18. s.m. Slíkt samkomulag barst ekki til byggingarfulltrúa og sendi hann kærendum bréf, dags. 23. s.m., þar sem fram kom að veittur væri lokafrestur til að fjarlægja skjólvegg við mörk lóðar nr. 61 en yrði hann ekki fjarlægður innan 14 daga frá móttöku bréfsins áformaði byggingarfulltrúi að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000 fyrir hvern þann dag sem það drægist. Var jafnframt veittur 14 daga frestur til að koma að andmælum. Í bréfinu var vísað til 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Jafnframt var bent á kæruheimild til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess á að hinn umdeildi skjólveggur hafi staðið í þrjú og hálft ár og kostnaður við hann hafi verið um tvær milljónir króna. Veggurinn hafi verið reistur í góðu samkomulagi og að hluta til í samstarfi við eiganda aðliggjandi lóðar. Þegar kærendur hafi óskað skriflegs samþykkis hafi það þó ekki fengist og munnlegt samþykki afturkallað með textaskilaboðum 20. júní 2023. Þar hafi jafnframt komið fram að skriflegt samþykki yrði ekki veitt. Eigendur Laugarásvegar 61 hafi ekki krafist stöðvunar framkvæmda þegar skjólveggurinn var reistur og hafi fyrst með málarekstri þessum verið óskað eftir því að veggurinn yrði fjarlægður.

Skjólveggurinn ógni ekki almannahagsmunum og af honum stafi ekki slysahætta. Ekki standi því málefnaleg rök til að beita verulega íþyngjandi þvingunarúrræðum líkt og dagsektum. Þá samræmist það ekki venjubundinni framkvæmd að leggja á dagsektir í málum sem þessum, sbr. m.a. úrskurði úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 98/2022, 116/2022 og 52/2023. Hin kærða ákvörðun gangi því gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins um réttmæti, jafnræði og meðalhóf sem lögfestar séu að hluta í 1. mgr. 11. gr. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Taka verði mið af munnlegu samþykki eigenda Laugarásvegar 61 sem og tómlæti þeirra.

Málsmeðferð byggingarfulltrúa sé háð verulegum annmörkum. Hann hafi hvorki gefið kærendum færi á að nýta lögvarinn rétt til andmæla áður en hin kærða ákvörðun hafi verið tekin né hafi hann leiðbeint kærendum um rétt þeirra til rökstuðnings hinnar kærðu ákvörðunar. Samrýmist það ekki 13. gr. og 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki, en hann sé ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki sé til staðar samkomulag um vegginn samkvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar. Hvorki ákvæðum laga um mannvirki né byggingarreglugerðar hafi því verið fylgt við framkvæmdina.

Við töku ákvörðunar um að aðhafast ekki vegna stoðveggjar á mörkum lóða nr. 59 og 63 við Laugarásveg, dags. 29. febrúar 2024, sem fjallað hafi verið um í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 31/2024 frá 30. maí 2024, hafi sérstaklega verið bókað að kærendur hygðust fjarlægja hina umdeildu girðingu ef ekki næðist samkomulag við lóðar­hafa aðliggjandi lóðar nr. 61. Byggi bókunin m.a. á loforði kærenda.

Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010. Í 55. og 56. gr. laganna sé kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum séu tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Þannig sé í 1. mgr. 55. gr. m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða sé ekki farið að ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá sé kveðið á um það í 2. mgr. að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi fengist fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða sé háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið fram í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Byggingarfulltrúi hafi reynt til hins ítrasta að finna niðurstöðu sem aðilar gætu sætt sig við og hafi beðið lengi eftir því að samkomulag myndi nást vegna girðingarinnar á sameiginlegum lóðamörkum þeirra og veitt fresti í því skyni. Það hafi verið mat byggingarfulltrúa að meðalhófi hefði verið beitt með því að fara ekki fram á að steyptur veggur á lóð kærenda yrði fjarlægður en í staðinn yrði hin umdeilda girðing fjarlægð eða færð innar á lóðina. Á þann hátt mætti mæta kröfum beggja aðila þannig að sem minnst tjón hlytist af fyrir þá sem þegar höfðu lagt í kostnað vegna óleyfisframkvæmdarinnar. Kærendur hafi virst sáttir við þá niðurstöðu allt þar til komið hafi að því að fjarlægja girðinguna.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur er benda á að hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á meintum yfirlýsingum um að þeir myndu fjarlægja skjólvegginn. Því sé hafnað að ummæli þeirra feli í sér bindandi yfirlýsingu um að veggurinn verði fjarlægður, líkt og lagt sé út af í umsögn Reykjavíkurborgar og bókun byggingarfulltrúa. Ummælin hafi verið háð skilyrði um kostnaðarskiptingu, sbr. orðalagið „með deildum kostnaði“. Ekkert liggi fyrir um slíka skiptingu.

Hin kærða ákvörðun verði ekki byggð á sjónarmiðum um að koma til móts við lóðarhafa Laugarásvegar 61 og breyti engu í því sambandi að þeim líki illa niðurstaða annars máls um steyptan vegg á mörkum Laugarásvegar 59 og 63. Sé framangreint sjónarmið ómálefnalegt og gangi gegn réttmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61 innan 14 daga, en verði ekki orðið við þeirri kröfu áformi embættið að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 25.000.

Gildissvið laga nr. 160/2010 um mannvirki nær skv. 1. mgr. 2. gr. til allra mannvirkja á landi og eru girðingar í þéttbýli þar nefndar í dæmaskyni. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna er óheimilt að reisa mannvirki nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Í 2. mgr. 55. gr. er svo mælt fyrir um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki sé fjarlægt.

Í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er fjallað um mannvirkjagerð sem undanþegin er byggingarheimild og -leyfi. Er beiting greinarinnar háð því skilyrði að framkvæmdir séu í samræmi við deiliskipulag, en á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag. Þá eru skilyrði e-liðar nefndrar greinar, svo sem um undirritað samkomulag, ekki uppfyllt. Í 2. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í reglugerðinni er kveðið á um að afla skuli byggingarleyfis vegna girðinga og skjólveggja á lóðum nema framkvæmdirnar séu undanþegnar byggingarleyfi skv. áðurnefndri gr. 2.3.5. og að alltaf skuli liggja fyrir samþykki beggja lóðarhafa áður en hafist er handa við smíði girðingar eða skjólveggjar. Samkvæmt framansögðu er hinn umdeildi skjólveggur byggingar­leyfis­skyldur og óumdeilt að ekki hefur fengist byggingarleyfi fyrir honum. Var byggingar­fulltrúa því heimilt að krefjast þess af kærendum að þeir fjarlægðu skjólvegginn.

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að kr. 500.000 til að knýja menn til þeirra verka sem þeir skulu hlutast til um samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim eða láta af ólögmætu athæfi. Líta verður svo á að með hinni kærðu ákvörðun hafi byggingarfulltrúi ekki tekið lokaákvörðun um álagningu dagsekta heldur einungis krafist þess af kærendum að aðhafast með tilgreindum hætti og tilkynnt þeim jafnframt að áformað væri að leggja á dagsektir ef kærendur myndu ekki verða við kröfunni. Þeim áformum hefur ekki verið hrint í framkvæmd með ákvörðun um álagningu dagsekta og liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Verður þeim hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 23. apríl 2024 um að krefjast þess að kærendur fjarlægi skjólvegg við lóðarmörk Laugarásvegar 61. Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

48/2023 Bakkasmári

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 15. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á ­mörkum lóðanna Bakka­smára 19 og 21.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. apríl 2023, er barst nefnd­inni sama dag, kæra eigendur Bakkasmára 21, Kópa­vogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 15. mars 2023 að synja um beitingu þvingunar­úrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakkasmára 19 og 21. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá hafa kærendur uppi kröfu um að annað hvort verði séð til þess að girðingin verði lækkuð í 150 cm eða að starfsmenn bæjarins fjarlægi hana.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 4. maí 2023.

Málavextir: Við Bakkasmára í Kópavogi eru parhús og er hvert húsnúmer á sjálfstæðri lóð. Eiga lóðirnar Bakkasmári 19 og 21 sameiginleg lóðamörk og er síðarnefnda lóðin norðaustan við þá fyrrnefndu en langhlið þeirra er samsíða og nær frá göngustíg við götuna að bæjarlandi sem liggur í norðvestur að Fífu­hvammsvegi. Snemmsumars árið 2022 reistu eigendur Bakka­smára 19 skjólgirðingu á mörkum um­ræddra lóða. Í kjölfarið leituðu eigendur lóðar nr. 21, kærendur í máli þessu, til em­bættis byggingarfulltrúa Kópavogs. Svokölluð stöðu­skoðun fór fram af hálfu embættisins 7. júní 2022 og var hæð girðingarinnar mæld 180 cm. Hinn 24. s.m. var f.h. byggingarfulltrúa farið fram á að lóðahafar leituðu sam­eiginlegrar lausnar á frágangi á lóða­mörkunum og jafnframt tekið fram að ell­egar skyldi fjarlægja girðinguna, eigi síðar en 15. ágúst s.á. Hinn 16. september 2022 var send ítrekun á fyrra bréfi þar sem m.a. var upplýst um að eigendur Bakkasmára 21 gætu sætt sig við að hæð girðingar yrði 150 cm og var veittur frestur til 15. október s.á. til að finna sameiginlega lausn á frágangi á lóðamörkum. Fram kom að skoðað yrði hvort til greina kæmi að beita heimild til að knýja fram úrbætur skv. gr. 2.9.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, s.s. með álagningu dagsekta. Með bréfi, dags. 15. mars 2023, var aðilum málsins tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa þess efnis að ekki væri ástæða til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að vegna skuggamyndunar af um­deildri skjólgirðingu geti þeir ekki notið sólar sem skyldi og jafnframt eigi gróður erfitt upp­dráttar af sömu sökum. Girðingin sé í 191,5 cm hæð frá jarðvegi en ekki 180 cm líkt og mæling starfs­manns byggingarfulltrúa hafi sagt til um, en kærendur hafi fengið liðsinni arkitekts til þess að mæla hæð hennar. Mæling embættis byggingarfulltrúa sé röng en spjöldin á milli stauranna séu 180 cm há og séu 10 cm frá jörðu.

Kærendum hafi verið sagt af starfsmanni byggingarfulltrúa að rétturinn væri þeirra megin, bæjar­­starfsmenn myndu fjarlægja girðinguna og eigendur skjólgirðingarinnar þyrftu að greiða þeim dagsektir. Dregið hafi verið í land með að girðingin yrði fjarlægð og þá hafi dag­sektir aldrei komið til framkvæmda. Í níu mánuði hafi kærendur átt í samskiptum við starfsmann byggingar­fulltrúa þar sem fram hafi komið að um óleyfisframkvæmd væri að ræða og að bær­inn myndi standa með þeim. Kærendur geti ekki sætt sig við að beiting þvingunar­úrræða sé háð mati byggingar­fulltrúa þar sem í byggingarreglugerð komi skýrt fram að við byggingu skjól­veggja skuli farið að lögum. Þar standi skýrum stöfum að skjólveggir og girðingar megi ekki vera nær lóða­mörkum en sem nemi hæð þeirra og að nágrannar megi sam­mælast um girðingu en þurfi að skila inn undirrituðu samkomulagi til leyfisveitanda.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að vegna erindis kærenda til embættis byggingar­fulltrúa hafi starfsmenn embættisins farið í stöðuskoðun 7. júní 2022 og hafi annar kær­enda verið viðstaddur þá skoðun. Þar hafi veggurinn verið mældur 180 cm á hæð og 20 m að lengd. Í kjölfarið hafi embætti byggingarfulltrúa átt í samskiptum við lóðahafa til að afla upplýsinga og kanna hug aðila til samkomulags um framkvæmdina. Hafi aðilum svo verið veittur frestur til að finna sameiginlega lausn á frágangi á lóðamörkum til 15. október 2022. Þar sem það hafi ekki tekist hafi hin kærða ákvörðun verið tekin.

Engin skilyrði séu til að fallast á kröfu kærenda og hafi ákvörðunin samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðunin hafi verið studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hags­munum. Af þeim sökum hafi byggingarfulltrúi ákveðið að beita sér ekki fyrir því að veggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða og því hafi efnisleg rök legið að baki ákvörðun hans í samræmi við 55. gr. laga nr. 160/2010 og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Af hálfu eigenda Bakkasmára 19 er vísað til þess að þau hafi síðasta sumar, í fyrsta skipti í langan tíma, getað notið þess að vera örugg með hund og barna­börn sín úti í garði. Í garði kærenda sé óbundinn Husky hundur og hafi framkvæmdaraðilar ekki fengið svar eða úrlausn við ábending­um sem þau hafi komið á framfæri við Kópavogsbæ varðandi hundinn. Þau telji að með ákvörðun byggingar­fulltrúa sé verið að taka öryggi og velferð allra íbúa og dýra fram yfir ein­staklings­­hagsmuni kærenda sem séu minni­háttar skuggamyndun frá skjólvegg. Á lóð Bakka­­smára 21 séu himin­há tré og því spurning hvernig skjólgirðing geti varpað skugga á þau og hvort mikið breytist við að lækka girðing­una í 150 cm.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að ekki sé hægt að nota lóð þeirra sem skyldi vegna skuggavarps og ástandið því til þess fallið að rýra verðgildi eignar þeirra. Byggingar­­­fulltrúa sé fengið vald til beitingar þvingunarúrræða einmitt til þess að stöðva óleyfis­­­fram­kvæmdir manna sem vegi að rétti nágranna sinna. Ekki sé tækt að byggingarfulltrúi skýli sér á bak við það að honum beri að beita þvingunarúrræðum með tilliti til meðalhófs til þess að forðast að taka íþyngjandi ákvörðun í málum og vísi til þess að einstaklingum séu tryggð önnur réttar­úrræði til að verja einstaklingshagsmuni sína. Ekki sé hægt að skilja þau orð öðru­vísi en að byggingar­fulltrúi telji að allan ágreining sem varði einstaklingshagsmuni verði að út­­­kljá fyrir dómstólum með öllum þeim kostnaði sem því fylgi. Það standist ekki skoðun og geti ekki hafa verið raunverulegur tilgangur athugasemda með frumvarpi að lögum nr. 160/2010 um mannvirki varðandi beitingu þvingunarúrræða. Þvert á móti verði að túlka til­vísun til meðalhófs svo að embættinu beri skylda til að skoða hvert mál til hlítar með tilliti til máls­­meðferðar­reglna stjórnsýslu­laga nr. 37/1993. Ekki sé að sjá að nokkur tilraun hafi verið gerð í málsmeðferð bæjar­­yfirvalda til að ná fram lögmætu markmiði með þeim þvingunar­úr­ræðum sem byggingar­fulltrúi hafi yfir að ráða. Þá hafi kærendur haft eðlilegar og réttmætar væntingar um að byggingarfulltrúi hefði ætlað að láta til sín taka í málinu enda verið tjáð að svo yrði frá upp­­hafi málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til krafna kærenda um að umdeild skjólgirðing á mörkum lóðanna Bakkasmára 19 og 21 verði lækkuð í 150 cm eða að starfsmenn bæjaryfirvalda fjarlægi hana, heldur verður einungis tekin afstaða til lög­­mætis hinnar kærðu ákvörðunar um að hafna beitingu þvingunar­úr­­ræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu um­dæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki er fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim við byggingar­fram­kvæmdina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt eða ekki, í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi að baki ákvörðun. Tekið skal fram að áskorun skv. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki er liður í undir­búningi mögulegrar ákvörðunar um beitingu þvingunar­úrræða skv. 56. gr. en felur ekki í sér lokaákvörðun um beitingu þeirra.

Fyrir liggur að ekki hefur verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg sam­kvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010. Þá er ekki til staðar samkomulag um vegginn sam­kvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. og 3. mgr. gr. 7.2.3. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Þar sem samkomulag liggur ekki fyrir er skjólveggurinn ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt fyrrgreindum e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. reglugerðarinnar. Er því ljóst að hvorki hefur verið fylgt ákvæðum laga um mannvirki né byggingar­reglugerðar við framkvæmdina. Líkt og fram hefur komið fór fulltrúi embættis byggingar­fulltrúa á staðinn og kynnti sér aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Í áskorunum byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki var bent á að kærendur gætu sætt sig við lægri vegg. Lóðahafar hafi hins vegar ekki komið sér saman um aðra útfærslu á veggnum. Í hinni kærðu ákvörðun frá 15. mars 2023 kom fram það mat byggingarfulltrúa að ekki yrði séð að hinn umdeildi skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hagsmunum.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða þótt hún kunni að snerta hags­muni þeirra, enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinum um­deilda skjólvegg. Verður kröfu kærenda því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 15. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakka­smára 19 og 21.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

52/2023 Bakkahjalli

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakkahjalla 3 og 5.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 20. apríl 2023, kæra eigendur Bakkahjalla 3, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópa­vogs frá 21. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakkahjalla 3 og 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að byggingar­fulltrúa verði falið að endurskoða hana og beita þeim úrræðum sem til staðar séu í málum sem þessum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. maí 2023.

Málavextir: Við Bakkahjalla eru par- og raðhús og er hvert húsnúmer á sjálfstæðri lóð. Lóðirnar Bakkahjalli 3 og 5 eiga að hluta sameiginleg lóðamörk, þ.e. við vesturmörk fyrr­nefndu lóðarinnar og austurmörk þeirrar síðarnefndu. Ná sameiginleg mörk lóðanna frá göngu­stíg við götuna að bæjarlandi sem liggur í hásuður en mörk Bakkahjalla 5 ná þó lengra inn á bæjar­landið. Í mars 2022 höfðu kærendur samband við embætti byggingarfulltrúa Kópavogs vegna framkvæmda við gerð skjólveggjar á mörkum umræddra lóða sem þeir hefðu ekki sam­þykkt. Mun byggingarfulltrúi hafi farið á vettvang 7. apríl og 7. júní 2022. Áttu kærendur í nokkrum samskiptum við embætti byggingarfulltrúa vegna kvörtunar sinnar og kemur þar m.a. fram sú fullyrðing kærenda að skjólveggurinn sé hærri en 180 cm. Með bréfi, dags. 21. mars 2023, var kærendum tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa þess efnis að ekki væri ástæða til að beita þvingunarúrræðum samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingar­reglugerð nr. 112/2012.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að ljóst sé að ákvæði byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 hafi verið brotin og að byggingarfulltrúi hafi látið undir höfuð leggjast að beita þeim úrræðum sem til staðar séu eins og t.d. dagsektum. Fyrir liggi að ekki hafi verið um sameiginlegt verkefni lóðaeigenda að ræða og ekki hafi verið til staðar samkomulag um hina umdeildu framkvæmd. Hafi öllum mátt vera það ljóst enda hafi kærendur ítrekað leitað til byggingarfulltrúa á meðan á framkvæmdum hafi staðið. Hafi byggingarfulltrúi endurtekið ráðlagt málsaðilum að ná samkomulagi sem þyrfti að skjalfesta og leggja fram hjá embættinu. Í kjölfar fyrri skoðunar byggingarfulltrúa hefði fulltrúi eigenda Bakkahjalla 5 lofað að lagðar yrðu fram teikningar til umræðu og samþykktar en við það hefði ekki verið staðið. Aldrei hafi verið óskað eftir heimild fyrir framkvæmdum á lóðamörkum Bakkahjalla 3 og 5 og hafi slík heimild hvorki verið veitt skriflega né með öðrum hætti. Með ákvörðun byggingarfulltrúa hafi fylgt útskýringar sem hafi byggt á forsendum sem eigi sér enga stoð og því sé eðlilegt að ákvörðunin verði endurskoðuð og tillit tekið til atvika málsins.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að kærendur hafi 7. apríl 2022 haft samband við byggingarfulltrúa vegna hinnar umdeildu framkvæmdar. Fulltrúi byggingar­fulltrúa hafi farið til að skoða aðstæður á lóðamörkunum, fyrst samdægurs og svo 7. júní s.á., og hafi eigendur beggja lóða verið viðstaddir fyrri skoðunina. Við þá skoðun hafi það verið skilningur byggingarfulltrúa að sátt ríkti um framkvæmdina. Kvörtun kærenda hefði eingöngu lotið að afmörkuðum hluta skjólveggjar sem eigendur Bakkahjalla 5 hefðu reist á mörkum lóðanna.

Engin skilyrði séu til að fallast á kröfu kærenda og hafi hin kærða ákvörðun samrýmst lögum nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ákvörðunin hafi verið studd þeim rökum að ekki yrði séð að umræddur skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hags­munum. Af þeim sökum hefði byggingarfulltrúi ákveðið að beita sér ekki fyrir því að veggurinn yrði fjarlægður með beitingu þvingunarúrræða og því hafi efnisleg rök legið að baki ákvörðun hans í samræmi við 55. gr. laga nr. 160/2010 og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 ——

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Tekur úrskurðarnefndin því lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu eða leggur fyrir stjórnvöld að framkvæma tilteknar athafnir. Verður samkvæmt framangreindu ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um að byggingarfulltrúa verði gert að beita þeim úrræðum sem til staðar séu, heldur verður einungis tekin afstaða til lög­­mætis hinnar kærðu ákvörðunar um að hafna beitingu þvingunar­­úr­­ræða.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu um­dæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og í 55. og 56. gr. laganna er kveðið á um þvingunarúrræði þau sem honum eru tiltæk til að fylgja eftir ákvörðunum sínum. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að byggingarfulltrúi geti gripið til aðgerða ef ekki sé fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingar­fram­kvæmdina. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. ákvæðisins að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingar­fulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starf­semi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að beita dagsektum eða vinna slík verk á hans kostnað.

Ákvörðun um beitingu þessara þvingunarúrræða er háð mati stjórnvalds hverju sinni og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp það sem varð að mannvirkjalögum að eðlilegt sé að ákvörðun um beitingu úrræðanna sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Um­rædd ákvæði gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við sé gengið gegn almannahagsmunum þeim er búa að baki mannvirkjalögum, svo sem skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Fer það því eftir atvikum hvort nefndum þvingunarúrræðum verði beitt eða ekki, í tilefni af framkvæmd sem telst vera ólögmæt. Með hliðsjón af þessu verður ekki talið að einstaklingum sé tryggður lögvarinn réttur til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða vegna einstaklingshagsmuna enda eru þeim tryggð önnur réttarúrræði til þess að verja þá hagsmuni sína. Þótt beiting úrræðanna sé háð mati stjórnvalds þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hlið­sjón af þeim hagsmunum sem búa að baki fyrrgreindum lagaheimildum, og fylgja þarf megin­reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að málefnaleg sjónarmið búi þar að baki.

Fyrir liggur að ekki hefur verið veitt byggingarleyfi fyrir hinum umdeilda skjólvegg sam­kvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 160/2010, en hann er ekki undanþeginn byggingarleyfi samkvæmt e-lið 1. mgr. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki er til staðar samkomulag um vegginn sam­kvæmt 3. mgr. gr. 7.2.3. reglugerðarinnar. Er því ljóst að hvorki hefur verið fylgt ákvæðum laga um mannvirki eða byggingarreglugerðar við framkvæmdina. Líkt og fram hefur komið fór starfsmaður embættis byggingarfulltrúa á staðinn og kynnti sér í tvígang aðstæður á vettvangi fyrir töku hinnar kærðu ákvörðunar. Það mat byggingarfulltrúa að ekki yrði séð að hinn umdeildi skjólveggur ógnaði öryggis- eða almanna­hagsmunum kom fram í hinni kærðu ákvörðun frá 21. mars 2023.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að efnisrök hafi búið að baki þeirri matskenndu ákvörðun að synja kröfu kærenda um beitingu þvingunarúrræða þótt hún kunni að snerta hags­muni þeirra, enda verður ekki talið að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinum um­deilda skjólvegg. Verður kröfu kærenda í máli þessu því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs frá 21. mars 2023 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna skjólveggjar á mörkum lóðanna Bakka­hjalla 3 og 5.

Að öðru leyti er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

18/2023 Hulduhóll

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 29. mars, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 18/2023, kæra vegna óhæfilegs dráttar á afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Hulduhóls 14 og 16.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 30. janúar 2023, kærir eigandi Hulduhóls 16, Eyrarbakka, óhæfilegan drátt á afgreiðslu Sveitarfélagsins Árborgar á erindi vegna skjólveggjar á lóðarmörkum Hulduhóls 14 og 16. Er þess krafist að byggingarfulltrúi sveitarfélagsins geri eiganda Hulduhóls 14 að fjarlægja vegginn.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Árborg 17. mars 2023.

Málavextir: Með tölvubréfi, dags. 19. maí 2022, kvartaði kærandi til byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar yfir því að settur hefði verið upp veggur á lóðamörkum Hulduhóls 14 og 16. Var þar farið fram á að eiganda Hulduhóls 14, sem reist hafði veginn, yrði gert að fjarlægja hann tafarlaust. Með bréfi byggingarfulltrúa dags. 20. maí s.á. var eiganda Hulduhóls 14 bent á að afla bæri samþykkis nágranna fyrir veggnum eða fjarlægja hann ella skv. gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Var kæranda tilkynnt þann sama dag um bréfið.

Kærandi sendi tölvubréf til byggingarfulltrúa, dags. 3. júní s.á., þar sem spurt var um stöðu málsins. Var því svarað dags. 20. s.m. þar sem fram kom að byggingarfulltrúi geti ekki beitt sér í svona nágrannaerjum, þar sem honum beri fara eftir byggingarreglugerð og þar komi ekki fram hvernig skuli beita sér í svona málum. Mælt sé með því að kærandi fái sér lögfræðing sem gæti tekið á málinu. Í kjölfarið sendi lögfræðingur kæranda byggingarfulltrúa tölvubréf, dags. 23. s.m., þar sem beðið var um upplýsingar um hvort bréf byggingarfulltrúa til eiganda Hulduhóls 14, dags. 20. maí 2022, hefði verið sent með ábyrgðarpósti. Kom þar einnig fram að kærandi muni ekki veita samþykki sitt fyrir skjólveggnum og var farið fram á að eiganda Hulduhóls 14 verði send ítrekun og lokaviðvörun lækki hann ekki vegginn til samræmis við byggingarreglugerð, en að öðrum kosti beittur dagsektum.

Kærandi sendi enn tölvubréf til byggingarfulltrúa, dags. 16. september s.á., þar sem farið var fram á upplýsingar um stöðu málsins, þ.e. hversu oft eiganda Hulduhóls 14 hefðu verið sendar viðvaranir og hvort dagsektir hefðu verið lagðar á. Kæranda barst svar þann sama dag þar sem fram kom að ekki hefði verið brugðist við bréfi byggingarfulltrúa og að hvorki netfang né símanúmer eiganda Hulduhóls 14 hefðu fundist til að fylgja málinu eftir. Leitað hefði verið ráða hjá lögfræðingi sveitarfélagsins varðandi næstu skref. Kærandi svaraði byggingarfulltrúa þann sama dag og upplýsti um símanúmer eiganda Hulduhóls 14. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 30. janúar 2022.

Í tölvubréfi, dags. 7. febrúar 2023, sendi byggingarfulltrúi bréf sitt frá 20. maí 2022 til eiganda Hulduhóls 14. Kom fram í tölvubréfinu að einfaldast væri fyrir nágranna að skrifa upp á leyfi vegna framkvæmda hvors annars, annars vegar vegna umdeilds veggjar og hins vegar staura fyrir rólu.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að nágranni kæranda hafi verið beðinn um að setja ekki upp vegg á lóðarmörkum þar sem ekki hefði fengist samþykki fyrir veggnum. Byggingarfulltrúi hafi tjáð kæranda að yrði veggurinn reistur yrði nágrannanum sent bréf þar sem farið yrði fram á samþykki kæranda fyrir veggnum en honum ella gert að taka vegginn niður. Síðan þá, þ.e. frá því í maí árið 2022, hafi ekkert gerst í málinu.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið tekin kæranleg stjórnvaldsákvörðun í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því sé málið ekki tækt til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Bent sé á að málið hafi fengið eðlilegan fargang hjá byggingarfulltrúa að teknu tilliti til erfiðra aðstæðna í stjórnsýslu á deildinni vegna forfalla og manneklu. Það hafi ekki verið unnt að forgangsraða máli kæranda framar málum þar sem til umfjöllunar séu umfangsmeiri byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Byggingarfulltrúi hafi ekki hafnað því að beita sér frekar í málinu, heldur sé málið enn til skoðunar. Beiting þvingunarúrræða sé viðurhlutamikil ráðstöfun sem gæta beri hófs í að grípa til og ekki nema að fullrannsökuðu máli.

Því sé hafnað að byggingarfulltrúi hafi með aðgerðarleysi sínu komið því í kring að ósamþykktur skjólveggur standi á lóðarmörkum í óþökk kæranda. Byggingarfulltrúi beri á engan hátt ábyrgð á þeirri stöðu, heldur sé öll ábyrgð á þeirri framkvæmd hjá nágranna kæranda og byggingarfulltrúi hafi beitt sér í málinu í því skyni að stuðla að lausn þess.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi ítekar að ástæða kæru til úrskurðarnefndarinnar sé að ekki hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu. Ekkert hafi verið aðhafst frá því í maí 2022 og þar til kæra hafi verið lögð fram.

———-

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um kærumál þetta.

Niðurstaða: Í máli þessu er til úrlausnar hvort afgreiðsla á erindi kæranda frá 19. maí 2022 til byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Árborgar hafi dregist óhóflega. Skilja verður erindi kæranda sem svo að farið sé fram á beitingu þvingunarúrræða skv. lögum nr. 160/2010 um mannvirki.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin að jafnaði ekki nýja ákvörðun í máli og er því ekki á færi nefndarinnar að ákveða að byggingarfulltrúa beri að láta fjarlægja hinn umdeilda vegg. Einskorðast niðurstaða úrskurðarnefndarinnar því við athugun á því hvort óhæfilegur dráttur hafi orðið á erindi kæranda.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Þá segir í 4. mgr. ákvæðisins að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Er sú kæruheimild undantekning frá þeirri meginreglu 2. mgr. 26. gr. sömu laga að ekki sé hægt að kæra þær ákvarðanir sem ekki binda endi á mál fyrr en það hefur verið til lykta leitt. Í máli þessu er kærður óhæfilegur dráttur á því að beita eiganda Hulduhóls 14 þvingunarúrræðum vegna skjólveggjar á lóðamörkum Hulduhóls 14 og 16. Samkvæmt 59. gr. gr. laga nr. 160/2010 sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en til þeirra teljast þvingunarúrræði vegna meintra brota á byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er kæru þessari því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi sendi erindi til byggingarfulltrúa 19. maí 2022 þar sem farið var fram á að eiganda Hulduhóls 14 yrði gert að fjarlægja hinn umdeilda vegg tafarlaust. Við þessu var brugðist með bréfi byggingarfulltrúa til eiganda Hulduhóls 14 degi síðar, 20. maí. Eftir það virðist sem lítil eða engin hreyfing hafi orðið á málinu fyrr en viku eftir að kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni, þ.e. 7. febrúar 2023. Þann dag sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til eiganda Hulduhóls 14 með ábendingum um réttarstöðu og tillögu um úrlausn þess.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga ber þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast að skýra aðila máls frá því og upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Þrátt fyrir að mál þetta hafi nú verið tekið til meðferðar að nýju verður ekki hjá því litið að óhæfilegur dráttur virðist hafa orðið á meðferð þess, af ástæðum sem sveitarfélagið hefur reifað fyrir úrskurðarnefndinni. Verður ekki séð að nokkuð standi því í vegi að byggingarfulltrúi afgreiði erindi kæranda án ástæðulauss dráttar.

 Úrskurðarorð:

Byggingarfulltrúi Sveitarfélagsins Árborgar skal taka fyrirliggjandi erindi kæranda um beitingu þvingunarúrræða til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.

93/2019 Skriðustekkur

Með

Árið 2019, föstudaginn 22. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. september 2019 um að kærendum verði gert að fjarlægja skjólvegg á mörkum lóðanna Skriðustekks 21 og 27 innan 30 daga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Skriðustekks 21, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík að kærendum verði gert að fjarlægja skjólvegg á mörkum lóðanna Skriðustekks 21 og 27 innan 30 daga. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. október 2019.

Málavextir: Kærendur hófust handa við að reisa skjólvegg á lóðamörkum fasteignanna Skriðu­stekks 21 og 27 vorið eða sumarið 2018. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík sendi kærendum bréf, dags. 3. október 2018, þar sem fram kom að embættinu hafi borist ábending vegna fram­kvæmdanna. Samkvæmt ábendingunni hafi verið búið að reisa skjólvegg og pall við vesturenda lóðarinnar nr. 21 við Skriðustekk. Óskað var eftir því að kærendur veittu skriflegar skýringar vegna málsins. Að öðrum kosti yrði tekin ákvörðun um framhald þess með hliðsjón af ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og að sú ákvörðun gæti falið í sér beitingu dagsektarákvæða eða að óleyfisframkvæmdir yrðu fjarlægðar á kostnað kærenda.

Kærendur sendu embætti byggingarfulltrúa bréf, dags. 17. október 2018, þar sem þeir komu á framfæri að þeir hefðu aldrei hafið uppbyggingu skjólveggjar með tilheyrandi fjárútlátum ef ekki hefði legið fyrir samkomulag um þá framkvæmd. Umræddur pallur væri enn í byggingu og muni ekki verða nær lóðamörkum en heimilað væri í byggingarreglugerð. Byggingarfulltrúi sendi kærendum að nýju bréf, dags. 19. júní 2019, þar sem þeim var veittur 14 daga frestur til að skila embættinu skriflegri skýringu á því að skriflegt samkomulag lóðarhafa vegna fram­kvæmdanna hafi ekki legið fyrir. Í svarbréfi kærenda, dags. 26. júní 2019, kom fram að skriflegt samþykki lægi enn ekki fyrir og að pallurinn væri ekki nær lóðamörkum en sem næmi 1,0 m.

Embætti byggingarfulltrúa sendi kærendum bréf, dags. 2. september 2019, þar sem tekið var fram að lóðarhafar aðliggjandi lóðar hafi lýst því yfir að samkomulag fyrir framkvæmdinni yrði ekki undirritað. Var kærendum gert að fjarlægja skjólvegginn við lóðamörkin innan 30 daga frá móttöku bréfsins.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið virt. Til staðar hafi verið munn­legt samkomulag kærenda og eigenda Skriðustekks 27 um að reisa skjólvegg á kostnað kærenda þó svo að skriflegt samkomulag þar um liggi enn ekki fyrir. Byggingarfulltrúi beri sjálfstæða rannsóknarskyldu og hafi því átt að kanna hvort eigendur Skriðustekks 27 hafi samþykkt byggingu skjólveggjarins. Meginreglan sé sú að þegar kærð sé ákvörðun til æðra stjórnvalds eigi kærandi rétt á fullri endurskoðun stjórnvaldsins á hinni kærðu ákvörðun. Beri því úrskurðarnefndinni að kanna hvort eigendur Skriðustekks 27 hafi samþykkt umræddar framkvæmdir.

Byggingarfulltrúi vísi til þess að lóðarhafar aðliggjandi lóðar hafi tekið fram að samkomulag fyrir framkvæmdinni verði ekki undirritað. Ekkert liggi fyrir um samskipti byggingarfulltrúa við lóðarhafana í gögnum málsins sem staðfesti þetta. Með því að bera þau gögn ekki undir kærendur hafi ekki verið gætt að andmælarétti þeirra, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Þvingunarúrræði eigi ekki við í máli kærenda. Í 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 segi: „Sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar, eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sama gildir ef vanrækt er að láta fara fram úttektir samkvæmt lögum þessum, ef notkun mannvirkis er breytt án samþykkis byggingarfulltrúa eða ef notkun mannvirkis brýtur í bága við skipulag.“ Miðað við framangreint orðalag geti skortur á skriflegu samþykki ekki leitt til þess að heimilt sé að beita úrræðum ákvæðanna.

Einnig sé byggt á því að byggingarfulltrúi hafi ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sem á honum hvíli, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og meðalhófsreglunni, sbr. 12. gr. sömu laga. Byggingarfulltrúa hafi borið að gefa kærendum kost á að koma skjólveggnum í þann búning að hann samræmist 1. og 2. málsl. f-liðar gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar í stað þess að hann verði fjarlægður með tilheyrandi tjóni fyrir kærendur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er því mótmælt að rannsóknar-skyldu stjórnsýslulaga haf ekki verið gætt. Það liggi fyrir með skýrum hætti í gögnum málsins að umræddur skjólveggur hafi verið reistur án heimildar og án samþykkis eigenda Skriðustekks 27. Ljóst sé því að ekki hafi verið sérstök þörf á að kalla eftir frekari upplýsingum eða afstöðu eigenda og lóðarhafa Skriðustekks 27 til þess hvort munnlegt samþykki hefði verið veitt fyrir framkvæmdinni eins og kærendur haldi fram að hafi verið gert. Skriflegt samþykki fyrir veggnum, líkt og áskilið sé í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, liggi ekki fyrir í málinu. Embætti byggingarfulltrúa geti ekki skorið úr því hvort munnlegt samþykki hafi legið fyrir í málinu. Sönnunarbyrði fyrir því hvíli á kærendum.

Ljóst sé að ekki sé gengið frá skjólveggnum í samræmi við lög og reglugerðir, en skriflegt samþykki eigenda Skriðustekks 27 liggi ekki fyrir eins og áskilið sé lögum samkvæmt. Krafa byggingarfulltrúa lúti að því að skjólveggurinn sé fjarlægður af lóðamörkum, þ.e. núverandi staðsetningu, en ekkert sé því til fyrirstöðu að kærendur reisi vegginn að nýju innan sinnar lóðar í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, kjósi þeir að gera það.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis er það byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi sem veitir byggingarleyfi vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er slíku leyfi skv. 1. mgr. Meginreglan er því sú að byggingarleyfi þurfi fyrir tilgreindum framkvæmdum. Hugtakið mannvirki er skilgreint sem hvers konar jarðföst, manngerð smíð, sbr. 1. málsl. 12. tölul. 3. gr. mannvirkjalaga. Skjólveggur fellur undir þá skilgreiningu.

Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningarskyldar, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki. Í gr. 2.3.5 byggingar­reglugerðar nr. 112/2012 eru taldar upp minniháttar framkvæmdir sem ekki eru háðar byggingarleyfi enda séu þær í samræmi við deiliskipulag. Í f-lið greinarinnar er tekið fram að lóðarhöfum samliggjandi lóða sé heimilt án byggingarleyfis að reisa girðingu eða skjólvegg allt að 1,8 m að hæð á lóðarmörkum enda leggi þeir fram hjá leyfisveitanda undirritað samkomulag þeirra um framkvæmdina.

Fyrir liggur að undirritað samkomulag um umdeildan skjólvegg hefur ekki verði lagt fram. Þótt munnlegt samkomulag hefði verið gert um framkvæmdina, uppfyllti það ekki þær formkröfur sem gerðar eru í áðurnefndum f-lið gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar. Í ljósi framangreinds og þeirrar staðreyndar að byggingarfulltrúa hafði borist afdráttarlaus yfirlýsing þess efnis að samkomulag lóðarhafa aðliggjandi lóða yrði ekki undirritað verður ekki fallist á að byggingarfulltrúa hafi borið að rannsaka það atriði frekar samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar ítrekaði byggingarfulltrúi í tveimur bréfum til kærenda að ef tilmælum hans þess efnis að lagt yrði fram skriflegt samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar fyrir skjólveggnum á lóðamörkum yrði ekki sinnt, yrði tekin ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af ákvæðum mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð. Var og tekið fram að sú ákvörðun gæti falið í sér beitingu dagsektarákvæða eða að óleyfisframkvæmdirnar yrðu fjarlægðar á kostnað eigenda. Var kærendum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem þeir og gerðu með aðstoð lögmanns. Þrátt fyrir að nokkuð hafi skort á nákvæmni við lagatilvísanir byggingarfulltrúa verður að líta til þess að í bréfum hans kemur skýrt fram til hvers er ætlast af kærendum og hverjar afleiðingar þess gætu orðið yrði tilmælum hans ekki fylgt. Var andmælaréttur kærenda skv. 13. gr. stjórnsýslulaga því virtur við meðferð málsins.

Í 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga er kveðið á um að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki verði fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slíkt verk á hans kostnað. Fyrir liggur að bygging fyrrnefnds skjólveggjar á lóðamörkum Skriðustekks 21 og 27 er háð skriflegu samþykki rétthafa að þeim lóðum samkvæmt áðurnefndum f-lið gr. 2.3.5 byggingarreglugerðar enda liggur ekki fyrir heimild fyrir slíkum skjólvegg í skipulagi umrædds svæðis. Var byggingarfulltrúa því rétt að taka hina kærðu ákvörðun um að skjólveggurinn skyldi fjarlægður, skv. 2. mgr. 55. gr., sbr. og 1. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. september 2019 um að kærendum verði gert að fjarlægja skjólvegg á lóðamörkum lóðanna Skriðustekks 21 og 27 innan 30 daga.