Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

120/2024 Haðarstígur

Með

Árið 2024, þriðjudaginn 19. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 120/2024, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024, um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12–14 við Haðarstíg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2024, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi íbúðar að Njarðargötu 39, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var gefið út 13. september 2024. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2024.

Málavextir: Hinn 27. apríl 2023 var lögð inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingarleyfi til að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð ásamt því að breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð, útbúa nýjar svalir í suður, lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga á parhúsinu að Haðarstíg 14. Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 18. júlí 2023 og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 21. júlí 2023 var málinu vísað til umsagnar verkefnastjóra og á afgreiðslufundi 14. september s.á. lagði skipulagsfulltrúi fram umsögn í málinu þar sem ekki var fallist á erindið í þeirri mynd sem það barst þar sem það var talið valda neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 5. október 2023 var samþykkt að grenndarkynna framan­greinda byggingarleyfisumsókn. Grenndarkynningin fór fram frá 6. nóvember til 4. desember s.á. og bárust fjórar athugasemdir á kynningartíma. Að lokinni grenndarkynningu var málið lagt fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 7. desember 2023 þar sem því var vísað til umsagnar verkefnastjóra. Eftir yfirferð verkefnastjóra og skipulagsfulltrúa á málinu var þakkóti lækkaður og umfang stækkunar á bakhlið hússins minnkað. Málinu var síðan vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs þar sem það var samþykkt 28. febrúar 2024. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024 var umsóknin svo breytt samþykkt og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 13. júní s.m. Byggingarleyfi var útgefið 13. september 2024.

Málsrök kæranda: Vísað er til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 14. september 2023, um að ekki væri fallist á umdeilt erindi í þeirri mynd sem það væri, þar sem það valdi neikvæðum grenndaráhrifum á aðliggjandi lóðir og fasteignir. Hins vegar hafi erindið verið grenndarkynnt þar sem kærandi og eigandi fasteignar að Njarðargötu 39 og 41 skiluðu inn neikvæðum athugasemdum vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar. Í kjölfar grenndarkynningar hafi kærandi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra um stöðu máls, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum hafi verið svarað 15. febrúar 2024 þar sem fram komi að kærandi fái bréf um afgreiðslu málsins. Ekki sé hægt að koma með frekari athugasemdir við erindið, það verði hægt að kæra niðurstöðuna en kæruleiðbeiningar muni koma fram í bréfinu. Í tölvupósti 1. mars s.á. svari verkefnastjóri kæranda með því að skrifa „þið komið til með að fá bréf sem segir ykkur hvernig þið getið kært erindið“. Hafi kærandi svarað samdægurs og bent á að hún muni kæra. Í tölvupósti frá verkefnastóra 2. apríl 2024 hafi einnig komið fram að byggingarfulltrúi komi til með að senda bréf með kæruleiðbeiningum þegar málið hafi fengið endanlega afgreiðslu hjá þeim. Það sé ekki hægt að kæra málið fyrr en afgreiðsla þess liggi fyrir. Málið sé í frestun hjá byggingarfulltrúa þar sem vísað sé til athugasemda á teikningum.

Byggingarleyfi hafi verið gefið út 13. september 2024 samkvæmt tölvupósti frá byggingar­fulltrúa, dags. 3. október 2024, eftir skriflega fyrirspurn kæranda degi áður. Umrædd tilkynning um veitingu byggingarleyfisins hafi svo borist 10 dögum eftir að kærandi hafði sent skriflega fyrirspurn um stöðu málsins eða 23. september 2024, fyrst til verkefnastjóra og síðan með öðrum tölvupósti til byggingarfulltrúa, en þeim tölvupósti hafi ekki verið svarað. Hafi því tilkynning um veitingu framangreinds byggingarleyfis borist kæranda tæplega mánuði eftir að leyfið var sannarlega veitt.

Í kjölfar veitingu byggingarleyfisins hafi kærandi sent tölvupóst á verkefnastjóra, þar sem hún kveðst ekki enn hafa fengið bréf frá byggingarfulltrúa með nauðsynlegum leiðbeiningum vegna málsins. Verkefnastjóri hafi þá bent sér á að hafa samband við byggingarfulltrúa vegna málsins. Í skipulagsgáttinni, 11. október 2024 þegar kæra þessi var rituð, sé tiltekið að mál varðandi Haðarstíg 14 sé enn í vinnslu. Valdi það töluverðri réttaróvissu á meðal þeirra nágranna sem sent hafi inn athugasemdir vegna framkvæmdanna. Líkt og áður greini hófust framkvæmdir 3. október 2024 eða sama dag og tölvupóstur barst frá byggingarfulltrúa þar sem fram komi dagsetning byggingarleyfisins og að kærufrestur skuli vera mánuður án þess að frekari leið­beiningar séu veittar, t.d. við hvaða tímamark sé verið að miða.

Hafi kærandi óskað í kjölfarið eftir gögnum er varði framangreint byggingarleyfi og svörum um hvers vegna tölvupóstur með nauðsynlegum leiðbeiningum um kæruleiðir og réttarstöðu hafi ekki enn borist. Hafi verkefnastjóri svarað þeim tölvupósti en ekki byggingarfulltrúi sem kæranda hafði áður verið leiðbeint um að ætti að beina erindi að. Í tölvupóstinum kveðst verkefnastjórinn ætla að taka málið til skoðunar og tiltekur við hvaða tímamark kæruheimild miði. Þá hafi verið liðnir tuttugu dagar frá útgáfu byggingarleyfisins og aðeins tíu dagar til stefnu til að kæra framangreinda leyfisveitingu til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála. Frekari skriflegum fyrirspurnum kæranda hafi ekki verið svarað. Þá liggi fyrir að nauðsynlegar leiðbeiningar um réttarstöðu og kæruleiðir hlutaðeigandi nágranna hafi ekki borist, hvorki frá byggingarfulltrúa né framangreindum verkefnastjóra.

Grenndarréttarreglur leggi ríkar kröfur á að stjórnvöldum, sem falið sé að veita byggingarleyfi sem óhjákvæmilega hafi í för með sér óþægindi fyrir hlutaðeigandi nágranna, rannsaki mál til hlítar svo unnt sé að leggja fullnægjandi mat á atvik og aðstæður málsins og þar með þolmörk þeirra óþæginda sem um ræði. Heimiluð framkvæmd komi til með að hafa í för með sér skuggamyndun og skerðingu á útsýni sem hafi óumflýjanlega áhrif á verðmat nærliggjandi fasteigna. Þá liggi fyrir álit fasteignasala og arkitekts þar sem ljóst sé að framangreindar fram­kvæmdir muni hafa í för með sér töluvert óhagræði fyrir fasteign kærenda að Njarðargötu 39.

Í rökstuðningi byggingarfulltrúa verði ekki séð að tekið hafi verið tillit til framangreindra athugasemda og sé þá sérstaklega vísað til umsagnar verkefnastjóra, þar sem fram komi að ólíklegt sé að innsýn aukist í glugga íbúða að Njarðargötu 39 og að ónæði verði vegna svala á suðurhlið hússins. Hafi umsögnin verið lögð fram án þess að aðstæður á vettvangi væru skoðaðar. Af því leiði að umsagnaraðilar byggingarleyfisins hafi ekki kynnt sér aðstæður áður en leyfi var veitt þrátt fyrir fjölda neikvæðra athugasemda hlutaðeigandi nágranna sem unnar hafi verið meðal annars af tveimur arkitektum, þ.e. eins eiganda á Njarðargötu 41 og arkitekts sem hafi komið á staðinn og skoðað allar aðstæður í aðdraganda þess að umsögn var skilað inn.

Krafa um ógildingu byggingarleyfis og samþykki byggingaráforma byggingarfulltrúa 4. júní 2024 sé byggð á því að málmeðferð byggingarfulltrúa sé ekki í samræmi við lög. Máls­meðferðin brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar og öllum þeim sem gert hafi athugasemdir við framkvæmdina. Í umsagnarferli hafi hvorki kæranda né öðrum verið leiðbeint um rétt sinn með tilhlýðilegum hætti eða kynnt niðurstaða byggingarfulltrúa. Hafi viðkomandi því hvorki notið andmælaréttar né leitað lögbundinna kæruleiða. Leyfisveitandi hafi að sama skapi ekki sinnt rannsóknarskyldum sínum í málinu með því að hafa virt athugasemdir í lögbundnu umsagnarferli að vettugi og ekki tekið afstöðu til þeirra.

 Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að við framkvæmd grenndarkynningar hinnar kærðu umsóknar hafi verið farið að öllu í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Fyrir mistök hafi þeim aðilum sem sendu inn athugasemdir ekki verið sent bréf með kæru­leiðbeiningum og sé beðist velvirðingar á því. Þess verði gætt að skerpa verkferla varðandi sendingar slíkra bréfa og verði farið yfir verklagið við uppfærslu stöðu mála í skipulagsgáttinni úr „Í vinnslu“ í „Lokið“. Þrátt fyrir að misbrestur hafi orðið á sendingu bréfsins hafi kærandi verið meðvituð um málið innan kærufrests og fengið svör við spurningum sínum varðandi stöðu málsins og upplýsingar um kæruleið, bæði frá verkefnastjóra skipulagsfulltrúa og skrifstofufulltrúa hjá byggingarfulltrúa. Auk þess vísist til heimasíðu borgarinnar þar sem hægt sé að fylgjast með stöðu mála og finna má allar fundargerðir.

 Málið eigi sér töluverða forsögu þar sem ýmsar útfærslur á breytingum á bæði Haðarstíg 12 og 14 hafi borist byggingar- og skipulagsfulltrúa frá árinu 2020. Upphaflega hafi verið sótt um að hækka mæni hússins á lóð nr. 14 við Haðarstíg og setja kvisti á hvora hlið, setja svalir á 1. hæð hússins, stækka glugga á suðausturhlið í kjallara og endurskipuleggja rishæð. Einnig hafi verið óskað eftir samþykkt á áður gerðum breytingum á innra skipulagi í kjallara og á 1. hæð ásamt ísetningu á glugga og hurð sem snúi að garði. Umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 21. janúar 2022 hafi sérstaklega tilgreint að ekki væri heimilað að útbúa séríbúð í kjallara og mælst gegn því að grafið yrði frá kjallara hússins með þeim hætti sem sýnt var í inn kominni fyrirspurn.

 Í nýjustu byggingarleyfisumsókninni, dags. 27. apríl 2023, hafi verið fallið frá því að sækja um íbúð í kjallara. Sótt hafi verið um að hækka þak og mæni, breyta innra fyrirkomulagi og koma fyrir kvistum og svölum á rishæð. Breyta innra fyrirkomulagi á 1. hæð ásamt nýjum svölum í suður og lækka gólf í kjallara og koma þar fyrir dyrum út í garð og síkka núverandi glugga. Fremst í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, hafi fyrir mistök verið fjallað um að sótt væri um að innrétta íbúð í kjallara hússins. Neðar í umsögninni komi þó skýrt fram: „Það er ekki verið að sækja um fjölgun íbúða í húsinu, ekki er heimilað að hafa íbúð í kjallara. Í umsókn er sótt um breytingar á einbýlishúsi. Jákvætt var tekið í lækkun gólfs í kjallara til að auka notkunarmöguleika kjallarans.“ Í útgefnu byggingarleyfi komi einnig skýrt fram: „Sótt er um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg“. Því liggi skýrt fyrir að ekki hafi verið veitt samþykki fyrir því að útbúa íbúð í kjallara hússins að Haðarstíg 14 og ekkert bendi til þess að innra skipulag þess gefi það til kynna að eigendur séu að fara bakdyraleið að því að breyta fasteigninni í tvær íbúðir.

 Við vinnslu málsins hjá skipulagsfulltrúa hafi verkefnastjóri embættisins farið á staðinn og kynnt sér aðstæður í götunni fyrir framan og aftan húsið að Haðarstíg 14. Brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkótann úr 61,45 í 60,50 svo hæð hússins væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll séu í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsum í götunni öðrum en parhúsinu að nr. 12-14. Að lokinni grenndarkynningu hafi jafnframt umfang stækkunarinnar á suðausturhlið hússins, sem snúi að Njarðargötu 39, verið minnkað svo skuggavarp hússins yrði sambærilegt og á Haðarstíg 16-18. Því sé ljóst að tekið hafi verið tillit til þess að um mikið nábýli sé að ræða og komið til móts við athugasemdirnar sem bárust vegna málsins.

Íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á næstu byggð sem haft geti í för með sér aukið skuggavarp eða aðrar breytingar á umhverfi íbúanna. Telja verði að sú skerðing sem íbúar í nágrenni við Haðarstíg 14 verði fyrir sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli megi almennt búast við. Telji Reykjavíkurborg að í umþrættu máli séu ekki til staðar verulegir annmarkar sem réttlætt geti ógildingu hins útgefna byggingarleyfis og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 13. september 2024.

 Málsrök leyfishafa: Bent er á að erindið var grenndarkynnt og kærandi hafi 22. nóvember 2023 gert ítarlegar athugasemdir við framkvæmdina. Því sé ljóst að kærandi hafi þegar í ferli málsins komið athugasemdum sínum á framfæri, sem skipulagsfulltrúi hafi hafnað, öfugt við ýmsar aðrar athugasemdir í kjölfar grenndarkynningar sem tekið hafi verið tillit til.

Að lokinni grenndarkynningu hafi erindið verið lagt fram að nýju á afgreiðslufundi byggingar­fulltrúa 18. júlí 2023 þar sem sótt var um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá húsi parhúss nr. 14 á lóð nr. 12-14 við Haðarstíg. Samþykkt hafi verið á fundi skipulagsfulltrúa 23. nóvember s.á. að koma til móts við athugasemdir nágranna með því að lækka suðausturhlið svo skuggavarp hússins sé sambærilegt og á Haðarstíg 16-18 og lækka húsið svo það sé ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.

Framkvæmdin, sem sé þegar hafin, byggi á byggingaleyfi dags. 13. september 2024, grund­vallað á ofangreindri samþykkt skipulagsfulltrúa. Þar sem kæran byggi alfarið á því að kærandi hafi ekki komið sjónarmiðum sínum og athugasemdum að við veitingu byggingarleyfis og afgreiðslu skipulagsfulltrúa, en ljóst sé af gögnum málsins að svo er ekki, sé sú krafa gerð að kæru sé vísað frá, en til vara hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að framlagðar teikningar gefi villandi mynd af raunverulegri fjarlægð á milli húsanna að Haðarstíg 14 og Njarðargötu 39. Að öðru leyti eru ítrekuð fyrri sjónarmið. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara, grafa frá parhúsi nr. 14 á lóðinni Haðarstíg 12–14 og gefa út byggingar­leyfi í skjóli þeirrar samþykktar 13. september 2024. Kæruheimild er í 59. gr. laga um mann­virki nr. 160/2010.

 Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ítrekað sent skriflegar fyrirspurnir á verkefnastjóra, m.a. um stöðu málsins, næstu skref, kæruferla og réttarstöðu að öðru leyti. Þeim fyrirspurnum var svarað með þeim hætti að kærandi fengi bréf um afgreiðslu málsins og í því bréfi yrði leiðbeint um kæruleiðir. Tilkynning um samþykki umsóknar og útgáfu framangreinds byggingarleyfis barst kæranda þó ekki fyrr en tæplega mánuði eftir að leyfið var gefið út, eða hinn 3. október 2024, en þá var málið enn sagt í vinnslu í skipulagsgátt borgarinnar. Samkvæmt því verður að telja að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 11. október 2024, hafi borist innan lögbundins kærufrests og verður það því tekið til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir, eins og á við í máli þessu, getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar greinar fer grenndarkynning fram með þeim hætti að nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta af framkvæmdum samkvæmt leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun er gefinn kostur á að tjá sig um þær innan tilskilins frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Líkt og fram kemur í málavöxtum var umrædd byggingarleyfisumsókn grenndarkynnt með fjögurra vikna athugasemdafresti þar sem kærandi kom athuga­semdum sínum á framfæri. Hins vegar liggur fyrir að þrátt fyrir ítrekaða tölvupósta frá kæranda með fyrirspurn um væntanlegt framhald og niðurstöðu málsins fórst það fyrir að tilkynna þeim sem tjáðu sig á kynningartíma um niðurstöðu og mögulegar kæruleiðir þegar erindið hafði fengið endanlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa. Sá ágalli á málsmeðferð verður þó ekki talin raska gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda varð kærandi ekki fyrir réttarspjöllum af þeim sökum. Hann fékk að lokum tilkynningu um lyktir málsins ásamt svörum við innsendum athugasemdum og kom að kæru í máli þessu. Að öðru leyti var meðferð málsins í samræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. febrúar 2024, er tekið fram að parhúsið við Haðarstíg 12-14 sé hluti af heillegri röð parhúsa við suðurhlið götunnar sem öll eru í grunninn byggð eftir sömu teikningunni. Þakbreytingar hafi verið gerðar á öllum húsunum í götunni fyrir utan húsið nr. 12-14. Þær breytingar séu jafn fjölbreyttar og húsin eru mörg en hvergi sé að sjá samhæfða útfærslu milli tveggja aðliggjandi parhúsa. Þá kemur fram að skuggavarp fylgdi umsóttum breytingum sem sýni að þær komi til með að hafa áhrif í bakgarði húsanna við Njarðargötu 39 og 41. Skipulagsfulltrúi mælti gegn því að kynntar teikningar yrðu samþykktar óbreyttar og mælti með því að minnka umfang byggingarinnar. Lagði hann til að lækka suðausturhlið hússins en hún er bakhliðin sem snýr að Njarðargötu 39 svo skuggavarp yrði sambærilegt og  frá Haðarstíg 16-18. Einnig var lagt til að húsið yrði lækkað svo það yrði ekki hærra en húsin sitthvoru megin við.

Á uppfærðum aðaluppdráttum, dags. 21. febrúar 2024, má sjá að brugðist hafi verið við inn komnum athugasemdum með því að lækka þakkóta hússins úr 61,45 í 60,50 svo hæð þess væri í samræmi við hæðir húsanna í götunni. Að lokinni grenndarkynningu var jafnframt dregið úr umfangi stækkunarinnar á suðausturhlið hússins svo skuggavarp yrði sambærilegt og frá Haðarstíg 16-18. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. júní 2024, þar sem hin kærða ákvörðun var tekin, voru lagðir fram endanlegir aðaluppdrættir og skuggavarpsteikningar.

Samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. ákvæðisins. Í því felst að aðilar við sambærilegar að­stæður skuli hljóta samsvarandi afgreiðslu. Reglan á að hindra að ákvarðanir verði tilviljunar­kenndar, byggðar á geðþótta eða annarlegum sjónarmiðum.

Lóðin Haðarstígur 14 er 92 m2 og húsið á lóðinni 92,8 m2 og er nýtingarhlutfall lóðarinnar fyrir breytingu 1,01. Eftir heimilaðar breytingar verður byggingin 131,2 m2 og nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,43. Lóðin sem tilheyrir húsi nr. 12, sem er hinn hluti parhússins er 147,8 m2 og húsið á lóðinni 76,7 m2 , en þar er stækkun hússins fyrirhuguð. Samkvæmt fasteignaskrá HMS má ætla að hús við götuna séu um 130 m2 en í nokkrum tilfellum stærri. Nýtingarhlutfall lóðarinnar Haðarstígs 8 er 1,34, á lóðum nr. 10 og 16 er nýtingarhlutfallið 0,93 og á lóðinni nr. 18 er það 1,48. Verður því stærð hússins og nýtingarhlutfall lóðar sambærileg við parhúsin sem standa sitthvoru megin við parhúsið á Haðarstíg 12-14 og önnur hús í sömu götu.

Af gögnum málsins verður ráðið að grenndaráhrif umdeildra breytinga með tilliti til skugga­varps verði óveruleg en að einhver innsýn í fasteign kæranda verði frá kvistinum, en þau grenndaráhrif teljast þó ekki umtalsverð eða meiri en gengur og gerist á svæðinu.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. júní 2024 um að samþykkja umsókn um leyfi til að hækka þak, byggja kvisti á báðum hliðum, lækka gólf í kjallara og grafa frá parhúsi nr. 14 við Haðarstíg.

39/2023 Skrauthólar

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 17. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 39/2023, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2021 um útgáfu starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi. Einnig er kærð ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni kærenda um að taka til endurskoðunar og/eða afturköllunar útgáfu umrædds starfsleyfis fyrir tjaldsvæðið í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

 Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags 22. mars 2023, er barst nefndinni 23. s.m., kæra íbúar, Skrauthólum 2, Kjalarnesi, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2021 um útgáfu starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi. Einnig er kærð ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 að hafna beiðni kærenda um að taka til endurskoðunar og/eða afturköllunar útgáfu umrædds starfsleyfis. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 12. maí 2023.

Málavextir: Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gaf út hinn 3. ágúst 2021 starfsleyfi fyrir tjald-svæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi. Samkvæmt ofanflóðahættumati sem unnið var af Veður-stofu Íslands er býlið Skrauthólar og nágrenni þess á hættusvæði C. Í umsögn um rekstur tjaldsvæðis í landi Skrauthóla, dags. 3. júní 2015, lagði Veðurstofan til að gerð rýmingar-áætlunar fyrir tjaldsvæðið yrði sett sem skilyrði fyrir tjaldsvæðarekstri á svæðinu. Slík áætlun var gerð og er gildistími leyfisins til 3. ágúst 2033. Íbúar Skrauthóla 2 og 3 fóru þess á leit við heilbrigðiseftirlitið 19. desember 2022 að stofnunin tæki til endurskoðunar umrætt starfsleyfi með vísan til þess að ný gögn væru fram komin og að leyfishafi uppfyllti ekki þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir útgáfu leyfisins. Var beiðninni synjað af hálfu heilbrigðiseftirlitsins 23. febrúar 2023 með vísan til þess að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sjái heilbrigðiseftirlitið hvorki ástæðu né grundvöll til þess.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi gert mistök við upphaflega útgáfu starfsleyfis fyrir Skrauthóla 4. Ekki hafi verið rétt staðið að vinnslu málsins auk þess sem leyfishafi hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir leyfinu. Þá hafi komið fram ný gögn í málinu sem kalli á endurskoðun heilbrigðiseftirlitsins á starfsleyfinu, auk þess sem núverandi starfsemi sé ekki í samræmi við það sem starfsleyfið taki til.

Umrætt starfsleyfi sé gefið út fyrir starfsemi á heils árs grundvelli þvert á fyrirliggjandi hættu-mat vegna ofanflóðahættu á svæðinu. Þegar ákvörðun um starfsleyfi hafi verið tekin hafi að auki legið fyrir umsögn Veðurstofu Íslands um að gert væri ráð fyrir að starfsemi tjaldsvæðisins yrði að hámarki 3–5  mánuðir á ári. Frá útgáfu starfsleyfisins hafi eigandi Skrauthóla 4 einnig sótt um breytingu á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði þar sem óskað hafi verið eftir heimild til að innrétta íbúðir í óskráðum atvinnu- og útihúsum á lóðinni. Hafi þeirri beiðni verið hafnað af hálfu umhverfis- og skipulagsráðs 24. ágúst 2022 á þeim forsendum að jörðin Skrauthólar væri á hættusvæði vegna ofanflóða. Skýrt sé að ekki megi breyta atvinnuhúsnæði eða öðru húsnæði þannig að viðvera eða heildaráhætta aukist.

Starfseminni fylgi mikið ónæði sem meðal annars felist í því að öll umferð til og frá svæðinu fari í gegnum hlað/bílastæði lóðanna Skrauthóla 2 og 3. Við aukna umferð hafi til að mynda orðið slys og dauði húsdýra. Kalla hafi þurft á lögreglu sökum ónæðis frá svæðinu og sé hrein-læti verulega ábótavant. Þá leiki grunur á að skólpmálum sé verulega ábótavant og að ekki séu til staðar viðunandi rotþrær fyrir svæðið. Gisting sé leigð í ónýtum ökutækjum sem innréttuð hafi verið sem gistiaðstaða. Sala á veitingum eigi sér stað þrátt fyrir að ekki séu til þess tilskilin leyfi og hafi ónýtum strætisvagni verið komið fyrir á lóðarmörkum Skrauthóla 2 og 4 sem virðist vera notaður sem sorpgeymsla.

Að lokum virðist sem að útgefið starfsleyfi fari í bága við Aðalskipulag Reykjavíkur þar sem umrætt svæði sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði og ekki séu forsendur fyrir annars konar atvinnustarfsemi á svæðinu.

 Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er gerð krafa um frávísun málsins. Bent sé á að kærufrestur vegna starfsleyfisins sé löngu liðinn og svar heilbrigðiseftirlitsins, dags. 23. febrúar 2023, hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun. Í umræddu svari hafi verið farið yfir efnisatriði erindisins og jafnframt vakin athygli á því að heilbrigðiseftirlitið teldi hvorki ástæðu né grundvöll fyrir endurskoðun starfsleyfisins. Með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir hafi ástæður þær sem kærendur töldu að gæfu tilefni til endurskoðunar leyfisins ekki verið þess eðlis að þær kölluðu á endurskoðun eða afturköllun þess. Slík ákvörðun væri íþyngjandi fyrir rekstraraðila og yrði ekki tekin nema að undangengnu ferli þar sem málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins yrðu að vera uppfylltar. Þar beri helst að nefna reglur um rannsóknarskyldu, andmælarétt og meðalhóf. Vissulega hafi umrædd atriði verið tekin til skoðunar og verði áfram höfð til hliðsjónar varðandi eftirlit með starfsemi tjaldsvæðisins.

Áréttað sé að við undirbúning umsóknar um starfsleyfi hafi verið horft til mats Veðurstofunnar vegna ofanflóða á Kjalarnesi og sérstakrar rýmingaráætlunar sem sé að finna í deiliskipulagi fyrir Skrauthóla 4. Þar komi fram að: „[Í] ljósi árstíðabundins rekstrartíma, sem gera megi ráð fyrir að verði að hámarki 3–5 mánuðir á ári, megi færa rök fyrir því að heildarviðvera starfs-fólks og gesta sé takmörkuð þannig að einstaklingsáhætta sé viðunandi.“ Með hliðsjón af þessu hafi ekki verið talin ástæða til að takmarka leyfið við ákveðin tíma ársins, enda væri á veturna um að ræða hlutfallslega lítinn og/eða tilfallandi gestafjölda. Auk þess beri rekstraraðila ávallt að taka mið af aðstæðum hverju sinni og jafnframt rýma tjaldsvæðið um leið og Veðurstofan eða Almannavarnir ríkisins lýsi yfir óvissustigi vegna skriðufalls/áhættu sem nánar sé útfært í rýmingaráætlun tjaldsvæðisins. Við útgáfu starfsleyfisins hafi heilbrigðiseftirlitið metið, og geri enn, að aðgangsstýring að tjaldsvæðinu innan marka núgilandi leyfis sé fullnægjandi.

Að lokum telji heilbrigðiseftirlitið að ekki sé um nein ný gögn að ræða sem kalli á endurskoðun eða afturköllunar starfsleyfisins. Þau atriði hafi engu að síður verið tekin til skoðunar og verði höfð til hliðsjónar varðandi eftirlit með starfsemi tjaldsvæðisins.

 Málsrök leyfishafa: Leyfishafar vísa til þess að þau hafi búið á Skrauthólum 4 í nær tíu ár. Jörðin hafi verið keypt þar sem náttúran og fegurð umhverfisins hafi hentað þeirri starfsemi sem þau hygðust setja upp og gæti að auki verið þeirra heimili. Það hafi því verið visst áfall þegar skýrsla um ofanflóðamat hafi verið gefin út rúmlega sex mánuðum eftir kaupin. Sökum þess hafi þau ekki enn fengið að skrá lögheimili sitt á jörðinni. Hins vegar hafi leyfishafar mætt miklum stuðningi og þolinmæði af hálfu starfsmanna Reykjavíkurborgar hvað varði skilyrði fyrir tjaldsvæðinu svo unnt væri að hefja reksturinn. Vissulega sé um öðruvísi gistingu að ræða að mati margra, en um sé að ræða lífstíl sem sé heill, sannur og friðsamlegur.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Ítrekuð eru framkomin sjónarmið og kröfur. Þá hafi kærendur hvorki verið upplýstir um útgáfu starfsleyfisins né hafi verið haft samráð við þá vegna útgáfu þess. Því sé vandséð hvernig kærendur hefðu getað kært útgáfu þess innan til-skilins kærufrests. Ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 um að neita að taka til endurskoðunar starfsleyfið þrátt fyrir nýtilkomin gögn, breytingar á starfsemi og fjölda brota hafi þó verið kærð innan tilskilins tímafrests.

Starfsemin að Skrauthólum 4 hafi ekki rekstrarleyfi til sölu gistingar, sbr. 1. og 2. gr. reglu-gerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og nái umþrætt starfs-leyfi eingöngu til tjaldsvæðisins. Hafi heilbrigðiseftirlitið algjörlega litið framhjá sölu gistingar á gististöðum í starfsleyfinu sem þó sé eftirlitshlutverk þess. Sala gistingar hafi verið starfrækt samhliða rekstri tjaldssvæðisins allt árið síðan í desember 2016. Vegna þessa skorts á starfs- og rekstrarleyfi Skrauthóla 4 séu ýmsar greinar reglugerðar nr. 1277/2016 snið-gengnar, sérstaklega greinar 5, 9 og 27. Ljóst sé að umsögn Veðurstofunnar, dags. 11. júlí 2022 mæli eindregið gegn aukinni viðveru fólks á svæðinu, en kjósi heilbrigðiseftirlitið að líta framhjá því og telji ekki til nýrra gagna. Þá sé því mótmælt sérstaklega að kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Vísað sé til mats fasteignasala sem lækkað hafi verðmat Skrauthóla 3 um milljónir króna þegar eignin hafi verið seld fyrir tæpu ári vegna nábýlis við starfsemina á Skrauthólum 4.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Fjallað er um kærur sem berast að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. ákvæðisins er tekið fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tl, eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar skv. 2. tl. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. Skal þó kæru ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Hið kærða starfsleyfi var gefið út 3. ágúst 2021, eða tæplega tveimur árum áður en úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu. Af málsgögnum má ráða að kærendum hafi verið ljóst eigi síðar en í maí 2022 að starfsleyfi fyrir rekstri tjaldsvæðisins hafi verið gefið út. Verður þeim hluta málsins af þeim sökum því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga. Stendur þá eftir ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni kærenda um endurskoðun starfsleyfisins.

Almennt hefur verið litið svo á að synjun um endurupptöku stjórnsýslumáls sé stjórnvalds-ákvörðun þar sem hún feli í sér bindandi niðurstöðu eða úrlausn um rétt eða skyldu borgaranna. Verður að meta í hverju tilviki hvort slíkri ákvörðun sé til að dreifa eða hvort afstaða stjórnvalds feli fremur í sér leiðbeiningar eða lið í meðferð máls. Kemur þar til álita að hvaða marki í slíku tilsvari til er að dreifa afstöðu til atvika máls eða beitingu laga. Af málsgögnum má ráða að kærendur hafa átt nokkur samskipti við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur vegna starfsemi leyfishafa sem varðað hafa m.a. forsendur leyfisveitingar, skort á eftirliti og slæma umgengni. Með téðri ákvörðun frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni um endurskoðun starfsleyfis var fjallað um þessi málefni, athugasemdum hafnað lið fyrir lið og því slegið föstu að ekki væru skilyrði til að endurskoða eða breyta starfsleyfinu. Verður að álíta að með þessu sé til að dreifa afstöðu stjórnvalds sem feli í sér ákvörðun sem borin verður sem slík undir nefndina, sbr. 65. gr. laga nr. 7/1998.

Um endurskoðun og breytingar á starfsleyfum vegna breyttra forsendna eru sérstök ákvæði í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998. Þau dæmi sem þar eru tiltekin varða það ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfi var gefið út og ef til er að dreifa breytingum á rekstri sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytingar á reglum um mengunarvarnir, sem og breytingar á aðalskipulagi. Þá er jafnframt til þess að líta að þegar ákvörðun stjórnvalds er haldin annmarka kann hún að vera ógildanleg ef ann-markinn telst verulegur og veigamiklar ástæður mæla ekki gegn því og er því stjórnvaldi sem tók ákvörðunina þá heimilt að afturkalla hana  sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga.

Af hálfu kærenda hefur því verið haldið fram að umrætt starfsleyfi hafi verið gefið út til heils árs þvert á fyrirliggjandi hættumat vegna ofanflóða. Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins er bent á að í deiliskipulagi sé reifað að ljósi árstíðabundins rekstrartíma, sem gera megi ráð fyrir að verði að hámarki 3–5 mánuðir á ári, megi færa rök að því að heildarviðvera starfsfólks og gesta sé takmörkuð þannig að einstaklingsáhætta sé viðunandi og hafi þetta mat legið fyrir við útgáfu leyfisins í upphafi. Af greinargerð skipulagsins má ráða að gert hafi verið ráð fyrir því að sett yrðu skilyrði um sérstaka rýmingaráætlun vegna ofanflóðahættu og er hún meðal málsgagna.

Kærendur hafa bent á að leyfishafi hafi ekki aflað rekstrarleyfis til sölu gistingar í aflögðum strætisvögnum og vísað af því tilefni til reglugerðar nr. 1277/2016 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Af þessu tilefni skal athugað að þeim sem starfrækja tjaldsvæði getur verið skylt að afla leyfa fyrir annarri skyldri starfsemi, svo sem gert er ráð fyrir í gr. 1.4. í sam-ræmdum starfsleyfisskilyrðum vegna hollustuhátta fyrir hjólhýsa-, smáhýsa- og tjaldsvæði, sem vísað er til í hinu kærða leyfi. Eftirliti með gistingu sem og veitingaþjónustu er markaður farvegur með ákvæðum laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 og vísast til ákvæða þeirra laga um möguleg viðurlög, sé óskráðri gistingu til að dreifa. Önnur atriði sem færð hafa verið fram af hálfu kærenda varða meint brot á starfsleyfisskilyrðum, m.a. um fráveitu, slæma umgengni, hávaða, ágang o.fl. Verða þessi atriði ekki talin fela í sér breyttar forsendur starfsemi skv. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998, en til þess er að líta að með því að heimila rekstur tjaldsvæðis með aðkomu um sameiginlegt bæjarhlað mátti frá upphafi gera ráð fyrir umtalsverðum grenndaráhrifum.

Að endingu er því haldið fram að útgefið starfsleyfi fari í bága við aðalskipulag Reykjavíkur þar sem umrætt svæði sé skilgreint sem landbúnaðarsvæði og ekki séu forsendur fyrir annars konar atvinnustarfsemi á svæðinu. Deiliskipulagi svæðisins hefur ekki verið breytt síðan leyfið var gefið út og er því breyttum forsendum ekki til að dreifa um það. Þá er ljóst af aðalskipulagi Reykjavíkurborgar að á landbúnaðarsvæðum á Kjalarnesi er gert ráð fyrir hefðbundinni ferða-þjónustu bænda, svo sem það er orðað í skipulagsáætluninni, og liggur fyrir að mat var lagt á það hvort starfsemi kæranda, eins og henni var lýst í upphafi, samrýmdist skipulagi.

Með vísan til alls framangreinds hafnar úrskurðarnefndin kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni kærenda um endurskoðun starfsleyfis í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi.

Telji kærendur að Reykjavíkurborg hafi með samþykkt skipulagsáætlana valdið þeim tjóni þá geti þeir á grundvelli 51. gr. skipulagslaga átt rétt á bótum, en slík mál verða einungis rekin fyrir dómstólum. Gildir hið sama um mögulegar bætur vegna ætlaðs tjóns með tilliti til grenndaráhrifa.

Úrskurðarorð:

Kæru á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 3. ágúst 2021 um útgáfu starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi er vísað frá nefndinni.

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 23. febrúar 2023 um að hafna beiðni um að taka til endurskoðunar og/eða afturkalla starfsleyfis fyrir tjaldsvæði í landi Skrauthóla 4, Kjalarnesi.

29/2023 Bláskógabyggð

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 20. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu ehf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. febrúar 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Ljósalandi í Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 28. nóvember 2022 að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita byggingarleyfi fyrir nefndu fjarskiptamastri.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 29. mars 2023.

Málavextir: Hinn 10. desember 2021 óskaði Míla hf. eftir byggingarleyfi til að reisa á lóðinni L176855, Laugarási, Bláskógabyggð, 18 m hátt stálmastur. Á lóðinni er fyrir tækjahús Mílu sem reist var árið 1997 og hýsir fjarskiptabúnað sem þjónar nærliggjandi byggð. Í mastrinu er ætlunin að koma fyrir fjarskiptabúnaði, sem þjónar stærra svæði en nærliggjandi byggð og verður mastrið sjálfberandi stálstaur á steyptum undirstöðum. Umsóknin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 6. janúar 2022 þar sem afgreiðslu málsins var frestað. Á fundi sveitastjórnar 17. febrúar s.á var málið tekið fyrir að nýju og samþykkt að það fengi málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar.

Umhverfis- og tæknisvið uppsveita sendi 8. mars 2022 til hagsmunaaðilum nærliggjandi lóða bréf, þar sem umsókn um byggingarheimild fyrir fjarskiptamastur var kynnt eigendum í samræmi við 44. gr. laga nr. 123/2010. Var frestur veittur til 12. apríl s.á. til að skila inn athugasemdum. Á fundi sveitarstjórnar 11. maí s.á. voru lagðar fram athugasemdir sem bárust við grenndarkynninguna, m.a. frá kæranda sem fór fram á að mastrinu yrði fundin önnur staðsetning þar sem hæð þess og sýnileiki yrði minni. Fallist var á að fresta málinu og að haft yrði samráð við umsækjanda um hugsanlega breytta staðsetningu mastursins í ljósi fram-kominna athugasemda.

Málið var tekið fyrir að nýju 23. nóvember 2022 hjá skipulagsnefnd sem tók undir andsvör umsækjanda vegna framlagðra athugasemda er bárust vegna málsins. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að ekki yrði gerð athugasemd við útgáfu byggingarleyfis fyrir uppsetningu fjarskiptamastursins. Málið var tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar 28. s.m. þar sem tekið var undir andsvörin og gerði sveitarstjórn ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis. Var byggingarfulltrúa falin afgreiðsla málsins og samþykkti hann umsókn um byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á umræddri lóð 7. desember 2022.

 Málsrök kæranda: Kærandi telur fyrirhugaða staðsetningu fjarskiptamastursins vera of nærri heimili hans. Fjarlægð þess sé innan við 100 m frá heimili hans og kæmi það til með að gnæfa 20 m frá jörðu og rýra verulega fegurðarásýnd umhverfisins, verðmæti eigna hans og sölu-möguleika á fasteignum sem væru á lóð hans. Óljóst sé hver áhrif væntanlegrar geislunar frá mastrinu muni hafa á heilsu fólks. Sökum nálægðar fyrirhugaðs masturs við heimili kæranda yrði hann í umtalsvert meiri hættu á heilsuspillandi áhrifum geislunar heldur en þeir sem fjær búi. Að auki myndi það leiða til þess að ættingjar kæmu síður með börn sín í heimsókn ásamt því að möguleikum hans til að stofna fjölskyldu og eignast börn sé stefnt í hættu. Þá komi fjarskiptamastrið til með að hafa áhrif á atvinnuumsvif kæranda á lóð hans sem sé garðyrkjulóð þar sem ræktuð séu matvæli, blóm og tré. Stór hluti neytenda hefði sterkar skoðanir á því við hvaða aðstæður kaupvara þeirra sé ræktuð. Að hafa risavaxið fjarskiptamastur í svo mikilli nálægð við sölustaðinn kæmi til með að fæla stóran hluta viðskiptavina frá.

Að lokum yrði veruleg sjónmengun af ofangreindu mastri á þorpsmynd Laugaráss sem kæmi til með að skaða bæjarmynd þorpsins og rýra gildi þess sem æskilegs búsetustaðar fyrir fólk.

 Athugasemdir sveitarstjórnar Bláskógabyggðar: Vísað er til þess skipulagsvalds sem sveitarfélögum sé gefið sbr. skipulagslög nr. 123/2010. Meðferð málsins hafi verið í samræmi við skyldur sveitarfélagsins samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, skipulagslögum nr. 123/2010 og gildandi aðal- og deiliskipulag fyrir svæðið.

Umrætt fjarskiptamastur verði staðsett á athafnalóð innan Bláskógabyggðar, nánar tiltekið Athafnasvæði nr. 16 í Laugarási. Kveðið sé á um í gildandi aðalskipulagi fyrir Bláskógabyggð um Laugarás sérstaklega að á athafnasvæðum geti byggst upp léttur iðnaður sem hafi litla mengunaráhættu í för með sér. Fram komi í aðalskipulaginu að endurskoða þurfi að mati sveitarfélagsins stefnu varðandi m.a. fjarskipti og eitt af meginmarkmiðum aðalskipulagsins sé að stuðla að betri fjarskiptum í sveitarfélaginu. Þá sé einnig fjallað þar um framkvæmdir sem séu heimilar án þess að afmarka þurfi sérstaka landnotkun. Eigi það meðal annars við um fjarskiptamöstur.

Í deiliskipulagi fyrir Laugarás í Bláskógarbyggð sem samþykkt hafi verið af sveitarstjórn 29. desember 2011 komi fram í skilmálum fyrir athafnalóðir að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Hafi því verið ákveðið á fundi sveitar-stjórnar að fara með umsókn um byggingarheimild til að reisa fjarskiptamastur á lóðinni í sam-ræmi við 44. gr. skipulagslaga.

Fullyrðingum um að fyrirhugað mastur muni hafa áhrif á verðmat eigna kæranda séu ekki studdar neinum gögnum. Um sé að ræða lóð sem skilgreind sé sem athafnasvæði og hafi kæranda því mátt vera ljóst að á lóðinni yrðu reistar byggingar sem kæmu til með að sjást frá lóð hans. Fjarskiptamöstur séu víða að finna í byggð og sé hlutverk fyrirhugaðs fjarskipta-masturs að styrkja fjarskiptasamband á svæðinu líkt og stefna og markmið aðalskipulags Bláskógabyggðar áskilji.

Því sé hafnað að framkvæmdin komi til með að hafa áhrif á ásýnd og ímynd Laugaráss, enda sé það mat sveitarfélagsins að framkvæmdin sé ekki líkleg til að hafa óæskileg áhrif. Þá séu fullyrðingar þess efnis að geislun frá mastrinu geti verið skaðleg heilsu kæranda, skert möguleika hans til að stofna fjölskyldu og geti haft áhrif á atvinnurekstur hans ekki studdar neinum gögnum.

 Málsrök leyfishafa: Vísað er til þess að um sé að ræða framkvæmdir á skilgreindu iðnaðar- og athafnasvæði. Sú lóð sem um ræði sé skilgreind sem athafnalóð þar sem gert sé ráð fyrir léttum og hreinlegum iðnaði. Tilefni umræddrar framkvæmdar sé vegna fjölda ábendinga og kvartana um lélegt fjarskiptasamband á umræddu svæði. Sambærileg fjarskiptamöstur sé að finna víða innan þéttbýlis og hefur verið hluti af innviðum landsins í áratugi. Stærð mastursins verði 18 m sem sé lágmarks hæð fyrir mastur á lóðum sem þessum til að geta sem best þjónað öllu nærliggjandi svæði. Bent sé á að mikillar upplýsingaóreiðu og misskilnings virðist gæta víða um geislun frá farsímum og fjarskiptamöstrum. Fullyrðingar kæranda hvað varði mögu-lega geislun og áhrif mastursins á atvinnuumsvif hans séu því ekki studdar neinum gögnum.

Leyfishafi fari í einu og öllu eftir ráðleggingum og reglum Geislavarna ríkisins sem komi frá sjálfstæðri stofnun sem beri nafnið ICNIRP. Nýjustu ráðleggingar þeirra frá árinu 2020 séu strangar varðandi útgeislun. Þær kröfur séu gerðar að útgeislun þar sem búið sé þurfi að vera 50 sinnum lægri en þau viðmiðunarmörk sem ICNIRP hafi metið sem örugga útgeislun. Þessum reglum sé ávallt fylgt eftir.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Vísað er til heimilda á internetinu þar sem rannsökuð hafa verið áhrif fjarskiptamastra á virði fasteigna. Þær réttlætingarástæður sem málsaðilar hafi borið fyrir sig um að lóðin sem stendur til að reisa mastrið á sé iðnaðarlóð breyti ekki þeirri staðreynd að staðsetningin sé alltof nærri heimili kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir 18 m háu fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, þar sem fyrir er tækjahús með fjarskiptabúnaði. Lóðin er á deiliskipulögðu svæði og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem slík málsmeðferð er heimiluð ef um óverulega breytingu á deiliskipulagi er að ræða.

Í k-lið, greinar 4.3.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um hvernig farið skuli með stakar skipulagsskyldar framkvæmdir sem ekki er talin þörf á að afmarka sérstaka landnotkun fyrir. Er þar átt við framkvæmdir sem ekki eru taldar líklegar til að valda verulegum áhrifum á umhverfið. Ein þeirra framkvæmda sem þar eru taldar upp eru stök fjarskiptamöstur. Í aðal-skipulagi þarf að koma fram stefna um hvar eða við hvaða aðstæður mannvirkjagerð sem taldar eru þar upp séu heimilar eða óheimilar og aðrar skipulagsforsendur fyrir gerð deiliskipulags eða veitingu leyfa til framkvæmda.

Samkvæmt Aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 er umrædd lóð á skilgreindu athafna-svæði, en þar er gert ráð fyrir léttum iðnaði sem hafi litla mengunarhættu í för með sér. Í greinargerð aðalskipulagsins er í kafla 2.4.8 fjallað um stakar framkvæmdir. Kemur þar fram að fjarskiptamöstur í byggð séu heimiluð án þess að afmarka sérstaka landnotkun allt að 20 m há ásamt aðstöðuhúsi allt að 20 m² ásamt lögnum og vegum. Gerð er þó krafa um að hvert tilfelli sé metið og þá hvar fjarskiptamöstur verði heimiluð. Við matið skuli meðal annars tekið tillit til hljóðvistar og fjarlægðar frá landamerkjum, öðrum mannvirkjum, sýnileika og áhrifa á náttúru og landslag.

Um athafnalóðir segir í deiliskipulagi Laugaráss í Bláskógabyggð að mænishæð húsa á lóðunum skuli ekki vera meiri en 10 m og vegghæð ekki hærri en 5 m. Ekki er þar að finna umfjöllun um fjarskiptamöstur. Fjarskiptamastur er byggingarleyfisskylt mannvirki sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í 11. gr. og 1. mgr. 13. gr. laganna er áskilið að byggingar-leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlanir til að byggingaráform verði samþykkt og byggingarleyfi gefið út.

Í lokamálsgrein greinar 5.3.2.1. skipulagsreglugerðar er tekið fram að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir umfangi og stærð mannvirkja svo sem virkjana-, fjarskipta- og veitumannvirkja, samgöngumannvirkja o.fl. Þá er einnig tekið fram í gr. 5.3.2.15 að í deiliskipulagi skuli gera grein fyrir staðsetningu og umfangi fjarskiptamastra. Verða slík mannvirki því að eiga stoð í gildandi deiliskipulagi viðkomandi svæðis svo unnt sé að veita byggingarleyfi fyrir þeim.

Svo sem áður greinir var umdeild framkvæmd grenndarkynnt og var síðan tekin afstaða til framkominna athugasemda, málið afgreitt í skipulagsnefnd og staðfest í sveitarstjórn. Hins vegar liggur ekki fyrir að tillaga að breytingu á gildandi deiliskipulagi í tilefni af fyrirhuguðu fjarskiptamastri á umræddri lóð hafi verið send Skipulagsstofnun til yfirferðar og auglýsing birst um samþykki hennar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en skipulagsbreyting tekur fyrst gildi við birtingu þeirrar auglýsingar. Var því óheimilt að veita og gefa út hið kærða byggingarleyfi, sbr. áðurnefnda 11. og 13. gr. mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Úrskurðarorð:

 Ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 7. desember 2022 um að veita Mílu hf. byggingarleyfi fyrir fjarskiptamastri á lóð nr. L176855 í Laugarási, Bláskógabyggð, er felld úr gildi.

131/2020 Fífuhvammur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 18. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 131/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. desember 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Fífuhvamms 27, Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 6. janúar 2021 var hafnað kröfu um stöðvun framkvæmda á grundvelli hins kærða byggingarleyfis.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. janúar 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér þó nokkra forsögu. Að lokinni grenndarkynningu samþykkti skipulagsnefnd Kópavogsbæjar á fundi sínum 3. júlí 2007 erindi lóðarhafa Fífuhvamms 25 um leyfi til byggingar 62,5 m2 bílskúrs ásamt skyggni yfir innkeyrslu og var byggingarleyfi samþykkt á fundi byggingarnefndar Kópavogs 22. ágúst s.á. Eigendur Fífuhvamms 27, sem komið höfðu að athugasemdum við grenndarkynningu, kærðu nefndar ákvarðanir til úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála, sem felldi þær úr gildi með úrskurði uppkveðnum 31. janúar 2008, í kærumáli nr. 118/2007. Á fundi byggingarnefndar Kópavogs 6. ágúst 2008 var eigendum Fífuhvamms 25 veitt leyfi til að byggja 56,8 m2 bílskúr með geymslu á lóð þeirra. Kærðu eigendur Fífuhvamms 27 einnig það leyfi til til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 25. september 2008, í máli nr. 87/2008. Lóðarhafar Fífuhvamms 25 sóttu um leyfi til að reisa viðbyggingu ofan á 56,8 m2 bílskúr sem þá hafði verið reistur, en að lokinni grenndarkynningu var umsókninni synjað af byggingarfulltrúa Kópavogs 21. júní 2011. Kærðu umsækjendur þá ákvörðun til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en með úrskurði uppkveðnum 15. janúar 2015, í máli nr. 48/2011, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála synjunina úr gildi þar sem undirbúningi og rökstuðningi hennar þótti svo áfátt að leiða ætti til ógildingar. Hinn 26. nóvember 2015 synjaði byggingarfulltrúi að nýju umsókn eigenda Fífuhvamms 25 um leyfi fyrir 56,8 m2 viðbyggingu ofan á umræddan bílskúr, m.a. með vísan til grenndaráhrifa. Var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem hafnaði kröfu um ógildingu hennar með úrskurði uppkveðnum 1. desember 2017, í máli nr. 116/2015.

Með umsókn, dags. 7. október 2019, sóttu eigendur Fífuhvamms 25 um byggingarleyfi til að reisa 8,1 m2 gróðurhús ofan á bílgeymslu lóðarinnar. Á fundi skipulagsráðs 4. nóvember s.á. var samþykkt með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að grenndar­kynna umsóknina fyrir lóðarhöfum Fífuhvamms 23 og 27 og Víðihvamms 16, 18 og 20. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs 6. janúar 2020 var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Hinn 6. apríl s.á. var erindið tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs. Var lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar frá 2. s.m. ásamt uppfærðum teikningum. Samþykkti skipulags­ráð erindið og vísaði því til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi sínum 14. s.m. staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu skipulagsráðs. Kærendur kærðu ákvörðun skipulagsráðs til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála, sem með úrskurði uppkveðnum 8. maí 2020 vísaði kærumálinu, sem var nr. 31/2020, frá nefndinni þar sem ekki lægi fyrir lokaákvörðun, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 4. desember 2020 samþykkti byggingar­fulltrúi umsókn leyfishafa um byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25 og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að þeir hafi lagt umtalsvert fjármagn og vinnu í að koma svæði milli húsanna Fífuhvamms 25 og 27 í snyrtilegt horf, m.a. með matjurtagarði og gróðursetningu plantna. Þær framkvæmdir og frekari áform kærenda um að setja upp heitan pott og gróðurhús til að nýta lóð þeirra sem mest séu sett í uppnám með byggingu gróðurhúss og útsýnispalls ofan á bílskúr nágranna, sem að auki sé ekki í samræmi við götumynd. Feli framkvæmdin í sér útsýnispall ofan á bílskúr, sem sé alveg við lóðarmörk lóðar kærenda, og hafi það áhrif á friðhelgi einkalífs og heimilis kærenda. Fari útgáfa byggingarleyfisins því í bága við lögmæta hagsmuni kærenda og muni þeir verða fyrir tjóni af þeim sökum. Sérstaklega sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 116/2015 þar sem deilt hafi verið um sambærilega byggingu á sama stað. Í niðurstöðu nefndarinnar segi m.a. að umsótt viðbygging yrði á eða nærri mörkum lóðarinnar að Fífuhvammi 27 og að ljóst væri að af byggingunni yrðu grenndaráhrif. Vísað var til þess að viðbyggingin myndi valda auknu skugga­varpi á lóð kærenda. Sömu sjónarmið eigi hér við fullum fetum.

Leyfishafar hafi gert ítrekaðar tilraunir til að auka við byggingamagn á lóð þeirra við lóðamörk, en þeim áformuð hafi verið synjað af bæði skipulagsyfirvöldum í Kópavogi og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Á árinu 2008 hafi þó verið fallist á að veita byggingarleyfi fyrir bílskúr á lóð Fífuhvamms 25 en kærendur bendi á að bílskúrinn hafi verið notaður undir íbúð. Samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi Fífuhvamms 27 liggi bílskúr Fífuhvamms 25 alveg upp að lóðarmörkum lóðar kærenda og séu lóðamörk því ekki rétt á teikningu sem lögð hafi verið fram af hálfu leyfishafa, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 116/2015. Sé þannig umsögn skipulags- og byggingardeildar um að viðbyggingin muni ekki ná að mörkum lóðar kærenda, augljóslega röng.

Á teikningu leyfishafa sem hafi verið grenndarkynnt sé ekki merkt handrið ofan á bílskúr. Hins vegar sé gróðurhúsið teiknað þannig að útgengt sé frá því til bæði norðurs og suðurs. Úr þessu virðist reynt að bæta með síðari teikningum en kærendum sé ekki kunnugt um að þær teikningar hafi farið í grenndarkynningu. Sú útfærsla sé í algjöru trássi við gr. 6.5.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um handrið, en jafnframt vísist til gr. 6.5.4. í sömu reglugerð, þar sem komi fram að handrið veggsvala skuli vera minnst 1,1 m að hæð. Aukin hæð á vegg sem liggi að mörkum lóðar kærenda muni þrengja að fasteign þeirra, spilla útliti og auka skuggavarp. Í umsögn skipulags- og byggingardeildar segi að gert sé ráð fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi sem standa muni um 3 m frá mörkum lóðar kærenda. Nú þegar sé byrjað að byggja gróðurhúsið og sé það einungis 1,8 m frá lóðarmörkum. Útsýnispallur eigi samkvæmt teikningum að vera úr hömruðu gleri og liggja alveg að lóðamörkum. Því sé klárlega um hækkun á mannvirki á lóðamörkum að ræða þrátt fyrir að öðru sé haldið fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar. Þetta hafi m.a. áhrif á ræktunarsvæði kærenda. Að lokum sé bent á að í gr. 6.2.1. í byggingarreglugerð sé m.a. kveðið á um að staðsetning bygginga skuli vera þannig að sólar og skjóls njóti á sem heppilegastan hátt á leik- og dvalarstæðum.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hin kærða ákvörðun feli í sér byggingu 8,1 m2 gróðurhúss á þaki bílskúrs á lóðinni Fífuhvammi 25. Um sé að ræða töluverða breytingu frá fyrri tillögu, þ.e. 56,8 m2 steinsteypta viðbyggingu sem hefði fyllt út í þakflöt bílskúrsins. Óveruleg grenndaráhrif fylgi gróðurhúsinu hvað varði skuggavarp, nánd, innsýn og útsýni. Gróðurhúsið muni standa 3 m frá mörkum lóðar kærenda auk þess sem teikningum hafi verið breytt til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Sé nú gert ráð fyrir ógegnsæju gleri á þeim gafli gróðurhússins sem snúi að lóð kærenda. Jafnframt sé aðeins gert ráð fyrir útgengi frá gróðurhúsi út á svalir í norður til þess að lágmarka ónæði. Þá muni fyrirhugað handrið á svölum ekki takmarka útsýni frá lóð kærenda. Að lokinni breytingu verði nýtingar­hlutfall lóðarinnar 0,18, en það sé vel innan marka meðalnýtingarhlutfalls á svæðinu, sem sé 0,29. Loks sé að finna fordæmi fyrir byggingu gróðurhúss á þaki bílskúrs í götunni og falli breytingin því vel að götumynd.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að þegar bílskúr lóðar Fífuhvamms 25 hafi verið samþykktur hafi lóðamörk verið 40 cm austan við viðbygginguna, en síðar hafi Kópavogsbær breytt mörkunum án samþykkis leyfishafa. Gróðurhúsið hafi engin áhrif á hagsmuni kærenda, hvorki varðandi skuggavarp né vegna annarra óþæginda sem kærendur vísi til. Austurhlið gróðurhússins verði ógegnsæ og þar að auki sé enginn gluggi á vesturhlið húss kærenda. Hvað sem líði legu lóðamarka sé ekkert í gildandi rétt sem girði fyrir að byggt sé á lóðamörkum ef gætt sé þeirra reglna sem gildi um brunavanir. Ekki sé lengur kveðið á um lágmarksfjarlægð húsa frá lóðamörkum í byggingarreglugerð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogs um að veita byggingarleyfi fyrir 8,1 m2 gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25, en lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Í slíkum aðstæðum er heimilt skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir ef framkvæmd er í samræmi við landnotkun aðalskipulags, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá fara fram grenndarkynning.

Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er Fífuhvammur 25 á svæði íbúðarbyggðar, merktu ÍB-2 Digranes. Kemur fram í aðalskipulaginu að þar sé nokkuð fastmótuð byggð en um sé að ræða þéttustu byggð Kópavogs með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Fer hið kærða leyfi því ekki í bága við landnotkun aðalskipulags. Þá verður ekki séð að 8,1 m2 gróðurhús á þaki bílskúrs fari í bága við byggðamynstur eða þéttleika byggðar. Eykst enda nýtingarhlutfall óverulega og við sömu götu er að finna gróðurhús, auk þess sem ámóta glerhýsi er að finna ofan á bílskúrum að Fífuhvammi 21 og að Fífuhvammi 31. Voru því uppfyllt skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga til að grenndarkynna hina umþrættu umsókn. Var það og gert með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti, sbr. 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Við þá kynningu komu kærendur að athugasemdum sínum og vegna þeirra lögðu leyfishafar fram uppfærða teikningu. Fólu breytingarnar í sér að ekki yrði lengur gert ráð fyrir að gengið yrði út á þak bílskúrsins frá gróðurhúsinu sunnan megin heldur einungis til norðurs, auk þess sem austurhlið gróðurhússins yrði úr ógegnsæju gleri til að takmarka innsýn yfir vestanverða lóð kærenda. Þá var gert ráð fyrir handriði úr hömruðu gleri á þakfleti bílskúrsins sem myndi afmarka svalaflöt á bílskúrsþakinu norðan megin. Kærendum voru kynntar uppfærðar teikningar í samræmi við gr. 5.9.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 og komu að athugasemdum, sem m.a. lutu að stærð fyrirhugaðra svala, yfirsýn yfir garð þeirra og að birtuskilyrði myndu versna með tilkomu svalahandriðs. Í kjölfarið tók skipulagsráð umsóknina til umfjöllunar þar sem afstaða var tekin til framkominna athugasemda og uppfærðra teikninga.

Gróðurhús það sem um ræðir er úr gleri, það er lægra en íbúðarhús leyfishafa, ekki mikið að umfangi og nær einungis yfir lítinn hluta þakflatar bílskúrsins, sem er 56,8 m2. Þá var dregið úr grenndaráhrifum gagnvart lóð kærenda með áðurnefndum breytingum á teikningum. Þrátt fyrir að nýting þakflatar bílskúrs undir svalir sé óhefðbundin og til þess fallin að hafa áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna yfirsýnar yfir á næstu lóð, mun sú innsýn ekki aukast svo nokkru nemi yfir suður- og vesturhluta lóðar kærenda, þegar litið er til staðsetningar þess glugga sem áður var á austurhlið húss leyfishafa, þar sem nú er gengið inn í gróðurhúsið. Hins vegar verður aukin yfirsýn yfir bakgarð kærenda, sem vísar til norðurs, en sá hluti garðsins er minni. Úr þeim áhrifum er þó dregið með svalahandriði úr ógegnsæju gleri. Almennt má búast við að eitthvert ónæði hljótist af því að búa í þéttbýli og að mati úrskurðarnefndarinnar er sú skerðing á friðhelgi einkalífs kærenda sem þeir hafa haldið fram ekki umfram það sem búast má við í þéttri byggð. Skuggavarp eykst ekki að marki vegna handriðsins, enda verður það úr hömruðu gleri sem hleypir birtu í gegn. Er því ekki hægt að líta svo á að grenndaráhrif vegna þess séu þau sömu og ef um steyptan vegg væri að ræða.

Að framangreindu virtu geta grenndaráhrif vegna þeirra framkvæmda sem heimilaðar eru með hinu kærða leyfi ekki talist slík að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli mega búast við. Þá liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á ákvörðuninni að ógildingu varði og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 4. desember 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir gróðurhúsi á þaki bílskúrs að Fífuhvammi 25.

13/2020 Bústaðavegur

Með

Árið 2020, þriðjudaginn 14. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2020, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 7. febrúar 2020  um að veita framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðavegar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur hússins við Birkihlíð 36, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur frá 29. janúar 2020 að veita framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðavegar. Gera kærendur aðallega þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, hljóðmön verði færð til fyrra horfs, en hækkuð umtalsvert, auk þess að bættur verði með gróðursetningu sá gróður sem hafi verið skemmdur eða fjarlægður. Til vara gera kærendur þá kröfu að rými fyrir afrein verði skapað með því að hliðra stofnæðinni til norðurs og hljóðvarnir endurbættar í heild sinni frá Suðurhlíð að Kringlumýrarbraut. Til þrautavara fara kærendur fram á að ráðist verði í nánar tilgreindar mótvægisaðgerðir auk annarra þeirra aðgerða sem eðlilegar kunni að þykja miðað við umferðarálag á þessum stað og nálægð við byggð.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar 16. ágúst 2019 var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi samþykkt. Í leyfinu var heimiluð gerð afreinar, u.þ.b. 200 m á lengd og 3,5 m breið, á Bústaðavegi í akstursstefnu til austurs og breikkun fráreinar til suðurs á Kringlumýrarbraut ásamt breytingu á akstursleið inn á hana frá norðurakbraut Bústaðavegar og uppsetning nýrra umferðarljósa. Samkvæmt uppdráttum verða hljóðmanir, sem fyrir eru á svæðinu á u.þ.b. 60 m kafla, færðar til og hækkaðar lítillega. Framkvæmdaleyfið var gefið út 22. s.m.. Framangreint framkvæmdaleyfi var kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem felldi leyfið úr gildi með úrskurði 22. október 2019 í máli nr. 101/2019, þar sem láðst hafði að grenndarkynna hinar umdeildu framkvæmdir.

Í kjölfar úrskurðarins var gerð hljóðvistarskýrsla fyrir svæðið, dags. 24. október 2019, og hljóðkort eftir breytingar, dags. 25. s.m. Samkvæmt ákvörðun skipulagsfulltrúa var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi grenndarkynnt frá 4. nóvember 2019 til og með 2. desember s.á. og bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Kynningarfundur um framkvæmdina var haldinn með íbúum 27. nóvember 2019 og gerð var skýrsla um umferðarhermun og greiningu, dags. 30. s.m. Skipulagsfulltrúi veitti umsögn um málið 10. janúar 2020. Skipulags- og samgönguráð samþykkti umsögn skipulagsfulltrúa 29. s.m., en í henni var farið yfir athuga­semdir sem borist höfðu við grenndarkynningu og þeim svarað. Skipulagsfulltrúi samþykkti að gefa út framkvæmdaleyfi 7. febrúar 2020 og var leyfið gefið út 10. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 101/2019 um lögvarða hagsmuni. Verði framkvæmdin leyfð verði einn umferðarþyngsti stofnvegur höfuðborgarsvæðisins breikkaður verulega og færður fjórum metrum nær húsi kærenda, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á umhverfisþætti og líklegum verulegum neikvæðum áhrifum á verðmæti fasteignarinnar.

Aðrir möguleikar, sem ekki væru jafn íþyngjandi fyrir hagsmuni íbúa, hafi ekki verið skoðaðir. Umhverfisþættir málsins hafi heldur ekki verið metnir eða skoðaðir á fullnægjandi hátt eða að öðru leyti hlustað eða tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram hafi komið í tengslum við grenndarkynningu málsins. Markmið framkvæmdarinnar hafi verið að finna sem ódýrastan kost við að auka umferðar­rýmd og -flæði án þess að líta til lögvarinna hagsmuna fasteignaeigenda. Ekki hafi verið athugað með aðra möguleika á legu stofnvegarins sem væru minna íþyngjandi gagnvart hagsmunum íbúa. Gagnaöflun, greiningar og rökstuðningur á umhverfisþáttum sem varði nálægð við stofnæðina og áhættuna af færslu hennar nær íbúðabyggð virðist ófull­nægjandi í veigamiklum atriðum. Ekki hafi verið hugað að mögulegum mótvægisaðgerðum og skilyrðum fyrir framkvæmdinni í ljósi þess hversu íþyngjandi og umfangsmikla breytingu sé um að ræða. Þá sé málsmeðferðin gölluð vegna vanhæfis, þar sem sömu aðilar og áður hafi verið uppvísir af því að fara ekki að skipulagslögum, hafi síðar stýrt grenndarkynningu, úrvinnslu framkominna athugasemda og hafi að lokum aftur veitt framkvæmdaleyfi fyrir óbreyttri framkvæmd þar sem ekkert marktækt tillit hafi verið tekið til sjónarmiða íbúa. Í bókunum kjörinna fulltrúa, þ.m.t. meirihluta, virðist ekki vafi í þeirra huga að framkvæmdin hafi íþyngjandi áhrif á hagsmuni íbúa og vísað sé til þess að nóg sé komið, en framkvæmdaleyfi hafi samt sem áður verið veitt.

Kantsteinum hafi ekki verið viðhaldið þannig að jarðvegur af umferðareyju og meðfram stofnveginum fari inn á götuna og bætist við malbik og ryk sem þar verði til. Engar sérstakar ráðstafanir hafi verið gerðar til að hreinsa og rykbinda Bústaðaveg á þessu svæði eða á annan hátt reynt að draga úr neikvæðum áhrifum aukinnar umferðar.

Í rökstuðningi fulltrúa Reykjavíkurborgar sé ítrekað vísað til þess að hljóðvist batni jafnvel lítillega við framkvæmdina. Af málatilbúnaðinum megi glögglega sjá að ef að hljóðvistin breytist þá hafi það ekkert með framkvæmdina að gera heldur því að viðhaldi, sem ætti að vera eðlilegur þáttur í rekstri vegarins, væri þá loks sinnt og hljóðmönin hækkuð í upphaflega hæð. Í greinargerð tilgreindrar verkfræðistofu, dags. 17. janúar 2020, komi fram að Evrópureglur geri ráð fyrir að hljóðvist sé mæld í fjögurra metra hæð við húsvegg. Kærendur hafi bent á í umsögn við grenndarkynningu að hljóðútreikningar í tveggja metra hæð séu marklausir sé það raunverulegur vilji að meta áhrif hljóðmengunar á íbúðabyggð á svæðinu. Öll hús sunnan Bústaðavegs séu á tveimur til þremur hæðum. Því sé mótmælt að miðað sé við lægsta mögulega samnefnara. Þá sé því mótmælt að miðað sé við reiknaða hljóðvist en ekki mælda og að grunnforsenda útreikninganna miðist einungis við jarðhæðir eignanna. Það sé viðurkennt og komi fram í gögnum málsins að hljóðmönin verndi aðeins neðri hæðir húsanna en fulltrúar Reykjavíkurborgar skýli sér að baki ákvæðum í reglugerð um hljóðvist í tveggja metra hæð í stað þess að setja eðlilegri og nútímalegri viðmið sem raunverulega taki til þeirra hagsmuna sem um ræði. Mikilvægt sé að úr því verði skorið hvort vegi þyngra, efni máls að þessu leyti og Evrópuréttur eða skjólið sem sótt sé í augljóslega úrelta reglugerð.

Ámælisvert sé að heimila framkvæmdina en vísa á sama tíma til þess að íbúar geti óskað eftir aðstoð heilbrigðiseftirlitsins til hljóðmælinga eftir að framkvæmdinni ljúki. Kærendur velti fyrir sér hvort það sé eðlilegt að framkvæma fyrst og mæla svo. Þá sé óeðlilegt að leggja ábyrgð á íbúa fremur en á þá sem hafa skipulags- og framkvæmdavald á hendi sér.

Það sé ekki boðlegt að engin tilraun hafi verið gerð til að meta rykmengun frá Bústaðavegi á þessu svæði, án tillits til þess hvort stofnæðin sé breikkuð eða ekki. Það sé síðan vítavert að leggja til breikkun án þess að reyna að meta þennan umhverfisþátt. Í andsvörum við ábendingum um þetta efni sé einungis vísað til þess að erfitt sé að meta þennan þátt. Í þessu sambandi vilji kærendur benda á bókun í skipulags- og samgönguráði, dags. 15. janúar 2020. Svarið við fyrirspurninni gefi til kynna að stjórnendur Reykjavíkurborgar hafi vanrækt að kynna sér og hafa stefnu í mótvægisaðgerðum við rykmengun á umferðarþungum vegum í borginni. Ef stefnan væri skýr og mótvægisaðgerðir og viðmið um þrif og rykbindingu til staðar hefði ekki þurft að vísa málinu til frekari skoðunar. Svifryksmengun hafi ítrekað farið yfir heilsuverndarmörk á mælistöðum í borginni undanfarin ár og ógni heilsu fólks. Þetta sé sérstaklega dregið fram þar sem hús kærenda sé nú í 28 metra fjarlægð frá stofnæð sem vanrækt sé að hreinsa og rykbinda og einungis í 24 metra fjarlægð verði stofnæðin breikkuð. Auk þess hafi gróður sem áður hafi tekið við hluta af rykinu nú verið felldur.

Í umsögn skipulags- og umhverfissviðs frá 10. janúar 2020 komi fram: „Ef ofangreind framkvæmd veldur því að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón farið fram á að fá bætur skv. 51. gr. skipulagslaga með þeim skilyrðum sem taldar eru upp í þeirri grein.“ Þegar öll fylgigögn málsins séu skoðuð virðist sem fulltrúar borgarinnar átti sig á að hagsmunir íbúa séu fyrir borð bornir. Samt sem áður sé haldið áfram og framkomnum athugasemdum svarað með leið­beiningum um hvernig íbúar geti mögulega sótt rétt sinn með ósk til heilbrigðiseftirlitsins um hávaðamælingar, með ósk til borgarinnar um gróðursetningu og með atbeina dómstóla. Eðlilegra sé að þeim sem veiti framkvæmdaleyfi beri að sýna fram á að farið sé fram af varfærni og nærgætni, fremur en að það sé íbúa að sanna vankanta á framkvæmdinni og tjón. Allt málið sé keyrt áfram á forsendum umferðarflæðis og hvergi í greiningu á breikkunarkostum sé horft til umhverfisþátta og íbúðabyggðar.

—–

Kærendur vísa jafnframt til umsagnar sinnar sem gerð var í tilefni grenndarkynningar hins kærða framkvæmdaleyfis. Ekki er tilefni til að rekja þær athugasemdir sem fram koma þar nánar en þær hafa verið hafðar í huga við gerð úrskurðarins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að íbúar í þéttbýli geti ávallt vænst þess að endurbætur séu gerðar á götum og vegum til að bæta umferð og öryggi almennings. Með umræddri framkvæmd sé verið að auka umferðarrýmd og flæði fyrir almenning. Í því felist minni umferðartafir sem varði hagsmuni íbúa á svæðinu, sem og allra vegfarenda þar sem hægagangur og hraðabreytingar bifreiða auki útblástur og lengi ferðatíma.

Framkvæmdasvæði takmarkist af brú við Kringlumýrarbraut, undirgöngum undir rampa og undirgöngum við Veðurstofu vestan svæðisins. Ef hliðra ætti Bústaðavegi væri það umtalsvert stærri framkvæmd sem þó myndi ekki skila mikið betri niðurstöðum varðandi mengun eða hávaða. Slík framkvæmd sé að auki ekki í samgönguáætlun.

Ekki sé reiknað með aukningu umferðar á svæðinu. Flæði umferðar hafi verið greint og það ætti að verða jafnara með minni umferðartöfum og þar af leiðandi ætti mengun jafnvel að minnka. Niðurstöður úr umferðarhermun varðandi svifryk og loftmengun bendi til þessa og framkvæmdin og tengdar framkvæmdir á Bústaðavegi muni minnka heildartafir umferðar á Bústaðavegi um 47%, flæði umferðar muni verða betra og því megi reikna með að útblástur frá ökutækjum muni minnka. Loftmengun sé erfitt að mæla þar sem margt spili inn í samanburð mælinga, t.d. veðurfar, nagladekk o.fl., þannig að útreikningar á umferðartöfum og umferðar­flæði gefa bestu vísbendingu um breytt áhrif framkvæmdarinnar á loftgæði.

Varðandi mótvægisaðgerðir þá verði mön hækkuð þar sem þurfi til að ná 2 m hæð. Þannig haldist hljóðstig óbreytt eða betra í þeim húsum, bæði á 1. og 2. hæð, sem útsett séu fyrir hávaða frá Bústaðavegi. Framkvæmdaleyfisumsókninni hafi fylgt teikningar frá verkfræðistofu, dags. 10. júlí 2019, unnar fyrir Vegagerðina, sem sýnt hafi þversnið götunnar eins og það breyttist með framkvæmd. Í þeim gögnum hafi landhæð hljóðmana alls staðar hækkað lítillega, eða a.m.k. ekki lækkað, og með það í huga að umferðarmagn götunnar myndi ekki aukast þá hafi ekki verið talin ástæða til að óttast aukið hljóðstig götunnar umfram núverandi hljóðstig. Í minnisblaði verkfræðistofunnar, dags. 19. desember 2019, komi fram í útreikningum á hljóð­stigi að hæsta hljóðstig m.v. gefnar forsendur séu tæplega 52 dB, sem sé um 3 dB lægra en gerð sé krafa um í reglugerð um hávaða. Því þurfi ekki að auka hljóðvarnir á svæðinu. Samkvæmt uppdráttum verði manir hækkaðar lítillega og séu hvergi lægri en þær hafi verið. Þessi aðgerð ein og sér eigi að skila því að hljóðvist verði ekki verri, heldur betri ef eitthvað sé þrátt fyrir að umferð færist einni akrein nær. Mönin verði brattari fyrir vikið og því nær sem umferðin sé möninni því meira taki hún af hljóðinu sem ella myndi berast yfir hana. Ekki sé heldur verið að auka umferð við götuna þótt fráreinin breikki.

Því sé enn fremur hafnað að þeir aðilar sem hafi komið að ákvarðanatöku hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins, enda sú krafa kærenda bæði óskýr og órökstudd með öllu og ekki ljóst við hvaða aðila málsins nákvæmlega sé átt við. Hafi kærendur ekki sýnt fram á með hvaða hætti vanhæfisreglur stjórnsýslulaga og sveitarstjórnarlaga hafi verið brotnar í málinu. Verði ekki heldur séð að þeir kjörnu fulltrúar sem komið hafi að ákvörðunartöku í málinu hafi átt neinna hagsmuna að gæta af ákvarðanatökunni.

Kröfur kærenda verði ekki skildar öðruvísi en svo að kærendur fari fram á að úrskurðarnefndin kveði á um skyldu kærða eða leyfishafa til tiltekinna aðgerða í úrskurði. Úrskurðarnefndin sé ekki bær til að kveða á um slíkar aðgerðir og beri því að vísa þeim kröfum frá nefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu Vegagerðarinnar er vísað til og tekið undir greinargerð Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða: Í samræmi við heimild 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hefur borgarstjórn framselt vald sitt til að veita framkvæmdaleyfi skv. 13. gr. laganna og falið skipulagsfulltrúa að afgreiða mál sem varða meðferð og útgáfu framkvæmdaleyfa, sbr. b-lið 2. gr. viðauka 2.3. við samþykkt nr. 1020/2019 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 59. gr. samþykktarinnar. Verður því að líta svo á sem hin kærða ákvörðun sé ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 7. febrúar 2020 um að samþykkja framkvæmdaleyfi. Í máli þessu er gerð krafa um að leyfið verði felld úr gildi. Auk þeirrar kröfu krefjast kærendur þess að hljóðmön verði hækkuð, ráðist verði í gróðursetningu, Bústaðavegiverði hliðrað til norðurs, hljóðvarnir verði endurbættar í heild sinni frá Suðurhlíð að Kringlumýrarbraut og að ráðist verði í tilteknar mótvægisaðgerðir. Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar einskorðast við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana sem undir hana eru bornar, en það fellur utan valdheimilda hennar að taka nýja ákvörðun eða að skylda sveitar­félög til tiltekinna aðgerða, líkt og kærendur hafa krafist. Verður samkvæmt framansögðu aðeins tekin afstaða til þess hvort að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 gilda ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um hæfi sveitarstjórnarmanna, nefndarfulltrúa og starfsmanna sveitarfélaga nema öðruvísi sé ákveðið í sveitarstjórnarlögum. Ljóst er að hvorki sérreglur 20. gr. sveitarstjórnarlaga né 1.-5. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga eiga við í máli þessu. Samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna er starfsmaður eða nefndarmaður vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti eru fyrir hendi þær aðstæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu. Í stjórnsýslurétti er meginreglan sú að starfsmaður verður ekki vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að hann hafi áður tekið stjórnvaldsákvörðun í málinu, sem síðar hefur verið felld úr gildi af æðra stjórnvaldi. Eitthvað annað og meira þarf að koma til, svo sem sérstök óvild í garð málsaðila. Ekkert hefur komið fram í máli þessu um að slík staða sé uppi. Verður því ekki fallist á að skipulagsfulltrúi eða aðrir sem komu að undirbúningi fyrra framkvæmdaleyfis sem fellt var úr gildi í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 101/2019 hafi verið vanhæfir til að taka þátt í afgreiðslu þess leyfis sem nú er kært.

Kærendur hafa bent á að í bókunum kjörinna fulltrúa sé vísað til þess að nóg sé komið af framkvæmdum sem þessum en framkvæmdaleyfi hafi engu að síður verið veitt. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. sveitarstjórnarlaga eiga þeir sem hafa rétt til að taka þátt í umræðum í sveitarstjórn rétt til að fá bókaðar í fundargerð stuttar athugasemdir um afstöðu til þeirra mála sem til umræðu eru. Sama regla á við um fundi nefnda sveitarfélags skv. lokamálslið 46. gr. laganna. Ljóst er að þótt um ýmis málefni sveitarfélaga geti verið skiptar skoðanir meðal þeirra sem að þeim koma þá ræður afl atkvæða úrslitum mála skv. 2. mgr. 17. gr., sbr. 46. gr. sveitarstjórnarlaga, og var umsókn Vegagerðarinnar um framkvæmdaleyfi samþykkt á þeim fundi sem kærendur vísa til. Breytir það ekki þeirri niðurstöðu hvað bókað var í aðdraganda þeirrar samþykktar. Þá var afgreiðsla skipulags- og samgönguráðs þáttur í undirbúningi endanlegrar ákvörðunar skipulags­fulltrúa um veitingu leyfisins.

Við veitingu framkvæmdaleyfis er leyfisveitandi bundinn af meðalhófsreglu stjórnsýslu­réttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, en þar segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmæltu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Þá er leyfisveitandi bundinn af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum reglum, sem og málsmeðferðarreglum skipulags­laga og reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, hefur leyfisveitandi svigrúm til að meta hvað heimilað verður með framkvæmdaleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. skipulagslaga skal í aðalskipulagi sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er fjallað um samgöngumannvirki á fjölmörgum stöðum, oft og tíðum með mótsagnakenndum hætti. Þannig segir t.a.m. í kaflanum Umhverfis- og auðlindastefna að ein af helstu áherslum málaflokksins Skipulag sé að „[d]regið verði úr umfangi samgöngu­mannvirkja og helgunarsvæða þeirra.“ Þá segir í kaflanum Vistvænni samgöngur að „[h]orfið [sé] frá hefðbundnum viðhorfum um að skilvirkni bílsamgangna verði fyrst og fremst bætt með aukinni umferðarrýmd í gatnakerfinu.“ Í sama kafla segir hins vegar einnig að „[m]arkmiðið [sé] að stuðla að eins skilvirkum og öruggum samgöngum og kostur [sé] án umfangsmikilla gatnaframkvæmda.“ Sambærileg ummæli og þau sem vísað er til í kaflanum Vistvænni samgöngur er að finna í kaflanum Aðalgatnakerfi. Segir enn fremur í kaflanum Vistvænni samgöngur að „[v]ið almenna ákvarðanatöku, hönnun samgöngumannvirkja, gerð fram­kvæmda­áætlana og hverfis- og deiliskipulags verði þessi stefnumið höfð að leiðarljósi: […] Beitt verði fjölbreyttum lausnum við stýringu samgöngukerfa og umferðarálags til að greiða úr umferðartöfum og nýta til fullnustu afkastagetu núverandi mannvirkja.“ Þá kemur fram í kaflanum Aðalgatnakerfi: „Fjölbreyttum lausnum verði beitt til bæta [sic] umferðarflæði í aðalgatnakerfinu (miðlun rauntímaupplýsinga um umferðarástand og bílastæði, ljósastýring, beygjubönn, nýjar beygjureinar, markviss bílastæðastefna o.s.frv. – e. transportation system management.“

Athugun á þeim gögnum sem lögð voru til grundvallar hins kærða framkvæmdaleyfis sýnir að framkvæmdirnar stefna fremur að því markmiði að bæta umferðarflæði, m.a. með ljósastýringu og nýjum beygjureinum, en að draga úr umfangi samgöngumannvirkja. Er sérstaklega vikið að því í aðalskipulagi að ljósastýringu og nýjum beygjureinum verði beitt til að bæta umferðarflæði í aðalgatnakerfinu. Þegar litið er til framangreinds og þess að nefnd markmið aðalskipulags eru almennt orðuð verður að veita leyfisveitanda nokkuð svigrúm til að ákveða hvaða markmiðum skuli stefnt að hverju sinni. Verður því að telja að leyfisveitandi hafi stefnt að lögmætu mark­miði við útgáfu framkvæmdaleyfisins.

Við undirbúning framkvæmdaleyfisins var unnin ítarleg umferðarhermun og greining. Niður­staða greiningarinnar var að sú leið sem hentugast væri að fara til að ná markmiðinu um bætt umferðarflæði, með hliðsjón af kostnaði, væri að gera miðlungslanga aukaakrein frá Bústaða­vegi með frárein niður á Kringlumýrarbraut með ljósastýringu. Er það í samræmi við þá fram­kvæmd sem hið kærða framkvæmdaleyfi tekur til. Samkvæmt a-lið 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012 getur leyfisveitandi bundið framkvæmdaleyfi skilyrðum, m.a. um nauðsynlegar mótvægisaðgerðir. Í 5. mgr. sömu greinar kemur fram að í skilyrðum er varði vöktun fram­kvæmda þurfi að gera grein fyrir framfylgd vöktunarinnar sem og öðrum mótvægis­aðgerðum eins og umgengni á framkvæmdatíma. Hið kærða framkvæmdaleyfi er m.a. háð þeim skilyrðum að gæta skuli varúðar við framkvæmdina og virða allar reglur og leiðbeiningar um vinnu­tíma, merkingar, hávaða og rask við svæðið þannig að framkvæmdin valdi sem minnstu raski. Ekki sé heimilt að safna upp stórum haugum af efni til losunar, þannig að það geti valdið jarðvegsfoki eða annarri truflun fyrir lóðarhafa og notendur á svæðinu. Jafnframt sé farið fram á að gengið verði snyrtilega frá svæðinu að framkvæmdum loknum, sem og ef framkvæmdir stöðvist í langan tíma. Þá skuli Vegagerðin, í samvinnu við Reykjavíkurborg, hafa  samráð við íbúa og skrifstofu samgöngu­deildar á umhverfis- og skipulagssviði varðandi hljóðmælingar sem lagt sé til að verði gerðar á staðnum eftir lok framkvæmdar, auk þess að aðstoða íbúa við að gróðursetja í hljóðmanirnar, hjá þeim aðilum sem þess óski og þá í samvinnu við skrifstofu umhverfisgæða á umhverfis- og skipulagssviði. Samkvæmt framansögðu hefur leyfisveitandi reynt eins og kostur er að takmarka íþyngjandi áhrif hins kærða framkvæmdaleyfis, með hliðsjón af því markmiði sem stefnt var að með veitingu þess. Skilyrði leyfisins bera einnig með sér að tekið var mið af athugasemdum sem fram komu við grenndarkynningu þess. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða kemur fram að í viðauka, töflum I-III, séu tilgreind viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða frá umferð ökutækja, flugumferð og hvers konar atvinnustarfsemi. Þar sem dvalarsvæði á lóð sé skilgreint skuli þess jafnframt gætt að hljóðstig sé undir,  LAeq, 55 dB. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. sömu reglugerðar er kveðið á um að við hönnun samgöngumannvirkja skuli miðað við að hljóðstig verði undir mörkum í töflum I og II í viðauka reglugerðarinnar. Við breytingu á umferðaræð í byggð sem fyrir sé, sem leitt geti til aukins hávaða, skuli grípa til mótvægisaðgerða til þess að koma í veg fyrir að hljóðstig hækki. Í 3. mgr. viðauka nefndrar reglugerðar kemur fram að mörk utan við húsvegg gildi fyrir utan opnanlegan glugga. Viðmiðunarhæð þar sem annað sé ekki tekið fram sé 2 m. Í töflu I segir að mörk vegna umferðar ökutækja við íbúðarhúsnæði á íbúðarsvæðum, LAeq24, séu 55 dB(A). Samkvæmt samanburði á reiknuðum umferðarhávaða fyrir og eftir framkvæmdir var hljóðstig við 32 mismunandi íbúðarhús við framkvæmdasvæðið á bilinu 42,8–52,4 dB(A) fyrir framkvæmdir en 42,6–52,4 dB(A) eftir framkvæmdir. Útreikningar þessir voru gerðir í sam­ræmi við kröfur reglugerðar um hávaða. Samkvæmt útreikningunum munu fram­kvæmdirnar ásamt mótvægisaðgerðum fremur leiða til þess að hljóðvist verði óbreytt eða batni. Þá er eðli máls samkvæmt ekki mögulegt að mæla mun á umferðarhávaða fyrir og eftir framkvæmdir fyrr en að þeim afstöðnum. Verður því að telja að með útreikningum á umferðarhávaða hafi málið að því leyti verið nægjanlega upplýst áður en hið kærða framkvæmdaleyfi var samþykkt, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.

Loks er hvorki í reglugerð um framkvæmdaleyfi né öðrum lögum og reglum gerð krafa um að svifryk sé mælt fyrir og eftir framkvæmdir. Þó skal bent á að skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 920/2016 um brennisteins­díoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í and­rúmsloftinu, styrk ósons við yfirborð jarðar og um upplýsingar til almennings skal Umhverfis­stofnun sjá um að mælistöðvar sem veiti nauðsynlegar upplýsingar séu settar upp svo fara megi að ákvæðum reglugerðarinnar og skal stofnunin jafnframt sjá um framkvæmd vöktunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er hið kærða framkvæmdarleyfi ekki háð form- eða efnisannmörkum og verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Rétt þykir að benda á að leiði hin kærða framkvæmd til aukins hávaða eða loftmengunar geta kærendur snúið sér til heilbrigðiseftirlits til að það verði mælt og krafist úrbóta, t.a.m. í samræmi við reglugerð nr. 787/1999 um loftgæði eða reglugerð nr. 724/2008. Auk framangreinds geta kærendur eftir atvikum farið fram á bætur í samræmi við 51. gr. skipulagslaga.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 7. febrúar 2020 um að veita framkvæmdaleyfi til breikkunar og færslu Bústaðavegar.

89, 90 og 91/2019 Héðinsreitur

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir eignandi, Vesturgötu 69, Reykjavík, þá ákvörðun borgar­ráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, stað­greinireits 1.130.1. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. og 15. september 2019, sem bárust úrskurðarnefndinni 14. og 16. s.m., kæra eigandi, Vesturgötu 73, og húsfélagið  Vesturgötu 69-75, Reykjavík, fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem framangreind kærumál eru samofin og hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða þau kærumál, sem eru nr. 90 og 91/2019, sameinuð máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 28. nóvember 2019.

Málavextir: Hinn 8. febrúar 2007 var samþykkt deiliskipulag Héðinsreits. Deiliskipulagsvæðið er staðgreinireitur 1.130.1, sem markast af Mýrargötu, Ánanaustum, Vesturgötu og Seljavegi. Á reitnum eru tvær lóðir, Seljavegur 2 og Vesturgata 64. Helsta markmið deiliskipulagsins var „að stuðla að uppbyggingu og endurnýjun á reitnum í samræmi við forsendur og markmið Aðal­skipulags Reykjavíkur og rammaskipulags fyrir Mýragötu og slippasvæði“. Í skipulaginu fólst heimild til að fjarlægja allar núverandi byggingar á lóðum við Vesturgötu og Ánanaust og að byggingarmagn yrði 35.935 m². Var þar og gert ráð fyrir fimm til sjö hæða byggingum..

Hinn 9. janúar 2019 samþykkti skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu deiliskipulagi. Breytingartillagan tók til byggingarreita, byggðamynsturs, lóða­marka, hæða húsa og starfsemi á jarðhæðum. Felld var úr gildi byggingarheimild fyrir hjúkrunarrými og heimild bætt inn fyrir samsvarandi byggingar­magni undir íbúðir og heimiluð bygging hótels við Seljaveg samkvæmt uppdrætti, greinargerð og hönnunarhandbók, dags. 20. desember 2018. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 17. janúar 2019 og var hún kynnt á tímabilinu frá 28. s.m. til 8. mars s.á. Athugasemdir bárust á kynningar­tíma, þ. á m. frá kærendum. Tekin var afstaða til framkominna athugasemda í umsögn skipulags­­fulltrúa, dags. 10. maí 2019. Skipulags- og samgönguráð vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 15. maí 2019, sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 16. s.m.

Með erindi, dags. 28. maí 2019, sendu borgaryfirvöld Skipulagsstofnun deiliskipulags­breytinguna til lögboðinnar yfirferðar. Stofnunin tilkynnti með bréfi, dags. 13. júní 2019, að hún gæti ekki tekið endanlega afstöðu til efnis deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem skilmálar er vörðuðu hljóðvist þyrftu að taka mið af umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, skilmálar er vörðuðu bílageymslur þyrftu að taka mið af umsögn Vegagerðarinnar og sýna þyrfti lóða­mörk með skýrum hætti. Skipulagsfulltrúi tók afstöðu til athugasemda stofnunarinnar í umsögn, dags. 28. júní s.á. Skipulags- og samgönguráð samþykkti tillögur skipulagsfulltrúa um breytingar í umsögn hans frá 3. júlí s.á. og vísaði breyttri deiliskipulagstillögu til borgarráðs, sem samþykkti hana á fundi sínum 18. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu aug­lýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að ekki hafi verið tekið tillit til efnislegra athuga­semda þeirra, en svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum hafi ekki verið fullnægjandi og illa rökstudd. Fyrirhuguð áform séu yfirgengileg og sennilega þrisvar sinnum umfangsmeiri en eðlilegt geti talist. Verði þau að veruleika muni lífsgæði kærenda skerðast vegna aukinnar umferðar, útsýni muni minnka og mengun og slysahætta aukast. Jafnframt muni verðmæti eigna kærenda skerðast. Ólíðandi sé hvað byggingatíminn sé langur og óviðunandi að leggja slíkt á fólk og íbúðarbyggð.

Í athugasemdum húsfélagsins Vesturgötu 69-75 er áréttað að ekki sé auðvelt að átta sig á því hvað lagt sé til að byggingarmagn verði aukið miðað við gildandi deiliskipulag, en fram komi að um sé að ræða að á reitnum verði allt að 330 íbúðir og 220 hótelherbergi. Bent sé á að þegar sé heimilað of mikið byggingarmagn í gildandi deiliskipulagi. Þétting byggðar í hverfi 101 verði að taka mið af þeirri byggð sem fyrir sé. Bent sé á að stofnbrautir beri ekki aukna umferð en einungis tvær stofnbrautir séu út úr hverfinu, Hringbraut og Mýrargata. Grundvallaratriði sé að leysa umferðarmál áður en hugað sé að því að fjölga íbúum í hverfinu. Ónæði á byggingartíma verði mikið en fram komi að uppbygging á reitnum eigi að taka fimm ár og sé það vegna þess óheyrilega byggingarmagns sem lagt sé til. Útsýni hjá íbúum á Vesturgötu 69, 71 og 73 muni skerðast en ekki virðist tekið tillit til þess í núverandi byggingartillögum. Byggingar verði of háar og byrgi útsýnið gjörsamlega. Þótt ljóst sé að útsýni sé ekki lögvarinn réttur íbúðareigenda sé ekkert því til fyrirstöðu að reynt sé að koma í veg fyrir útsýnisskerðingu og verðfall þeirra eigna sem fyrir séu í stað þess að hunsa hagsmuni nærliggjandi byggðar. Endurskoða þurfi byggingar­áformin með tilliti til þessa.

Fyrir utan hagsmuni íbúa í grennd við Héðinsreit verði ekki séð að hugsað sé um heildar- og langtímahagsmuni í skipulagsbreytingunni. Íbúar, sem búi annars staðar og leið eigi um hverfið, verði fyrir áhrifum vegna aukinnar umferðar. Íbúar sem búi á svæðinu hafi kannski næmara auga en aðrir fyrir skipulagsslysum í uppsiglingu í þeirra nærumhverfi og því ekki óeðlilegt að þeir séu líklegri til að spyrna við fótum heldur en þeir sem búi fjær.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að fram komi í A-hluta Aðal­skipulags Reykjavíkur 2010-2030 bindandi stefna og markmið um landnotkun, byggingar­magn, þéttleika, yfirbragð byggðar og samgöngur, sbr. ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Í fyrsta stefnuatriði aðalskipulags, „Borgin við Sundin“, segi að þrjú svæði gegni lykilhlutverki í þróun Reykjavíkur á næstu áratugum, þ.e. Vatnsmýri, Elliðaárvogur og Miðborgin/Gamla höfnin. Á þessum svæðum sé gert ráð fyrir að rísi þétt blönduð byggð sem falli að markmiðum aðal­skipulagsins um sjálfbæra og hagkvæma borgarþróun, snúið verði við áratugalangri út­þenslu Reykjavíkur og vexti borgarinnar beint inn á við. Uppbygging á Héðinsreit sé hluti af framfylgd þessa stefnumiðs. Í aðalskipulagi sé reiturinn skilgreindur sem „þéttingasvæði nr. 5: Héðins­reitur“, þar sem heimilaðar séu 275 íbúðir með vikmörkum -10%/+20%, þ.e. hámarks­fjöldi íbúða 330 og hæðir húsa 5 til 7.

Landnotkun fyrir reitinn samkvæmt aðalskipulagi sé blönduð miðborgarbyggð – skrifstofur og þjónusta, merkt M1b, með það að markmiði að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi, sem falli að íbúðarbyggð. Sú landnotkun heimili fjölbreytta atvinnustarfsemi, þ. á m. gisti­starfsemi. Núgildandi deiliskipulag hafi tekið gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 28. febrúar 2007. Skilmálar þess hafi heimilað niðurrif hluta bygginga á svæðinu ásamt upp­byggingu blandaðrar byggðar. Tvær sviðsmyndir hafi verið heimilaðar varðandi upp­byggingu á reitnum. Annars vegar allt að 25.365 m² hámarksbyggingarmagn (A-rými) fyrir allt að 375 íbúðir og atvinnustarfsemi. Hins vegar allt að 35.935 m² hámarksbyggingarmagn (A-rými) ef byggðar væru þjónustu- og umönnunaríbúðir auk almennra íbúða. Byggingarheimildir í deili­skipulaginu frá árinu 2007 hafi verið gefnar upp sem A-rými, ofanjarðar. A merki lokað mannvirki eða lokað rými í opnu mannvirki, B merki lokað rými að ofan en opið á hliðum að hluta eða öllu leyti og C merki rými opið að ofan.

Samkvæmt tillögu að breyttu deiliskipulagi sé heimilað byggingarmagn ofanjarðar (A- og B-rými) 39.400 m² og hámarksfjöldi íbúða 330. Embætti skipulagsfulltrúa telji breytingu á byggingarmagni milli eldra skipulags og þess nýja vera óverulega, enda hafi verið tekið tillit til þess að byggingar­heimildir frá 2007 væru gefnar upp án B-rýma, líkt og gert hafi verið árið 2019. Sé það mat embættisins að B-byggingarmagn myndi auka byggingarmagn skipulagsins frá 2007 um 10%, sé tekið mið af sambærilegum þéttingarverkefnum í borginni, en m.t.t. þessa hefði byggingar­magn A- og B-rýma ofanjarðar samtals getað orðið um 39.500 m² ef byggt hefði verið samkvæmt heimildum eldra skipulags. Nýtingarhlutfall muni breytast óverulega. Í gildandi deiliskipulagi frá 2007 sé nýtingarhlutfall ofanjarðar á bilinu 2,45 til 3,68. Samkvæmt umdeildri deiliskipulagsbreytingu sé nýtingarhlutfall ofanjarðar á bilinu 2,71 til 3,25, en lægra nýtingar­hlutfall náist m.a. með stækkun lóðar til norðurs móts við Ánanaust, bættri nýtingu á landi þar sem áður hafi verið bílastæði og með því að styrkja borgarmiðað gatnakerfi, líkt og aðalskipulag kveði á um.

Nýtingarhlutfall sé í hærra lagi miðað við aðliggjandi lóðir en þó lægra en Mýrargötu 26 og sé það innan gildandi heimilda eldri skipulags. Með vísan til skipulagslegrar stöðu „lóðarinnar“ samkvæmt aðalskipulagi, samanburði á byggingarmagni eldra deiliskipulags og hins breytta deili­skipulags, sé ljóst að byggingarmagn, nýtingarhlutfall og fjöldi íbúða sé innan heimilda Aðal­skipulags Reykjavíkur 2010-2030 og eldra deiliskipulags frá 2007. Starfsemi gististaðar samrýmist ákvæðum aðalskipulags fyrir landnotkun M1b og sé ekki talin þörf á að setja slíkum rekstri skorður á lóðinni, til að stuðla að fjölbreyttri starfsemi á reitnum og til að dreifa gisti­starfsemi um borgina utan M1a. Tímalengd framkvæmda sé ekki talin umfram það sem framkvæmdir af þessum toga almennt taki. Tillagan geri ráð fyrir að fjöldi hæða verði frá fjórum upp í sjö, lóðréttu og láréttu uppbroti á byggingarmössum og nýjum göngutengingum gegnum reitinn, en sambærilegir skilmálar voru ekki í deili­skipulaginu frá 2007. Hæðir húsa séu innan heimilda aðalskipulags sem heimili allt að sjö hæðir.

Í gildandi aðalskipulagi sé stefnt að því að auka hlutdeild almenningssamgangna og gangandi og hjólandi umferðar innan borgarinnar. Upp­bygging í úthverfum myndi stuðla að frekari mengun í borginni. Hámarksfjöldi bílastæða á reitnum sé 318 stæði og sé sú tala niðurstaða af samgöngumati sem hafi verið unnið fyrir lóðarhafa og Reykjavíkurborg. Þar sé tekið tillit til markmiða aðalskipulags Reykjavíkur um breyttar ferðvenjur og samnýtingu stæða á milli atvinnu- og íbúðarhúsnæðis. Umferðaraukning vegna uppbyggingar á reitnum geti orðið um 650 fleiri bílferðir á dag um svæðið, sé tekið mið af tveimur bílferðum á dag og fjölda bílastæða í kjallara samkvæmt tillögu. Sérfræðiaðilar hafi rýnt umferðaflæði við Mýrargötu/Ánanaust með tilliti til nýrra gatnamóta við göturnar. Hafi rýnin leitt í ljós að núverandi þjónustustig við hringtorgin sé B til C á háannatíma eftir hádegi, sem skipulagsfulltrúi telji vera vel innan ásættanlegra marka. Þá hafi það jafnframt verið leitt í ljós að vegirnir þoli 30% meiri umferð áður en þjónustustig lækki á háannatíma en að breytt gatnamót með ljósastýringu myndu auka umferðarrýmd um 20% í samanburði við núverandi útfærslu með hringtorgum.

Óskert útsýni sé ekki bundið í lög. Eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á slíkum hagsmunum. Hið breytta deiliskipulag muni ekki valda skerðingu á útsýni umfram gildandi heimildir. Hvað varði áskilnað Húsfélagsins Vesturgötu 69-74 um skaðabætur skuli bent á 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem kveðið sé á um að valdi gildistaka skipulagsáætlana því að verðmæti fasteignar lækki, nýtingarmöguleikar hennar skerðist frá því sem áður hafi verið heimilt eða hún rýrni svo að hún nýtist ekki til sömu nota og áður, eigi sá sem sýnt geti fram á að hann verði fyrir tjóni af þessum sökum rétt á bótum úr sveitarsjóði eða ríkissjóði.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber ennfremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra, þ. á m. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þó svo að hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. ákvæðisins. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Héðinsreitur á svæði fyrir blandaða miðborgarbyggð, skrifstofur og þjónustu, merkt M1b. Í lýsingu aðalskipulags er tekið fram að markmiðið sé að efla fjölbreytta atvinnu- og þjónustustarfsemi á svæðinu, sem falli að íbúðar­byggð. Gert sé ráð fyrir stofnunum og skrifstofum og sérhæfðri þjónustu, þ.m.t. gisti­þjónustu. Íbúðir séu heimilar, einkum á efri hæðum húsnæðis. Á jarðhæðum húsa með götuhliðastýringu skuli verslunar- og þjónustustarfsemi opin almenningi vera í forgangi og almennar veitinga­heimildir mið­svæða gilda á svæðinu. Þar sé gert ráð fyrir byggingu 275 íbúða en vikmörk á fjölda íbúða geti verið -10%/+20%, sem geri að hámarki 330 íbúðir á reitnum. Vikmörk séu þó ekki sjálfgefin og séu þau háð samþykki umhverfis- og skipulagsráðs, nú skipulags- og samgönguráðs, á hverjum tíma. Á svæðinu sé heimilt að byggja fimm til sjö hæða byggingar. Möguleg frávik frá þeirri heimild eru -1/+2 hæðir, einkum inndregnar hæðir, séu slík frávik rökstudd sérstaklega. Þó er tekið fram að frávik í miðborginni innan gömlu Hringbrautar, sbr. mynd 9 í kafla aðalskipulags „Borg fyrir fólk“, séu -1/+1 og þá aðeins ef um inndregna hæð er að ræða. Héðinsreitur fellur undir þróunarsvæði 1, merkt Þ1 í aðalskipulagi, en um svæðið er m.a. tiltekið að þar sé blönduð byggð á nokkrum reitum með­fram Mýrargötu. Gert sé ráð fyrir um 600 íbúðum í bland við atvinnu­húsnæði. Þá er reiturinn á skilgreindu þéttingarsvæði í aðal­skipulagi.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir byggingu 330 íbúða með hámarksbyggingarmagni 39.400 m². Með samþykki skipulags- og samgönguráðs fyrir umræddri deiliskipulagsbreytingu voru fullnýtt 20% vikmörk á fjölda íbúða til hækkunar í aðalskipulagi. Jafnframt er gert ráð fyrir að hús skuli vera fjögurra til sjö hæða og eru því vikmörk aðalskipulags til lækkunar húsa um eina hæð nýtt. Eðli máls samkvæmt á áskilnaður aðalskipulags um inndregna efstu hæð ekki við um frávik til lækkunar húsa um eina hæð.

Á umræddum skipulagsreit er gert ráð fyrir blandaðri landnotkun íbúðar- og atvinnuhúsnæðis og í eldra deiliskipulagi var gert ráð fyrir umtalsverðum byggingarheimildum. Felur umdeild skipulagsbreyting í sér óverulega breytingu á byggingarmagni. Með hliðsjón af framangreindu fer hin kærða deiliskipulags­breyting ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulags­­stofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem borgaryfirvöld brugðust við og tóku afstöðu til. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. ágúst 2019. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­­­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Líkt og rakið er í málavaxtalýsingu var í eldra deiliskipulagi þegar gert ráð fyrir allt að sjö hæða byggingum á svæðinu. Felur hin kærða deiliskipulagsbreyting því ekki í sér breytingu á heimiluðum hámarksfjölda hæða húsa á reitnum og veldur hún því ekki skerðingu á útsýni umfram það sem búast mátti við að óbreyttu skipulagi. Þá verður ekki af fyrirliggjandi gögnum annað ráðið en að áhrif á umferð bifreiða verði óveruleg. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að umþrætt grenndaráhrif verði talin svo veruleg að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi c-liðar 1. gr. skipulagslaga. Þykir þó rétt að benda á að telji kærendur sig geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi eiga þeir eftir atvikum rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum dómstóla.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Héðinsreits, staðgreinireits 1.130.1.

81/2019 Laxabakki

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar um að hafna umsókn um byggingarleyfi á lóðinni Laxabakka 4 án nokkurs rökstuðnings.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:  

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar að hafna umsókn um byggingarleyfi á lóðinni Laxabakka 4 án nokkurs rökstuðnings. Skilja verður kæruna á þann veg að þar sé átt við ákvörðun sveitarstjórnar Árborgar frá 21. ágúst 2019. Gerir kærandi þá kröfu að skipulags- og byggingarnefnd Árborgar samþykki umsókn hans um byggingarleyfi samkvæmt útgefnum og samþykktum teikningum fyrir Laxabakka 4.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 18. september 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka og fylgdu teikningar að tveggja hæða einbýlishúsi sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 19. júní 2006. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5. Var það og gert og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingar­leyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017, þar sem umsókn kæranda var hafnað. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Synjun þessi var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fékk málið númerið 112/2017. Því kærumáli var vísað frá úrskurðarnefndinni 28. nóvember 2018, þar sem byggingarfulltrúi hafði ekki fjallað um erindi kæranda og ekki lá því fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagði úrskurðarnefndin fyrir byggingarfulltrúa að taka umsókn kæranda um byggingar­leyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóðinni nr. 4 við Laxabakka til efnis­legrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar.

Í kjölfarið sendi kærandi inn nýja umsókn um endurnýjun byggingarleyfis í byrjun desember 2018. Lögmaður kæranda ítrekaði erindið með bréfi, dags. 8. mars 2019, þar sem farið var fram á útgáfu byggingarleyfis. Við athugun málsins hjá sveitarfélaginu kom í ljós að deiliskipulag Fosslands hefði aldrei birst í B-deild Stjórnartíðinda og því ekki tekið gildi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. maí 2019 var því ákveðið að grenndarkynna erindi kæranda að nýju fyrir sömu aðilum og áður. Grenndarkynningin var send út 24. s.m. og bárust athugasemdir á kynningartíma frá öllum þeim er grenndarkynnt var fyrir. Lutu athuga­semdir þeirra að því að bygging á tveimur hæðum hefði í för með sér mikil grenndaráhrif, hún myndi ekki falla inn í hverfið og að við samþykkt deiliskipulag hefði verið gert ráð fyrir að réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu myndi falla niður að þremur árum liðnum. Mætti því eingöngu byggja einnar hæðar hús. Að grenndarkynningu lokinni tók skipulags- og byggingar­nefnd erindið fyrir á fundi hinn 26. júní s.á. Á fundinum var bókað að lagt yrði til við bæjar­stjórn að tillögunni yrði hafnað. Á fundi bæjarráðs 4. júlí s.á. var tillögunni hafnað í samræmi við tillögu skipulags- og byggingarnefndar. Með bréfi, dags. 22. s.m., var kæranda tilkynnt að skipulags- og byggingarnefnd hefði lagt til við bæjarstjórn að tillögunni yrði hafnað. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með bréfi, dags. 14. ágúst s.á. Fundargerð bæjarráðs frá 4. júlí s.á var staðfest á fundi bæjarstjórnar 21. ágúst 2019 og barst kæra í máli þessu 22. s.m., svo sem áður greinir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. desember 2019 var erindi kæranda hafnað og var honum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 5. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að enginn rökstuðningur hafi fylgt höfnun á erindi hans. Byggingarfulltrúi Árborgar hafi þó tjáð kæranda að ástæða höfnunarinnar hafi verið sú að nágrannar vildu ekki tveggja hæða hús á lóðinni. Kærandi hafi haft réttmætar ástæður til þess að ætla að hann fengi umsókn sína samþykkta í fyrsta skipti sem hún hafi verið lögð fram. Þannig séu til samþykktar teikningar af húsi á lóðinni og samtöl við embætti byggingarfulltrúa hafi ekki gefið annað til kynna en að umsóknin yrði samþykkt.

Deiliskipulag það sem vitnað sé til í svarbréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar í fyrra skiptið sem kærandi hafi kært höfnun sveitarfélagsins sé hvorki aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins né á vef Skipulagsstofnunar. Kærandi hafi því enga ástæðu haft til að ætla að umsókn hans um byggingarleyfi yrði hafnað.

Tveggja hæða hús megi finna á lóðunum nr. 15 og 16 við Hellubakka og á lóð nr. 1 við Lækjarbakka, en það séu þær tvær götur sem standi beggja vegna götunnar Laxabakka. Með því að hafna umsókn kæranda sé því verið að brjóta gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna þeirra húsa sem byggð hafi verið í hverfinu undanfarin fjögur ár, þrátt fyrir að sótt hafi verið um breytingar á teikningum í a.m.k. einhverjum tilfellum.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið tekin efnisleg ákvörðun af hálfu byggingar­fulltrúa um samþykkt eða höfnun byggingarleyfis á lóðinni Laxabakka 4, líkt og gert sé ráð fyrir í 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verði undir úrskurðarnefndina.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að hafnað verði kröfum kæranda um að samþykkt verði umsókn hans um byggingarleyfi. Í kjölfar fyrra kærumáls hafi komið í ljós að farist hefði fyrir að auglýsa deiliskipulag fyrir Fossland á sínum tíma og það því ekki tekið gildi. Hefði sveitarfélagið því talið nauðsynlegt að grenndarkynna að nýju umsókn kæranda um endurnýjun byggingarleyfis. Hafi það einnig verið í samræmi við 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem mæli fyrir um að grenndarkynning skuli fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndar­kynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. Þá hefðu orðið breytingar á eignarhaldi stórs hluta þeirra fasteigna sem fyrri grenndarkynning hefði tekið til. Mikil andstaða hefði komið fram í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Þau sjónarmið hefðu komið fram að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins þar sem á öllum aðliggjandi lóðum væru hús á einni hæð, auk þess sem af því yrðu mikil grenndaráhrif. Við ákvörðunartökuna hefðu legið málefnaleg sjónarmið til grundvallar, sem sveitarfélagið hefði talið leiða til þess að ekki væri unnt að veita umrætt byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar. Sveitarfélagið hafi ákveðið að láta uppfæra fyrirliggjandi deiliskipulag fyrir hverfið og muni það hljóta meðferð samkvæmt skipulagslögum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur af og frá að stjórnvöld komist upp með að fría sig ábyrgð vegna sömu mistaka tvisvar í röð og mótmælir frávísunarkröfu sveitarfélagsins. Kærandi hafi skilað inn byggingarstjóratryggingu að beiðni byggingarfulltrúa og sá hefði mætt á staðinn til að gera botnúttekt. Aukinheldur hefði byggingarfulltrúi beðið starfsmenn verkfræðistofu um að setja út fyrir púða á lóðinni og mæla hæðarpunkta. Slíkt hefði hann vart gert ef ekki hefði staðið til að gefa út byggingarleyfi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. ágúst 2019. Í kjölfar fyrirspurnar frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók byggingarfulltrúi sveitar­félagsins málið fyrir á afgreiðslufundi 3. desember s.á., enda er það byggingarfulltrúi sem tekur lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og nánar er lýst í fyrra máli aðila fyrir úrskurðarnefndinni nr. 112/2017. Ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin eftir að kæra barst í máli þessu. Er hún efnislega samhljóða hinni kærðu ákvörðun sveitarstjórnar og virðist tilefnið hafa verið fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um hvort byggingarfulltrúi ætti enn eftir að taka málið fyrir. Í ljósi þess að byggingarfulltrúi hefur nú tekið lokaákvörðun í málinu verður ekki fallist á frávísunarkröfu Sveitarfélagsins Árborgar, enda þykir ekki rétt að kærandi beri hallann af þeim vanköntum við meðferð málsins sem að framan er lýst. Því verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun sé í reynd synjun byggingar­fulltrúa frá 3. desember 2019 og að krafist sé ógildingar hennar, enda einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar, en það fellur utan þeirra valdheimilda að taka nýja ákvörðun, t.d. um veitingu byggingarleyfis, svo sem kærandi hefur krafist.

Deiliskipulag fyrir Fossland mun hafa verið samþykkt árið 2004 en ekki tekið gildi þar sem það var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda, svo sem áskilið er. Uppbygging svæðisins hefur að miklu leyti farið fram á grundvelli þess skipulags og liggja fyrir samþykktar teikningar, dags. 19. júní 2006, að tveggja hæða húsi á lóð Laxabakka 4. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu sótti kærandi um endurnýjun byggingarleyfis á grundvelli teikninganna rúmum 10 árum síðar og við meðferð umsóknarinnar kom í ljós að vegna framangreinds er Laxabakki 4 á ódeiliskipulögðu svæði.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir megi veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir leyfisumsókn fyrir þeim nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefur þeim kost á að tjá sig um hana. Grenndar­kynning fór fram í samræmi við greint lagaákvæði. Bárust athugasemdir á kynningartíma, en í þeim öllum var lagst gegn leyfisveitingu. Í athugasemdum kom m.a. fram að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins þar sem á aðliggjandi lóðum væru hús á einni hæð, byggingin væri til þess fallin að valda skuggavarpi á nágrannalóðum, óþægindi yrðu vegna útsýnis af efri hæð hússins yfir á verandir og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast og verðmæti nálægra húsa myndi skerðast.

Líkt og áður segir er eitt af skilyrðum þess að byggingarleyfi sé veitt, að undangenginni grenndarkynningu þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir, að framkvæmdin sé í samræmi við byggðamynstur. Í ljósi mikillar andstöðu nágranna við áformin og þess að öll önnur hús við Laxabakka eru einnar hæðar verður að telja málefnalegt af byggingarfulltrúa að hafna byggingar­leyfisumsókninni að svo stöddu. Þykir rétt að benda á í þessu samhengi að athugasemdir við grenndarkynningu væru til lítils ef byggingarfulltrúa væri óheimilt að taka mið af þeim við leyfisveitingu. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 5. desember 2019, voru efnislegar athugasemdir við umsóknina reifaðar. Vísaði byggingarfulltrúi þar til þess að í ljósi þeirra hefði ekki þótt tækt að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar og því verið tekin ákvörðun um höfnunina. Færði byggingarfulltrúi með þessu móti haldbær rök fyrir synjun sinni, en slíkum rökstuðningi átti kærandi ekki rétt á að stjórnsýslulögum fyrr en lokaákvörðun lá fyrir í málinu. Það hefði þó verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að svara fyrr beiðni kæranda um rökstuðning frá 14. ágúst 2019, enda á sá sem beinir skriflegu erindi til stjórnvalda jafnan rétt á að honum verði svarað skriflega svo fljótt sem auðið er, sbr. og 9. gr. stjórnsýslulaga. Loks verður ekki talið að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. þeirra laga, þar sem þau tveggja hæða hús sem kærandi hefur vísað til að finna megi í nágrenninu voru byggð á árunum 2004-2006. Auk þess geta þau ekki talist sambærileg við fyrirhugað hús kæranda, en hús þessi eru annars vegar staðsett innst í botngötu og hins vegar á horni botngötu og safngötu. Þá hefur það ekki þýðingu varðandi mál kæranda þótt sveitarfélagið hafi í villu um gildi deiliskipulags Fosslands látið hjá líða að grenndarkynna framkvæmdir vegna upp­byggingar í hverfinu, svo sem hefði borið að gera.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 3. desember 2019 um að hafna umsókn um endurnýjun byggingarleyfis fyrir Laxabakka 4.

124 og 128/2019 Elliðaárdalur norðan Stekkjarbakka

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 124/2019, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 11. desember 2019, kæra 14 eigendur fasteigna við Fremristekk, Hólastekk, Urðarstekk og Skriðu­stekk í Reykjavík þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 19. nóvember 2019 að sam­þykkja breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunar­svæði Þ73. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2019, er barst nefndinni 17. s.m., kæra tveir eigendur fasteignar við Fremristekk í Reykjavík sömu ákvörðun borgarstjórnar og krefjast ógildingar hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 128/2019, sameinað kærumáli þessu þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 15. janúar 2020.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember 2016 var lögð fram lýsing á deiliskipulagsbreytingu Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæði Þ73, og hún samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr., sbr. 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var ákvörðunin samþykkt á fundi borgarráðs 22. desember s.á. Að lokinni kynningu á lýsingu deiliskipulagsins var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. febrúar 2017. Voru umsagnir þeirra sem gerðu athugasemdir við lýsinguna á kynningartíma lagðar fram og málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Var málið síðan ítrekað tekið fyrir á fundum umhverfis- og skipulagsráðs og skipulags- og samgönguráðs frá 8. febrúar 2017 til 19. september 2018. Hinn 19. desember s.á. var á fundi skipulags- og samgönguráðs samþykkt að auglýsa deiliskipulagstillöguna skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og var sú afgreiðsla samþykkt á fundi borgarstjórnar 15. janúar 2019. Að lokinni auglýsingu var málið tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. apríl s.á og athugasemdir sem bárust á kynningartíma tillögunnar lagðar fram. Á fundi ráðsins 26. júní s.á. var tillagan lögð fram nýju og samþykkt með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa frá 4. s.m. um þær athugasemdir sem borist höfðu. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 4. júlí 2019.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 30. október 2019 var lagt fram bréf Skipulagsstofnunar, dags. 11. september s.á., þar sem gerð var athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda vegna tilgreindra atriða. Var einnig lögð fram og samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 27. september s.á., þar sem lagt var til að auglýst tillaga yrði samþykkt með breytingum og lagfærðum uppdráttum til samræmis við athuga­semdir Skipulagsstofnunar. Var sú samþykkt staðfest á fundi borgarráðs 7. nóvember s.á. og á fundi borgarstjórnar 19. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu í B-deild Stjórnar­tíðinda 25. nóvember 2019.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulagið sé ekki í samræmi við þá stefnu aðalskipulags varðandi þróunarsvæði Þ73 að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað og miðist við 1-2 hæðir. Ekki sé hægt að bera saman 9 m háar byggingar við hús sem séu 1-2 hæðir. Það orðalag deiliskipulagsins að hæðir mælist jafnaði frá botnplötu á aðkomu­hæð komi hvergi fram í aðalskipulagi. Fyrirhugaðar gróðurhvelfingar verði 4.500 m2 og hæð bygginga frá gólfi verði 20 m, en það geti ekki talist takmarkað. Mannvirkin verði heldur ekki í samræmi við aðalskipulag vegna ljósmengunar. Þá sé verslunar- og veitingarekstur að sama skapi ekki í samræmi við aðalskipulagið.

Hæð mannvirkjanna komi til með að byrgja fyrir útsýni kærenda til norðurs og muni það, ásamt ljósmengun, valda þeim fjárhagslegum skaða með tilliti til áhrifa á söluverðmæti fasteigna þeirra. Kærendur verði allir með mannvirkið í beinni sjónlínu frá sínum heimilum. Ljósmengunin muni hafa veruleg áhrif á rétt íbúa til að njóta útsýnis, ljósaskipta og skamm­degis. Fram komi í blaðaumfjöllun að gróðurhvelfingarnar muni líta út eins og ljóshnettir í landslaginu. Á það sé bent að áætluð fjarlægð frá lóðarmörkum fasteignar eins kærenda að lóð gróðurhvelfinganna séu tæpir 100 m. Mannvirkin komi til með að hafa aukna umferð í för með sér um Stekkjarbakka, sem sé einungis tveggja akreina stofnbraut, en kærendur fari þar mörgum sinnum á dag. Í blaðaviðtali hafi forsvarsmaður félags þess sem hyggist byggja hvelfingarnar sagst gera ráð fyrir 300.000-400.000 gestum á ári.

Loks sé vísað til þess að borgarfulltrúi hafi í blaðaviðtali upplýst að Garðheimar eigi að fá úthlutaða lóð nr. 1 á svæðinu undir starfsemi sína. Samkvæmt deiliskipulaginu sé ekki gert ráð fyrir neinum byggingum á lóð nr. 1. Sá formgalli varði ógildi deiliskipulagsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé gerð vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á þróunarsvæðinu í sam­ræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í skilmálum deiliskipulagsins séu settar takmarkanir á mögulegri starfsemi, uppbyggingu, útliti fasteigna og meðferð á meng­andi ofanvatni og efnum en með því sé verið að vernda grænt yfirbragð Elliðaárdals, sem og vatnasvið Elliðaáa. Fyrirhuguð starfsemi teljist til grænnar starfsemi með sjálfbærni að leiðarljósi og sem slík sé hún í samræmi við markmið aðalskipulags. Mikilvægt sé að hafa í huga að með því að skilgreina landsvæði sem þróunarsvæði þá sé fyrirhugað að fara í enduruppbyggingu án þess að taka endanlega afstöðu til þess í hvaða mynd hún eigi að vera.

Í aðalskipulaginu sé kveðið á um að hæð mögulegra bygginga á svæðinu miðist við 1-2 hæðir, en um viðmið sé að ræða og feli það ekki í sér endanlega afmörkun á fjölda hæða. Glöggt komi fram á skýringaruppdráttum að verulegur landhalli sé á svæðinu sem leiði til þess að sá hluti hússins sem verði ofan aðkomuhæðar mildist verulega þar sem bæði Stekkjarbakki og byggðin fyrir ofan liggi hærra í landi. Að því leyti sé eðlilegt að kveða á um hámarkshæð byggingar frá aðkomuhæð, enda verði ekki séð að nokkur áhrif verði af þeim hluta byggingarinnar sem grafa megi niður. Raunveruleg sjónræn áhrif verði minni en ætla megi jafnvel þótt byggingin verði 9 m á hæð mælt frá aðkomuhæð vegna fyrrgreinds landhalla. Af sniðmyndum megi ráða að byggingarnar muni valda óverulegum áhrifum á nærliggjandi byggð. Bent sé á að við vinnslu deiliskipulagstillögunnar hafi byggingarnar verið lækkaðar frá því sem fyrirhugað hafi verið auk þess sem byggingarreit hafi verið hnikað til suðurs, en markmiðið með þeim breytingum hafi verið að draga úr áhrifum bygginganna. Útsýni sé ekki lögverndaður réttur íbúa í borg og megi íbúar vænta þess að uppbygging og þróun byggðar kunni að skerða útsýni frá því sem áður hafi verið.

Sérstakar og ítarlegar skorður séu í skilmálum deiliskipulagsins varðandi ljósmagn, en með því sé tryggt að lýsingin valdi sem minnstum „lífeðlisfræðilegum og vistlegum vandamálum“ fyrir umhverfi og fólk. Rannsókn á núverandi ljósmengun á svæðinu hafi sýnt að ólíklegt sé að mengunin muni aukast við fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu. Í athugasemdum Skipulags­stofnunar við deiliskipulagstillöguna hafi verið talið að breyta þyrfti vísun til ÍST staðals og setja skilmála um mörk heimilaðs ljósmagns á svæðinu. Jafnframt hafi stofnunin talið að gera þyrfti viðbragðsáætlun ef ljósmagn reyndist vera meira en heimilað væri samkvæmt skil­málum skipulagsins. Vegna þeirra athugasemda hafi verið gerðar breytingar á tillögunni. Ljósmagn verði ekki meira en almennt megi vænta innan borgarmarka.

Hvað varði aukna umferð sé bent á að rekstraraðili á svæðinu fyrirhugi að nota „skutlur“ til að aka gestum til og frá svæðinu. Slíkt fyrirkomulag eigi að leiða til þess að umferðaraukning verði ekki veruleg. Þá séu engar heimildir til uppbyggingar á lóð nr. 1 á svæðinu og þyrfti að gera breytingu á deiliskipulaginu til að byggja mætti þar. Einnig sé bent á að skipulagslög nr. 123/2010 hafi að geyma lagalegt úrræði fyrir þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni við samþykkt deiliskipulagstillögu, sbr. 52. gr. laganna.

Athugasemdir Spors í sandinn ehf: Af hálfu félagsins er vísað til þess að það hafi beinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu nefndarinnar um kærumálin, en því hafi verið gefið vilyrði fyrir úthlutun lóðar nr. 3 á svæðinu Þ73 til byggingar gróðurhvelfinga. Þeir einir geti átt aðild að kærumáli fyrir úrskurðarnefndinni sem eigi lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þetta skilyrði hafi verið skýrt þannig að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Ekkert komi fram í kærunum sem styðji að kærendur eigi verulega og einstaklega hagsmuni umfram aðra af hinni kærðu ákvörðun. Kærendur eigi það sameiginlegt að vera eigendur fasteigna í svokölluðu Stekkjarhverfi í Reykjavík. Frá fasteignum kærenda og að næstu mörkum svæðis Þ73 séu á bilinu u.þ.b. 100 m til nokkra hundraða metra. Á milli fasteigna kærenda og svæðis Þ73 liggi mikil umferðargata sem um fari u.þ.b. 20.000 bifreiðar á degi hverjum. Hljóðvistarkort sýni að hávaði frá umferð til nærliggjandi byggðar í Stekkjum sé um 62 dB. Syðst á svæði Þ73, á milli Stekkjahverfis og skipulagðra byggingarreita, sé hár trjágróður sem að mestu sé hærri en byggingar sem þar eigi að rísa samkvæmt hinu umþrætta deiliskipulagi. Álitaefni um samræmi deiliskipulags við aðalskipulag skjóti engum stoðum undir lögvarða hagsmuni kærenda af úrlausn málsins. Kærendur eigi ekki fasteignir á deiliskipulagssvæðinu. Auk þess hafi þeir ekki getað haft lögmætar væntingar til þess að aldrei yrðu reistar byggingar á svæði Þ73 sem hefðu áhrif á útsýni þeirra til norðurs, að eingöngu yrðu reistar óupplýstar byggingar eða byggingar sem hefðu engin áhrif á umferð um Stekkjarbakka. Sjálfstæður réttur kærenda til kæruaðildar geti ekki risið fyrr en og ef til þess komi að veitt verði byggingarleyfi fyrir gróðurhvelfingunum. Kærendur geti ekki haft hagsmuni af því að fá fellt úr gildi deiliskipulag vegna óljósra og rangra hugmynda þeirra um áhrif fyrirhugaðra mannvirkja sem enn hafi ekki verið fullhönnuð eða fjármögnuð. Þá geti vangaveltur kærenda um mögulega úthlutun lóðar nr. 1 á svæðinu fyrir starfsemi Garðheima enga aðild veitt að málinu. Ekkert liggi fyrir um slíka úthlutun og komi til hennar þurfi til þess deiliskipulagsbreytingu.

Verði málinu ekki vísað frá telji leyfishafi að hafna beri kröfum kærenda. Deiliskipulagið gangi ekki gegn því orðalagi gildandi aðalskipulags að umfang mögulegra bygginga verði takmarkað með hliðsjón af stærð hinnar skipulögðu lóðar. Aðalskipulagið kveði ekki á um afgerandi hæðarviðmið. Ekki sé fjallað um frá hvaða hæðarpunkti mishæðótts landslagsins skuli miða við að byggingar megi vera 1-2 hæðir, hversu há í metrum hver hæð skuli teljast eða hvert þakform megi vera. Í deiliskipulagi séu teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfi að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmda­leyfis, sbr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist m.a. skv. b-lið gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi, ekki aðalskipulagi, skuli setja skilmála um stærð bygginga og hæðarfjölda ofan og neðan jarðar. Af hinum samþykkta deiliskipulags­uppdrætti megi sjá að skipulagið uppfylli allar kröfur sem til þess séu gerðar hvað varði tilgreiningu á hæð bygginga og hafi niðurgrafni hluti gróðurhvelfinganna að sjálfsögðu engin sjónræn áhrif. Ljósmengun á svæði Þ73 sé í dag töluverð og ólíklegt að hún aukist mikið með tilkomu fyrirhugaðra bygginga. Myrkramæling hafi verið framkvæmd og núverandi ástand svæðis Þ73 myndi flokkast sem slæm umhverfislýsing borgar og sé ljósmengunin á svæðinu yfir meðaltali ljósmengunar í Reykjavík. Skilmálar deiliskipulagsins tryggi að ljósmengun frá starfseminni verði innan marka samkvæmt staðli ÍST EN 12464-2:2007 um utanhússlýsingu og hönnunarleiðbeiningum ILE (The Institution of Lighting Engineers: Guidance notes for the reduction of obstructive light). Aðalskipulagið heimili starfsemi sem tengist „grænni starfsemi“ og fari fyrirhuguð starfsemi ekki í bága við það, en hún muni fela í sér aðgang að gróðurvin með plöntum frá heitari löndum í miðjarðarhafsloftslagi, að stórum hluta án kostnaðar fyrir gesti en að nokkrum hluta gegn endurgjaldi, auk þess að selja gestum veitingar.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í greinargerð borgaryfirvalda sé ekkert fjallað um byggingarmagnið sem fyrirhugað sé að byggja á lóðinni, en það byggingar­magn sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Sérstök ákvæði í skilmálum deiliskipulagsins um ljósmengun hafi enga þýðingu þar sem engar mælingar liggi fyrir sem réttlætt geti byggingu gróðurhvelfinganna á þessum stað. Þær myrkramælingar sem borgaryfirvöld vísi til hafi ekki verið birtar. Röksemd borgaryfirvalda um að skutlur eigi að leysa vanda sem fylgi umferðarþunga sé haldlaus á meðan rekstraraðili hafi það alfarið í hendi sér að framkvæma með þeim hætti.

Kærendur krefjist þess að athugasemdir Spors í sandinn ehf. verði ekki hluti af máli þessu þar sem félagið sé ekki aðili kærumálsins. Kærunum sé beint að Reykjavíkurborg en ekki félaginu og geti lóðarvilyrði borgaryfirvalda ekki gert það að aðila málsins, enda hafi það ekki lýst afdráttarlausum vilja til að nýta sér lóðina. Kærendur geri engar athugasemdir við fyrirætlanir félagsins en mótmæli harðlega fyrirætlunum borgaryfirvalda. Í ljósi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 beri nefndinni að gefa Garðyrkjufélagi Íslands sama tækifæri til að koma að athugasemdum. Aðalskipulagið kveði skýrt á um að umfang hverrar byggingar fyrir sig skuli vera takmarkað og sé því til lítils að reikna út hlutfall fyrirhugaðra bygginga á svæðinu miðað við svæðið í heild sinni. Félagið víki sér undan að fjalla um fyrirhugaðan verslunar- og veitingarekstur, en verði mannvirkið að veruleika verði um að ræða stærstu mathöll landsins.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun varðar breytingu á deiliskipulagi Elliðaárdals vegna svæðis norðan Stekkjarbakka, þróunarsvæðis Þ73. Felur breytingin m.a. í sér að skilgreina byggingar­lóð fyrir gróðurhvelfingar á vegum félagsins Spor í sandinn ehf. samkvæmt fyrirliggjandi lóðarvilyrði og snúa málsrök kærenda nær einvörðungu að þeirri breytingu skipulagsins. Með hliðsjón af þeim hagsmunum sem félagið hefur að gæta vegna hinnar kærðu ákvörðunar, sem og þeirri rannsóknarskyldu sem hvílir á úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, var félaginu gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kæranna.

Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir.

Við mat á því hvort kærendur eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinni kærðu deiliskipulags­breytingu verður að líta til þess að hús þeirra standa bæði ofar í landi og að lágmarki í tæplega 100 m fjarlægð frá þeim gróðurhvelfingum og öðrum mannvirkjum sem áætlað er að byggja. Skilur nokkur trjágróður svo og þung umferðargata með tilheyrandi götulýsingu á milli húsa kærenda og umrædds deiliskipulagssvæðis. Þau mannvirki sem deiliskipulagið heimilar að byggja munu þó verða í sjónlínu frá flestum húsum kærenda. Ekki verður séð að hagsmunir kærenda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda húsin í talsverðri fjarlægð frá skipulagssvæðinu. Þá verður ekki talið að grenndaráhrif vegna aukinnar umferðar verði teljandi með hliðsjón af þeirri umferð sem fyrir er. Þrátt fyrir að ásýnd þess landsvæðis þar sem fyrirhugað er að reisa upplýstar gróðurhvelfingarnar og aðrar byggingar muni breytast verður ekki talið, að virtum fyrrnefndum staðháttum, að grenndaráhrif útsýnisbreytinganna séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kærenda á þann veg að þeir eigi þá einstaklingsbundnu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun umfram aðra sem skapi þeim kæruaðild. Þar sem kærendur hafa ekki þeirra verulegu hagsmuna að gæta sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild, og aðrar þær ástæður liggja ekki fyrir sem leitt geta til hennar samkvæmt áðurnefndri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, verður kröfu þeirra um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

102 og 120/2019 Freyjubrunnur

Með

Árið 2020, föstudaginn 17. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2019, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2019, er barst nefndinni 29. s.m., kæra eigendur lóðarinnar Freyjubrunns 25-27 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunns 23. Er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með hliðsjón af því að sömu aðilar standa að báðum kærumálunum, auk þess sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, verður síðara kærumálið, sem er nr. 120/2019, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 30. október 2019 og 11. desember s.á.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur. Á fundi borgarráðs Reykjavíkur 18. janúar 2007 var staðfest afgreiðsla byggingarfulltrúa frá 16. s.m. um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja þriggja hæða fjölbýlishús ásamt geymslu- og bílageymslukjallara á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Takmarkað byggingarleyfi var gefið út 31. júlí s.á. og hófust framkvæmdir í kjölfar þess. Byggingarleyfið var síðan gefið út 24. september s.á. en framkvæmdir stöðvuðust á árinu 2008. Hið útgefna byggingarleyfi frá 2007 var svo endurútgefið 17. ágúst 2017 og hófust framkvæmdir á lóðinni um haustið. Skipulagsfulltrúi veitti hinn 29. s.m. umsögn um fyrirspurn varðandi breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Freyjubrunn þar sem m.a. kom fram að samþykktar teikningar væru ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Töluverð tölvupóstsamskipti áttu sér stað á milli kærenda og Reykjavíkurborgar næstu mánuði þar sem kærendur voru ítrekað upplýstir um að verið væri að vinna í málinu. Hinn 2. ágúst 2018 var kærendum tilkynnt að ekki yrði aðhafst frekar í málinu og að eigendur Freyjubrunns 23 hefðu í höndunum útgefið byggingarleyfi og framkvæmdu í samræmi við það. Var byggingarleyfið kært til úrskurðarnefndarinnar sem felldi það úr gildi með úrskurði í máli nr. 112/2018, kveðnum upp 29. ágúst 2019, þar sem leyfið væri ekki í samræmi við skilmála gildandi deiliskipulags um hámarkshæð húsa.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23. Í breytingunni fólst m.a. að fjölga íbúðum úr fimm í átta og auka byggingarmagn, auk þess sem kveðið var á um að svalir á norðurhlið hússins mættu ná 150 cm út fyrir byggingarreit. Þá var eftirfarandi tekið fram: „Hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga er 9,5 metrar frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar, ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 metrar. Ef þök eru flöt má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 89,0 m.y.s. en ef þök eru hallandi má hæsti þakkóti aldrei vera hærri en 90,5 m.y.s. Hæðarkótar miðast við hæðarkerfi Reykjavíkur.“ Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu 27. mars 2019 með athugasemdafresti til 8. maí s.á. Þá voru hagsmunaaðilar og nágrannar, þ. á m. kærendur, hvattir til að kynna sér breytingartillöguna með bréfi skipulagsfulltrúa, dags. 27. mars s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum. Deiliskipulagstillagan var lögð óbreytt fram að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 3. júlí s.á. ásamt umsögn skipulagsfulltrúa 28. júní s.á. Með vísan til nefndrar umsagnar var tillagan samþykkt og vísað til borgarráðs. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 18. júlí s.á. og tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2019.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. september 2019 var tekin fyrir umsókn leyfishafa til þess að byggja steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23. Erindinu fylgdi m.a. umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 20. september s.á. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og 30. október s.á. var byggingarleyfið gefið út.

Málsrök kærenda: Kærendur telja hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu hafa hlotið ranga málsmeðferð. Fara hefði átt með breytinguna eins og um nýtt deiliskipulag væri að ræða, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda verði með breytingunni vikið frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Í þessu samhengi sé vísað til þess að byggingarreitur standi mun framar en aðrir byggingarreitir í sömu götu, hæð sé önnur og meiri og eignin sjálf öll á skjön við götumynd, auk þess sem nýting aukist hlutfallslega mikið. Áhrif deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið metin út frá gildandi deiliskipulagi og grenndarhagsmunum, auk þess sem hagsmunaaðilum hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um áhrif breytingarinnar. Því hafi Reykjavíkurborg brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið telji að um minni háttar breytingu sé að ræða frá áður samþykktu deiliskipulagi en að mati kæranda sé það ekki í samræmi við lög. Hafi það og verið staðfest með úrskurði úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála.

Upplýsingar í kynningargögnum á tillögu að breyttu deiliskipulagi hafi ekki verið full­nægjandi. Ekki hafi verið dregin upp raunsönn mynd af áhrifum deiliskipulags­breytingunni. Notað hafi verið tæknimál til endurskilgreina hvernig vegghæð skuli reiknast án þess að nefna það berum orðum að um hækkun á húsinu væri að ræða. Upphaflegar takmarkanir á hæð húsa samkvæmt eldra skipulagi hafi tryggt betra jafnvægi á götumynd og stallaða byggð niður hlíðina, sem lágmarki skuggamyndun á húsin fyrir ofan. Í umsögn skipulagsfulltrúa, varðandi þá athugasemd að byggingarmagn sé of mikið og að húsið hafi verið hækkað, sé vísað til þess að húsið við Freyjubrunn 23 sé sambærilegt húsinu að Freyjubrunni 29, en það geti ekki verið rök í sjálfu sér.

Framsetning skipulagsgagna hafi ekki verið skýr og því ekki í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ákvæðið geri þá kröfu að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir því í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Hin umdeilda breyting snúi aðeins að einni tiltekinni lóð og varði framkvæmd sem sé byrjuð. Þrátt fyrir það sé ákvæði um hámarksvegghæð, sem sé mismunandi eftir þakgerð, mjög óljós. Því sé ómögulegt að sjá hvað sé í reynd verið að heimila með deiliskipulagsbreytingunni.

Ekki hafi komið fram í kynningargögnum að gefin yrði eftir krafa skilmála um að hús skuli fylgja bindandi byggingarlínu neðri hæðar. Þær upplýsingar hafi komið fram í gögnum sem liggi á vef Reykjavíkurborgar, en hafi ekki verið hluti af gögnum sem fylgt hafi deiliskipulagstillögunni sem nágrönnum hafi verið kynnt. Þetta styðji að um meiri háttar breytingar á skipulagi sé að ræða því staða húss við götu hafi afgerandi áhrif á götumyndina og öryggi vegfarenda. Enn sé óljóst hversu umfangsmikil þessi breyting sé. Framsetningin hafi verið svo ruglingsleg að kærendum hafi í reynd ekki verið unnt að gæta andmælaréttar síns við málsmeðferðina.

Í svari kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar hafi þeir bent á að stjórnsýsla borgarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur, enda hafi úrskurðarnefndin fellt úr gildi byggingarleyfi í kærumáli nr. 112/2018. Breytingar á deiliskipulagi séu samráðsmál en ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda íbúa um skuggamyndun vegna hækkunar á húsi. Í tillögunni sé gengið út frá því að útgefið byggingarleyfi og samþykkt teikning séu lögleg, en svo sé ekki þar sem byggingarleyfið hafi verið fellt úr gildi með fyrrnefndum úrskurði úrskurðar­nefndarinnar. Ekki sé hægt að meta áhrif breytinganna út frá ólöglegri teikningu og byggingarleyfi. Upphaflegt mat umhverfis- og skipulagssviðs á umfangi og áhrifum sé rangt og byggt á röngum forsendum m.t.t. skuggamyndunar, umferðaröryggis, fjölda bílastæða, heildargötumyndar og nýtingarhlutfalls lóðar. Einnig sé ljóst varðandi fjölgun íbúða að ekki hefðu rúmast fimm íbúðir í húsi sem hefði verið löglega afgreitt frá upphafi. Því sé um mikla aukningu á fjölda íbúða að ræða. Fjölgun íbúða í húsinu hafi áður verið hafnað á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Hvað varði athugasemdir leyfishafa bendi kærendur á að deiliskipulagsbreytingar hafi verið gerðar til að laga deiliskipulag að þegar útgefnu byggingarleyfi og túlkun lóðarhafa. Ekki hafi verið gefin ástæða fyrir breytingu á deiliskipulagi en lögum samkvæmt beri að rökstyðja ákvarðanir sem þessar. Hér sé verið að sníða deiliskipulag að einni lóð en jafnframt draga með því verulega úr gæðum annarra íbúða og öryggi. Önnur hús í götunni takmarkist við þrjár hæðir eins og upphaflegt skipulag geri ráð fyrir. Það samræmist ekki heildarmynd hverfisins að hafa húsið við Freyjubrunn 23 á fjórum hæðum, en þar sé enginn kjallari. Ekkert hús sem séu fyrir neðan annað hús í hallandi landi sé hærra en húsið fyrir ofan nema þarna. Málið snúist ekki einungis um breytingu á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Mistök hafi verið gerð við útgáfu eldra byggingarleyfisins og allt ferlið eftir það hafi verið yfirklór og útúrsnúningur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að hin umþrætta deiliskipulagstillaga hafi fengið málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr., sbr. 31. gr.. skipulagslaga nr. 123/2010, en sú málsmeðferð hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. febrúar 2019. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg skuli taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víki frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði sé að finna í gr. 5.8.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en jafnframt sé þar tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni. Deiliskipulagstillaga sú sem hér um ræði hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði 41. gr. skipulagslaga. Talið hafi verið að ekki væru skilyrði til að grenndarkynna skipulagstillöguna sem óverulega deiliskipulagsbreytingu skv. 2. mgr. 43. gr. laganna. Það sem hugsanlega rugli kærendur sé að hagsmunaaðilar og nágrannar hafi verið upplýstir með bréfi, dags. 27. mars 2019, um að auglýsing hefði birst í Fréttablaðinu og Lögbirtingarblaðinu 27. mars 2019 og hafi þeir sem teldu sig eiga hagsmuna að gæta verið hvattir til að kynna sér tillögurnar. Séu þessar bréfasendingar umfram lagalega tilkynningar­skyldu eins og hún sé skilgreind í skipulagslögum. Málsmeðferðin hafi uppfyllt gr. 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá hafi kynningargögn verið fullnægjandi. Bæði uppdráttur og greinargerð uppfylli skilyrði skipulagsreglugerðar um framsetningu á deiliskipulagi, sbr. gr. 5.5. í reglugerðinni. Um minni háttar breytingu sé að ræða á byggingarmagni en A-rýmin aukist um rúma 10 m2. Aukning á nýtingarhlutfalli sé vegna B-rýma, sem ekki hafi verið reiknuð inn í deiliskipulagið árið 2017. Að lokum sé hið umþrætta byggingarleyfi í fullu samræmi við breytt deiliskipulag.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að breytingar á deiliskipulagi vegna umræddrar lóðar séu mjög óverulegar, en hvorki hafi verið aukið við hæð hússins né byggingarmagn svo nokkru nemi frá því sem áður hafi verið fyrirhugað. Deiliskipulag svæðisins geri ráð fyrir að á lóðinni megi reisa fjölbýlishús með þremur íbúðarhæðum auk bílageymslu á jarðhæð, sbr. bls. 30 og nánari skýringar á bls. 35 í greinargerð deiliskipulagsins. Því heimili það að á lóðinni verði reistar þrjár íbúðarhæðir, með þeirri efstu inndreginni, ofan á bílageymslu sem sé að hluta til niðurgrafin. Sé fyrirhuguð hæð hússins í fullu samræmi við hæð nærliggjandi fjöleignarhúsa, sem reist séu á grundvelli sömu deiliskipulagsskilmála, að Friggjarbrunni 18, Freyjubrunni 25-27, 29, 31 og 33.

Byggingaráform rúmist áfram innan skilgreinds byggingarreits. Fjölgun íbúða í húsinu sam­ræmist yfirlýstu markmiði aðalskipulags Reykjavíkur um þéttingu byggðar, aukna fjölbreytni í valkostum húsnæðis til búsetu og kröfu um aukið framboð á minni íbúðum. Á fjölmörgum lóðum innan hverfisins hafi íbúðir verið minnkaðar og þeim fjölgað.

Frá upphafi hafi verið gert ráð fyrir að hámarksvegghæð bygginga yrði mæld frá fyrstu hæð íbúðarhúsnæðis, sem jafnframt sé aðkomuhæð hússins, en ekki frá bílageymslu í kjallara. Húshæðir fjölbýlishúsa séu skilgreindar sem „2-5 hæðir íbúðarhúsnæðis auk bílageymslu­hæðar“ á bls. 26 í greinargerð deiliskipulagsins, en í fjölbýlishúsum séu „bílageymslur á neðstu hæðum, niðurgrafnar þar sem landhalli gefur tilefni til.“ Í deiliskipulagsbreytingunni felist því ekki raunveruleg breyting á hæð hússins á lóðinni, heldur aðeins breyting á orðalagi skilmála deiliskipulagsins til nánari skýringar. Jafnvel þótt talið yrði að í breytingunni fælist breyting á leyfðum hæðum þá rúmist breytingin vel innan ramma aðalskipulags Reykjavíkur um hæðir húsa.

Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til þess að málsmeðferð Reykjavíkurborgar við kynningu og ákvörðun um samþykkt á breytingu deiliskipulagsins sé haldin einhverjum annmörkum sem varðað geti ógildingu ákvörðunarinnar. Í deiliskipulagstillögunni sé ítarlega gerð grein fyrir í hverju breytingin felist og ekkert í framsetningu tillögunnar geti gefið tilefni til misskilnings eða rangtúlkunar. Sérstaklega sé bent á að umfjöllun kærenda um þá beiðni leyfishafa að gefin yrði eftir svokölluð bindandi byggingarlína virðist byggja á þeim misskilningi að Reykjavíkurborg hafi orðið við þeirri beiðni með samþykki á breytingu deiliskipulagsins.

Byggingarleyfi sé gefið út á grundvelli aðaluppdrátta hönnuðar, sem hafi verið áritaðir um samþykki byggingarfulltrúa 24. september 2019. Með samþykktinni hafi verið staðfest að mannvirkið og notkun þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum á svæðinu. Með því hafi verið fullnægt tveimur af lagaskilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrirhugað mannvirki samræmist fyllilega skilmálum núgildandi deiliskipulags lóðarinnar. Leyfishafi leggi áherslu á að öll málsmeðferð við útgáfu byggingarleyfi samræmist ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 160/2010 og því beri að hafna kröfum kærenda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23, sem felur m.a. í sér heimild til að fjölga íbúðum úr fimm í átta, auka byggingarmagn og að ákvarða hámarksvegghæð húsa með flötu þaki frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar í stað aðkomuhæðar. Einnig er deilt um lögmæti samþykkts byggingar­leyfis fyrir átta íbúða steinsteyptu fjölbýlishúsi með flötu þaki á umræddri lóð.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og ber ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. laganna. Í skipulagsvaldinu felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna. Skipulagsyfirvöld eru ekki bundin við skilmála eldra deiliskipulags við slíka breytingu, enda felur breyting á deiliskipulagi eðli máls samkvæmt í sér breytingu á því deiliskipulagi sem fyrir er. Almennt ber að haga málsmeðferð deiliskipulagsbreytinga þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. c-lið 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Skipulagsvaldið er jafnframt bundið af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Deiliskipulagstillagan var ekki grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga heldur auglýst til kynningar í samræmi við reglur laganna um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna. Var því ekki farið með breytinguna eins og um óverulega breytingu á deiliskipulagi væri að ræða, líkt og kærendur halda fram. Hins vegar var með bréfi skipulagsfulltrúa vakin athygli hagsmunaaðila og nágranna á því að auglýst hefði verið tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Freyjubrunns 23, bent á hvar kynningar­gögn væri að finna og hvernig hægt væri að koma að ábendingum og athugasemdum, en því verður ekki jafnað saman við grenndarkynningu. Að loknum kynningartíma var deili­skipulagstillagan afgreidd í skipulags- og samgönguráði, þar sem framkomnum athuga­semdum kærenda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga, og var sú afgreiðsla samþykkt í borgarráði lögum samkvæmt. Tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Verður því ekki annað séð en að málsmeðferð tillögunnar hafi að formi til verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 kemur fram að þegar deiliskipulagi sé breytt skuli gera skýra grein fyrir í hverju breytingin felist, í greinargerð og á uppdrætti. Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að hámarksvegghæð þriggja hæða bygginga sé 9,5 m frá gólfkóta fyrstu íbúðarhæðar ef þök eru flöt. Ef þök eru hallandi er hámarkshæð þriggja hæða bygginga 11,0 m. Sama texta má finna í breytingartillögunni, sem sett er fram með þeim hætti að á samhliða uppdrætti er sýndur hluti gildandi deiliskipulagsuppdráttar og hluti breytts uppdráttar. Er tekið fram neðan við hann að uppdráttur breytist ekki. Einnig er gerð grein fyrir gildandi skipulagsskilmálum annars vegar og tillögu að breyttum skilmálum hins vegar hlið við hlið. Ekki er tekið skýrt fram í tillögu að texta breyttra skilmála að um sé að ræða breytingu á þeim skipulagsskilmálum gildandi deiliskipulags Úlfarsárdals að miða hámarksvegghæð eða hámarkshæð við kóta aðkomuhæðar. Sá skilningur fæst hins vegar af lestri gildandi skilmála sem eru til hliðar við texta breyttra skilmála. Þá kemur einnig skýrt fram í breytingartillögunni hvaða aðrar breytingar sé verið að gera á gildandi deiliskipulagi. Verður því ekki fallist á það með kærendum að framsetning breytingartillögunnar hafi ekki verið í samræmi við kröfur í gr. 5.8.5.1. í skipulagsreglugerð.

Svo sem áður hefur komið fram komu kærendur að athugasemdum vegna deiliskipulags­tillögunnar. Bentu þeir m.a. á að fyrirhuguð hækkun myndi valda mikilli útsýnisskerðingu hjá íbúum ofar í hverfinu. Í umsögn skipulagsfulltrúa er þeirri athugasemd svarað á þann hátt að með deiliskipulagsbreytingunni væri „ekki verið að hækka vegghæð hússins frá því sem ákveðið var í fyrra deiliskipulagi heldur er verið að endurskilgreina hvaðan vegghæð skuli reiknast.“ Í því felst hins vegar að með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er leyfilegt að byggja hærra hús en að óbreyttu deiliskipulagi, sbr. niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 112/2018. Er því ljóst að framangreind breyting getur haft í för með sér grenndaráhrif gagnvart fasteignum í næsta nágrenni. Um þau áhrif er ekki fjallað í umsögn skipulagsfulltrúa og umsögninni að því leytinu til ábótavant. Að teknu tillit til skipulagsvalds sveitarstjórna þykir sá ágalli þó ekki eiga að leiða til ógildingar deiliskipulagsbreytingarinnar, en öðrum athugasemdum var svarað efnislega. Þá raskar sú breyting auk annarra heimilaðra breytinga, þ.e. lítilleg aukning á byggingarmagni eða nýtingarhlutfalli, fjölgun íbúða og heimild til að láta svalir á norðurhlið ná 150 cm út fyrir byggingarreit hússins, ekki grenndar­hagsmunum kærenda að því marki að réttur þeirra hafi verið fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar. Rétt þykir þó að benda á að þeir sem geta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi geta eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að byggt verði steinsteypt fjölbýlishús með átta íbúðum á lóðinni nr. 23 við Freyjubrunn. Samkvæmt samþykktum uppdráttum byggingarleyfisins er byggingin í samræmi við gildandi deiliskipulag Úlfarsárdals, eins og því var breytt með fyrrnefndri deiliskipulagsbreytingu. Var hið kærða byggingarleyfi því í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Með vísan til þess, og þar sem ekki verður ráðið að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við töku ákvörðunar um hið umdeilda byggingarleyfi, verður gildi leyfisins ekki heldur raskað.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 18. júlí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar Freyjubrunns 23.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2019 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptu fjölbýlishúsi með átta íbúðum á lóðinni Freyjubrunni 23.

130/2018 Ekrusmári

Með

Árið 2019, þriðjudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar vegna Ekrusmára 4, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. október 2018, er barst nefndinni 26. s.m., kæra eigendur Ekrusmára 4, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs­­­­­­­­bæjar frá 25. september 2018 að synja um breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar vegna Ekrusmára 4. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 11. desember 2018.

Málavextir: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar að Ekrusmára 4, Kópavogi. Húsið sem stendur á lóðinni er 182 m² á einni hæð og lóðin er 784 m². Hinn 30. október 2017 sóttu kærendur um breytingu á deiliskipulagi svæðisins vegna fyrirhugaðrar stækkunar á byggingar­reit lóðarinnar til norðurs þar sem reisa mætti 80 m² viðbyggingu á einni hæð og kjallara. Við breytinguna færi nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 0,23 í 0,33. Var beiðnin tekin fyrir á fundi skipulagsráðs 6. nóvember 2017. Á fundinum var ákveðið að grenndarkynna tillögu kærenda samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir lóðarhöfum Ekrusmára 2 og 6 og Grundarsmára 1, 3 og 5. Athugasemdar­frestur var til 20. apríl 2018. Athugasemdir bárust frá hagsmunaaðilum á kynningar­­tíma tillögunnar.

Á fundi skipulagsráðs 7. maí 2018 var málinu vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar og var umsögnin lögð fram á fundi ráðsins 16. júlí s.á. Í henni kom fram það mat deildarinnar að fyrirhuguð breyting á nýtingarhlutfalli væri í samræmi við gildandi deiliskipulag og ylli ekki íþyngjandi umhverfisáhrifum af umferð eða innsýn. Fyrirhuguð breyting leiddi hins vegar til verulegar stækkunar á byggingarreitt, eða um fjóra metra, og þar sem áætluð hæð viðbyggingar yrði 6,2 m ylli hún íþyngjandi umhverfisáhrifum, sérstaklega fyrir Ekrusmára 2, vegna skerts útsýnis og skuggavarps úr vestri á lóð og hús. Breytingin hefði fordæmisgildi fyrir svæði nr. 8 á Nónhæð. Málinu var frestað og skipulagsstjóra falið að boða málsaðila og hagsmunaaðila til samráðs­fundar. Á samráðsfundi 15. ágúst 2018 mættu þeir aðilar sem gerðu athugasemdir við tillöguna ásamt kærendum. Á fundinum lögðu kærendur fram nýja og breytta tillögu sem gerði ráð fyrir 100 m² viðbyggingu í stað 80 m². Á fundi skipulagsráðs 17. september s.á. var tillögu kærenda hafnað og var afgreiðslu ráðsins vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundi bæjar­stjórnar 25. september 2018 var afgreiðsla skipulags­ráðs staðfest.

Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að höfnun Kópavogsbæjar á beiðni þeirra um stækkun á byggingarreit sé ólögmæt þar sem hún byggist á röngum og ómálefnalegum for­sendum. Hvað varði innsýn þá hafi skipulags- og byggingar­deild bæjarins komist að því í umsögn sinni, sem lögð hefði verið fram á fundi skipulagsráðs 16. júlí 2018, að breytingartillagan myndi ekki hafa íþyngjandi áhrif á innsýn til nágranna. Norðan við hús kærenda sé óbyggt land sem geri það að verkum að mikil fjarlægð sé í næsta hús til norðurs. Ekki sé gert ráð fyrir hækkun hússins heldur fyrst og fremst að gerður verði kjallari og húsið stækkað sem honum nemi. Hæsti punktur hússins haldist óbreyttur en byggingarreitur færist fjórum metrum nær lóðarmörkum í norður. Athygli sé vakin á því að aðrar lóðir liggi ekki að þeim lóðar­mörkum heldur opið svæði í eigu bæjarins. Verönd við húsið að Ekrusmára 2 sé við suðvestur­horn húss kærenda og verði ekki séð að umrædd stækkun til norðurs hafi áhrif á skuggavarp á veröndina. Samkvæmt gögnum um skuggavarp sé um að ræða mjög takmörkuð áhrif austan megin við húsið, en ekki töluverð, eins og haldið sé fram af hálfu Kópavogsbæjar.

Í gildi sé deiliskipulag fyrir Nónhæð frá nóvember 1991. Samkvæmt skipulaginu sé hús kærenda að Ekrusmári 4 á svæði nr. 8 en í skilmálum fyrir svæðið sé þar gert ráð fyrir einbýlishúsum á tveimur hæðum og að samanlagður gólfflötur húsa skuli vera að hámarki 279,2 m². Húsið að Ekrusmára 4 sé nú skráð 182,2 m² en mjög mörg fordæmi séu fyrir því að samþykkt hafi verið stærri hús á svæðinu. Þær röksemdir Kópavogsbæjar séu því ekki réttar að aukinn fermetrafjöldi yrði nær hámarki og að Ekrusmári 4 yrði eftir breytinguna með stærstu húsum í götunni.

Mótmælt sé röksemdum Kópavogsbæjar um að nýtingarhlutafall lóðarinnar yrði hærra en meðal­nýtingarhlutfall á svæðinu, en það sé að meðaltali 0,28 meðan að tillagan feli í sér að nýtingarhlutfall verði 0,35. Í deiliskipulagi fyrir Nónhæð komi ekki fram neinar upplýsingar um hámarks­­nýtingar­hlutfall á svæðinu. Í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2014 sé hins vegar miðað við að nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða sé 0,20-0,35. Sé stækkunin því innan þeirra marka sem skipulag sveitarfélagsins geri ráð fyrir.

Kópavogsbær vísi til þess að um sé að ræða gróið hverfi þar sem litlar sem engar breytingar af þessu tagi hafi verið gerðar á þegar byggðu svæði. Á það beri hins vegar að líta að þegar hafi verið samþykktar svipaðar breytingar, s.s. stækkanir á Bergsmára 10, Bakka­smára 16, Grundarsmára 13 og Bollasmára 6. Hverfið hafi verið að taka á sig mynd en viðbúið sé að alltaf verði einhverjar breytingar, jafnvel í grónum hverfum. Kópavogsbær væri því ekki að setja fordæmi með því að samþykkja tillöguna heldur hafi bærinn nú þegar skapað fordæmi með þeim breytingum sem samþykktar hafi verið. Ítrekað sé að sú breyting sem sótt sé um sé innan ramma skipulags að öllu leyti nema að byggingarreitur stækki um 4 m til norðurs í átt að svæði sem sé óbyggt. Nýtingarhlutfall sé innan marka aðalskipulags.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að hin breytta tillaga feli í sér töluvert meiri grenndaráhrif en upphafleg tillaga. Þá hafi verið tekið fram í umsögn við fyrri tillögu að þrátt fyrir að sú tillaga væri í samræmi við skipulag svæðisins færi fyrirhuguð breyting verulega út fyrir byggingarreit og hefði íþyngjandi grenndaráhrif, þá sérstaklega gagnvart Ekrusmára 2. Uppfærð tillaga og sú sem kærendur hafi viljað leggja fram í stað upphaflegrar tillögu hefði enn meiri grenndaráhrif þar sem viðbyggingin myndi þá ná lengra í átt að mörkum aðliggjandi lóða, auk þess sem þá væri einnig gert ráð fyrir svölum á vestur- og austurenda viðbyggingarinnar. Í samskiptum kærenda við skipulagsyfirvöld hafi kærendur óskað eftir að draga upphaflegu tillöguna til baka og koma með nýja tillögu sem kæmi frekar til móts við athugasemdir hagsmunaaðila. Á samráðs­fundi með hagsmunaaðilum hafi hins vegar verið lögð fram ný tillaga sem hafi falið í sér aukningu byggingarmagns, þ.e. úr 44% í tæplega 55%. Bæjaryfirvöld telji að ekki sé hægt að bera saman uppbyggingu á óbyggðu svæði, s.s. Nónhæð, við það að auka byggingarmagn við þegar byggt hús í þéttu og grónu hverfi. Þá verði að telja þær breytingar sem kærendur bendi á að hafi verið samþykktar í nágrenninu töluvert minna íþyngjandi. Það eitt að heimilaðar hafi verið óverulegar breytingar í nágrenni við hús kærenda geti ekki gefið fordæmi fyrir þeirri viðbyggingu sem hér um ræði, enda sé hún töluvert stærri og hafi ívið meiri grenndaráhrif en tilgreindar breytingar.

Það sé bæjarstjórn sem fari með skipulagsvald innan marka sveitar­félagsins, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í því felist tæki bæjarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Í máli þessu hafi bæjarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi vegna Ekru­smára 4, sem að mati bæjarins sé byggt á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Niðurstaða: Um deiliskipulagsáætlanir er fjallað í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga, en land­­eigandi eða framkvæmdaraðili getur m.a. óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað, sbr. 2. mgr. 38. gr. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna skal fara með breytingar á samþykktu deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða að öðru leyti en því að ekki er skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu skv. 1. mgr. 40. gr. Þá er sveitarstjórn heimilt samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna að láta grenndar­kynna tillögu að breyttu deiliskipulagi sé hún óveruleg.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Á því svæði sem hér um ræðir hefur bæjarstjórn nýtt sér framangreint skipulagsvald með deiliskipulagi Nónhæðar frá nóvember 1991. Þá hefur sveitarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað kærendum um breytingu á því skipulagi. Kemur þá til skoðunar hvort sveitarstjórn hafi beitt valdi sínu á málefnalegan hátt og í samræmi við það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. nefndra laga að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Eins og rakið hefur verið fól tillaga kærenda að breyttu deiliskipulagi í sér 100 m² viðbyggingu á baklóð Ekrusmára 4, en upphafleg grenndarkynnt tillaga gerði ráð fyrir 80 m² viðbyggingu. Var það mat sveitarfélagsins að hafna bæri tillögu kærenda þar sem hún hefði í för með sér töluverð grenndaráhrif gagnvart lóðum næstu nágranna með skerðingu á útsýni og auknu skuggavarpi. Við deiliskipulags­breytinguna færi nýtingarhlutfall lóðar kærenda úr 0,23 í 0,35, en til samanburðar má nefna að nýtingarhlutfall lóðarinnar Ekrusmára 2 er 0,20 og nýtingarhlutfall lóðarinnar Ekrusmára 6 er 0,25. Samkvæmt Aðal­skipulagi Kópavogsbæjar 2012-2024 eru þau viðmið sett að nýtingar­hlutfall einbýlishúsa­lóða á deiliskipulögðum svæðum sé á bilinu 0,20-0,35. Fæli breytingin því í sér töluvert hærra nýtingarhlutfall en á næstu lóðum, sem væri fordæmisgefandi, og með því yrði farið í hámarksviðmið aðal­skipulagsins um nýtingarhlutfall einbýlishúsalóða í sveitar­félaginu. Búa því efnis- og skipulagsrök að baki hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þeirrar staðreyndar að íbúum sveitarfélags er  ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram breytingu á gildandi deiliskipulagi, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 25. september 2018 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Nónhæðar vegna Ekrusmára 4, Kópavogi.