Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2002 Sunnuhlíð

Með

Ár 2003, þriðjudaginn 2. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2002, kæra eins eiganda hússins nr. 12 við Sunnuhlíð, Akureyri á samþykkt umhverfisráðs Akureyrarbæjar frá 11. september 2002 um að kæranda verði send tilkynning þess efnis að húsnæði í hans eigu að Sunnuhlíð 12, Akureyri verði lokað ásamt ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar, dags. 26. september 2002, um stöðvun framkvæmda og að hin ólöglega bygging eða byggingarhluti verði fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. september 2002, er barst nefndinni hinn 24. sama mánaðar, kærir B, Tungusíðu 2, Akureyri, þá ákvörðun umhverfisráðs Akureyrarbæjar frá 11. september 2002 að honum verði send tilkynning þess efnis að húsnæði í hans eigu að Sunnuhlíð 12, Akureyri verði lokað þar sem því hafi verið breytt og það tekið í notkun þrátt fyrir að tilskilin leyfi umhverfisráðs hafi ekki verið veitt.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. október 2002, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir fyrrnefndur Bernharð einnig ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrarbæjar, dags. 26. september 2002, um tafarlausa stöðvun framkvæmda, sem séu án tilskilinna leyfa og að hin ólöglega bygging eða byggingarhluti skuli fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt.

Samþykkt umhverfisráðs var staðfest í bæjarstjórn Akureyrarbæjar hinn 17. september 2002.

Kærandi krefst þess að ákvarðanir umhverfisráðs og skipulags- og byggingarfulltrúa verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Kærandi er eigandi að veitingastaðnum Setrinu, Sunnuhlíð 12 á Akureyri, en í því húsi eru verslanir og þjónustustarfsemi ýmiskonar.  Kærandi eignaðist á árinu 2000 verslunarrými í húsinu sem hann hugðist nýta til stækkunar veitingastaðarins.  Hinn 22. nóvember 2001 lagði kærandi inn byggingarleyfisumsókn til umhverfisráðs Akureyrarbæjar þar sem hann sótti um leyfi til að setja upp í hinu nýja rými þrjá klefa fyrir einkasýningar, búningsherbergi og setustofu.  Umhverfisráð fjallaði um erindi kæranda á fundi hinn 28. nóvember sama ár og bókaði eftirfarandi:  „Umhverfisráð heimilar ekki þá breyttu notkun á húsnæðinu sem sótt er um.“ Bæjarstjórn Akureyrarbæjar samþykkti bókunina á fundi hinn 4. desember sama ár. 

Hinn 17. apríl 2002 ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi Akureyrarbæjar bréf til kæranda þar sem honum var tilkynnt að byggingareftirlitið myndi koma til skoðunar á húsnæði hans þar sem embættinu hefði borist vitneskja um að húsnæðið hefði verið innréttað án heimildar umhverfisráðs.  Í bréfinu var kæranda veittur vikufrestur til andmæla.  Hinn 29. apríl sama ár ritaði kærandi bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem hann tilkynnti að hann tæki sér vikufrest til andmæla og bárust þau skipulags- og byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 7. maí 2002.  Hinn 14. júlí 2002 ritaði kærandi á ný bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa þar sem hann fór fram á rökstuðning umhverfisráðs fyrir ákvörðun ráðsins hinn 28. nóvember 2001 ásamt beiðni um endurupptöku ákvörðunarinnar.  Með bréfi bæjarlögmanns Akureyrarbæjar, dags. 31. júlí 2002, var beiðni um endurupptöku málsins hafnað með vísan til þess að ekki væru fyrir hendi aðstæður þær er leiða ættu til endurupptöku þess, auk þess sem allir frestir til þess væru liðnir samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993.  Þá hafnaði bæjarlögmaður einnig beiðninni um rökstuðning ákvörðunar umhverfisráðs með vísan til sömu laga.

Á fundi umhverfisráðs hinn 11. september 2002 voru lagðir fram minnispunktar bæjarlögmanns varðandi stöðu málsins og hugsanlegar aðgerðir og eftirfarandi bókað:  „Umhverfisráð samþykkir að rekstraraðila verði send tilkynning þess efnis að umræddu rými verði lokað þar sem húsinu hefur verið breytt og tekið í notkun þrátt fyrir að tilskilin leyfi hafi ekki verið veitt og hann þannig gerst brotlegur við skipulags- og byggingarlög og byggingarreglugerð, en gefur honum kost á að koma á framfæri andmælum við aðgerðinni sbr. ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga innan 14 daga frá dagsetningu tilkynningar þar um“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 17. september s.á. var bókun umhverfisráðs samþykkt.

Með bréfi, dags. 23. september 2002, kærði kærandi framangreinda bókun umhverfisráðs Akureyrarbæjar til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Hinn 26. september 2002, eða eftir að kæra þessi barst úrskurðarnefndinni, ritaði skipulags- og byggingarfulltrúi bréf til kæranda þar sem tilkynnt var að embættið myndi stöðva framkvæmdir sem væru án tilskilinna leyfa og skyldi hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt með vísan til 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kæranda var gefinn frestur til 15. október 2002 til að koma húsnæðinu í upphaflegt horf, að öðrum kosti yrði því lokað af byggingarfulltrúa.  Frestur þessi var síðar framlengdur til 1. desember 2002. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir kæru sína á því að með hinni kærðu ákvörðun hafi honum verið meinuð notkun á húsnæðinu undir næturklúbb þrátt fyrir að hafa fullnægt öllum kröfum þar að lútandi.  Lögmannsstofu hafi verið falið að kæra ákvörðun umhverfisráðs, dags. 28. nóvember 2001, en það hafi ekki verið gert og lögmannstofan skömmu síðar verið úrskurðuð gjaldþrota. 

Kærandi bendir á að samþykkt bæjaryfirvalda um að fela umhverfisráði þá tilskipun að hamla skuli gegn nætur- og nektarklúbbum í bænum hafi verið gerð löngu eftir að að hann hafi fest kaup á húsnæðinu, sem hann óskar breytinga á, og breytt því til samræmis við kröfur eldvarnareftirlits.

Kærandi telur meinlega á sér brotið og krefst þess að bókun umhverfisráðs hinn 11. september 2002 verði felld úr gildi. 

Málsrök Akureyrarbæjar:  Krafa Akureyrarbæjar er að kærunni verði vísað frá sökum þess að kærufrestir séu liðnir.  Af málatilbúnaði kæranda megi ráða að hann sé að kæra ákvörðun umhverfisráðs, sem tekin hafi verið á fundi 28. nóvember 2001, þar sem ákveðið hafi verið að heimila ekki þá breyttu notkun á húsnæðinu sem hann hafi sótt um.  Kæranda hafi verið sent bréf þessa efnis, dags. 5. desember það ár, ásamt „Almennum leiðbeiningum um birtingu stjórnvaldsákvarðana“.  Frestur til að fara fram á frekari rökstuðning hafi runnið út 14 dögum eftir að kærandi hafi móttekið tilkynninguna.  Ekki hafi verið óskað eftir rökstuðningi innan frestsins og því hafi runnið út frestur til að kæra stjórnvaldsákvörðunina þremur mánuðum frá sama tíma.  Kærandi hafi því hvorki nýtt sér frest til að fara fram á frekari rökstuðning né að kæra ákvörðunina innan tilskilins frests, þrátt fyrir ítarlegar leiðbeiningar.

Þá er einnig krafist frávísunar með vísan til þess að eingöngu stjórnvaldsákvarðanir séu kæranlegar.  Tilkynning embættis skipulags- og byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 17. apríl 2002, um að embættið hefði heimildir fyrir því að umrætt húsnæði hefði verið innréttað í andstöðu við ákvörðun umhverfisráðs, dags. 28. nóvember 2001, sé ekki stjórnvaldsákvörðun.  Kæranda hafi samt sem áður verið gefinn vikufrestur til að koma að andmælum áður en skipulags- og byggingarfulltrúi kæmi á staðinn til eftirlits, með vísan til 2. mgr. 41. gr. byggingarreglugerðar.  Með veitingu andmælaréttar hafi embætti skipulags- og byggingarfulltrúa gætt meðalhófsreglunnar og gefið kæranda færi á að koma byggingarhlutanum í samt horf, áður en gripið yrði til frekari aðgerða.  Með bréfi, dags. 29. apríl 2002, hafi kærandi staðfest að vikufrestur yrði nýttur til að andmæla hugmyndum embættisins um „afnotarétt” á húsnæðinu.  Engin andmæli hafi borist innan frestsins.  Ítrekað sé að ákvörðun starfsmanna skipulags- og byggingarfulltrúa um að framfylgja byggingarreglugerð og fara í eftirlit til að koma í veg fyrir óheimilar breytingar á mannvirkjum, sé ekki stjórnvaldsákvörðun og þar af leiðandi ekki kæranleg til æðra stjórnvalds.

Í rökum sínum vísar Akureyrarbær til þess að í 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé að finna ákvæði um almennan kærufrest.  Þar segi í 1. mgr.:  „Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls er tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.“  Tilgangurinn með slíkum fresti sé að stuðla að því að mál séu til lykta leidd svo fljótt sem unnt sé.  Í 28. gr. laganna sé gert ráð fyrir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt sé að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.  Ekkert í málinu styðji það að veita skuli frekari fresti enda hafi liðið um tíu mánuðir frá því að ákvörðun hafi verið tekin og þar til kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. 

Jafnframt sé bent á það af hálfu Akureyrarbæjar að aðgerðir stafsmanna embættis skipulags- og byggingarfulltrúa séu ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga, þ.e. mál sem stjórnvald tekur ákvörðun um í skjóli stjórnsýsluvalds síns, sbr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða:  Í máli þessu er kærð bókun umhverfisráðs Akureyrarbæjar þess efnis að kæranda verði send tilkynning um að húsnæði í hans eigu að Sunnuhlíð 12, Akureyri verði lokað þar sem því hafi verið breytt og tekið í notkun þrátt fyrir að tilskilin leyfi umhverfisráðs hafi ekki verið veitt.  Samkvæmt bókuninni skyldi kæranda veittur 14 daga frestur til andmæla.  Þá lýtur kæran einnig að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa um stöðvun leyfislausra framkvæmda og að hin ólöglega bygging eða byggingarhluti skuli fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt, sbr. 1. mgr. 209. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var kæranda vegna þessa veittur 14 daga frestur til að koma húsnæðinu í upprunalegt horf.  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á máli þessu verður hvorki ráðið af gögnum málsins né samtali við starfsmann embættis skipulags- og byggingarfulltrúa að ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa hafi verið borin undir umhverfisráð til staðfestingar svo sem áskilið er samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun stjórnvalds ekki kærð nema hún feli í sér efnislegar lyktir máls.  Hin kærða bókun ber ekki með sér að í henni felist endanleg ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 heldur einvörðungu ráðagerð um slíkt.  Þá verður ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa ekki túlkuð sem slík ákvörðun, þar sem hún hefur ekki hlotið staðfestingu umhverfisráðs svo sem lögskylt er. 

Af framangreindu er ljóst að ekki liggur fyrir á sveitarstjórnarstigi lokaákvörðun er sæti kæru til æðra stjórnvalds. 

Að þessu virtu verður hvorki hin kærða samþykkt umhverfisráðs Akureyrarbæjar né ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa tekin til efnismeðferðar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

22/2003 Aðalskipulag Mosfellsbæjar

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2003, kæra tveggja arkitekta á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 um að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. mars 2003, sem barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra B, Njálsgötu 106, Reykjavík og H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 12. febrúar 2003 að samþykkja tillögu að Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024.  Telja kærendur að með hinni kærðu ákvörðun hafi höfundarréttur þeirra verið brotinn og gera þá kröfu að úr því verði bætt.

Eftir framlagningu kæru í máli þessu var kærendum bent á að nefndin hefði í þegar gengnum úrskurðum komist að þeirri niðurstöðu að hana brysti vald til þess að skera úr ágreiningi um aðalskipulag eða breytingu á aðalskipulagi, þar sem gildistaka þeirra skipulagsákvarðana væri háð staðfestingu ráðherra, og jafnframt lægi fyrir álit umboðsmanns Alþingis á þá lund að ekki væri ástæða til athugasemda við frávísun úrskurðarnefndarinnar á kæru vegna aðalskipulags.  Þar sem kæran hefur ekki verið dregin til baka er málið nú tekið til úrskurðar.

Málavextir:  Við kynningu Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024 komu fram athugasemdir af hálfu kærenda þess efnis að við gerð skipulagsins og eldri aðalskipulagsáætlana hafi verið stuðst við aðalskipulagstillögu þeirra fyrir Mosfellsbæ er hlotið hefði 1. verðlaun í hugmyndasamkeppni um aðalskipulag bæjarins á árinu 1978. 

Athugasemdir kærenda voru teknar fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar hinn 17. desember 2002 og þar lagt til við bæjarstjórn að fyrirliggjandi umsögn tækni- og umhverfissviðs um athugasemdirnar yrði samþykkt, en umsögnin hljóðar svo:  „Árin 1977-1978 var haldin samkeppni meðal arkitekta um Aðalskipulag Mosfellsbæjar.  Ekki varð að samstarfi skipulagsyfirvalda í Mosfellsbæ og verðlaunahafa um nánari útfærslu tillögunnar.  Sveitarstjórn fól á sínum tíma Einari Tryggvasyni að gera tillögu að aðalskipulagi Mosfellsbæjar á grundvelli fyrrnefndrar hugmyndasamkeppni.  Aðalskipulag var síðan staðfest af ráðherra 1983.  Ekki bárust mótmæli frá höfundum verðlaunatillögunnar á þeim tíma né síðar þegar aðalskipulag Mosfellsbæjar til 2012 var staðfest, 1994.  Í inngangi að aðalskipulagi Mosfellsbæjar, sem staðfest var 1983, er getið um hugmyndasamkeppnina og greint frá því „að með hugmyndasamkeppinni hafi verið lagður grunnur að aðalskipulagi Mosfellshrepps“.  Tillaga að aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2002-2024 er frekari þróun nefndra aðalskipulaga og hugmynda og þeirrar stefnumörkunar sem sett er fram í svæðisskipulagi fyrir höfuðborgar svæðið.  Við yfirstandandi aðalskipulagsgerð hefur ekki verið stuðst við samkeppnistillögu þá sem fékk 1. verðlaun umfram það sem gert var í fyrri tillögum er ekki var mótmælt.  Í inngangi forsenduheftis mun sögu aðalskipulagsgerðar í Mosfellsbæ vera gerð betri skil þ.m.t. hugmyndasamkeppnin og fram mun koma nöfn höfunda verðlaunatillögunnar.” 

Bæjarstjórn samþykkti aðalskipulagstillöguna og svör skipulags- og byggingarnefndar við framkomnum athugasemdum á fundi sínum hinn 12. febrúar 2003 og var kærendum tilkynnt þessi niðurstaða í bréfi, dags. 26. febrúar sama ár, þar sem bent var á kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar.  Umrætt aðalskipulag mun hafa verið staðfest af umhverfisráðherra hinn 8. júlí 2003.

Niðurstaða:  Tilefni málskots kærenda er meint brot á höfundarétti við gerð Aðalskipulags Mosfellsbæjar 2002-2024  Úrskurðarnefndin hefur talið sig bresta vald til að fjalla efnislega um skipulagsákvarðanir sveitarstjórna sem háðar eru staðfestingu ráðherra og hefur málum verið vísað frá úrskurðarnefndinni af þeim sökum.  Rök nefndarinnar fyrir þeirri niðurstöðu eru t.d. rakin í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 43/1998, en þar segir m.a:  „Með setningu nýrra laga um skipulags- og byggingarmál nr. 73/1997, sem tóku gildi hinn 1. janúar 1998, var tekið upp það nýmæli að fela sérstakri úrskurðarnefnd að kveða upp úrskurði í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál, en úrskurðarvald í þeim málum var fyrir þann tíma í höndum umhverfisráðherra.  Ekki er í lögunum gerð með skýrum hætti grein fyrir því hvaða ágreiningsmál falla undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar en af 4. mgr. 39. gr. laga nr. 73/1997 má ráða, að meginviðfangsefni hennar séu að leysa úr álitaefnum sem eiga rætur að rekja til ákvarðana byggingarnefnda og sveitarstjórna um byggingar- eða skipulagsmál.  Þá er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining um það hvort framkvæmdir séu háðar ákvæðum laganna um framkvæmdaleyfi sbr. 2. mgr. 27. gr. nefndra laga, hvort mannvirki sé háð byggingarleyfi skv. 36. gr. laganna, svo og um  ágreining um niðurstöðu Skipulagsstofnunar um erindi er varðar undanþágur skv. 3. tl. ákvæða til bráðabirgða með lögunum.  Loks er það á valdsviði nefndarinnar að skera úr um ágreining vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalds skv. 7. gr. reglugerðar nr. 737/1997.  Hvergi er hins vegar að því vikið í lögunum að nefndin hafi það hlutverk að endurskoða ákvarðanir ráðherra um staðfestingu  aðalskipulags eða breytinga á því.

Þegar sérstakri kærunefnd hefur verið komið á fót í tilteknum málflokki, eins og hér um ræðir, verður að líta svo á að ráðherra og kærunefndin séu hliðsett stjórnvöld á æðra stjórnsýslustigi með lögbundinni verkaskiptingu.  Leiki vafi á um valdmörk milli ráðherra og kærunefndar verður að telja valdið í höndum ráðherra, enda er það meginregla að ráðherra fari með yfirstjórn stjórnsýslunnar nema hún sé að lögum undanskilin forræði hans.

Í 19. grein laga nr. 73/1997 segir að aðalskipulag, eða breyting á því, sé háð staðfestingu ráðherra og taki gildi þegar staðfestingin hafi verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Af þessu leiðir að það er á valdsviði ráðherra að taka stjórnvaldsákvörðun um staðfestingu aðalskipulags, eða breytingar á því, en í þeirri ákvörðun felst að ráðherra tekur afstöðu til lögmætis aðalskipulagsins eða breytingarinnar, bæði hvað varðar form og efni. 

Ákvörðun ráðherra um staðfestingu aðalskipulags eða breytingu á því er lokaákvörðun æðra stjórnvalds og verður hún, að mati úrskurðarnefndar, einungis borin undir dómstóla en ekki skotið til hliðsetts stjórnvalds.  Því brestur úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vald til þess að taka þessar ákvarðanir ráðherra til endurskoðunar.“

Með vísan til greindra raka og álits umboðsmanns Alþingis frá 29. maí 2001 er máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu  hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

_______________________________
Ásgeir Magnússon

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

 

54/2001 Hraunbær

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2001, kæra eiganda verslunarhúsnæðis að Hraunbæ 102, Reykjavík, á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001 um breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120 er fólst í breytingu á notkun lóðar, á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 23. nóvember 2001, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kærir Reynir Karlsson hrl., fyrir hönd Saxhóls ehf., kt. 420987-1109, Nóatúni 17, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 23. október 2001, að samþykkja breytingu á deiliskipulagsreit á móts við Hraunbæ 102-120, er fólst í breytingu á þann veg að í stað heilsugæslustöðvar yrði heimiluð bygging húss undir verslunar- og þjónustustarfsemi.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi.

Málavextir:  Hinn 8. ágúst 2001 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi reits sem afmarkast af Hraunbæ í suður, Bæjarbraut í vestur og Bæjarhálsi í norður.  Í tillögunni fólst að notkun lóðar merktri C yrði breytt á þann veg að í stað ráðgerðar heilsugæslustöðvar yrði heimilað að reisa þar hús undir verslunar- og þjónustustarfsemi.  Í auglýsingunni kom fram að tillagan væri til kynningar til 5. september 2001 en frestur veittur til 12. september 2001 til að koma að athugasemdum og ábendingum í tilefni af fyrirhugaðri deiliskipulagsbreytingu.  Athugasemdir voru gerðar við skipulagstillöguna, m.a. af hálfu kæranda, en tillagan var samþykkt óbreytt í skipulags- og byggingarnefnd hinn 3. október 2001 og sú ákvörðun staðfest í borgarráði hinn 23. október 2001.  Kæranda voru tilkynnt málalok með bréfi, dags. 24. október 2001, og fylgdu því bréfi svör Borgarskipulags við framkomnum athugasemdum, dags. sama dag.

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir ógildingarkröfu sína á því að við meðferð skipulagstillögunnar hafi ekki verið farið að lögum.  Við auglýsingu og kynningu tillögunnar hafi aðeins verið gefinn 5 vikna frestur til að koma að athugasemdum.  Samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 hafi hins vegar borið að veita 6 vikna frest til athugasemda frá birtingu auglýsingar um tillöguna.  Samkvæmt orðanna hljóðan sé sá frestur lágmarksfrestur sem sé settur til þess að vernda hagsmuni borgaranna og verði ekki vikist undan því að virða þann frest.  Þá sé á það bent að í umræddu tilviki hafi fresturinn byrjað að líða hinn 8. ágúst 2001 þegar fjöldi fólks hafi verið í sumarfríi og því þeim mun mikilvægara að víkja ekki frá hinum lögboðna fresti.  Færa megi að því rök, að vegna styttri frests hafi aðilar, sem hagsmuna eigi að gæta í málinu, ekki náð að koma að athugasemdum við deiliskipulagstillöguna.  Kærandi hefði viljað undirbúa athugasemdir sínar og mótmæli betur, en ekki hafi unnist tími til þess vegna hins stutta frests.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Rétt sé hjá kæranda að kynningartími hinnar umdeildu tillögu hafi verið of stuttur.  Hafi deiliskipulagstillagan því verið auglýst að nýju hinn 19. desember 2001 með athugasemdafresti til 30. janúar 2002.  Engar athugasemdir við tillöguna hafi þá borist og hafi hún hlotið samþykki borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 og hafi hin kærða samþykkt þar með fallið úr gildi.  Skipulagsstofnun hafi ekki gert athugasemdir við að gildistaka deiliskipulagstillögunnar yrði auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og svo hafi verið gert hinn 17. maí 2002.  Af þessum ástæðum beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:  Fyrir liggur, að vegna ágalla við málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagstillögu, var hún auglýst og kynnt að nýju með lögboðnum fresti til að koma á framfæri athugasemdum við tillöguna.  Með staðfestingu borgarráðs hinn 19. febrúar 2002 á skipulagstillögunni féll úr gildi hin kærða samþykkt og hefur kærandi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð um gildi þeirrar stjórnvaldsákvörðunar.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Ingibjörg Ingvadóttir

52/2003 Garðastræti

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2003, kæra eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 um að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. september 2003, er barst nefndinni hinn 9. sama mánaðar, kærir Bergur Guðnason hdl., f.h. eigenda fasteignarinnar að Garðastræti 39, Reykjavík, þeirra Ö, Á, K og C þá ákvörðun byggingarfullrúans í Reykjavík frá 26. ágúst 2003 að veita byggingarleyfi fyrir tennisvelli á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur hinn 27. ágúst 2003 og í borgarstjórn hinn 4. september s.á.

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar.

Málavextir:  Eigandi Garðastrætis 41, kínverska sendiráðið, lagði fram fyrirspurn til byggingarfulltrúans í Reykjavík þess efnis hvort þörf væri byggingarleyfis vegna gerðar tennisvallar á lóðinni.  Í bréfi, dags. 26. mars 2003, taldi byggingarfulltrúi svo ekki vera þar sem landhæð yrði nær óbreytt, völlurinn yrði hvorki upphitaður né komið þar fyrir niðurföllum.  Þá yrðu heldur ekki sett upp ljósamöstur eða girðing sem yrði yfir 1,8 m á hæð.  Framkvæmdir hófust en þá fóru kærendur fram á það við embætti byggingarfulltrúa að þær yrðu stöðvaðar og með vísan til umfangs framkvæmdanna varð byggingarfulltrúi við þeirri kröfu.  Í kjölfarið óskaði húseigandinn að Garðarstræti 41 eftir því að gefið yrði út byggingarleyfi vegna framkvæmdanna.  Hinn 26. ágúst 2003 samþykkti byggingarfulltrúi útgáfu byggingarleyfis vegna tennisvallarins og var embættisafgreiðsla hans staðfest á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. ágúst sama ár.

Málsrök kærenda:  Kærendur eru verulega ósáttir við framkvæmdir á lóðinni að Garðastræti 41.  Þeir halda því fram að miklu magni af fyllingarefni hafi verið ekið inn á lóðina og hún jöfnuð út til norðurs, þ.e. að lóðarmörkum Garðastrætis 39.  Hafi fyllingarefnið verið sett upp að millivegg lóðarinnar og lóðar kærenda.  Leiði þetta til þess að nú sé horft niður í garðinn hjá kærendum.  Þá hafi byggingarleyfishafinn rifið og hent áratuga gömlum trjágróðri, sem áður hafi prýtt lóðina.

Kærendur halda því fram að ein af höfuðástæðum þess að þeir hafi kært umrædda framkvæmd sé sú, að framkoma byggingarleyfishafa gagnvart þeim hafi einkennst af yfirgangi, væntanlega í skjóli úrlendisréttar, sem leyfishafi telji sig varinn af.  Aftur á móti sé skýrt tekið fram í 41. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961 að sendimönnunum beri að virða lög og reglur móttökuríkisins, þó þannig að forréttindi þeirra og friðhelgi skerðist ekki.  Kærendur álíta að bygging tennisvallar, sem sé óþekkt með öllu hérlendis inni í grónu og gömlu íbúðahverfi, hafi ekkert með friðhelgi og forréttindi erlendra sendimanna að gera.  Sú framkvæmd hafi heldur ekki nein áhrif á starfsemi sendiráðs Kína hér á landi. 

Kærendur benda á slysahættu sem fylgt geti tennisiðkun því tennisboltar séu mjög harðir viðkomu.  Atvinnumenn nái allt að 200 kílómetra hraða á tennisbolta í upphafshöggum sínum.  Það sé m.a. af þessari ástæðu sem tennisvellir erlendis, sem séu inni í íbúða- eða hótelbyggðum, hafi 5-10 metra hátt net umhverfis sig.  Í því tilfelli sem hér sé til úrlausnar sé gert ráð fyrir því að netið verði 180 sentimetrar sem sé hvergi nægjanlegt til að koma í veg fyrir slysahættu. 

Kærendur halda því fram að tennisleik fylgi umtalsverður hávaði.  Hann stafi af tíðni högga og hörku boltanna, sem notaðir séu í leiknum.  Þó ekki væri nema af þessari ástæðu sé ljóst að nýting íbúðarlóðar inni í friðsælu hverfi til tennisleiks sé fráleit.  Nýting vallarins verði væntanlega að sumri til á þeim tíma, sem nágrannar þeirra nýta sínar lóðir hvað mest. 

Kærendur halda því og fram að framkvæmdin kunni að hafa áhrif þegar þeir hyggist selja eignir sínar en það fari þó eftir því hversu mikil tennisiðkunin verði.  Megintilgangur úrlendisréttarins felist ekki í því að erindrekarnir geti í skjóli hans valdið þegnum móttökuríkisins fjárhagstjóni með því sem falli undir tómstundaiðju þeirra en ekki skyldustörf.

Kröfu sína um tafarlausa stöðvun framkvæmda styðja kærendur þeim rökum að byggingarleyfishafinn hafi svo einbeittan vilja til að ljúka framkvæmdum, að hann hafi ekki látið deigan síga við framkvæmdina þrátt fyrir að honum og arkitektum hans sé fullkunnugt um megna óánægju kærenda.  Nú sé verið að leggja gervigras á lóðina, teikna útlínur vallarins o.s.frv.

Þá telja kærendur að úrskurður úrskurðarnefndarinnar nr. 10/2002, sem fjallað hafi um byggingu tengibyggingar á lóð bandaríska sendiráðsins milli tveggja húseigna í eigu þess, hafi ekkert fordæmisgildi í þessu kærumáli.  Þessi skoðun byggist á því, að það mál hafi haft beina þýðingu fyrir daglega starfsemi sendiráðsins og hafi niðurstaðan (frávísun) verið eðlileg.  Aftur á móti fjalli þessi kæra um alls óskyldan hlut því tómstundaiðja starfsmanna byggingarleyfishafa falli ekki undir Vínarsáttmálann um stjórnmálasamband ríkja.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi krefst frávísunar málsins og bendir á að framkvæmdin sé alfarið innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína, sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæði friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um leyfi til gerðar tennisvallarins, svo lögmæti framkvæmdarinnar yrði ekki dregið í efa. 

Með vísan til reglna úrlendisréttarins hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, sem handhafi framkvæmdavalds, ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttarins um stjórnmálasamband. 

Verði ekki fallist á frávísun á grundvelli framangreinds krefst byggingarleyfishafi frávísunar þar sem kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Byggingarleyfishafa hafi verið veitt leyfi til gerðar tennisvallar á lóðinni.  Ekki verði sé að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 39 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði kröfur byggingarleyfishafa um frávísun ekki teknar til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda.  Leitast hafi verið við að fara í einu og öllu eftir kröfum byggingaryfirvalda og tennisvöllurinn verði eingöngu notaður til tennisiðkunar í frístundum en ekki sé um eiginlegan íþróttavöll að ræða.  Því eigi athugasemdir kærenda um slysahættu og hávaðamengun ekki við.

Byggingarleyfishafinn bendir á að í upphafi hönnunarferlis varðandi útfærslu girðingar umhverfis völlinn hafi verið haft samband við nágranna og hafi all margir þeirra samþykkt að hún yrði sett upp á lóðarmörkum.  Þá hafi deildarstjóri Garðyrkjudeildar borgarinnar ekki lagst gegn því að tré á lóðinni yrðu fjarlægð.

Niðurstaða:  Í máli þessu kröfðust kærendur þess að framkvæmdir við gerð umrædds tennisvallar yrðu stöðvaðar.  Með hliðsjón af eðli umræddra framkvæmda og því að þeim var að mestu lokið, svo og með tilliti til líklegrar niðurstöðu málsins, þóttu ekki efni til að taka þá kröfu sérstaklega til meðferðar.  Málið er hins vegar nú tekið í heild til efnislegrar úrlausnar.

Hið umdeilda byggingarleyfi varðar framkvæmdir á lóðinni nr. 41 við Garðarstæti, en eins og að framan hefur verið rakið er Viðskiptaskrifstofa kínverska sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir byggingarleyfi vegna gerðar tennisvallar á lóðinni og var fallist á umsóknina af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð er til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

66/2002 Garðastræti

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2002, kæra íbúa að Garðastræti 43, Reykjavík á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar að Garðastræti 41.

Í málinu er nú kveðin upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. nóvember 2002, er barst nefndinni sama dag, kæra E, Á, U, D og K, eigendur og leigjendur fasteignarinnar að Garðastræti 43, Reykjavík, ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 23. október 2002 um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti . 

Hin kærða ákvörðun var samþykkt í borgarráði hinn 29. október 2002. 

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Með bréfi, dags. 3. september 2002, óskaði Andrúm arkitektar ehf., f.h. kínverska sendiráðsins á Íslandi, eftir því við skipulags- og byggingaryfirvöld Reykjavíkur að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti yrði breytt, þannig að heimilað yrði að byggja bílskúr á lóðinni.

Beiðnin var grenndarkynnt frá 9. september 2002 til 7. október s.á. og gerðu kærendur athugasemdir við framkomna tillögu er lutu að því að húsið væri á svæði þar sem húsum, samkvæmt skipulagi, skyldi raskað sem minnst og þá sérstaklega gagnvart götumynd. 

Tillaga að breyttu deiliskipulagi lóðarinnar var samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 23. október 2002.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er því haldið fram að hið samþykkta deiliskipulag sé andstætt lögvörðum hagsmunum þeirra. 

Kærendur halda því fram að húsaröðin við Garðastræti njóti svæðisbundinnar verndar sem takmarki mjög heimildir til breytinga á þeim hluta lóðanna er að götu snúi.  Breytingin á skipulaginu sé óþörf þar sem unnt sé að koma bílskúrnum fyrir á norðurhluta lóðarinnar.  Byggt sé að lóðarmörkum og þrengt að nágrönnum, þar sem örmjó ræma verði eftir að spennistöð Orkuveitu Reykjavíkur, sem standi nærri lóðarmörkum.

Málsrök húseiganda að Garðastræti 41:  Húseigandi krefst frávísunar málsins og bendir á að breyting deiliskipulagsins sé alfarið á svæði sem sé innan lóðar Viðskiptaskrifstofu Kína sem sé hluti sendiráðs Kína.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland sé aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, njóti sendirráðssvæðið friðhelgi og sé undanþegið framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. sama samnings sé það aftur á móti skylda allra þeirra sem njóti forréttinda og friðhelgi að virða lög og reglur móttökuríkisins en þó þannig að forréttindi og friðhelgi skerðist ekki.  Í samræmi við þær skyldur hafi verið sótt um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sbr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og í framhaldi af því um leyfi til byggingar umræddrar bílgeymslu.  Með vísan til þessa hafi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sem handhafi framkvæmdarvalds ekki lögsögu um rétt og skyldur sendiráðs Kína, þar sem slíkum ágreiningi verði einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðarréttar um stjórnmálasamband. 

Auk framanritaðs er frávísunarkrafan studd þeim rökum að kærendur skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og eigi þar af leiðandi ekki aðild að því.  Deiliskipulagið feli í sér heimild til að byggja bílgeymslu á lóðinni nr. 41 við Garðastræti.  Ekki verði séð að það varði hagsmuni íbúa Garðastrætis nr. 43 þannig að þeir teljist eiga einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.  Því sé hafnað að kærendur eigi aðildarstöðu og því beri að vísa málinu frá.

Verði frávísunarkrafan ekki tekin til greina er þess krafist að úrskurðarnefndin hafni kröfum kærenda því þær lúti aðallega að því að breytingin sé óæskileg og í ósamræmi við skipulag, auk þess sem bílaumferð sunnan við húsið valdi óþarfa truflun.  Þessum fullyrðingum sé hafnað sem órökstuddum, enda sé það í samræmi við skipulag hverfisins að heimila byggingu bílgeymslu og veita eiganda lóðarinnar þannig möguleika á þeirri nýtingu hennar sem samræmist nútíma kröfum. 

Niðurstaða:  Hið umdeilda deiliskipulag varðar lóðina að Garðastræti 41, en fasteignin er í eigu kínverska sendiráðsins á Íslandi og er Viðskiptaskrifstofa sendiráðsins þar til húsa.  Samkvæmt 22. gr. Vínarsamningsins um stjórnmálasamband frá 18. apríl 1961, sem Ísland er aðili að, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1971, nýtur sendiráðssvæðið friðhelgi, en jafnframt njóta sendierindrekar friðhelgi og eru undanþegnir framkvæmdavaldslögsögu móttökuríkis samkvæmt 31. gr. samningsins.  Samkvæmt 41. gr. er það aftur á móti skylda allra þeirra, sem njóta forréttinda og friðhelgi, að virða lög og reglur móttökuríkisins, en þó þannig að forréttindi þeirra eða friðhelgi skerðist eigi.  Í samræmi við þessa skyldu óskaði sendiráð Kína eftir því að breyting yrði gerð á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 41 við Garðastræti og var fallist á það af borgaryfirvöldum.  Er það sú stjórnvaldsákvörðun sem kærð var til úrskurðarnefndarinnar í máli þessu.

Þrátt fyrir að það sé lögbundið hlutverk úrskurðarnefndarinnar að endurskoða ákvarðanir sveitarstjórna um skipulags- og byggingarmál, sem undir hana eru bornar með stjórnsýslukærum, leiðir af 22. og 31. gr. áðurgreinds þjóðréttarsamnings að úrskurðarnefndin hefur ekki, sem handhafi framkvæmdavalds, lögsögu um rétt eða skyldur sendiráðs Kína í máli þessu, heldur verður slíkum ágreiningi einungis ráðið til lykta í samræmi við reglur þjóðaréttarins um stjórnmálasamband.  Máli þessu er því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í málinu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                Ingibjörg Ingvadóttir

 

47/2002 Geldingsá

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2002, kæra eiganda húseignarinnar að Hjalteyrargötu 1, Akureyri á synjun byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 20. ágúst 2002 um leyfi fyrir frístundahúsi að Geldingsá í Svalbarðsstrandarhreppi, sem flutt yrði frá Hjalteyrargötu 1.
 
Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2002, er barst nefndinni hinn 28. sama mánaðar, kærir L, eigandi húseignarinnar að Hjalteyrargötu 1, Akureyri, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 20. ágúst 2002 að synja honum um leyfi til niðursetningar frístundahúss að Geldingsá, Svalbarðsstrandarhreppi, sem flutt yrði frá Hjalteyrargötu 1.

 Kærandi krefst þess að ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi. 

Samþykkt byggingarnefndar var staðfest í hreppsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps hinn 3. september 2002. 

Málavextir:  Á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis hinn 6. júní 2002 var tekin fyrir beiðni kæranda þess efnis að fá að flytja gamalt timburhús sem stóð á lóðinni nr. 1 við Hjalteyrargötu, Akureyri á sumarhúsalóð nr. 14 að Geldingsá í Svalbarðsstrandarhreppi.  Byggingarnefnd hafnaði beiðninni með vísan til þess annars vegar að húsið væri ekki hæft til endurbyggingar sem frístundahús og hins vegar að það væri yfir stærðarmörkum samkvæmt byggingarskilmálum svæðisins.

Kærandi óskaði eftir því að byggingarnefndin tæki málið fyrir að nýju og óskaði svara við því hvað gera þyrfti til að beiðni hans yrði samþykkt ásamt því hversu mikið af efni hússins mætti nýta. 

Erindi kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar hinn 16. júlí 2002 og var þá eftirfarandi bókað:  „Í fyrsta lagi að húsin á svæðinu fari ekki yfir 80 fermetra, nema sérstök rök liggi þar að baki.  Í öðru lagi að húsin fari vel í landinu eins og gert er ráð fyrir í deiliskipulagsskilmálum svæðisins.  Það gefur auga leið að hús sem eru byggð til allt annarra nota en frístundahúsa henta í mörgum tilfellum alls ekki til slíkra nota og telur byggingarnefnd að svo sé í þessu tilfelli.  Ber þar aðallega að nefna breidd hússins sem er mun meiri en tíðkast yfirleitt um frístundahús.  Húsið yrði ekki í neinu samræmi við þau nýju hús sem þegar er búið að byggja á skipulagssvæðinu.  Hluti byggingarnefndar og byggingarfulltrúi hafa skoðað húsið og telja eðlilegast að það verði rifið og sé möguleiki á að nýta eitthvað af efni úr húsinu, verði það burðarþolshönnuður og byggingarstjóri sem meti hvað sé nýtanlegt í nýtt frístundahús, sem yrði þó háð samþykki byggingarfulltrúa sem eftirlitsaðila.“

Í bréfi, dags. 30. júlí 2002, ritaði kærandi enn bréf til byggingarnefndarinnar þar sem hann óskaði eftir samþykki nefndarinnar á frístundahúsi, sem staðsetja átti á lóð nr. 14 að Geldingsá og lýsti endurbyggingu þess. 

Á fundi byggingarnefndar hinn 20. ágúst 2002 var erindi kæranda tekið til afgreiðslu og hafnað með vísan til fyrri bókana varðandi efnið.

Þessari ákvörðun byggingarnefndar skaut kærandi til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst þess að ákvörðun byggingarnefndar verði felld úr gildi.  Hann hafi óskað eftir leiðbeiningum nefndarinnar um það hvernig koma mætti húsinu fyrir á lóðinni svo uppfyllt yrðu skipulagsskilyrði, en ekki fengið.

Þá sé það ekki á færi byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis að segja til um niðurrif húsa í öðru sveitarfélagi.  Kærandi hafi ekki ætlað sér annað en að fylgja eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga varðandi burðarþol og eftirlit en hann hafi óskað eftir leiðbeiningum nefndarinnar til þess að málið næði fram að ganga, en ekki fengið. 

Kærandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið leiðbeiningar um kæruheimild hjá byggingarfulltrúa Eyjafjarðarsvæðis heldur hafi byggingarfulltrúinn á Akureyri tjáð honum þann möguleika. 

Málsrök byggingarnefndar Eyjafjarðasvæðis:  Byggingarnefndin heldur því fram að þó svo að teikning sem fylgdi erindi kæranda brjóti ekki gegn byggingarskilmálum sem gildi fyrir svæðið sé það mat nefndarinnar að viðkomandi hús sé ekki hæft til endurbyggingar sem frístundahús.  Í greinargerð með deiliskipulagi fyrir frístundabyggð að Geldingsá segi að húsgerð og lega skuli háð samþykki byggingarnefndar og að stærð þeirra skuli að jafnaði ekki vera meiri en 80 m².  Þá segi ennfremur í skilmálunum að haga skuli gerð húsa og litavali þannig að það falli sem best að umhverfi svæðisins.  Með vísan til þessa beri byggingarnefnd að leggja faglegt mat á þau mannvirki sem fyrirhugað sé að reisa á svæðinu. 

Niðurstaða:  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á málinu kom í ljós að húseign sú sem um ræðir, Hjalteyrargata 1, hefur verið flutt af grunni og sett niður á Árskógssandi.  Þá hefur kæranda verið veitt byggingarleyfi vegna nýs frístundahúss á sumarhúsalóðinni nr. 14 að Geldingsá í Svalbarðsstrandarhreppi. 

Með vísan til þessa á kærandi ekki lögvarða hagmuni af því að fá úrskurð kveðinn upp í málinu og verður af þeim sökum ekki frekar fjallað um fram komnar kröfur. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri kærunni frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________
Ásgeir Magnússon

_______________________        _____________________
Þorsteinn Þorsteinsson                   Ingibjörg Ingvadóttir

61/2001 Flugvallarvegur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 9. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2001, kæra eiganda Keiluhallarinnar, Flugvallarvegi við Öskjuhlíð, Reykjavík, á samþykkt borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2001 um sölu á viðbyggingarrétti við Keiluhöllina, Öskjuhlíð.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. september 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Hilmar Magnússon hdl., f.h. H ehf., kt. 441193-3199, eiganda Keiluhallarinnar, Flugvallarvegi við Öskjuhlíð, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. apríl 2001 að samþykkja umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings þar sem lagt var til að byggingarréttur við Keiluhöllina við Öskjuhlíð yrði seldur eiganda fasteignarinnar.  Fer kærandi fram á að vikið verði frá kærufresti og málið tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Málavextir:  Með bréfi til skipulags- og umferðarnefndar, dags. 20. desember 2000, var þess farið á leit af hálfu kæranda að veitt yrði leyfi fyrir stækkun Keiluhallarinnar um 500 fermetra.   Skipulags- og umferðarnefnd fór með skipulagsmál fram til þess að skipulagsnefnd og byggingarnefnd Reykjavíkur voru sameinaðar í eina nefnd hinn 1. október 2000.  Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 17. janúar 2001 en afgreiðslu þess var þá frestað.  Mun hafa verið leitað álits borgarskipulags um þýðingu samnings milli borgarinnar og þáverandi eiganda Keiluhallarinnar frá 25. maí 1994 um greiðslu Reykjavíkurborgar fyrir eftirgjöf byggingarréttar ofan á umrætt hús og endurgreiðslu gatnagerðargjalda vegna þess byggingarréttar.  Erindið var síðan til umfjöllunar á fundi nefndarinnar hinn 24. janúar 2001, þar sem fyrir lá umsögn Borgarskipulags um hvort fyrrgreindur samningur frá árinu 1994 gæti leitt til þess að greiða ætti fyrir umsóttan byggingarrétt.  Var niðurstaða Borgarskipulags sú að svo væri ekki.  Málið var síðan tekið fyrir í nefndinni hinn 21. febrúar 2001 og var  samþykkt að auglýsa breytingu á deiliskipulagi svæðisins til samræmis við umsótta viðbyggingu.  Borgarráð samþykkti þessa afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar á fundi hinn 27. febrúar 2001 en ákvað jafnframt að fela skrifstofustjóra Borgarverkfræðings að gefa umsögn um málið með hliðsjón af fyrri ákvörðunum borgarráðs varðandi byggingarrétt við Keiluhöllina.  Skipulagstillaga sú sem skipulags- og byggingarnefnd samþykkti fyrir sitt leyti og borgarráð staðfesti hinn 27. febrúar mun hafa fengið lögboðna meðferð og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda í kjölfar umfjöllunar Skipulagsstofnunar.

Umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings, sem borgarráð hafði ákveðið að leita eftir á fundi sínum hinn 27. febrúar 2001, var lögð fyrir borgarráð á fundi þess hinn 10. apríl 2001.  Mun niðurstaða umsagnarinnar hafa verið sú, að með hliðsjón af sölu byggingarréttar eiganda Keiluhallarinnar til borgarinnar á árinu 1994 væri rétt, að krefjast greiðslu fyrir umsótta viðbyggingu við húsið samkvæmt erindinu frá 20. desember 2000.  Samþykkti borgarráð umsögnina á þeim fundi.  Kærandi kærði þá ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins hinn 17. júlí 2001.  Ráðuneytið vísaði kærunni frá með úrskurði, dags. 6. nóvember 2001, með þeim rökum að álitaefnið ætti undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála samkvæmt 8. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Í úrskurðinum kemur fram að kæranda hafi verið tilkynnt um umdeilda ákvörðun borgarráðs með bréfi, dags. 17. apríl 2001, og hafi kæran því borist ráðuneytinu við lok almenns kærufrests hinn 17. júlí s.á.  Hafi því ekki verið unnt að framsenda erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Er kæranda þar bent á að óska eftir því við úrskurðarnefndina að vikið verið frá kærufresti 3. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga en að öðrum kosti eigi kærandi þess kost að bera málið undir dómstóla.

Að fengnum þessum málalyktum skaut kærandi málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi telur að með hinni umdeildu afgreiðslu borgarráðs hafi verið gengið gegn hagsmunum hans með ólögmætum og óréttmætum hætti, þar sem lagaheimild skorti fyrir gjaldtöku fyrir veitingu byggingarréttar, auk þess sem ákvæði stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt og farið hafi verið á svig við góða stjórnsýsluhætti við meðferð málsins.  Fyrirhuguð gjaldtaka, sem samkvæmt umsögn borgarverkfræðings verði kr. 2.437 fyrir hvern fermetra viðbyggingarinnar miðað við verðlag í mars 2001, auk greiðslu gatnagerðargjalda, sé augljóslega gjaldtaka eða skattur sem verði að eiga stoð í lögum.  Slík gjaldtaka hljóti að þurfa að styðjast við málefnaleg sjónarmið en ekkert samhengi sé milli ákvörðunar um gjaldtöku og raunkostnaðar Reykjavíkurborgar við veitingu byggingarréttarins.

Telur kærandi að samningur fyrri eiganda Keiluhallarinnar og Reykjavíkurborgar frá árinu 1994, um eftirgjöf byggingarréttar ofan á húsið og greiðslu Reykjavíkurborgar af því tilefni, eigi enga þýðingu að hafa við úthlutun byggingarréttar til kæranda.  Ella væru yfirvöld að beita ómálefnalegum sjónarmiðum við ákvarðanatöku í málinu.  Skírskotar kærandi til álits Borgarskipulags frá 21. janúar 2001 um þetta álitaefni.  Jafnvel þótt byggingarréttur geti haft fjárgildi í samningum milli manna, leiði það ekki til þess að það yfirvald, sem að lögum hafi það hlutverk að úthluta þeim rétti, geti selt þann rétt sér til ávinnings.  Fyrrgreindur samningur frá árinu 1994 hafi ekki haft í för með sér að réttur til viðbyggingar Keiluhallarinnar væri takmarkaður enda hafi þar verið um sölu á mjög afmörkuðum réttindum að ræða sem Reykjavíkurborg hafi metið til fjár.

Bendir kærandi á að hann hafi fengið leyfi fyrir viðbyggingu við umrædda fasteign á árinu 1997 án þess að til hafi komið krafa um söluandvirði réttarins af hálfu Reykjavíkurborgar.  Því sé ljóst að ekki gæti samræmis í ákvarðanatökum borgarinnar að þessu leyti og hin umdeilda ákvörðun virðist tekin að geðþótta.  Stjórnvöld hafi farið offari við málsmeðferðina en stjórnvöld verði að gæta meðalhófs við ákvarðanir sínar.  Andmælaréttur kæranda hafi auk þess verið brotinn þar sem honum hafi ekki verið kynnt umsögn borgarverkfræðings frá 30. mars 2001, sem hafi verið undanfari hinnar kærðu ákvörðunar borgarráðs, en ákvörðunin varði verulega fjárhagslega hagsmuni kæranda.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óröskuð.

Fyrir frávísunarkröfunni eru færð fram þau rök að gögn málsins beri með sér að málskot kæranda til félagsmálaráðuneytisins vegna samþykktar borgarráðs hafi fyrst legið fyrir rúmlega þremur mánuðum eftir hina kærðu samþykkt, eða hinn 16. júlí 2001.  Úrskurður ráðuneytisins hafi verið kveðinn upp hinn 6. nóvember 2001 eða tæplega sjö mánuðum eftir ákvörðun borgarráðs.  Málið hafi ekki verið borið undir úrskurðarnefndina fyrr en með bréfi lögmanns kæranda, dags. 27. desember 2001, eða meira en einum og hálfum mánuði eftir að úrskurður félagsmálaráðuneytisins lá fyrir.  Ekkert hafi gerst í málinu fyrr en úrskurðarnefndin hafi kallað eftir umsögn Reykjavíkurborgar í málinu í maí 2003.  Það sé skoðun Reykjavíkurborgar að með engu móti sé unnt að verða við þeirri beiðni kæranda að falla frá kærufresti og taka málið til úrskurðar.  Kæruheimildir séu afar skýrar og komi fram í 8. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga, en þar sé kveðið á um að kærufrestur sé einn mánuður frá því að aðila varð kunnugt um ákvörðun og skuli úrskurður kveðinn upp svo fljótt sem auðið er en eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að kæra berist og í undantekningartilvikum að liðnum þremur mánuðum.  Því séu gerðar ríkar kröfur til málshraða á þessu sviði og að kærur berist án ástæðulauss dráttar.  Sú kæra sem nú er óskað umsagnar um hafi borist úrskurðarnefndinni rúmlega sjö mánuðum eftir að ákvörðun borgarráðs lá fyrir og beri að vísa henni frá með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum.
 
Í 2. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að úrskurðarvald um ágreining samkvæmt lögunum eigi undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.  Þrátt fyrir það sé ákvörðun borgarráðs kærð til félagsmálaráðuneytisins en kærandi hafi notið lögmannsaðstoðar við gerð kærunnar.  Sú ráðstöfun kæranda, að kjósa þá leið að að bera málið undir félagsmálaráðuneytið, geti ekki leitt til þess að kærufrestur verði annar og lengri í ljósi þeirrar skoðunar ráðuneytisins að málið heyri ekki undir það.  Af þessum sökum og með hliðsjón af nauðsyn á skjótri úrlausn ágreiningsmála á sviði skipulags- og byggingarmála, sem búi að baki fyrrgreindum lagaákvæðum um kærufrest og tímamörkum fyrir úrskurði í þeim málum, beri einnig að vísa kæru þessari frá.  Engu breyti þótt afsakanlegt yrði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti vegna málskotsins til ráðuneytisins.  Ekkert geti afsakað það tómlæti kæranda að senda kæruna til úrskurðarnefndarinnar meira en sjö vikum eftir að honum varð kunn niðurstaða ráðuneytisins.  Úrskurður félagsmálaráðuneytisins hafi legið fyrir hinn 6. nóvember 2001 og frá þeim tíma hafi kæranda verið um úrskurðinn kunnugt.  Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að málskot kæranda til úrskurðarnefndarinnar hefði átt sér stað innan mánaðar frá uppkvaðningu úrskurðar ráðuneytisins.

Þá verði að líta til þess að löggjafinn geri ríkar kröfur til þess að mál hljóti skjóta afgreiðslu hjá úrskurðarnefndinni eins og 8. gr. skipulags- og byggingarlaga beri með sér.  Í máli þessu hafi verið óskað umsagnar Reykjavíkurborgar 17 mánuðum eftir að nefndinni hafi borist umrædd kæra og verði að telja að hér sé um slíkt tómlæti að ræða og svo skýr brot á settum sérlagaákvæðum um málshraða að ekki verði leyst úr kærunni nú og því beri að vísa henni frá af þeim sökum.  Að sömu niðurstöðu leiði að slíkur dráttur sé orðinn á úrlausn máls þessa að stjórnsýsluúrræði það sem felst í afgreiðslu úrskurðarnefndarinnar á kæru málsins og þau sjónarmið sem að baki því úrræði búi séu ekki lengur fyrir hendi.  Það sé meginhlutverk sérstakra úrskurðarnefnda að veita borgurunum kost á skjótari réttarúrræði en að leita til almennra dómstóla.  Ætla verði, miðað við þann tíma sem nú sé liðinn frá ákvörðun borgarráðs og með hliðsjón af framkomu kæranda, að hagsmunir hans, sem ætlunin sé að tryggja með málskotsúrræði til sérstakrar úrskurðarnefndar, séu eins og komið sé jafntryggðir eða betur með málskoti til dómstóla. 

Frávísunarkrafan sé og studd þeim rökum að álitaefni máls þessa eigi ekki undir úrskurðarnefndina.  Í málinu sé um það deilt hvort sala Reykjavíkurborgar á byggingarrétti við Keiluhöllina í Öskjuhlíð sé lögmæt og styðjist við málefnaleg sjónarmið.  Úrskurðarvald nefndarinnar takmarkist við mál sem tengist ákvæðum laga nr. 73/1997.  Það sé ekki á valdsviði nefndarinnar að taka afstöðu til hvort sveitarfélögum sé heimilt að selja byggingarrétt eða ekki.  Sala á byggingarrétti, líkt og sala á öðrum fasteignatengdum réttindum, sé einkaréttarlegs eðlis.  Fái sú skoðun stuðning í áliti umboðsmanns Alþingis í bréfi, dags. 27. nóvember 1997, þar sem staðfest hafi verið að sala Reykjavíkurborgar á geymsluhúsnæði hafi verið gerningur á sviði einkaréttar og jafnframt að ákvæði stjórnsýslulaga giltu ekki um einkaréttarlega samninga.

Með hliðsjón af framangreindum röksemdum og sjónarmiðum, skýrum ákvæðum skipulags-og byggingarlaga nr. 73/1997 um kærufresti, fresti til úrlausnar mála fyrir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála og hagsmuna og málsatvika að öðru leyti beri að vísa máli þessu frá nefndinni.

Verði málið tekið til efnismeðferðar er vísað til þess að byggingarréttur á lóð, hvort heldur sem um sé að ræða viðbyggingar- eða nýbyggingarrétt, sé háður eignarrétti, sbr. t.d. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.  Um sé að ræða fasteignatengd réttindi, sem almennt verði ráðstafað með samningum og geti verið sérstakt veðandlag.  Um verðmæti byggingaréttar gildi engar gjaldskrár eða verðskrár, heldur taki verð hans mið af markaðsaðstæðum.  Með deiliskipulagi sé ákvarðaður byggingarréttur á einstökum lóðum.  Með því að skilgreina nýtingu lands, heimila uppbyggingu þess og tiltekna nýtingu, aukist að jafnaði verðmæti þess.  Við verðmat á landi og lóðum sé m.a. litið til atriða eins og staðsetningar, landnotkunar og byggingarréttar.  Gildi einu hvort landið sé í einkaeigu eða eigu opinberra aðila.  Með deiliskipulagningu landsins verði til verðmæti sem séu fólgin í nýtingarmöguleikum þess, sem eigendum landsins sé heimilt að ráðstafa á einkaréttarlegum grundvelli.  Einkaaðili, eða eftir atvikum opinber aðili, geti ráðstafað þeim verðmætum með sölu byggingarréttar á lóð sem hann eigi sjálfur eða hafi fengið á leigu frá sveitarfélaginu, ef ráðstöfun lóðarinnar eða þeirra réttinda sem henni tengist, sé ekki sérstökum takmörkunum háð.  Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skuli sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveði. Í 1. gr. sveitarstjórnarlaga komi fram að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð.  Sveitarfélög hafi því sjálfsákvörðunarrétt um þau málefni sveitarfélagsins sem ekki sé sérstaklega mælt fyrir um í lögum.  Í lögum sé ekki að finna ákvæði um skyldu sveitarfélaga til úthlutunar byggingarréttar til fyrirtækja og einstaklinga.  Úthlutun byggingarlóða sé því ekki meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga og megi vísa í þessu sambandi til úrskurða félagsmálaráðuneytisins, sem uppkveðnir hafi verið hinn 17. apríl 2001 vegna lóðaúthlutana í Mosfellsbæ, 9. október 2001 vegna lóðaúthlutana í Hafnarfirði og 28. janúar 2002 vegna lóðaúthlutana í Garðabæ.  Í öllum úrskurðunum líti ráðuneytið svo á að lóðaúthlutanir sveitarfélaga teljist ekki til lögbundinna verkefna en í niðurstöðum ráðuneytisins sé m.a. bent á að í 6. mgr. 6. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 hafi verið að finna upptalningu á helstu verkefnum sveitarfélaga og væri úthlutun byggingarlóða ekki þar á meðal.  Með vísan til venju og eðlis máls telji ráðuneytið ekki vafa á því að sveitarfélögum sé heimilt að úthluta byggingarlóðum, líkt og þeim sé heimilt að taka ákvarðanir um aðra fjárhagslega hagsmuni sína og vísi ráðuneytið í þessu sambandi sérstaklega til 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga.  Ekki síst með hliðsjón af þessum úrskurðum félagsmálaráðuneytisins verði að telja að sala byggingarréttar geti ekki talist slík nauðsynjaþjónusta sveitarfélaganna að um hana eigi að gilda hliðstæð sjónarmið og um lögbundna þjónustu sveitarfélaga.  Sveitarfélögum sé á hinn bóginn heimilt samkvæmt 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 að taka að sér hvert það verkefni sem varði íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.  Á grundvelli 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga hafi það verið talið til lögmætra verkefna að bjóða fram byggingarrétt á lóðum til þess að efla og styrkja byggðina, mannlíf og atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu.  Sama hljóti að gilda um kaup og sölu fasteigna og fasteignatengdra réttinda.  Í þessu sambandi megi benda á dóm Hæstaréttar í máli nr. 150/2000, en þar hafi reynt á það hvort Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að jafna fjárhæð eignarnámsbóta vegna tiltekins lands niður á leigutaka allra lóða á því landi í formi upptökugjalda.  Hafi Hæstiréttur talið að sveitarfélaginu hafi verið heimilt að leggja á sérstakt upptökugjald enda væri hvorki um að ræða skatt eða þjónustugjöld og umræddur lóðarhafi hafi gengið að úthlutunarskilmálum sem kváðu á um slíkt gjald.  Í niðurstöðu Hæstaréttar sé sérstaklega bent á að við undirritun lóðarleigusamnings hafi komist á samningur einkaréttarlegs eðlis milli aðila en með vísan til þess og annarra sjónarmiða sem fram komi í dóminum, m.a. að málefnalegar ástæður geta legið til þess að innheimta slíkt gjald á sumum byggingarsvæðum en öðrum ekki, hafi Hæstiréttur talið að ekki hafi þurft að mæla fyrir um upptökugjald þetta í lögum.  Með skírskotun til þessa dóms telji Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að selja sérstaklega byggingarétt án sérstakrar lagaheimildar enda sé um að ræða sölu á verðmætum líkt og upptökugjald Hafnarfjarðarbæjar sem hvorki teljist skattur né þjónustugjöld.  Með sölu byggingarréttar sé ekki verið að skerða hagsmuni lóðarhafans, enda sé hin umdeilda greiðsla hans endurgjald fyrir tiltekin, framseljanleg verðmæti, sem byggist á málefnalegum sjónarmiðum.  Sveitarstjórn beri skylda til að rýra ekki verðgildi eigna sveitarfélagsins með aðgerðum sínum, heldur beri henni að standa vörð um auðlindir þess og gæta þess að þær séu nýttar á forsvaranlegan hátt. Byggingarland og skilgreindur byggingarréttur teljist til slíkra auðlinda.  Það hljóti því að vera skylda sveitarstjórnar að varpa ekki frá sér þeim verðmætum, sem í byggingarrétti felast.

Með vísan til umsagnar borgarlögmanns til félagsmálaráðuneytisins vegna málsins, dags. 25. september 2001, málsatvika þessa máls og með hliðsjón af framangreindu telji Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að selja viðbyggingarrétt á lóð Keiluhallarinnar við Öskjuhlíð.  Sæki sú heimild sér m.a. stoð í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, almennar skyldur sveitarfélaga um að hámarka þau verðmæti sem felist í auðlindum sveitarfélagsins og því að sala á fasteignatengdum réttindum séu gerningar á sviði einkaréttar.

Niðurstaða:  Af hálfu kæranda var sent inn erindi, dags. 20. desember 2000, til skipulags- og umferðarnefndar er fól í sér beiðni um leyfi fyrir 500 fermetra viðbyggingu við Keiluhöllina við Öskjuhlíð.  Gögn málsins bera með sér að þörf hafi verið á deiliskipulagsbreytingu svæðisins ef samþykkja ætti viðbygginguna.  Skipulags- og byggingarnefnd samþykkti að auglýsa deiliskipulagsbreytingu sem gerði ráð fyrir viðbyggingu og fjölgun bílastæða.  Borgarráð staðfesti skipulagstillöguna á fundi hinn 27. febrúar 2001 og mun skipulagstillagan hafa öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 431/2001.  Ekki verður séð að erindi kæranda hafi verið sem byggingarleyfisumsókn til meðferðar og afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa, byggingarnefnd eða borgarstjórn.

Hin kærða samþykkt borgarráðs hljóðar svo:  „Lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarverkfræðings frá 30. f.m. um viðbyggingu við Keiluhöllina í Öskjuhlíð, þar sem lagt er til að byggingarréttur verði seldur auk greiðslu gatnagerðargjalds.  Borgarráð samþykkir umsögnina með 6 samhljóða atkvæðum.”  Samkvæmt þessari bókun fól samþykktin í sér afstöðu ráðsins til umsagnar borgarverkfræðings þar sem mælt var með að viðbyggingarréttur við Keiluhöllina við Öskjuhlíð yrði seldur á tilteknu verði.  Samþykktin var ekki þáttur í meðferð fyrrgreindrar skipulagstillögu eða meðferð byggingarleyfisumsóknar, enda heyra slíkar umsóknir ekki undir borgarráð, sbr. 38. og 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Að þessu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða samþykkt feli ekki í sér lokaákvörðun á erindi kæranda frá 20. desember 2000 og sé því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða sé að öðru leyti ákvörðun á sviði skipulags- og byggingarmála sem borin verði undir úrskurðarnefndina.  Er kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.  Að þessari niðurstöðu fenginni þykja ekki efni til að taka afstöðu til annarra málsástæðna fyrir frávísun málsins eða efnisúrlausn þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________          _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Ingibjörg Ingvadóttir

51/2002 Aragerði

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 2. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2002, kæra fyrrum eiganda húseignarinnar að Aragerði 16, Vogum á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 9. september 2002 um að hafna umsókn hans um leyfi til að starfrækja myndbandaleigu í bílgeymslu að Aragerði 16, Vogum.

Í málinu er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. september 2002, er barst nefndinni hinn 19. sama mánaðar, kærir H, f.h. B, þáverandi eiganda húseignarinnar að Aragerði 16, Vogum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps frá 9. september 2002 að synja henni um leyfi til rekstrar myndbandaleigu í bílgeymslu að Aragerði 16, Vogum.
 
Kærandi krefst þess að ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar verði felld úr gildi. 

Samþykkt skipulags- og byggingarnefndar var staðfest í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps hinn 10. september 2002. 

Málavextir:  Hinn 30. júlí 2002 lagði H, f.h. B, fram umsókn til byggingarfulltrúa Vatnsleysustrandarhrepps þess efnis að lögð yrði af hefðbundin notkun bílgeymslu húseignarinnar að Aragerði 16, en þess í stað yrði þar starfrækt myndbandaleiga.  Umsóknin var tekin til afgreiðslu á fundi skipulags- og byggingarnefndar hreppsins sama dag, sem bókaði að þar sem ekki lægi fyrir staðfest deiliskipulag hverfisins skyldi fara fram grenndarkynning í samræmi við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga áður en umsóknin yrði afgreidd.  Umsóknin skyldi grenndarkynnt lóðarhöfum Aragerðis 7, 9, 11, 12, 13, 14, 15, 17, 18, 20, og 33.  Athugasemdir bárust frá íbúum og eigendum húseigna að Aragerði 11, Aragerði 14 og Aragerði 17.  Athugasemdirnar lutu að því að starfsemin myndi hafa í för með sér aukna umferð um götuna, skort á bílastæðum ásamt ónæði og slysahættu. 

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 9. september 2002 var umsókn kæranda tekin til afgreiðslu að nýju og féllu atkvæði í atkvæðagreiðslu þannig að einn nefndarmaður samþykkti umsóknina með því skilyrði að séð yrði fyrir nægilegum fjölda bílastæða í samræmi við gr. 64 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Tveir nefndarmenn höfnuðu umsókninni með vísan til þess að starfsemin samrýmdist ekki íbúðarbyggð, sbr. gr. 4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, m.a. vegna ónæðis af umferð sem fylgdi þjónustustarfsemi af þessu tagi og skorts á bílastæðum.  Fjórði nefndarmaðurinn hafnaði umsókninni með vísan til framkominna athugasemda eftir grenndarkynningu.

Framangreindri ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Vatnsleysustrandarhrepps skaut kærandi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi krefst ógildingar ákvörðunar skipulags- og byggingarnefndar með vísan til þess að á sama fundi nefndarinnar og umsókn hans hafi verið synjað hafi nágranna hans í sömu götu verið heimilað að starfrækja rafverkstæði í bílgeymslu.  Rökin þar að baki hafi verið þau sömu og notuð hafi verið til að synja honum um heimild til rekstrar myndbandaleigunnar.  Kærandi heldur því fram að við húsið sé stórt og gott bílastæði og á nokkrum stöðum í þorpinu sé atvinnurekstur í heimahúsum, t.d. hafi verið starfrækt myndbandaleiga í bílgeymslu.  Kærandi heldur því fram að í litlum þorpum, þar sem stutt sé í allar áttir, sé algengt að íbúar gangi eða hjóli eftir myndbandi en aftur á móti þeir sem reki erindi sín á rafverkstæði eigi þess síður kost. 

Málsrök skipulags- og byggingarnefndar:  Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar álítur að rekstur myndbandaleigu valdi ónæði og mikilli umferð í gróinni íbúðargötu.  Myndbandaleigan þjóni nær eingöngu íbúum við viðkomandi götu og samrýmist því ekki gr. 4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, þar sem segi m.a. að atvinnustarfsemi sem leyfð sé í íbúðarhúsum skuli valinn staður þannig að hún valdi hvorki hættu né óþægindum vegna umferðar eða annars ónæðis.  Einnig hafi meirihluta nefndarinnar þótt ljóst að ekki væri séð fyrir nægilega mörgum bílastæðum, sbr. 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Þá hafi einnig legið fyrir neikvæð afstaða þeirra er tjáðu sig í grenndarkynningunni og ekki hafi þótt unnt að líta framhjá þeim athugasemdum.

Hvað varði samþykki skipulags- og byggingarnefndar til starfrækslu rafverkstæðis í sömu götu og kærandi þá hafi það verið mat nefndarinnar að sú starfsemi samrýmdist íbúðarbyggð því hún valdi ekki þeim óþægindum sem myndabandaleiga geri þar sem eðli starfseminnar sé allt annað.  Starfsemin dragi ekki að sér utanaðkomandi umferð að neinu marki og valdi því ekki íbúum götunnar óþægindum. 

Hvað varði myndbandaleiguna, sem kærandi vísi til í kæru sinni, þá hafi aðstæður þar verið allar aðrar, húsið standi nokkuð út af fyrir sig, sé við fjölfarna umferðargötu og þjóni stærra svæði.  Þá hafi þar verið nægilega mörg bílastæði. 

Niðurstaða:  Við rannsókn úrskurðarnefndarinnar á lokastigi málsins kom í ljós að fasteign sú sem um ræðir hefur verið seld og lætur núverandi eigandi mál þetta ekki til sín taka.

Með vísan til þessa eru ekki lengur lögvarðir hagsmunir tengdir því að úrskurður gangi í málinu og verður af þeim sökum ekki frekar fjallað um framkomnar kröfur. 

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að vísa beri kærunni frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála
sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________            _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                               Ingibjörg Ingvadóttir

1/2002 Laufásvegur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 2. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2001, kæra eiganda fasteignarinnar að Laufásvegi 66 í Reykjavík, á afstöðu skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. desember 2000 til beiðni kæranda um að fá að reisa bílskúr á greindri fasteign.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. janúar 2001, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Helgi Jóhannesson hrl., f.h. Ö, Laufásvegi 66, Reykjavík, þá niðurstöðu skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur frá 6. desember 2000 að hafna beiðni kæranda um að fá að reisa bílskúr á lóð fasteignarinnar að Laufásvegi 66 í Reykjavík.  Gerir kærandi þá kröfu að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og nefndinni verði gert að veita umbeðið leyfi.

Málavextir:  Kærandi sótti um leyfi til þess að byggja tvöfaldan bílskúr við húsið að Laufásvegi 66 í ársbyrjun árið 2000.  Var umsóknin tekin fyrir á fundi byggingarnefndar þann 13. janúar s.á. og hafnað með svohljóðandi bókun:  „Synjað. Samræmist hvorki byggðamynstri á svæðinu né ákvæðum gr. 113.1 í byggingarreglugerð.“  Nýtt erindi barst frá kæranda hinn 10. maí 2000, þar sem leitað var eftir því hvort leyfi yrði veitt fyrir bílskúr á lóðinni með þeirri breytingu frá fyrri umsókn að bílskúrinn yrði færður innar í lóðina og aðkomu að honum breytt. Erindið var tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 23. maí 2000 en  afgreiðslu þess frestað og fyrirspurninni vísað til umsagnar Borgarskipulags.  Í umsögn þess, dags. 20. júní 2000, var lagst gegn því að tekið yrði jákvætt í fyrirspurnina, m.a. með vísan til neikvæðrar afstöðu Árbæjarsafns til erindisins sem þá lá fyrir.  Málið var tekið á dagskrá afgreiðslufundar byggingarfulltrúa sama dag og afgreitt með svofelldri bókun: „Neikvætt. Með vísan til umsagna Borgarskipulags og Árbæjarsafns.“

Með bréfi, dags. 19. september 2000, fór kærandi fram á  að erindi hans yrði tekið fyrir í byggingarnefnd og var því vísað til skipulags- og byggingarnefndar af hálfu byggingarfulltrúa.  Málið var nokkrum sinnum á dagskrá nefndarinnar sem m.a. kallaði eftir umsögn Borgarskipulags með tilliti til framkominna athugasemda kæranda og er sú umsögn dags. 16. október 2000.  Með bréfi, dags. 4. desember s.á., kom kærandi á framfæri  athugasemdum við þá umsögn Borgarskipulags.  Erindið var að lokum tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 6. desember 2000 ásamt bréfi með athugasemdum kæranda, dags. 4. desember s.á., og umsögn Borgarskipulags.   Afgreiddi nefndin fyrirspurnina með svohljóðandi bókun:  „Nefndin er neikvæð gagnvart erindinu, eins og það liggur fyrir, með vísan til umsagnar Borgarskipulags.“ 

Kæranda var tilkynnt niðurstaða málsins með bréfi, dags. 18. desember 2000, og skaut hann málinu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi kveður tilefni beiðni sinnar um byggingu bílskúrs við fasteignina að Laufásvegi 66 vera það, að bílskúr sá sem fyrir sé á lóðinni sé barn síns tíma, lítill og rúmi ekki nema minnstu bíla.  Skúrinn sé byggður við húsið og liggi að lóðamörkum og því sé ekki unnt að stækka hann.  Lóð fasteignarinnar sé mjög stór og auðvelt að koma fyrir bílskúr austan við húsið eins og sótt hafi verið um og hafi íbúar aðliggjandi fasteignar samþykkt framkvæmdina fyrir sitt leyti.

Hin umdeilda niðurstaða á erindi kæranda byggi á umsögn Árbæjarsafns vegna málsins þar sem ranglega sé haldið fram að umræddur bílskúr samræmist ekki þeirri skipulagshugsun sem sé einkennandi í hverfinu, þar sem bílgeymslur húsa liggi við norðurmörk lóða og að veggur sá sem þurfi að rjúfa vegna aðkeyrslu að fyrirhuguðum bílskúr sé mikilvægur hluti af merkri götumynd.  Jafnframt sé rangt í nefndri umsögn að framkvæmdirnar kalli á að fella þurfi mörg tré. 

Bendir kærandi á að við götuna standi ýmsar gerðir húsa, byggð á ýmsum tímum úr ýmsum byggingarefnum.  Steyptir veggir séu við sum hús en önnur ekki og því sé ekki hægt að halda fram að gatan hafi heildarásýnd.  Þess hafi sérstaklega verið gætt við hönnun fyrirhugaðs bílskúrs að hann stæði innarlega á lóð og muni því ekki skyggja á önnur hús við götuna.  Skúrinn verði í funkis stíl líkt og húsin sem standi beggja vegna og ytra byrði með sama hætti og húsið að Laufásvegi 66.  Jafnframt er á það bent að bílskúrinn muni hafa jákvæð áhrif með hliðsjón af bílastæðamálum svæðisins, sem séu í ólestri, þar sem skapast myndu tvö stæði fyrir bíla framan við skúrinn sem að öðrum kosti væri lagt við götu framan við húsið.   Ekki sé rétt sem komi fram í umsögn Borgarskipulags að stæðum við götuna fækki við gerð innkeyrslu að fyrirhuguðum bílskúr.  Bílastæði séu við norðanverða götuna en hús kæranda standi sunnan hennar.  Vakin sé athygli á því að aðeins þurfi að fjarlægja eitt eða tvö tré vegna skúrsins sem breyti litlu þar sem mikill trjágróður sé fyrir á lóðinni og umræddur veggur, sem rjúfa þurfi, sé ónýtur og þurfi að óbreyttu að brjóta hann niður. 

Neikvæð umsögn Borgarskipulags vegna málsins, dags, 16. október 2000, byggi að mestu á efni þemaheftis Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016.  Bent er á að kæranda hafi aldrei verið kunn tilvist þessa heftis en takmarkanir á eignarrétti sem heftið virðist hafa að geyma sé fáheyrð og verði ekki séð að þemaheftið hafi það gildi að skipulagsyfirvöld geti byggt ákvarðanir sínar á efni þess.

Kærandi telur að við meðferð málsins hafi ekki verið gætt jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Eins og framlagðar myndir af svæðinu beri með sér sé hefð fyrir því að íbúum í hverfinu hafi verið veitt heimild til að útbúa bílastæði og byggja bílskúra inni á lóðum sínum þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir slíku í upphafi.  Hin umsótta framkvæmd sé ekki meiri að umfangi en aðrar sambærilegar framkvæmdir sem leyfðar hafi verið í hverfinu.  Þá telur kærandi að borgaryfirvöldum hafi verið rétt að gefa kæranda kost á að breyta teikningum eða eftir atvikum að gera ráð fyrir niðurrifi eldri skúrs ef með því fengist ásættanleg lausn í málinu í stað þess að leggjast gegn erindi kæranda.  Hafi af þeim sökum ekki verið gætt meðalhófs af hálfu Reykjavíkurborgar við meðferð málsins.

 Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar verði staðfest.

Hin kærða ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar hafi ekki fjallað um byggingarleyfisumsókn heldur svokallaða fyrirspurn.  Hjá Reykjavíkurborg hafi borgurunum verið gefinn kostur á að senda inn fyrirspurnir varðandi byggingarframkvæmdir, án þess að fyrir liggi endanleg hönnun mannvirkja í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.  Sé þetta úrræði til þess að borgararnir geti fengið afstöðu borgaryfirvalda til fyrirhugaðra framkvæmda áður en lagt er út í endanlega hönnun þeirra sem oft geti verið kostnaðarsöm.  Sé þá tekin afstaða til hugmyndar þeirrar sem kynnt sé borgaryfirvöldum og annað hvort mælt með eða gegn hugmyndinni.  Fyrirspurn af þessu tagi sé í raun aðeins álitsumleitan.  Hin kærða afgreiðsla varðaði slíka fyrirspurn en ekki byggingarleyfisumsókn.  Afgreiðsla slíkra fyrirspurna feli hins vegar ekki í sér ákvörðun sem bindi enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Slík afgreiðsla liggi ekki fyrir fyrr en tekin hafi verið afstaða til formlegrar byggingarleyfisumsóknar.  Af þessum sökum telji Reykjavíkurborg hina kærðu ákvörðun ekki kæranlega til úrskurðarnefndarinnar, þar sem skýra verði ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnvaldsreglna settra á grundvelli þeirra í samræmi við fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.  Þá geti úrskurðarnefndin ekki orðið við kröfu kæranda um að Reykjavíkurborg verði gert að fallast á beiðni kæranda um að reisa bílskúrinn í samræmi við innsendar teikningar, þar sem ekki liggi fyrir byggingarleyfisumsókn um byggingu hans heldur eingöngu fyrirspurn.  Beri af þessum sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Varðandi efnishlið málsins vísar Reykjavíkurborg til umsagnar Borgarskipulags frá 16. október 2000, með breytingum frá 4. desember s.á., þar sem bent sé á að framkvæmdin samræmist ekki skipulagshugsun í hverfinu, tillagan sé ekki ásættanleg með tilliti til húsverndar, umferðaröryggissjónarmiða, skipulags- og byggðamynsturs og fordæmisgildis.  Fyrirhugað sé í þemahefti Aðalskipulags Reykjavíkur 1996-2016 að setja á svæðisbundna verndun umrædds hverfis og ef fyrirhugaðar framkvæmdir yrðu samþykktar yrðu á lóðinni þrjár bílgeymslur og bílastæði, samtals um 170 fermetrar, en slíks sé ekki dæmi á svæðinu.

Auk þess er á það bent að þær tillögur að verndun sem fram komi í þemaheftinu séu ekki megin ástæða þess að tekið hafi verið neikvætt í fyrirspurn kæranda.  Hins vegar sé ekki óeðlilegt að við afgreiðslu málsins hafi verið fjallað um og tekið að einhverju leyti tillit til þeirrar stefnumörkunar sem þar komi fram enda sjónarmið um húsvernd málefnaleg sjónarmið.  Neikvæð afstaða borgarinnar til fyrirspurnarinnar brjóti ekki gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga enda aðstæður í götunni eða á götureitnum hvergi með þeim hætti sem óskað sé eftir í fyrirspurninni, eins og fram komi í umsögn Borgarskipulags.  Hvað meðalhófsregluna varði, telji Reykjavíkurborg að hún eigi ekki við um hina kærðu afgreiðslu, þar sem engin íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin í málinu í ljósi þess að um fyrirspurn hafi verið að ræða sem byggði á þeirri teikningu sem lögð var fyrir byggingarfulltrúa.  Þess hafi beinlínis verið krafist að tekin yrði bein afstaða til fyrirspurnarinnar eins og hún lá fyrir.  Ekki hafi verið óskað eftir samráði við embættið um breytingar á fyrirhuguðum framkvæmdum eða óskað leiðbeininga um slíkar breytingar.  Neikvæð afgreiðsla á fyrirspurninni þýði ekki að búið sé að útiloka frekari framkvæmdir á lóð kæranda eða að ekki verði fallist á aðra tillögu, berist slík tillaga, enda komi aðeins fram í bókun nefndarinnar að hún sé neikvæð gagnvart erindinu eins og það hafi legið fyrir.  Í kjölfar afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar hefði kærandi getað sent inn nýja fyrirspurn sem afstaða hefði verið tekin til.  Þá hefði kærandi einnig getað leitað eftir samráði við borgaryfirvöld um málið og eigi þess enn kost.  Í ljósi framangreinds sé vandséð að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga enda standi kæranda allir vegir færir í því að leggja inn nýja og breytta fyrirspurn eða byggingarleyfisumsókn.

Niðurstaða:  Erindi kæranda, sem móttekið var af byggingarfulltrúa hinn 10. maí 2000, er ritað á hefðbundið eyðublað fyrir byggingarleyfisumsókn, en ritað hefur verið á eyðublaðið orðið fyrirspurn og strikað yfir orðið byggingarleyfi.  Var erindið meðhöndlað sem fyrirspurn en ekki byggingarleyfisumsókn af hálfu embættis byggingarfulltrúa og skipulags- og byggingarnefndar en slíkar fyrirspurnir eru tíðkaðar fyrir hallkvæmnissakir.  Afgreiðsla erindisins hjá skipulags- og byggingarnefnd hinn 6. desember 2000, sem hér er til umfjöllunar, ber með sér að nefndin var mótfallin erindinu eins og það lá fyrir.

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar á erindi kæranda ekki talin hafa falið í sér annað en afstöðu nefndarinnar til fyrirspurnar um hvort leyfi fengist fyrir tilteknum framkvæmdum ef byggingarleyfisumsókn þar um yrði lögð fram.  Svar við slíku erindi verður ekki lagt að jöfnu við afgreiðslu formlegrar byggingarleyfisumsóknar, sem tilskildir uppdrættir og hönnunargögn fylgi.  Þar af leiðandi er hin umdeilda afgreiðsla skipulags- og byggingarnefndar ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________              _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Ingibjörg Ingvadóttir

35/2001 Elliðahvammur

Með

Ár 2003, fimmtudaginn 11. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Óðinn Elísson hdl., varamaður.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2001, kæra ábúanda Elliðahvamms í landi jarðarinnar Vatnsenda, Kópavogi, á bókun bæjarstjórnar Kópavogs frá 8. maí 2001 þar sem samþykkt var deiliskipulag fyrir Elliðahvamm, en jafnframt bókað að leyfi til framkvæmda samkvæmt deiliskipulaginu væri háð samþykki landeiganda jarðarinnar Vatnsenda.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. júlí 2001, er barst nefndinni sama dag, kærir Þ, leigutaki og ábúandi að Elliðahvammi, Kópavogi þá bókun bæjarstjórnar Kópavogs frá 8. maí 2001 þar sem samþykkt var deiliskipulag fyrir Elliðahvamm, að framkvæmdir samkvæmt deiliskipulaginu væru háðar samþykki landeiganda svæðisins.  Er gerð sú krafa að greindur hluti bókunarinnar verði felldur úr gildi.

Málavextir:  Land Elliðahvamms hefur verið skipt úr landi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi.  Upphaflegur samningur um leigu Elliðahvammslands var milli þáverandi landeiganda Vatnsenda og Félags íslenskra símamanna og er frá árinu 1931.  Var þar m.a. kveðið á um að leigutaki mætti nota svæðið til dvalar félagsmanna sinna en óheimilt væri að reka þar atvinnustarfsemi.  Uppsagnarákvæði samningsins var á þann veg að samningurinn væri óuppsegjanlegur.  Viðaukar voru gerðar við samninginn á árinu 1974 og 1988 milli landeiganda og kæranda, sem þá hafði tekið við réttindum leigutaka samkvæmt samningnum frá 1931.  Með samkomulagi landeiganda og leigutaka frá árinu 1974 var heimilað að nýta landið undir alifuglabú og garðrækt og mátti leigutaki hafa þar heimilisfesti og reisa þar mannvirki sem nauðsynleg væri til greindra nota.  Seinna samkomulag aðila frá árinu 1988 varðaði stækkun leigulandsins og var þar jafnframt tekið fram að uppsagnarákvæði væri á sömu lund og í samningnum frá árinu 1931.  Elliðahvammur mun hafa fengið stöðu lögbýlis með staðfestingu landbúnaðarráðuneytisins á árinu 1975.

Að tilhlutan kæranda var gerð tillaga að deiliskipulagi fyrir Elliðahvammsland.  Í tillögunni fólst að heimilað var að reisa fimm smáhýsi fyrir bændagistingu, gróðurskála, bílskúr, byggingu fyrir landbúnaðarstarfsemi auk göngu- og reiðstíga.  Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 3. október 2000 og samþykkti nefndin tillöguna fyrir sitt leyti og að hún yrði auglýst til kynningar.  Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar hinn 10. október 2000 og var tillagan auglýst til kynningar í Lögbirtingarblaði hinn 18. október með athugasemdafresti til 29. nóvember 2000.  Athugasemd barst frá lögmanni landeiganda jarðarinnar Vatnsenda með bréfi, dags. 23. nóvember 2000, og á það bent að framkvæmdir skv. tillögunni samrýmdust ekki samningi aðila um leigu Elliðahvammslands.  Að lokinni kynningu var málið tekið fyrir í skipulagsnefnd hinn 5. desember 2000 þar sem ákveðið var að óska umsagnar bæjarlögmanns vegna framkominna athugasemda.  Skipulagstillagan var síðan samþykkt af hálfu skipulagsnefndar á fundi hinn 3. apríl 2001, en lagt var til með hliðsjón af fram komnum athugasemdum og umsögn bæjarlögmanns frá 14. febrúar s.á. að ekki yrðu gefin út byggingarleyfi í landi Elliðahvamms nema að fyrir lægi skriflegt samþykki landeiganda.  Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi sínum hinn 8. maí 2001 en í bókun hennar var vakin athygli á að samþykki landeiganda þyrfti fyrir framkvæmdum er skipulagið heimilaði.

Kærandi var ósáttur við þá bókun bæjarstjórnar að framkvæmdir samkvæmt skipulaginu væru háðar samþykki landeiganda og skaut málinu af því tilefni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að samkvæmt upphaflegum leigusamningi um Elliðahvamm og viðbótarsamningi sé leigutaka heimilaðar byggingarframkvæmdir á landinu í tengslum við alifuglarækt, garðrækt og ábúð leigutaka.  Kærandi hafi rekið ferðaþjónustu í Elliðahvammi frá árinu 1995 án athugasemda landeiganda en slík þjónusta hafi verið stunduð þar allt frá árinu 1931.  Með hliðsjón af þessum málsatvikum telji kæranda sér heimilt, án samþykkis landeiganda, að halda áfram uppbyggingu atvinnustarfsemi sinnar í Elliðahvammi í samræmi við hið samþykkta deiliskipulag og gerir þá kröfu að athugasemd Kópavogsbæjar, um að framkvæmdir samkvæmt hinu samþykkta deiliskipulagi sé háð samþykki landeiganda, verði felld úr gildi.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Bæjaryfirvöld skírskota til þess að við kynningu deiliskipulagstillögunnar fyrir Elliðahvamm hafi komið fram athugasemd frá landeiganda skipulagssvæðisins sem talið hafi fyrirhugaðar framkvæmdir samkvæmt skipulagstillögunni ekki eiga stoð í leigusamningi um Elliðahvammsland eða í viðaukum við þann samning.  Með hliðsjón af áliti bæjarlögmanns Kópavogsbæjar frá 14. febrúar 2001, sem kallað hafi verið eftir vegna málsins, hafi þótt rétt að taka umdeilda athugasemd fram í bókun bæjarins þegar deiliskipulagið hafi verið samþykkt.  Niðurstaðan í téðri umsögn bæjarlögmanns var á þann veg að rétt væri að samráð yrði haft við landeiganda um fyrirhugaða mannvirkjagerð á landinu, enda óeðlilegt að landeigandi þyrfti síðar að vera skyldur til að leysa til sín mannvirki sem reist hafi verið án samþykkis hans.  Hin umdeilda bókun snúist um réttarstöðu leigutaka og landeiganda en ekki um skipulagslegar forsendur.

Bæjaryfirvöld átelja meðferð kærumálsins hjá úrskurðarnefndinni.  Bent er á að úrskurðarnefndinni beri skv. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að kveða upp úrskurð í málum sem henni berast svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur, eða í sérstökum tilfellum að þremur mánuðum liðnum.  Sé málsmeðferðin brot á ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og og almennum stjórnsýslureglum.

Niðurstaða:  Tilefni kærumáls þessa er hluti bókunar bæjarstjórnar Kópavogs við samþykkt deiliskipulags fyrir Elliðahvamm hinn 8. maí 2001 er hljóðar svo:  „Bæjarstjórn veki athygli á því að samþykki landeiganda þarf fyrir framangreindum framkvæmdum í landi Elliðahvamms.“  Kærandi hefur ekki gert ágreining um sjálfa skipulagstillöguna svo sem hún var auglýst og samþykkt. 

Tilgangur skipulagsáætlana er að marka stefnu um landnotkun og þróun byggðar auk þess sem þar eru sett fram markmið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, atvinnusvæði, náttúruvernd, samgöngur o.fl., sbr. 2. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Þá er í 4. mgr. 23. gr. laganna kveðið á um gerð og innihald deiliskipulags.  Það skal sett fram í greinargerð og á uppdrætti.  Í greinargerð skal forsendum skipulagsins lýst og einstök atriði þess skýrð svo og skipulags- og byggingarskilmálar, sem kveði nánar á um skipulagskvaðir og önnur atriði sem skylt er að hlíta samkvæmt skipulaginu. 

Þótt skipulagsáætlanir skipi með ýmsum hætti réttindum og skyldum manna verður réttarstaða manna, sem ræðst af einkaréttarlegu samningsambandi, svo sem milli landeiganda og leigutaka lands, ekki ákvörðuð á þeim vettvangi.  Umdeilda ályktun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar var ekki að finna í greinargerð deiliskipulagstillögunnar fyrir Elliðahvamm, sem auglýst var og kynnt, og af orðalagi hennar og framsetningu verður ekki annað ráðið en þar sé um að ræða skoðun bæjaryfirvalda á réttarstöðu þar greindra aðila sem ekki getur verið hluti deiliskipulagsákvörðunarinnar fyrir Elliðahvamm.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur úrskurðarnefndin hinn kærða hluta bókunar bæjarstjórnar Kópavogs ekki þátt í skipulagsákvörðun sem borin verði undir úrskurðarnefndina og verður kærumálinu af þeim sökum vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ásgeir Magnússon

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Óðinn Elísson